Hæstiréttur íslands

Mál nr. 355/2006


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2007.

Nr. 355/2006.

Mahamed Sabr Mahamed Zobaidi

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Ferskum kjötvörum hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabótamál. Vinnuslys. Líkamstjón. Sératkvæði.

M varð fyrir því slysi að saga í fingur sér við þann starfa hjá F að saga frosið svínakjöt með kjötsög. Hlaut hann varanlega áverka á fingrunum. Höfðaði hann mál gegn F til greiðslu skaðabóta vegna slyssins og byggði m.a. á því að auka hefði mátt öryggi við sögunina með því að hafa blaðhlíf sagarinnar í lægri stöðu, þannig að hlífin hefði veitt meiri vörn gegn því að farið væri með hönd í sagarblaðið. Þá hefði öryggi verið meira ef notaður hefði verið hjólasleði sagarinnar og einnig hefði verið rétt að nota sérstakt áhald eða eftirreku við verkið. F taldi að þessi atriði skiptu ekki máli fyrir öryggi við notkun sagarinnar og að slysið mætti alfarið rekja til gáleysis M sjálfs. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að sjónarmið M um blaðhlífina og hjólasleðann fengju nokkra stoð í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins. Af þeim sökum var talið að F bæri hallann af skorti á sönnun um þýðingu þessara atriða fyrir öryggi starfsmanna. Þá var talið ósannað að M, sem ráðinn var sem ófaglærður starfsmaður og hafði starfað um skamma hríð hjá F, hefði fengið sérstakar leiðbeiningar um notkun blaðhlífarinnar og sleðans. Samkvæmt þessu var F látið bera skaðabótaábyrgð á tjóni M. M var þó látinn bera helming tjóns síns sjálfur þar sem slysið mátti að hluta rekja til þess að hann gætti ekki nægilega að sér við verkið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júlí 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.937.593 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.797.743 krónum frá 29. júlí 2003 til 7. desember 2004, en af 4.937.593 krónum frá þeim degi til 30. janúar 2005, en með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 814.423 krónum sem greiddar voru honum 1. febrúar 2005. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. fyrir Hæstarétt til réttargæslu en ekki hafa verið gerðar kröfur á hendur félaginu.

Eins og fram kemur í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysi í starfi sínu hjá stefnda 29. júlí 2003 er hann var að saga frosið svínakjöt með kjötsög. Í dóminum eru ítarlega rakin helstu atriði er koma fram í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins um slysið, orsök þess og fyrirmæli um úrbætur. Áfrýjandi telur að auka hefði mátt öryggi við sögunina með því að hafa blaðhlíf sagarinnar í lægri stöðu, þannig að hlífin hefði veitt meiri vörn gegn því að farið væri með hönd í sagarblaðið. Þá hefði öryggi verið meira ef notaður hefði verið hjólasleði sagarinnar og einnig hefði verið rétt að nota sérstakt áhald eða eftirreku við verkið. Stefndi hefur talið að þessi atriði skipti ekki máli fyrir öryggi við notkun sagarinnar, en slysið megi alfarið rekja til gáleysis áfrýjanda. Tiltekur hann sérstaklega að það hafi staðið áfrýjanda næst að stilla hæð blaðhlífarinnar en óvíst sé hvort lægri staða hennar hefði í raun afstýrt slysinu. Þá hafi áfrýjandi ekki notað hjólasleða sagarinnar og geti hann sjálfum sér um kennt, verði á annað borð talið að þetta hafi verið til þess fallið að minnka hættu á að hann færi með hönd í sagarblaðið.

Í málinu nýtur ekki upplýsinga um þýðingu þessara atriða fyrir öryggi starfsmanns sem við vélina vinnur. Sjónarmið áfrýjanda um framangreinda blaðhlíf og hjólasleða fá nokkra stoð í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins. Af þeim sökum verður talið að stefndi beri hallann af skorti á sönnun um þýðingu þessara atriða fyrir öryggi starfsmanna. Áfrýjandi var ráðinn sem ófaglærður starfsmaður og hafði starfað um skamma hríð hjá stefnda. Ósannað er að hann hafi fengið sérstakar leiðbeiningar um notkun blaðhlífarinnar og sleðans, en af hálfu stefnda er því raunar haldið fram að áfrýjandi hafi verið ráðinn sem vanur maður við sögun á kjöti, þótt ekki verði ráðið af gögnum málsins að svo hafi verið. Samkvæmt þessu verður stefndi látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda. Á hinn bóginn voru aðstæður þannig að ekki gat leynst áfrýjanda sú hætta sem fylgdi því að saga kjötið í vélsöginni á þann hátt sem raun ber vitni, þar sem sagarblaðið var opið við sögunina. Verður talið að slysið megi að hluta rekja til þess að hann hafi ekki gætt nægilega að sér við verkið. Verður áfrýjandi því látinn bera helming tjóns síns sjálfur.

