Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2001: |
|
Nr. 288/2001. |
Ákæruvaldið(Páll Björnsson sýslumaður) gegn Ásbirni Þorvaldssyni Bjarka Kárasyni Guðlaugi Helga Valssyni og Snorra Einarssyni (enginn) |
Kærumál. Ákæra. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Talið var að í ákæru væri nægilega greint frá þeim efnisatriðum sem um ræddi í 116. gr. laga nr. 19/1991. Á þessu stigi málsins væru ekki að öðru leyti annmarkar á reifun þess af hendi ákæruvaldsins. Frávísunarúrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi og lagt fyrir dómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 27. júlí 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sýslumaðurinn á Höfn höfðaði mál þetta gegn varnaraðilum með ákæru 19. mars 2001. Meginefni hennar er tekið upp orðrétt í hinum kærða úrskurði. Í henni er nægilega greint frá þeim efnisatriðum, sem áskilin eru í 116. gr. laga nr. 19/1991. Á þessu stigi málsins eru ekki að öðru leyti annmarkar á reifun þess af hendi ákæruvaldsins, sem gefa tilefni til að vísa málinu frá dómi. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 27. júlí 2001.
Málið, sem þingfest var 11. apríl 2001 og tekið til úrskurður 11. júlí sl., var höfðað með ákæru sýslumannsins á Höfn, dagsettri 19. mars 2001, á hendur Ásbirni Þorvaldssyni, kt. 290881-5879, Júllatúni 6, Höfn, Bjarka Kárasyni, kt. 281281-4459, Silfurbraut 40, Höfn, Guðlaugi Helga Valssyni, kt. 021280-4969, Bogaslóð 16, Höfn og Snorra Einarssyni, kt. 270676-4139, Hólabraut 20 ,,fyrir eftirtalin brot framin á sveitabýlinu Hvalnesi í Lóni í Sveitarfélaginu Hornafirði þann 30. desember 1999 eða um það bil:
I.
Húsbrot með því að ryðjast heimildarlaust inn í íbúðarhúsið á Hvalnesi eftir að hafa brotið rúður í aðaldyrum og bakdyrum hússins, þ.e. þvottahúsdyrum, en síðan fóru þeir inn í húsið og voru þar við drykkju og skemmdarverk.
Telst þetta varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Stórfelld eignaspjöll sem þeir frömdu í ofangreint skipti innan dyra á húsinu, húsbúnaði og búsmunum. Eignaspjöll þessi frömdu ákærðu aðallega með exi og byssu, meðal annars með því að skjóta á veggi, heimilistæki, rúður, ljós, málverk og skrautmuni. Þá notuðu ákærðu exina við að brjóta upp hurðir, hreinlætistæki og húsgögn.
Tjónið sem ákærðu ollu með þessum hætti er talið nema kr. 1,606,738,00.
Telst þetta varða við 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
III.
Þjófnað í ofangreint skipti með því að stela úr húsinu riffli af tegundinni Mossberg cal. 22, verksmiðjunúmer 684528, skotfærum og faxtæki af gerðinni Philips.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Vátryggingarfélag Íslands hf. hefur gert þá kröfu í málinu að ákærðu verði dæmdir til að greiða félaginu kr. 1,606.738,00 í bætur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá greiðsludegi bótanna, en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaganna til greiðsludags.”
Með vísan til 4. mgr. 122. gr. laga nr. 19/1991 var ákæranda og ákærðu gefinn kostur á að tjá sig um það, hvort vísa ætti máli þessu frá dómi vegna galla í ákæru.
Ákærandi andmælti því, að ákæra væri haldin þeim ágöllum að vísa bæri málinu frá og vitnaði til rannsóknargagna því til stuðnings.
Verjendur ákærðu Ásbjarnar Þorvaldssonar og Snorra Einarssonar lýstu í þinghaldinu því áliti sínu, að ákæran væri haldin slíkum annmörkum, að vísa bæri málinu frá dómi, einkum vegna þess að ekki væri nægjanlega aðgreint hvað hverjum ákærða væri gefið að sök.
