Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Fimmtudaginn 7. júlí 2011.

Nr. 420/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason hrl.)

gegn

X

(Þórður H. Sveinsson hdl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjaness 5. júlí 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2011, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara „að nálgunarbannið verði takmarkað þannig að það verði einungis bundið við persónu varnaraðila A en gildi ekki um B. Jafnframt að úrskurðurinn verði felldur úr gildi að því er varðar bann við því að kærandi veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma eða setji sig á annan hátt beint í samband við hana.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Þórður Heimis Sveinssonar, héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila, 188.250 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness laugardaginn 2. júlí 2011.

                Með bréfi dagsettu 24. júní sl. hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu farið fram á að X kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...] og B, kt. [...] að [...],[...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt verði lagt bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma þeirra, eða setji sig á annan hátt í beint samband við þau.

                Varnaraðili hefur krafist þess að kröfunni verði hafnað og til vara að nálgunarbannið verði ekki eins víðtækt og að því verði markaður skemmri tími en krafist er.

Málsatvik og málsástæður sóknaraðila.

                Í greinargerð sóknaraðila segir að X og A standi nú í skilnaði og að X sé fluttur út af heimilinu. Þau eigi saman tvær dætur fæddar árið [...] og árið [...]. A hafi nú tekið saman við annan mann, B, og sé hann með dvalarstað hjá A að [...]. Þau A og B hafa kært X til lögreglu fyrir áreiti, hótanir og eignaspjöll.

                Þann 17. maí síðastliðinn hafi A komið á lögreglustöð og kært X fyrir stöðugt áreiti sem hafi aukist síðustu vikur. Lýsti hún því hvernig X hefði stolið af henni farsíma er hann var að skila dætrum þeirra heim eftir pabbahelgi. Kvað hún hann þá hafa komið að sér með ógnandi hætti, hafa hrifsað af henni farsíma og ekið á brott með yngri dóttur þeirra. Lögregla hafi komið að þessu máli, sbr. frumskýrslu lögreglu í máli 007-2011-22865. Föstudaginn 13. maí hafi X komið óboðinn heim til hennar og veist að henni er hún hafi bannað honum að taka húslykla og ýtt henni út úr húsinu. Hann hafi svo hleypt henni aftur inn er yngri dóttir þeirra hafi farið að gráta en hann hafi þá gripið um nef A og ýtt henni. A kvaðst jafnframt hafa fengið mörg skilaboð í talhólf sitt frá X þar sem hann virðist í andlegu ójafnvægi. Þá hafi hann valdið henni og B miklu ónæði með ítrekuðum símhringingum og m.a. hótað þeim líkamsmeiðingum. Þá hafi hún lýst því hvernig X hafi hótað að [...]. Kvað hún hann ekki hafa látið verða af því ennþá en hún vissi að [...]. Kvaðst hún að lokum hafa orðið vör við að X fylgdist með henni bæði heima hjá henni og í vinnunni en hann skipti oft um bíla þar sem hann [...].

                A hafi komið aftur á lögreglustöð þann 7. júní sl. og kært X fyrir ónæði og eignaspjöll. Kvað hún hann hafa sett þjófavarnarkerfið í gang á heimili hennar laugardagskvöldið 4. júní sl. Um nóttina hafi hún svo vaknað upp við steinkast í rúðuna hjá sér svo rúðan skemmdist. Stuttu síðar hafi heimasíminn farið að hringja úr leyninúmeri. Af símagögnum sést að það var X sem hafi ítrekað hringt í heimasímann umrædda nótt. Í kjölfar þessa hafi X hringt áfram stanslaust og ekki látið segjast þó að hún hafi beðið hann um að hætta að hringja sbr. mál lögreglu nr. 007-2011-2286.

                Um hádegisbil þann 11. júní sl. hafi A og B óskað eftir aðstoð lögreglu vegna eignaspjalla. Lögregla hafi hitt þau bæði á vettvangi. Kváðu þau skemmdarverk hafa verið unnið á bifreið A um morguninn er stóð í bifreiðarstæði við [...] í [...]. Vinstri framhurð bifreiðarinnar hafi verið dælduð og einnig voru smádældir víðar á bifreiðinni. 

                Þau kváðust gruna X um að hafa verið valdur að tjóninu.  Kvað B X vera þarna í tíma og ótíma án þess að eiga neitt erindi. Hann væri sífellt að senda A smáskilaboð og hringja í hana. Hann væri sífellt að valda þeim ónæði og hafa í hótunum við þau. Stuttu eftir lögregla hafi farið af vettvangi hafi verið tilkynnt að X væri kominn þangað aftur.  Er lögregla kom að hafi X verið við húsið.  Lögregla hafi rætt við X á vettvangi og sagt honum að hafa hóf á heimsóknum sínum. Hafi X tekið vel í það og farið á brott. Um klukkustund eftir þetta hafi lögreglu aftur borist tilkynning um að X væri kominn og hefði í hótunum við A. Lögregla hafi farið á vettvang en þá var X farinn. A hafi lýst atburðum nánar þennan dag í skriflegri kæru sem fylgir málinu sbr. mál lögreglu nr. 007-2011-35710.