Áfrýjandi setti fram kröfu sína með bréfi til stefnda 30. desember 2004, en matsgerð er dagsett 7. þess mánaðar. Óumdeilt er að 1. febrúar 2005 greiddi réttargæslustefndi áfrýjanda úr atvinnuslysatryggingu 814.423 krónur, eða 562.242 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns og 252.181 krónu vegna varanlegrar örorku.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 2.061.585 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

       Stefndi, Ferskar kjötvörur hf., greiði áfrýjanda, Mahamed Sabr Mahamed Zobaidi, 2.061.585 krónur með 4,5 % ársvöxtum af 898.872 krónum frá 29. júlí 2003 til 7. desember 2004, en af 2.468.797 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.061.585 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

         Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.


Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

Ég er sammála rökum meirihluta dómenda fyrir því að leggja skaðabótaábyrgð á stefnda og einnig að verkið hafi krafist aðgæslu af hálfu áfrýjanda. Óljóst er hvaða leiðbeiningar áfrýjandi fékk um það hvernig hann ætti að bera sig að við verkið og stillingu sagarinnar. Gögn málsins bera hins vegar ekki með sér að áfrýjandi hafi sýnt af sér sérstakt gáleysi eða brotið gegn fyrirmælum. Tel ég því að hann eigi aðeins að bera tjón sitt sjálfur að einum þriðja hluta.

 

 

 


 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2006.

             Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Mahamed Sabr Mahamed Zobaidi, kt. 230872-2799, Þverholti 5, Reykjavík, gegn Ferskum kjötvörum hf., kt. 691293-3199, Síðumúla 34, Reykjavík, og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu sem birt var 14. september 2005.

Dómkröfur stefnanda eru:

  1. Að stefndi, Ferskar kjötvörur hf. verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 4.937.593 kr. með 4,5% ársvöxtum af 1.797.743 kr. frá 29. júlí 2003 til 7. desember 2004, en af 4.937.593 kr. frá þeim degi til 30. janúar 2005, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 814.423 kr. sem greiddar voru stefnanda 1. febrúar 2005.
  2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
  3. Á hendur réttargæslustefnda eru ekki gerðar sérstakar kröfur í máli þessu.

Dómkröfur stefnda, Ferskra kjötvara hf., eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.  Til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.  Eru og engar kröfur gerðar á hendur honum.

Helstu málavextir eru að stefnandi varð fyrir slysi laust fyrir kl. 12:00, þriðjudaginn 29. júlí 2003, við vinnu sína hjá stefnda, Ferskum kjötvörum hf., að Síðumúla 34 í Reykjavík.  Lenti stefnandi með þrjá fingur hægri handar í kjötsög og hlaut áverka á vísifingur, löngutöng og baugfingur, tættan sáraáverk fyrst og fremst á löngutöng og opið brot á fjærkjúku löngutangar.

             Lögreglunni var tilkynnt um slysið og þegar lögreglumaðurinn, Guðmundur Gísli Ingólfsson, kom á vettvang var stefnandi kominn til baka af slysadeild Landspítalans í Fossvogi þar sem gert hafði verið að sárum hans.  Kveðst Guðmundur Gísli hafa rætt við stefnanda en stefnandi hafi ekki verið mælandi á íslensku en talað „einhverja ensku“.  Hafi stefnandi tjáð honum að hann hafi verið að vinna við kjötsög þegar hann sagaði í tvo fingur sína.  Meira hafi ekki verið eftir honum haft.

             Guðmundur Gísli hefur í skýrslu sinni eftir Ingabirni, framleiðslustjóra á vettvangi, að stefnandi hafi verið ráðinn sem vanur starfskraftur og hafi hann einnig hlotið undirstöðuþjálfun á sögina.  Þá segir í skýrslunni að sögin sé staðsett í austurenda vinnslusals á 2. hæð.  Þegar unnið sé við sögina sé baki snúið í aðra sem vinna í salnum.  Engin vitni hafi orðið að óhappinu.  Þá er upplýst að fyrirtækið tryggir hjá Vátryggingafélagi Íslands hf.

