Hæstiréttur íslands

Mál nr. 604/2006


Lykilorð

  • Frelsissvipting
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2007.

Nr. 604/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Frelsissvipting. Sératkvæði.

X var ákærður fyrir frelsissviptingu með því að hafa haldið Y, starfsmanni Orkuveitu Reykjavíkur, nauðugri í um hálfa klukkustund á skrifstofu fyrirtækis hans í nánar tilgreindu húsi í Kópavogi. X hafði komið að Y í sameignarhluta hússins þar sem hún hafði lokað fyrir rafmagn til þess hluta hússins sem X starfaði í vegna ætlaðra vangoldinna reikninga þrátt fyrir að fyrir lægi að X hefði greitt fyrir rafmagnsnotkun í húshlutanum fram yfir umræddan tíma. Féllst Y á að koma með X inn á skrifstofu hans í húsinu en vilji X stóð til þess að Y yrði á staðnum þar til skýringar hefðu fengist hjá Orkuveitunni á lokunaraðgerðinni, og síðar, eftir að hringt var á lögreglu, þar til hún væri komin á staðinn. Þegar litið var til þess að Y fór sjálfviljug með X inn á skrifstofu hans, ósannað var að Y hefði leitað útgöngu úr húsnæðinu meðan á þessu stóð og þar með að ákærði hefði hindrað slíkar fyrirætlanir með valdi, og þess skamma tíma sem þessir atburðir stóðu yfir, var ekki fallist á að X teldist sannur að því að hafa brotið gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 umrætt sinn. Var hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins og skaðabótakröfu Y vísað frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða Y 124.500 krónur í skaðabætur.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, frávísunar bótakröfu frá héraðsdómi og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Málsatvikum og efni ákæru er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði kom að starfsmanni Orkuveitu Reykjavíkur 24. febrúar 2006 í sameignarhluta hússins að [...] í Kópavogi eftir að starfsmaðurinn hafði lokað fyrir rafmagn til þess hluta hússins sem ákærði starfaði í, þrátt fyrir að ákærði hefði 20. febrúar 2006 greitt fyrir rafmagnsnotkun í húshlutanum til 1. mars 2006. Aðila greinir ekki á um að starfsmaðurinn hafi fallist á að koma með ákærða inn á skrifstofu hans í húsinu. Kveðst ákærði hafa viljað að starfsmaðurinn yrði viðstaddur meðan hann hefði símsamband við Orkuveitu Reykjavíkur til að fá skýringar á lokuninni og starfsmaðurinn fallist á það.

Upplýsingar eru um að lokað hafi verið fyrir rafmagnið klukkan 11.12 umræddan dag. Fyrstu viðbrögð ákærða segir hann hafa verið að kanna rafmagnstöflu í þeim enda hússins þar sem skrifstofa hans var, því næst hafi hann gengið út úr húsinu og í þann enda þess, þar sem rafmagnstöflu hússins alls er að finna. Þar hitti hann starfsmann Orkuveitunnar fyrir, sem skýrði honum frá erindum sínum. Krafðist ákærði þess að opnað yrði fyrir rafmagnið á ný og varð starfsmaðurinn við því. Þaðan gengu þau til baka og inn í skrifstofu ákærða. Af þessu má álykta að nokkur tími hafi liðið frá því lokað var fyrir rafmagnið þar til fólkið var komið inn á skrifstofuna. Fyrir liggur að bæði ákærði og starfsmaðurinn höfðu símsamband við Orkuveituna eftir að inn var komið. Leiddi það til þess að einhver á skrifstofu Orkuveitunnar hafði samband við lögreglu og óskaði eftir að hún færi á vettvang án þess að upplýst hafi verið í málinu nánari atvik að þeirri beiðni. Samkvæmt lögregluskýrslu var haft samband við lögreglu klukkan 11.28 og komu lögreglumenn á vettvang klukkan 11.38. Ákæran lýtur að því að ákærði hafi svipt starfsmanninn frelsi þann tíma sem þau voru stödd inni á skrifstofunni, þar til lögreglan kom á staðinn, þannig að varði við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Virðist þetta tímabil geta verið að hámarki 20 mínútur en er að líkindum nokkru skemmri tími.

