Hæstiréttur íslands
Mál nr. 769/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 11. sama mánaðar. Kærður er sá hluti dóms Héraðsdóms Vesturlands 4. desember 2017 þar sem ákærulið 2 í máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði dómsins um að vísa ákæruliðnum frá dómi verði fellt úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka hann til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar á framangreindu ákvæði hins kærða dóms og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest ákvæði hans um að vísa framangreindum ákærulið frá dómi.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um frávísun máls þessa að hluta.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 4. desember 2017.
I.
Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vesturlandi, dags. 27. apríl 2017, á hendur X, kt. [...], [...], [...], og Y kt. [...], [...], Reykjavík. Málið var dómtekið 6. nóvember 2017. Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærðu fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:
-
Á hendur báðum ákærðu með því að ákærði X ók bifreiðinni [...] ([...]) þriðjudaginn 15. nóvember 2016 á [...] við [...] í Borgarbyggð án þess að nota ökuritaskífu eða ökumannskort.
Brot ákærðu varða við d. lið 1. mgr., sbr. 2. mgr. 44. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. mgr. 29. gr., sbr. 24. gr., 26. gr. og 27. gr., sbr. 55. gr. reglugerðar nr. 605/2010.
-
Á hendur ákærða X með því að hafa, á sama stað og tíma og getið er í ákærulið 1, flutt 39 umframfarþega, eða 41 farþega alls, í bifreiðinni [...] ([...]) þegar leyfilegur farþegafjöldi var tveir farþegar skv. skráningu bifreiðarinnar.
Brot ákærða varðar við 2. mgr. 73. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
-
Á hendur ákærða X með því að hafa, á sama stað og tíma og getið er í ákærulið 1, ekið bifreiðinni [...] ([...]) óleyfilega breiðri, en bifreiðin mældist 3,30 m á breidd, en mesta leyfilega breidd til aksturs, án undanþágu, á vegi er 2,55 m.
Brot ákærða varðar við 1. mgr. 75. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 7. gr., sbr. 17. gr. reglugerðar nr. 155/2007.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði X krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af ákærulið 1 og 2. Til vara krefst hann þess að ákvörðun um refsingu verði frestað, en að öðrum kosti verði honum gerð svo væg refsing sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að sakarkostnaður, þ. á m. málsvarnarlaun verjanda, verði að öllu leyti felldur á ríkissjóð.
Forsvarsmaður ákærða Y krefst þess aðallega að fyrirtækið verði sýknað af kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst hann þess að ákvörðun um refsingu verði frestað, en að öðrum kosti verði refsing ákveðin svo væg sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að sakarkostnaður, þ. á m. málsvarnarlaun verjanda, verði að öllu leyti felldur á ríkissjóð.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu er upphaf máls þessa það að bifreið með erlendu skráningarmerki, [...], var ekið frá bifreiðastæði, nærri þjónustumiðstöðinni í [...], til vinstri inn á [...], um [...] og til hægri inn á [...], þar sem lögreglumenn stöðvuðu akstur bifreiðarinnar og ræddu við ökumanninn. Segir í skýrslunni að við skoðun á skráningarskírteini bifreiðarinnar hafi komið í ljós að hún væri einungis skráð fyrir ökumann og tvo farþega, en við skoðun á stöðvunarstað hafi reynst vera 41 farþegi í bifreiðinni. Einnig hafi verið gerð mæling á breidd bifreiðarinnar á vettvangi og hún reynst vera 3,30 m, en engin undanþága hafi verið fyrir akstrinum í almennri umferð. Þá hafi ekki verið ökuritaskífa í ökurita bifreiðarinnar og ökumaður bifreiðarinnar, ákærði X, talið að hann þyrfti ekki að nota ökuritaskífu með tilliti til vegalengdar akstursleiðarinnar frá [...] að [...] í [...]. Ákærða hafi svo verið fylgt á bifreiðinni frá stöðvunarstað að þjónustumiðstöðinni í [...].
