Hæstiréttur íslands
Mál nr. 429/1999
Lykilorð
- Verksamningur
|
|
Fimmtudaginn 24. febrúar 2000. |
|
Nr. 429/1999. |
Sigurður Hermundarson(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.) gegn Máli og mynd sf. Ívari Gissurarsyni og Steingrími Steinþórssyni (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Verksamningur.
S starfaði sem verktaki fyrir sameignarfélagið M að útgáfu ýmissa stéttar-, ættar og niðjatala. Hann taldi M hafa ekki hafa staðið sér að fullu skil á umsömdum mánaðargreiðslum fyrir tímabilið júlí 1997 til ágúst 1998 auk þess, sem hann hefði ekki fengið greidd ritlaun eða höfundarlaun af nánar tilteknum ritum. Ekkert þótti fram komið um að S hefði áskilið sér frekari greiðslur jafnharðan og M hafði greitt honum verklaunin. Var og talið ósannað, að samið hefði verið um ritlaun eða höfundarlaun til viðbótar öðrum greiðslum. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna M og eigendur þess, Í og ST, af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. ágúst 1999. Ekki varð af þingfestingu málsins 22. september 1999 og var það fellt niður. Áfrýjandi skaut málinu öðru sinni til réttarins 22. október 1999 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 1.566.640 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. september 1998 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningslaust er með aðilum, að áfrýjandi hafi starfað sem verktaki hjá stefndu að útgáfu ýmissa stéttar-, ættar- og niðjatala. Einnig er nú óumdeilt, að hann hafi fengið greiddar samtals 2.286.000 krónur í verklaun frá stefndu á tímabilinu, sem deilur standa um. Ekkert er fram komið um að hann hafi áskilið sér frekari greiðslur jafnharðan. Er og ósannað að samið hafi verið um ritlaun eða höfundarlaun til viðbótar öðrum greiðslum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 15. apríl 1999, er höfðað fyrir dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur með stefnu birtri þann 28. desember 1998.
Stefnandi er Sigurður Hermundarson, kt. 260544-2419, Álftamýri 58, Reykjavík.
Stefndu eru Mál og Mynd sf., kt. 630395-2839, Bræðraborgarstíg 9, Reykjavík, Ívar Gissurarson, kt. 230453-3229, Eskihlíð 18, Reykjavík og Steingrímur Steinþórsson, kt. 150151-3339, Framnesvegi 23, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 1.751.640 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 3. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 7. september 1998. Þá er krafist málskostnaðar skv. málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins og 24,5% virðisaukaskatts á málskostnað, þar sem stefnandi selur ekki virðisaukaskattskylda þjónustu.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Málsatvik
Stefnandi byrjaði samstarf með stefndu á árinu 1995 við útgáfu ættartala. Vorið 1996 var ákveðið að stefnda, Mál og Mynd sf. tæki að sér að gefa út sjúkraliðatal í samráði við Sjúkraliðafélag Íslands og var stefnanda falin ritstjórn þess verks. Sjúkraliðatalið kom út í byrjun júlí 1997.
Ágreiningur er með aðilum um hvernig greiðslum skyldi háttað fyrir vinnu stefnanda við sjúkraliðatalið, auk þess sem ágreiningur er með aðilum um vinnuframlag stefnanda í þágu stefndu á tímabilinu frá júlí 1997 til ágúst 1998 og greiðslur fyrir það. Stefndu hafa greitt stefnanda 2.101.000 krónur fyrir vinnu hans tímabilið júlí 1997 til ágúst 1998.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst hafa byrjað að aðstoða stefndu við útgáfu ættartala á árinu 1995. Fyrst hafi hann komið að útgáfu Þorsteinsættar og síðar Húsafellsættar. Í báðum tilvikum hafi hann komið að þessum verkum af áhuga á ættfræði. Hann hafi ekki gert kröfur um greiðslu launa í þessum tilvikum, en fengið greiddar 40.000 krónur fyrir störf sín við Húsafellsætt.
