Hæstiréttur íslands
Mál nr. 502/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dómari
- Meðdómsmaður
- Vanhæfi
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 502/2014.
|
Flugfélagið Atlanta ehf. (Anton B. Markússon hrl.) gegn Erni Ísleifssyni (Karl Ó. Karlsson hrl.) |
Kærumál. Dómari. Meðdómsmaður. Vanhæfi.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var þeirri kröfu F ehf. að tveir meðdómsmenn vikju sæti í máli E á hendur F ehf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júlí 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að meðdómsmennirnir Gísli Þorsteinsson og Gylfi Jónsson vikju sæti í máli varnaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að nefndum meðdómsmönnum verði gert að víkja sæti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að kæra er að ófyrirsynju.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Flugfélagið Atlanta ehf., greiði varnaraðila, Erni Ísleifssyni, 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 1. júlí.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 3. júní 2014, höfðaði stefnandi, Örn Ísleifsson, Helgugrund 5, Reykjavík, hinn 21. nóvember 2013 gegn stefnda, Flugfélaginu Atlanta ehf., Hlíðarsmára 3, Kópavogi.
Kröfur stefnanda í málinu eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skaðabótaskylt gagnvart stefnanda vegna ólögmætrar uppsagnar á ráðningarsamningi aðila þann 22. nóvember 2012. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði dæmt til þess að greiða stefnanda 6.106.710 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.017.785 krónum frá 3. júní 2013 til 1. júlí 2013, af 2.035.570 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2013, af 3.053.355 krónum frá þeim degi til 2. september 2013, af 4.071.140 krónum frá þeim degi til 1. október 2013, af 5.088.925 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2013, en af 6.106.710 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess, óháð úrslitum málsins, að stefnda verði dæmt til að greiða honum málskostnað.
Kröfur stefnda í málinu eru þær að félagið verði sýknað af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar sú krafa stefnda að báðir hinir tilkvöddu meðdómsmenn víki sæti í málinu, sbr. ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi hefur lýst því yfir að hann geri enga athugasemd við þá ákvörðun héraðsdómara að nefndir einstaklingar taki sæti í dómi sem sérfróðir meðdómsmenn. Stefnandi gerir hins vegar ekki sérstakar kröfur vegna framkominna mótmæla stefnda.
I
Með tölvubréfi 28. maí 2014 tilkynnti héraðsdómari lögmönnum málsaðila að hann hefði ákveðið að kveðja til, sem sérfróða meðdómsmenn, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, Gísla Þorsteinsson og Gylfa Jónsson, fyrrverandi þjálfunarflugstjóra hjá Icelandair. Óskaði héraðsdómari eftir því að málefnalegar athugasemdir við setu nefndra manna í dómnum, ef einhverjar væru, yrðu sendar honum eigi síðar en 30. maí 2014, kl. 16:00. Að morgni þess dags barst héraðsdómara tölvubréf lögmanns stefnanda þar sem því var lýst yfir að stefnandi gerði engar athugasemdir við setu þessara einstaklinga í dómnum. Skömmu síðar barst héraðsdómara tölvubréf lögmanns stefnda þar sem því var lýst yfir að stefndi gæti ekki „... fallist á að umræddir einstaklingar skipi dóminn.“ Var meðal annars til þess vísað að hinir tilkvöddu meðdómsmenn væru „... alltof tengdir sakarefninu til að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa.“ Þessi afstaða var ítrekuð í tölvubréfi lögmanns stefnda til héraðsdómara degi síðar.
Vegna mótmæla stefnda ákvað héraðsdómari að fresta aðalmeðferð málsins. Í þinghaldi 3. júní sl. var lögmönnum aðila gefinn kostur á að tjá sig um þá kröfu stefnda að báðir hinir tilkvöddu meðdómsmenn víki sæti í málinu. Að því loknu var málið tekið til úrskurðar.
II
Stefnda vísar kröfu sinni til stuðnings til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Segir stefnda hina tilkvöddu meðdómsmenn alltof tengda stefnanda til þess að þeir geti talist hæfir til þess að sitja í dómi í málinu. Um þau tengsl er af hálfu stefnda meðal annars til þess vísað að stéttarfélag stefnanda, Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), hafi beitt sér af miklum þunga í málinu, hið sama stéttarfélag og meðdómsmennirnir báðir hafi tilheyrt um áratugaskeið og greitt félagsgjöld til. Var á lögmanni stefnda að skilja fyrir dómi að aðkoma FÍA að máli þessu hefði verið slík að jafna mætti til þess að félagið sjálft væri aðili að málinu. Væri það mat stefnda að meðdómsmennirnir tveir væru alltof tengdir sakarefninu til að draga mætti óhlutdrægni þeirra í efa.