Gylfi Már Guðjónsson aðstoðarumdæmisstjóri Vinnueftirlits ríkisins kom sama dag kl. 13:10 til vettvangsrannsóknar.

Í umsögn sinni um vinnuslysið greinir Gylfi Már frá því að samkvæmt frásögn Bergvins Gíslasonar verkstjóra hafi stefnandi verið að saga frosinn svínshnakka niður í 2.0 cm þykkar sneiðar með sög af gerðinni Biro, model 3336, serial no 361259, er hafi verið keypt 1998.  Blaðhlíf sagarinnar hafi verið í efstu stöðu, eða 40,0 cm frá borði.  Hafi stefnandi ekki notað hjólsleða sagarinnar, heldur hafi hann haldið stykkinu að landinu aftan við blaðið og rennt því eftir borðinu.  Eitthvað hafi farið úrskeiðis við sögunina með þeim afleiðingum að langatöng og baugfingur hægri handar lentu á blaðinu.  Stefnandi hafi starfað innan við einn mánuð hjá stefnda og væri hann ófaglærður.

Orsök slyssins telur Gylfi Már helst mega rekja til þess að blaðhlífin var í efstu stöðu og hafi hún því ekki komið að gagni.  Einnig gæti verið að stefnandi hefði ekki verið búinn að fá nægilega þjálfun til þessara starfa.

Gylfi Már lætur þess getið að ekki hafi verið gerðar athugsemdir við búnað vélarinnar „en þar sem hún er frá árinu 1998 og ekki með CE merkingu var notkun hennar bönnuð, sbr. eftirlitsskýrslu nr. A 67771.  Í framhaldi af því var gert samkomulag við innflytjanda sagarinnar, GK heildverslun, um að hann útvegaði samræmingar-yfirlýsingu frá framleiðanda hennar innan tveggja mánaða og var banninu aflétt þar til þau mál skýrðust, sbr. eftirlitsskýrslu nr. A 67772“.  Einnig hafi fyrirmæli verið gefin um að yfirfara vinnureglur við kjötvinnsluvélar og að brýna fyrir starfsfólki að stilla hlífabúnað í samræmi við verkefni.

Með bréfi 14. júlí 2003 fóru Vátryggingafélag Íslands hf. og Hilmar Ingimundarson hrl., lögmaður stefnanda, þess á leit við Atla Þór Ólason, dr. med., sérfræðing í bæklunarskurðlækningum, og Ragnar Jónsson, lækni, sérfræðing í bæklunarskurðlækningum, á láta í té skriflegt og rökstutt álit um afleiðingar slyssins fyrir stefnanda og tæki matið til þeirra bótaþátta sem tilgreindir eru í lögum nr. 50/1993.  Læknarnir tóku að sér matið og er matsgerð þeirra dagsett 7. desember 2004.

Í matsgerðinni segir undir fyrirsögninni Nám og starf:

„Mahamed er fæddur í Kuwait og lauk framhaldsskóla.  Hann starfaði síðan sem verkamaður eða leigubílstjóri.  Kom til Íslands á árinu 2000 og dvaldi sem ferðamaður í sjö mánuði.  Kom aftur í desember 2002 til lengri dvalar.  Þann 14.4.2003 var gerð aðgerð við brjósklosi í mjóbaki.