Vegna þessara kynna stefnanda og stefndu hafi fljótt komið til tals, að stefnandi kæmi til starfa fyrir stefndu og hafi honum verið boðin hálf höfundarlaun ef stefnandi útvegaði stefndu til útgáfu t.d. stéttartal. Þar sem stefnanda hafi þótt þetta spennandi og góður kostur, hafi hann leitað eftir við formann Sjúkraliðafélags Íslands um útgáfu á félagatali félagsins. Fyrir milligöngu stefnanda hafi tekist samningar milli stefndu og Sjúkraliðafélagsins um útgáfu sjúkraliðatals. Stefnanda hafi verið falin ritstjórn þess og hafi hann samið við stefndu að fá greidd 10% af forlagsverði að frádregnum virðisaukaskatti, en full höfundarlaun eru allt að 23% af sama gjaldstofni. Vinna við sjúkraliðatalið hafi hafist á fyrri hluta ársins l996 og hafi stefnandi annast leiðréttingar á innsendum gögnum, auk þess sem hann hafi komið á sambandi við þá félagsmenn sem búsettir voru erlendis og aflað gagna um þá sem ekki hafi sent inn upplýsingar. Stefnandi kveðst hafa unnið þessi störf í frítíma sínum frá sínu fasta starfi á skrifstofu Ríkisspítalanna þar til hann hafi tekið sér launalaust leyfi frá 1. mars 1997, til þess að flýta sem mest útgáfu ritverksins. Þetta hafi stefnandi gert því stefndu hafi verið mjög í mun að útgáfan tefðist ekki vegna þeirra fjármuna sem í útgáfunni lágu, bæði útlagðra og væntanlegs ágóða af útgáfunni. Vinnu við sjúkraliðatalið hafi lokið við útkomu bókarinnar í tveimur bindum um mánaðamótin júní/júlí 1997.
Stefnandi hafi þá farið að vinna við lítið ættartal, sem verið hafi í vinnslu hjá stefndu á þessum tíma, og ýmis önnur smærri verk út september 1997. Þann 1. október 1997 hafi hann byrjað vinnu við útgáfu Krossaættar úr Eyjafirði og jafnframt hafi hann unnið að útgáfu Zoëgaættar. Störfum við Krossaætt hafi lokið í ágúst sl. og frá þeim tíma til starfsloka þann 4. september sl. hafi hann unnið við Zoëgaætt.
Stefnandi kveðst hafa gefið sig allan í verk þau sem hann hafi unnið fyrir stefnda. Hann eigi mjög gott safn ættfræðirita og annarra handbóka, sem hann hafi notað og unnið úr fyrir stefnda. Það megi segja að stefnandi hafi unnið svo til allan sólarhringinn alla daga. Slík samning verði aldrei unnin skv. tímagjaldi því þá yrði útgáfa þessi allt of dýr. Þess vegna sé greiðsla fyrir þessa vinnu annaðhvort metin á grundvelli ágóðahlutar eða greitt sé fast mánaðarkaup, sem taki mið af hinu mikla vinnuframlagi. En öllum viðkomandi sé ljóst, að þessi verk séu mjög tímafrek.
Stefnandi kveðst hafa lagt niður störf hjá stefndu í júnímánuði sl. vegna ítrekaðra vanefnda á greiðslu og uppgjöri ritstjórnar- og höfundarlauna.
Stefndu hafi þá leitað til stefnanda og beðið hann að koma til starfa að nýju. Þeir hafi lofað að standa skil á umsömdum mánaðargreiðslum 200.000 krónur pr. mánuð sem verktakalaun og af þeirri fjárhæð skyldu dragast greiðslur í lífeyrissjóð, staðgreiðsla skatta og tryggingargjald og hafi stefndu tekið að sér að standa skil á þessum greiðslum. Jafnframt hafi því verið lofað, að gamlar skuldir vegna sjúkraliðatalsins og vangreiddar mánaðargreiðslur skyldu greiðast við útkomu Krossaættar.
Krossaætt kom út um mánaðamótin ágúst/sept. 1998. Stefnandi kveður að þegar honum hafi orðið ljóst, að stefndu hafi ekki ætlað að standa við loforð sín og yfirlýsingar frá því í júní, hafi hann hætt störfum fyrir stefndu þann 4. september sl. er upp úr hafi soðið í samskiptum hans við stefndu vegna endalausra vanefnda á umsömdum greiðslum og greiðslutilhögun.