                Þann 12. júní sl. hafi A og B óskað eftir aðstoð lögreglu vegna eignaspjalla en þá hafði lími eða einhverju ámóta verið sprautað inn í læsingu á útidyrahurðinni að [...] þannig að ekki hafi verið hægt að koma lykli inn. Kváðust þau telja að X hafi verið þarna á ferð. C, nágranni A og B, hafi borið í símaskýrslu að annar nágranni að nafni D hafi séð X eiga við hurðina þegar lím var sett þar inn.

                Þann 16. júní sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] vegna eignaspjalla. Á vettvangi hafi lögregla hitt B en hægri framhurð bifreiðar hans hafði þá verið rispuð. Kvaðst B viss um að þarna hafi X verið á ferð en X hafi ætlað að koma og sækja hjól að [...] umrætt kvöld. X hafi hins vegar neitað því samtali við B að hafa verið á staðnum umrætt sinn og hafi sagt að hann hafi sent félaga sinn til að sækja hjólið. Ofangreind C, hafi borið í símaskýrslu að börn hennar hefðu sagt sér að þau hefðu séð X við húsið umrætt kvöld að sækja hjól sbr. mál lögreglu nr. 007-2011-36804.

                Þann 23. júní sl. hafi B komið á lögreglustöð og lagt fram kæru á hendur X fyrir eignaspjöll, áreiti og hótanir. Hafi hann þá formlega kært eignaspjöll skv. máli 007-2011-36804, sbr. að ofan, og hótanir um líkamsmeiðingar í hans garð. Kvað hann X hafa hótað því í símtali við A daginn áður að ganga í skrokk á honum á meðan A væri erlendis. Þá hafi hann lýst ónæði sem hafi hlotist af stanslausum hringingum X bæði í heimasíma og í farsíma hans auk ónæðis af tíðum smáskilaboðum.

                Þann 23. júní sl. hafi A komið á lögreglustöð og kært X fyrir áreiti. Kvað hún hann hafa elt sig í vinnuna um morguninn. Hafi hún lýst atburðum þannig að hún hafi hringt í X um morguninn þar sem hann hafi hringt á leikskólann og hafi hún rætt við hann á meðan hún ók til vinnu. Er hún hafi verið komin að vinnustað sínum að [...] hafi hún tekið eftir því í baksýnisspeglinum að X var kominn þangað á bifreið sem hún þekkti ekki. Kvaðst hún þá hafa skellt á X og ekið áfram út af bílastæðinu. Er hún hafi verið komin að ljósunum við [...] hafi hún ekið á beygjuakrein en X hafi ekið upp að hlið hennar á vinstri akrein. Kvað hún X þá hafa skrúfað niður rúðuna, kallað á hana og síðan öskrað á hana.  Kvaðst hún hafa orðið mjög hrædd en áður en græna ljósið hafi kviknað hafi hann kastað smámynt í bifreið hennar í fjórgang, tvisvar í lakkið og tvisvar mjög fast í rúðuna. Kvaðst hún hafa ekið hratt af stað niður í átt að [...]. Hún hafi síðan náð að beygja að einhverjum matsölustað, snúa við og fara aftur að vinnustaðnum. Kvaðst hún hafa náð að leggja bílnum og hlaupa inn en hafi þá áttað sig á því að hún hafi gleymt aðgangskortinu sínu.  A kvaðst þá hafa farið út í bíl til að sækja aðgangskortið og hafi X þá verið kominn að bílastæðinu aftur. A kvaðst þá hafa gripið kortið og hlaupið inn.  Kvaðst hún hafa heyrt hann kalla á eftir sér er hún hljóp inn. Kvað hún X hafa sent sér ítrekað tölvupósta yfir daginn og hringt stöðugt í vinnusíma hennar. Kvaðst hún vera búin að „blockera“ X í farsíma sínum svo hann geti ekki hringt í hana. Aðspurð út í hótanir X í garð B um líkamsmeiðingar kvað hún að X hefði sagt að um helgina yrði líkamsárás og að hún og B ættu bæði að hafa augu í hnakkanum sbr. mál lögreglu nr. 007-2011-38918.

                Að kvöldi föstudagsins 24. júní sl. hafði B samband við lögreglu og tilkynnti að X hafi komið á reiðhjóli og verið með bakpoka sem í var hafnaboltakylfa. Hafi hann verið með einhverjar hótanir um að koma aftur á eftir. B hafi tekið mynd af X er hann hafi komið í umrætt sinn og er hún meðal gagna málsins. Sést þar hvar hann er á reiðhjóli með hafnaboltakylfu í bakpoka sbr. bókun lögreglu í máli 007-2011-36804.

