Hæstiréttur íslands
Mál nr. 58/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2008. |
|
Nr. 58/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Nálgunarbann. Sératkvæði.
X hafði verið ákærður fyrir gróft ofbeldisbrot gagnvart A og einnig var til rannsóknar hjá L kæra A vegna ætlaðrar kynferðislegrar þvingunar af hálfu X gagnvart A sem að hennar sögn hafði staðið um langan tíma og tengdist einnig ætluðu ofbeldi X í hennar garð. Samkvæmt kæru A til L voru aðeins nokkrar vikur frá X framdi síðast ætlað ofbeldisbrot gagnvart henni. Gerði L kröfu um það í málinu að beiðni A að X yrði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þegar hafður var í huga tilgangur tilvitnaðrar lagagreinar og einnig að hin tímabundna skerðing á frelsi X sem farið var fram á þótti ekki ganga lengra en nauðsyn bæri til, var talið að skilyrði væru fyrir hendi til að X sætti hinu umbeðna nálgunarbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I.
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði, sem og í öðrum gögnum málsins, er nú til meðferðar opinbert mál á hendur varnaraðila vegna ætlaðrar líkamsárásar á A og annan mann. Má af gögnum sjá að áverkar á A voru umtalsverðir. Þá liggur fyrir í málinu lögregluskýrsla þar sem A kærir varnaraðila fyrir líkamsárás aðfararnótt föstudagsins 21. desember 2007 þar sem hann hafði látið hnefahögg dynja á henni. Þá er nú til rannsóknar hjá sóknaraðila ætluð kynferðisbrot varnaraðila gegn A, sem að hennar sögn hafi staðið yfir um langt skeið. Felast brotin að hennar sögn í því að varnaraðili hafi neitt hana til ýmissa kynferðismaka bæði með honum og með ókunnugum mönnum og hafi varnaraðili tekið atburðina upp á myndband. Hafi varnaraðili stýrt því sem gert var og gefið fyrirmæli sem hún hafi ekki þorað annað en að hlýða þar sem neitun hennar hafi leitt til þess að varnaraðili beitti hana ofbeldi. Kvaðst A við skýrslutöku hjá lögreglu hafa reynt nokkrum sinnum að flytja frá varnaraðila, en hann hafi alltaf náð að „tala hana til“ þannig að hún hafi farið til baka. Lýsir hún miklum ótta í garð varnaraðila. Hafði hún síðast verið þvinguð til slíkra kynlífsathafna í byrjun janúar 2008.
II.
Samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991 er heimilt að beita nálgunarbanni, ef rökstudd ástæða er til að ætla að maður sem krafa beinist að muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði annars manns. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna segir að nálgunarbann verði ekki reist á því einu að sá sem leiti verndar hafi beyg af öðrum manni. Slík krafa verður því að vera studd haldgóðum og áreiðanlegum gögnum. Við mat á því hvort skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt er tekið fram í athugasemdunum að líta beri til fyrri hegðunar manns og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu. Hér komi til álita fyrri afbrot, hótanir, ögranir og önnur atriði sem veitt geti rökstudda vísbendingu um það sem koma skal eða kann að vera í vændum.
Af orðalagi 110. gr. a laga nr. 19/1991 og lögskýringargögnum verður ráðið að beita megi nálgunarbanni ef þau gögn, sem lögð eru fram um fyrri hegðan manns, veita vísbendingu um að hættan á því, að maður muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á, sé bæði raunveruleg og nærtæk.
Fyrir liggur í máli þessu að varnaraðili hefur verið ákærður fyrir gróft ofbeldisbrot gagnvart A og er það mál til meðferðar fyrir dómstólum. Þá liggur fyrir kæra A vegna ætlaðrar kynferðislegrar þvingunar í hennar garð af hálfu varnaraðila í langan tíma og tengist það einnig ætluðu ofbeldi hans gagnvart henni. Samkvæmt kæru A til lögreglu eru aðeins nokkrar vikur frá því að varnaraðili framdi síðast ætlað ofbeldisbrot gagnvart henni.