Stefnandi kveður að samkvæmt samkomulaginu sem gert hafi verið um mánaðamótin júní/júlí sl. hafi stefnandi gert stefnda reikninga fyrir ritstjórnar- og höfundarlaunum sínum og sundurliðist reikningarnir þannig:
Umsamin ritstjórnarlaun fyrir sjúkraliðatal:
Áætluð heildarsala m/14% vsk...........kr.12.000,000,-
Afdreginn VSK (12,28%)...................kr. 1.473.600,-
10% af ................................................kr. 10.526.400,- = .....kr. 1.052.640,-
Höfundarlaun júlí 1997 til ágúst 1998
kr. 200.000,- pr. mánuð í 14 mánuði .....................................kr. 2.800.000,-
Samtals....................................................................................kr. 3.852.640,-
Greiðslur til stefnanda hafa verið þessar:
Árið 1997
05.07.97......................................................kr.120.000,-
25.07.97. ....................................................kr.100.000,-
01.08.97. ....................................................kr.100.000,-
01.10.97. ....................................................kr.100.000,-
01.11.97. ....................................................kr.100.000,-
01.12.97. ....................................................kr.100.000,-
Ódagsett í desember 1997...........................kr.50.000,-
Keypt tölva af stefndu................................kr.100.000,- (kr. 770.000,-)
Árið 1998:
Janúar.........................................................kr.50.000,-
" .................................................................kr.40.000,-
Febrúar.......................................................kr.130,000,-
" .................................................................kr.50.000,-
Mars...........................................................kr.100. 000,-
Apríl...........................................................kr.100.000,-
Maí.............................................................kr.105.000,-
Júní.............................................................kr.61.000,-
“ ................................................................kr.35.000,-
“ .................................................................kr.25.000,-
Júlí (Kreditkort hf.).................................kr.111.000,-
Ódagsett (Gr. lögmanni v/stefnanda).....kr.50.000,-
Ódagsett (Gr.Landsb.Íslands v/stefnanda)kr.44.000,-
Ágúst .......................................................kr.l 00.000,-
" ...............................................................kr.200.000,-
Ódagsett (Gr. í þágu stefnanda)..............kr.30.000,-
Ágúst.......................................................kr.l00.000,- (kr. 1.331.000,-)
Stefnandi kveður skuld stefndu við stefnanda vera 1.751.640 krónur, sem er
stefnufjárhæðin.
Stefnandi reisir kröfu sína á almennum lögum íslensks réttar um loforð og samninga.
Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti kveðst stefnandi styðjast við reglur 3. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu kveða upphaf kynna stefnanda og stefndu megi rekja til haustsins 1995 þegar Mál og Mynd sf. hafi unnið að útgáfu Þorsteinsættar í Staðarsveit. Stefnandi hafi sýnt útgáfumálum stefndu mikinn áhuga og hafi hann verið tíður gestur á starfsstöð Máls og Myndar sf. Þessi kynni hafi síðar leitt til þess að samstarf hafi hafist með stefnanda við stefndu.
Vorið 1996 hafi verið ákveðið að stefnda, Mál og mynd sf., tæki að sér að gefa út sjúkraliðatal í samráði við Sjúkraliðafélag Íslands. Ráð hafi verið fyrir því gert að stefnandi ritstýrði því verki.
Stefnanda hafi verið það fullljóst þegar samstarf hans við stefndu hafi hafist að fyrirtækið hefði ekki burði til að greiða há laun. Í upphafi samstarfs hafi verið ákveðið að stefnandi tæki að sér vinnu fyrir stefndu með verktöku. Á milli aðila hafi orðið að samkomulagi að stefnandi fengi greitt frá stefndu, Máli og mynd sf., sem svaraði 150.000 krónum fyrir mánaðarlegt vinnuframlag miðað við 172 klukkustunda vinnuframlag í hverjum mánuði. Vinna stefnanda fyrir stefndu, Mál og mynd sf., hafi ekki verið virðisaukaskattskyld.
Gögn varðandi sjúkraliðatal hafi verið send til sjúkraliða vorið 1996. Gögn hafi borist til baka frá sjúkraliðum og hafi mótttaka og skráning þeirra gagna farið fram haustið og veturinn 1996 til 1997. Það starf hafi verið að mestu unnið af skrifstofustúlkum Máls og myndar sf. en á engan hátt af stefnanda.
Vorið 1997 hafi stefnandi byrjað á vinnu við að lesa yfir handrit sjúkraliðatalsins og hafi hann unnið við að bæta við handrit og lagfæra það eftir því sem við hafi átt. Þetta starf hafi stefnandi innt af hendi á tímabilinu mars til júní 1997. Samhliða vinnu stefnanda við sjúkraliðatalið, fyrir sumarið 1997, hafi stefnandi aðstoðað stefndu, Mál og mynd sf., í nokkra daga við útgáfu á litlu niðjatali um niðja Margrétar Eyjólfsdóttur og Þorleifs Jónssonar í Vatnsholti í Flóa.
