Hæstiréttur íslands

Mál nr. 403/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Stefnubirting
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                                         

Föstudaginn 10. ágúst 2012.

Nr. 403/2012.

Gljúfurbyggð ehf.

(Örn Karlsson, framkvæmdastjóri)

gegn

Gunnari Andrési Jóhannssyni

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

 

Kærumál. Varnarþing. Stefnubirting. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

 

G ehf. höfðaði mál á hendur GA þar sem þess var krafist að ógilt yrði yfirlýsing um ráðstöfun tiltekinnar greiðslu sem G ehf. innti af hendi til GA. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi með vísan til þess að málið væri höfðað á röngu varnarþingi. Hæstaréttar vísaði til þess að þar sem GA hefði ekki tekist sönnun um að áritun á birtingarvottorð stefnu um að hún hefði verið birt á föstum búsetustað hans væri röng, hefði G ehf. verið heimilt að höfða málið á því varnarþingi sem gert var. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann „málskostnaðar eftir mati dómsins.“

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 segir að sækja megi mann fyrir dómi í þinghá þar sem hann á skráð lögheimili. Eigi hann fasta búsetu í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans sé skráð megi einnig sækja hann í þeirri þinghá. Meðal málsgagna er vottorð um birtingu stefnu í málinu 7. desember 2011 að Háuhlíð 16 í Reykjavík. Kemur fram í vottorðinu að þetta sé „fastur búsetustaður“ varnaraðila. Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 telst efni birtingarvottorðs rétt þar til hið gagnstæða sannast. Varnaraðila hefur ekki tekist sönnun þess í málinu að vottorðið sé rangt að þessu leyti. Var sóknaraðila því heimilt að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili, Gunnar Andrés Jóhannsson, greiði sóknaraðila, Gljúfurbyggð ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 4. maí sl., var höfðað með stefnu birtri 7. desember 2011.

Stefnandi er Gljúfurbyggð ehf., Klettagljúfri 10, Ölfusi.

Stefndi er Gunnar Andrés Jóhannsson, Háuhlíð 16, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði með dómi yfirlýsing, dags. 3. júní 2008, þess efnis að helmingur greiðslu að fjárhæð 12.000.000 króna, sem stefnandi innti af hendi til stefnda 2. júní 2008, yrði ráðstafað til greiðslu skuldar Austurbrúnar ehf., Jónasar Guðmundssonar eða tengdra aðila við stefnda á þann veg sem hann kysi. Enn fremur er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eftir mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, með inniföldum áhrifum 25,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Hinn 4. maí sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi og stefnda úrskurðaður málskostnaður. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að málið verði tekið til efnisúrlausnar. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í þessum þætti málsins.

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum á þann veg að stefndi hafi átt 11 veðskuldabréf með veði í jörð stefnanda, Ingólfshvoli í Ölfusi, að heildarverðmæti laust yfir 100 milljónir króna. Vorið 2008 hafi stefndi krafist nauðungarsölu á Ingólfshvoli á grundvelli bréfanna. Áður en síðara nauðungaruppboðið átti að fara fram hafi lögmaður stefnda, Ásgeir Þór Árnason hrl., boðið að uppboðið yrði afturkallað ef greiddar yrðu 8 milljónir króna fyrir seinna uppboðið. Þar sem þessir peningar voru ekki til reiðu fyrr en skömmu eftir venjulegan samþykkisfrest hafi verið óskað eftir lengri samþykkisfresti. Eftir samningaviðræður við lögmanninn hafi verið handsalað samkomulag um að stefnandi afhenti, sem tilraun til greiðslu, víxil á þriðja mann að upphæð 7 milljónir króna gegn lengdum samþykkisfresti og að stefndi afturkallaði beiðni um nauðungarsölu að fengnum 8 milljónum króna áður en hinn lengdi samþykkisfrestur rynni út.