Í byrjun júlímánaðar 2003 hóf hann störf í fyrirtækinu Ferskar kjötvörur, í fullu starfi.  Hann var þar við störf er hann lenti í vinnuslysinu 20.7.2003.  Slasaði var óvinnufær frá slysdegi en lá ekki inni á spítala.  Hann kveðst í nóvember 2003 hafa byrjað að mæta á sinn fyrri vinnustað, óreglulega og ekki alla daga.  Vann örfáa tíma á dag við mjög létt verkefni.  Í janúar 2004 var honum sagt upp vinnu.  Hann var síðan óvinnufær en þann 6.2.2004 við eftirlit á Landspítala var talið rétt að reyna á vinnufærni hans og skrifa vottorð um vinnufærni frá þeim tíma.  Slasaði fór ekki að vinna á þessum tíma.  Hann kveðst hafa farið í tveggja vikna ferðalag til Jórdaníu en komið síðan aftur til Íslands.  Við eftirlit 13.4.2004 er hann mjög viðkvæmur í fingrinum og við eftirlit 7.6.2004 er ritað vottorð um að örorka verði metin hjá Tryggingastofnun ríkisins.  Við eftirlit 26.7.2004 er hnúðmyndun undir húð sem talin var geta stafað af naglrest í fingrinum.  Framangreind atriði staðfesta enn fremur að slasaði hafi verið óvinnufær á þessum tíma eins og hann segir sjálfur.  Slasaði kveðst í september 2004 hafa unnið í átján daga hjá fyrirtækinu Hreinsibílar en gefist þá upp.  Hann var aftur óvinnufær frá 23.9.2004 til 1.11.2004, samkvæmt læknisvottorði Jóhanns Róbertssonar dag. 22.11.2004.  Slasaði kveðst þann 17.11.2004 hafa farið að vinna sem verkamaður á minkabúi við að verk skinn frá kl 8:00 – 16:00 á daginn.“

Í matsgerðinni segir undir fyrirsögninni Samantekt og álit:

„Fyrir slysið 29.7.2003 var slasaði almennt heilsuhraustur.  Hann hafði verið skorinn upp við brjósklosi, í mjóbaki, í apríl 3003 og jafnað sig að miklu leyti.

Við slysið 29.7.2003 fór hægri hendi í kjötsög.  Hann hlaut smásár á fingurgóma hægri vísifingurs og baugfingurs sem gert var að með umbúðum og ekki talin þörf á að sauma.  Sárin greru eðlilega og hafa ekki valdið neinum vandkvæðum síðan.  Hreyfiferlar í fingrunum eru eðlilegir.

Áverki á hægri löngutöng var skurður í fingurgómi og sköddun á beintrjónu endakjúku en það atriði kom ekki í ljós fyrr en síðar.  Drep kom í fingurgóm og sár.  Eftir að sýking hafði verið upprætt var endakjúka stytt um helming í aðgerð 19.12.2003.  Þá voru nögl og naglrót fjarlægð.  Naglrest sem óx fram var fjarlægð 23.9.2004.

Varanlegur vefjaskaði eftir vinnuslysið 29.7.2003 er því stúfhögg um miðja endakjúku hægri löngutangar með vægri hreyfiskerðingu í endakjúku fingursins og gróin smásár á fingurgómi vísifingurs og baugfingurs án doða eða eymsla.  Varnalegur miski og hefðbundin, læknisfræðileg örorka eru metin 5%.

Við mat á varanlegri örorku er litið til þess að slasaði er ómenntaður en hefur starfsreynslu sem leigubílstjóri og verkamaður.  Hann hafði nýhafið störf á Íslandi við kjötskurð er hann lenti í slysinu.

Ef slasaði hefði ekki lent í slysinu má gera ráð fyrir að hann hefði getað sinnt almennum störfum sem ekki kröfðust sérstakrar tungumálakunnáttu.  Starfsmöguleikar hans væru engu að síður þrengri en gengur og gerist hjá þeim sem geta beitt íslensku við störf sín.

Eftir slysið hefur slasaði haft óþægindi í hægri löngutöng en hann er rétthendur.  Geta hans til að vinna almenn störf sem reyna á höndina er skert bæði vegna hnjasks á fingurstúfinn og kuldaóþols.  Hann hefur nýhafið vinnu við létt verkamannastörf í minkabúi.  Er fram liða stundir gera matsmenn ráð fyrir að vinnugeta slasaða sé skert vegna óþæginda í fingrinum sem minnkar getu hans til átakastarfa og vinnu í kulda og að honum bjóðist ekki ýmis léttari störf þar sem krafist er kunnáttu í íslensku.  Því er varanleg örorka metin 15%.“

Niðurstaða matsins er þessi:

                1.                Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr:

                                            Frá 29.7.2003 til nóvember 2003                100% (skv. slasaða).

                                            Frá nóvember 2003 til janúar 2004                50% (skv. slasaða).

                                            -------

                                            Frá 29.7.2003 til 6.2.2004  100% (skv. vottorði).

                                            Frá 7.2.2004 til september 2004                100% (skv. slasaða).

                                            18 dagar í september 2004                0% (skv. slasaða).

                                            Frá 23.9.2004 til 1.11.2004                100% (skv. vottorði).

                2.                Þjáningabætur skv. 3. grein:

                            a)                Rúmliggjandi:  Ekkert.