Verktöku stefnanda vegna sjúkraliðatalsins og nefnds niðjatals hafi lokið í lok júní 1997. Sjúkraliðatalið og niðjatalið komu út hjá bókaforlagi stefndu, Máli og mynd sf., í byrjun júlí 1997.
Stefndu kveða stefnanda hafa unnið að sjúkraliðatalinu og niðjatalinu á um fjögurra mánaða tímabili frá byrjun mars til loka júní 1997. Á þessu tímabiIi hafi stefnandi verið starfsmaður Ríkisspítala en auk þess hafi hann sinnt öðrum verkum og unnið m. a. í starfsstöð stefndu að handriti sínu um Snorrastaðaætt. Samkvæmt mati stefndu geti vinnuframlag stefnanda við útgáfu sjúkraliðatals og niðjatalsins á umræddu tímabili aldrei hafa farið fram úr 688 klukkustundum í vinnuframlagi. Stefnandi hafði samþykkt að greiðslur yrðu inntar af hendi þegar tekjur færu að koma inn vegna útgáfu sjúkraliðatalsins. Þann 1. desember 1997 hafði stefnda, Mál og mynd sf., greitt að fullu fyrir greint vinnuframlag stefnanda. 1. desember 1997 höfðu stefndu greitt til stefnanda alls 620.000 krónur, en þar af voru greiðslur vegna sjúkraliðatalsins og niðjatalsins 600.005 krónur.
Stefndu kveða stefnanda ekki hafa gert sérstakan reikning vegna verktöku sinnar en tekið við greiðslum frá stefndu án athugasemda í samræmi við ofangreint samkomulag.
Stefndu kveða stefnanda ekki hafa starfað á vegum stefndu, Máls og myndar sf., frá byrjun júlí 1997 til 1. október 1997. Þann l. október 1997 hafi stefnandi byrjað að vinna á vegum stefndu, Máls og myndar sf., við yfirlestur og leiðréttingar á Krossaætt úr Eyjafirði. Samkomulag um endurgjald fyrir vinnu stefnanda við Krossaætt hafi verið með sama hætti og við útgáfu sjúkraliðatalsins og niðjatalsins. Stefnandi skyldi fá greidda þóknun sem tæki mið af 150.000 kr. mánaðarlaunum eða kr. 872,10 fyrir hverja unna klukkustund. Stefnda, Mál og mynd sf., hafi einnig lagt stefnanda til starfsaðstöðu.
Stefnandi hafi unnið við útgáfu Krossaættar á tímabilinu 1. október 1997 fram í miðjan júní 1998. Samkvæmt mati stefndu hafi vinnuframlag stefnanda til útgáfu Krossaættar ekki verið meira en 1.462 klukkustundir. Samhliða vinnu stefnanda fyrir stefndu við útgáfu Krossaættar hafi stefnandi stefnandi einnig unnið að sínum eigin hugðarefnum m. a. að handriti Snorrastaðaættar, Hrafntóftaætt, Glaumbæjarætt, Holtakotsætt og eitthvað byrjað að kynna sér Zoëgaætt. Vegna verkframlags stefnanda við útgáfu Krossaættar hafi stefndu, Máli og mynd sf. borið að greiða til stefnanda kr. 1.275.010,- sem stefndu hafa að fullu greitt.
Stefndu kveða stefnanda ekki hafa unnið að verkefnum fyrir stefndu, Mál og mynd sf., eftir miðjan júní 1998. Stefnandi hafi ekki komið í starfsstöð stefndu frá miðjum júní 1998 til 10. júlí 1998 en eftir 10. júlí 1998 til 4. september s.á. hafi stefnandi komið óreglulega í starfsstöð Máls og myndar sf. og unnið að sínum eigin hugðarefnum við Snorrastaðaætt og eitthvað að Zoëgaætt. Stefnandi hafi ekki skilað stefndu, Máli og mynd sf., neinu vinnuframlagi við Zoëgaætt og beri því ekki að greiða til stefnanda vegna þess.
