Hæstiréttur íslands
Mál nr. 503/2005
Lykilorð
- Starfslokasamningur
- Lagaheimild
- Ríkisstarfsmenn
|
|
Fimmtudaginn 12. október 2006. |
|
Nr. 503/2005. |
Harald Andrésson(Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Lánasýslu ríkisins (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Starfslokasamningur. Lagaheimild. Ríkisstarfsmenn.
Aðilar deildu um gildi ákvæðis í starfslokasamningi sem forstjóri L og H gerðu með sér. Kom þar fram að L tæki að sér þá skuldbindingu að tryggja að H hlyti þau lífeyrisréttindi sem reglur lífeyrissjóðsins B kveði á um, það er 85% af meðallaunum síðustu fimm ára án skerðingar. Að virtu orðalagi ákvæðisins, aðdraganda samningsins og skýringa aðila var talið að L hefði lofað að rétta hlut H ef hann næði ekki fram rétti sínum gagnvart lífeyrissjóðnum með því að ábyrgjast að hann fengi lífeyrisgreiðslur svo sem þar segir. Var talið að H hefði mátt treysta því að L myndi efna þetta loforð og að ósannað væri að það hafi verið háð því skilyrði að L fengi óskilyrt umboð til málshöfðunar gegn lífeyrissjóðnum. Hvað varðar það álitaefni hvort forstjóra L hafi verið heimilt að skuldbinda stofnunina með þessum hætti var litið til 8. gr. laga nr. 43/1990 og talið leiða af ákvæðinu að forstjórinn sjái um uppsagnir starfsmanna og gerð starfslokasamninga á borð við þann sem gerður var við H. Þá var litið til þess að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. sömu laga hafi L sérgreinda tekjuliði sem meðal annars skuli nota til greiðslu launatekna starfsmanna. Auk þess var tekið fram að á þeim langa tíma sem tók að ganga endanlega frá samkomulagi aðila um lífeyristöku H og þar til hún skyldi hefjast hefði verið nægur tími fyrir forstjóra L til að afla formlegrar heimildar til greiðslna samkvæmt hinu umdeilda ákvæði, ef hann taldi slíkrar heimildar þörf. Eins og á stóð og þegar litið var til stöðuumboðs forstjórans var talið að H hafi hvorki mátt vera ljóst að formlegrar heimildar væri þörf né að hennar yrði ekki aflað, væri hennar talin þörf. Var því ekki talið að sýkna bæri L af þessari ástæðu og jafnframt ekki fallist á að aðrar málsástæður gætu leitt til sýknu. Þá voru ekki talin efni til að fallast á varakröfu L um sýknu að svo stöddu. Þar sem fjárhæðir höfuðstóls kröfu H höfðu ekki sætt tölulegum mótmælum var fallist á kröfu hans um greiðslu og um viðurkenningu greiðslna, en dráttarvextir reiknaðir af höfuðstól kröfunnar mánuði frá því að hann krafði L sannanlega um greiðslu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2005. Endanlegar kröfur hans eru að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.004.210 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 53.648 krónum frá 1. september 2002 til 1. október sama ár, af 107.562 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 161.766 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 233.922 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 288.078 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 342.428 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 396.680 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 451.513 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 506.419 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 561.228 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 616.085 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 670.869 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 725.605 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 780.728 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 836.117 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 947.041 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2004, af 1.002.672 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 1.058.327 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 1.113.813 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 1.169.614 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 1.225.729 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 1.281.844 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 1.338.854 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 1.395.598 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 1.452.342 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 1.509.788 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 1.567.209 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 1.682.295 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2005, af 1.740.104 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 1.797.961 krónu frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 1.855.939 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 1.914.352 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 1.972.886 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 2.031.106 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 2.089.737 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 2.148.441 krónu frá þeim degi til 1. september sama ár, af 2.207.265 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 2.266.984 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 2.327.066 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 2.447.037 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2006, af 2.507.240 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 2.567.637 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 2.627.985 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 2.689.011 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 2.750.738 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 2.813.360 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 2.876.708 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 2.940.346 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, en af 3.004.210 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hefur áfrýjandi þá breytt kröfu sinni til viðurkenningar lífeyrisgreiðslna frá og með 1. nóvember 2004 til og með 1. október 2006 í gjaldfallnar kröfur.
Áfrýjandi krefst þess einnig að viðurkennt verði að stefnda beri að greiða sér 63.856 krónur verðbætt miðað við neysluverðsvísitölu mánaðarlega frá 1. október 2006 til æviloka og tvöfalda þá fjárhæð í desember ár hvert. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara sýknu að svo stöddu. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ella krefst hann lækkunar á kröfum áfrýjanda og að málskostnaður falli niður.
I.
Áfrýjandi, sem fæddur er 1934, lauk prófi í viðskiptafræði 1958 og hóf störf hjá Landsbanka Íslands, Seðlabanka, og hjá Ríkisábyrgðasjóði við stofnun hans 1962 og varð forstöðumaður hans 1972. Sjóðurinn var í Seðlabanka Íslands eftir stofnun bankans, en með lögum nr. 43/1990 um Lánasýslu ríkisins var sjóðurinn gerður að deild við hana og fluttist áfrýjandi þangað. Við flutninginn héldust launakjör hans óbreytt, en þau fylgdu ákveðnum viðmiðunarhópi forstöðumanna hjá Seðlabankanum. Áfrýjandi starfaði hjá stefnda þar til hann lét af störfum 1. september 2002, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Lánasýsla ríkisins heyrir undir fjármálaráðherra og starfar samkvæmt nefndum lögum. Samkvæmt 8. gr. laganna, sbr. lög nr. 83/1997, skipar ráðherra forstjóra hennar til fimm ára í senn, og stjórnar forstjórinn rekstri hennar og ræður starfsfólk.
Fram er komið, að það hafi getað dregist að áfrýjandi fengi þær launahækkanir, sem viðmiðunarhópur hans í Seðlabankanum fékk. Laun hópsins voru hækkuð í ársbyrjun 2001, en áfrýjandi fékk ekki þá hækkun fyrr en ári síðar, eftir ítrekaðar óskir og eftirgangsmuni.
II.
Í skýrslu sinni í héraðsdómi lýsti áfrýjandi aðdraganda starfsloka sinna hjá stefnda svo, að í lok janúar 2002 hafi forstjórinn kallað hann á sinn fund og þar hafi verið viðstaddur lögmaður, kynntur sem vottur. Á þeim fundi hafi forstjórinn tjáð sér að leiðréttingin á launum í ársbyrjun 2001 hefði verið vegna breytinga á umfangi og störfum viðmiðunarmanna hans í Seðlabankanum, og því vafi leikið á hvort hann ætti að fá leiðréttingu launa eins og þeir. Hann hefði þó verið látinn njóta vafans og verið ákveðið að hann fengi þessa launaleiðréttingu, en með því skilyrði að hann léti af störfum eftir sex mánuði, eða í júní 2002. Þar að auki hefði forstjórinn tjáð honum að hann hefði til reiðu bréf þar sem honum væri sagt upp launakjörum sínum og yrðu þau frá og með 1. ágúst 2002 í samræmi við kjarasamning bankamanna. Hafi þau laun verið um helmingi lægri en laun hans. Áfrýjandi kveðst hafa ætlað að starfa að minnsta kosti fram á mitt ár 2003 og ljúka þar með 45 ára starfstíma, eða til júníloka 2004, sem hann hafi átt rétt á, en þá yrði hann sjötugur. Hann hafi fengið stuttan umhugsunarfrest. Hann hafi hugsað málið og talið að sér væri nauðugur sá kostur að hætta störfum vegna þess að ella hefði hann þurft að stofna til málaferla til að hnekkja þessari skerðingu á launum sínum og hann hafi ekki getað starfað hjá stofnun sem hann ætti í málaferlum við. Hann hafi því að frestinum liðnum tilkynnt forstjóranum að hann myndi láta af störfum, en jafnframt tekið fram að hann legði þunga áherslu á að launaleiðréttingin kæmi til útreiknings við ákvörðun eftirlauna. Þeir hafi rætt þetta nokkrum sinnum og drög verið gerð að minnisblöðum. Kostnaðurinn við að hafa hann áfram í starfi til sjötugs hefði numið um 15,2 milljónum auk launatengdra gjalda. Umræður hans og forstjórans hafi endað með því að þeir hafi orðið ásáttir um þau atriði sem komu fram á minnisblaðinu frá 17. maí 2002, sem þeir hafi ritað undir. Í elið þess samnings sé ákvæðið, sem deila máls þessa standi um.