                            c)         Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi: Sama og tímabundið atvinnutjón.

                3. Stöðugleikatímapunktur:  1.11.2004.

                4. Varanlegur miski skv. 4. grein:  5%.

                5. Varanleg örorka skv. 5. grein:  15%

                6. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka:  5%.

             Með bréfi, dags. 30. desember 2004 gerði stefnandi kröfu á hendur réttargæslustefnda á grundvelli matsgerðar læknanna.  Stefnandi sundurliðaði skaðabóta-kröfu sína þannig:

                    1.                    Tímabundið atvinnutjón,

                                        þ.e. frá 1/2 2004-1/11 2004                    1.056.493 kr.

                    2.                    Þjáningabætur 455 dagar á 1000 kr./pr dag                    455.000 kr.

                    3.                    Varanlegur miski, 5% af 5.725.000 kr.                    286.250 kr.

                    4.                    Varanleg örorka, 15% miðað við árslaun

                                        1.688.500 kr.                    3.139.850 kr.

                                                    Samtals                    4.937.593 kr.

             Af hálfu stefnanda er tímabundið tjón hans miðað við mánaðarlaun að fjárhæð 116.484 kr.  Hann hafi fengið greitt frá vinnuveitanda sínum laun til 1. febrúar 2004 og taki því krafa hans til launa frá 1. febrúar 2004 til 1. nóvember 2004, sem sundurliðist þannig:

                    1.                    Laun febr. ´04 – sept ´04 eða í

                                        7 mán. 116.482 kr. pr. mán.                    815.388 kr.

                    2.                    Laun frá 23. sept ´04 til 1. nóv. ‘04

                                        eða í 2 mán. og eina viku                    252.089 kr.

                    3.                    Orlof 10,17%                    109.577 kr.

                    4.                    6% vegna iðgjalds atvinnurekanda í

                                        lífeyrissjóð            64.649 kr.

                                                    1.251.703 kr.

                    Til frádráttar komi:

                    1.                    Úr sjúkrasjóði Eflingar      49.278 kr.

                    2.                    Slysadagpen. frá TR                    76.998 kr.

                    3.                    Greiðsla frá Úthlutunar-

                                        nefnd atvinnuleysisbóta                    68.934 kr.                    195.210 kr.

                                                                        1.056.493 kr.

             Þá er greint frá því að Vátryggingafélag Íslands hafi greitt stefnanda samtals 814.423 kr. að frádreginni staðgreiðslu skatta að fjárhæð 183.812 kr. hinn 1. febrúar 2005.  Hafi þar verið um að ræða greiðslu úr slysatryggingu launþega.

             Með tölvubréfi 25. febrúar 2005 til lögmanns stefnanda hafnaði vátrygginga-félagið bótaskyldu og taldi að tjónið hefði verið að fullu gert upp við stefnanda með greiðslu úr slysatryggingu launþega sem Ferskar kjötvörur hf. voru með hjá vátryggingafélaginu.

Stefnandi byggir á því að um bótaskylt slys hafi verið að ræða á grundvelli hinnar almennu skaðabótareglu.  Nýbyrjaður í starfi hjá stefnda, Ferskum kjötvörum hf., hafi hann ekki fengið leiðbeiningar um það með hvaða hætti hann ætti að standa að því verki, sem hér um ræðir.  Verkstjórn hafi að þessu leyti verið ófullnægjandi.

Stefndi byggir á því að ósannað sé að stefndi eða starfsmenn hans eigi sök á slysi stefnanda.  Lögreglan og vinnueftirlitið hafi strax verið kvödd á vettvang og hvíli sönnunarbyrði um ætlaða sök stefnda og orsakatengsl óskipt á stefnanda.  Ekki verði annað ráðið af fyrirliggjandi málsgögnum, en slysið sé alfarið að rekja til gáleysis stefnanda sjálfs, en ekki til stefnda eða annarra starfsmanna hans.

