Hæstiréttur íslands

Mál nr. 756/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Afhending gagna


                                       

Þriðjudaginn 10. nóvember 2015.

Nr. 756/2015

Ákæruvaldið

(Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari)

gegn

X

(Reimar Pétursson hrl.)

Kærumál. Afhending gagna. 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu X um afhendingu eða aðgang að skýrslu sem tekin var af A á grundvelli 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eðli máls samkvæmt væri efni slíkrar skýrslu bundið við viðkomandi sakborning og hefði því ekki sönnunargildi í málinu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um afhendingu eða aðgang að skýrslu samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert skylt að afhenda verjanda hans umrædda skýrslu.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði gerir varnaraðili þá kröfu að sóknaraðili afhendi skýrslu sem tekin var af A á grundvelli 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008. Þegar skýrslan var tekin naut A réttarstöðu sakbornings, en hann var ekki ákærður í málinu og er nú á vitnalista ákæruvaldsins vegna fyrirhugaðrar aðalmeðferðar. Eðli máls samkvæmt er efni slíkrar skýrslu bundið við viðkomandi sakborning og hefur því ekki sönnunargildi í máli þessu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2015.

Með ákæru embættis sérstaks saksóknara 10. febrúar 2014 voru ákærðu gefin að sök umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við lánveitingar B til félaganna [...] og [...], í [...] 2007 og [...] 2008.

Í þinghaldi 4. nóvember 2015 hafði ákærði X uppi kröfu um að ákæruvald myndi afhenda ákærða persónuskýrslu af A, skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem gerð hafi verið [...] 2010. Til vara var gerð krafa um að ákærða yrði veittur aðgangur að umræddu gagni. Sækjandi mótmælti kröfu ákærða.

Mál þetta var flutt um kröfu um afhendingu eða aðgang að umræddu gagni 4. nóvember sl. Var málið tekið til úrskurðar í framhaldi.

I

Með bókun í þingbók 4. nóvember sl., krafðist ákærði X þess að ákærða yrði afhent svonefnd persónuskýrsla skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 af A, sem gerð var [...] 2010, sem væri vitni í málinu. Til vara var gerð krafa um aðgang að umræddu gagni. Á því sé byggt að ákærða sé þörf á upplýsingum úr persónuskýrslu þessa vitnis fyrir málsvörnina en A væri lykilvitni í málinu. Væri vísað til 37. gr., 110. gr. og 135. gr. laga nr. 88/2008 til stuðnings kröfunni.

Sækjandi hefur mótmælt kröfunni og vísað til þess að umrætt skjal sé ekki sönnunargagn í málinu. Ákæruvald hafi lagt fyrir dóminn sönnunargögn í málinu, auk þess sem verjendur hefðu fengið gögn málins í hendi, sbr. 2. mgr. 134. gr. og 37. gr. laga nr. 88/2008. Hafi skjal þetta enga þýðingu fyrir sönnunarfærslu í málinu, auk þess sem það hafi að geyma viðvæmar persónuupplýsingar um vitnið A.

Niðurstaða:

Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 skal lögregla rannsaka þau atriði sem varða sakborning sjálfan, þar á meðal eftir því sem ástæða er til aldur hans, persónulegar aðstæður, svo sem fjölskyldu- og heimilishagi, menntun, störf og efnahag, hegðun hans og fyrri brot, og þroska hans og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt. A naut stöðu sakbornings á fyrri stigum rannsóknar þessa máls. Á þeim tíma mun hafa verið unnin persónuskýrsla skv. nefndu ákvæði um vitnið. Slík skýrsla er ekki sönnunargagn í sakamáli. Þegar af þeirri ástæðu verður bæði aðal- og varakröfu ákærða hafnað.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu ákærða X um afhendingu eða aðgangs að persónuskýrslu skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um A, er gerð var [...] 2010, er hafnað.