Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2003


Lykilorð

  • Kjarasamningur


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1.apríl 2004.

Nr. 409/2003.

Seltjarnarneskaupstaður

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Þórunni Halldóru Matthíasdóttur

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Kjarasamningur.

S hafði keypt slysatryggingu hjá V sem greiddi Þ, starfsmanni S, bætur fyrir varanlega örorku og kostnað vegna örorkumats og læknisvottorðs en neitaði að greiða lögfræðikostnað þar sem hann félli utan skilmála tryggingarinnar. Eftir að Þ hafði gert upp við lögmann sinn krafði hún S um endurgreiðslu á þeim útgjöldum. Deilt var um hvort túlka bæri kjarasamningsákvæði svo að síðastnefndur kostnaður félli þar undir. Á grundvelli orðalagsskýringar var á það fallist með Þ að kostnaður við lögfræðiaðstoð gæti fallið undir umrætt ákvæði. Var S dæmdur til greiðslu í samræmi við þá niðurstöðu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. október 2003. Hann krefst þess aðallega að verða sýknaður af kröfu stefndu, en til vara að krafa stefndu verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda, sem er kennari við Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, varð fyrir slysi er hún féll í stiga í skólanum 17. mars 1999. Ágreiningslaust er að stefnda naut kjara samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla, en þeim tíma var í gildi milli þeirra þeirri samkomulag 27. október 1997 um að framlengja skyldi til 31. desember 2000, með tilteknum breytingum, þann kjarasamning, sem gilt hafði fyrir yfirfærslu grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga. Í 7. kafla þess samnings, sem fjallaði um tryggingar, var ákvæði í grein 7.4 um slys á vinnustað. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi hafði áfrýjandi keypt slysatryggingu fyrir starfsmenn Valhúsaskóla hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., sem greiddi stefndu bætur fyrir varanlega örorku og kostnað vegna örorkumats og læknisvottorðs en neitaði að greiða lögfræðikostnað þar sem hann félli utan skilmála tryggingar þeirrar, sem áfrýjandi hafði keypt. Lögmaður stefndu gerði henni 27. febrúar 2002 reikning að fjárhæð 118.598 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna lögfræðiaðstoðar við að krefja áfrýjanda og tryggingarfélagið um bætur. Greiddi stefnda reikninginn. Krefur hún áfrýjanda í máli þessu um endurgreiðslu á þeim útgjöldum.

Samkvæmt áðurnefndri grein 7.4 í kjarasamningnum skyldi „bæta ... starfsmanni þau útgjöld, sem starfsmaður kann að verða fyrir af völdum slyss á vinnustað og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki skv. 27. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.“ Aðila greinir á um hvernig túlka beri framangreint ákvæði. Áfrýjandi heldur því fram að í vísun ákvæðisins til 27. gr. laga um almannatryggingar felist að þau „útgjöld“, sem bæta skuli starfsmanni takmarkist við þá greiðsluþætti, sem 27. gr. laganna tekur til. Í þeirri lagagrein sé í 1. tölulið 1. mgr. fjallað um tiltekna þætti sjúkrahjálpar, sem almannatryggingar skuli greiða að fullu svo sem læknishjálp, sjúkrahúsvist, lyf, umbúðir og gervilimi. Í 2. tölulið málsgreinarinnar sé fjallað um tiltekinn ferðakostnað, sem greiddur skuli úr almannatryggingum að hluta og í 3. tölulið hennar um kostnaðarþætti, sem heimilt sé að greiða úr almannatryggingum, svo sem hjúkrun í heimahúsum, styrk upp í kostnað vegna tiltekinna tannviðgerða og tiltekinn ferðakostnað. Sé tilvitnuðu ákvæði kjarasamningsins ætlað að vera til fyllingar þessari grein laga um almannatryggingar og samkvæmt því skuli einungis greiða launþega þann hluta þeirra kostnaðarþátta, sem þar eru tilgreindir, en ekki greiðist að fullu úr almannatryggingum. Hins vegar sé ákvæðinu ekki ætlað að bæta útgjöld, sem alls ekki séu tilgreind í 27. gr. laga um almannatryggingar. Þar sé lögfræðikostnaður ekki tilgreindur og falli hann því utan  ákvæðisins. Telur áfrýjandi að þessi skilningur sé í samræmi við framkvæmd, sem ríkt hafi óslitið í þau 24 ár, sem ákvæðið hafi verið í kjarasamningum kennara. Þá sé þessi skilningur í samræmi við framkvæmd hliðstæðra ákvæða í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði

Stefnda heldur því fram að í fyrri hluta margnefnds kjarasamningsákvæðis sé sett fram sú meginregla að bæta skuli starfsmanni þau útgjöld, sem hann verði fyrir af völdum slyss á vinnustað. Í tilvísun til 27. gr. laga um almannatryggingar í síðari hluta ákvæðisins felist ekkert annað en sú takmörkun á meginreglunni að ekki skuli tvíbætt þau útgjöld, sem launþegi fær greidd úr almannatryggingum samkvæmt þeirri lagagrein. Bendir hún á að engar umræður hafi orðið um þetta ákvæði þegar það kom fyrst inn í kjarasamninga kennara 1980 og verði þrengri skilningur en orðalag ákvæðisins bendi til því ekki byggður á tilurð þess. Þá mótmælir hún því að nokkuð liggi fyrir um að framkvæmd ákvæðisins hafi verið á þann hátt, sem áfrýjandi heldur fram.

Í margnefndu ákvæði 7.4 greinar kjarasamningsins er kveðið á um að bæta skuli þau „útgjöld“, sem starfsmaður kann að verða fyrir vegna slyss á vinnustað. Verður tilvísun ákvæðisins til 27. gr. laga um almannatryggingar ekki skilin svo að með henni sé verið að þrengja svo hið víða hugtak „útgjöld“ að takmarka beri bætur samkvæmt ákvæðinu við kostnað vegna sjúkrahjálpar eða sjúkrakostnaðar. Verður því ekki talið að orðalagsskýring á margnefndu ákvæði kjarasamningsins leiði til þess að víðtækari takmörkun verði leidd af tilvísun þess til 27. gr. laga um almannatryggingar, en að ekki skuli bæta starfsmanni þau útgjöld sem bætt eru samkvæmt nefndri lagagrein. Þar sem áfrýjanda hefur heldur ekki tekist að sýna fram á að langvarandi og óslitin framkvæmd byggi á öðrum skilningi verður fallist á að kostnaður við lögfræðiaðstoð geti fallið undir ákvæðið.

 Þar sem einnig er fallist á með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að eðlilegt verði að teljast að stefnda hafi leitað sér aðstoðar lögmanns við bótauppgjörið og að reikningur lögmannsins sé ekki óhóflegur verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Seltjarnarneskaupstaður, greiði stefndu, Þórunni Halldóru Matthíasdóttur, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2003.

Stefnandi málsins er Þórunn Halldóra Matthíasdóttir, kt. 0706551-6109, Frostaskjóli 61, Reykjavík, en stefndi er Seltjarnarneskaupstaður, kt. 560269-2429, Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Málið er höfðað með stefnu, sem dagsett er 8. janúar sl. og birt var fyrir fyrir­svarsmanni stefnda 9. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 23. janúar sl. Málið var dómtekið 26. maí sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða henni 118.598 krónur með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 27. febrúar 2002 til greiðsludags. Auk þess krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, skv. gjaldskrá Löggarðs ehf.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dóm­kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Málavextir eru í meginatriðum, sem hér segir: Stefnandi er kennari við Valhúsaskóla, Seltjarnarnesi, en skólinn er rekinn á kostnað og ábyrgð stefnda. Hún slasaðist hinn 17. mars 1999 með þeim hætti, að hún féll í stiga í skólanum. Hlaut hún mikinn hnykkáverka á háls og svokallað ofrétti og klemmu á mænu með tíma­bundinni dofatilfinningu í höndum.  Stefán Carlssonar bæklunarlæknir mat varanlega örorku stefnanda 10% af völdum slyssins, en varanlegan miska hennar 15%. Matsgerð hans er dags. 18. janúar 2002.