             Af hálfu stefnda er því sérstaklega mótmælt sem röngu og ósönnu, að stefnandi hafi ekki fengið neinar eða ófullnægjandi leiðbeiningar um, hvernig vinna ætti verkið og að slysið sé að rekja til þess.  Stefnandi hafi þvert á móti fengið leiðbeiningar og þjálfun á kjötsögina eins og fram komi í lögregluskýrslu.  Þá séu þau ummæli vinnueftirlitsins um orsök slyssins, að verið geti „að slasaði hafi ekki verið búinn að fá nægilega þjálfun til þessara starfa“ ósönnuð og órökstudd tilgáta er ekki verði byggt á.  Verkið, sem stefnandi var að vinna með söginni, hafi verið sáraeinfalt og ekki þarfnast sérstakrar leiðbeiningar eða verkstjórnar.  Þá hafi vinnueftirlitið ekki gert athugsemdir við búnað vélarinnar.  Í umsögn vinnueftirlitsins segi hins vegar að orsakir slyssins „virðist helst mega rekja til þess, að blaðhlífin var í efstu stöðu og kom því ekki að gagni“.  Hafi það valdið slysinu geti stefnandi ekki öðrum um kennt en sjálfum sér, því honum hafi staðið næst að stilla hæð blaðhlífarinnar.  Hvort lægri staða blaðhlífarinnar hefði í raun afstýrt slysinu sé hins vegar óvíst og því ekki unnt að leggja það til grundvallar.  Þá sé til þess að líta að stefnandi notaði ekki hjólasleða sagarinnar, en hefði hann gert það hefði verið minni hætta á að hann færi með hönd í sagarblaðið.  Loks sé augljóst að ekkert slys hefði orðið ef stefnandi hefði gætt þeirrar sjálfsögðu varúðarskyldu að fara ekki með hendurnar að sagarblaðinu.  Bersýnilegt sé að slysið verði rakið til gáleysis stefnanda sjálfs.  Hann hafi verið þrítugur að aldri og búinn að vinna við kjötsögina í mánuð, en hættan af sagarblaðinu augljós hverju barni.

             Verði ekki á sýknukröfu fallist byggir stefndi varakröfu á því að skipta beri sök í málinu og leggja meginhluta sakar á slysinu á stefnanda sjálfan.  Þá beri að lækka stefnukröfur um greiðslur að fjárhæð 814.423 kr. úr atvinnuslysatryggingu hjá réttargæslustefnda, þar af kröfulið stefnanda varðandi tímabundið tjón um 562.242 kr. og kröfulið um varanlega örorku um 252.181 kr.

             Kröfu stefnanda um dráttarvexti er andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hafi byrjað að starfa hjá stefnda, Ferskum kjötvörum hf., 21. eða 22. [júní 2003].  Hafi verið lagt fyrir hann að vinna við að pakka inn vörum.  Hann kvaðst ekki vera lærður kjötiðnaðarmaður og ekki hafa unnið við kjötiðnaðarstörf áður.  Hann kvaðst hafa verið settur til starfa við að saga kjöt þegar pökkunarvélin bilaði.  Ingibjörn verkstjóri hefði falið honum þetta verkefni.

             Stefnandi kvaðst hafa fengið takmarkaðar leiðbeiningar um hvernig hann ætti að standa að því að saga niður kjöt með vélsöginni sem honum var falið að nota við verkið.  Honum hafi ekki verið leiðbeint um not á blaðhlíf vélarinnar, honum hafi einungis verið sagt hvernig stilla bæri sögina til að hæfilegir bitar yrðu við sögun á kjötstykkjum.

             Stefnandi kvaðst hafa ráðið sig í vinnu hjá Ferskum kjötvörum hf. samkvæmt auglýsingu frá félaginu eftir verkamönnum.  Við ráðningu hafi honum verið falið að vinna í pökkunardeild hjá félaginu.  Ekki hafi verið spurt að því hvaða reynslu hann hefði.  Hann sagði að kona sína hafi farið með honum er hann fór til viðtals við fyrirsvarsmann félagsins sökum þess að hann hafi ekki verið fær um að rata á vinnustaðinn í fyrsta sinn án leiðsagnar.

             Aðspurður kvað stefnandi Ingabjörn hafa sagt honum hvernig kveikja bæri á vélsöginni og hefði hann sýnt, hvernig bera ætti sig að við sögina, með því að saga tvö stykki.

Aðspurður kvaðst stefnandi ekki geta skýrt hvers vegna hann varð fyrir sagarblaðinu að öðru leyti en því að honum hafi verið óhægt um vik.  Hafi hann þurft að nota báðar hendur til að koma kjötstykkinu að sagarblaðinu.

             Aðspurður kvaðst hann hafa verkreynslu sem bílstjóri og sölumaður.