Þegar hafður er í huga tilgangur framangreindrar lagagreinar og einnig að hin tímabundna skerðing á frelsi varnaraðila sem farið er fram á gengur ekki lengra en nauðsyn ber til, verður að telja að fyrir hendi séu skilyrði til að fallast á beiðni sóknaraðila, eins og hún er fram sett. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur og er þar með talið ákvæði hans um sakarkostnað.
Með vísan til 3. mgr. 110. gr. c. verður varnaraðili dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns sem nánar verður tilgreind að meðtöldum virðisaukaskatti í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Varnaraðili greiði allan kostnað af kærumáli þessu þar með talda þóknun verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 74.700 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Í nálgunarbanni felst skerðing á frelsi þess manns sem banni sætir. Samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður þessu úrræði ekki beitt nema rökstudd ástæða sé til að ætla að sá maður sem krafa beinist að muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem nálgunarbanni er ætlað að vernda. Sönnunarbyrði um að þessu skilyrði sé fullnægt hvílir á sóknaraðila.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili leystur úr gæsluvarðhaldi 24. janúar 2008 en því hafði hann sætt frá 11. janúar 2008. Tilefni gæsluvarðhaldsins hafði verið rannsókn á meintum brotum gegn sambýliskonu hans meðan á nær þriggja ára sambúð þeirra hafði staðið. Varnaraðili hefur neitað þessum sakargiftum. Eðli hinna ætluðu brota er með þeim hætti að ekki er sjáanleg hætta á að varnaraðili haldi þeim áfram eftir að sambúðinni er lokið. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem benda til þess að hann hafi áreitt konuna eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldinu. Í greinargerð af hálfu varnaraðila fyrir Hæstarétti er meðal annars tekið fram að hann hyggist ekki hafa samband við hana að fyrra bragði. Kæra á hendur honum um að hafa beitt hana ofbeldi í tengslum við kynlífsathafnir meðan á sambúð þeirra stóð og hann hefur synjað fyrir, getur ekki að mínum dómi talist nægilegur grundvöllur til að skerða nú, eftir að sambúð er lokið, frelsi hans á þann hátt sem krafist er og fallist var á í hinum kærða úrskurði. Tel ég því að fella beri úrskurðinn úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað A, kt. [...], að [heimilisfang], á svæði sem markast við 50 m radíussvæði umhverfis húsið, mælt frá miðju þess. Þá er þess og krafist að bann verði lagt við því að kærði komi á vinnustað A, Y í [heimilisfang] í Kópavogi, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis Y, mælt frá útlínum hússins. Jafnframt er þess krafist að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima, vinnu- og farsíma hennar eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.
A hefur kært X, sambýlismann sinn, fyrir ítrekuð kynferðisbrot sem hún segir hafa staðið yfir frá vorinu 2005. Hafi síðasta brotið átt sér stað aðfaranótt 5. janúar 2008.
Kæruefnið lýtur að því að X hafi frá vorinu 2005 ítrekað fengið ókunna karlmenn, sem hann komst í samband við á netinu eða annan hátt, til þess að eiga kynferðislegt samneyti við A, stundum fleiri saman. Þetta hafi verið andstætt vilja hennar. Mennirnir hafi haft við hana samfarir með því að setja lim í leggöng hennar og endaþarm og hún hafi m.a. þurft að veita þeim munnmök. Kærði hafi stundum verið þátttakandi í hinum kynferðislegu athöfnum og hann hafi lagt bann við því að verjur yrðu notaðar. Auk þess hafi kærði oft haft við hana kynmök gegn vilja hennar.
