Hæstiréttur íslands

Mál nr. 279/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð


Mánudaginn 1

 

Mánudaginn 1. september 2003.

Nr. 279/2003.

Reynir Bergsveinsson

(sjálfur)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Kærumál. Útburðargerð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni L hf. um að bankanum yrði heimilað að fá R, sem hafði afsal fyrir Skálavík innri í Súðavíkurhreppi, borinn með beinni aðfarargerð út úr mannvirkjum í Skálavík ytri. Í héraðsdómi var tekið fram að á meðan eignarhald beggja jarðanna var á einni hendi hafi eigendur þeirra stofnað til óbeinna eignaréttinda yfir Skálavík ytri vegna veðsetningar íbúðarhússins. Þá hafði bankinn afsal fyrir Skálavík ytri en samkvæmt landskiptagerð frá 2001 tilheyrðu öll jarðarhús Skálavík ytri. Gildi þessara gagna hafði ekki verið hnekkt. Var því fallist á með bankanum að hann ætti ótvíræðan eignarrétt að Skálavík ytri, ásamt mannvirkjum sem varanlega væru skeytt við land jarðarinnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms  Vestfjarða 4. júlí 2003, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð út úr mannvirkjum í Skálavík ytri í Súðavíkurhreppi. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Reynir Bergsveinsson, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 4. júlí 2003.

Mál þetta barst dómnum 30. maí sl. og var tekið til úrskurðar 24. júní sl.

Gerðarbeiðandi, Landsbanki Íslands hf. krefst þess að heimilað verði að bera eignir gerðarþola, Reynis Bergsveinssonar, Skálavík, Súðavíkurhreppi, út úr mann­virkjum gerðarbeiðanda í Skálavík ytri, Súðavíkurhreppi, með beinni aðfarargerð.  Kraf­ist er málskostnaðar og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Gerðarþoli krefst þess að synjað verði um framgang gerðarinnar og málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda.

I.

Í jarðamati frá 1861 eru greindar jarðirnar Skálavík innri og Skálavík ytri í Reykjarfjarðarhreppi, báðar 12 hundruð að fornu mati.  Í nýja matinu var hin fyrrnefnda metin á 14,2 hundruð og hin síðarnefnda á 11,1 hundrað.

Hinn 24. febrúar 1883 ritaði Gunnar Halldórsson, hreppstjóri, konungi bréf og falaðist eftir kaupum á Skálavík ytri með vísun til þess að hann hefði með ærnum kostnaði byggt fullstórt og vandað íveruhús úr altimbri á ábýlisjörð sinni Skálavík, hvar af innri jörðin væri óðal sitt, en sú ytri eign Vatnsfjarðarkirkju, og að öðru leyti bætt hana eftir megni í von um að fá hálflendu kirkjunnar keypta.  Þetta gekk eftir og Gunnari var afhent og afsöluð Skálavík ytri 19. mars 1891. 

Hinn 30. desember 1991 keyptu Kristján Garðarsson og Herdís R. Reynisdóttir „jörðina Skálavík“, „sem er skráð samkvæmt veðmálabókum sýslumannsembættisins í Ísafjarðarsýslu sem Skálavík innri og Skálavík ytri“, samkvæmt því sem segir í kaup­samningi.  Samhliða þessu gáfu kaupendurnir út fasteignaveðbréf, skiptanlegt fyrir hús­bréf Byggingasjóðs ríkisins.  Veðið var tilgreint Skálavík ytri, Reykjar­fjarðar­hreppi. 

Gerðarbeiðandi keypti Skálavík ytri á nauðungarsölu á uppboði 7. febrúar 1997 og var afsal gefið út til hans 16. september sama ár.  Hinn 20. janúar 1998 byrjaði sýslumaðurinn á Ísafirði uppboð til nauðungarsölu á Skálavík innri að kröfu gerðar­beiðanda.  Fært var til bókar að landamerki Skálavíkurjarðanna beggja hefðu fundist í landamerkjabók frá 1886.  Þar sem landamerki Skálavíkur ytri og innri væru óþekkt og þinglýsingabækur gætu ekki um þau, yrði ekkert hægt að staðfesta um stærð Skálavíkur innri „hér í þessu uppboði“.  Tekið var fram að gerðarbeiðandi mótmælti því að hvorki hefði stærð jarðarinnar verið greind á uppboðinu, né neitt um húsakost hennar og hlunnindi.  Tekið var boði í jörðina frá gerðarþola og uppboðinu lokið með skírskotun til 34. gr. laga nr. 90/1991.  Afsal til gerðarþola er dagsett 21. apríl 1998.

II.