Ólöf Halldórsdóttir, eiginkona stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að ástæðan fyrir því að hún fylgdi stefnanda á vinnustað hafi verið sú að hann hafi ekki þekkt til staðhátta.  Kvaðst hún hafa hitt Ingabjörn þar en ekki verið í fyrirsvari fyrir stefnanda.

Ingibjörn Sigurbergsson, framleiðslustjóri hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að þegar stefnandi var ráðinn í vinnu hafi hann verið í sumarfríi.  Hann hafi komið til vinnu mánudaginn 28. júlí [2003].  Hann kvaðst þó hafa komið á vinnustaðinn föstudaginn 25. júlí og hafi Leifur Þórsson framkvæmdastjóri sagt honum að búið væri að ráða öflugan mann inn í vinnsluna, vanan mann í framleiðsluna hjá félaginu, mann, sem hefði unnið erlendis við svona störf.  Ekki kvaðst Ingibjörn vita um ráðningu stefnanda þar sem hann hafi verið í sumarfríi þegar stefnandi var ráðinn.

             Er nýir starfsmenn hefja störf hjá félaginu, sagði Ingibjörn, að hann tæki á móti þeim.  Gengið væri með þeim í gegnum vinnsluna, þeim kynnt húsakynnin, bent væri á alla hluti sem eru hættulegir og síðan væri viðkomandi látinn í ákveðin verkefni og leiðbeint hvað hann eigi að gera.  Ef um hættuleg tæki er að ræða, sem unnið er með, væri þeim sýnd öll öryggisatriði.

             Aðspurður kvað Ingibjörn stefnanda ekki hafa verið að vinna í fyrsta skipti við sögina, þegar hann varð fyrir slysinu, hann hafi verið búinn að starfa við hana í viku.

             Ingibjörn sagði að þetta væri eina slysið sem orðið hefði við sög hjá félaginu á starfstíma hans hjá félaginu er hófst í maí 2002.

             Ingibjörn sagði að það væri rétt eftir honum haft sem fram komi lögregluskýrslu frá 29. júlí 2003, dskj. 3, þar sem segir að stefnandi hafi verið ráðinn sem vanur starfskraftur og hefði hann einnig hlotið undirstöðuþjálfun á sögina.

             Ingibjörn sagði að Bergvin Gíslason verkstjóri hafi leiðbeint stefnanda um verklag við sögina.

             Ingibjörn sagði að blaðhlíf sagarinnar í efstu stöðu hafi ekkert haft að segja um orsök slysins, um ranga ályktun hjá Vinnueftirliti ríkisins væri að ræða.

Leifur Þórsson, framkvæmdastjóri hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að kona stefnanda hafi haft samband við félagið og leitað eftir starfi fyrir hann.  Hafi hún sagt að hann væri vanur við vinnu í kjötvinnslu vegna þess að faðir hans hefði rekið kjötbúð í heimalandi hans, þar sem hann hefði unnið a.m.k. í tvö ár.  Þetta hafi komið félaginu vel og hafi stefnandi verið ráðinn af þessum ástæðum í starfið, en það hafi verið að saga niður kjöt.  Hafi hann starfað við það í fimm eða sex daga þegar slysið varð.

             Almennt, sagði Leifur, að starfsmenn væru þjálfaðir og upplýstir um búnað vinnustaðarins með þeim hætti að framleiðslustjóri tæki á móti starfsfólki og færi hring með það um verksmiðjuna og skýrði tæki og búnað, og sýndi hvar helstu hlutir væru o.s.frv.  Eftir þessa kynningu tæki við verkstjóri, sem væri yfir þeirri deild sem viðkomandi kæmi til að starfa í.  Verkstjórinn sýni viðkomandi hvað hann á að gera eða hann láti annan vanan mann fari í það að vera með nýliðanum í þrjá eða fjóra klukkutíma við störfin.  Ef menn væru á hinn bóginn ráðnir sem vanir starfsmenn þá sæju forráðamenn félagsins mjög fljótt, hvernig menn bæru sig að við hlutina, og mætu þá hvað langan tíma þyrfti til að þjálfa þá.  Í tilviki stefnanda hafi fljótt verið séð að hann kunni til verka í þessu.

             Leifur sagði að stefnandi hafi verið settur til starfa í svokallaðri pökkunardeild.  Starfsmenn þar starfi bæði við pökkun, skurð eða sneiðingu á kjöti, sögun og „marineringu“ o.fl.