                X hafi játað í skýrslutöku 9. júní 2011 að hafa ýtt A út úr húsi hennar er þau rifust um lykla. Kvaðst hann svo hafa tekið létt utan um nefið á henni þegar hann opnaði fyrir henni aftur. Hafi hann játað að vera búinn að senda ábyggilega 100 smáskilaboð til hennar og hafi hann tekið fram að sum þeirra væru ljót og leiðinleg. Þá hafi X tekið fram að hann hafi alveg örugglega viðhaft einhverjar hótanir. Hafi hann jafnframt játað að hafa hótað A að senda nektarmyndir af henni á vinnustað hennar. Þá hafi hann játað að hafa sett þjófavarnarkerfið á að kvöldi 4. júní sl. til þess að stríða þeim A og B. Kvaðst hann hafa keyrt fram hjá húsinu daginn áður og sama dag og séð hvar bifreið B stóð fyrir utan húsið.  

                Ljóst sé af símagögnum sem liggi fyrir í málinu að X hafi hringt í þau A og B ítrekað og jafnvel að nóttu til. Farsímanúmer X eru [...] og [...] og heimasími hans [...]. Þá hafi hann sent A og B fjölda smáskilaboða í síma þeirra og A fjölda tölvupósta. Þá hafi hann sést á vettvangi þegar eignspjöll voru framin að [...].

                Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 1. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann séu uppfyllt. Í 2. mgr. 3. gr. laganna segir að við mat á því hvort fullnægt sé skilyrðum fyrir nálgunarbanni skuli meðal annars líta til framferðis þess sem krafist er að sæti því á fyrri stigum. Jafnframt skuli horfa til hagsmuna þess sem njóta ætti verndar af nálgunarbanni með tilliti til þeirra takmarkana sem bannið legði á athafnafrelsi þess sem krafist er að sæti því. Af því sem rakið hefur verið að ofan sé ljóst að X hefur verið mjög óútreiknanlegur í samskiptum sínum við A og B og valdið þeim miklu ónæði. Þá hafi hann hótað þeim líkamsmeiðingum og hafa þau bæði fulla ástæðu til að óttast hann eins og hann hefur hagað sér. Í ljósi framferðis hans gagnvart þeim nú nýverið telur lögreglustjóri rökstudda ástæðu til að ætla að X muni fremja afbrot gegn þeim eða raska friði hennar á annan hátt verði ekkert að gert. Verða hagsmunir þeirra að teljast vega þyngra en hagsmunir X.

                Vísað til framangreinds, hjálagðra gagna og 1. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann.

Málsástæður varnaraðila.

                Í máli verjanda kom fram að skilnaðarferli X og A hafi reynt mjög á varnaraðila einkum það að kona hans hafi verið honum ótrú sem verður að skilja sem svo að hann sé að réttlæta gerðir sínar gagnvart þeim A og B. Þá hefur hann sagt að sumar ávirðingar sem hann er sakaður séu ósannaðar og að lagaskilyrði fyrir nálgunarbanni séu ekki til staðar.

Niðurstaða.

                X játaði í skýrslutöku þann 9. júní 2011 að hafa ýtt A út úr húsi hennar er þau rifust um lykla. Kvaðst hann svo hafa tekið létt utan um nefið á henni þegar hann opnaði fyrir henni aftur. Játaði hann að vera búinn að senda ábyggilega 100 smáskilaboð til hennar og tók hann fram að sum þeirra væru ljót og leiðinleg. Játaði hann jafnframt að hafa hótað A að [...]. Þá játaði hann að hafa sett þjófavarnarkerfið á að kvöldi 4. júní sl. til þess að stríða þeim A og B. Í skýrslu sinni hjá lögreglu þann 9. júní sl. segir varnaraðili að SMS skeytin til A hafi allt verið tilhæfulausar hótanir og sendar í bræði og reiði og að hann sé búinn að senda ekki færri en hundrað skilaboð til A og sum þeirra fáránlega ljót og leiðinleg og eflaust hafi komið fram í þeim einhverjar hótanir.

                Varnaraðili lét hafa eftir sér í dóminum að hann muni ekki í framtíðinni raska ró A og B.

                Af því sem nú hefur verið rakið þykir dómara það yfir allan vafa hafið að varnaraðili hafi með ótilhlýðilegum hætti í það minnsta raskað friði þeirri A og B með háttalagi sínu sem að framan er lýst. Telur dómari að sýnt hafi verið fram á að skilyrði 1. gr. laga um nálgunarbann nr. 122/2008 séu uppfyllt. Þykir dómara í ljósi yfirlýsingar varnaraðila um að hann muni ekki í framtíðinni raska ró A og B megi fallast á að stytta gildistíma þess sem krafa er gerð um úr sex mániðum í þrjá. Verður varnaraðila gert að sæta nálgunarbanni eins og gert að greiða málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns eins og segir í úrskurðarorði.

                Sveinn Sigurkarlsson kvað upp þennan dóm.

ÚRSKURÐARORÐ

                Varnaraðili, X, kt. [...], skal frá uppkvaðningu úrskurðar þessa sæta nálgunarbanni í 3 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...] og B, kt. [...][...],[...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma þeirra, eða setji sig á annan hátt í beint samband við þau.

                Varnaraðili greiði þóknun verjanda síns, Þórðar H. Sveinssonar hdl.,  62.750 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.