Hæstiréttur íslands

Mál nr. 177/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Réttindaröð
  • Laun


Föstudaginn 15. apríl 2011.

Nr. 177/2011.

Magnús Arnar Arngrímsson

(Arnar Þór Jónsson hdl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Laun.

M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem krafa hans sem hann hafði lýst við slit G hf. var viðurkennd sem almenn krafa en hafnað að viðurkenna hana sem forgangskröfu. M hóf störf hjá G hf. á árinu 2007 sem sérfræðingur. Í mars 2008 undirritaði hann nýjan ráðningarsamning við G hf. og var starfsheiti hans samkvæmt honum framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs á Íslandi og næsti yfirmaður hans forstjóri G hf. M var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi 24. október 2008. Í málinu snerist ágreiningur aðila um fjárhæð kröfu M og hvar skipa skyldi henni í réttindaröð við slit G hf. Samkvæmt hinum nýja samningi var uppsagnarfrestur M átján mánuðir en í hinum fyrri samkvæmt kjarasamningi sem gat lengstur orðið sex mánuðir. Í fyrrnefndu uppsagnarbréfi kom m.a. fram að uppsagnarfrestur væri samkvæmt kjarasamningi SA og SSF. Í héraðsdómi var talið að M ætti kröfu á hendur G hf. vegna launa í uppsagnarfresti sem var talinn sex mánuðir auk launatengdra gjalda og vaxta. Var talið að uppsagnarfrestur hefði verið styttur í uppsagnarbréfinu með stoð í 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var talið að við mat á því hvort M félli undir undantekningarákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 yrði að líta til þess hvort hann hefði haft raunverulega yfirmannsstöðu hjá G hf. Talið var að M hefði verið einn af lykilstarfsmönnum G hf. M sat í lánanefnd og áhættunefnd G hf. frá árinu 2007 og í framkvæmdastjórn bankans frá maí 2008. Þá þóttu launakjör hans renna stöðum undir að hann hafi verið meðal æðstu stjórnenda G hf. Var krafa M því ekki talin njóta forgangsréttar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til forsendna hans.

                                                         Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2011, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 9.957.035 krónur, sem hann lýsti við slit varnaraðila, var viðurkennd sem almenn krafa en hafnað að viðurkenna hana sem forgangskröfu. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 34.242.536 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 en til vara að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Magnús Arnar Arngrímsson, greiði varnaraðila, Glitni banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2011.

I

Mál þetta var þingfest 22. júní 2010 og tekið til úrskurðar 11. febrúar 2011. Sóknar­aðili málsins er Magnús Arnar Arngrímsson, Klettási 6, Garðabæ, en varnaraðili er Glitnir Banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík. 

Dómkröfur sóknaraðila eru að krafa hans að fjárhæð 34.242.536 krónur verði viður­kennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Til vara er þess krafist að ofangreind krafa verði viðurkennd sem almenn krafa sam­kvæmt 113. gr. laganna.  Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur varnaraðila eru að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að samþykkja kröfu sóknaraðila að fjárhæð 9.957.035 krónur sem almenna kröfu sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.  Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila um mánaðamótin apríl/maí 2007 sem sérfræð­ing­ur og voru heildarlaun hans 1.750.000 krónur á mánuði samkvæmt ráðning­ar­samningi 7. maí 2007.  Hinn 3. mars 2008 undirritaði sóknaraðili nýjan ráðningar­samn­ing við varn­ar­aðila.  Starfsheiti sóknaraðila samkvæmt þeim samningi var fram­kvæmda­stjóri fyrirtækjasviðs á Íslandi.  Samkvæmt samningnum var næsti yfirmaður sóknaraðila forstjóri varnaraðila.  Föst laun sóknaraðila samkvæmt samningnum voru 1.800.000 krónur á mánuði.  Í samningnum var einnig mælt fyrir um fleiri þætti starfskjara sóknaraðila, s.s. ótakmörkuð afnot af bifreið auk GSM síma.  Sumarið 2008 voru mánaðarlaun sóknaraðila hækkuð í 2.500.000 krónur.

Hinn 14. maí 2008 skipaði varnaraðili sex lykilstarfsmenn í framkvæmdastjórn bankans og tók sú skipun gildi 19. maí 2008.  Var sóknaraðili einn af þessum sex lykil­starfsmönnum.   Þá átti sóknaraðili sæti í áhættunefnd og lánanefnd varnaraðila.

Hinn 7. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar varn­ar­aðila og skipa honum skilanefnd.   Hinn 24. október 2008 var sóknaraðila sagt upp störf­um hjá varnaraðila og kemur fram í uppsagnarbréfinu að uppsagnarfrestur sé samkvæmt kjarasamningi SA og SSF og taki hún gildi frá og með næstu mánaðarmótum.  Ekki var krafist vinnuframlags sóknaraðila á uppsagnarfresti og vísað til þess að þar sem sóknaraðili hefði fengið tilboð um starf hjá Nýja Glitni banka hf. væri ekki gert ráð fyrir greiðslum til hans frá varnaraðila á uppsagnarfresti.

Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009.  Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009.  Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009,  var varnaraðila skipuð slita­stjórn.  Hinn 26. maí 2009 gaf slita­stjórn varnaraðila út innköllun til kröfuhafa bankans sem birt var fyrst í Lögbirtingablaðinu þann dag.  Var frestur til að lýsa kröfum sex mánuðir frá fyrstu birtingu og lauk kröfu­lýsingar­fresti samkvæmt því 26. nóvem­­ber 2009.  Frestdagur var 15. nóvem­ber 2008 og er upphafs­dagur slitameðferðar  22. apríl 2009.

Sóknaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 34.242.536 krónur með kröfulýsingu 24. nóvember 2009 sem móttekin var af slitastjórn 26. nóvember 2009.  Sundurliðast krafan með eftirfarandi hætti:

Laun í 18 mánuði að frádregnum launum frá núverandi vinnuveitanda

26.042.613

lífeyrissjóðsiðgjald í 18 mánuði

1.562.557

Séreignalífeyrissjóðsiðgjöld

1,647.983

Bifreiðahlunnindi frá maí 09 í 12 mánuði

1.440.000

Samtals

30.693.153

Dráttarvextir til 22. apríl 2009

3.549.383

Samtals lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991

34.242.536

Dráttarvextir eftir 22. apríl 2009, lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991

4.523.757

                                                                                             

Með bréfi 4. desember 2009 tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að krafa hans hafi verið samþykkt með breytingum þannig að hún væri viðurkennd sem almenn krafa að fjárhæð 13.869.035 krónur.  Var forgangsrétti kröfunnar hafnað á þeim forsendum að sókn­ar­aðili hefði gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá varnaraðila.  Þá var uppsagnar­frest­ur talinn vera sex mánuðir í stað átján.  Var krafan viðurkennd sem almenn krafa þannig:

Laun í 6 mánuði að frádregnum launum frá núverandi vinnuveitanda

8.398.688

Lífeyrissjóðsiðgjöld í 6 mánuði bæði almennur og séreignasjóður

1.070.828

Orlof

3.912.000

Vextir til 22. apríl 2009

487.519

Heildarfjárhæð

13.869.035

Með bréfi 16. desember 2009 var afstöðu slitastjórnar varnaraðila til kröfunnar mót­mælt af hálfu sóknaraðila.

Hinn 24. mars 2010 var haldinn fundur vegna ágreinings um kröfu sóknaraðila.  Ekki tókst að jafna ágreining aðila og var honum skotið til úrlausnar Héraðs­dóms Reykja­vík­­ur með bréfi 15. apríl 2010 sem móttekið var 11. maí 2010.

