Hæstiréttur íslands

Mál nr. 517/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Umgengni


Þriðjudaginn 11

 

Þriðjudaginn 11. janúar 2005.

Nr. 517/2004.

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

K

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengni.

K og M deildu um forsjá sonar þeirra til bráðabirgða og umgengni við hann. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að K færi með forsjána meðan á rekstri málsins stæði. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um umgengnisrétt M við börnin.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. desember 2004, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um forsjá sonar þeirra til bráðabirgða og umgengni við hann. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verð breytt á þann veg, að sér verði falin forsjá sonarins til bráðabirgða og að umgengni varnaraðila og hans verði aðra hverja helgi frá fimmtudagssíðdegi til mánudagsmorguns. Jafnframt krefst hann þess, að varnaraðili verði dæmd til að greiða sér meðlag með barninu sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins frá dómsuppsögu þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir um forsjárágreining aðila.  Til vara krefst sóknaraðili þess, að hafnað verði kröfu varnaraðila um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármálið er rekið, lögheimili drengsins verði áfram hjá sér og hann „búi á víxl hjá málsaðilum, eins og verið hefur“. Að því frágengnu krefst hann þess, að umgengni hans og barnsins verði að minnsta kosti aðra hverja helgi frá fimmtudagssíðdegi til þriðjudagsmorguns. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. desember 2004.

Þetta mál var tekið til úrskurðar 6. desember s.l. eftir munnlegan málflutning.

Sóknaraðili er K, [...]  Z. 

Varnaraðili er M [...], nú með lögheimili að [...], Reykjavík.

Með beiðni sóknaraðila sem barst dóminum 11. október s.l., gerir hún þá kröfu, að henni verði, til bráðabirgða, falin forsjá sonar hennar og varnaraðila, A, sem er fæddur [...] 2000, uns endanlegur dómur gengur í forsjármáli hennar og varnaraðila.  Að auki er þess krafist að í úrskurðinum verði kveðið á um tilhögun umgengni drengsins við það foreldri sem ekki fer með forsjá hans til bráðabirgða.  Ennfremur krefst hún málskostnaðar úr hendi varnaraðila eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Varnaraðili krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá barnsins þar til forsjármálið verður til lykta leitt.  Jafnframt er þess krafist að í úrskurði verði kveðið á um tilhögun umgengni við barnið og að sóknaraðili greiði varnaraðila meðlag til bráða­birgða á meðan forsjárdeila aðila er til lykta leidd.

Til vara krefst varnaraðili þess að úrskurðað verði að forsjá barnsins verði áfram sameiginleg í höndum aðila á meðan forsjármálið er til lykta leitt.  Jafnframt er þess krafist að í úrskurði verði kveðið á um að lögheimili barnsins verði óbreytt hjá varnaraðila.  Þá er þess krafist að í úrskurði verði kveðið á um tilhögun umgengni sóknaraðila við barnið og að sóknaraðili greiði meðlag með barninu til bráðabirgða á meðan forsjárdeila aðila er til lykta leidd.

Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

 

Þann 8. september sl. var þingfest mál hér fyrir dómi þar sem sóknaraðili gerir þær kröfur, að henni verði falin forsjá drengsins A. Í því máli krefst varnaraðili að sér verði dæmd forsjá drengsins til 18 ára aldurs hans.  Forsjármálinu var úthlutað til dómara 1. október sl. en fyrir fyrstu fyrirtöku málsins barst krafa sóknaraðila um úrskurð um bráðabirgðaforsjá og er sú krafa rekin sem hluti af forsjármálinu.  Aðalmeðferð vegna þessarar kröfu fór fram 22. október sl. og var úrskurður kveðinn upp 26. október.  Varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar og með dómi uppkveðnum 25. nóvember sl. ómerkti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms og meðferð málsins frá og með þinghaldi 22. október.  Málið var því tekið aftur fyrir í héraði og fór aðalmeðferð fram 6. desember sl.

Málsaðilar hafa áður staðið í forsjárdeilu vegna sonar síns því þann 9. desember 2003 höfðaði varnaraðili þessa máls forsjármál gegn sóknaraðila.  Því máli lauk með dómsátt 19. mars sl. þar sem sæst var á að málsaðilar færu sameiginlega með forsjá drengsins, að hann byggi jafnt hjá báðum, viku og viku í senn hjá hvoru, frá fimmtudegi til fimmtudags og lögheimili hans væri hjá varnaraðila.  Í dómsáttinni segir að drengurinn skuli dvelja jafnt hjá aðilum í sumarleyfum sínum, samkvæmt nánara samkomulagi, ár hvert. 

Við rekstur fyrra málsins vann Gunnar Hrafn Birgisson, sálfræðingur, matsgerð um forsjárhæfni málsaðila, tengsl þeirra við barnið og önnur atriði sem þýðingu hafa í forsjármálum.  Sú matsgerð er einnig lögð fram sem gagn í þessu máli.  Skoðun matsmannsins fór fram frá 21. janúar til 3. mars 2004.  Í matsgerðinni kemur fram að vegna málleysis A og ungs aldurs hans hafi ekki verið hægt að leggja fyrir hann fjölskyldu­tengsla­próf eða ræða við hann til þess að fá fram óskir hans.  Drengurinn virtist álíka mikið hændur að báðum foreldrum sínum og ekki gera þar upp á milli.  Þar sem svo langt var liðið frá því matsgerðin var unnin og líkur til að málskilningur drengsins hefði aukist ákvað dómari að reynt skyldi að leggja fjöl­skyldu­tengsla­próf fyrir drenginn á ný, sbr. 1. mgr. 43. gr. barnalaga.  Gunnar Hrafn var fenginn til að leggja prófið fyrir drenginn, sem kom á skrifstofu dómara í fylgd móður sinnar 19. október sl.  Fjölskyldutengslaprófið misheppnaðist að mestu leyti þar sem málskilningur drengsins er svo skammt á veg kominn að hann skildi ekki þær spurningar sem sálfræðingurinn beindi til hans.  Sálfræðingur og dómari gátu þó fylgst með samskiptum móður og barns.  Því ákvað dómari að nauðsynlegt væri að fá drenginn aftur í heimsókn 21. október til að unnt væri að sjá samskipti föður og barns, enda nauðsynlegt að jafnræðis væri gætt með málsaðilum.  Krafa sóknar­aðila um bráðabirgðaforsjá var svo tekin til úrskurðar eftir skýrslutökur af báðum málsaðilum og munnlegan málflutning.  Lögmaður sóknaraðila hafði áður lagt fram sókn þar sem hún bætti við kröfu sína um forsjá, kröfu um úrskurð um umgengni barnsins við þann málsaðila sem ekki fengi forsjá barnsins til bráðabirgða.