Í júlí 1998, eftir að verktöku stefnanda fyrir stefndu hafi lokið við útgáfu Krossaættar, hafi aðilar rætt um áframhaldandi samstarf og frekari verktöku stefnanda fyrir stefndu. Uppi hafi verið þær hugmyndir að frá gildistöku nýs samkomulags myndi stefnandi fá mánaðarlegar greiðslur fram til útgáfu Snorrastaðaættar og Zoëgaættar að fjárhæð 200.000 krónur, sem væru annars vegar fyrirframgreiðslur á höfundarlaunum fyrir Snorrastaðaætt, sem stefnandi hafði unnið handrit að og stefndu ætluðu til útgáfu, og hins vegar vegna verktöku. Ætlun aðila hafi verið að gera náið skriflegt samkomulag til frekari skilgreiningar á greiðslum og réttarstöðu aðila.
Á fundi með aðilum þann 4. september 1998 hafi aðilar virst einhuga um að ganga frá formlegu samkomulagi og hafi það verið ætlan stefndu að leggja fram skrifleg samningsdrög þann 7. september s.m. Áður en til þess hafi komið hafi stefnandi farið inn í starfsaðstöðu stefndu og fjarlægt þaðan ýmis gögn sem vörðuðu Snorrastaðaætt, þ. á m. innsend gögn frá niðjum ásamt ljósmyndum og áskriftarblöðum. Á sama tíma hafi horfið úr starfsaðstöðunni bækur í eigu stefndu. Stefnandi hafi kosið, með ólögmætum hætti, að rifta munnlegum samningum sem aðilar höfðu gert um útgáfu Snorrastaðaættar og Zoëgaættar. Stefndu höfðu þegar lagt í nokkurn kostnað vegna útgáfu Snorrastaðaættar. Með þessari háttsemi stefnanda hafi forsendur fyrir samstarfinu brostið.
Stefnandi hafi aldrei lagt fram reikninga fyrir verktöku sína heldur tekið við greiðslum frá stefndu, Máli og mynd sf., athugasemdalaust. Reikningar og kvittanir á dómskjölum nr. 3 - 42 hafi ekki komið fyrir sjónir stefndu fyrr en þessi skjöl hafi verið lögð fram í héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. janúar sl.
Á dskj. nr. 3 leggi stefnandi fram reikning að fjárhæð 1.052.640 krónur en í stefnu á dskj. nr. 1 er á því byggt að svo hafi um samist milli aðila að stefnandi skyldi fá greitt fyrir vinnu við sjúkraliðatal 10% af forlagsverði að frádregnum virðisaukaskatti. Stefndu mótmæla því sem röngu að svo hafi samist milli aðila. Stefndu kveða stefnanda ekki höfund að sjúkraliðatalinu heldur hafi hann verið fenginn sem verktaki til að ritstýra verkinu.
Á dskj, nr. 4 -17 leggi stefnandi fram reikninga fyrir höfundarréttargreiðslum mánuðina júlí 1997 til og með ágúst 1998. Stefnandi hafi ekki unnið á vegum stefndu frá byrjun júlí 1997 til 1. október 1997. Á þessum tíma sé stefndu m. a. kunnugt um að stefnandi hafi dvalist erlendis nokkurn tíma. Stefnandi hafi heldur ekki unnið á vegum stefndu frá miðjum júní 1998 til 10. júlí en eftir 10. júlí 1998 til 4. september hafi stefnandi komið nokkrum sinnum í starfsstöð stefndu, Máls og myndar sf., og unnið að hugðarefnum sínum varðandi Snorrastaðaætt o. fl. ættir. Lögð hafi verið fram yfirlýsing frá Oddi Helgasyni, sem staðfesti að stefnandi hafi verið að sýsla við allt önnur störf en fyrir stefndu eftir miðjan júní 1998.
Stefndi mótmælir reikningum á dskj. nr. 4 - 17 sem röngum. Stefnandi krefji um sérstaka höfundarréttarþóknun fyrir sjúkraliðatal en auk þess mánaðarlega höfundarréttarþóknun að fjárhæð 200.000 krónur pr. mánuð frá júlí 1997 til ágústloka 1998. Aðilar hafi aldrei samið um annað en að stefnandi fengi greiðslur sem verktaki sem tækju mið af 150.000 króna mánaðarlaunum í samræmi við það sem að framan greini.