Í skýrslu lögreglu er og tiltekið að hinn 20. september 2016 hafi framangreind bifreið verið forskráð og þá fengið fastanúmerið [...]. Þá hafi bifreiðin farið í endurskoðun hinn 18. nóvember sama ár vegna skráningar og hafi hún frá og með þeim degi verið skráð fyrir 51 farþega.
III.
Skýrslur fyrir dómi
Ákærði X kvaðst umrætt sinn hafa verið á leiðinni með ferðamenn frá [...] upp á [...] í skipulagðri jöklaferð. Kvað hann ferðirnar vera seldar fyrirfram. Fólk annaðhvort panti á netinu eða mæti á staðinn og bóki sig í ferðirnar, sem það greiði þá fyrir. Kom fram hjá honum að í bifreiðinni hefði verið ökuriti. Bifreiðin hefði verið á erlendum skráningarnúmerum, en ákærði kvaðst ekki hafa sjálfur athugað skráninguna á henni. Þá hefði honum ekki verið kunnugt um það hver hefði tekið þá ákvörðun að nota ekki ökuritaskífu eða ökumannskort í bifreiðinni umrætt sinn. Sjálfur kvaðst ákærði ekki hafa talið að slíkt væri nauðsynlegt. Samkvæmt lögum þyrfti ekki að vera ökuritaskífa í bílum sem ækju reglubundnar ferðir innan 50 km radíuss. Þá teldi hann að bifreiðin mætti flytja 49 farþega, en hann minnti að í umrætt sinn hefði verið 41 farþegi í henni. Nægilegt pláss hefði verið fyrir þá alla og sæti með öryggisbelti fyrir hvern og einn.
Vitnið A, framkvæmdarstjóri ákærða Y, sagði umrædda bifreið hafa verið keypta fullbúna frá Bretlandi, en henni hefði verið breytt þar í samræmi við óskir fyrirtækisins. Starfsmaður þess, B, hefði haft yfirumsjón með skráningu bifreiðarinnar. Hún hefði verið skoðuð og öllum gögnum skilað inn til Samgöngustofu nokkrum mánuðum áður en lögreglan stöðvaði aksturinn umrætt sinn, en einungis hefði verið beðið eftir lokastaðfestingu vegna skráningarinnar. Bifreiðin hefði verið á breskum númerum þar til þeir hefðu getað innleyst þau íslensku. Fram kom hjá vitninu að leiðin frá [...], upp á [...] og til baka væri 46 til 48 km löng. Ferðirnar hefðu verið bókaðar og seldar á netinu, hjá ferðarskrifstofum og fleirum, og tiltekinn fjöldi sæta í boði í hvert sinn. Þegar umrædd ferð var farin kvaðst vitnið ekki hafa haft vitneskju um það hversu marga farþega mætti flytja með ökutækinu samkvæmt skráningu þess, þar sem hann hefði ekki verið inni í öllum smáatriðum varðandi skráninguna. Hann hefði hins vegar ekki óttast um öryggi farþeganna í ferðinni, enda vitað að búið væri að fara með bifreiðina í skoðun og staðfesta að hún væri í lagi. Nægilegt pláss hefði verið fyrir alla farþegana og fullnægjandi öryggisbúnaður til staðar, þar á meðal öryggisbelti í öllum sætum. Ökuriti hefði verið í bifreiðinni en ekki ökuskífa. Hann kvaðst hafa kynnt sér reglugerðina þar um og út frá þeim forsendum hefðu starfsmenn félagsins ákveðið að ekki yrðu notaðar skífur í ferðunum upp á [...]. Aðspurður kvað hann ökutækið hafa komið svona breitt til landsins, m.a. vegna dekkjanna, og að lítið væri hægt að bregðast við því. Talið væri nauðsynlegt öryggisins vegna að ökutæki þessi væru breið og á stórum dekkjum vegna erfiðra aðstæðna uppi á jökli. Vegna þessa hefði yfirleitt annar bíll ekið á undan með blikkandi ljós þar til reglugerðinni hefði að þessu leyti verið breytt í janúar 2017, en frá gildistöku hennar sé löglegt að aka svona breiðum bíl með farþega umrædda leið.
