Hæstiréttur íslands
Mál nr. 209/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
|
|
Fimmtudaginn 11. apríl 2013. |
|
Nr. 209/2013.
|
Sérstakur saksóknari (Birgir Jónasson saksóknarfulltrúi) gegn X ehf. (Marteinn Másson hrl.) |
Kærumál. Haldlagning.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu sérstaks saksóknara um að X ehf. yrði gert að afhenda tilteknar fundargerðir stjórnar en fallist á kröfu um að sama félagi yrði gert að afhenda ráðningarsamninga tiltekinna starfsmanna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að krafa sérstaks saksóknara beindist að fundargerðum stjórnar X ehf. frá mars árið 2011 en félagið hefði þá ekki verið stofnað. Hvorki var fallist á með X ehf. að beina yrði kröfu um afhendingu ráðningarsamninga starfsmanna að starfsmönnunum sjálfum né að veita þeim færi á að tjá sig um kröfu sérstaks saksóknara.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2013, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila væri skylt að afhenda sóknaraðila afrit af ráðningarsamningum sem hefðu verið í gildi á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með mars 2011 hjá nánar tilgreindum starfsmönnum varnaraðila og þar með talin öll fylgiskjöl og viðbætur eða breytingar sem gerðar hefðu verið á viðkomandi ráðningarsamningum. Hins vegar var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda sóknaraðila fundargerðir varnaraðila frá mars 2011 eftir að stjórn félagsins hafi orðið kunnugt um sakamálarannsókn á hendur starfsmönnum fyrirtækisins eða afrit af sömu fundargerðum. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að honum verði afhentar framangreindar fundargerðir en að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur að öðru leyti.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 21. mars 2013. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi varðandi afhendingu framangreindra ráðningarsamninga en að úrskurðurinn verði staðfestur að öðru leyti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var af hálfu lögreglu og Samkeppniseftirlits gerð húsleit hjá X ehf., J ehf. og K ehf. í mars 2011 vegna gruns um að starfsmenn nefndra fyrirtækja hefðu brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005. Í lok ársins 2011 var nafni X ehf. breytt í L ehf. og rekstur félagsins seldur félaginu K ehf., sem samhliða breytti nafni sínu í X ehf. Síðastnefnda félagið er varnaraðili þessa máls. Með bréfi 7. febrúar 2013 óskaði sóknaraðili eftir að varnaraðili afhenti sér meðal annars formlegar fundargerðir stjórnar „X ehf.“ á tímabilinu frá janúar 2010 til og með mars 2011. Þá var einnig óskað eftir afriti af starfslýsingum nánar tilgreindra starfsmanna. Varnaraðili brást við beiðni sóknaraðila 23. febrúar 2013 og afhenti „staðfest afrit af fundargerðum stjórnar L ehf. frá byrjun árs 2010 fram til þess tíma er rannsókn málsins hófst þann 8. mars 2011.“ Varnaraðili neitaði að afhenda fundargerðir stjórnar vegna funda sem haldnir voru eftir þann tíma og afrit af skriflegum starfslýsingum starfsmanna. Fundargerðir þær sem varnaraðili afhenti bera hins vegar með sér að um sé að ræða stjórnarfundi í X ehf. án þess að kennitölu félagsins sé getið. Þá eru stjórnarmenn sem þar voru mættir og tilgreindir eru í fundargerðum aðrir en þeir sem sagðir eru í stjórnum varnaraðila og L ehf. samkvæmt fyrirliggjandi vottorðum fyrirtækjaskrár vegna fyrirtækjanna.
Í kjölfar þessa lagði sóknaraðili fram kröfu um haldlagningu gagnanna. Krafðist sóknaraðili þess meðal annars að varnaraðila yrði gert skylt að láta sóknaraðila í té afrit af formlegum fundargerðum „stjórnar félagsins“ í mars 2011. Í gögnum málsins er tilkynning um stofnun varnaraðila sem var móttekin af ríkisskattstjóra 12. desember 2011. Kemur þar fram að samþykktir félagsins séu frá 9. sama mánaðar. Samkvæmt þessu hafði varnaraðili ekki verið stofnaður í mars 2011. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2013.
Í máli þessu, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 15. mars 2013, krefst sérstakur saksóknari (sóknaraðili) þess að lagt verði fyrir X ehf., kt. [...], [...], [...], að láta sóknaraðila í té annars vegar afrit af formlegum fundargerðum stjórnar félagsins í mars 2011, eftir að sakamálarannsókn varð stjórn félagsins kunn, og hins vegar afrit af ráðningarsamningum, sem hafi verið í gildi á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með mars 2011, hjá eftirtöldum starfsmönnum X: B, kt. [...], [...], [...]; C, kt. [...], [...], [...]; D, kt. [...], [...], [...]; E, kt. [...], [...], [...]; F, kt. [...], [...], [...]; G, kt. [...], [...], [...]; H, kt. [...], [...], [...] og I, kt. [...], [...], [...], þar með talin öll fylgiskjöl og viðbætur eða breytingar sem gerðar voru á framangreindum ráðningarsamningum.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað.