Stefndu mótmæla sem röngum þeim fullyrðingum stefnanda í stefnu á dskj. nr. 1 að hann hafi "unnið svo til allan sólarhringinn alla daga". Einnig er mótmælt sem röngum þeim fullyrðingum í stefnu á dskj. nr. 1 að stefndu hafi leitað til stefnanda til að fá hann aftur til vinnu með þeim loforðum að stefndu myndu standa skil á umsömdum mánaðargreiðslum og standa skil á greiðslum í lífeyrissjóð og opinberum gjöldum vegna stefnanda.
Stefndu kveða að stefnanda hafi ekki borið að fá hærri greiðslur en 1.875.015 krónur vegna alls vinnuframlags hans í þágu stefndu við sjúkraliðatal, niðjatal um niðja Margrétar Eyjólfsdóttur og Þorleifs Jónssonar í Vatnsholti í Flóa, og Krossaætt I-II. Stefnanda beri engar greiðslur að fá frá stefndu vegna vinnu hans við Zoëgaætt og Snorrastaðaætt hafi stefnandi unnið fyrir eigin reikning. Stefndu hafi greitt til stefnanda 2.168.729 krónur í ágúst 1998 og hafi þá í raun ofgreitt til stefnanda 293.714 krónur. Af þessum ástæðum beri að sýkna stefndu.
Ef svo verði talið, gegn mótmælum stefndu, að stefnanda beri að fá sérstaka höfundarréttarþóknun vegna sjúkraliðatals þá mótmæla stefndu stefnukröfum, eins og þær eru fram settar um 10% höfundarréttarþóknun af forlagsverði án virðisaukaskatts.
Stefnandi hafi lagt fram staðlaða skilmála að útgáfusamningi. Í 13. gr. skilmálanna séu almenn ákvæði um höfundarlaun. Höfundarlaun skuli ákveða sem hundraðshluta af verðlistaverði útgefanda. Samkvæmt b) lið 13. gr. skuli, ef um er að ræða bækur sem seldar eru í farandsölu eða símsölu á vegum útgefanda, verðlistaverð vera smásöluverð bóka án vsk. að frádregnum 30% sölulaunum.
Áætluð heildarsala vegna sjúkraliðatalsins sé 12.000.000 krónur og til útreiknings verðlistaverðs beri að draga frá virðisaukaskatt og 30% sölulaun. Heildarsala án vsk. sé því áætluð 10.526.316 krónur og 30% sölulaun eru 3.600.000 krónur. Höfundarlaun samkvæmt stefnu og framlögðum skilmálum um höfundarrétt eigi því ekki að reiknaðst öðruvísi en 10% af 6.926.316 krónum. Þá fjárhæð beri að skerða samkvæmt lokamálsgrein 13. gr. samningsins. Allt að einu geti höfundarlaun stefnanda aldrei talist eiga að vera hærri en 692.632 krónur.
Eftir að vinnu stefnanda við sjúkraliðatal hafi lokið í lok júní 1997 hafi komið hlé á vinnu hans fyrir stefndu fram til 1. október 1997 en frá þeim tíma hafi hann starfað fyrir stefndu fram í miðjan júní 1998. Ef svo verði talið, gegn mótmælum stefndu, að stefnanda hafi borið á fá greiddar 200.000 krónur á mánuði fyrir vinnuframlag hans þá geti hann ekki talist eiga rétt til greiðslu fyrir þá mánuði sem hann hafi ekki unnið.
Fyrir tímabilið l. október 1997 fram til miðs júní 1998 geti stefnandi því ekki talist hafa átt aðrar kröfur á hendur stefndu en þóknun sem svari til 1.700.000 krónum.
Ef niðurstaða málsins verði sú að stefnandi hafi átt rétt á 2.392.632 krónum sem endurgjaldi fyrir allt vinnuframlag í þágu stefndu á umræddu tímabili þá beri engu að síður að sýkna stefndu.
Stefndu hafi þegar greitt til stefnanda 2.168.729 krónur. Stefnandi hafi viðurkennt að hafa tekið út í reikning hjá stefndu vinnu við innslátt á tölvum og við útsendingu 2200 bréfa. Stefnanda sjálfum teljist til að skuld hans við stefndu vegna þessa sé 590.000 krónur. Í máli þessu gera stefndu kröfu til þess að stefnandi greiði þær 590.000 krónur sem hann hefur viðurkennt að skulda Máli og mynd sf. með dráttarvöxtum frá l. september 1998 og er sú krafa höfð uppi til skuldajafnaðar í málinu skv. 28. gr. l. nr. 91/1991.