             Leifur sagði að ekkert hefði reynst vera ábótavant við vélsögina sem hér um ræðir.  Hann sagði að engin önnur slys hafi orðið við notkun á þessari sög.

             Leifur kvaðst hafa rætt við stefnanda, er hann var ráðinn, með aðstoð konu stefnanda.  Konan hafi verið milligöngumaður og túlkað fyrir hann.  Leifur sagði að ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda, hann hafi verið ráðinn sem ófaglærður starfsmaður.

             Leifur sagði að það sem vinnueftirlitið kallar í umsögn sinni um vinnuslysið „blaðhlíf“ sé ekki hlífðarbúnaður heldur stuðningur við sagarblaðið og hafi ekkert með hlíf að gera.

Bergvin Gíslason, verkstjóri hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að ástæða þess að stefnandi var ráðinn til vinnu hjá stefnda hafi verið sú að þörf hafi verið á fleiri starfsmönnum fyrir „grillvertíð“ sumarsins.  Hann kvaðst ekki muna hvort auglýst hafi verið eftir fólki.  Hann kvaðst hafa verið á staðnum þegar stefnandi kom fyrst til vinnu þar.  Taldi hann að Ingibjörn hefði sýnt honum húsakynnin en síðan hafi hann tekið við stefnanda og leiðbeint honum um þau verkefni sem honum voru ætluð.

Bergvin kvaðst ekki muna hvort hann hafi sjálfur sýnt stefnanda hvernig nota ætti umrædda sög eða hvort annar starfsmaður stefnda hafi verið fenginn til þess, en enginn sé látinn vinna með verkfæri sem honum hefur ekki verið sýnt hvernig á að handleika.

Þá daga sem stefnandi starfaði hjá stefnda, kvað Bergvin hann aðallega hafa verið að vinna með vélsögina.  Vantað hafi mann til að saga grillkjöt.

             Bergvin sagði að Ingibjörn hefði sagt honum að með stefnanda væri vanur maður að hefja störf hjá stefnda.  Hann sagði að afköst stefnanda hefðu verið slík að hann hafi verið ánægður með stefnanda.

             Bergvin sagði að halda yrði með báðum höndum um kjötstykkið, þegar sagað væri frosið kjöt, eins og um var að ræða í því tilviki sem hér um ræðir.

             Bergvin sagði að nýliðar fengju alltaf vanan starfsmann hjá stefnda til að leiðbeina sér við verkin í byrjun.

             Bergvin kvaðst muna eftir að stefnandi hefði verið ráðinn í pakkningu og síðan hafi það gerst að pakkningarvélin bilaði og þá hefði hann, tveimur til þremur dögum áður en slysið varð, verið settur til að saga þetta frosna kjöt.  Bergvin sagði að stefnandi hefði verið ráðinn í pökkunardeildina.

             Bergvin sagði að engu máli hefði skipt þó að svokölluð blaðhlíf sagarinnar hafi verið í efstu stöðu, enda hafi stefnandi sagað í fingur sína við neðstu stöðu blaðsins niður við bitann sem hann var að saga.

Ályktunarorð:  Slysið varð á þriðjudegi 29. júlí 2003.  Stefnandi var þá búinn að saga frosið kjöt niður í sneiðar fyrir „grill“ matreiðslu í að minnsta kosti tvo vinnudaga með umræddri kjötvélsög.  Óumdeilt er að kjötvélsögin og búnaður hennar voru í lagi.  Stefnandi stjórnaði einn vélsöginni og tók sjálfur ákvörðun um með hvaða hætti hann notaði verkfærið til að sinna því verkefni sem honum hafði verið falið.  Ekki verður talið að um flókið verk hafi verið að ræða - að stefnandi geti borið við fákunnáttu - en hættan er alltaf og ófrávíkjanlega sú fyrir þann, sem notar vélsög, að koma við sagarblaðið, þegar vélsögin er í gangi.  Hugsanlega óvandaðar leiðbeiningar um verklag og meðhöndlun vélsagarinnar geta því ekki afsakað þau mistök stefnanda að færa hönd sína í vélsagarblaðið þegar vélin var í gangi.  Ljóst þykir að skortur á eðlilegri varfærni stefnanda við vinnu sína er orsök slyssins.

             Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

             Stefnandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði segir.

             Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

             Stefndi, Ferskar kjötvörur hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Mahamed Sabr Mahamed Zobaidi.

             Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.