Slitastjórn varnaraðila kveður að fyrir mistök hafi verið reiknað orlof á höfuðstól kröf­unn­ar þrátt fyrir að þeirri kröfu hefði ekki verið lýst.  Að auki hefði Íslandsbanki hf., yfirtekið orlofsskuldbindingar varnaraðila við þá starfsmenn sem hófu störf hjá nýjum banka eftir uppsögn hjá varnaraðila.  Hafi sóknaraðili þannig fengið orlof sitt greitt frá Íslands­banka hf. og lækki því samþykkt fjárhæð um 3.912.000 krónur og sé heildar­fjárhæð samþykktrar kröfu því 9.957.035 krónur.  Með bréfi slitastjórnar varn­ar­aðila til lögmanns sóknaraðila 20. september 2010 var upplýst um framan­greinda leið­rétt­ingu.

III

Sóknaraðili kveðst hafa lýst forgangskröfu í þrotabú varnaraðila á grundvelli 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna slita á vinnusamningi.  Samkvæmt ráðningar­samn­­ingi hafi uppsagnarfresturinn verið 18 mánuðir.  Í samræmi við það sé gerð krafa vegna heildarmismunar á núverandi launakjörum og þeirra sem hann hafi notið hjá varn­­ar­­aðila.

Sóknaraðili kveðst hafa verið ráðinn í maí 2007 sem sérfræðingur á skrifstofu forstjóra.  Í ágúst sama ár hafi hann verið gerður að framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs á Íslandi og hafi hann þá verið undirmaður Guðmundar Hjaltasonar þáverandi fram­kvæmda­stjóra fyrirtækjasviðs.  Í maí 2008 hafi sóknaraðili hafið störf sem fram­kvæmda­stjóri fyrirtækjasviðs og þá heyrt beint undir forstjóra.  Ekki hafi verið farið sérstaklega yfir skyldur sóknaraðila síðarnefnda starfinu, hvorki við ráðninguna né síð­ar.  Störf sóknaraðila á fyrirtækjasviði hafi fyrst og fremst falist í því að leiða hóp sér­fræðinga í þjónustu við þau fyrirtæki sem voru í viðskiptum við sviðið.  Sóknar­aðili hafi yfirleitt verið kallaður til við lausn vandamála, annað hvort til leiðsagnar við starfs­menn eða til að reyna að vinna að lausnum með viðskiptavinunum.  Allar tillögur starfs­manna fyrirtækjasviðs í samskiptum við viðskiptavini hafi síðan verið bornar undir lánanefndir bankans.  Hafi sóknaraðili því sjálfur haft lítil völd í störfum sínum.

Sóknaraðili hafi setið í tveimur lánanefndum. Annarsvegar Icelandic Credit Committee sem hafi verið sú lánanefnd sem hafði minnstar heimildir og hins vegar í Corporate Credit Committee sem hafi verið sú nefnd sem fjallað hafi um málefni fyrir­tækja sem voru á fyrirtækjasviði sem ekki fóru yfir tiltekin fjárhæðamörk þar sem mál­um hafi verið vísað til áhættunefndar (e. Risk Committee).  Í kringum áramótin 2007/2008 hafi sóknaraðili verið skipaður í áhættunefnd af forstjóra bankans.

Sóknaraðila hafi einungis borist almennar upplýsingar um rekstur bankans og ein­stakra sviða á fundum framkvæmdastjórnar sem hann hafi farið að sækja í júní 2008.  Þeir fundir hafi fyrst og fremst verið upplýsingafundir en engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi rekstur bankans á þeim fundum sem sóknaraðili hafi sótt.  Engar fund­ar­gerðir hafi verið sendar út eftir þá fundi og því ekki um neinar ákvarðanir að ræða.

Hafi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sem varnaraðili byggi á, verið  nýmæli í lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, en í athugasemdum með 3. mgr. 112. gr. frum­varps­ins er síðar varð að lögum segi að regla þessi sé tekin upp að danskri fyrirmynd til að fyrir­byggja að forráðamenn gjaldþrota félaga og menn nákomnir þrotamanni geti notið for­gangs­réttar fyrir kröfum sínum um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti og orlofsfé.  Sam­bærileg takmörkun sé ekki fyrir hendi í ákvæðum 84. gr. laga nr. 3/1878, sem hafi stundum leitt til mjög óeðlilegra niðurstaðna í framkvæmd. 

Við túlkun og beitingu 3. mgr. 112. gr. laganna verði að líta til þess að um íþyngjandi undan­­tekningu sé að ræða frá 1. mgr. 112. gr. laganna sem mæli fyrir um forgangsrétt launa­krafna við skipti á þrotabúi.  Þá standi jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár til þess að sambærileg tilvik skuli fá sambærilega meðferð og mæli því gegn því að tiltekinn starfsmaður félags njóti minni verndar en samstarfsmaður hans, nema veigamikil rök mæli með þeirri mismunun.  Tilgangur ákvæðisins sé að koma í veg fyrir mjög óeðli­leg­ar niðurstöður sem hafi tíðkast í tíð eldri gjaldþrotaskiptalaga, s.s. þegar forráða­menn gjaldþrota félags sem borið hafi ábyrgð á stefnu félagsins sem komið hafi því í þrot ættu forgangskröfu umfram aðra kröfuhafa sem tapað hafi á athöfnum og/eða athafna­­leysi forráðamannanna.

Orðalag ákvæðisins bendi til þess að ætlun löggjafans hafi verið sú að ákvæðið næði einungis til þeirra sem borið hafi eiginlega ábyrgð á rekstri félagsins og haft hafi úrslita­áhrif um afdrif þess.  Í 3. mgr. 112. gr. laganna séu tilgreindir þrír hópar sem ekki njóti forgangsréttar vegna launakröfu sinnar, þeir sem séu nákomnir þrotamanni, þeir sem hafi átt sæti í stjórn og þeir sem haft hafi með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar.  Hér sé  um þröngan hóp að ræða sem ekki eigi forgangskröfu í þrota­bú sökum stöðu sinnar og/eða möguleika til að hafa áhrif á afdrif félagins.  Ekki sé þörf á því að gera grein fyrir fyrstu tveimur hópunum þar sem sóknaraðili hafi hvorki verið nákominn þrotamanninum né átt sæti í stjórn félagsins.  Því virðist slitastjórn varn­ar­aðila telja að sóknaraðili hafi haft með höndum framkvæmdastjórn félagsins.

Í hlutafélagalögum nr. 2/1995 og lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sé fjallað nokkuð ítarlega um starfsskyldur og ábyrgð framkvæmdastjóra hlutafélaga, en ætla megi að hlutverk stjórnanda þurfi að verulegu leyti að samræmast heimildum, skyld­um og ábyrgð framkvæmdastjóra í nefndum lögum svo að 3. mgr. 112. gr. laga um gjald­þrotaskipti o.fl. eigi við, sbr. orðalag ákvæðisins sem og áðurnefnd lögskýringar­gögn.

Í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sé fjallað um starfskyldur, heimildir og ábyrgð framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja.  Þar segi meðal annars að stjórn og fram­­kvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skuli leggja reglulega mat á eiginfjárþörf fyrir­tæk­isins með hliðsjón af áhættustigi þess, sbr. 1. mgr. 84. gr.  Þá hvíli sú skylda á framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis að tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef ástæða sé til að ætla að eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækisins sé undir lögbundnu lágmarki, sbr. 1. mgr. 86. gr.  Þá skuli stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis semja ársreikning fyrir hvert reikningsár, sbr. 1. mgr. 87. gr. og skuli ársreikningur undirritaður af stjórn og framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 87. gr.  Þá skuli í skýrslu stjórnar koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg séu við mat á fjárhagslegri stöðu hlut­aðeigandi fyrirtækis og afkomu þess á reiknings­árinu er ekki komi fram í árs­reikn­ingn­um, s.s. fjölda starfsmanna að meðaltali á reikn­ings­árinu og heildarfjárhæð launa, þókn­ana eða annarra greiðslna til starfsmanna, framkvæmdastjóra, stjórnar og annarra í þjónustu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, sbr. 1. og 3. mgr. 89. gr.