Upplýst er í málinu að vilji ákærða stóð til þess að starfsmaður Orkuveitunnar færi ekki af staðnum, fyrst þar til skýringar hefðu fengist hjá Orkuveitunni á lokunaraðgerðinni, þrátt fyrir fyrrnefnda greiðslu, og síðan, eftir að hringt var til lögreglu, þar til hún væri komin á staðinn. Liggur fyrir að hann tjáði starfsmanninum þennan vilja sinn og benda gögn málsins til þess að starfsmaðurinn hafi meðan á þessu stóð verið orðinn hræddur við ákærða, sem talaði hátt og taldi sig órétti beittan. Þegar á hinn bóginn er litið til þess, að starfsmaðurinn fór sjálfviljugur með ákærða inn í húsnæðið í því skyni sem lýst var, ósannað er að starfsmaðurinn hafi leitað útgöngu úr húsnæðinu meðan á þessu stóð og þar með að ákærði hafi hindrað slíkar fyrirætlanir með valdi, og þess skamma tíma sem þessir atburðir stóðu yfir, verður ekki fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, að ákærði teljist sannur að því að hafa brotið gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga umrætt sinn. Því verður hann  sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins í málinu. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður bótakröfu Y vísað frá héraðsdómi.

Eftir þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður málsins lagður á ríkissjóð. Ákvörðun í hinum áfrýjaða dómi um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða verður staðfest. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti verða ákveðin á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvalds.

Skaðabótakröfu Y er vísað er frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, sem ákveðin voru í hinum áfrýjaða dómi, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.500 krónur.

 

 

 

Sératkvæði

Ingibjargar Benediktsdóttur

Eins og fram kemur í héraðsdómi var starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur, Y, send á starfsstöð fyrirtækisins A ehf., [...], Kópavogi til að loka fyrir rafmagn föstudaginn 24. febrúar 2006. Í því skyni fór hún í rými í sameign í kjallara hússins. Er hún hafði lokið við verk sitt kom ákærði þangað og bað hana að opna á ný fyrir rafmagnið þar sem fyrirtækið væri þegar búið að greiða skuld sína við Orkuveituna. Bar konan fyrir dómi að hún hafi tjáð honum að hún væri aðeins að sinna starfi sínu og jafnframt beðið hann að hafa samband við innheimtudeild Orkuveitunnar og ræða þetta við starfsmenn hennar. Ákærði hafi ekki fallist á það heldur skipað sér að opna fyrir rafmagnið á ný. Kvaðst hún hafa talið best í þessari stöðu að verða við skipun hans og beiðni hans að fylgja honum á skrifstofuna, enda hafi hún verið ein með ákærða niðri í kjallaranum og hann verið „mjög ógnandi fyrir aftan hana og með raddbeitingum og skipaði mér í rauninni að opna“. Ákærði hefur viðurkennt að hann hafi skipað konunni að opna fyrir rafmagnið að nýju eftir að hún hafði lokað fyrir það, en óumdeilt er að þá var klukkan 11.12. Í kjölfar þessa fylgdi konan ákærða á skrifstofu hans. Hún hefur staðfastlega haldið því fram að ákærði hafi þá lokað hurðinni á eftir þeim og meinað henni að fara út. Hann hafi verið mjög æstur og reiður og sagt henni að hún færi ekki út fyrr en hann væri búinn að ganga frá þessu máli. Á meðan ákærði hringdi í Orkuveituna hafi hún hringt úr síma sínum á skrifstofu Orkuveitunnar og beðið þá að „leysa sig út“. Ákærði neitaði því að hafa haldið konunni á skrifstofunni gegn vilja hennar. Hún hafi alltaf getað gengið út. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að óskað var lögregluaðstoðar í húsnæði A ehf. kl. 11.28 og að lögreglan kom á staðinn tíu mínútum síðar. Ákærði hefur viðurkennt fyrir dómi að hann hafi sagt við konuna að hún fengi ekki að fara fyrr en lögreglan kæmi á staðinn. Það sama bar eiginkona hans fyrir dómi. Tveir lögreglumenn komu á staðinn og báru að ákærði hafi sagt við konuna þegar hún ætlaði að ganga út úr skrifstofunni að hún færi ekki út fyrr en lögreglan hefði talað við hana. Hafi hann jafnframt reynt að hindra hana í að ganga út með því að halda uppi annarri eða báðum höndum. Bar annar þeirra jafnframt að í kjölfarið hafi konan verið grátandi og í miklu uppnámi. Með vísan til alls þessa og að öðru leyti til forsendna hins áfrýjaða dóms tel ég hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi heft frelsi konunnar þann tíma sem hún dvaldi á skrifstofu hans. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að sakfella ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar sem meiri hluti dómenda vill sýkna ákærða er hvorki þörf á að taka afstöðu til refsingar ákærða, skaðabóta né sakarkostnaðar.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2006.

Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 14. júní 2006, gegn X [kennitala] [heimilisfang], ,,fyrir frelsissviptingu með því að hafa, skömmu eftir kl. 11 föstudaginn 24. febrúar 2006, haldið Y nauðugri í um hálfa klukkustund á skrifstofu fyrirtækisins A ehf. að [...] Kópavogi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Y [kennitala], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 100.000 auk greiðslu lögmannsþóknunar, kr. 24.500.”

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og er miskabótakröfunni mótmælt. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málsatvik.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu er upphaf máls þessa að rekja til þess að kl. 11:28 þann 24. febrúar sl. var óskað eftir aðstoð lögreglu í húsnæði fyrirtækisins A ehf. að [...] í Kópavogi. Segir í skýrslunni að þegar lögregla kom á staðinn kl. 11:38 hefði kona að nafni B opnað fyrir henni. Fyrst hefðu lögreglumennirnir komið inn í vinnusal eða sýningarsal en þar fyrir innan sé skrifstofa fyrirtækisins. Ákærði hefði staðið við skrifstofudyrnar en fyrir innan hann í norðvesturhorni skrifstofunnar hefði Y staðið.

Lögreglumennirnir lýstu atvikum þannig að þeir hefðu gengið inn á skrifstofuna og rætt við ákærða og séð að Y ætlaði að ganga fram hjá ákærða að skrifstofudyrunum en ákærði hefði þá reynt að stöðva hana með þeim orðum að hún færi ekki fyrr en lögreglan hefði talað við hana. Lögreglumennirnir hefðu sagt ákærða að hann gæti ekki haldið konunni inni og hefði ákærði þá hleypt henni fram hjá sér og hún farið út.

Í frumskýrslunni er rakið að á vettvangi hafi lögreglumaðurinn C rætt við ákærða, sem hefði kannast við að hafa ekki hleypt Y út og að hann hefði ekki ætlað að gera það fyrr en hún hefði náð sambandi við yfirmenn Orkuveitunnar, en D lögreglumaður hafi rætt við Y. Er því lýst í frumskýrslunni að Y hafi sjáanlega verið í uppnámi og hefði hún sagst hafa verið send á staðinn til að loka fyrir rafmagn fyrirtækisins A ehf. vegna vangoldinna reikninga. Hún hefði lokað fyrir rafmagnið kl. 11:12 en þá hefði ákærði komið að henni og skipað henni að opna fyrir það aftur og hafi hún gert það. Síðan hefðu þau gengið saman út úr kjallara hússins en síðan hefði hún farið með ákærða inn í húsnæðið. Þá hefði ákærði læst útidyrahurðinni og síðan lagt hönd sína á bakið á henni og ýtt henni þannig inn á skrifstofuna. Þar hefði ákærði hindrað að hún kæmist út og haldið henni inni í húsnæðinu þar til lögreglu bar að. Hefði Y sagst ekki vilja kæra málið að svo stöddu.