Í þessum lið samningsins komi fram forsenda áfrýjanda fyrir því að gera starfslokasamninginn. Hann hafi minnst þess, að sú regla hafi verið sett um lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðs bankamanna frá áramótum 1997 og 1998, að lífeyrisrétturinn miðaðist við meðallaun síðustu fimm ára og ekki væri tekið tillit til annarra launahækkana á því tímabili en þeirra sem almennar væru og gengju til allra. Launahækkunin sem hann hafi loks fengið viðurkennda í ársbyrjun 2002 hafi verið nokkru meiri en aðrir sjóðsfélagar hafi fengið en þó hin sama og þeir fengu sem voru í hans viðmiðunarhópi. Vegna þessa gæti komið upp ágreiningur við lífeyrissjóðinn, sem hann ætti erfitt með að fá jafnaðan þegar hann væri hættur störfum. Þetta hafi verið rætt og hann fallist á að starfslok hans yrðu 1. september 2002 og forstjóri stefnda á móti skuldbundið lánasýsluna til að tryggja að engin skerðing yrði á lífeyrisréttindum áfrýjanda með tilliti til launahækkunarinnar og honum yrði tryggður óskertur lífeyrir til æviloka í samræmi við það.
Þegar lífeyrisgreiðslur hafi farið að berast honum frá lífeyrissjóðnum eftir að hann lét af störfum 1. september 2002 hafi komið í ljós að sjóðurinn hafi ekki tekið tillit til launahækkana hans síðustu misserin fyrir starfslokin. Vangreidd fjárhæð fyrir september 2002 hafi numið 53.648 krónum. Hann hafi hermt starfslokasamninginn upp á stefnda, sem hafi brugðist vel við og krafist skýringa hjá lífeyrissjóðnum og leitast við að fá leiðréttingu á greiðslunum. Lífeyrissjóðurinn hafi svarað stefnda með bréfi 2. október 2002. Þar segi að ljóst sé að laun áfrýjanda hafi á tímabilinu frá desember 1997 hækkað verulega umfram almennar launabreytingar og að þessar hækkanir myndu hafa veruleg áhrif til aukningar á skuldbindingum sjóðsins yrði tekið tillit til þeirra við úrskurð eftirlauna. Stjórn sjóðsins hafi látið tryggingastærðfræðing reikna út hver þessi aukning væri og næmi hún alls 10.953.000 krónum. Athygli stefnda sé vakin á þessu með vísan til 1. mgr. 11. gr. samþykkta sjóðsins. Útreikningur tryggingastærðfræðingsins fylgdi bréfinu, dagsettur 16. júlí 2002. Bréfaskipti stefnda og sjóðsins hafi haldið áfram og kröfur hafi verið ítrekaðar, en allt hafi komið fyrir ekki, og 17. mars 2004 hafi sjóðurinn enn hafnað að greiða áfrýjanda óskertan lífeyri. Hafi þolinmæði áfrýjanda þar með þrotið og hann ritað stefnda bréf 10. júní 2004, þar sem hann hafi krafist þess að honum yrði bætt skerðingin eins og starfslokasamningurinn gerði ráð fyrir.
Forstjóri stefnda bar í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að í viðræðunum um starfslokin hafi áfrýjandi haft áhyggjur af því að þegar hann hæfi töku eftirlauna myndi lífeyrissjóður bankamanna líta svo á að þessar launahækkanir væru ekki hluti af eðlilegum launahækkunum viðmiðunarhópsins. Hann hafi haft fullan skilning á þessum áhyggjum áfrýjanda. Hann hafi hugsað að þar sem áfrýjandi væri að láta af störfum fyrr en hann þyrfti hafi hann viljað veita honum alla þá aðstoð sem hann gæti til að ná fram rétti sínum við lífeyrissjóð bankamanna, þar með talið að veita honum lögmannsaðstoð og jafnvel höfða mál gegn lífeyrissjóðnum. Honum hafi þótt þetta sanngjarnt og rétt, miðað við alla þá þjónustu sem áfrýjandi hefði veitt ríkinu og einnig með hliðsjón af aðstoð sem öðrum fyrrverandi starfsmanni Ríkisábyrgðasjóðs hafði verið veitt í deilu við lífeyrissjóðinn. Þær hugmyndir sem hann hafi gert sér um framkvæmd e-liðar minnisblaðsins hafi verið að áfrýjandi myndi fela stefnda óskilyrt umboð til þess að leita réttar fyrir hans hönd. Hann hafi farið í leyfi skömmu síðar og þegar hann hafi komið aftur til landsins eftir þriggja ára dvöl erlendis hafi það valdið honum vonbrigðum að þetta umboð hefði ekki verið veitt.
Nánar aðspurður sagði forstjórinn að hann hafi ekki talið neinn vafa geta leikið á því að áfrýjandi gæti náð fram rétti sínum gagnvart lífeyrissjóðnum, og að honum hefði fundist afar ólíklegt „í fyrsta lagi að til málsóknar þyrfti að koma og í öðru lagi að til einhvers konar greiðslu gæti komið frá lánasýslunni.“ Hann hafi viljað gera allt sem hann gat til þess að aðstoða áfrýjanda til að ná fram þessum rétti, meðal annars vegna þess að honum hafi fundist hallað á áfrýjanda gagnvart stefnda, þar sem þessar launahækkanir, sem honum hafi borið samkvæmt viðmiðunarhópnum, höfðu ekki verið efndar á réttum tíma og þar af leiðandi meiri hætta á að lífeyrissjóðurinn myndi ekki viðurkenna þær nema til kæmu fullnægjandi skýringar frá stefnda. Honum hafi jafnframt þótt „algjörlega fjarstæðukennt“ að sjóðurinn gæti unnið málið og „það bara vera mjög, mjög ólíklegt að til greiðslu gæti komið.“ Aðspurður hvers vegna áfrýjanda hafi ekki verið sagt upp launakjörunum, eins og staðið hafi til með bréfi stefnda 31. janúar 2002 sagði forstjóri stefnda, að sér hafi fundist, með hliðsjón af hinum langa starfsferli áfrýjanda hjá ríkinu, að það væri meiri sæmd fyrir áfrýjanda og ríkissjóð að leyfa honum að ljúka starfsferli sínum á þeim launakjörum sem hann hafði.
III.
Málsástæður aðila eru raktar í héraðsdómi. Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi reist á því að lagaheimild hafi skort fyrir þeirri tryggingarskuldbindingu lífeyrisréttinda sem kveðið sé á um í e-lið minnisblaðsins frá 17. maí 2002. Það er því ágreiningslaust með aðilum að með hinum umdeilda e-lið samkomulagsins hafi stefndi tekið á sig skuldbindingu.
Umræddur liður minnisblaðsins hljóðar svo:
,,Lánasýslan mun veita Lífeyrissjóði bankamanna allar þær skýringar sem eru nauðsynlegar vegna útreiknings á eftirlaunarétti HA. Lánasýslan mun ennfremur taka að sér þá skuldbindingu að tryggja að HA hljóti þau lífeyrisréttindi sem reglur Lífeyrissjóðs bankamanna kveða á um, þ.e. 85% af meðallaunum síðustu fimm ára án skerðingar, talið frá 1.1.1998 til starfsloka.“
Þegar orðalag þessa liðar starfslokasamningsins er virt, aðdragandi hans og skýringar aðila, þykir ljóst að forstjóri stefnda hafi hér skuldbundið stofnunina til þess að aðstoða áfrýjanda við að ná fram rétti sínum gagnvart Lífeyrissjóði bankamanna. Ennfremur hafi áfrýjanda verið lofað að stefndi myndi rétta hlut hans ef það tækist ekki, með því að ábyrgjast að hann fengi lífeyrisgreiðslur svo sem þar segir. Mátti áfrýjandi treysta því að stefndi myndi efna þetta loforð. Ósannað er að það hafi verið háð því skilyrði að áfrýjandi gæfi stefnda óskilyrt umboð til málshöfðunar gegn lífeyrissjóðnum, ef til þess kæmi.