Stefnandi er félagsmaður í Félagi grunnskólakennara, sem aðild á að Kennara­sambandi Íslands. Um starfsréttindi hennar fer m.a. eftir kjarasamningi Kennara­sambands Íslands (KÍ) og Launanefndar sveitarfélaganna (launanefnd). Samkvæmt 7. gr. þess samnings skulu starfsmenn vera slysatryggðir allan sólarhringinn vegna varanlegrar örorku. Stefndi keypti slysatryggingu fyrir starfsmenn Valhúsaskóla hjá Vátryggingafélagi Íslands h.f. (VÍS). Lögmaður stefnanda krafði VÍS um um uppgjör slysabóta á grundvelli örorkumats Stefáns Carlssonar með bréfi, dags. 24. janúar  2002. Í kröfubréfinu var sérstaklega verið tekið fram, að krafist væri greiðslu á kostn­aði vegna læknisvottorða og örorkumats. Einnig var krafist greiðslu lögfræðikostnaðar með vísan til ákvæða í kjarasamningi KÍ og launanefndar, þar sem segi, að skylt sé að bæta starfsmanni þau útgjöld, sem hann verður fyrir vegna slyss og ekki séu bætt af slysatryggingum almannatrygginga.

Félagið greiddi stefnanda hinn 27. febrúar 2002 bætur vegna varanlegrar örorku og miska á grundvelli örorkumats Stefáns Carlssonar og endurgreiddi henni einnig útlagðan kostnað við öflun læknisvottorða og örorkumats en neitaði að greiða lögfræðikostnað á þeirri forsendu, að ekki væri gert ráð fyrir slíkri greiðslu í  skil­málum tryggingar þeirrar, er stefndi hefði keypt. Lögmaður stefnanda gerði henni því reikning fyrir aðstoð þá, sem hann hafði látið henni í té. Reikningurinn nam 118.598 krónum, þar af nam virðisaukaskattur 23.338 krónum. Reikningurinn var byggður á gjaldskrá Löggarðs ehf. Stefnandi greiddi lögmanni sínum umkrafinn reikning 27. febrúar 2002. 

Lögmaður stefnanda sendi stefnda samdægurs bréf og krafði hann um greiðslu reikningsins. Byggt var á því, að stefnda bæri að greiða starfsmanni allan þann kostnað, sem slysatryggingar almannatrygginga greiði ekki, með vísan til ákvæðis 7.4.1 í áðurnefndum kjarasamningi KÍ og launanefndar. Stefndi neitaði greiðslu með bréfi til lögmanns stefnanda, dags. 19. mars s.á. Í bréfinu kom fram, að tilvitnað samningsákvæði fæli ekki í sér skyldu til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð.

Stéttarfélag stefnanda höfðaði mál fyrir Félagsdómi, nr. F-7/2002, til viður­kenningar á rétti félagsmanna þess til slíkrar greiðslu.  Málinu var vísað frá Félags­dómi 14. október 2002, og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu 5. nóvember s.á.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á því, að honum beri að bæta starfsmönnum sínum þau útgjöld, er þeir verða fyrir af völdum slyss á vinnustað, sem slysatryggingar almannatrygginga bæti ekki, skv. 27. gr. laga nr. 117/1993, um almannatrygginga (almtrl.), með vísan til áðurnefnds ákvæðis 7.4 í kjarasamningi KÍ og launanefndar. Samningsákvæðið sé í þeim kafla kjarasamningsins, sem beri yfirskiftina Slys á vinnustað. Það hljóði svo: Bæta skal starfsmanni þau útgjöld, sem starfsmaður kann að verða fyrir af völdum slyss á vinnustað og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki skv. 27. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.” Sams konar ákvæði sé einnig að finna í grein 13.2.1.6 í kjarasamningi KÍ og launanefndar.

Starfsmenn, sem slasist á vinnustað, eigi þannig rétt á því, að þeim séu bætt út­gjöld, sem eigi rót sína að rekja til slysa, sem þar eigi sér stað. Ákvæðið sé skýrt og beri að skilja samkvæmt orðanna hljóðan. Starfsmaður eigi því í raun að vera laus við öll útgjöld, sem ekki séu bætt skv. 27. gr. almtrl.  Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að ráða sér lögmann til aðstoðar við að afla læknisvottorða og annarra gagna, svo og til þess að setja fram kröfu fyrir hennar hönd og gæta hagsmuna hennar við uppgjör.  Skv. 27. gr. almtrl. sé m.a. bættur sjúkrahúskostnaður, læknishjálp, lyf og umbúðir, sjúkraflutningur og ferðakostnaður. Kostnaður við lögmannsaðstoð við að ná fram bótarétti sé á hinn bóginn ekki bættur skv. greininni. Því beri stefnda að greiða þennan kostnað með vísan til ákvæðis 7.4.1 í áðurnefndum kjarasamningi.