Samþykkisfrestur hafi runnið út 3. júní 2008. Þegar leið á frestinn og kom að greiðslu hafi lögmaður stefnda ekki kannast við loforð sitt og hafi krafið stefnanda um full skil á þeirri skuld sem hann taldi vera til staðar, rúmlega 30 milljónir króna. Eftir samningaumleitanir við lögmenn stefnda, áðurnefndan Ásgeir og Lúðvík Örn Steinarsson hrl., í fjarveru hans, hafi stefnanda borist tilboð frá stefnda föstudaginn 30. maí 2008. tilboð þetta hafi verið um að stefnandi gæti komið skuldabréfunum í skil með því að greiða 27 milljónir króna. Greiðsla að fjárhæð 12 milljónir króna skyldi greidd áður en samþykkisfrestur rynni út 3. júlí 2008, en 15 milljónir króna yrðu að koma með tryggum hætti, þ.e. bankaábyrgð, í júní og júlí. Hvað varði þær 15 milljónir króna sem skyldu koma í júní og júlí hafi stefndi tekið gilt loforð lögmanns Pálma Sigmarssonar um greiðslu Pálma í gegnum Landsbankann í Lúxemborg síðar um sumarið. Eftir hafi því staðið 12 milljónir króna sem stefnandi hafi þurft að afla.

Af hálfu stefnda hafi allt verið lagt í sölurnar til þess að unnt væri að standa skil á þeim 12 milljónum króna sem greiða átti áður en samþykkisfrestur rynni út, en Ingólfshvoll hafi verið starfsstöð stefnanda sem og heimili fjölskyldu fyrirsvarsmanns stefnanda. Meðal annars hafi fyrirsvarsmaður stefnanda fengið lán hjá nákomnum að fjárhæð 5 milljónir. Í samræmi við tilboð lögmanns stefnda hafi Lögmáli ehf., lögmannsstofu lögmanna stefnda, verið greiddar 12 milljónir króna hinn 2. júní 2008.

Að kvöldi 2. júní 2008 hafi Jónas Guðmundsson, milligöngumaður í viðskiptum málsaðila, upplýst að stefndi myndi ekki afturkalla uppboðið nema helmingur þeirra 12 milljóna sem þegar höfðu verið greiddar rynnu til greiðslu annarrar skuldar. Um hafi verið að ræða skuld Austurbrúnar ehf. og Jónasar Guðmundssonar við stefnda, sem stefnandi hafi ekki með nokkrum hætti borið ábyrgð á.

Stefnandi hafi ekki átt annan kost en að ganga að afarkostum stefnda. Lögmaður stefnda, Ásgeir Þór Árnason hrl., hafi morguninn eftir, hinn 3. júní, í viðurvist  fyrirsvarmanns stefnanda og Jónasar Guðmundssonar, samið yfirlýsingu þessa efnis. Eftir undirritun yfirlýsingarinnar hafi nauðungarsalan á Ingólfshvoli verið afturkölluð. Með máli þessu krefjist stefnandi þess að umrædd yfirlýsing verði ógilt með dómi.

Stefnandi hafi ekki snúið sér til Austurbrúnar ehf. eða Jónasar Guðmundssonar um endurgreiðslu þeirra 6 milljóna króna sem deilt sé um, þar sem þessir aðilar séu saklausir af þeirri þvingun sem stefndi hafi beitt við gerð yfirlýsingarinnar frá 3. júní 2008. Stefnandi hafi auk þess ekkert í höndum um að þessir aðilar hafi raunverulega skuldað stefnda. Stefndi hafi engin gögn sýnt um það við gerð yfirlýsingarinnar, né í annan tíma.