Kemur þá til álita hvort forstjóra stefnda hafi verið heimilt að skuldbinda stofnunina með þessum hætti. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 43/1990 stjórnar forstjóri rekstri Lánasýslu ríkisins og ræður henni starfsfólk. Hann sér því einnig um uppsagnir starfsfólks og gerð starfslokasamninga á borð við þann sem í umræddu minnisblaði fólst. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna hefur lánasýslan fimm sérgreinda tekjuliði og skulu launatekjur starfsmanna meðal annars greiðast af þessum tekjum stofnunarinnar. Á þeim langa tíma sem tók að ganga endanlega frá samkomulagi aðila um lífeyristöku áfrýjanda 17. maí 2002 og allt þar til hún skyldi hefjast 1. september sama ár, var nægur tími fyrir forstjóra stefnda að afla formlegrar heimildar til greiðslna samkvæmt e-lið samkomulagsins, ef hann taldi slíkrar heimildar þörf. Eins og hér stóð á og þegar litið er til stöðuumboðs forstjórans mátti áfrýjanda hvorki vera ljóst að formlegrar heimildar væri þörf né að hennar yrði ekki aflað, væri hennar talin þörf. Verður stefndi því ekki sýknaður af þessari ástæðu.
Í öðru lagi reisir stefndi sýknukröfu sína á því að viðurkennt sé af áfrýjanda hálfu að til grundvallar lífeyrisskuldbindingu stefnda í elið samkomulagsins hafi legið sú forsenda að áfrýjandi yrði beittur sértækri skerðingu á grundvelli 1. mgr. 11. gr. samþykkta lífeyrissjóðsins vegna síðbúinna launaleiðréttinga sem aðrir í viðmiðunarhópi hans hefðu ekki þurft að sæta. Umrædd skuldbinding verði ekki túlkuð svo rúmt að hún geti tekið til almennrar skerðingar lífeyrisréttinda samkvæmt 5. gr. samþykktanna. Í ljós sé leitt að afstaða lífeyrissjóðsins byggist í raun á því að hann hafi ekki efni á því að greiða hinn lofaða lífeyri. Þar sé um að ræða almenna forsendu sem eigi jafnt við um alla og við þær aðstæður gildi 5. gr. samþykkta sjóðsins og verði 11. gr. þeirra ekki beitt með sértækum aðgerðum við þær aðstæður. Þess vegna sé því skilyrði og forsendu skuldbindingarinnar, að skerðingu lífeyris sé að rekja til þess að það hafi dregist að leiðrétta laun áfrýjanda frá ársbyrjun 2001 til ársbyrjunar 2002, ekki fullnægt. Á þessa sýknuástæðu stefnda verður ekki fallist. Hvorki veitir orðalag eliðar samkomulagsins né skýringar aðila á ákvæðinu ástæðu til að þrengja efni þess svo að trygging stefnda hafi aðeins tekið til þess ef lífeyrisskerðing áfrýjanda yrði af þeim ástæðum, sem þessi málsástæða stefnda gerir ráð fyrir.
Stefndi bendir auk þess á, að ekki fái staðist, eins og ákvæði e-liðar minnisblaðsins sé orðað varðandi skuldbindingu stefnda um að tryggja áfrýjanda lífeyrisréttindi án skerðingar, að það feli í sér skuldbindingu um greiðslu mismunafjárhæðar á hverjum tíma. Beinlínis sé tekið fram að um tryggingu lífeyrisréttinda sé að ræða, sem stefndi geti þá eftir atvikum, eins og lífeyrissjóður bankamanna hafi bent á, efnt með eingreiðslu til sjóðsins í samræmi við þær skuldbindingar. Ágreiningslaust er að stefnda hafi verið heimilt að efna skyldu sína með eingreiðslu.
Til vara krefst stefndi sýknu að svo stöddu með vísan til þess að skuldbinding hans hafi aðeins falið í sér baktryggingu og ekki sé fullreynt að afstaða lífeyrissjóðsins sé lögum samkvæmt. Svo sem að framan greinir er ekki sannað að óskilyrt umboð áfrýjanda til stefnda til málshöfðunar hafi verið forsenda e-liðar samningsins. Stefndi hefur haft nægan tíma til þess að uppfylla skyldu sína. Verður því ekki á varakröfu hans fallist.
Til þrautavara krefst stefndi þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð og kröfu um dráttarvexti er sérstaklega mótmælt. Áfrýjandi samdi við stefnda um starfslok sín á þann hátt sem minnisblað þeirra segir. Í lokalið þess skuldbatt stefndi sig til að tryggja áfrýjanda lífeyrisréttindi án skerðingar. Við þessa skuldbindingu hefur hann ekki staðið. Þar sem fjárhæðir höfuðstóls hafa ekki sætt tölulegum mótmælum verða kröfur áfrýjanda um greiðslu og um viðurkenningu greiðslna teknar til greina.
Við ákvörðun dráttarvaxta er hins vegar til þess litið að áfrýjandi krafði stefnda ekki sannanlega um greiðslu fyrr en með bréfi 10. júní 2004. Reiknast því dráttarvextir af höfuðstól kröfu áfrýjanda eins og hún var í héraði og frá 10. júlí 2004.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Lánasýsla ríkisins, greiði áfrýjanda, Harald Andréssyni, 3.004.210 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.338.854 krónum frá 10. júlí 2004 til 1. ágúst sama ár, af 1.395.598 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 1.452.342 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, en af 1.509.788 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Viðurkennt er að stefnda beri að greiða áfrýjanda 63.856 krónur verðbætt miðað við neysluverðsvísitölu mánaðarlega frá 1. október 2006 til æviloka og tvöfalda þá fjárhæð í desember ár hvert.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. september sl., var höfðað 23. nóvember 2004 af Harald Andréssyni, Ásgarði 77, Reykjavík, á hendur Lánasýslu ríkisins, Borgartúni 21, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
1. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að greiða stefnanda mánaðarlega frá og með nóvember 2004 til æviloka þann mismun sem er á hverjum tíma á greiðslum lífeyris til stefnanda frá Lífeyrissjóði bankamanna, sem í nóvember 2004 eru 396.888 krónur, og þeim greiðslum sem stefnandi ætti rétt til, miðað við að lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðnum væru óskertar, sem í nóvember 2004 eru 454.309 krónur, verðbætt miðað við neysluverðsvísitölu.
2. Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 1.509.328 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 af 53.648 krónum frá 1. september 2002 til 1. október sama ár, en frá þeim degi af 107.562 krónum til 1. nóvember s.á., en frá þeim degi af 161.766 krónum til 1. desember s.á., en frá þeim degi af 233.922 krónum til 1. janúar 2003, en frá þeim degi af 288.078 krónum til 1. febrúar s.á., en frá þeim degi af 342.428 krónum til 1. mars s.á., en frá þeim degi af 396.680 krónum til 1. apríl s.á., en frá þeim degi af 451.513 krónum til 1. maí s.á., en frá þeim degi af 506.419 krónum til 1. júní s.á., en frá þeim degi af 561.228 krónum til 1. júlí s.á., en frá þeim degi af 616.085 krónum til 1. ágúst s.á., en frá þeim degi af 670.869 krónum til 1. september s.á., en frá þeim degi af 725.605 krónum til 1. október s.á., en frá þeim degi af 780.728 krónum til 1. nóvember s.á., en frá þeim degi af 836.117 krónum til 1. desember s.á., en frá þeim degi af 947.041 krónum til 1. janúar 2004, en frá þeim degi af 1.002.672 krónum til 1. febrúar s.á., en frá þeim degi af 1.058.327 krónum til 1. mars s.á., en frá þeim degi af 1.113.813 krónum til 1. apríl s.á., en frá þeim degi af 1.169.614 krónum til 1. maí s.á., en frá þeim degi af 1.225.729 krónum til 1. júní s.á., en frá þeim degi af 1.281.844 krónum til 1. júlí s.á., en frá þeim degi af 1.338.854 krónum til 1. ágúst s.á., en frá þeim degi af 1.395.598 krónum til 1. september s.á., en frá þeim degi af 1.452.342 krónum til 1. október s.á., en frá þeim degi af 1.509.328 krónum til greiðsludags. Krafist er að dráttarvextir verði höfuðstólsfærðir á eins árs fresti, í fyrsta skipti 1. september 2003.
3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.
Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að henni verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er krafist sýknu að svo stöddu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar eins og í aðalkröfu. Til þrautavara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi starfaði hjá Ríkisábyrgðarsjóði frá árinu 1972 til 1994 og var forstöðumaður þar síðustu árin. Eftir að Ríkisábyrgðarsjóður var fluttur til stefnda í byrjun árs 1994 starfaði stefnandi þar. Laun stefnanda voru samkvæmt sérstökum launaflokki, sem laun forstöðumanna deilda Seðlabankans fóru eftir, sem kallaður er í málinu viðmiðunarhópur, og hélst sú skipan eftir að stefnandi hóf störf hjá stefnda.
Fram hefur komið að stefnandi var boðaður á fund forstöðumanns stefnda í janúar 2002. Á þeim fundi kom til tals að senn liði að starfslokum stefnanda. Málsaðila greinir á um ástæður fyrir því að þetta var rætt. Stefnandi heldur því fram að það hafi ekki verið tímabært en hann hefði hugsað sér að starfa fram á mitt ár 2003 til að ljúka þar með 45 ára starfstíma. Forstöðumaðurinn hafi sagt að starfslokin þyrftu að vera fyrr og varð niðurstaðan sú að þau yrðu 1. september 2002. Stefnandi heldur því fram að honum hafi verið gert að láta af störfum, ella yrði launasamningnum við hann sagt upp og hafi forstöðumaðurinn sagt að bréf væri til um það. Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi sjálfur viljað ræða starfslok sín.
Ágreiningslaust er að málsaðilar voru um vorið sammála um starfslok stefnanda. Lagt hefur verið fram minnisblað frá 17. maí 2002, en þar kemur fram að forstöðumaður stefndu og stefnandi hafi átt saman fund þar sem rædd hafi verið starfslok stefnanda sem verði 1. september sama ár og muni hann þá hefja töku eftirlauna. Á minnisblaðinu eru síðan talin upp í nokkrum liðum þau atriði sem þeir hafi verið sammála um. Í síðasta liðnum er tekið fram að stefndi muni veita Lífeyrissjóði bankamanna allar nauðsynlegar skýringar vegna útreiknings á eftirlaunarétti stefnanda. Stefndi muni enn fremur taka að sér þá skuldbindingu að tryggja að stefnandi hljóti þau lífeyrisréttindi sem reglur lífeyrissjóðsins kveði á um, þ.e. 85% af meðallaunum síðustu fimm ára án skerðingar, talið frá 1. janúar 1998 til starfsloka.
Óumdeilt er að stefnandi hefur ekki fengið greitt úr Lífeyrissjóði bankamanna 85% af meðallaunum síðustu fimm ára heldur lægri fjárhæð. Í gögnum málsins kemur fram að stjórn lífeyrissjóðsins kvað upp úrskurð um eftirlaunagreiðslur til stefnanda úr sjóðnum 21. ágúst 2002. Einnig kemur þar fram að greiðslurnar eru skertar án þess að af því megi nægilega skýrt ráða um ástæður þess. Úrskurður lífeyrissjóðsins eða fundargerð framangreinds fundar hefur ekki fengist þótt málsaðilar hafi leitað eftir því.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að greiða honum mánaðarlega til æviloka mismun á lífeyrisgreiðslum sem hann fær frá lífeyrissjóðnum og óskertum lífeyri. Hann krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða honum þennan mismun, sem stefnandi hefur látið reikna út, á tímabilinu 1. september 2002 til nóvember 2004 er málið var höfðað. Stefndi mótmælir því að stefndi eigi nokkurn rétt á því að kröfur hans í málinu nái fram að ganga.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi lengst af á 44 ára starfsævi sinni starfað hjá Ríkisábyrgðasjóði. Sjóðurinn hafi fyrst haft aðsetur í Seðlabanka Íslands en síðustu tíu árin verið hjá stefndu. Við breytinguna hafi stefnandi flust til stefndu og hafi hann haldið áfram óbreyttum kjörum sem hann hefði áunnið sér í Seðlabankanum.
Þegar stefnandi var kominn til starfa hjá stefndu hafi laun hans tekið breytingum í samræmi við breytingar á launum ákveðins viðmiðunarhóps starfsmanna Seðlabankans. Stundum hafi komið fyrir að laun stefnanda tækju breytingum nokkru síðar en þá hafi þau verið leiðrétt aftur í tímann. Launabreytingar sem urðu í ársbyrjun 2001 hjá viðmiðunarhópnum hafi ekki komið til leiðréttingar hjá stefnanda fyrr en með eingreiðslu í byrjun árs 2002 eftir að stefnandi hefði ítrekað gengið eftir því. Um svipað leyti hafi forstjóri stefndu óskað eftir því við stefnanda að við hann yrði gerður starfslokasamningur miðað við að stefnandi hætti störfum um mitt ár 2002. Stefnandi hafi ekki verið sáttur við þessar lyktir máls en hann hafi sjálfur haft fullan hug á því að vinna svo lengi að hann næði a.m.k. 45 ára starfsaldri. Hann hefði þó átt rétt á að vinna til sjötugs.
Umræðan um starfslokin hafi leitt til þess að stefnandi hafi farið að athuga rétt sinn hjá Lífeyrissjóði bankamanna til lífeyrisgreiðslna. Fyrir honum hafi rifjast upp sú regla sem sett hefði verið um lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðsins frá áramótum 1997/1998 þar sem gengið hafi verið út frá því að lífeyrisrétturinn miðaðist við meðallaun síðustu fimm ára og ekki væri tekið tillit til annarra launahækkana á því tímabili en þeirra sem almennar væru og gengju til allra. Launahækkunar sem stefnandi hefði fengið í ársbyrjun 2002 hafi verið nokkru meiri en aðrir sjóðfélagar hefðu fengið en þó hin sama og þeir sem voru í hans viðmiðunarflokki. Stefnandi hafi séð fram á að vegna þessa gæti komið upp ágreiningur við lífeyrissjóðinn.
Þegar frekar hafi verið gengið á stefnanda til að ganga frá starfslokasamningi, en að öðrum kosti yrðu launaviðmiðunum hans breytt og launum hans sagt upp til lækkunar, hafi stefndi tekið þá ákvörðun að reyna að gera gott úr hlutunum. Hann hafi fallist á að starfslok hans yrðu miðuð við 1. september 2002, eða sjö mánuðum eftir að vakið var máls á starfslokunum. Gegn því að samþykkja slíkan starfslokasamning hafi stefndi boðist til að taka á sig þá skuldbindingu að engin skerðing yrði á lífeyrisréttindum stefnanda með tilliti til þeirra auknu greiðslna sem hann hefði fengið innan fimm ára tímamarkanna fyrir töku lífeyris og stefndi myndi tryggja honum óskertan lífeyri til æviloka í samræmi við það. Samkomulag hafi verið gert með aðilum um þetta sem komi fram á minnisblaði frá 17. maí 2002 ásamt fleiru varðandi starfslokin en þar segi m.a.:
“Lánasýslan mun ennfremur taka að sér þá skuldbindingu að tryggja að HA hljóti þau lífeyrisréttindi sem reglur Lífeyrissjóðs bankamanna kveða á um, þ.e. 85% af meðallaunum síðustu fimm ára án skerðingar, talið frá 1.1.1998 til starfsloka.”
Við starfslok stefnanda 1. september 2002 og þegar lífeyrisgreiðslur fóru að berast til hans frá Lífeyrissjóði bankamanna, hafi komið í ljós að lífeyrissjóðurinn hafi við útreikning á lífeyrisgreiðslum stefnanda ekki tekið tillit til þeirra auknu greiðslna sem stefnandi hefði notið síðustu misserin fyrir starfslokin og þrátt fyrir að greitt hafi verið í lífeyrissjóðinn af þeim greiðslum. Hafi vangreidd fjárhæð til stefnanda fyrir septembermánuð 2002 numið 53.648 krónum.