Þá byggir stefnandi á því, að viðurkennt sé af íslenskum  tryggingafélögum,  að tjónþolar geti þurft að leita sér aðstoðar við að afla gagna, s.s. læknisvottorða og örorkumats, sem síðar séu grundvöllur uppgjörs á bótakröfu viðkomandi. Trygginga­félög miði bætur til tjónþola m.a. við það, að þau þurfi að greiða lög­mönnum kostnað, samkvæmt gjaldskrá þeirra.  Þannig sé einnig viðurkennt af íslenskum dómstólum, að lögmenn eigi rétt á sanngjarnri þóknun fyrir slík störf í þágu tjónþola, sbr. dómvenju Hæstaréttar Íslands þar um. Þá sé t.d. viðurkennt af bótanefnd dómsmálaráðuneytis, sem starfar á grundvelli laga nr. 69/1995, að bætur í slíkum málum nái einnig til lögmannsþóknunar.  Í raun séu bætur stefnanda skertar sem nemi lögmannskostnaði hennar, með því að hafna greiðslu þessara fjárútláta. Slíkt sé andstætt þeirri meginreglu, að tjónþoli eigi ætíð að fá tjón sitt bætt að fullu, og einnig í  í mótsögn við tilgang kjarasamninga um bætur fyrir varanlega örorku, því tjónþoli fái ekki þær umsömdu bætur, sem samningurinn mæli fyrir um.

Ákvæði greinar 7.4.1. byggist þannig á skaðleysissjónarmiðum og verði að túlkast með þeim hætti.

Stefnandi telur því, að túlka beri ákvæði greinar 7.4.1. eftir orðanna hljóðan og með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Engin umræða hafi orðið um skilning á ákvæðinu árið 1980, þegar það kom fyrst inn í kjarasamning BSRB. Þannig verði fyrst og fremst að líta til orðalags ákvæðisins. Ákvæðið sé í kafla er ber heitið “Slys á vinnustað” og eigi því að bæta kostnað starfsmanna, er þeir verða fyrir vegna slíkra slysa.

Stefnandi byggir einnig á því, að þær reglur, sem giltu um uppgjör örorkubóta nr. 30/1990, geri beinlínis ráð fyrir öflun nauðsynlegra sönnunargagna eins og læknisvottorða og að uppgjör bóta geti ekki farið fram, fyrr en slíkri gagnaöflun sé lokið. Atbeini lögmanns sé nauðsynlegur til öflunar slíkra gagna. Sá lögmanns­kostnaður, sem stefnandi varð að greiða, hafi verið eðlilegur og í samræmi við vinnuframlag.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að áðurnefnt ákvæði gr. 7.4. í kjarasamningi KÍ og launanefndar beri að túlka þröngt. Eftir orðanna hljóðan falli greiðsla lögmannskostnaðar ekki þar undir. Ákvæði 27. gr. almtrl. kveði á um skyldu Tryggingastofnunar ríkisins, slysatryggingadeildar (eftirleiðis Tryggingastofnun) til að greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða og tjóns á gervilimum eða hjálpartækjum, eins og nánar er þar tilgreint, þegar um bótaskyldan atburð sé að ræða í skilningi laganna og slys veldur vinnutjóni í minnst 10 daga. Tryggingastofnun greiði að fullu fyrir læknishjálp o.fl., ferðakostnað til læknis að hluta, og heimilt sé að greiða hjúkrun í heimahúsum, styrk upp í kostnað vegna löskunar á tönnum, þegar um kostnaðarsamar viðgerðir sé að ræða, ferðakostnað í tengslum við endurhæfingu o.fl. 

Á því sé byggt af hálfu stefnda, að gildissvið ákvæðis gr. 7.4. í hlutaðeigandi kjarasamningi takmarkist við það að vera til fyllingar ákvæði 27. gr. almtrl..  Í því felist, að ákvæðið hafi að geyma tæmandi talningu þeirra greiðsluþátta, sem til álita komi og kunni að falla undir ákvæði gr. 7.4. í kjarasamningi.   Samkvæmt því geti greiðsluskylda samkvæmt gr. 7.4. einungis komið til álita varðandi þá greiðsluþætti, sem tilgreindir séu með beinum hætti í tilvitnuðu ákvæði, og einungis að því marki og að svo miklu leyti, sem Tryggingastofnun greiði ekki.  Lögmannskostnaður sé ekki talinn upp í ákvæði 27. gr. almannatryggingalaga, og samkvæmt því geti slíkur kostn­aður aldrei fallið undir ákvæði gr. 7.4. í kjarasamningi.