Hafi sóknaraðili ekki sinnt neinum af þeim verkefnum sem sérstaklega sé getið í ofan­greind­um lögum um fjármálafyrirtæki heldur hafi þau verið í höndum forstjóra varnar­aðila sem ráðinn hafi verið af stjórn varnaraðila, sbr. einnig 15. gr. og 3. tölul. 13. gr. samþykkta varnaraðila frá 19. mars 2008.  Samkvæmt tilkynningu til hluta­félaga­skrár 30. apríl 2007 hafi Lárus Welding einn gegnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins í skilningi 68. gr. hlutafélagalaga.  Því sé ljóst að sóknaraðili hafi ekki haft með hönd­um framkvæmdastjórn félagsins í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þrátt fyrir starfstitil sinn, þar sem hann hafi hvorki haft slík völd né hafi hann borið slíka ábyrgð að réttlætanlegt sé að neita honum um forgangsrétt í búið á grundvelli ákvæðisins.

Kveður sóknaraðili að samkvæmt 65. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 skuli stjórn félags ráða einn til þrjá framkvæmdastjóra, nema kveðið sé á um fleiri framkvæmda­stjóra í samþykktum félags.  Af  samþykktum varnaraðila megi ráða að forstjóri félags­ins hafi einn gegnt hlutverki framkvæmdastjóra í skilningi hlutafélagalaga og sam­þykkta félagsins.  Í samræmi við þetta segi í 3. tölul. 13. gr. samþykkta varnar­aðila að verkefni stjórnar séu meðal annars að ráða einn eða fleiri bankastjóra sem í stjórn­skipulagi félagsins skuli nefnast forstjórar.

Sóknaraðili hafi ekki verið ráðinn af stjórn varnaraðila heldur af forstjóra félagsins, Lárusi Welding, sem hafi verið ráðinn af félagsstjórninni.  Þá hafi sóknaraðili samið við forstjóra um laun.  Þegar af þeirri ástæðu teljist hann ekki framkvæmdastjóri í skilningi hlutafélagalaga, laga um fjármálafyrirtæki eða samþykkta varnaraðila.  Því til stuðnings sé vísað til áðurnefndrar 15. gr. samþykkta varnar­aðila en þar segi að forstjóri fari með daglega stjórn félagsins.

Í 2. mgr. 74. gr. hlutafélagalaga segi að félagsstjórn geti veitt stjórnarmönnum, fram­kvæmda­stjórum eða öðrum heimild til að rita firma félagsins, svo framarlega sem öðru­vísi sé ekki ákveðið í samþykktum þess.  Samkvæmt 78. gr. laganna skuli til­kynna um ráðningu framkvæmdastjóra til hlutafélagaskrár og eftir atvikum birta hana í Lögbirtingablaðinu.  Í 79. gr. laganna segi að félagsstjórn ákveði laun og starfskjör fram­kvæmdastjóra.  Sóknaraðili hafi hvorki verið skráður sem framkvæmdastjóri hjá hluta­félagaskrá né hafi hann haft heimild til að rita firma félagsins. 

Þá kveður sóknaraðili að af 134. gr. hlutafélagalaga, sem fjalli um skaðabótaábyrgð stjórn­enda félags, megi jafnframt ráða að það séu stofnendur, stjórnarmenn, endur­skoð­endur, skoðunarmenn hlutafélags, matsmenn og rannsóknarmenn auk fram­kvæmda­­stjóra í skilningi hlutafélagalaganna sem beri ábyrgð á rekstri félagsins og geti eftir atvikum sætt skaðabótaábyrgð ef þeir hafi valdið félaginu tjóni í störfum sínum. Þar sem sóknaraðili hafi hvorki gegnt hlutverki framkvæmdastjóra í skilningi hluta­félaga­laganna né haft ákvörðunarvald um stefnu félagsins verði ekki talið að hann tilheyri þeim hópi stjórnenda félagsins sem geti borið skaðabótaábyrgð á störfum sín­um á grundvelli 134. gr. hlutafélaganna.

Að lokum megi einnig leita fanga í lögum um ábyrgðarsjóð launa nr. 88/2003, en mark­mið þeirra laga sé meðal annars að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðsl­­ur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda.  Samkvæmt 10. gr. laganna séu nokkrir aðilar undanþegnir ábyrgðinni, en þar segi að kröfur fram­kvæmda­­stjóra og stjórnarmanna gjaldþrota fyrirtækis njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lög­­un­um og sama gildi um kröfur launamanns sem hafi verið eigandi, einn eða ásamt maka sínum eða öðrum nákomnum, að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafi haft umtalsverð áhrif á rekstur þess.

Samkvæmt athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins sem síðar varð að gjald­þrota­skipta­­lögum virðist þessi hópur falla utan ábyrgðarinnar sökum þess að hin rekstrar­lega ábyrgð hvíli á þeim auk þess sem þeir eigi að hafa yfirsýn yfir fjárhagsstöðu félags­ins, en ætla megi að sambærileg sjónarmið liggi að baki 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.  Ekki verði talið að sóknaraðili falli í þennan flokk þar sem hann hafi hvorki verið í stöðu né hafi hann haft möguleika á að breyta stefnu félagsins.

Sé þetta jafnframt í samræmi við norræna réttarframkvæmd en þar sé almennt ekki ein­blínt á starfstitilinn sjálfan heldur raunverulegar starfsheimildir starfsmannsins, hvort hann hafi verið ráðandi um stefnu félagsins og hvort hann hafi verið tilkynntur sem slíkur hjá hlutafélagaskrá.  Slíkir mælikvarðar séu að sjálfsögðu heppilegri enda þurfi starfstitillinn einn og sér ekki að endurspegla raunverulega stöðu starfsmanns innan fyrirtækisins.  Því til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að töluverð „verðbólga“ hafi verið á starfstitlum hérlendra fyrirtækja á undanförnum árum.  Þannig hafi fram­kvæmda­stjórum fjölgað gríðarlega án þess að nokkur raunveruleg breyting hafi verið gerð á starfskipulagi íslenskra fyrirtækja.  Þess þá heldur hafi starfsheitum venju­legra milli­stjórnenda og deildarstjóra verið breytt í framkvæmdastjóra án þess að hlut­verk þeirra innan fyrirtækjanna hafi breyst að nokkru verulegu leyti.

Í ljósi framangreinds verði ekki séð að sóknaraðili hafi haft með höndum fram­kvæmda­stjórn í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 enda hafi hann ekki gegnt hlut­verki framkvæmdastjóra í skilningi laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um fjár­mála­fyrirtæki nr. 161/2002 eða laga um ábyrgðarsjóð launa nr. 88/2003. Þá sé jafn­framt ljóst að varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að undantekningarregla 3. mgr. 112. gr. laga nr 21/1991 eigi við í þessu máli og vísist í því sambandi til dóma­fram­kvæmd­ar Hæstaréttar.

Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að launakrafa sóknaraðila eigi að njóta for­gangs­rétt­ar, enda hafi hann ekki verið ráðinn af stjórn varnaraðila heldur forstjóra félagsins, ekki verið skráður sem framkvæmdastjóri hjá hlutafélagaskrá, hann hafi ekki stýrt daglegum rekstri félagsins og almennt ekki tekið við skipunum frá félagsstjórn heldur frá forstjóra félagsins.  Þá hafi sóknaraðili hvorki haft aðgang né eftirlit með bókhaldi félags­­ins auk þess sem félagsstjórn hafi ekki veitt honum pókúruumboð.

Sóknaraðili kveðst ekki vera kunnugt á hvaða grundvelli varnaraðili telji heimilt að lækka kröfu sóknaraðila.  Telji hann engar forsendur vera fyrir því að víkja frá lengd um­samins uppsagnarfrests.  Í því sambandi vísar sóknaraðili til meginreglu samninga­rétt­­ar um að samninga skuli halda.  Uppsagnarfresturinn sé í samræmi við það sem tíðk­ast hafi víða á þeim tíma er samningurinn var gerður.

Varðandi bifreiðahlunnindin byggir sóknaraðili á þeirri meginreglu vinnuréttar að við upp­­sögn skuli greiða starfsmanni eða heimila honum afnot af því sem honum beri og hann eigi rétt á út uppsagnarfrest.  Hvort sem það séu laun í uppsagnarfresti, upp­safn­að orlof, áfallinn kaupauki, notkun farsíma, notkun bifreiðar o.s.frv.

Höfuðstóll kröfu sóknaraðila samanstandi af umsömdum launum sóknaraðila á upp­sagn­ar­fresti að frádregnum þeim launum sem sóknaraðili þáði frá öðrum launa­greið­endum.  Við útreikninginn hafi verið stuðst við undirritað yfirlit frá launadeild varn­ar­aðila.  Þar komi fram að mismunur grunnlauna á uppsagnarfresti væri 26.042.613 krónur, bifreiðahlunnindi 1.440.000 krónur, lífeyrissjóðsgreiðslur 1.562.557 krónur og lífeyrissjóðsgreiðslur vegna séreignarsparnaðar 1.647.983 krónur. Samtals nemi höfuð­stóll kröfu sóknaraðila því 30.593.153 krónum.

Þá geri sóknaraðili kröfu til orlofs að fjárhæð 3.912.000 krónur, sbr. fundargerð kröfu­hafa­fundar 24. mars 2010, að því leyti sem orlofsfjárhæðin rúmist innan þeirrar heildar­fjárhæðar sem sóknaraðili hafi lýst sem forgangskröfu í þrotabú varnaraðila á grund­velli 112. gr. laga nr.21/1991 að fjárhæð 34.242.536 krónur.  Ef ekki sé fallist á orlofskröfuna standi dráttarvaxtakrafa sóknaraðila að fjárhæð 3.549.383 krónur.

Styðjist kröfur sóknaraðila við 1.-4. töluliði 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 auk þess sem sóknaraðili vísar til meginreglna kröfuréttar og samningsréttar um skuldbind­ing­ar­­gildi samninga sem og laga um samningsveð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.  Þá vísar sóknaraðili til óskráðra reglna samningaréttar um trúnaðar- og tillits­skyld­­ur í samningssambandi og reglna um skaðabætur innan samninga.  Kröfu um máls­­kostnað styður sóknaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála og kröfu um virðisaukaskatt byggir hann á lögum nr. 50/1988 um virðisauka­skatt.

IV

Varnaraðili kveður að meginmarkmið laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé að tryggja jafnræði kröfuhafa.  Forgangsréttur samkvæmt 109-112. gr. laga nr. 21/1991 sé undantekning frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa og beri að skýra þröngt.

Varnaraðili telur að 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um kröfu sóknaraðila enda hafi hann verið framkvæmdastjóri hjá bankanum og setið í framkvæmdastjórn hans.  Hjá varnaraðila hafi starfað um tvö þúsund starfsmenn og hafi starfsemi bank­ans teygt anga sína út fyrir landsteinana.  Framkvæmdastjórn hafi farið með ákvörð­unar­vald í öllum stærri málum, sem ekki hafi heyrt beint undir stjórn félagsins.  Þeir fram­kvæmdastjórar sem átt hafi sæti í framkvæmdastjórninni hafi þannig haft upp­lýs­ing­ar um öll stærstu málefni bankans og hafi þeir tekið ákvarðanir á grundvelli þeirrar vitneskju sinnar.  Með þessu fyrirkomulagi hafi vald bankastjóra því verið framselt til þessara framkvæmdastjóra, enda hafi skipurit bankans ekki gert ráð fyrir því að einn aðili stýrði öllum málefnum bankans frá degi til dags. 

Til þess að skuldbinda bankann gagn­vart þriðja aðila í stærri málum, samkvæmt nánar skilgreindum undirskriftar­regl­um hafi alltaf þurft undirritun tveggja aðila með svo­kallað A-umboð en slíkt umboð hafi allir í framkvæmdastjórn bankans haft, auk banka­stjóra og yfirlögfræðings hans.  Fram­sal á slíkum heimildum feli ótvírætt í sér að við­komandi hafi stöðu fram­kvæmda­stjóra í félaginu, þó svo að tilkynning þess efnis hafi ekki verið send fyrirtækjaskrá Ríkis­skattstjóra.  Tilkynning til fyrirtækjaskrár hafi að auki aðeins þau réttaráhrif að vernda grandlausan þriðja aðila í viðskiptum. 

Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóti þeir sem höfðu með höndum fram­kvæmda­stjórn félags ekki forgangsréttar fyrir kröfum um laun og annað endurgjald.  Ákvæðið sé sett í því skyni að fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga sem hafi farið með ákvörðunarvald um málefni félagsins njóti forgangsréttar fyrir kröfum sínum.  Falli sóknaraðili ótvírætt undir þá skilgreiningu enda hafi hann verið ráðinn fram­­kvæmdastjóri eins og fram komi í ráðningarsamningi þeim sem hann byggi kröfu sína á.

Ekki sé hægt að fallast á það með sóknaraðila að 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé íþyngj­­andi undantekning frá 1. mgr. sömu greinar.  Þvert á móti feli 1. mgr. 112. gr. lag­­anna í sér undantekningu frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa og beri að skýra hana þröngt.  Að mati slitastjórnar varnaraðila njóti enginn af framkvæmdastjórum sem átt hafi sæti í framkvæmdastjórn forgangs fyrir kröfum sínum og séu kröfur þeirra með­­­höndl­­aðar á sama hátt.  Slíkt feli hvorki í sér mismunun né íþyngjandi undan­tekn­ingu, enda hafi sóknaraðili tilheyrt þröngum hópi stjórnenda sem fengið hafi umbun í launa­­kjörum umfram aðra starfsmenn og sé því útilokað að bera hann saman við sam­starfs­­menn eins og sóknaraðili geri.

Í greinargerð sinni fjalli sóknaraðili um eiginlega ábyrgð á rekstri félagsins.  Sókn­ar­aðili hafi tilheyrt framkvæmdastjórn bankans og því þeim þrönga hópi sem ekki eigi for­gangskröfu við slitameðferð bankans.  Í áhættu­nefnd sé til dæmis fjallað um stærstu lánveitingar bankans og sé sú nefnd skipuð æðstu stjórnendum bankans og hafi sókn­ar­aðili verið þar á meðal.  Sóknaraðili hafi verið hluti af framkvæmdastjórn sem farið hafi með daglegan rekstur og hafi hann notið kjara sem fylgt hafi slíkri ábyrgðar­stöðu.  Þess megi geta að sóknaraðili hafi fengið greiddar 55 milljónir króna í bónus á árinu 2007 og 65 milljónir króna í bónus á árinu 2008.  Skipurit bankans sýni glögg­lega það sem að framan greini um stöðu og valdsvið sóknaraðila.