I.

Málsaðilar gengu í hjónaband í ágúst 1999 og eignuðust [...] 2000 drenginn A.  Fyrir átti sóknaraðili soninn D, sem fæddur er [...] 1991 og bjó hann á heimili málsaðila lengst af hjúskapartíma þeirra.  Varnaraðili á einnig uppkominn son en hann hefur ekki búið á heimili málsaðila.  Að sögn sóknaraðila sleit hún sambúðinni 2. október 2003 og leitaði athvarfs hjá Kvenna­athvarfinu.  Þar bjó hún fyrst eftir sambúðarslitin en á sama tíma dvaldi A hjá varnaraðila.

Fyrir liggur að málsaðilum hefur gengið, þó einkum framan af, þokkalega að fylgja eftir dómsáttinni sem þau gerðu 19. mars sl. varðandi það að barnið byggi viku og viku í senn hjá hvoru foreldri.  Þó er ljóst að varnaraðili hefur tvisvar, án sam­þykkis sóknaraðila, haldið barninu hjá sér í tvær vikur til viðbótar við sína reglulegu viku, fyrst 31. júlí til 13. ágúst sl. og svo aftur 2. september til 16. september.  Að sögn varnaraðila gat hann ekki náð samkomulagi við sóknaraðila um það hvenær hann skyldi taka sumarleyfi með drengnum og því hafi hann brugðið á það ráð að tilkynna sóknaraðila, með ábyrgðarbréfi, hvenær hann hygðist taka sér það sumarleyfi.  Sem viðbrögð við þessu ákvað sóknaraðili að halda barninu hjá sér eina viku aukalega, það er samfellt frá 8. október sl. til 22. október.  Af þessu tilefni lagði varnaraðili fram, í héraðsdómi Reykjavíkur, þann 12. október, beiðni um innsetningu í barnið.  Sú beiðni hafði ekki verið tekin fyrir þegar krafa sóknaraðila í þessu máli var tekin til úrskurðar í fyrra skiptið en var svo afturkölluð þar sem sóknaraðili afhenti varnaraðila barnið 22. október sl. og munu málsaðilar hafa náð samkomulagi um að viðhalda sama fyrirkomulagi á búsetu sonar síns og komst á þegar þau gerðu sáttina 19. mars sl., það er að segja að drengurinn byggi viku í senn hjá hvoru þar til endanleg niðurstaða fengist í Hæstarétti um það hvernig haga skyldi forsjá barnsins til bráða­birgða.

Áður en málsaðilar skildu í október 2003, bjuggu þau hér í Hafnarfirði og barnið A sótti leikskólann [...].  Eftir skilnaðinn flutti sóknaraðili á Z en varnaraðili bjó áfram á fyrra heimili þeirra.  Þar sem lögheimili drengsins var hjá varnaraðila hélt hann áfram leikskólavistinni á [...].  Að mati varnaraðila braut starfsfólk leikskólans trúnað gagnvart honum og syni málsaðila með því að leka trúnaðarsamtali sem hann átti við tvo af starfsmönnum skólans þegar sóknaraðili flutti af heimilinu í október 2003.  Varnaraðili hélt þó áfram að fara með drenginn á leikskólann en á endanum fór svo að hann hætti því alveg.  Af einhverjum ástæðum, trúlega vegna mistaka á skóla­skrifstofu Hafnarfjarðar, fékk varnaraðili skólavist fyrir drenginn á öðrum leikskóla hér í Hafnarfirði, [...], án þess þó að sóknaraðili, sem annað forsjárforeldranna, hefði veitt samþykki fyrir því að drengurinn flyttist á annan leikskóla.  Í fyrra skiptið sem varnaraðili hélt drengnum hjá sér umfram það sem kveðið var á um í sáttinni, eða fyrri part ágústmánaðar, fór hann með drenginn í aðlögun á þann leikskóla, en mistökin uppgötvuðust og drengurinn missti þá skólavist.  Í því skyni að reyna að leysa ágreining foreldranna um það hvar drengurinn ætti að ganga í leikskóla bauð skólaskrifstofan þeim vist fyrir barnið á þriðja leik­skól­anum en sóknaraðili vildi ekki að barnið skipti um leikskóla.  Hún segist hafa talið að hagsmunir barnsins yrðu best tryggðir með því að það héldi áfram að vera í sama leikskóla.  Varnaraðili greip þá til ýmissa úrræða varðandi daggæslu barnsins þegar það átti að dveljast hjá honum.  Að sögn sóknar­aðila hafði hann drenginn hjá sér í vinnu, en hann vinnur í byggingar­iðnaði, en að sögn varnaraðila tók hann drenginn til dagmóður hér í Hafnarfirði.

Um mánaðamót september og október sl. flutti varnaraðili heimili sitt til Reykjavíkur.  Að hans sögn var það ekki til að þvinga fram breytingu á leikskólavist barnsins heldur vegna þess að honum hafi ekki lengur verið vært í Hafnarfirði vegna aðkasts sem hann hefði orðið fyrir frá sóknaraðila, afskipta lögreglu og vegna rógburðar sem starfsfólk leikskólans breiddi út um hann. 