Stefndi byggir einnig sýknukröfu sína á því, að tilgangur umrædds samnings­ákvæðis hafi í öndverðu verið sá að bæta starfsmönnum einungis þann sjúkra- og lækniskostnað, sem óhjákvæmilega leiddi af tjónsatburði, þó aðeins að því marki, sem Tryggingastofnun greiddi ekki.  Hafa verði í huga, að 27. gr. almtrl. takmarkist við sjúkrakostnað sem hljótist af tjónsatburði.  Þessi túlkun leiði af orðalagi ákvæðisins, almennri lögskýringu, svo og á upphaflegum á forsendum ákvæðisins. Þá byggir stefndi á því, að framangreind túlkun styðjist við áralanga venju og athugasemdalausa framkvæmd allt frá upphafi tilurðar ákvæðisins á árinu 1980 og afdráttarlausan sameiginlegan skilning samningsaðila á efni og innihaldi ákvæðisins.  Sú venja taki bæði til framkvæmdar hjá ríki og sveitarfélögum.

Stefndi byggir einnig á því, að sami skilningur leiði af ákvæðum sambærilegs eðlis annarra viðsemjenda á hinum almenna vinnumarkaði. Í því sambandi beri að hafa í huga, að tjónþolum væri í sjálfsvald sett að ákvarða kostnað, sem til gæti fallið í tengslum við tjónsatburð og vinnuveitanda bæri að greiða, ef fallist yrði á skilning stefnanda. Slík túlkun næði í reynd langt úr fyrir gildissvið ákvæðisins og tilgang þess, ekki síst sé höfð hliðsjón af ákvæði 27. gr. almtrl.  Þá byggir stefndi á því, að við úrlausn ágreinings í máli þessu, verði að leggja til grundvallar ákvæði 10. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, svo og ákvæði 6. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sem mæli fyrir um það, að kjarasamningar skuli vera skriflegir. Önnur atvik og sjónarmið en þau, sem beinlínis verði ráðin af orðalagi ákvæðis kjarasamnings, verði ekki lögð til grundvallar við úrlausn á túlkun þess.

Stefndi bendir á, að almennt gildi sú regla í skaðabótarétti, að tjónþolar skuli vera skaðlausir af kostnaði, sem  rekja megi til tjónsatburðar.  Undir slíka reglu falli því kostnaður við lögmannsaðstoð við öflun skaðabóta.  Slík sjónarmið eigi ekki við í þessu máli, enda sé stefnandi ekki að krefja stefnda um skaðabætur á grundvelli almennra skaðabótareglna.  Slysatryggingar launþega séu lögbundnar og ráðist viðmiðunarfjárhæðir þeirra og nánari skilmálar af ákvæðum kjarasamninga og/eða sérstökum reglum.  Greiðslur miðist við miskastig, læknisfræðilega örorku og séu bætur þær sömu við sama miskastig, óháð því hvert og hvort fjárhagslegt tjón hafi hlotist af. Öflun og uppgjör greiðslna úr slysatryggingu launþega sé því viðaminni en öflun og uppgjör greiðslna skaðabóta vegna bótaskyldra tjónsatburða.  Samkvæmt framanrituðu sé það hvorki skilyrði né tilgangur slysatrygginga launþega að halda tjónþolum skaðlausum af tjónsatburði og sé tjónþolum bæði rétt og heimilt á eigin kostnað að fá aðstoð lögmanna við öflun slíkra greiðslna.  Enginn ágreiningur hafi verið fyrir hendi um rétt stefnanda til greiðslna úr slysatryggingu launþega.  Ákvörðun um að leita sér aðstoðar sé tjónþola í sjálfsvald sett, en hvorki ákvæði skilmála slysatrygginga launþega né heldur ákvæði kjarasamnings bæti honum kostnað, sem af kann að hljótast.  Samkvæmt því sé greiðsluskylda á lögmannskostnaði ekki talin til greiðsluskyldra þátta, eins og krafist sé.  Svo rúm túlkun ákvæðis greinar 7.4., sem stefnandi byggi á, geti aðeins skapað óvissu, og óhætt sé að fullyrða, að erfitt gæti reynst að takmarka annan kostnað, sem tjónþoli gæti talið falla þar undir.

Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að bætur til hennar séu í raun skertar með því að viðurkenna ekki rétt hennar til að fá bættan útlagðan lög­manns­kostnað. Umrætt ákvæði 7.4 hafi ekki að geyma tryggingu fyrir fullu og ótakmörkuðu skaðleysi starfsmanns.  Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda, að í framangreindri afstöðu felist brot á þeirri meginreglu, að tjónþoli skuli fá tjón sitt bætt að fullu og að afstaða hans sé í andstöðu við ákvæði kjarasamnings um varanlega örorku. Réttur stefnanda til greiðslna vegna slysa í starfi fari í einu og öllu eftir ákvæðum kjarasamnings þess efnis. Samkvæmt því falli slíkar greiðslur alfarið utan greiðsluskyldu stefnda.  Þá mótmælir stefndi umfjöllun stefnanda um ákvæði reglna nr. 30/1990, um slysatryggingar starfsmanna ríkisins, og bendir á, að umræddar reglur geri hvorki ráð fyrir né veiti rétt til greiðslu lögmannskostnaðar. 

Þá bendir stefndi enn fremur á, að hann hafi keypt fulla vátryggingavernd hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna slysatrygginga launþega.  Stefnandi hafi þegar móttekið fullnaðarbætur án nokkurs fyrirvara og geti samkvæmt því engar frekari kröfur gert.  Að auki væri slíkri kröfu ranglega beint að stefnda og beri samkvæmt því að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Að lokum mótmælir stefndi sérstaklega fjárhæð fyrirliggjandi reiknings vegna aðstoðar lögmanns.  Sú afstaða stefnda grundvallist á því, að framlagður reikningur stefnanda sé óhæfilega hár miðað við eðli og umfang verkefnis, sundurliðun skorti o.fl. og beri stefnda, ef stefnandi fengi endanlega viðurkenningu fyrir kröfum sínum, einungis að bæta þann kostnað, sem telja megi venjubundinn og eðlilegan í ljósi atvika máls.  Samkvæmt því sé óhjákvæmilegt, að tjónþoli beri hluta kostnaðar sjálf.

Að endingu bendir stefndi sérstaklega á, að umfjöllun um tilurð ákvæðis í samningum íslenska ríkisins gagnvart viðsemjendum og samskipti sömu aðila hafi enga sérstaka þýðingu við úrlausn ágreinings þessa máls, enda sé um óskylda aðila að ræða. 

Stefndi vísar til meginreglna fjármunaréttar og samningaréttar um efndir samninga og skuldbindinga og til ákvæða kjarasamnings Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga.  Þá vísar stefndi til ákvæða laga nr. 94/1986, um kjara­samninga opinberra starfsmanna, ákvæða laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, venja o.fl.  Um málskostnað vísar stefndi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða:

 

Málsaðilar eru sammála um, að slys það, sem stefnandi varð fyrir, sé bótaskylt samkvæmt tilgreindu samningsákvæði, en greinir á um umfang bótaskyldu stefnda.

Úrslit þessa máls ráðast af túlkun ákvæðis 7.4. í kjarasamningi KÍ og launanefndar og samanburði þess við ákvæði 27. gr. laga um almannatryggingar.

Eins og áður er lýst, mælir umrætt kjarasamningsákvæði fyrir um það, að bæta skuli starfsmanni þau útgjöld, sem hann kunni að verða fyrir af völdum slyss á vinnustað og slysatryggingar almannatrygginga bæti ekki.

Málsaðila greinir ekki á um það, að kostnaður sá, sem deilt er um í málinu, falli utan gildissviðs 27. gr. almtrl. 

Af því leiðir að taka verður afstöðu til þess, hvort kostnaður við lögmannsaðstoð sé sennileg og eðlileg afleiðing af slysi því, sem stefnandi varð fyrir, í ljósi þess, að tilvitnað kjarasamningsákvæði mælir fyrir um það, að bæta skuli hinum slasaða útgjöld, sem hann kunni að verða fyrir af völdum bótaskylds slyss.

Mikilvægt er frá sjónarmiði hins slasaða, að rétt sé að málum staðið við innheimtu bóta, hvers eðlis, sem þær kunni að vera.