Í greinargerð geri sóknaraðili ítrekað lítið úr völdum sínum og ábyrgð.  Staðreyndin sé hins vegar sú að hann hafi átt sæti í tveimur af mikilvægustu nefndum bankans, þ.e. áhættunefnd og lánanefnd.  Samkvæmt ársreikningi 2007 hafi útlán verið um það bil 80% af eignum bankans og hafi þessi sömu útlán verið til reglulegrar umfjöllunar í áhættunefnd og lánanefnd.  Samkvæmt eðli máls hafi í þessum nefndum verið teknar allar mikilvægustu ákvarðanirnar sem vörðuðu útlán og þar með afkomu bankans og hafi þær ráðið örlögum hans.  Í raun megi segja að áhættu- og lánanefnd hafi verið sá vettvangur þar sem örlög bankans hafi ráðist.  Forstjóri einn og sér hafi formlega séð engar heimildir til útlána.  Útlán til stærstu viðskiptavina hafi verið til umfjöllunar og afgreiðslu í þessum nefndum og þar hafi verið teknar endanlegar ákvarðanir um útlán.  Sóknar­aðili hafi því komið að ákvörðunartöku á fyrirtækjasviði sem og í lánanefndum bankans.

Í greinargerð sóknaraðila sé vísað til hlutafélagalaga nr. 2/1995 og laga um fjármála­fyrirtæki nr. 161/2002 varðandi skilgreiningu á hugtakinu framkvæmdastjóri.  Þau lög inni­haldi ekki skilgreiningu á hugtakinu heldur telji upp tilteknar skyldur fram­kvæmda­­stjóra.  Við mat slitastjórnar á hugtakinu sé litið til eðlis starfans og þess valds til ákvörðunartöku sem sóknaraðili hafi haft.  Eins og fram komi í greinargerð sóknar­aðila sé að finna upptalningu á skyldum framkvæmdastjóra samkvæmt ákvæðum hluta­félaga­laga og laga um fjármálafyrirtæki.  Verði lögin ekki skilin á þann hátt að þar séu sett skilyrði fyrir því hverjir geti talist framkvæmdastjórar samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Komi fram hjá sóknaraðila að samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 skuli stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis leggja reglulegt mat á eiginfjárþörf fyrirtækisins með hliðsjón af áhættustigi þess.  Hafi sóknaraðili verið í einni af mikilvægustu nefndum bankans sem var áhættunefnd og sem nefndarmaður í krafti framkvæmdastjórastöðu sinnar hafi hann borið ábyrgð á því að leggja mat á eiginfjárstöðu með hliðsjón af útlánaáhættu bankans.  Skilyrði um mat á eiginfjárþörf og áhættustigi hafi því fallið undir störf sóknaraðila.

Þá komi fram hjá sóknaraðila að á framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis hvíli sú skylda að tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef ástæða sé til að ætla að eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis sé undir lögbundnu lágmarki sbr. 1. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002.  Að mati varnaraðila hljóti seta sóknaraðila í krafti framkvæmdastjórastöðu sinnar í lánanefndum, til dæmis áhættunefnd, óhjákvæmilega að hafa leitt til þess að honum hafi borið skylda til að fylgjast með og gaumgæfa eiginfjárgrunn bankans.   Á honum hafi óhjákvæmilega hvílt sú skylda að tilkynna til Fjármálaeftirlits ef eiginfjárgrunnur var undir lágmarki.  Breyti hér engu að hann hafi deilt þessari skyldu sinni með öðrum.

Þá komi fram hjá sóknaraðila að stjórn og framkvæmdastjóri skuli semja ársreikning sbr. 1. mgr. 87. gr. laga nr. 161/2002.  Kveður varnaraðili að völd og ábyrgð sóknar­aðila sem framkvæmdastjóra með setu í mikilvægustu nefndum bankans hafi falið í sér að hann hafi óhjákvæmilega tekið þátt í ársreikningsgerð.  Þátttakan hafi meðal annars falist í mati útlána en þau hafi verið langstærsti einstaki eignaliðurinn í efnahag bank­ans og þar undir hafi meðal annars fallið mat á afskriftarþörf útlána sem hafi verið á verksviði áhættunefndar.  Varðandi að ársreikningur skuli vera undirritaður af stjórn og framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 87. gr. þá sé í árs­reikn­ingi varnaraðila fyrir árið 2007 listi yfir helstu yfirmenn og stjórnendur bank­ans og þar sé að finna nafn og mynd af Guðmundi Hjaltasyni forvera sóknaraðila í starfi.  Þar sé einnig að finna mynd af sjö öðrum framkvæmdastjórum (e. Executive Vice Presidents) og stutt kynning á hverjum fyrir sig enda séu þeir aðilar að fram­lögð­um ársreikningi.

Í skýringu 19. greinar ársreiknings sé einnig að finna nafn forvera sóknaraðila.  Það er því ljóst að laun, bónusar og nafnbirting beri vitni um mikilvægi framkvæmda­stjóra­stöðu sóknaraðila hjá bankanum.  Bankastjórinn einn undirriti hins vegar árs­reikn­ing­inn sem fulltrúi framkvæmdastjórnar bankans.

Sóknaraðili haldi því fram að hann hafi ekki haft með höndum framkvæmdastjórn og vísi í því sambandi til 68. gr.  hlutafélagalaga.  Þessu beri að alfarið að hafna.  Hér beri ein­ung­is að horfa til 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem segi að hvorki þeir sem séu nákomnir þrotamanni njóti réttar samkvæmt 1.–3. töluliðum 1. mgr. fyrir kröfum sínum né þeir sem hafi átt sæti í stjórn eða haft með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar sem sé til gjaldþrotaskipta.  Lykilatriðið sé að menn hafi haft með höndum framkvæmdastjórn.  Samkvæmt skipuriti bankans hafi sóknaraðili borið titil­inn EVP (e. Executive Vice President) en það sé æðri titill en framkvæmdastjóri sam­kvæmt íslensku máli.  Undir sóknaraðila hafi starfað all nokkrir framkvæmda­stjór­ar (e. Managing Directors). 

Lárus Welding hafi gegnt stöðu bankastjóra (forstjóra) í samræmi við samþykktir bank­ans.  Sóknaraðili vitni í staðlað eyðublað um breytingu á framkvæmdastjórn en það form hafi ekkert lagagildi og sé ekki miðað við lög um fjármálafyrirtæki.    Orða­lag í hinni stöðluðu tilkynningu sé ekki miðað við þarfir alþjóða fjármálstofnana.

Sóknaraðili haldi því fram að hann hafi ekki verið framkvæmdastjóri í skilningi hluta­félaga­laga, laga um fjármálafyrirtæki eða samþykkta varnaraðila.  Eins og nú hafi verið rakið sé ljóst að sóknaraðili hafi haft með höndum framkvæmdastjórn hjá varn­ar­­aðila í skilningi laga um gjaldþrotaskipti sem og annarra viðkomandi laga.