Málavextir:
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans barst kæra Samkeppniseftirlitsins, dagsett 30. nóvember 2010, og viðbótarkærur, dagsettar 23. febrúar og 7. mars 2011, er varða meint brot starfsmanna X ehf., J ehf. og K ehf. á 41. gr. a., sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Efnahagsbrotadeildin gerði húsleitir hjá framangreindum fyrirtækjum í mars 2011, í samvinnu við Samkeppniseftirlitið, að fenginni heimild héraðsdóms. Mun hafa verið lagt hald á nokkurt magn gagna og þá hafi fjöldi starfmanna verið færður til skýrslutöku. Hin meinta refsiverða háttsemi mun felast í ólögmætum samkeppnishamlandi aðgerðum tiltekinna starfsmanna J og X á markaði fyrir grófvörur frá ársbyrjun 2010 til mars 2011. Með lögum nr. 82/2011, um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara nr. 135/2008, voru verkefni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans flutt yfir til sóknaraðila 1. september 2011. Fyrir liggur að X er nú rekin í nafni einkahlutafélagsins X, kt. [...], en það tók við rekstrinum af einkahlutafélaginu L, kt. [...], í árslok 2011.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að hann hafi með bréfi, dagsettu 7. febrúar sl., óskað eftir að varnaraðili afhenti sóknaraðila formlegar fundargerðir stjórnar félagsins frá janúar 2010 til og með mars 2011. Þá hafi hann óskaði eftir afritum af skriflegum starfslýsingum fyrir forstjóra og framkvæmdarstjóra félagsins sem í gildi hafi verið á tímabilinu 1. janúar 2010 til 14. mars 2011 sem og eftir starfslýsingum fyrir vörustjóra og starfsmann [...]deildar fyrirtækisins ásamt starfslýsingum starfsmanna þjónustuvers fyrir sama tímabil og upplýsingum um hugsanlegar breytingar sem gerðar hefðu verið á starfslýsingu. Lögmaður varnaraðila hafi sent sóknaraðila bréf þar sem fram kom að ekki hafi verið til skriflegar starfslýsingar fyrir þá starfsmenn sem beiðni sóknaraðila hafi tekið til. Með tölvubréfi 21. febrúar sl. hafi sóknaraðili því óskað eftir að afhentir yrðu ráðningasamningar fyrir þá starfsmenn sem fyrri beiðnin hafi lotið að og/eða önnur gögn sem hugsanlega gætu innihaldið starfslýsingar viðkomandi. Í svarbréfi lögmannsins, dagsettu 27. febrúar sl., hafi komið fram að varnaraðili samþykkti að afhenda staðfest afrit af fundargerðum stjórnar L ehf. frá byrjun árs 2010 fram til þess tíma er rannsókn málsins hafi hafist hinn 8. mars 2011 og hafi þær fylgt bréfinu. Hins vegar hafi ekki verið fallist á að afhenda síðari fundargerðir. Hvað varðar ósk um afrit af skriflegum starfslýsingum starfsmanna teldi varnaraðili sig ekki bæran til þess að afhenda slíkar upplýsingar.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili telur að fundargerðir stjórnar félagsins X ehf. kunni að hafa sönnunargildi fyrir rannsókn málsins. Vísar hann til þess að ótvíræð lagaskylda hvíli á lögreglu að afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um sé að ræða, sem ætla má að skipti máli, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Rannsókn máls þessa lúti að því að upplýsa um mögulega refsiábyrgð einstaklinga samkvæmt samkeppnislögum nr. 44/2005, sbr. 41. gr. a. Stjórn félagsins sé þar ekki undanskilin en á stjórn einkahlutafélags hvílir rík lagaskylda um að skipulag og starfsemi félags sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og ekki loku fyrir það skotið að stjórnarmenn geti borið refsiábyrgð sinni þeir ekki slíkum lögbundnum eftirlitsskyldum. Hvað umbeðna ráðningarsamninga varði liggi fyrir að umræddir starfsmenn, sem beiðni embættisins hafi tekið til, hafi réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins. Upplýsingar um starfslýsingar starfsmanna þessara kunni ótvírætt að hafa sönnunargildi í málinu, einkum varðandi ábyrgð og hlutverk hvers og eins í hinu meinta ólögmæta samráði. Af þeim sökum sé embætti sérstaks saksóknara brýnt að afla gagna um formlegt starfssvið þeirra innan fyrirtækisins, gagngert í því augnamiði að meta hver ábyrgð þeirra innan fyrirtækisins hafi verið.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 69. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 68. gr. sömu laga.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er, hvað varðar kröfu um afrit af fundargerðum stjórnar X, vísað til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að umræddar fundargerðir hafi nokkurt sönnunargildi fyrir rannsókn málsins. Þá telur varnaraðili að sóknaraðila beri að beina kröfu þessari að stjórn L ehf. Varnaraðili, sem hafi í árslok 2011 keypt rekstur X, sé ekki með þessar fundargerðir undir höndum. Gat varnaraðili þess jafnframt að stjórn L ehf. hafi heimilað varnaraðila að afhenda þær fundargerðir sem talið hafi verið skylt að afhenda í tengslum við rannsókn málsins.