Gerðarbeiðandi segir að á Skálavík ytri standi mannvirki, m.a. íbúðarhús, fjós, braggi o.fl., sem séu varanlega við landið skeytt og hafi hann keypt þau við nauðungarsöluna um leið og jörðina.  Gerðarþoli hafi krafist landskipta 26. apríl 1998 og landskiptanefnd hafi lokið störfum 19. desember 2001.  Gerðarbeiðandi tekur fram að hann telji niðurstöðu landskiptanefndar algerlega þýðingarlausa þar sem engu hafi verið að skipta, hvorki land né hús hafi verið í sameign eða samnotum jarðanna.  Gerðarbeiðandi segir að svo virðist sem gerðarþoli telji til réttar yfir þessum mannvirkjum og hafi hann komið þar fyrir ýmsum nánar greindum munum.  Hafi hann ekki sinnt þrábeiðni um að fjarlægja munina og segir gerðarbeiðandi sér af þeim sökum meinað með ólögmætum hætti að neyta réttinda sinna til þessara mannvirkja. Telur hann sér m.a. ómögulegt vegna þessa að afhenda jörðina og mannvirkin leigu­taka eða væntanlegum kaupanda, komi til sölu Skálavíkur ytri.  Kveðst hann vísa til eignarréttar síns yfir jörðinni og mannvirkjum sem varanlega séu við hana skeytt.  Um lagarök vísar hann til 78. gr. og 72. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Gerðarþoli telur gerðarbeiðanda ekki hafa sýnt fram á eignarrétt að húsum í Skálavík og skipti það hann því engu hvort gerðarþoli geymi eigur sínar þar lengur eða skemur.  Afsöl til aðila fyrir Skálavíkum innri og ytri geti hvorki um landamerki, land­stærð né mannvirki.  Telur hann að íbúðarhúsið standi í landi Skálavíkur innri og til­heyri sér þar af leiðandi.  Beri að synja um aðför, þar sem gerðarbeiðandi hafi ekki sýnt fram á eignarrétt sinn að húsunum.

III.

       Eins og að framan er rakið, eru Skálavík ytri og Skálavík innri greindar sem tvær jarðir í jarðamatinu 1861.  Ekkert liggur fyrir um það hvort svo hefur verið frá upphafi, eða hvort og þá hvenær landi þeirra hefur verið skipt, fyrr en með landskiptagerð árið 2001.  Í ljósi þessa hefur gerðarbeiðandi ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir því að sú landskiptagerð sé þýðingarlaus, sérstaklega þegar til þess er litið að samkvæmt endurriti úr gerðabók landskiptanefndar var bókað samkvæmt ósk hans að öll nánar greind gögn sýndu að jörðin Skálavík hefði verið metin óskipt sem ein jörð og væri það því skoðun fulltrúa gerðarbeiðanda. 

Eftir að Gunnar Halldórsson eignaðist báðar jarðirnar á sínum tíma, mun eignarhald á þeim báðum hafa verið á einni hendi uns hvor um sig var seld nauðungar­sölu, eins og að ofan greinir. 

Gerðar­þoli vefengir rétt gerðarbeiðanda til nýtingar húsanna á því að merki jarðanna séu óljós og allt eins líklegt að húsin standi í landi Skálavíkur innri.  Vísar hann til þess að Gunnar Halldórsson hafi byggt íbúðarhús sitt á sama stað og jarðarhúsin standi nú, áður en hann festi kaup á ytri jörðinni og sé líklegast að hann hafi byggt það á eignarjörð sinni, þ.e. þeirri innri.  Ekki hefur verið sýnt fram á að sérstakar líkur standi til þessa, þegar litið er til þess að fyrir liggur að Gunnar hafði „hálflendu“ kirkjunnar, þ.e. Skálavík ytri, til ábúðar á þessum tíma. 

Meðan eignarhald beggja jarðanna var á einni hendi settu eigendurnir Skálavík ytri, en ekki hina innri, að veði fyrir fasteignaveðbréfi, sem var skiptanlegt fyrir húsbréf Hús­næðis­stofn­unar.  Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 467/1991, sem þá gilti og var sett samkvæmt lögum nr. 86/1988 með síðari breytingum, keypti húsbréfadeild fasteignaveðbréf sem var gefið út í tengslum við eigendaskipti á notaðri íbúð og skyldi tekið veð í viðkomandi íbúð. Stofnuðu eigendurnir þannig til óbeinna eignaréttinda yfir Skálavík ytri vegna veð­setningar íbúðarhússins og mátti vera ljóst að hugsanleg fullnusta skuldarinnar myndi samkvæmt veðsetningunni leiða til ráðstöfunar þeirrar jarðar á nauðungarsölu, ásamt íbúðarhúsinu.  Má draga þá ályktun af þessu að þáverandi eigendur hafi talið íbúðarhúsið tilheyra Skálavík ytri.

Samkvæmt endurriti úr gerðabók landskiptanefndar ítrekaði gerðarþoli á fundi nefnd­arinnar kröfu um að skipt yrði jörð og húsum.  Auk þess að skipta landi með því að kveða á um merki milli jarðanna gat nefndin þess að samkvæmt skiptingu hennar yrðu öll uppi standandi jarðarhús í landi Skálavíkur ytri, en að hún teldi að skipta bæri verðmæti þeirra milli aðila í samræmi við mat jarðanna 1861.

Eins og hér hefur verið rakið hefur gerðarbeiðandi afsal fyrir Skálavík ytri.  Samkvæmt ofangreindri landskiptagerð tilheyra öll jarðarhús Skálavík ytri.  Gildi þessara gagna hefur ekki verið hnekkt.  Með skírskotun til þeirra verður fallist á það með gerðarbeiðanda að hann eigi ótvíræðan eignarrétt að Skálavík ytri, ásamt mannvirkjum sem varanlega eru skeytt við land jarðarinnar.  Jarðarhúsin standa á landi jarðarinnar, sbr. áðurgreinda niðurstöðu landskiptanefndar.  Verður umbeðin gerð því heimiluð.

Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri þessa máls.

Um endurgjald kostnaðar af gerðinni fer eftir reglu 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 og er óþarfi að kveða sérstaklega á um það í úrskurðarorði.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Gerðarbeiðanda, Landsbanka Íslands hf., er heimilt að láta bera eignir gerðarþola, Reynis Bergsveinssonar, út úr mannvirkjum gerðarbeiðanda í Skálavík ytri, Súða­víkur­­hreppi, með beinni aðfarargerð. 

Málskostnaður fellur niður.