Samkvæmt rannsóknargögnum eru atvik málsins þau, að þann 8. janúar 2000 fékk lögreglan á Höfn tilkynningu um innbrot og skemmdarverk í sveitabýlinu Hvalnesi í Lóni. Sagði svo í lögregluskýrslu, dags. 8. janúar 2000, að inn í íbúðarhúsinu að Hvalnesi hefði nánast allt verið skemmt sem hægt var að skemma. Hafi m.a verið notuð exi til að brjóta skjá á sjónvarpi, brotið sófaborð, brotnar rúður og póstar í millihurð, höggvin sundur karmur á herbergishurð og brotnir upp tveir læstir skápar á efri hæð. Þá hafi verið skotið með 22 cal. riffli á vegg í stofu og út um tvær rúður, aðrar í eldhúsi en hina í stofu. Einnig hafi verið skotið á símtæki, ísskáp, örbylgjuofn, útvarpstæki, málverk og ýmsa smáhluti í hillum. Fyrir virðist liggja í rannsókn málsins, hverjir af ákærðu frömdu þjófnaði þá, sem tilgreindir eru í III. lið ákæru. Grunur lögreglu beindist fljótlega að ákærðu og hafa verið teknar skýrslur af þeim. Eru auk framburðaskýrslu ákærða fjöldi annarra rannsóknargagna í málinu.
Lýsing brota eins og hún er í ákæru er ónákvæm og í engu samræmi við það, sem fram hefur komið í lögreglurannsókn. Í ákæru er talið, að tjón, sem ákærðu ollu, sé talið nema kr. 1.606.738 án þess, að neina sundurliðun á því því tjóni sé þar að finna, eða hvernig tjónið hefur verið metið. Brotinu er lýst sem stórfelldum eignaspjöllum, sem framin hafi verið innan dyra á húsinu, húsbúnaði og búsmunum. Þá segir, að eignaspjöll þessi hafi ákærðu framið aðallega með exi og byssu, meðal annars með því að skjóta á veggi, heimilistæki, rúður, ljós, málverk og skrautmuni. Þá hafi þeir notað exina við að brjóta upp hurðir, hreinlætistæki og húsgögn. Verður að telja, að þessi lýsing sé of almenn til þess, að lagður verði dómur á sönnur þess, hver raunveruleg eignaspjöll voru framin.
Í ákæru er ákærðu öllum gefið að sök að hafa framið hvert og eitt þeirra brota sem í ákæru greinir. Ekki er í ákæru getið um að ákært sé fyrir hlutdeild einhverra hinna ákærðu í brotum annarra. Er í ákæru ekki gerð tilraun til þess, að greina í sundur hvert brot hver ákærða um sig er talinn hafa framið. Verður að telja það verulegan ágalla á ákæru, að þar sé ekki með skýrum og ótvíðræðum hætti greint frá því, hver brot hver og einn ákærða er ákærður fyrir, enda þótt rannsóknargögn málsins gefi tilefni til þess að greina með nokkurri nákvæmni, þátt hvers þeirra um sig í brotunum.
Verður að telja, að ákæran, eins og hún liggur fyrir í málinu, sé ekki svo glögg, að hún fullnægi þeim kröfum, sem gerðar eru í lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá brýtur ákæran í bága við a. lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Vátryggingafélag Íslands hf. hefur gert bótakröfu að fjárhæð kr. 1.606.738 á hendur þeim, sem ábyrgð bera á tjóni því, sem ákærðu teljast hafa unnið í Hvalnesi, á húseignum og munum í eigu Hvalness ehf., en í bréfi tryggingafélagsins kemur fram, að tjónþolinn er vátryggður hjá félaginu. Lagður hefur verið fram listi um þá muni og húshluta, sem félagið segist hafa bætt, en ekki liggur fyrir nein skoðunargerð um tjónið eða mat á hinum skemmdu munum. Þá hafa ekki verið lagðar fram kvittanir fyrir því, að tjónið hafi verið greitt, en samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1993 öðlast vátryggingarfélagið rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda að svo miklu leyti sem það hefur greitt bætur.
Að þessu athuguðu þykir skaðabótakrafan vanreifuð og ber að vísa henni frá dómi.
Með hliðsjón af framangreindu verður að telja slíka annmarka á ákæru í máli þessu, sem ekki verði bætt úr undir rekstri málsins, að dómur verði ekki kveðinn upp um efni þess. Ber því með skírskotun til 4. mgr. 122. gr. laga nr. 19, 1991 að vísa málinu í heild frá dómi.
Allur sakarkostnaður í máli þessu þar með talin þóknun skipaðs verjanda Ásbjarnar Þorvaldssonar, Arnar Clausen, hrl., 30,000 krónur og þóknun skipaðs verjanda Snorra Einarssonar, Sveins Andra Sveinssonar, hrl., 50,000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Logi Guðbrandsson, dómsstjóri, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður í máli þessu þar með talin þóknun skipaðs verjanda Ásbjarnar Þorvaldssonar, Arnar Clausen, hrl., 30,000 krónur og þóknun skipaðs verjanda Snorra Einarssonar, Sveins Andra Sveinssonar, hrl., 50,000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.