Stefndi hafi að nýju krafist nauðungarsölu haustið 2008. Við þá nauðungarsölumeðferð hafi stefnandi upplýst stefnda um afstöðu sína til framangreinds skjals. Stefnandi hafi jafnframt kært hina ómálefnalegu þvingun til greiðslu skuldar annars aðila til lögreglu í desember 2010. Ríkissaksóknari hafi vísað málinu frá á þeim grundvelli að um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða. Stefnandi hafi mótmælt gildi nauðungarsölu Ingólfshvols sem fram fór í ágúst 2009. Einnig hafi stefnandi talið að verðmæti Ingólfshvols hafi verið verulega umfram það verð sem fékkst við nauðungarsölumeðferðina og hafi því bersýnilega nægt til fullnustu hvers kyns krafna stefnda. Þessi atriði hafi ekki beina þýðingu fyrir mál þetta.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefandi byggir kröfu sína á því að sá löggerningur sem stefnandi hafi verið knúinn til með yfirlýsingunni 3. júní 2008 brjóti gegn 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Með löggerningunum hafi stefnandi greitt 6 milljónir króna til greiðslu skuldar sem hann hafi enga ábyrgð borið á að lögum. Stefnandi hafi þannig veitt stefnda hagsmuni án endurgjalds. Efni samningsins hafi þannig bersýnilega verið ósanngjarnt.

Á því er byggt að atvik við samningsgerðina varpi frekara ljósi á óeðlilegt og ósanngjarnt efni samningsins. Þannig hafi yfirlýsingin 3. júní 2008 falið í sér breytingu frá því sem lögmenn stefnda höfðu boðið stefnanda 30. maí sama ár. Umrædd breyting hafi verið gerð eftir að stefnandi hafði uppfyllt tilboð lögmanna stefnda, á síðustu stundu, þegar fyrirsvarsmanni stefnanda hafði í raun verið stillt upp við vegg og hann hafi átt einskis annars úrkosta en að ganga að hvers kyns kröfum stefnda.

Á því er byggt að verulegur stöðumunur hafi verið með aðilum sem varpi enn frekara ljósi á ósanngjarnt og ólögmætt efni samningsins. Þannig hafi fyrirsvarsmaður stefnanda verið í þeirri aðstöðu að reyna að bjarga starfsstöð fyrirtækis síns og um leið heimili fjölskyldu sinnar frá nauðungarsölu innan mjög skammra tímafresta. Aðgerðir fyrirsvarsmanns stefnanda og lántökur frá nánustu ættingjum varpi enn frekara ljósi á bága stöðu hans. Þótt lögbundin úrræði teljist ekki til nauðungar verði að líta til þessa stöðumunar við mat á efni samningsins. Þannig hljóti það að teljast ósanngjarnt að nýta sér hótun um nauðungarsölu til þess að knýja aðila til greiðslu án þess að hagsmunir komi í staðinn.

Á því er einnig byggt að umræddur löggerningur brjóti gegn 31. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr. laga nr. 11/1986. Stefndi hafi þannig nýtt sér bágindi fyrirsvarsmanns stefnanda og þá aðstöðu hans sem að framan sé lýst til að afla sér einhliða hagsmuna. Að lokum sé vísað til 33. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986. Telur stefnandi það hafa verið óheiðarlegt af stefnda að taka við greiðslu frá stefnanda án þess að hagsmunir kæmu fyrir, við þær aðstæður sem að framan sé lýst. Liggi fyrir að stefnda hafi verið kunnugt um öll atvik málsins, þ. á m. allar aðstæður stefnanda og fyrirsvarsmanns hans.

Málsástæður stefnda fyrir frávísunarkröfu

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að krafan sé sótt á röngu varnarþingi. Stefndi búi og hafi lögheimili að Árbæ, Rangárþingi ytra og varnarþing hans sé því Héraðsdómur Suðurlands, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi þurfi því ekki að sæta því að verjast dómkröfum stefnanda í Reykjavík. Þegar af þeirri ástæðu einni beri að vísa málinu frá dómi.

Niðurstaða

Í munnlegum málflutningi var á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi hefði fasta búsetu að Háuhlið 16, Reykjavík, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 og hefði því ekki verið mótmælt í greinargerð stefnda.

Á því var byggt að stefndi og eiginkona hans hefðu skráðan síma að Háuhlíð 16, Reykjavík. Þá hefði stefna verið birt stefnda að Háuhlíð 16 og jafnframt hefði ábyrgðarbréf á hendur eiginkonu hans verið birt á sama stað. Ætla verði að stefndi hafi fasta búsetu þar sem eiginkona hans og börn búi. Skorað hefði verið á stefnda að koma fyrir dóminn til skýrslugjafar og svara spurningum um búsetu sína í tengslum við flutning málsins um frávísunarkröfu stefnda. Stefndi hafi ekki orðið við því og beri hallann af því að hafa ekki komið fyrir dóminn og skýrt mál sitt.