Þar sem lögheimili drengsins var, samkvæmt sátt málsaðila frá 19. mars sl., hjá varnaraðila, fluttist lögheimili hans einnig til Reykjavíkur þegar varnaraðili flutti þangað.  Sveitarfélög miða við að réttur til leik­skóla­vistar fylgi lögheimili.  Flutningur varnaraðila til Reykjavíkur leiddi því til þess skóla­skrifstofa Hafnarfjarðar tilkynnti varnaraðila að réttur drengsins til leikskóla­vistar í Hafnarfirði félli niður frá og með 1. nóvember sl. nema sótt yrði um framlengingu skóla­vistarinnar.  Forsjár­foreldri getur sótt sérstaklega um framlengingu leikskóla­vistar barns og getur sú fram­lenging staðið í sex mánuði, samkvæmt samkomu­lagi sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu um leikskóla­dvöl barna sem flytjast á milli leikskóla á svæðinu.  Í samkomulaginu segir ennfremur að ef sú þjónusta sem barnið þarf á að halda, til dæmis vegna fötlunar, finnist ekki í því sveitarfélagi, þar sem barnið á lögheimili, fari dvölin eftir samkomulagi og sé ekki bundin við sex mánuði. 

Þar sem drengurinn var kominn með lögheimili í Reykjavík í byrjun október bauðst varnaraðila, þann 7. október sl., vist fyrir drenginn á leikskólanum [...] í Reykjavík.  Þrátt fyrir að sóknaraðili, sem forsjárforeldri, veitti ekki samþykki sitt fyrir vistun barnsins þar ákvað skólaskrifstofa Reykjavíkur að barninu væri heimil vistun á leikskólanum.  Varnaraðili hóf aðlögun drengsins [á leikskólanum] þann 25. október sl., þrátt fyrir að sóknaraðili hafi gert sitt ítrasta til að fá varnar­aðila til að hefja ekki aðlögun barnsins á nýjum leikskóla, þar til úrskurður væri genginn um það hvernig forsjá barnsins til bráðabirgða yrði háttað. 

Varnaraðili telur sig hafa reynt allt sem í hennar valdi standi til að annast farsællega hagsmuni sonar aðila með því að deila forsjá barnsins með stefnda.  Nú sé hinsvegar ljóst að útilokað sé fyrir málsaðila að fara sameiginlega með forsjá barnsins þegar varnaraðili taki einhliða ákvörðun um daggæslu barnsins.  Þess vegna sé forsjármálið nauðsynlegt.  Kröfu sína um bráðabirgðaforsjá lagði hún fram þegar ljóst var að varnaraðili hefði flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur og hygðist koma barninu á leikskóla þar.

Drengurinn sem um er deilt er rétt rúmlega fjögurra ára.  Móðir hans, sem er af [erlendu] bergi brotin, talar við hann á [móðurmáli sínu], faðirinn talar við hann á íslensku en sín í milli tala þau ensku.  Drengurinn er því tvítyngdur að því litla leyti sem hann getur tjáð sig.  Fram kemur í gögnum frá leikskóla og það kom berlega fram í heimsóknum drengsins á skrifstofu dómara, þar sem hann tjáði sig bæði á [móðurmáli K] og íslensku, að málþroska hans, og mögulega öðrum þroska, er verulega áfátt. 

Drengurinn hefur nú gengið í leikskólann [...] í bráðum tvö ár eða frá því í janúar 2003.  Í skýrslu frá leikskólanum, dags. 15. október sl. segir að í upphafi leikskólagöngu hafi móðirin séð um aðlögun fyrstu dagana.  Aðlögunin hafi tekið langan tíma og hafi gengið mjög illa.  Drengurinn hafi grátið nánast daglega í um það bil mánuð og hafi átt mjög erfitt með að skiljast við móður sína.  Hann hafi ekki haft frumkvæði í samskiptum sínum við hin börnin og hafi verið áhugalaus um umhverfið í leikskólanum almennt.  Svo segir, að eftir erfitt tímabil í upphafi hafi drengurinn aðlagast leikskólanum aðeins betur, orðið eilítið opnari í tjáningu og hafi farið að sýna leikskólastarfinu meiri áhuga.  Síðar í skýrslunni kemur fram að samskiptahæfileikar barnsins hafi ætíð verið mjög takmarkaðir og hafi að mestu einskorðast við bendingar og hljóð.  Samskipti hans við börnin á leik­skólanum séu ákaflega takmörkuð og hann hafi ekki náð eðlilegum tengslum við leikfélaga sína.  Félagsleg staða hans í barnahópnum sé slæm þar sem hann hafi ekki mál til tjáskipta.  Leikskólastjóri og umsjónarkona með sérkennslu telja einnig að drengurinn hafi ekki náð eðlilegum tilfinningatengslum við fullorðna á deildinni og hann sýni sjaldan tilfinningar og svipbrigði.  Hann sé fálátur og hæglátur og leiti sjaldan af sjálfsdáðum til starfsfólks.  Starfsfólkið hafi því haft áhyggjur af þroskastöðu hans og almennri líðan.

Þrátt fyrir að greining á þroska drengsins hafi ekki enn verið gerð af þar til bærum aðilum, hefur leikskólinn [...] engu að síður unnið markvisst að málörvun fyrir drenginn eftir því sem segir í greinargerð skólans, dags. 21. október sl.  Undanfarna mánuði mun hann hafa verið þar í þriggja barna málörvunarhópi tvisvar sinnum í viku og hafi umsjónar­kennari með sérkennslu skipulagt þær stundir.  Það kerfi sem stuðst sé við innihaldi markvissar æfingar og leiki, sem sé meðal annars ætlað að efla tjáningu og málþroska, örva vitsmunaþroska og kenna félagslega hegðun.  Kerfinu er lýst nánar en síðan segir í skýrslunni að drengurinn hafi verið mjög virkur og áhugasamur í þessum stundum, þegar hann hafi mætt, og að mati umsjónarkennara með sérkennslu hafi þessar stundir haft góð áhrif á hann.  Meðal annars þá tjái drengurinn sig frjálslega í þessum stundum, hann njóti þeirra og gefi það til kynna með látbragði og brosi.  Til þess að koma sem best til móts við þarfir drengsins fylgi deildin hans einnig sérstakri einstaklingsnámsskrá fyrir hann þar sem lögð sé mikil áhersla á málörvun.