Þegar þessi staða kom upp hafi stefnandi hermt starfslokasamninginn á minnisblaðinu upp á stefndu og óskað eftir að stefnda tryggði sér mismuninn. Stefnda hafi brugðist við með því að krefjast skýringa frá lífeyrissjóðnum. Í svarbréfi sjóðsins 2. október 2002 sé því haldið fram að laun stefnanda hafi hækkað verulega umfram almennar launabreytingar og að hækkanirnar muni hafa veruleg áhrif til aukningar á skuldbindingum sjóðsins verði tekið tillit til þeirra við útreikning eftirlauna en aukningin sé talin nema 10.953.000 krónum. Stefnda hafi ítrekað kröfu sína við lífeyrissjóðinn í bréfi 17. október sama ár. Í svari lífeyrissjóðsins 30. september 2003 sé óskertum greiðslum hafnað.
Eftir að fullreynt hafi virst að fá lífeyrissjóðinn til að greiða óskertan lífeyri til stefnanda hafi farið fram bréfaskriftir milli stefndu og fjármálaráðuneytisins sem stefnandi hafi fylgst með. Lífeyrissjóðurinn hafi enn eftir fyrirspurn frá stefndu hafnað að greiða stefnanda óskertan lífeyri 17. mars 2004. Vísað sé þar til fyrri úrskurðar í máli stefnanda 21. ágúst 2002.
Þolinmæði stefnanda hafi þegar þar var komið verið þrotin. Hann hafi sent stefndu bréf 10. júní 2004 þar sem hann hafi krafist þess að honum yrði bætt skerðingin eins og starfslokasamkomulagið geri ráð fyrir. Í framhaldi af því hafi orðið að samkomulagi milli málsaðila að stefnandi kæmi með tillögu að samkomulagi þar sem hann heimilaði stefndu málshöfðun á hendur lífeyrissjóðnum til heimtu fullrar lífeyrisgreiðslu til handa stefnanda. Stefnandi hafi óskað eftir tillögum til breytinga og frágangi á tillögum sínum, en stefndi hafi hafnað samkomulaginu með bréfi 23. ágúst 2004 vegna skilyrða sem stefnandi hafi sett. Í tölvupósti 23. september sama ár komi fram hugmynd stefndu að framhaldi málsins þar sem gert sé ráð fyrir að stefnandi veiti stefndu umboð til að reka málið gagnvart lífeyrissjóðnum. Í tillögunni komi ekkert fram um hvernig að málum skyldi staðið ef ekki fengist jákvæð niðurstaða gagnvart lífeyrissjóðnum. Stefnandi hafi talið hugmynd þessa óásættanlega og því hafnað henni. Hann hafi því höfðað málið til að fá stefndu til að standa við skuldbindingu sína.
Krafa stefnanda á hendur stefndu sé byggð á samkomulaginu frá 17. maí 2002 og hafi verið forsenda þess að stefnandi samþykkti starfslok sín fyrr en hann ella hefði þurft. Við undirritun samkomulagsins hafi stefnandi enn átt tæp tvö ár eftir í að verða sjötugur sem stefnandi hafi haft til viðmiðunar um starfslok sín sem og almennar reglur geri einnig ráð fyrir. Stefnandi hafi fyrst og fremst samþykkt að flýta starfslokum um tæp tvö ár gegn því að honum yrði tryggður lífeyrir út frá þeim launum sem hann hafi haft á starfslokadegi, bættum til framtíðar með neysluverðsvísistölu. Hann hafi gert sér grein fyrir því að Lífeyrissjóður bankamanna, þegar þar að kæmi, gæti gert athugasemdir við auknar launagreiðslur á síðustu árum fyrir lífeyristöku. Hann hafi þó sjálfur talið að yfirgnæfandi líkur væri á því að lífeyrissjóðurinn myndi ekki skerða lífeyrinn þar sem um væri að ræða hækkun hjá öllum í viðmiðunarlaunahópnum. Stefnandi hafi á þessum tíma verið búinn að ávinna sér full lífeyrisréttindi, þ.e. 85% af viðmiðunarlaunum, og ef þau yrðu miðuð við laun hans á starfslokadegi, en ekki skert, gæti hann sætt sig við starfslokin fyrr og þá sérstaklega þar sem það væri að sérstakri beiðni stefndu, vinnuveitanda hans.
Ekki sé ósennilegt að lífeyrissjóðurinn hafi gert athugasemdir við launabreytingar hjá stefnanda þar sem svo skammur tími hafi verið frá því að þær áttu sér stað þegar ákvörðun um lífeyrisréttindin var tekin. Mestar líkur séu á því að eftir því sem lengri tími hefði liðið frá launabreytingunum til ákvörðunartökunnar um lífeyrisréttindin því minni líkur væru á að lífeyrissjóðurinn gerði athugasemdir varðandi launabreytinguna. Hefði stefnandi ekki hafið töku lífeyris fyrr en sjötugur, eins og efni hafi staðið til, hefði að líkindum ekki komið til athugasemda og skerðinga hjá lífeyrissjóðnum á viðmiðunarlaunum, þar sem svo langt væri um liðið frá launabreytingunni.
Í málinu krefjist stefnandi í fyrsta lagi viðurkenningardóms um skyldu stefndu til að greiða sér á hverjum mánuði til æviloka þann mismun sem sé á greiðslu sem Lífeyrissjóður bankamanna greiði stefnanda og þeirri sem sjóðurinn ætti að greiða ef skerðingarreglum viðmiðunarlauna væri ekki beitt af hálfu sjóðsins. Í öðru lagi krefjist stefnandi greiðslu, samtals að fjárhæð 1.509.328 krónur, sem sé þannig fundin að lagðar hefðu verið saman þær fjárhæðir hvers mánaðar frá september 2002 til október 2004, sem lífeyrisréttur stefnanda hefði verið skertur um hjá lífeyrissjóðnum. Þann mismun beri stefndu að greiða, en mismunur hvers mánaðar komi fram á útreikningum sem stefnandi hafi lagt fram.
Stefnandi vísi til meginreglna kröfu- og samningaréttar og laganna um lífeyrisréttindi. Um málskostnaðarkröfuna vísi stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um virðisaukaskatt sé reist á lögum nr. 50/1998. Dráttavaxtakrafan sé byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og nr. 38/2001.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnandi hafi í máli þessu uppi þær dómkröfur í fyrsta lagi að viðurkennt verði með dómi að stefndu beri að greiða stefnanda mánaðarlega frá og með nóvember 2004 til æviloka þann mismun sem sé á hverjum tíma á greiðslum lífeyris til stefnanda frá Lífeyrissjóði bankamanna, sem í nóvember 2004 séu 396.888 krónur, og þeim greiðslum sem stefnandi ætti rétt til miðað við að lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðnum væru óskertar, sem í nóvember 2004 séu 454.309 krónur, verðbættar miðað við neysluverðsvísitölu. Í öðru lagi krefjist stefnandi að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 1.509.328 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. september 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar að mati dómsins. Stefnandi byggi kröfur sínar á e-lið minnisblaðsins frá 17. maí 2002, undirrituðu af stefnanda og þáverandi forstjóra stefndu. Þar sé kveðið á um það að stefnda taki að sér þá skuldbindingu að tryggja stefnanda þau lífeyrisréttindi sem reglur Lífeyrissjóðs bankamanna kveði á um, það er 85% af meðallaunum síðustu fimm ára án skerðingar, talið frá 1. janúar 1998 til starfsloka. Lífeyrissjóðurinn hafi við útreikning á lífeyrisgreiðslum stefnanda ekki tekið tillit til þeirra auknu greiðslna sem hann hefði notið síðustu misseri fyrir starfslokin. Fullreynt sé að á þeirri afstöðu verði ekki breyting og beri stefndu að tryggja þann mismun og greiða það sem þegar sé áfallið og uppá vanti. Stefnandi hafi samþykkt að flýta starfslokum gegn því að honum yrði tryggður lífeyrir út frá þeim launum sem hann hafi haft á starfslokadegi bættum til framtíðar með neysluverðsvísitölu og að ósennilegt sé að lífeyrissjóðurinn hefði gert athugasemdir við launabreytingar hjá stefnanda hefði hann starfað áfram þá 22 mánuði sem vantað hafi uppá að hann næði sjötugs aldri. Stefnda vísi þessum sjónarmiðum stefnanda og kröfum á þeim reistum eindregið á bug.