D lögreglumaður kvað ákærða hafa sagt sér að hann hefði orðið var við það þegar rafmagnið fór af húsnæðinu. Hann hefði haldið að um bilun væri að ræða og því farið niður í kjallara. Þar hefði hann hins vegar komið að starfsmanni Orkuveitunnar en orðið ósáttur við að hann væri ekki látinn vita þegar lokað væri fyrir rafmagnið enda hefði hann staðið í skilum við fyrirtækið. Hefði hann því hringt í Orkuveituna og borgað nokkur þúsund krónur til fyrirtækisins á meðan Y var ennþá á staðnum. Ákærði hefði síðan sagt Y að hann vildi ekki að hún færi út fyrr en lögregla væri komin á staðinn og búið væri að leysa málið. 

Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.

Ákærði hefur neitað sök. Hann lýsti undanfara umræddra atvika með þeim hætti að lokað hefði verið fyrir rafmagn hjá fyrirtæki hans í [...] skömmu áður eða á mánudeginum 20. febrúar sl. en það hefði verið sett á aftur sama dag eftir að ákærði hafði greitt skuld við Orkuveituna. Síðar hefði verið hringt í konu ákærða frá Orkuveitunni og henni sagt að það yrði að skipta um kennitölu skuldara sem fyrst án þess að gefinn væri sérstakur frestur til þess. 

Á föstudeginum 24. febrúar sl. hefðu ákærði og eiginkona hans verið við vinnu í húsnæði fyrirtækisins þegar rafmagnið hefði skyndilega farið af. Ákærði hefði athugað rafmagnstöfluna en þar sem ekkert hefði verið athugavert við hana, hefði  hann farið niður í kjallara til þess að athuga aðalrafmagnstöfluna. Í kjallaranum hefði hann séð einhvern vera að bjástra í rafmagnstöflunni og brugðið við. Í ljós hefði komið að um var að ræða stúlku, Y, sem aðspurð hefði sagst vera að loka fyrir rafmagnið.

Ákærði kvaðst hafa spurt stúlkuna að því hvað hún væri að gera þarna og hver hefði sent hana og síðan sagt henni að setja straum á aftur sem hún hafi gert. Aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hafa öskrað á stúlkuna en honum hafi runnið í skap við að sjá stúlkuna í kjallaranum án þess að hafa til þess heimild.

Ákærði kvaðst hafa útskýrt fyrir stúlkunni að búið væri að greiða alla orkureikninga og bað hana að koma með sér upp á skrifstofu til að sannreyna að hún væri starfsmaður Orkuveitunnar og af hvaða ástæðu væri verið að loka fyrir rafmagnið. Stúlkan hefði farið með ákærða mótþróalaust upp á jarðhæð og þaðan út og síðan inn í húsnæði fyrirtækisins. Þau ákærði og stúlkan hefðu farið inn á skrifstofu ákærða en í skrifstofu við hliðina hefði eiginkona ákærða setið og hefði hún væntanlega heyrt hvað fór fram á milli þeirra ákærða og stúlkunnar. Ákærði hefði orðið þess var að stúlkan var með í hári sínu höfuðbúnað með gsm-síma tengdan við Orkuveituna og kvaðst þá fyrst hafa heyrt minnst á gísl. Kannaðist ákærði við að hafa meinað stúlkunni útgöngu og hafa sett hönd fyrir hana þegar hún hugðist fara en hann hefði ekki ýtt við henni á neinn hátt. Á þessari stundu hefði hann ákveðið að fyrst þeir hjá Orkuveitunni hefðu kallað til lögregluna þá gæti lögreglan alveg komið og séð hvernig staðan var og því hefði hann sagt stúlkunni að hún yrði þarna þar til lögreglan kæmi og hefði Y ekki haft uppi nein mótmæli. Aðspurður kvað ákærði stúlkuna hafa verið inni á skrifstofunni í stuttan tíma en hún hefði verið ,,upptrekkt og spennt” á meðan á þessu stóð. Í símtali sínu við yfirmann Y hjá Orkuveitunni kvaðst ákærði hafa látið setja orkureikninginn á kennitölu E og frá og með þeim degi hefði það fyrirtæki verið orðið orkukaupandinn.