Svo sem áður er rakið gerir stefnandi ekki sérstakar kröfur vegna framkominna mótmæla stefnda. Fyrir dómi vísaði lögmaður hans til þess að meðdómsmennirnir tveir hefðu vissulega ákveðin tengsl við sitt stéttarfélag, FÍA. Félagið væri hins vegar ekki aðili að málinu og þá væru báðir meðdómsmennirnir hættir störfum fyrir nokkrum árum og hættir að greiða gjöld til stéttarfélagsins. Þá vörðuðu lýst tengsl meðdómsmanna við FÍA sakarefni máls þessa í engu. Að mati stefnanda væri því ekkert fram komið í málinu sem gæfi tilefni til þess að hæfi hinna tilkvöddu meðdómsmanna yrði dregið í efa á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Í þinghaldi 3. júní sl. var bókað af héraðsdómara að Gylfi Jónsson hefði starfað sem flugmaður og flugstjóri hjá Icelandair í 43 ár, þar af sem þjálfunarflugstjóri í 27 ár. Gylfi hafi einnig starfað hjá All Nippon Airways í Japan sem flugstjóri í tvö og hálft ár. Gylfi greiði ekki félagsgjöld til FÍA í dag. Það hafi hann ekki gert síðan hann lét af störfum sem flugstjóri árið 2003 vegna aldurs. Um Gísla Þorsteinsson var bókað í sama þinghaldi að hann hefði starfað sem flugmaður og flugstjóri hjá Icelandair frá 1967 til 2010, en það ár hafi hann látið af störfum sakir aldurs. Gísli hafi ekki greitt félagsgjöld til FÍA eftir starfslok. Gísli hafi setið í stjórn Eftirlaunasjóðs FÍA, siðanefnd FÍA og sem fulltrúi FÍA í „flight data monitoring Icelandair“.
Þá er upplýst í málinu að meðdómsmenn hafa hvorki starfað hjá stefnda né fyrirrennurum þess.
IV
Engar brigður hafa verið á það bornar af málsaðilum að báðir hinir tilkvöddu meðdómsmenn búi yfir menntun, reynslu og færni til setu í dómi í málinu á grundvelli 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Að íslenskum rétti hafa aðilar einkamáls ekki forræði á því hverjir skipa dóm í málum sem þeir eiga aðild að, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 2. gr. laga um meðferð einkamála. Málsaðilum er hins vegar heimilt að gera athugasemdir við val héraðsdómara á meðdómsmönnum, sbr. 1. mgr. 4. gr. sömu laga, svo sem stefnda gerði með tölvubréfum sínum til dómsins 30. og 31. maí sl.
Stefnda hefur vísað til ákvæðis g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að hinir tilkvöddu meðdómsmenn séu vanhæfir til að fara með mál þetta. Samkvæmt ákvæðinu er dómari, þar á meðal meðdómsmaður, vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en í stafliðum a-f greinir sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Fyrir liggur að hinir tilkvöddu meðdómsmenn störfuðu lengi sem atvinnuflugmenn hjá Icelandair, sbr. kafla III hér að framan, en þeir hafa nú báðir látið af störfum hjá félaginu vegna aldurs. Þá er einnig upplýst að meðdómsmenn hafa vegna þeirra starfa sinna um áratugaskeið verið félagsmenn í FÍA, líkt og fjölmargir íslenskir atvinnuflugmenn eru og hafa verið, en nefnt félag er stéttarfélag. Meðdómsmenn hafa hins vegar í engu komið að þeim ágreiningi sem til úrlausnar er í máli þessu, hvorki fyrir hönd FÍA né með öðrum hætti. Samkvæmt því og öðru framansögðu fær héraðsdómari ekki séð að fyrir liggi atvik eða aðstæður sem leitt geta til þeirrar niðurstöðu að meðdómsmenn verði taldir vanhæfir til að fara með framangreint mál á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda verður ekki talið að áðurlýst stéttarfélagsþátttaka meðdómsmanna geti ein og sér leitt til vanhæfis þeirra í skilningi ákvæðisins. Kröfu stefnda um að hinir tilkvöddu meðdómsmenn víki sæti í málinu er því hafnað.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari í samræmi við ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Gylfi Jónsson og Gísli Þorsteinsson víkja ekki sæti sem sérfróðir meðdómsmenn í máli þessu.