Vitnið B, starfsmaður ákærða Y bar að búið hefði verið að skoða ökutækið þegar lögregla stöðvaði akstur þess 15. nóvember 2016. Starfsmenn fyrirtækisins hefðu lagt mikið á sig til þess að uppfylltar væru ítrustu öryggiskröfur samkvæmt reglugerð um hópferðabifreiðar við smíði bifreiðarinnar. Afgreiðsla málsins hjá Samgöngustofu hefði síðan tekið þrjá mánuði því að starfsmenn hennar hefðu þurft ákveðnar upplýsingar til að geta afgreitt það. Sagði vitnið að vegna mikilla anna hefði verið nauðsynlegt að mæta því með því að koma bifreiðinni í notkun. Starfsmenn fyrirtækisins hefðu verið í mjög góðu sambandi við starfsmenn skoðunarstöðvarinnar Frumherja, sem hefðu ráðlagt þeim m.a. um fjölda sæta og nauðsynlegt pláss fyrir farþegana. Hefðu þeir og spurt þá hvort hægt væri að taka bifreiðina í hópferðaskoðun, þótt Samgöngustofa væri ekki búin að afgreiða endanlega forskráningu hennar, og hefðu þeir fallist á það. Engar athugasemdir hefðu verið gerðar í þeirri skoðun, eins og staðfest sé í skoðunarvottorðinu. Ökutækið hefði verið í fullri notkun á breskum númerum og verið tryggt bæði á breskum og íslenskum forskrárnúmerum. Þá sagði hann að bifreiðin hefði einnig farið í hópferðaskoðun eftir 15. nóvember 2016 og að engar athugasemdir hefðu þá heldur verið gerðar. Þegar sú skoðun hefði verið framkvæmd hefðu engar breytingar verið gerðar á bifreiðinni frá því að lögreglan stöðvaði akstur hennar hinn 15. nóvember. Kvaðst vitnið telja að ökutækið hefði ekki verið vanbúið þegar það var stöðvað. Það hefði frekar verið ofbúið miðað við reglugerðir og lög í landinu. Hefði fyrirtækið lagt mikinn metnað í að bifreiðin væri búin umfram kröfur þar sem starfsemin fari fram við mjög erfiðar aðstæður uppi á [...].
Vitnið C, véltæknifræðingur og fyrrverandi starfsmaður hins ákærða félags, bar fyrir dómi að hann hefði komið sem ráðgjafi að smíði umræddrar bifreiðar til að tryggja að smíðin uppfyllti kröfur um öryggisstaðla samkvæmt reglugerð um hópbifreiðar. Eftir að ökutækið hafi verið komið til Íslands hefði hann komið að útreikningum á því að ökutækið stæðist kröfur um fullnægjandi styrk og að húsið, sem hefði verið smíðað ofan á það, uppfyllti ákveðin skilyrði samkvæmt reglugerð. Hefði Samgöngustofa óskað eftir þessum útreikningum. Kvaðst hann telja að í nóvember 2016 hefði ökutækið uppfyllt allar öryggiskröfur, allt frá því að það kom til landsins.
Vitnið D, deildarstjóri hjá Samgöngustofu, staðfesti bréf Samgöngustofu, dags. 30. mars 2017, vegna fyrirspurnar lögreglustjórans á Vesturlandi um umrædda bifreið.
E lögreglumaður bar fyrir dómi að borist hefði nafnlaus ábending vegna aksturs umræddrar bifreiðar og lögreglumenn því farið á vettvang til að kanna málið. Hefðu þeir hitt starfsmenn fyrirtækisins í gamla [...] og brýnt fyrir þeim að nota ekki bifreiðina til farþegaflutninga, þar sem hún væri ekki skráð fyrir farþega. Daginn eftir hefði hann sjálfur hringt í B og brýnt þetta fyrir honum. B hefði lýst því að afgreiðsla málsins hefði tafist hjá Samgöngustofu og hefði hann verið ósáttur við það. Vitnið kvaðst hins vegar hafa brýnt fyrir honum að nota ekki ökutækið og tekið af allan vafa um það. Síðan hefði önnur tilkynning borist um akstur bifreiðarinnar og lögreglan þá farið í umræddar aðgerðir. Aðspurt kvaðst vitnið hafa talið að B væri í forsvari fyrir fyrirtækið. Gengið hefði verið frá bókun í dagbók lögreglunnar um að farið hefði verið á staðinn og talað við B, en sú bókun liggi ekki fyrir í málinu þar sem hún sé með annað málsnúmer.