Kærandi kveðst hafa orðið að láta að vilja kærða því öðrum kosti hafi hún mátt þola líkamlegt ofbeldi af hans hálfu. Kærði hafi myndað kynferðislegar athafnir mannanna með A. Hafi hann einnig sett auglýsingu á vefsíðuna Þ með það fyrir augum að komast í samband við karlmenn sem voru reiðubúnir til þess að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með þeim.
Við húsleit á heimili kærða 10. janúar sl. hafi verið lagt hald á töluvert magn tölvugagna. Kærði hafi sama kvöld verið handtekinn á heimilinu. Hann hafi við skýrslutöku staðfest frásögn kæranda um samfarir og kynmök með ókunnugum mönnum og upptökur af þeim. Þetta hafi hins vegar verið sameiginleg ákvörðun og oft að frumkvæði hennar.
Lögregla segir að á meðal gagna málsins sé myndefni og ljósmyndir, þar sem m.a. megi sjá óþekkta karlmenn eiga kynmök við A. Þar sést kærði ýmist stýra því sem þar fer fram eða taka þátt. Á sumum myndanna sjáist að A sé með líkamlega áverka.
Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 11. janúar síðastliðinn vegna meintra kynferðisafbrota og hafi gæsluvarðhaldsúrskurðurinn verið staðfestur af Hæstarétti allt til 22. janúar. Kærða hafi verið sleppt 24. janúar sl., en þann dag hafi Hæstiréttur fellt úr gildi úrskurð um framlengingu gæsluvarðhaldsins. Í dómi Hæstaréttar segir að sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að hið 11 daga gæsluvarðhald hafi ekki nægt honum til fyrirhugaðra rannsóknaraðgerða.
Til meðferðar í dóminum sé nú ákæra á hendur kærða fyrir líkamsárás á hendur A, sem hafi átt að eiga sér stað 23. september 2007. Einnig sé hann ákærður fyrir að beita föður sinn ofbeldi. Er brotið gegn A talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga í ákæru. Atvik þetta hafi A ekki kært og telur lögregla það sýna mikinn ótta A við kærða.
Kærði neitar sök bæði að því er varðar líkamsárásina og kynferðislegt ofbeldi. Verjandi hans benti á að A hefði sjálf sent kærða tölvupóst og gefið honum upp símanúmer sitt.
Lögregla telur að gögn málsins sýni að um ofbeldissambúð hafi verið að ræða. A hafi í skýrslutökum hjá lögreglu sagt frá því að hún hafi ítrekað orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu kærða á meðan á sambúðinni stóð. Sé þessi framburður studdur gögnum. Þá hafi A einnig greint frá því að kynferðislegt samneyti við hina ókunnugu menn hafi komið „í staðinn fyrir“ ofbeldi af hálfu X.
Með gögnum málsins hefur lögregla leitt talsverðar líkur að því að kærandi hafi mátt þola ýmiss konar ofbeldi af hálfu kærða. Úrræði 110. gr. a laga nr. 19/1991 var ætlað til beitingar í tilvikum eins og þessu, þar sem sambýlisfólk á í hlut. Með framkomnum gögnum, m.a. ljósmyndum, hefur verið sýnt fram á nægilegar líkur til að kærða hafi sætt ofbeldi og að úrræði þetta sé nauðsynlegt eins og hér stendur á. Verður því samkvæmt nefndu ákvæði að fallast á kröfu lögreglu svo sem í úrskurðarorði greinir.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
X, kt. [...], sæti nálgunarbanni í 6 mánuði, allt til fimmtudagsins 31. júlí 2008, kl. 16.00, þannig að honum er óheimilt að koma á eða í námunda við dvalarstað A, kt. [...], að [heimilisfang], á svæði sem markast við 50 m radíussvæði umhverfis húsið, mælt frá miðju þess. Þá er honum bannað að koma á vinnustað A, Y í [heimilisfang] í Kópavogi, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis Y, mælt frá útlínum hússins. Ennfremur er honum bannað að veita A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima, vinnu- og farsíma hennar eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.
Varnaraðili greiði sakarkostnað, þar með talda þóknun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.