Hvað varðar kröfu sóknaraðila um afhendingu á ráðningarsamningum vísar varnaraðili til þess að kröfu af þessu tagi verði að beina til þeirra einstaklinga sem sæti rannsókn. Varnaraðili geti ekki gætt hagsmuna einstaklinga með réttarstöðu grunaðs hvað þetta varði né telur hann sig geta haft áhrif á þennan þátt sakamálarannsóknarinnar með því að afhenda gögn án þess þeir aðilar sem sæti rannsókn og lögmenn þeirra geti gætt hagsmuna sinna og komið með andsvör er varði hugsanlega refsiábyrgð þeirra.
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili gagna frá varnaraðila vegna rannsókna máls er varðar meint samkeppnislagabrot starfsmanna X. Upphaf rannsóknarinnar má rekja til kæru Samkeppniseftirlitsins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans, hinn 30. nóvember 2010, á hendur starfsmönnum X og J en varnaraðili hefur nú tekið við rannsókn málsins. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði, í samstarfi við Samkeppniseftirlitið, húsleit hjá framangreindum fyrirtækjum í mars 2011. Var þá lagt hald á nokkurt magn gagna og fjöldi starfsmanna hafi verið færður til skýrslutöku. Af rannsóknargögnum verður hins vegar ráðið að lítið hafi áunnist í rannsókninni síðan. Sóknaraðili upplýsti að umbeðin gögn hefðu verið talin meðal haldlagðra gagna en þegar betur var að gáð reyndust þau ekki vera það .
X, sem stundar smásölu m.a. með byggingavörur, er nú rekin í nafni einkahlutafélagsins X, kt. [...], en það tók við rekstrinum af einkahlutafélaginu L, kt. [...], í árslok 2011. Þar sem fyrir liggur að fundagerðir þær sem sóknaraðili krefst afhendingar á eru vegna funda sem haldnir voru í hinu síðarnefnda félagi verður ekki talið að sóknaraðili geti beint kröfu sinni um afhendingu þeirra að hinu fyrrnefnda félagi, þ.e. varnaraðila. Er kröfu sóknaraðila, um að varnaraðila verði gert skylt að afhenda sóknaraðila umræddar fundargerðir, hafnað.
Varnaraðili hefur ekki mótmælt því að vera með umbeðna ráðningarsamninga starfsmanna X í fórum sínum. Hann telur hins vegar að sóknaraðila sé rétt að beina kröfu um afhendingu þeirra að starfmönnunum sjálfum. Að mati dómsins ber að líta til þess að umræddir starfsmenn eru undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot í störfum sínum í þágu X og hefur varnaraðili nú tekið við rekstri fyrirtækisins og þar með réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum. Verður því fallist á að varnaraðila sé, með vísan til 2. mgr. 69. gr.,sbr. 1. og 2. mgr. 68. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, skylt að afhenda sóknaraðila umrædda samninga, sem ætla má að hafi sönnunargildi í máli þessu, en ekki er unnt að fallast á það með varnaraðila að lagaskylda standi til þess gefa starfsmönnunum færi á tjá sig um beiðni sóknaraðila. Nær skylda varnaraðila jafnframt til að afhenda sóknaraðila öll fylgiskjöl og viðbætur eða breytingar sem gerðar kunna að hafa verið á framangreindum ráðningarsamningum.
Varnaraðili hefur gert kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila en með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir héraðsdómi.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Fallist er á kröfu sóknaraðila, sérstaks saksóknara, um að varnaraðila, X ehf., kt. [x], sé skylt að afhenda sóknaraðila afrit af ráðningarsamningum, sem hafi verið í gildi á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með mars 2011, hjá eftirtöldum starfsmönnum X: : B, kt. [...], [...], [...]; C, kt. [...], [...], [...]; D, kt. [...], [...], [...]; E, kt. [...], [...], [...]; F, kt. [...], [...], [...]; G, kt. [...], [...], [...]; H, kt. [...], [...], [...] og I, kt. [...], [...], [...], þar með talin öll fylgiskjöl og viðbætur eða breytingar sem gerðar voru á framangreindum ráðningarsamningum.
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert skylt að afhenda honum fundargerðir eða afrit af formlegum fundargerðum.
Málskostnaður fellur niður.