Skömmu síðar hefði lögregla komið á staðinn og taldi ákærði líklegt að eiginkona hans hefði þurft að opna útidyrnar fyrir lögreglumönnunum því hann hefði ,,sjálfsagt ekki viljað fá neina truflun á meðan þetta mál stóð yfir.” Um leið og lögreglan hefði komið inn, hefði Y reynt að komast út en þá kvaðst ákærði hafa bandað hendinni á móti og sagt við hana að hún færi ekki út fyrr en lögregla hefði haft tal af henni. Annar lögreglumannanna hefði sagt ákærða að hann mætti ekki stöðva för stúlkunnar og hinn lögreglumaðurinn hefði farið með hana út í bíl.

Vitnið, Y, kvaðst hafa rofið rafmagnið hjá fyrirtækinu A ehf. upp úr klukkan ellefu umrætt sinn. Vitnið kveðst hafa verið með stimpilkort sitt um hálsinn með mynd af sér og merki Orkuveitunnar á. Allt í einu hefði ákærði komið að henni og skipað henni að opna fyrir rafmagnið aftur og hefði ákærði verið ógnandi í röddinni þar sem hann stóð fyrir aftan vitnið. Hann hefði látið þung orð falla um vitnið og Orkuveituna og verið mjög æstur. Vitnið kvaðst hafa metið stöðuna þannig að best væri að gera það sem ákærði óskaði eftir enda taldi hún sig ekki í raun eiga aðra möguleika í stöðunni. Hún hefði því farið með ákærða mótþróalaust.

Ákærði hefði síðan beðið vitnið um að tala við sig inni á skrifstofu sinni og þótt vitnið hefði sagt honum að það hefði ekkert við hann að tala þar inni, hefði það farið með honum inn. Þegar inn var komið hefði ákærði læst útidyrunum á eftir þeim. Ákærði hefði síðan lagt höndina á milli herðablaðanna á vitninu og ýtt henni áfram inn á skrifstofu í horni húsnæðisins, lokað hurðinni og staðið fyrir henni en sagt vitninu að vitnið fengi ekki að fara út fyrr en Orkuveitan hefði gengið frá málinu. Vitnið kvað ákærða hafa verið mjög ógnandi gagnvart sér og það því verið mjög hrætt. Vitnið kvaðst hafa fengið ákærða til að tala við yfirmann vitnisins hjá Orkuveitunni í síma. Þegar ákærði hefði gengið að skrifborði sem þarna var, kvaðst vitnið hafa ætlað að ganga út en ákærði þá öskrað að það færi ekki þaðan út. Hefði ákærði sagt við yfirmann Orkuveitunnar í símann að vitnið yrði þarna í gíslingu þar til þeir væru búnir að leysa málið. Ákærði hefði tvisvar meðan á símtalinu stóð aftrað vitninu frá því að fara út úr skrifstofunni með hrindingum og snertingu.