Sóknaraðili haldi því fram að samkvæmt samþykktum bankans megi ráða að banka­stjóri félagsins hafi einn gegnt hlutverki framkvæmdastjóra, enda komi fram í 3. mgr. 13. gr. samþykkta félagsins að eitt af verkefnum stjórnar sé að ráða einn eða fleiri banka­­stjóra sem í stjórnskipulagi félagsins skuli nefnast forstjórar.  Ákvæðið feli ein­ung­is í sér hvernig staðið skuli að ráðningu forstjóra en í engu sé fjallað um aðra stjórn­endur bankans.  Þó að sóknaraðili hafi ekki verið ráðinn beint af stjórn félagsins breyti það ekki stöðu hans hjá félaginu þar sem hann hafi farið með framkvæmda­stjórn ásamt fleirum.  Þannig hafi það verið bókað á stjórnarfundi hinn 19. mars 2008 að sóknaraðili fengi A-umboð til þess að rita firma félagsins en slíkt umboð hafi stjórn­in ein verið fær um að veita í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga og samþykkta félagsins.  Þessi bókun stjórnarinnar renni frekari stoðum undir þá staðreynd að sókn­ar­aðili hafi verið einn af framkvæmdastjórum félagsins enda veiti stjórn félagsins sókn­­ar­­aðila víðtækar heimildir í ljósi stöðu hans til þess að skuldbinda bankann og stað­festi því með ákvörðun sinni stöðu sóknaraðila hjá bankanum.

Í undirskriftarreglum bankans sem staðfestar hafi verið af stjórn félagsins 19. mars 2008 segi:

„Forstjóri Glitnis banka hf., meðlimir framkvæmdastjórnar bankans og forstöðumaður lög­fræði­deildar hans hafa A-umboð sem bundin eru stöðum þeirra, en önnur umboð sam­kvæmt reglum þessum eru persónubundin.  B- og C-umboðum skal úthlutað af fram­an­greindum aðilum til starfsmanna sem undir þá heyra samkvæmt skipuriti bank­ans.  Framkvæmdastjórn getur ákveðið að veita öðrum starfsmönnum en þeim sem til­greind­ir eru í 1. málslið A-umboð og verða slík umboð einnig afturkölluð með ákvörð­un framkvæmdastjórnar.“

Varðandi skuldbindingargildi undirskrifta segi í kafla 2.1. í undirskriftareglum bankans að undirskriftir tveggja starfsmanna með A-umboð skuldbindi bankann óháð fjár­hæð skuldbindingar.

Hafi sóknaraðili því samkvæmt ofangreindum undirskriftarreglum haft ótakmarkað umboð til að skuldbinda bankann út á við.  Til að undirstrika það vald og ábyrgð sem sókn­araðili hafi fengið með svokölluðu A-umboði megi geta þess að bankastjóri varn­ar­aðila hafi ekki einn haft þetta ótakmarkaða umboð.  Af þessu megi sjá að stjórn félags­ins hafi með ákvörðun sinni staðfest valdheimildir sóknaraðila og stöðu hans sem framkvæmdastjóra innan félagsins.

Þá beri sóknaraðili fyrir sig að hann hafi ekki getað borið skaðabótaábyrgð vegna starfa sinna.  Varnaraðili kveður að forráðamenn bankans hafi verið tryggðir gagnvart bótaskyldu og þannig hafi verið litið svo á að bankinn þyrfti að tryggja sóknaraðila með hliðsjón af 134. gr. hlutafélagalaga.

Sóknaraðili kveðist ekki falla í flokk framkvæmdastjóra og að hann hafði ekki haft möguleika á að breyta stefnu félagsins.  Á þetta fellst varnaraðili ekki þar sem sóknar­aðili hafi vissulega verið í stöðu til að hafa áhrif á stefnu bankans á sínum starfs­svið­um og hann hafi haft neitunarvald í áhættunefnd.

Þá taki sóknaraðili fram að samkvæmt norrænni réttarframkvæmd sé almennt ekki einblínt á starfstitilinn sjálfan heldur raunverulegar starfsheimildir starfsmannsins.  Fallast megi á þetta með sóknaraðila þar sem seta í framkvæmdastjórn hafi veitt honum bæði völd og áhrif auk þess sem seta hans í tveimur mikilvægustu nefndum bankans hafi veitt honum raunverulegar starfsheimildir langt umfram þær starfs­heimild­ir sem framkvæmdastjóratitillinn hafi fært honum.

Í lögum um ábyrgðarsjóð launa nr. 88/2003 sé engin skilgreining á hugtakinu fram­kvæmda­stjóri heldur einungis vísað til þess að kröfur framkvæmdastjóra njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum.  Um skilgreiningu hugtaksins þurfi að líta til stöðu við­kom­andi og möguleika til að hafa yfirsýn yfir fjárhagsstöðu félagsins.  Þá stöðu hafi sókn­ar­aðili haft auk þess sem hann hafi farið með ákvörðunarvald í málefnum félags­ins ásamt öðrum sem sæti hafi átt í framkvæmdastjórninni.  Raunverulegar starfs­heim­ild­ir sóknaraðila staðfesti stöðu hans innan félagsins.  Sóknaraðili hafi verið fram­kvæmda­stjóri fyrirtækjasviðs bankans.  Á því sviði hafi fjöldi starfsmanna starfað und­ir hans stjórn.  Þá hafi hann setið í framkvæmdastjórn bankans og haft þar ákvörð­un­ar­vald og yfirsýn yfir fjárhag félagsins auk þess sem hann hafi haft möguleika til að hafa áhrif á afdrif félagsins.  Hafi staða hans innan bankans verið þess eðlis að krafa hans geti ekki notið forgangsréttar á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Eins og fram hafi komið hafi verið gerður nýr ráðningarsamningur við sóknaraðila 3. mars 2008.  Með þeim samningi hafi honum verið veittur átján mánaða uppsagnar­frest­ur í stað sex mánaða sem hann hafi áður haft.  Á sama tíma hafi uppsagnafrestur til­tek­inna lykilstarfsmanna verið lengdur.  Af gögnum bankans verði ekki annað ráðið en að þessi ákvörðun hafi verið tekin af forstjóra bankans, án þess að vera rædd sérstak­lega í stjórn hans, en leiða megi það af bókun stjórnarfundar hinn 19. mars 2008 að stjórnin hafi staðfest stöðu sóknaraðila sem framkvæmdastjóra bankans.

Af rúmlega tvö þúsund starfsmönnum bankans hafi aðeins útvalinn hópur starfsmanna fengið uppsagnarfrest sinn lengdan á vormánuðum 2008.  Flestir þessara starfsmanna hafi verið í þeirri stöðu að geta haft áhrif á ákvarðanatöku bankans og haft yfirsýn yfir fjár­hags­stöðu hans á þeim tíma.  Uppsagnarfresturinn hafi ekki verið í samræmi við það sem tíðkast hafi á þeim tíma sem samningurinn var gerður og íþyngjandi fyrir félag­ið. 

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 geti þrotabú, í þessu tilviki slitastjórn, sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur.  Af dómaframkvæmd megi ráða að þegar um gagnkvæma samninga sé að ræða hafi gjaldþrota félag heimild til þess að ákveða hvort það taki við réttindum og skyldum samkvæmt gagnkvæmum samningi.  Ástæðan fyrir umræddu lagakvæði sé sú að forsendur fyrir því að halda umræddu réttarsambandi áfram í þann tíma sem samningur tiltók hafi brostið við gjaldþrotið.  Sé það andstætt reglunni um jafnræði kröfuhafa sem gjaldþrotalögin séu reist á að binda aðila við umræddan ráðn­ing­arsamning. 

Ljóst sé að þegar ráðningarsamningurinn við sóknaraðila var gerður hafi framtíð varn­ar­aðila verið ótrygg og hafi sóknaraðila mátt vera það ljóst stöðu sinnar vegna. Varn­ar­aðili telur að venjulegur og sanngjarn uppsagnarfrestur sé sex mánuðir enda sé það sá uppsagnarfrestur sem lengstur sé fenginn í kjarasamningum almennra starfsmanna varn­ar­aðila á þeim tíma sem um ræði.