Ekki liggur annað fyrir í málinu, en að bótaþegi, samkvæmt umræddu kjarasamningsákvæði, þurfi sjálfur að afla nauðsynlegra gagna, sem bætur til hans grundvallast á og fái enga aðstoð eða leiðbeiningar vinnuveitanda eða þess trygginga­félags, sem veitt hefur tryggingavernd gegn tjóni af völdum slysa, sem starfsmenn hans kunna að verða fyrir.

Öflun læknisvottorða og matsgerða á örorku og miska krefst ákveðinnar sérþekkingar, sem venjulegur launþegi býr almennt ekki yfir, að mati dómsins. Lögmenn hafa aflað sér slíkrar þekkingar og fellur aðstoð við heimtu bóta undir starfsvið þeirra.

Því verður að telja eðlilegt, að launþegi, sem slasast á vinnustað, leiti sér aðstoðar lögmanns um öflun þeirra gagna, sem nauðsynleg teljast til að bætur verði greiddar.

Að mati dómsins er hér um að ræða útgjöld, sem telja verði eðlileg og fyrirsjáanleg, þegar slys ber að höndum, og falli að jafnaði undir tilgreint samnings­ákvæði, en leggja verði mat á það í hverju einstöku tilviki, hvort þóknun viðkomandi lögmanns sé hófleg og í samræmi við umfangi verkefnisins.

Niðurstaða dómsins er því sú, að stefnda beri að greiða stefnanda kostnað við lögfræðiaðstoð, eins og málsatvikum er hér háttað.

Engu breytir, að mati dómsins, þótt tryggingavernd sú, sem stefndi keypti af VÍS, taki ekki til kostnaðar af þessu tagi. Slíkt ræðst af samningi milli stefnda og vátryggingafélagsins og kann að hafa áhrif á iðgjaldsupphæð.

Þá þykir sú málsástæða stefndu haldlítil, að ekki hafi tíðkast að greiða lögmannskostnað vegna slysa, sem falla undir tilgreint samningsákvæði. Við engin dómafordæmi er að styðjast í þessu efni, svo upplýst sé.  Sú staðreynd, að bóta­greið­endur hafi hingað til komist hjá því að greiða lögmannskostnað, breytir engu um rétt­mæti kröfu stefnanda.

Stefndi krefst til vara lækkunar á kröfu stefnanda og mótmælir henni einnig á þeirri forsendu, að hún sé órökstudd og ósundurliðuð.

Fyrir liggur í málinu, að lögmaður stefnanda ritaði þrjú bréf, samhljóða að mestu, til tveggja lækna og heilsugæslustöðvarinnar á Seltjarnarnesi, öll dags. 5. júní 2001, og fékk svar við þeim bréfum.  Á grundvelli þeirra óskaði hann eftir því við Stefán Carlsson bæklunarlækni, að hann legði mat á varanlega örorku og miska stefnanda með bréfi, dags. 28. ágúst s.á. Örorkumat Stefáns lá fyrir 18. janúar 2002, eins og áður segir.  Í kjölfar þess ritaði lögmaðurinn stefnanda bréf, dags. 24. janúar s.á. og gerði henni grein fyrir niðurstöðu matsgerðarinnar og hvert yrði líklegt fram­hald málsins. Sama dag ritaði lögmaðurinn bréf til VÍS og krafði félagið um bætur f.h. stefnanda. Þá tók lögmaðurinn við bótum frá VÍS f.h. stefnanda hinn 27. febrúar s.á. Samdægurs ritaði hann stefnda bréf, eins og áður er getið, dags. 27. febrúar s.á. og krafði stefnda um greiðslu lögmannskostnaðar. 

Reikningur lögmanns stefnanda nam 118.598 krónum, þar af virðisaukaskattur 23.338 krónur.

Þegar litið er til vinnuframlags lögmanns stefnanda í hennar þágu verður ekki talið að reikningur hans sé óhóflegur. Því verður ekki fallist á varakröfu stefnda.

Stefnandi krafði stefnda um greiðslu með bréfi dags. 27. febrúar 2002. Rétt þykir, með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001, að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti, sem reiknist frá 27. mars 2002.

Rétt þykir með vísan til 1. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991, að stefndi greiði stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilegur 75.000 krónur, að teknu tilliti til lögmælts virðisaukaskatts.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefndi, Seltjarnarneskaupstaður, greiði stefnanda, Þórunni Halldóru Matthíasdóttur, 118.598 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 27. mars 2002 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 75.000 krónur í málskostnað.