IV.
Niðurstaða
Ákæruliður 1
Í þessum ákærulið er báðum ákærðu gefið að sök að hafa brotið gegn umferðarlögum með því að ákærði X hafi ekið tilgreindri bifreið án þess að hafa notað ökuritaskífu eða ökumannskort. Er háttsemi ákærðu talin brot á ákvæðum d-liðar 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. mgr. 29. gr., sbr. 24. gr., 26. gr. og 27. gr., sbr. 55. gr. reglugerðar nr. 605/2010 um aksturs- of hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit.
Með d-lið 1. mgr. 44. gr. umferðarlaga er ráðherra veitt heimild til að setja reglur, m.a. um ökurita, þar sem kveðið sé á um skyldu til notkunar ökurita. Þá er í 2. mgr. tiltekið að ökumaður og flytjandi skuli sjá til þess að ökuriti sé notaður og að fylgt sé reglum um notkun hans og um varðveislu gagna sem varða aksturs- og hvíldartíma ökumanns.
Framangreind heimild til setningar reglna um ökurita var fyrst nýtt með útgáfu reglugerðar nr. 661/2006, en framangreind reglugerð nr. 605/2010 leysti hana af hólmi. Í tilvitnuðu ákv. 3. mgr. 29. gr. hennar er kveðið á um það að ökumaður skuli nota, eftir því sem við á, ökuritaskífu eða ökumannskort við akstur og skv. 24. gr. skal bifreið sem reglugerðin nær til búin ökurita.
Þrátt fyrir að báðir ákærðu neiti sök í málinu hafa þeir ekki borið brigður á að verknaðarlýsing þessa liðar ákærunnar sé rétt. Þeir reisa hins vegar málsvörn sína einkum á því að hin tilgreinda háttsemi hafi verið þeim refsilaus þar sem akstur bifreiðarinnar í greint sinn hafi fallið undir undanþáguákvæði a-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 605/2010, um að reglugerðin taki ekki til flutninga á vegum með bifreið sem notuð sé til farþegaflutninga í reglubundnum ferðum, sé leiðin ekki lengri en 50 km. Vísa þeir til þess að bifreiðin hafi verið að flytja farþega fyrir ákærða Y frá [...] að [...] í [...]. Ferðin hafi verið hluti af reglubundnum ferðum félagsins þessa leið, sem farnar séu daglega yfir vetrartímann, kl. 10.00, 12.30 og 15.00, frá [...], upp [...] og síðan [...]. Sé vegalengdin aðra leiðina 23 km og vegalengd báðar leiðir því 46 km. Samkvæmt því hafi ekki verið skylt að nota ökurita eða ökumannskort í umræddri ferð.
Af hálfu ákæruvaldsins er því hins vegar haldið fram að við skýringu á því hvað felist annars vegar í orðunum „reglubundnum ferðum“ og hins vegar „leiðin ekki lengri en 50 km“ verði að horfa til þeirra skilgreininga sem fram koma í reglugerðum ráðsins (EBE) nr. 3820/85, um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, og nr. 117/66, um setningu sameiginlegra reglna um farþegaflutninga milli landa með langferða- og áætlunarbifreiðum. Þannig verði að túlka þessi orð á þann veg að undir ákvæðið geti einungis fallið almenningssamgöngur, s.s. reglubundnar ferðir strætisvagna Reykjavíkur í þéttbýli.