Samkvæmt kafla 11.2 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins (SA) og samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) áður SÍB, sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur fastráðinna starfsmanna þrír mánuðir frá byrjun næsta mánaðar að telja.  Þá segi að starfsmanni sem starfað hafi í að minnsta kosti 10 ár eða hafi náð 45 ára aldri verði ekki sagt upp með skemmri uppsagnarfresti en sex mánuðum.

Á grundvelli alls ofangreinds hafi það verið afstaða slitastjórnar að samþykkja sex mánaða uppsagnarfrest að frádregnum þeim launum sem sóknaraðili naut á uppsagn­ar­fresti frá öðrum vinnuveitanda.

Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar varnaraðili til meginreglna gjaldþrota-, samninga- og kröfuréttar.  Málskostnaðarkröfu sína styður hann við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V

Eins og fram er komið snýst ágreiningur aðila einkum um fjárhæð kröfu sóknaraðila og hvar skipa skuli henni í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila.  Sóknaraðili krefst aðallega viðurkenningar á því að krafa hans að fjárhæð 34.242.536 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Til vara krefst hann þess að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna.

Ekki er ágreiningur í málinu um að krafa sóknaraðila falli innan skilgreiningar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem fjallað er um forgangskröfur.  Þannig er óumdeilt í málinu að sóknaraðili eigi rétt á launum í uppsagnarfresti samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 112. gr. laganna.  Ekki er tölulegur ágreiningur um þá fjárhæð sem sóknaraðili á rétt á fyrir hvern mánuð að teknu tilliti til launa frá nýjum vinnuveitanda, Nýja Glitni hf., nú Íslandsbanka hf., heldur deila aðilar um tímalengd uppsagnarfrestsins.  Sóknaraðili krefst þess að viður­kennt verði að hann eigi rétt á launum í uppsagnarfresti í átján mánuði eins og ráðn­ing­arsamningur aðila gerir ráð fyrir en varnaraðili telur með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 að hæfilegur uppsagnarfrestur í tilfelli sóknaraðila sé sex mánuðir. 

Með hinum nýja ráðningarsamningi sem gilti frá 1. mars 2008 var uppsagnarfrestur lengdur í átján mánuði en hafði í hinum fyrri verið samkvæmt kjarasamningi sem getur lengstur orðið sex mánuðir. 

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 getur þrotabú sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur, nema samn­ingnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberlega með hliðstæðum hætti.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að sóknaraðili sat frá árinu 2007 í áhættu- ­og lánanefndum varnaraðila.  Kemur fram í gögnum málsins að lána­nefnd­irnar afgreiði lánabeiðnir sem séu yfir lánveitingamörkum starfsmanna samkvæmt til­greindri heimildartöflu.  Séu ákvarðanir um lánveitingar teknar á grund­velli tillagna starfs­stöðva og dótturfyrirtækja.  Þá hafi lánanefndirnar og markaðs­áhættu­nefndin heimild áhættunefndar til að samþykkja eða hafna tillögum sem varði lánaáhættu eða markaðsáhættu.  Þá hafi hver nefndarmaður rétt  til að hafna ákvörðun um lánveitingu.   Með tilliti til þessara valdheimilda sóknaraðila og þeirrar þekkingar sem ætla má að sóknaraðili hafi haft með setu í nefndum þessum verður að gera ráð fyrir að sóknaraðila hafi, stöðu sinnar vegna, hlotið að vera kunnugt um að staða varnaraðila væri ótrygg þegar ráðningarsamningurinn var undirritaður.  Má því telja, með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991, sex mánaða uppsagnarfrest sanngjarnan en það er sá upp­sagnarfrestur sem lengstur er samkvæmt kjarasamningi þeim sem gilti um starfs­menn varnaraðila og vísað var til í fyrri ráðningarsamningi aðila.  Verður að telja að varn­ar­aðili hafi í raun sagt upp ákvæði ráðningarsamnings um átján mánaða upp­sagn­ar­frest með uppsagnarbréfi til sóknaraðila 24. október 2008, en þar er sérstaklega tekið fram að uppsagnarfrestur sé samkvæmt tilgreindum kjarasamningi.

Ekki er ágreiningur um fjárhæð þeirra mánaðarlegu greiðslna sem sóknaraðili á rétt á að fá greiddar í uppsagnarfresti, þ.e. mismunur þeirra launa sem hann hafði hjá varnar­aðila og þeirra launa sem hann hafði hjá nýjum vinnuveitanda.  Með vísan til þess á sóknaraðili rétt á greiðslum vegna launa í uppsagnarfresti á sex mánaða tímabili sem nemur 8.398.688 krónum.

Er ekki ágreiningur um að hlutfall lífeyrissjóðsiðgjalda af þeirri fjárhæð séu 1.070.838 krónur.  Með því að varnaraðili hefur samþykkt að sóknaraðili eigi rétt á þeirri fjárhæð eru ekki efni til þess að fjalla um það hvort sóknaraðili eigi með réttu aðild að kröfu þessari á grundvelli 4. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. 

Varnaraðili hefur viðurkennt að vextir af kröfunni til 22. apríl 2009 sé að fjárhæð 487.519 krónur og hefur þeim útreikningi ekki verið andmælt sérstaklega. 

Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða að hann geri nú kröfu til greiðslu orlofs að fjárhæð 3.912.000 krónur, að því marki sem hún kunni að falla innan heildarkröfu hans.  Sóknaraðili hafði ekki lýst slíkri kröfu.  Eins og að framan er rakið hafði varnaraðili fyrir mistök reiknað orlof á kröfu sóknaraðila en eins og gögn málsins bera með sér svo óyggjandi sé, yfirtók hinn nýi vinnuveitandi sóknaraðila, Nýi Glitnir banki hf., nú Íslandsbanki hf., orlofs­skuld­bind­ing­ar sóknaraðila sem hann hafði áunnið sér hjá varnaraðila.  Hefur sóknaraðili ekki lagt fram haldbær gögn sem hnekkja fyrirliggjandi gögnum um þetta og verður hann að bera hallann af því.  Þegar af þessum ástæðum verður ekki tekin til greina krafa sóknaraðila um orlof.

Samkvæmt gögnum málsins hélt sóknaraðili bifreið þeirri er hann hafði til afnota í sex mánuði frá því að honum var sagt upp.  Með vísan til þess að sóknaraðili telst ekki hafa átt lengri uppsagnarfrest en sex mánuði á hann ekki frekari kröfur vegna bifreiðahlunninda.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er viðurkennt að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila vegna launa í uppsagnarfresti, launatengdra gjalda og vaxta samtals að fjárhæð 9.957.035 krónur eins og slitastjórn varnaraðila hefur viðurkennt. 

Varnaraðili hefur hafnað forgangsrétti kröfu sóknaraðila á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.  Byggir varnaraðili afstöðu sína til kröfunnar á því að sóknaraðili hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs hjá varnaraðila auk þess sem hann hafi átt sæti í lána- og áhættunefnd og setið framkvæmdastjórn varnaraðila.  Falli hann því undir þá sem tilgreindir séu í ákvæðinu og njóti krafa hans því rétthæðar sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 2171991 við slitameðferð varnaraðila.