Vitnið kvaðst hafa verið inni á skrifstofu ákærða í um það bil 40 mínútur en á þeim tíma hefði henni tekist að hringja upp í Orkuveitu og biðja um að hún yrði leyst út. Þegar lögreglu hefði borið að hefði vitnið ætlað að ganga út en ákærði bent því á að það ætti ekki að fara en þá hefði lögreglumaður gripið í taumana og sagt að hún væri frjáls ferða sinna. Aðspurt kvað vitnið rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu sem tekin var af því 17. mars sl. þar sem segir að ákærði hafi ýtt nokkuð fast á hana í tvígang á meðan lögregla sá til en það hefði átt sér stað áður en lögreglan kom á vettvang. Hið rétta væri að ákærði hefði ekki komið við vitnið á meðan lögreglumennirnir voru á staðnum.

Eftir að hafa komist út, kvaðst vitnið hafa farið beint upp í Orkuveitu og rætt við öryggisfulltrúa fyrirtækisins en síðan farið í áfallahjálp á Landspítalanum. Hún hefði farið í nokkra sálfræðitíma vegna þessa atviks og tiltók vitnið að það fyndi fyrir auknu óöryggi í starfi. Kvaðst vitnið þó enn stunda vinnu sína fyrir Orkuveituna, þ.e.a.s. við að loka fyrir rafmagn hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Vitnið, B, eiginkona ákærða, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins eftir að hafa verið leiðbeint um réttindi sín samkvæmt a lið 1. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991. Vitnið kvaðst hafa verið við vinnu á skrifstofu sinni við hliðina á skrifstofu ákærða þegar rafmagnið fór af umrætt sinn. Ákærði hefði athugað rafmagnstöfluna og síðan farið niður í kjallara til að athuga málið. Stuttu síðar hefði vitnið, sem sat í sjónlínu við útidyrahurðina, séð hvar ákærði kom aftur ásamt stúlku og hefðu þau ákærði og stúlkan gengið inn á skrifstofu ákærða. Sýndist vitninu sem stúlkan hefði komið inn sjálfviljug og hefði ákærði ekki ýtt á stúlkuna.

Aðspurt kvaðst vitnið ekki gera sér grein fyrir því hversu lengi stúlkan var inni á skrifstofunni en kvaðst ekki hafa séð ákærða hefta för stúlkunnar. Þá kvaðst vitnið ekki hafa heyrt að stúlkan berðist á móti eða vildi komast út. Vitnið hefði heyrt að ákærði hækkaði róminn en man ekki eftir að hafa heyrt til stúlkunnar. Þótt vitnið hefði ekki séð inn á skrifstofu ákærða hefði það heyrt vel hvað fram fór þar inni enda hefðu skrifstofudyrnar verið opnar og þá vantaði gler í op við hliðina á hurðinni. Sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið hafa séð til ákærða inni á skrifstofunni þegar hún brá sér fram á gang húsnæðisins. 

Vitnið kvaðst hafa heyrt að ákærði talaði við einhvern hjá Orkuveitunni og tók svo til orða að ákærði ,,hefði kannski verið á hærri nótunum” enda hefði honum verið brugðið vegna framkomu fyrirtækisins. Hins vegar var það mat vitnisins að ekkert hefði verið athugavert við samskipti ákærða og stúlkunnar. Vitnið sagði ákærða hafa sagt við stúlkuna að hún færi ekki þaðan út fyrr en lögreglan kæmi og hefði kannað aðstæður.

Þegar lögreglumennirnir tveir hefðu komið á vettvang hefði hurðin verið læst svo vitnið opnaði fyrir þeim.

Vitnið, D lögreglumaður, kvaðst ekki hafa séð að ákærði ýtti á Y en hún hefði grátið og verið í uppnámi þegar vitnið talaði við hana fyrir utan. Y hefði lýst atvikum fyrir vitninu á sama veg og fram kemur í frumskýrslu málsins, m.a. um að ákærði hefði ýtt henni inn á skrifstofuna. Vitnið kvað ákærða hafa varnað Y útgöngu eftir að lögregla kom á vettvang með því að halda uppi höndunum án þess þó að snerta hana. Vitnið staðfesti tímasetningar í frumskýrslu sem sýna að útkall frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu hafi borist kl. 11:28 en lögregla hafi komið á vettvang kl. 11:38.