Sá ágreiningur foreldranna sem snertir barnið mest er ágreiningurinn um það hvar barnið eigi að ganga í leikskóla.  Einnig er ágreiningur um með hvaða formerkjum afhending barnsins á að fara fram.  Að öðru leyti ganga milli málsaðila ásakanir af ýmsu tagi.  Ekki þykir þó ástæða til að gera ítarlega grein fyrir þeim því engin haldbær sönnunargögn eru fyrir flestum þeirra svo og vegna þess að þessar ásakanir þykja ekki ekki hafa þýðingu við mat á því hvar barninu sé fyrir bestu að vera til bráðabirgða.

II.

Sóknaraðili byggir kröfu sína, um forsjá barnsins til bráðabirgða, á því að vegna ágreinings aðila um það hvernig best megi tryggja hagsmuni barnsins þá sé ekki mögulegt að þau fari sameiginlega með forsjá þess þar til forsjárdeila þeirra hafi verið leidd til lykta.  Hún vísar til þess að varnaraðili hafi verið sakfelldur fyrir ofbeldi gegn henni og því sé þeim ómögulegt að fara sameiginlega með forsjá barnsins.  Hún telur einnig að sameiginleg forsjá sé ómöguleg vegna ítrekaðrar sjálftöku varnaraðila í málefni barnsins.  Síðastliðið sumar hafi hann ákveðið einhliða að það gengi ekki lengur að hafa barnið í vistun á [...], enn fremur hafi hann einhliða ákveðið hvenær hann hygðist taka sumarleyfi með barninu, hann setji skilyrði fyrir því hvar og í viðurvist hvers skuli afhenda barnið.  Hún telur að varnaraðili virði forsjárrétt hennar yfir höfuð ekki. 

Krafa sóknaraðila byggist ennfremur á því að nauðsynlegt sé að tryggja hagsmuni barnsins nú þegar með því að fela henni forsjá barnsins.  Sóknaraðili geti betur en varnaraðili skilið hvað barninu sé fyrir bestu og framfylgt því sem máli skiptir.  Hún vísar til þess að varnaraðili hafi, þegar hann varð þess áskynja að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hygðist fara að hafa afskipti af málinu, ákveðið að flytja lögheimili sitt til Reykjavíkur.  Hann sé þar kominn með nýtt heimili sem barnið sé rétt að byrja að venjast og hafi barnið aðeins dvalist þar í fjórar vikur samtals.  Varnaraðili hefði vel getað komist hjá því að raska á þennan hátt persónulegum högum barnsins.  Auk þess skilji varnaraðili ekki hversu mikilvægt það sé fyrir barnið að samfella sé í dagvistun þess og stöðugleiki í lífi þess yfirleitt.

Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að við ákvörðun um forsjá sé það grundvallarsjónarmið að tryggja verði umgengni barnsins við það foreldri sitt sem ekki fái forsjá þess.  Því sé mikilvægt að fela forsjána því foreldri sem sé líklegra til að stuðla að umgengni barnsins við hitt foreldrið.  Augljóst sé af gögnum málsins og sögu þess hingað til að það sé hún sem sé langt um líklegri til að tryggja umgengni barnsins við varnaraðila heldur en varnaraðili til að tryggja umgengni barnsins við hana.  Fullyrðingar varnaraðila þess efnis að hann muni ekki sætta sig við aðra niðurstöðu en þá að barnið búi hjá honum séu sönnun þess að hann sé líklegri til að tálma umgengni.  Hann muni því ekki láta það hafa forgang að barnið haldi tengslum við sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir einnig á því að ákvörðun um forsjá barns til bráðabirgða eigi að líta til þess hvaða fyrirkomulag sé barninu fyrir bestu þá þrjá til fimm mánuði sem það taki að leiða forsjárdeilu til lykta fyrir dómi.  Sóknaraðili geti betur tryggt barninu stöðugleika á þessum tíma.  Sóknaraðili búi á heimili sem barnið þekki og þar búi hálf­bróðir barnsins einnig.  Staðfest hafi verið í matsgerð í fyrra forsjármáli aðila að heimilisaðstæður hennar séu góðar fyrir barnið.  Varnaraðili hafi einungis búið á núverandi heimili í tæpa tvo mánuði og þar af hafi barnið búið á því heimili í fjórar vikur.  Heimilisaðstæður hans séu óvissar með öllu.  Varnaraðili hafi fyrir dóminum lýst vilja sínum til að kaupa húsnæði í Reykjavík og verði af því muni drengurinn einnig þurfa að laga sig að því heimili.  Stöðugleiki sé því meiri hjá sóknar­aðila. 

Sóknaraðili byggir á því að sonur málsaðila þurfi meiri aðstoð en önnur börn á sama aldri og að það sé óæskilegt að börn sem þurfi sérstakan stuðning skipti oft um leikskóla.  Þessvegna hafi sóknaraðili lagt sérstaka áherslu á það að barnið skipti ekki um leikskóla, hvorki síðastliðið sumar né nú.  Best sé fyrir barnið að vera á sama leikskóla.  Af fram­komu varnaraðila verði ekki ráðið að hann telji það skipta máli að barnið sé alltaf á sama leikskóla heldur skipti hann meira máli að leikskólinn sé góður að hans eigin mati og að það taki fjögurra ára gamalt barn bara tvo daga að aðlagast nýjum leikskóla.  Honum finnist ekki tiltökumál að barnið skipti um leikskóla en þarna greini aðila verulega á.  Tillaga skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, um að barnið sækti enn annan leikskóla í bænum en [...] og [...], hefði ekki beinst að hagsmunum barnsins heldur því að gera foreldrunum kleift að lifa í friði.

Það sé fortakslaus réttur barnsins að fá frið, öryggi og stöðugleika komið á í lífi sínu og eingöngu sóknaraðili geti veitt barninu það.  Drengnum líði vel hjá henni, þar eigi hann öruggt heimili sem hann þekki og yrði högum hans sem minnst raskað með því að fela sóknaraðila forsjá hans á meðan forsjármálið er til lykta leitt.  Skilningur hennar á þörfum barnsins sé meiri en varnaraðila og hún láti hags­muni barnsins ætíð ganga fyrir.  Þennan skilning á þörfum barnsins skorti varnaraðila.

             Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili aðallega til 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 svo og greinargerðar með sömu lögum og eldri barnalögum nr. 20/1992.  Kröfu sína um málskostnað styður hún við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Varnaraðili byggir aðalkröfu sína, þess efnis að honum verði falin forsjá drengsins til bráðabirgða, á því að það sé drengnum fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Hann vísar til þess að nú þegar liggi fyrir mat á málsaðilum, tengslum þeirra við barn sitt og öðrum þeim þáttum sem þýðingu hafa þegar mat er lagt á hvernig best sé að skipa forsjá barns til frambúðar.  Í matsgerðinni komi fram heilmargt um samskipti málsaðila þegar þau hafi deilt um forsjá barnsins síðastliðinn vetur.  Ekki verði lesið úr matsgerðinni að sóknaraðili óttist varnaraðila þrátt fyrir að kæra á hendur honum vegna meints ofbeldis gegn henni hafi þá þegar verið gefin út.  Samskipti málsaðila hafi ætíð verið þannig, eftir skilnað þeirra, að sóknaraðili hafi sett varnaraðila skilyrði og hún sé vön því að hann fallist á þau.  Hann hafi ekið henni hafi hún farið fram á það og afhent henni peninga hafi hún beðið hann um.  Af sama meiði séu skilyrði hennar um leikskólavistun barnsins.  Í því efni hafi sóknaraðili ekkert aðhafst.  Því sé mótmælt að lesa megi úr framkomu hennar að hún meti hagsmuni barnsins framar öðru og mun meira en varnaraðili.  Með athafnaleysi sínu hafi sóknaraðili viðurkennt í verki að hún vilji halda ágreiningnum um leikskóla­vistunina til streitu.  Sóknaraðili hafi verið jafnmikill þátttakandi og varnaraðili í atburðarás málsins sem hafist hafi í ágúst sl. og verði ekki séð að sú atburðarás hafi verið hagsmunum barnsins fyrir bestu.  Sú atburðarás og það ástand sem staðið hafi síðan þá sé alfarið á ábyrgð sóknaraðila því hún hafi neitað að leita lausnar á leikskólavistun barnsins með varnaraðila.  Þvert á móti hafi hún lýst því yfir að hún samþykkti enga breytingu þar á.  Sóknaraðili hafi, eins og áður, ætlast til þess að varnaraðili féllist á kröfur hennar.  Sóknaraðili stýri alfarið samskiptum aðila þegar afhenda eigi barnið vikulega og setji skilyrði um það hvar afhendingin skuli fara fram.  Varnaraðili hafi þurft, eftir kröfu sóknaraðila, að ná í barnið á heimili hennar þrátt fyrir að það sé honum mikið móti skapi, þar sem hann reyni eftir megni að forðast að blaðamaður nái ljósmynd af honum á heimili sóknaraðila.  Sóknaraðila sé fullkunnugt um að það sé ástæða þess að hann forðist heimili hennar.

Varnaraðili vísar til þess að það hafi ætíð verið forsenda hans fyrir dómsáttinni sem undirrituð var 19. mars sl. að barnið sækti ekki leikskólann [...].  Ástæða þess sé trúnaðarbrestur sem orðið hafi milli varnaraðila og starfsfólks leikskólans í október 2003 þegar varnaraðili hafi greint starfsfólki leikskólans frá samvistaslitum málsaðila.  Að auki hafi málsaðilar verið sammála um það að þau ummæli sem komi fram í matsgerð um umönnun þeirra um barnið væru ósæmandi þegar litið sé til þess að þeim hafi aldrei verið gerðar neinar athugasemdir við þau sjálf og þeim aldrei gefið neitt færi til úrbóta.  Varnaraðili hafi því staðið í þeirri trú að samkomulag væri með þeim um að barnið yrði ekki til frambúðar á leikskólanum [...].  Þegar þeim hafi staðið til boða að koma barninu í vistun á leikskólann [...] þá hafi það ekki hentað varnaraðila lengur að láta barnið skipta um leikskóla.

Varnaraðili mótmælir því að aðstæður sóknaraðila séu betri en aðstæður varnaraðila.  Auk þess láti sóknaraðili þrettán ára son sinn gæta barns málsaðila og vísi til þess að hann geti leitað til nágranna komi eitthvað uppá við gæslu barnsins.

Varnaraðili mótmælir því með öllu að hann hafi nokkurn tíma tálmað umgengni sóknaraðila við barnið.  Hann hafi viljað fá að njóta sumarumgengni við barnið.  Þar sem málsaðilar hafi ekki getað ræðst við hafi varnaraðili lýst því yfir í ábyrgðarbréfi til sóknaraðila hvernig umgengninni yrði háttað því ekki sé tekið á sumarumgengni í dómsáttinni.  Þegar sóknaraðili, hinsvegar, ákveði að njóta sumar­umgengni við barnið í októbermánuði hafi hún ekki í eitt einasta sinn lýst því yfir við varnaraðila að hún sæi ástæðu til að vera með barnið í sumarfríi. 

Varnaraðili fellst á að ekki hafi ríkt mikill stöðugleiki í lífi barnsins undan­farna mánuði.  Hann mótmælir því þó að sækja megi einhver rök um stöðug­leika í lífi barnsins til umsagnar frá leikskólanum [...].  Leikskólinn hafi sinnt barni málsaðila afar illa.  Barnið hafi sama sem ekkert sótt leikskólann í júlí, ágúst og september og á þeim tíma hafi varla verið unnt að koma við þeirri sérhæfðu málörvun sem haldið sé fram að barnið fái á leikskólanum.  Ekkert hafi verið gert fyrir barnið þó fram komi að leikskólinn meti barnið í sérstakri þörf fyrir málörvun.  Að auki hafi leikskólinn tilkynnt barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, í október sl., áhyggjur sínar af líðan barnsins.  Ástæðan fyrir áhyggjunum sé fjarvera barnsins frá leikskóla, sem hafi staðið í nokkra mánuði þegar leikskólinn sjái loks ástæðu til að tilkynna um áhyggjur sínar.  Auk þess sjái leikskólinn ekki ástæðu til að tilkynna um áhyggjur sínar af þroska barnsins fyrr en barnið hafi dvalist í meira en ár á leikskólanum og velji einmitt þann tímapunkt þegar lögheimili barnsins sé komið í annað sveitarfélag og það sé því að fara að skipta um leikskóla.  Af þessu megi sjá að stöðugleiki barnsins verði ekki tryggður á leikskólanum [...].  Að mati varnaraðila myndi það koma barni málsaðila mun betur að vera á öðrum leikskóla en [...] því einungis við þær aðstæður muni skapast friður um leikskólagöngu barnsins.  Sóknaraðili hafi hinsvegar ekki viljað ná sátt um annan leikskóla og hafi aldrei lýst sig tilbúna til þess.  Friðarvilji hennar í málinu hafi því ekki verið til staðar.  Varnaraðili hafi ætíð verið tilbúinn til að ná sáttum og skapa frið um barnið, leikskólavistun sem og önnur mál en án árangurs og því beri sóknaraðili alfarið ábyrgð á því ástandi sem enn standi.  Varnaraðili hafi sýnt í verki að hann sé tilbúinn til að setja hagsmuni barnsins í forgang og laga sig að þörfum þess.