Samkvæmt bréfi Seðlabanka Íslands 23. apríl 2004 hafi stefnandi verið fastráðinn hjá Landsbanka Íslands og Seðlabanka 1. maí 1959. Hann hafi starfað í Seðlabankanum til ársloka 1993 og síðustu árin sem forstöðumaður sjóðadeildar. Í byrjun árs 1994 hafi hluti af starfsemi sjóðadeildar, það er Ríkisábyrgðarsjóður, verið fluttur til stefndu samkvæmt 1. tl. 3. gr. laga nr. 43/1990 um stefndu en samkvæmt lagaákvæðinu skyldi starfrækja Ríkisábyrgðarsjóð sem deild við stefndu. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga hafi verið ákveðið að stefnda tæki við öllum eignum og skuldum, kröfum og skuldbindingum Ríkisábyrgðarsjóðs samkvæmt lögum nr. 49/1962. Við þá breytingu hafi stefnandi flust til stefndu og í því sambandi hafi verið undirritað samkomulag 31. desember 1993 þar sem tekið var fram að stefnda yfirtæki vinnusamning stefnanda við Seðlabanka Íslands frá og með 1. janúar 1994 og komi því ekki til álita ákvæði kjarasamninga að því er varði uppsögn starfsmanns. Í því felist að öll réttindi starfsmannsins haldist óbreytt hvað varði laun, orlof og lífeyrisréttindi. Á árinu 1993 hafi stefnandi sem forstöðumaður sjóðadeildar í Seðlabanka Íslands verið í hæsta launaflokki forstöðumanna deilda við bankann.
Stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en starfskjör hans hafi verið samkvæmt kjarasamningi bankamanna og samninganefndar bankanna. Líkt og fleiri yfirmenn Seðlabankans hafi hann fengið greitt samkvæmt sérstökum launaflokki umfram launatöflu kjarasamnings og hafi hann haldið þeirri viðmiðun eftir að stefnda tók yfir vinnusamning hans við Seðlabanka Íslands frá 1. janúar 1994.
Í október 1994 hafi komið til framkvæmda ýmsar skipulagsbreytingar hjá Seðlabankanum og meðal annars verið ákveðið að einn aðstoðarbankastjóri yrði við bankann. Jafnframt hafi verið haldið áfram á þeirri braut að fella saman skyld verkefni í starfssvið og hafi framkvæmdastjóri verið settur yfir hvert svið. Frá október 1994 hafi laun stefnanda tekið mið af launum framkvæmdastjóra í Seðlabankanum. Launaafgreiðsla fyrir stefndu sé hjá Seðlabanka Íslands.
Laun stefnanda frá 1. janúar 1998 án bílastyrks hafi verið eftirfarandi en greitt hafi verið iðgjald af þessum launum til Lífeyrissjóðs bankamanna: Frá 1. janúar 1998 samtals 360.678 krónur, frá 1. janúar 1999 samtals 413.400 krónur, frá 1. janúar 2000 samtals 429.162 krónur eftir breytingar, sem gerðar hafi verið í kjölfar þess að stefnda óskaði eftir því með bréfi 19. janúar 2000 að laun stefnanda yrðu leiðrétt um 0,3% frá 1. júlí 1999 og um 3,5% frá 1. janúar 2000, frá 1. janúar 2001 samtals 522.800 krónur og frá 1. janúar 2002 samtals 563.700 krónur í samræmi við ákvörðun stefndu sem tilkynnt hafi verið um með bréfi 19. febrúar 2002. Að teknu tilliti til afturvirkni breytinga hafi laun stefnanda fylgt launum framkvæmdastjóra hjá Seðlabanka Íslands frá þeim tíma sem laun framkvæmdastjóra við bankann hafi breyst. Hækkanir sem þeir hafi notið frá áramótum 2001, en laun þeirra hafi verið samkvæmt sérstökum launaflokki, hafi verið meiri en almennar hækkanir samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra bankamanna og bankanna á þessu tímabili.
Er stefnandi hóf töku lífeyris 1. september 2002 hafi verið í gildi samþykktir Lífeyrissjóðs bankamanna, staðfestar í desember 1999. Í 5. gr. þeirra sé almenn heimild til að breyta áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga leiði rannsókn tryggingafræðings í ljós að misræmi hafi myndast milli eigna og skuldbindinga einstakra deilda.
Í ársbyrjun 2002 hafi forstjóri stefndu haft í hyggju, sem lið í hagræðingaraðgerðum hjá stofnuninni til að lækka launakostnað, að segja stefnanda upp þeim viðmiðunarkjörum sem hann hefði notið með sex mánaða uppsagnarfresti í samræmi við kjarasamning bankamanna og ákvarða honum laun á grundvelli kjarasamnings eins og fram komi í bréfi forstjóra til stefnanda 31. janúar 2002. Aldrei hafi þó komið til þess að bréfið væri formlega afhent stefnanda þó honum væri kunnugt um það, því áður en til þess kom hafi hafist umræður milli forstjóra stefndu og stefnanda um starfslok hans. Stefnandi hefði þá þegar unnið sér hámarks lífeyrisréttindi, 85%, hjá Lífeyrissjóði bankamanna og hafi getað hafið töku lífeyris.
Minnisblaðið sem stefnandi reisi kröfur sínar á hafi verið undirritað af honum og þáverandi forstjóra stefndu 17. maí 2002. Stefnandi lýsi tildrögum að ákvæði e-liðar svo, að vegna þeirrar reglu í 11. gr. samþykkta lífeyrissjóðsins að frá áramótum 1997/1998 yrði gengið út frá því að lífeyrisrétturinn miðaðist við meðallaun síðustu fimm ára og ekki væri tekið tillit til annarra launahækkana á því tímabili en þeirra sem almennar væru og gengju til allra, hafi hann séð fram á að upp gæti komið ágreiningur við lífeyrissjóðinn vegna þeirra launahækkana sem hann hefði fengið í ársbyrjun 2002 vegna launaleiðréttinga og hafi verið nokkuð meiri en aðrir sjóðfélagar hafi fengið en þó hin sama og þeir sem hafi verið í hans viðmiðunarflokki. Hafi stefnda, gegn því að stefnandi léti af störfum 1. september, tekið á sig þá skuldbindingu að engin skerðing yrði á lífeyrisréttindum stefnanda með tilliti til þeirra auknu greiðslna sem hann hefði fengið vegna síðbúinna leiðréttinga innan fimm ára tímamarkanna fyrir töku lífeyris og myndi stefnda tryggja honum óskertan lífeyri til æviloka í samræmi við það.
Minnisblaðið hafi verið samið af þáverandi forstjóra stefndu og stefnanda sameiginlega og tvenn drög hefðu verið útbúin áður en þeir skrifuðu undir endanlegt eintak. Minnisblaðið miði að því að tryggja stöðu stefnanda gagnvart Lífeyrissjóði bankamanna. Það sé ekki starfslokasamningur heldur upptalning á framkvæmdaatriðum sem tengdust eftirlaunatöku stefnanda. Ekki hefði átt að koma til útgjalda á grundvelli e-liðar minnisblaðsins. Kæmi til skerðingar myndi lífeyrissjóðurinn, eins og nýlegt dæmi væri um, afturkalla og leiðrétta þær að fengnum skýringum stefndu á því að launahækkanir til stefnanda síðustu misserin hefðu verið í fullu samræmi við þær hækkanir sem viðmiðunarhópur hans hjá Seðlabankanum hefði fengið. Ætlunin með e-lið minnisblaðsins hefði verið að veita stefnanda nokkurs konar bakábyrgð ef til þess kæmi að lífeyrir hans yrði skertur og fullreynt væri að þeirri ákvörðun yrði ekki hnekkt.
Starfslok stefnanda hafi verið 1. september 2002 og hafi hann þá hafið töku lífeyris hjá Lífeyrissjóði bankamanna. Þá hafi komið í ljós að lífeyrissjóðurinn hefði ákvarðað stefnanda lægri lífeyri en hin almenna regla í 11. gr. samþykkta sjóðsins kveði á um, þ.e. að ellilífeyrir skuli miðast við meðallaun þess starfs sem sjóðfélaginn gegndi síðustu fimm árin. Fyrsta greiðslan til stefnanda hafi numið 370.808 krónum sem sé 85% af viðmiðunarfjárhæð sem lífeyrissjóðurinn hafi gengið út frá, 436.245 krónum. Mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur hafi numið þessari fjárhæð, auk hækkunar sem orðið hafi á vísitölu neysluverðs.