Þá var á því byggt af hálfu stefnanda að krafa hans í málinu lúti að ógildingu yfirlýsingar um ráðstöfun innborgunar. Undirritun og efndir samkvæmt samningnum hafi farið fram á skrifstofu Lögmáls ehf. í Reykjavík. Í því sambandi vísaði stefnandi til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 um efndavarnarþing. Jafnframt vísaði stefnandi til 40. gr. laga nr. 91/1991 og á það bent að umrædd greiðsla hafi verið greidd inn á fjárvörslureikning í eigu Lögmáls ehf.

Af hálfu stefnda var á því byggt að ekki þyrfti að andmæla því sérstaklega að stefndi hefði ekki fasta búsetu að Háuhlíð 16, Reykjavík. Það fælist í sjálfri frávísunarkröfu stefnda.

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 má sækja mann fyrir dómi í þinghá þar sem hann á skráð lögheimili. Eigi maður búsetu í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans er skráð má einnig sækja hann í þeirri þinghá.

Í greinargerð með ákvæðinu segir að sá kostur sé heimilaður að mál verði sótt í þeirri þinghá, þar sem stefndi hefur fasta búsetu, ef ekki er um sama stað að ræða og þann þar sem hann hefur skráð lögheimili. Orðin föst búseta eru notuð í ákvæðinu með hliðsjón af ákvæðum 2. mgr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, og er ætlast til þess að þau verið skýrð í samræmi við það. Eftir ákvæðinu verður mál því höfðað í þeirri þinghá þar sem skráð lögheimili stefnda er eða í þeirri þar sem stefndi á heimili í raun.

Fyrir liggur að skráð lögheimili stefnda er að Árbæ, Hellu, og er því haldið fram af hans hálfu að þar hafi hann fasta búsetu.

Fram hefur komið að börn stefnda eru búsett að Háuhlíð 16 þar sem birting stefnu fór fram. Samkvæmt framlagðri útprentun úr fasteignamatsupplýsingum er stefndi ekki eigandi fasteignarinnar að Háuhlíð 16. Eins og segir í 2. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 er birting alltaf gild fari hún fram fyrir stefnda sjálfum þó að birt sé annars staðar en á lögheimili eða föstu aðsetri viðkomandi. Samkvæmt framlagðri útprentun úr símaskrá er stefndi skráður með heimasíma á þremur stöðum, að Árbæ að Hellu, Ferjubakka, Kópaskeri og Háuhlíð 16, Reykjavík. Ekki verður litið svo á að hann geti haft fast aðsetur á þremur stöðum.

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991 er aðila jafnan heimilt að gefa skýrslu um málsatvik fyrir dómi en honum er það ekki skylt. Hefur það því ekki þýðingu varðandi niðurstöðu málsins að stefndi varð ekki við áskorun stefnanda að koma fyrir dóminn til skýrslugjafar.

Þegar virt er það sem fram hefur komið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að stefndi hafi fasta búsetu annars staðar en á skráðu lögheimili sínu að Árbæ, Hellu.

Mál þetta er höfðað til ógildingar á yfirlýsingu, dags. 3. júní 2008, eins og nánar kemur fram í kröfugerð stefnanda. Málið er ekki höfðað til efnda á löggerningi, eða lausnar undan löggerningi, eða á rætur að rekja til fjárvörslu eða reikningshalds. Koma ákvæði 1. mgr. 35 gr. og 40. gr. laga nr. 91/1991því ekki til skoðunar í þessu sambandi.

Samkvæmt framansögðu er fallist á það með stefnda að mál þetta sé höfðað á röngu varnarþingi og ber því að vísa því frá dómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Gljúfurbyggð ehf., greiði stefnda, Gunnari Andrési Jóhannssyni, 150.000 krónur í málskostnað.