Við skýringu á merkingu framangreindra orða ákv. 3. gr. reglugerðar nr. 605/2010, sem er ráðandi við ákvörðun á því til hvaða bifreiða reglugerðin nær, en ekki er þó vísað til í ákæru, verður að hafa í huga að það er almenn regla íslensks réttar að refsiákvæði beri að skýra þröngt og að allan vafa um það hvort refsiákvæði taki til háttsemi eigi að meta ákærða í hag. Fallast verður á það með ákærðu að þegar hin tilgreindu orð a-liðar 3. gr. eru skýrð samkvæmt orðanna hljóðan, og þegar einnig er horft til annarra ákvæða tilvitnaðrar reglugerðar, verður á engan hátt með vissu ráðið að akstur bifreiðarinnar [...] ([...]) í greint sinn falli undir hið tilvitnaða undanþáguákvæði 3. gr. eða ekki. Hefði löggjafanum þó verið í lófa lagið annaðhvort að haga orðalagi sjálfs ákvæðisins með nákvæmari hætti eða að skýra hin tilgreindu orð frekar í sérstöku skilgreiningarákvæði reglugerðarinnar í 4. gr. Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem ekki verða taldar neinu breyta í þessu tilliti þær óljósu skilgreiningar sem ákæruvaldið vitnar til og fram koma í framangreindum reglum ráðsins (EBE) nr. 3820/85 og nr. 117/66, verða ákærðu sýknaðir af þeim sökum sem þeir eru bornir í þessum ákærulið.
Ákæruliður 2
Í þessum lið ákæru er ákærða X gefið að sök að hafa flutt 39 umframfarþega, eða 41 farþega alls, í umræddri bifreið þegar leyfilegur farþegafjöldi hafi verið tveir farþegar samkvæmt skráningu bifreiðarinnar. Er ákærði með þessu talinn hafa brotið gegn 2. mgr. 73. gr. umferðarlaga, en þar segir að farþega megi eigi flytja svo marga eða á þann hátt að valdi þeim eða öðrum hættu.
Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, heiti brots að lögum og aðra skilgreiningu á því. Verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli, þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laganna. Ljóst er að ekki verður tekin afstaða til sektar ákærða eða sýknu nema því aðeins að fjallað sé um þann þátt verknaðarlýsingar 2. mgr. 73. gr. umferðarlaganna sem lýtur að því hvort ákærði hafi með flutningi farþeganna í greint sinn „valdið þeim eða öðrum hættu.“ Með því að slíka lýsingu er ekki að finna í verknaðarlýsingu brots ákærða í ákæru verður ekki hjá því komist að vísa þessum lið ákærunnar frá dómi.
Ákæruliður 3
Ákærði játaði sök við þingfestingu málsins vegna þessa ákæruliðar. Þar sem játning ákærða samræmist gögnum málsins að öðru leyti verður hann sakfelldur vegna þeirra brota sem þar er lýst og réttilega eru tilfærð til refsiákvæða.
Refsing og málskostnaður
Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið hafa báðir ákærðu verið sýknaðir af ákærulið 1, ákærulið 2 verið vísað frá dómi, en ákærði X sakfelldur í samræmi við játningu hans vegna ákæruliðar 3. Að því virtu verður ákærða X gert að greiða 25.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem honum ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í tvo daga.
Rétt þykir, með hliðsjón af 218. gr. laga um meðferð sakamála og niðurstöðu málsins, að málsvarnarlaun og ferðakostnaður skipaðra verjenda ákærðu greiðist að öllu leyti úr ríkissjóði. Þykir hann hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Vísað er frá dómi lið 2 í ákæru lögreglustjórans á Vesturlandi 27. apríl 2017.
Ákærði X greiði 25.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi tveggja daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Ákærðu X og Y eru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákærulið 1.
Málsvarnarlaun Þorvaldar Haukssonar hdl., verjanda ákærða X, að fjárhæð 1.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun Þóris Skarphéðinssonar hdl., verjanda ákærða X að fjárhæð 900.000 krónur, og 18.940 króna ferðakostnaður verjandans, greiðist úr ríkissjóði.