Lífeyrissjóður bankamanna hefði ritað stefndu bréf 2. október 2002 og því hafi fylgt samþykktir lífeyrissjóðsins og útreikningur Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings. Í bréfinu greini að laun stefnanda hefðu á tímabilinu frá desember 1997 hækkað verulega umfram almennar launabreytingar og ljóst að hækkanirnar myndu hafa veruleg áhrif til aukningar á skuldbindingum sjóðsins yrði tekið tillit til þeirra við úrskurð eftirlauna. Samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðings næmi aukningin alls 10.953.000 krónum. Með vísan til 1. mgr. 11. gr. samþykkta sjóðsins væri vakin athygli á málinu. Stefnda hafi gert lífeyrissjóðunum grein fyrir þeirri skoðun sinni að stefnanda bæri lífeyrir miðað við þau laun sem hann hafi raunverulega fengið, sbr. bréf 17. október 2002. Hann hafi tilheyrt tilteknum sérskráðum launaflokki sem hafi að vísu hækkað nokkuð á þessu tímabili, en stefnandi hefði ekki fengið launahækkanir umfram aðra í þeim launaflokki. Heimild stjórnar til að víkja frá meginreglunni í 11. gr. um meðallaun síðustu 5 starfsára beri að skýra þröngt og geti ekki átt við þó einn launaflokkur hækki umfram aðra.
Af hálfu stefndu hafi síðan ítrekað verið óskað eftir svörum símleiðis og bréflega, sbr. bréf 26. júní 2003. Loks hafi borist svarbréf frá lífeyrissjóðnum 30. september 2003. Í því bréfi hafi verið ítrekað það sem fram komi í bréfi sjóðsins frá 2. október 2002 um viðbótarkostnað vegna aukinna skuldbindinga og jafnframt vakin athygli á því að hækkanir á launum stefnanda hafi dregist fram yfir uppgjör skuldbindinga miðað við árslok 1997 en hefðu átt að koma til framkvæmda fyrr. Sú afstaða hafi enn á ný verið ítrekuð í tölvupósti framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs bankamanna 18. mars 2004 og að ekki gæti orðið um frekari eftirlaunagreiðslur að ræða vegna stefnanda nema til kæmu greiðslur inn í sjóðinn. Með tölvupósti starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins 15. mars 2004 til lífeyrissjóðsins hafi meðal annars verið óskað eftir því að ráðuneytinu yrði afhent fundargerð varðandi þá ákvörðun stjórnarinnar að skerða lífeyri stefnanda. Aðgangi að fundargerð hafi verið hafnað.
Sýknukrafa stefnda sé í fyrsta lagi reist á því að lagaheimild skorti fyrir þeirri tryggingaskuldbindingu lífeyrisréttinda sem kveðið sé á um í e-lið minnisblaðs frá 17. maí 2002 og hún því ógild og óskuldbindandi fyrir stefndu og ríkissjóð. Stefnandi geti ekki unnið rétt á hendur stefndu á grundvelli samnings sem hafi í för með sér greiðslur úr ríkissjóði nema lög heimili slíkan samning. Í 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar komi fram þær meginreglur að fjárstjórnarvaldið sé hjá Alþingi. Samkvæmt 40. gr. megi ekki taka lán, er skuldbindi stefnda, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Samkvæmt 41. gr. megi ekkert gjald greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Samkvæmt þessu og í samræmi við ákvæði laga um fjárreiður ríkisins nr. 88/1997 verði að leita formlegra heimilda til fjárráðstafana, sem ekki eru heimilar samkvæmt almennum lögum. Í slíkum tilvikum sé óheimilt að stofna til annarra fjárskuldbindinga en þeirra sem gert sé ráð fyrir á fjárlögum. Skýrt sé kveðið á um það í 21. gr. laganna að fyrirfram skuli leita heimilda til greiðslna úr ríkissjóði, eftirgjafar krafna og til að gera hvers konar samninga um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir. Í athugasemdum er fylgdu þeirri grein komi fram að í þessu felist að ávallt skuli leita formlegra heimilda til hvers konar fjárráðstafana sem ekki séu heimilar samkvæmt almennum lögum.
Stefnda starfi samkvæmt lögum nr. 43/1990 og sé á A-hluta fjárlaga. Í 1. gr. laganna segir að stofnunin skuli fyrir hönd fjármálaráðherra fara með lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana innanlands og utan, útgáfu sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og aðra skuldaumsýslu fyrir ríkissjóð, svo og endurlán lánsfjár og ríkisábyrgðir. Í 8. gr. komi fram að fjármálaráðherra skipi forstjóra stofnunarinnar sem stjórni rekstri hennar og ráði henni starfsfólk. Nánari ákvæði um framkvæmd laganna og starfsemi stefndu sé að finna í reglugerð nr. 237/1998, sett samkvæmt heimildum í 11. gr. laganna og í 9. gr. laga nr. 121/1997 um ríkisábyrgðir. Í 1. gr. laga nr. 121/1997 og 1. gr. reglugerðarinnar komi fram sú meginregla að ríkissjóður megi aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingu, nema heimild sé veitt til þess í lögum.
Almenna heimild fyrir fjárskuldbindingum slíkum sem felist í e-lið minnisblaðsins, sem stefnandi reisi kröfur sínar í málinu á, sé hvorki að finna í ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, né ákvæðum laga nr. 43/1990 um stefndu. Ákvæðið sé hvorki launasamningur né útfærsla á lögbundnum eða samningsbundnum réttindum. Umrædd skuldbinding fjalli ekki um venjuleg starfsmannamál heldur um lífeyrismál en slík mál, og þá sérstaklega ákvarðanir er lúti að fjárhæð lífeyris og greiðslu hans, heyri alfarið undir hlutaðeigandi lífeyrissjóði og þær reglur er um þá gildi.
Sérstakrar heimildar fyrir umræddum fjárskuldbindingum um ókominn tíma hafi ekki verið aflað fyrirfram með sérlögum eða í fjárlögum fyrir árið 2003 né í fjáraukalögum fyrir árið 2002. Báðum aðilum hafi mátt vera ljóst að lagaheimild skorti fyrir þeirri greiðsluskuldbindingu. Stefnandi hafi gegnt starfi forstöðumanns Ríkisábyrgðasjóðs og geti ekki borið fyrir sig að honum hafi ekki verið ljóst að ríkissjóður mætti aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar nema heimild sé veitt til þess í lögum. Samkvæmt því hafi forstjóra stefndu skort lagaheimild til að binda ríkissjóð þeim fjárskuldbindingum um ókominn tíma sem felist í e-lið minnisblaðsins og þær því óskuldbindandi fyrir stefndu.
Af stefnanda hálfu sé viðurkennt að til grundvallar þeirri skuldbindingu lífeyrisréttinda, sem kveðið sé á um í e-lið, hafi legið sú forsenda að hann yrði af hálfu lífeyrissjóðsins beittur sértækri skerðingu á grundvelli 11. gr. reglnanna vegna síðbúinna launaleiðréttinga sem aðrir í viðmiðunarhópi hans hjá Seðlabankanum í sömu sporum hefðu ekki þurft að sæta. Umrædd skuldbinding verði ekki túlkuð svo rúmt að hún geti tekið til þeirra tilvika þegar um sé að ræða almennar skerðingar lífeyrisréttinda samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar og skerðingar byggðar á því að hækkanir launa einstakra hópa umfram almennar launabreytingar hafi ekki verið komnar fram í árslok 1997 er skuldbindingar sjóðsins voru gerðar upp.