Vitnið, C lögreglumaður, lýsti atvikum þannig að lögregla hefði farið á vettvang eftir útkall en komið að læstum dyrum. Kona nokkur hefði opnað fyrir lögreglumönnunum en inni í húsnæðinu hefði vitnið séð að kona frá Orkuveitunni, Y að nafni, hefði reynt að komast út en ákærði hefði þá reynt að stöðva hana með því að lyfta annað hvort annarri hendinni eða báðum höndum. Mundi vitnið ekki hvort ákærði kom við konuna við þessar aðfarir. Vitnið kvaðst hafa sagt við ákærða að Y mætti fara og þá hefði hún komist út. Vitnið kvað ákærða hafa viðurkennt að hafa haldið Y og sagt að hann hafi ekki ætlað sér að sleppa henni fyrr en hann næði sambandi við yfirmann hennar.

Niðurstaða.

Ákærði hefur neitað sök en hefur þó kannast við að hafa meinað Y útgöngu af skrifstofu sinni umrætt sinn. Fær sá framburður ákærða stoð í vætti vitnisins Y og að nokkru leyti í vætti B, eiginkonu ákærða, um að ákærði hafi sagt við Y að hún færi ekki út af skrifstofunni fyrr en lögreglan kæmi. Þá hafa framangreind vitni borið að ákærði hafi verið reiður og hækkað róminn. Loks hafa lögreglumennirnir, sem komu á vettvang umrætt sinn, báðir borið á þann veg að þeir hafi séð ákærða lyfta upp annarri hendinni eða báðum höndum til að varna Y útgöngu. Með vísan til framanritaðs telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærða, að ákærði hafi með ógnandi framkomu sinni og orðum gerst sekur um að hafa svipt Y frelsi sínu með því að halda henni nauðugri í húsnæði fyrirtækisins A ehf. eins og honum er gefið að sök í ákæru. Hins vegar er ósannað, gegn neitun ákærða, að ákærði hafi með einhverjum hætti snert Y umrætt sinn eins og hún heldur fram.

Þótt ekki liggi fyrir með nákvæmum hætti hversu lengi ofangreind frelsisskerðing stóð yfir, verður talið að brot ákærða varði við ákvæði 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda er samkvæmt tilvitnaðri lagagrein ekki áskilið að frelsissvipting þurfi að vera langvarandi eða að vara tiltekinn tíma til að hún falli undir lagagreinina. Þá verður ekki séð að hér skipti máli hver hafi verið framgangur Orkuveitunnar við innheimtu reikninga eða lokanir. Verður ákærði sakfelldur eins og krafist er.

Refsing.

Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en með vísan til hreins sakarferils hans þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Bótakrafa.

Af hálfu Y hefur verið krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 100.000 krónur auk þess sem hún krefst 24.500 króna vegna lögmannsþóknunar. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa svipt bótakrefjanda frelsi sínu um stundarsakir og með vísan til framburðar ákærða sjálfs og vættis vitna var bótakrefjanda brugðið við atferli ákærða. Með vísan til ákvæða 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ber ákærða að greiða bótakrefjanda miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 80.000 krónur. Þá ber ákærða að greiða bótakrefjanda kostnað hennar af gerð bótakröfu sem telst hæfilega ákveðin 24.500 krónur eins og krafist er. Samtals ber ákærða því að greiða Y 104.500 krónur.

Sakarkostnaður.

Með vísan til ákvæða 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 ber ákærða að greiða allan sakarkostnað málsins sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Rúnars S. Gíslasonar hdl., 140.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Guðmundur Siemsen, fulltrúi sýslumannsins í Kópavogi, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði skal greiða Y 104.500 krónur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Rúnars S. Gíslasonar hdl., 140.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.