Að mati varnaraðila sé barnið tengdara honum en sóknaraðila þar sem hann hafi verið aðalumönnunaraðili barnsins frá fæðingu.  Auk þess séu aðstæður varnaraðila betri til að sinna barninu.  Hann vinni sjálfstætt, sem verktaki í byggingar­iðnaði og geti hagrætt vinnutíma sínum eftir aðstæðum hverju sinni.  Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili ekki skilning á þörfum barnsins fyrir umhyggju og öryggi og vísi um það til matsgerðar sálfræðingsins Gunnars Hrafns Birgissonar og annarra gagna sem liggi fyrir í málinu.

Varakröfu sína, þess efnis að forsjá verði áfram sameiginleg í höndum aðila, byggir varnaraðili á 2. mgr. 35. gr. barnalaga og því sjónarmiði að almennt sé talið æskilegt að forsjá sem verið hefur sameiginleg haldist þannig þar til forsjárdeila er til lykta leidd.  Að mati varnaraðila er það syninum fyrir bestu að sem minnst röskun verði á núverandi aðstæðum hans og að lögheimili drengsins verði áfram á heimili varnaraðila og verið hefur.  Að öðru leyti er um varakröfu vísað til málsástæðna og lagaraka sem sett eru fram fyrir aðalkröfu, sem og kröfu í greinargerð varnaraðila í aðalmáli.

Málskostaðarkrafa varnaraðila, bæði í aðalkröfu og varakröfu, byggir á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Vegna álags virðis­auka­skatts á málflutningsþóknun er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild, í máli um forsjá barns, til að úrskurða til bráðabirgða, eftir kröfu aðila, hvernig fara skuli um forsjá þess eftir því sem barninu er fyrir bestu.  Þegar slíkar tímabundnar ákvarðanir um forsjá eru teknar hefur helsta viðmið úrlausnaraðila verið að raska skuli sem minnst högum barnsins, nema benda megi á sérstakar aðstæður, sem réttlæti slíka röskun.

Í lífi þess barns, sem hér er deilt um, hefur ekki verið mikill stöðugleiki síðastliðið hálft ár og jafnvel lengur.  Það hefur búið aðra vikuna á heimili sóknaraðila á Álftanesi og hina vikuna á heimili varnaraðila í Hafnarfirði, en hefur síðastliðnar sex vikur búið aðra hverja viku á nýju heimili varnaraðila í Reykjavík.  Leikskólasókn þess hefur ekki heldur verið fullkomlega stöðug, að minnsta kosti ekki síðustu mánuði, því það hefur aðra vikuna sótt leikskólann [...] en hina vikuna hefur daggæsla þess verið með ýmsu móti.  Síðastliðnar sex vikur hefur það sótt leikskólann [...] í Reykjavík aðra vikuna og hina vikuna [...].

Ekki verður annað séð af þeirri matsgerð, sem unnin var við meðferð fyrra forsjármálsins, en að málsaðilar séu bæði hæf til að fara með forsjá sonar síns.  Ennfremur virðast þau bæði hafa bætt úr þeim atriðum sem matsmaður gerði athugasemdir við varðandi umönnun þeirra um barnið.  Í matsgerðinni kemur fram að drengurinn sé tengdur báðum foreldrum sínum tilfinningalega og ekkert bendi til að hann sé tengdari öðru fremur en hinu.  Í leikskólanum fagni hann báðum foreldrum sínum, að sögn starfsmanna þar, og móður þó ívið meira en föður.  Fram er komið að drengurinn á tvo hálfbræður, en vegna mikils aldursmunar telur matsmaður systkinatengsl ekki hafa þýðingu í málinu.

Að mati dómara verður við úrlausn þessa máls að reyna að skapa stöðugleika í lífi drengsins en á sama tíma að tryggja að hann njóti, eins og kostur er, jafnrar umgengi við foreldra sína þar til forsjármál þeirra er til lykta leitt.  Þrátt fyrir að núverandi fyrirkomulag, það er að barnið búi viku hjá öðru foreldrinu og viku hjá hinu, tryggi barninu jafna umgengni við foreldra sína þá eru á því margir gallar.  Þetta fyrirkomulag getur, eins og í þessu máli, þar sem foreldrar geta ekki náð samkomulagi um daggæslu barnsins, nánast verið börnum skaðlegt.  Af tilliti til hagsmuna sonar málsaðila þykir því verða að ákvarða drengnum heimili hjá öðrum hvorum málsaðila.

Varnaraðili flutti heimili sitt til Reykjavíkur fyrir rúmum tveimur mánuðum.  Engin gögn hafa verið lögð fram um hið nýja heimili hans en að hans mati er það mun betra fyrir drenginn en heimili sóknaraðila.  Á síðastliðnum sex vikum hefur drengurinn einungis dvalist í þrjár vikur á þessu heimili.  Sóknaraðili hefur, hinsvegar, átt sitt heimili á Z í rúmt ár, eða frá skilnaði málsaðila, í október 2003, og frá þeim tíma hefur drengurinn dvalist þar aðra hverja viku.  Verður því að telja að drengurinn sé mun betur aðlagaður að heimili sóknaraðila en að núverandi heimili varnaraðila og það valdi minnstri röskun á högum hans að búa á heimili sóknaraðila, þar til forsjárdeila aðila er til lykta leidd.

