Hæstiréttur íslands
Mál nr. 624/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 11. desember 2006. |
|
Nr. 624/2006. |
Ákæruvaldið(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til föstudagsins 22. desember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir, sem lýkur í dag kl. 16:00, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 22. desember 2006 kl. 16:00
Í greinargerð lögreglu kemur fram að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði X í gæsluvarðhald að kröfu þessa embættis þann 15. september 2006 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Úrskurðarþoli kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar sem staðfesti hann með vísan til forsendna með dómi 499/2006.
Gæsluvarðahald yfir úrskurðarþola var framlengt 27. október sl til dagsins í dag. Úrskurðarþoli kærði jafnframt þennan úrskurð og var hann staðfestur af Hæstarétti með dómi 565/2006.
Ákæra hefur verið gefin út í málinu og er það nú rekið undir númerinu S-1919/2006 fyrir héraðsdómi. Dómari er Símon Sigvaldason, hérðaðsdómari. Málið var dómtekið þann 22. nóvemer sl. en síðan endurupptekið 6. desember að beiðni verjanda. Næsta þinghald er fyrirhugað mánudaginn 11. desember og mun þá að ósk verjanda úrskurðarþola verða leitt fyrir dóminn eitt vitni og málið síðan líklegast dómtekið í kjölfar þess.
Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa þegar fallist á að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml. séu fyrir hendi og því verður að telja að enn séu lagaskilyrði til áframhaldandi gæsluvarðhalds. Þá ber einnig að líta til þess að málið var endurupptekið samkvæmt ósk frá verjanda úrskurðarþola. Að mati lögreglu er mikilvægt að orðið verði við kröfu hennar svo að unnt verði að ljúka meðferð mála hans fyrir dómi og jafnframt að koma í veg fyrir frekari afbrot hans.
Í kröfugerð lögreglu kemur fram að kærði sé grunaður um fjölda brota gegn 155. gr., 244. gr., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brota gegn umferðarlögum nr. 50, 1987 og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974.
Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.
Eins og að framan greinir hefur ákæra verið gefin út í máli þessu og er málið rekið undir nr. S-1919/2006 fyrir héraðsdómi. Málið var dómtekið 22. nóvemer sl. en síðan endurupptekið 6. desember samkvæmt beiðni frá verjanda kærða til að leiða vitni fyrir dóminn, en þann dag hafði dómsuppkvaðning verið ákveðin. Samkvæmt endurriti úr þingbók málsins hafði dómsuppsaga aftur verið ráðgerð 8. desember, en í ljósi kröfu verjanda kærða var henni frestað og næsta þinghald er fyrirhugað mánudaginn 11. desember. Mun þá að ósk verjanda kærða verða leitt fyrir dóminn annað vitni og málið síðan líklegast dómtekið í kjölfar þess.
Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa þegar fallist á að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi í máli kærða. Með vísan til þess sem að framan greinir og til að koma í veg fyrir frekari afbrot kærða eru enn lagaskilyrði til áframhaldandi gæsluvarðhalds, sbr.c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og er orðið við kröfu lögreglunnar eins og hún er fram sett.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir, sem lýkur í dag kl. 16.00, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 22. desember 2006 kl. 16.00