Stefndu gera kröfur um málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi. Stefnda,
Mál og mynd sf., er virðisaukaskattskyldur aðili og fær virðisaukaskatt af málskostnaði vegna málareksturs þessa endurgreiddan úr ríkissjóði.
Kröfum stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt og þess krafist, ef dæmt verði, að dráttarvextir greiðist frá dómsuppkvaðningu.
Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu til laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, til meginreglna samninga- og kröfuréttar og til höfundarlaga nr. 73/1972. Um upphafstíma dráttarvaxta er vísað til l. nr. 25/1987. Málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla l. nr. 91/1991.
Niðurstaða:
Stefnandi hefur krafið stefndu um 1.751.640 krónur, sem er mismunur þeirrar fjárhæðar sem hann telur stefndu hafa lofað að greiða í formi ritstjórnar- og höfundarlauna og þeirrar fjárhæðar sem stefndu hafa sannanlega greitt til stefnanda.
Óumdeilt er í málinu að samstarf stefnanda og stefndu hófst á árinu 1995. Snemma árs 1996 hófst vinna stefnanda vegna útgáfu stefndu á sjúkraliðatali og í júlí 1997 kom sjúkraliðatalið út. Þá er óumdeilt að stefnandi hefur fengið greitt fyrir vinnu sína í þágu stefndu 2.101.000 krónur frá því í júlí 1997 til ágúst 1998.
Af gögnum málsins má ráða að stefnandi hefur ekki starfað sem almennur launþegi hjá stefnda, heldur sem verktaki. Af gögnum málsins verður þó ekki ráðið að hann hafi gert stefndu reikninga fyrir vinnu sinni, aðra en þá sem hann lagði fram við þingfestingu málsins. Þá hefur jafnframt komið fram í málinu að þá fyrst komu reikningar þessir fyrir sjónir stefndu. Reikningar þeir sem stefnandi hefur lagt fram eru annars vegar fjórtán reikningar vegna tímabilsins júlí 1997 til ágúst 1998, hver að fjárhæð 200.000 krónur vegna ,,höfundargreiðslna” til stefnanda, samtals að fjárhæð 2.800.000 krónur. Hins vegar hefur stefnandi lagt fram einn reikning, dagsettan 5. júlí 1997 vegna 10% ritlauna fyrir sjúkraliðatal að fjárhæð 1.052.640 krónur.
Í reikningum þeim sem stefnandi hefur lagt fram vegna höfundargreiðslna fyrir tímabilið júlí 1997 til ágúst 1998 kemur ekki fram fyrir hvaða verk hann krefur stefnda um höfundarlaun. Auk heldur hefur enginn skriflegur útgáfusamningur milli stefnanda og stefndu verið lagður fram, er fært geti sönnur á að stefnandi eigi rétt til höfundargreiðslna fyrir þau verk sem hann vann í þágu stefndu á þessu tímabili. Því er alveg ósannað að svo hafi um samist milli stefnanda og stefndu að stefnandi fengi greiddar mánaðarlega ,,höfundargreiðslur” að fjárhæð 200.000 krónur fyrir þau verk sem hann vann í þágu stefndu á umræddu tímabili.
Stefnandi hefur haldið því fram að munnlegur samningur hafi verið gerður milli hans og stefndu um að stefnandi fengi greidd höfundarlaun fyrir sjúkraliðatal sem næmu 10% af forlagsverði þess að frádregnum virðisaukaskatti, 1.052.640 krónur. Að mati dómsins hafa gögn málsins eða framburður vitna ekki rennt stoðum undir þá staðhæfingu stefnanda að samningur þessa efnis hafi verið gerður milli stefnanda og stefnda. Þvert á móti verður af gögnum málsins ráðið að stefnandi hafi allt þar til í ágúst 1998 sætt sig við þær fjárhæðir sem stefndu inntu af hendi til stefnanda fyrir vinnuframlag hans og það fyrirkomulag sem var á greiðslum til hans.
Samkvæmt öllu ofangreindu verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að færa sönnur á inntak þess samnings sem hann taldi hafa komist á milli sín og stefndu um launakjör sín fyrir vinnuframlag í þágu stefndu. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Eftir þessum úrslitum greiði stefnandi stefndu í málskostnað 150.000 krónur.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndu, Mál og Mynd sf., Ívar Gissurarson og Steingrímur Steinþórsson skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Hermundarsonar.
Stefnandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.