Það er, því miður, staðreynd að börn dvelja, af vökutíma sínum, lengur á leikskólum heldur en í umsjá foreldra sinna.  Leikskólinn er því einn af þýðingar­mestu þáttunum í daglegu lífi barna, einnig þess barns sem hér er bitbein foreldra sinna.  Samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum [...í Reykjavík] dvelur drengurinn þar 9 og ½ tíma á dag og samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum [...] dvelur drengurinn þar um 8 og ½ tíma á dag.  Þegar metið er hvaða fyrirkomulag forsjár valdi barninu sem minnstri röskun og tryggi stöðugleika í lífi þess, verður því ekki litið framhjá hlutverki leikskólans í því efni.

Drengurinn hefur nú sótt leikskólann [...] í rétt tæp tvö ár.  Þrátt fyrir að skólasókn hans hafi ekki verið regluleg síðastliðna fimm til sex mánuði, er hann engu að síður orðinn hagvanur þar, þekkir leikfélaga sína, leikskólakennara og allt umhverfi innanhúss og utan.  Þá skiptir ekki síður máli að leikfélagarnir og leikskóla­kennararnir þekkja hann vel og þarfir hans.  Leikskólann [... í Reykjavík] þekkir drengurinn mun minna, hvort heldur það eru hin börnin eða kennararnir, sem að sama skapi þekkja hann lítið og þarfir hans.  Í greinargerð frá leikskólanum [... í Reykjavík] kemur fram að aðlögun drengsins að leikskólanum hafi ekki gengið sem skyldi.  Það er talið stafa af því að barnið gangi í tvo leikskóla.  Einnig er bent á það að venjulega dvelji foreldrar í fimm daga með börnum sínum í aðlögun en varnaraðili hafi einungis dvalist með drengnum í aðlögun í tvo daga og því hafi eðlileg aðlögun í raun ekki átt sér stað.  Þess er að auki getið að drengurinn eigi erfitt með að tjá sig og nauðsynlegt sé að skoða það atriði sérstaklega.  Í greinargerðinni er ekki fjallað frekar um þroska drengsins og má ætla að það taki nokkurn tíma fyrir leikskólann meta hvaða sérkennslu drengurinn þurfi og skipuleggja hana.

Aðlögun að nýjum leikskóla verður vitaskuld ekki jafnað til tilfinningalegs áfalls sem tekur börn langan tíma að vinna sig út úr.  Drengur málsaðila er hinsvegar ekki venjulegt barn.  Hann á undir högg að sækja á mörgum sviðum, ekki bara hvað varðar málþroskann, þó það þroskafrávik hafi verið mest um rætt í meðferð þessa máls.  Ljóst er, af greinargerð frá [... í Reykjavík], að aðlögun drengsins að þeim leikskóla er langt frá því lokið.  Aðlögun hans að [...í Hafnarfirði] var honum mjög erfið og þrátt fyrir að hann sé nú tæpum tveimur árum eldri en þá og ef til vill eilítið harðari af sér en hann var, þá þykir það engan veginn vera honum fyrir bestu, né heldur raska sem minnst högum hans, að leggja á hann aðlögun að nýjum leikskóla á meðan enn hefur ekki verið leyst úr því hvort foreldra hans fái forsjá hans til frambúðar og þar með hvar hans frambúðar skólaumdæmi verður.

Eins og fram er komið hafa sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu undirritað samkomulag þess efnis að börn sem flytjist milli sveitarfélaganna geti dvalið áfram í sama leikskóla í allt að sex mánuði frá flutningi lögheimilis.  Þetta samkomulag tryggir að barn málsaðila geti áfram sótt leikskólann [... í Hafnarfirði] þó lögheimili þess flytjist til sóknaraðila á Z.

Samkomulag málsaðila er afar stirt.  Það birtist ekki bara í togstreitu þeirra um leikskóla heldur virðist vikuleg afhending barnsins ekki geta farið fram án milligöngu lögmanna þeirra beggja.  Hvor málsaðila sakar hinn um að setja skilyrði fyrir því hvar og í fylgd hvers megi afhenda eða sækja barnið.  Það eina sem þau virðast sammála um, er að komast verði að því sem fyrst hvernig standi á hægum þroska barnsins.  Þegar litið er til þess hversu margt verður málsaðilum að ágreiningsefni og að þau ná ekki samkomulagi um þýðingarmestu atriðin í lífi barns síns þykir ekki vera grund­völlur fyrir sameiginlegri forsjá þeirra yfir barninu.  Það er niðurstaða dómsins að það valdi sem minnstri röskun á högum drengsins að sóknaraðili fari með forsjá hans til bráðabirgða, þar til forsjármál málsaðila hefur verið til lykta leitt.  Með þessu móti heldur drengurinn áfram að búa á því heimili sem hann er nú vel aðlagaður að og heldur áfram að sækja þann leikskóla sem hann þekkir vel.  Auk þess er með þessu móti tryggt að drengurinn geti haldið áfram að fá þá sérkennslu og markvissu málörvun sem skipulögð hefur verið fyrir hann á [leikskólanum í hafnarfirði].

Við ákvörðun umgengnisréttar barns við það foreldri sem ekki fær forsjána er algengt að barnið njóti umgengni við það foreldri aðra hverja helgi.  Telja verður að með þessu fyrirkomulagi sé ekki tryggt að tengsl barns við umgengnisforeldri séu jafnmikil og tengsl þess við forsjárforeldri.  Eins og áður kom fram er það niðurstaða dómara að það þjóni best hagsmunum barnsins, þar til endanleg niðurstaða er fengin í forsjárdeilunni, að það haldi áfram í þeirri sérstöku málörvun sem það fær á [...] og að tryggja verði að það sæki leikskólann á hverjum degi því einungis með stöðugri skólasókn er hægt að vænta einhvers árangurs af skólastarfinu og þeirri sérkennslu sem drengurinn fær þar.  Varnaraðili telur að ekkert búi að baki gögnum frá [....] um sérstakan stuðning við barnið.  Leikskólinn sinni drengnum ekki neitt.  Það megi meðal annars sjá af því að leikskólinn hafi ekki náð neinum árangri með barnið þrátt fyrir yfirlýsingar um einstaklingsnámsskrá og sérkennslu.  Í því sambandi er til þess að líta varnaraðili hefur ekki stuðlað að því að barnið sæki skólann reglulega og þar með ekki veitt barninu það brautargengi sem það þarf til að ná árangri.