Sóknaraðili hefur í málatilbúnaði sínum látið að því liggja að varnaraðili hafi virt jafn­ræðis­reglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. hennar, að vettugi þegar aðrir sem setið hafi í áhættu- og launanefndum og verið í framkvæmdastjórn hafi fengið launakröfur sínar greiddar sem forgangskröfur.  Hefur varnaraðili mótmælt því að þeir sem setið hafi í framkvæmdastjórn hafi fengið launakröfur sínar viðurkenndar sem forgangs­kröfur.  Eru engin haldbær gögn fyrirliggjandi um það að öðruvísi hafi verið farið með kröfur annarra framkvæmdastjóra sem höfðu sömu stöðu og sóknaraðili við slitameðferð varnaraðila og verður því ekki séð að slitastjórn hafi gengið á svig við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar með afstöðu sinni til kröfu varnaraðila.

Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eins og hún hljóðaði fyrir breytingu með 19. gr. laga nr. 95/2010 gat sá sem hafði með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar sem væri til gjaldþrotaskipta ekki notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum sem ella hefði verið skipað í réttindaröð samkvæmt 1., 2. eða 3. tölulið 1. mgr. 112. gr. laganna.  Í 3. mgr. 112 gr. laganna var ekki rætt um starfsheiti þeirra sem ákvæðið tók til heldur náði það samkvæmt orðanna hljóðan til þeirra sem fóru með framkvæmda­stjórn félags eða stofnunar.  Ákvæði þetta var nýmæli frá því sem gilti fyrir setningu laganna.  Kemur fram í greinargerð með lögunum að lagt sé til að tekin verði upp regla að danskri fyrirmynd til að fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga og menn nákomnir þrotamanni geti notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum um vinnu­laun, laun í uppsagnarfresti og orlofsfé.  Sambærileg takmörkun hafi ekki verið til staðar í eldri lögum sem hafi stundum leitt til mjög óeðlilegra niðurstaðna í fram­kvæmd  Af framangreindu verður ráðið að ekki sé eingöngu átt við þann sem að form­inu til er titlaður framkvæmdastjóri í samræmi við 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og tilkynntur sem slíkur til hlutafélagaskrár heldur eigi ákvæðið einnig við þann for­ráða­mann félags sem hefur raunverulega yfirmannsstöðu.  Þá verður ekki af ofan­greindu ráðið að til þess að undantekningarákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við, þurfi hlutverk viðkomandi að verulegu leyti að vera í samræmi við heimildir, skyldur og ábyrgð framkvæmdastjóra í skilningi hlutafélagalaga og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.  Þá þykja ákvæði 13.3 og 15 í samþykktum varnaraðila eða 10. gr. laga nr. 88/2003 um ábyrgðarsjóð launa ekki girða fyrir að umrætt undantekningarákvæði geti átt við í tilviki sóknaraðila. 

Við mat á því hvort undantekningar­ákvæði 3. mgr. 112. gr. laganna eigi við í tilfelli sóknaraðila verður að líta til þess hvort hann hafði raunveru­lega yfirmannsstöðu hjá varnaraðila.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið ræður starfsheitið framkvæmdastjóri eitt og sér því ekki hvort sóknaraðili falli undir þá sem greinir í 3.mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 heldur verður að líta til frekari þátta við ákvörðun á því hvort sóknaraðili geti fallið undir það að verða talinn hafa verið forráðamaður hjá varnaraðila, s.s. möguleika hans til áhrifa innan bankans, stjórnunarheimilda, verksviðs og launakjara.

Sóknaraðili hafði, eigi síðar en frá því í mars 2008 og þar til hann hætti störfum hjá varnaraðila á árinu 2008, starfstitilinn framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.  Þá sat hann eins og fram er komið í lánanefnd og áhættunefnd varnaraðila frá árinu 2007 og frá maí 2008 sat hann í framkvæmdastjórn varnaraðila ásamt tíu öðrum framkvæmda­stjór­um varnaraðila.  Eins og fram kemur hjá varnaraðila sem hefur ekki verið andmælt af hálfu sóknaraðila voru í áhættunefnd teknar ákvarðanir um öll stærstu útlán bankans auk þess sem nefndin hafði með höndum veðköll og þar voru teknar ákvarðanir um afskriftir útlána við ársreikningagerð.  Þá mun áhættunefnd hafa gert tillögur um útlánaheimildir fyrir lánanefndir og ákveðið framkvæmd lánamála innan bankans.  Þá hafði hver nefndarmaður neitunarvald.  Þá mun lánanefnd hafa lagt mat á lánsumsóknir og metið lánaáhættu sem hafi verið umfram lánaheimildir annarra lánanefnda. 

Þá hefur þeim fullyrðingum varnaraðila um að framkvæmdastjórn varnaraðila hafi farið með ákvörðunarvald í öllum stærri málum, sem ekki heyrðu beint undir stjórn félagsins, ekki verið andmælt af sóknaraðila.  Þannig kemur fram í fréttatilkynningu forstjóra varnar­aðila, Lárusar Welding 14. maí 2008 þar sem tilkynnt er um skipan sex lykil­starfs­manna í framkvæmdastjórn bankans, en sóknaraðili var einn þeirra, að hann sé mjög ánægður með þann trausta hóp sem nú bætist í framkvæmdastjórn bankans.  Þarna sé á ferð öflugur hópur manna sem hafi starfað lengi fyrir bankann og hafi mikla reynslu úr fjármálaheiminum.  Þeir þekki starfsemi bankans og viðskiptavini mjög vel og búi yfir þeim eiginleikum sem þurfi til að styrkja starfsemi og bæta sam­keppn­is­­stöðu varnaraðila enn frekar.  Má af framangreindu ráða að þeir framkvæmda­stjór­ar sem áttu sæti í framkvæmdastjórninni höfðu upplýsingar um öll stærstu málefni varnaraðila og að þeir hafi tekið ákvarðanir á grundvelli þeirrar vitneskju sinnar. 

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið var sóknaraðili einn af lykilstarfsmönnum varnaraðila.  Þá þykja launakjör hans renna stoðum undir að hann hafi verið meðal æðstu stjórnenda varnaraðila en fyrir liggur að á árinu 2007 fékk hann bónusgreiðslu að fjárhæð 55.000.000 króna og á árinu 2008 fékk hann bónusgreiðslu að fjárhæð 65.000.000 króna.  Þá voru mánaðarlaun hans fyrir utan hlunnindi 2.500.00 krónur.   Kemur fram yfirliti yfir launahæstu starfsmenn varnaraðila á árinu 2007 hafi sóknaraðili verið 10. sæti og á árinu 2008 hafi hann verið í 7. sæti. 

Þá er þess að gæta að sóknaraðili svokallað A-umboð en til þess að skuldbinda bank­ann gagnvart þriðja aðila í stærri málum samkvæmt nánar skilgreindum undir­skriftar­reglum þurfti alltaf undirritun tveggja aðila með slíkt umboð og slíkt umboð höfðu allir í framkvæmdastjórn auk bankastjóra og yfirlögfræðings.  Þá sýna skipurit bankans svo ekki verði um villst að sóknaraðili var einn af æðstu stjórnendum bankans en á þeim tíma sem hér um ræðir voru starfsmenn yfir 2.000 talsins.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að sóknaraðili hafði raun­veru­lega yfirmannsstöðu með höndum hjá varnaraðila.  Þykir engu breyta að hann hafi verið ráðinn af forstjóra og heyrt beint undir hann.  Nýtur krafa sóknaraðila því ekki for­gangsréttar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna, heldur verður hún viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 9.957.035 krónur. 

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Arnar Þór Jónsson hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Krafa sóknaraðila, Magnúsar Arnars Arngrímssonar, að fjárhæð 9.957.035 krónur er viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila, Glitnis banka hf., en hafnað er að viðurkenna hana sem forgangskröfu.

Málskostnaður fellur niður.