Viðmiðunarlaunin sem lífeyrissjóðurinn byggi á virtust vera fundin þannig að miðað sé við laun stefnanda eins og þau voru 1. janúar 1998 og þau síðan hækkuð með sömu hlutfallsbreytingum og varð samkvæmt kjarasamningi bankamanna á launaflokki 181 frá þeim tíma til starfsloka hans um 60 mánaða tímabil að meðtöldum 13. mánuði ár hvert (5 ár). Um grundvöll þeirrar ákvörðunar hafi lífeyrissjóðurinn vísað til ákvæðis 11. gr. samþykkta sjóðsins og að sjóðurinn geti ekki og hafi ekki burði til þess að taka tillit til hækkana á launum umfram almennar launabreytingar sem ekki hafi verið komnar fram í árslok 1997 nema til komi frekari greiðslur frá launagreiðanda í sjóðinn, en á þeim tíma hafi skuldbindingar sjóðsins verið gerðar upp og ábyrgð Seðlabanka og Landsbanka felld niður með því að greidd hafi verið í sjóðinn ein summa sem miðuð hafi verið við skuldbindingar sjóðsins á þeim tímapunkti. Af þessu sé ljóst að sjóðurinn hafni því algerlega að miða við almennar launahækkanir samkvæmt sérskráðum launaflokkum utan kjarasamningsins eftir 1. janúar 1998. Hið sama eigi þá einnig við um ákvörðun lífeyrisréttinda annarra sjóðfélaga er tilheyrðu viðmiðunarhópi stefnanda og engu hefði breytt í því efni þó starfslok stefnanda hefðu komið til 22 mánuðum síðar við 70 ára aldur. Því sé ljóst að þótt dregist hafi að leiðrétta laun stefnanda vegna þeirrar launahækkunar sem varð í ársbyrjun 2001 hjá viðmiðunarhópi hans sé það ekki ástæða þess að lífeyrissjóðurinn hafni því að miða við meðallaun stefnanda á tímabilinu 1. janúar 1998 til ágústloka 2002. Því skilyrði og forsendu skuldbindingarinnar að skerðingu lífeyris sé til þess að rekja sé þannig ekki uppfyllt og verði kröfum stefnanda því ekki fundin stoð í samkomulagi samkvæmt e-lið minnisblaðsins sem leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Stefnandi hafi ekki stefnt Lífeyrissjóði bankamanna inn í mál þetta til að þola dóm um lífeyrisréttindi sín og greiðslur á þeim en túlkun sjóðsins og ákvörðun hans sé ákaflega umdeilanleg. Stefnandi hafi þannig ekki sýnt fram á að lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum til hans séu lögum samkvæmar og heldur ekki að skerðing lífeyrisréttinda eigi rætur að rekja til síðbúinna launaleiðréttinga sem ekki hefðu komið til ef starfslok hans hefðu orðið við 70 ára aldur. Þaðan af síður hversu miklar skerðingar ef einhverjar, séu til þess að rekja.
Þá fái ekki staðist að eins og ákvæði e-liðs minnisblaðsins sé orðað varðandi skuldbindingu stefndu um að tryggja stefnanda lífeyrisréttindi án skerðingar, feli í sér skuldbindingu um greiðslu mismunafjárhæðar á hverjum tíma. Beinlínis sé tekið fram að um tryggingu lífeyrisréttinda sé að ræða sem stefnda geti þá, eftir atvikum eins og lífeyrissjóðurinn hafi bent á, efnt með eingreiðslu til sjóðsins í samræmi við þær skuldbindingar.
Verði ekki fallist á að framangreind sjónarmið leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda sé til vara krafist sýknu að svo stöddu. Umrædd skuldbinding feli ekki í sér sjálfsskuldarábyrgð á lífeyrisgreiðslum til stefnanda heldur eingöngu baktryggingu færi svo, að lífeyrissjóðurinn skerti lífeyrisgreiðslur til stefnanda vegna síðbúinna launahækkanaleiðréttinga og fullreynt væri að sú ákvörðun sjóðsins væri lögum samkvæmt og við henni yrði ekki haggað samkvæmt endanlegum dómi fyrir almennum dómstólum. Forsenda ákvæðisins og orðalag þess beri það skýrt með sér. Stefnanda og þáverandi forstjóra stefndu hafi ekki getað dulist að sjálfsskuldarábyrgð megi aldrei veita nema sérstök lagaheimild, þar sem slíkt er skýrlega tekið fram, sé fyrir hendi, sbr. 1. gr. laga nr. 121/1997 um ríkisábyrgðir og ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 237/1998, sbr. reglugerð nr. 557/2001 um ríkisábyrgðir, Ríkisábyrgðasjóð og endurlán ríkissjóðs.
Kröfum stefnanda sé mótmælt sem allt of háum og viðurkenningarkröfu sem of víðtækri. Kröfum stefnanda um dráttarvexti sé eindregið vísað á bug. Stefnandi hafi engan reka gert að því að fá dæmt um greiðsluskyldu sjóðsins fyrir almennum dómstólum og ekki sé um það samið í e-lið minnisblaðsins að greiða skuli vexti af þeim skuldbindingum er kynnu að falla á stefndu á grundvelli þess ákvæðis.
Stefnandi hafi heldur engan reka gert að því að takmarka tjón sitt með því að krefja lífeyrissjóðinn um lífeyrisgreiðslur eða endurgreiðslu á lífeyrisiðgjöldum sem til sjóðsins hafi runnið umfram viðurkennda réttindaávinnslu stefnanda hjá sjóðnum. Meðalmánaðarlaun stefnanda miðað við raunveruleg mánaðarlaun hans frá 1. janúar 1998 og þar til hann lauk störfum 1. september 2002 nemi 499.360 krónum miðað við vísitölu í september 2002. Samkvæmt því væri óskert mánaðarleg greiðsla úr lífeyrissjóðnum miðað við 85% lífeyrishlutfall 424.456 krónur. Af hálfu lífeyrissjóðsins séu einungis viðurkennd meðalmánaðarlaun 436.245 krónur miðað við vísitölu í september 2002 og nemi 85% af þeim 370.808 krónum. Mismunur mánaðarlegra lífeyrisgreiðslna í september 2002 nemi 53.648 krónum. Mismunur á meðal viðmiðunarmánaðarlaunum á sama tíma sé 61.115 krónur, sem lífeyrissjóðurinn hafi tekið við 18,4% iðgjöldum af og haft til ávöxtunar en neiti nú að veita stefnanda nein réttindi fyrir. Hvað sem öðru líði fái ekki staðist að sjóðurinn beiti heimild til skerðingar lífeyris samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 11. gr. án þess að færa að sama skapi iðgjöld og réttindaávinnslu til Stigadeildar eða endurgreiða þau til lífeyrisþega sem skerðingu sæti.
Niðurstaða
Stefnandi var starfsmaður stefndu, eins og að framan greinir, og um réttarstöðu hans gagnvart stefndu gilda lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Stefnandi byggir kröfuna í málinu á samningsákvæði frá 17. maí 2002 þar sem segir að stefnda taki að sér þá skuldbindingu að tryggja að stefnandi hljóti þau lífeyrisréttindi sem reglur Lífeyrissjóðs bankamanna kveði á um, þ.e. 85% af meðallaunum síðustu fimm ára án skerðingar, talið frá 1. janúar 1998 til starfsloka. Stefnandi hefur ekki vísað til þess að hann hafi átt rétt á því samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi að lífeyrisréttindi hans væru tryggð með þeim hætti sem samningsákvæðið mælir fyrir um. Samningsákvæðið er auk þess andstætt því fyrirkomulagi sem gildir um lífeyrisréttindi launþega samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og það hefur enga stoð í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Í lögum um Lánasýslu ríkisins nr. 43/1990 er hlutverk stefndu skilgreint. Samkvæmt 1. gr. laganna fer stefnda fyrir hönd fjármálaráðherra með lántökur ríkssjóðs og ríkisstofnana innan lands og utan, útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og aðra skuldaumsýslu fyrir ríkissjóð, svo og endurlán lánsfjár og ríksábyrgðir. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna semur stefnda fyrir hönd ríkissjóðs um lán, endurlánar fé og veitir ábyrgðir samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra innan heimilda sem Alþingi veitir hverju sinni. Skuldbinding samkvæmt ofangreindu samningsákvæði sem stefnandi vísar til fellur ekki undir það sem telst til lögboðinna verkefna stefndu.
Samkvæmt 1. gr. laga um ríkisábyrgðir nr. 121/1997 má ríkissjóður aldrei takast á hendur ábyrðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum, og hann má ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum þeim sem ábyrgð heimila. Samkvæmt 41. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 má ekkert gjald greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Óumdeilt er að ekki var leitað heimilda til skuldbindingarinnar samkvæmt samningsákvæðinu í samræmi við fyrirmæli í 1. mgr. 21. gr. laga um fjárreiður ríkisins nr. 88/1997. Óheimilt var því að skuldbinda stefndu með þessum hætti og verður að telja samningsákvæðið andstætt lögum. Það hefur þar af leiðandi ekkert skuldbindingargildi gagnvart stefndu. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefnda, Lánasýsla ríkissins, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Haralds Andréssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.