Þar sem varnaraðili þvertekur fyrir að fara með barnið á þennan leikskóla þá er því miður ekki hægt að ákvarða barninu umgengnisrétt við varnaraðila á virkum dögum.  Dómari telur nauðsynlegt að tryggja drengnum rýmri umgengni við varnar­aðila en einungis aðra hverja helgi til þess að samskipti drengsins við hann verði ekki miklum mun minni en samskipti drengsins við sóknaraðila.  Það er því niðurstaða dómara að rétt sé að drengurinn fái að njóta umgengni við varnaraðila tvær helgar í röð en þá þriðju verði drengurinn hjá sóknaraðila.  Miða skal við að umgengnin hefjist kl. 18.00 á föstudegi og standi til kl. 18.00 á sunnudegi.  Helgarumgengni barnsins við varnar­aðila skal því hefjast sem hér segir: frá kl. 18.00 10. desember nk. til kl. 18.00 12. desember, frá kl. 18.00 17. desember til kl. 18.00 19. desember, og svo aftur aðra helgi þaðan í frá og skal standa þannig fram að því að endanleg niðurstaða er fengin í forsjárdeilu aðila.

Eins og málum er háttað þykir rétt að taka nú þegar afstöðu til þess hjá hvorum málsaðila barnið á að vera um jól og áramót.  Miðað við áðurnefnda helgar­umgengni á barnið að vera hjá sóknaraðila jólahelgina og varnaraðila áramótahelgina.  Rétt þykir að barnið njóti umgengni við báða foreldra sína þessar helgar.  Umgengni drengsins við varnaraðila skal hefjast kl. 14.00 25. desember og ljúka kl. 18.00 26. desember.  Ennfremur skal helgarumgengni drengsins við varnaraðila um áramót hefjast kl. 12.00 31. desember og ljúka kl. 12.00 2. janúar 2005.  Þetta skal þó ekki raska þriggja vikna fyrirkomulaginu þannig að drengurinn nýtur helgarumgengni við varnaraðila frá kl. 18.00 7. janúar til 18.00 9. janúar og sóknaraðila helgina þar á eftir og upp frá því hefst þriggja vikna fyrirkomulagið á ný.  Samkvæmt fyrirkomulaginu skal drengurinn njóta umgengni við varnaraðila páskahelgina og skal umgengnin hefjast kl. 18.00 á föstudaginn langa og skal standa til kl. 12.00 annan dag páska.

Þó dómari vonist til að endanlegur dómur dragist ekki fram á sumar þykir rétt að taka einnig afstöðu til umgengni í sumarleyfi.  Þó vill dómurinn ekki ganga lengra en að ákveða að drengurinn skuli dvelja fimm vikur í sumarleyfi með varnarðila og að varnaraðili skuli tilkynna sóknaraðila fyrir 1. maí nk. á hvaða tímabilum sumarsins hann kýs að njóta þeirrar umgengni.

Lögmaður sóknaraðila hefur eindregið krafist þess að tekin verði afstaða til málskostnaðar í þessum þætti málsins á grundvelli gjafsóknarleyfis sem sóknaraðila hefur verið veitt.  Lögmenn hafi nú þegar lagt mikla vinnu í málið, bæði forsjármálið sjálft svo og svo kröfuna um bráðabirgðaforsjá.  Lögmaðurinn hefur ekki lagt fram neina tímaskýrslu vegna vinnu við þennan þátt málsins en fer fram á að málskostn­aður verði ákvarðaður samkvæmt mati dómsins.  Með vísan til 2. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála þykir ekki fært að ákveða málskostnað og gjafsóknar­laun sérstaklega í þessum þætti málsins.  Það verður því að bíða efnisdóms.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Sóknaraðili, K, skal til bráðabirgða, eða þangað til endanleg niðurstaða er fengin í forsjárdeilu aðila, fara með forsjá barns hennar og varnaraðila, M, A, sem er fæddur [...] 2000.

Barnið skal njóta umgengi við varnaraðila tvær helgar í röð af þremur og skal umgengnin standa frá kl. 18.00 á föstudegi til kl. 18.00 á sunnudegi.  Helgarumgengni barnsins við varnaraðila skal því hefjast sem hér segir: frá kl. 18.00 10. desember nk. til kl. 18.00 12. desember, frá kl. 18.00 17. desember til kl. 18.00 19. desember, og svo aftur aðra helgi þaðan í frá og standa þannig fram að því að endanleg niðurstaða er fengin í forsjárdeilu aðila.

Um jólin skal umgengni drengsins við varnaraðila hefjast kl. 14.00 25. desember og ljúka kl. 18.00 26. desember.  Ennfremur skal helgarumgengni drengsins við varnaraðila um áramót hefjast kl. 12.00 31. desember og ljúka kl. 12.00 2. janúar 2005.  Drengurinn nýtur helgarumgengni við varnaraðila frá kl. 18.00 7. janúar til 18.00 9. janúar og sóknaraðila helgina þar á eftir og upp frá því hefst þriggja vikna fyrirkomulagið á ný.  Umgengni drengsins við varnaraðila um páskahelgina skal hefjast kl. 18.00 á föstudaginn langa og skal standa til kl. 12.00 annan dag páska.

Drengurinn skal dvelja fimm vikur í sumarleyfi með varnaraðila.  Varnaraðili skal tilkynna sóknaraðila fyrir 1. maí nk. á hvaða tímabilum sumarsins hann kýs að njóta þeirrar umgengni.

Ákvörðun málskostnaðar og gjafsóknarkostnaðar bíður efnisdóms.