Hæstiréttur íslands

Mál nr. 115/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Sératkvæði


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. mars 2006.

Nr. 115/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Haukur Örn Birgisson hdl.)

 

Kærumál. Farbann. Sératkvæði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að skilyrði væru til þess að X yrði bönnuð för úr landi um nánar tilgreindan tíma á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jóni Steinari Gunnlaugssyni. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2006, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 24. mars 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur haldið því fram að hún eigi hluta þeirra peninga, sem hald var lagt á við húsleit á heimili hennar og eiginmanns hennar, en hann sætir nú gæsluvarðhaldi vegna gruns um stórfellt fíkniefnalagabrot. Leikur rökstuddur grunur á að féð sé tengt fíkniefnasölu. Framburður varnaraðila og eiginmanns hennar er ekki í samræmi um það hvaðan féð sé fengið. Bæði hafa sagt að hluti þess sé afrakstur sölu húseignar í Litháen, en þeim ber ekki saman um hver sú húseign er. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt rafbréf 27. febrúar 2006 frá Interpol í Litháen. Kemur þar meðal annars fram að ekki finnist það götuheiti, sem varnaraðili hefur sagt að umrætt hús stæði við í þeim bæ sem hún nefndi. Þá hafi götuheiti og húsnúmer sem eiginmaður hennar gaf upp heldur ekki fundist. Þegar framangreint er virt og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er á það fallist með héraðsdómara að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í áðurnefndu fíkniefnalagbroti og að uppfyllt séu skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna henni för úr landi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Samkvæmt gögnum málsins virðist grunur sóknaraðila um aðild varnaraðila að fíkniefnainnflutningi þeim, sem eiginmaður hennar er grunaður um, byggjast á því, að á heimili þeirra hafi við húsleit fundist peningar, sem varnaraðili hefur sagst eiga að hluta og gefið skýringar á sem þyki ótrúverðugar. Telur sóknaraðili að um sé að ræða fé, sem tengist innflutningi efnanna. Þá hafa bæði varnaraðili og eiginmaður hennar borið að þau hafi eignast peninga við sölu á húsi í Litháen fyrir tveimur til þremur árum. Greindi varnaraðili við yfirheyrslu hjá lögreglu frá staðsetningu hússins. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt rafbréf 27. febrúar 2006, sem sagt er vera frá Interpol í Litháen, þar sem meðal annars kemur fram, að ekki finnist það götuheiti, sem varnaraðili gaf upp í þeim bæ sem hún nefndi. Það götuheiti sé hins vegar til í nokkrum nálægum þorpum. Á hinn bóginn sé til gata með svipuðu nafni í umræddum bæ. Götuheiti og húsnúmer sem eiginmaðurinn gaf upp hafi ekki fundist.

Ljóst er að rökstuddur grunur um alvarleg fíkniefnabrot beinist að eiginmanni varnaraðila. Upplýsingar um peninga á heimili hjónanna og misvísandi svör um staðsetningu húseignar, sem þau segjast hafa selt í Litháen, verða ekki talin fella rökstuddan grun á varnaraðila um að hún eigi hlutdeild í þeim brotum. Miðað við gögn málsins getur rökstuddur grunur ekki talist beinast að henni um annað og meira en að hafa gefið röng svör um atriði sem tengjast ætlaðri refsiverðri háttsemi eiginmannsins. Um þau atriði ber hún ekki vitnaskyldu, sbr. 50. og 51. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þó að henni beri skylda til að skýra satt frá því sem hún kýs að veita svör um. Rannsókn lögreglu beinist ekki að slíku ætluðu broti hennar og krafa sóknaraðila er ekki á því reist.

Með vísan til þessa tel ég að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.                       

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt.], litháískum ríkisborgara, verði bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 24. mars 2006, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglu­stjórans í Reykjavík rannsaki meint fíkniefnabrot A, litháísks ríkis­borgara, sem varði innflutning á fíkniefnum til landsins. A hafi komið til landsins þann 4. þ.m. með flugi frá Kaupmannahöfn með mikið magn amfetamíns í fórum sínum. Amfeta­­mínið hafi verið í vökvaformi og hafði verið komið fyrir í tveimur léttvíns­flöskum. B, sæti einnig rannsókn vegna málsins en hann sé grunaður um að hafa átt að móttaka fíkniefnin frá A hér á landi. Þeir báðir séu einnig grunaður um fíkniefnainnflutning með sama hætti í lok desember sl.  A og B sæti nú báðir gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna skv. úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. þ.m. Kærða sé eiginkona B en hún njóti einnig réttarstöðu sakbornings.

Lögregla hafi gert húsleit á heimili B og kærðu þann 13. þ.m., sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. 34/2006.  Markmið húsleitarinnar  hafi verið að leggja hald á fíkniefni og sönnunargögn í þágu rannsóknar málsins. Við húsleitina hafi verið lagt hald á tvær meintar MDMA töflur, auk þess sem lagt hafi verið hald á ýmsa minnismiða með upplýsingum um fjárhæðir og mikið af peningum í íslenskum krónum, evrum og dollurum.  Nafn kærðu komi fram á umræddum minnismiðum auk þess sem hún segist eiga hina haldlögðu peninga. Hinir haldlögðu peningar séu taldir tengjast hinni meintu brotastarfsemi en rannsókn lögreglu taki mið af því að athuga mögulegan uppruna þeirra. Þann 16. þ.m. hafi A gefið framburð þar sem hann lýsti samskiptum við Litháa hér á landi og ferð þeirra beggja á veitingahús tiltekinn dag auk þess sem hann hafi gefið lýsingu á heimili umrædds manns og lýsingu á konu hans og syni. Þann 23. þ.m. hafi A gengist undir myndsakbendingu þar sem hann hafi bent á B og kærðu sem það fólk sem hann hafi hitt það skipti sem að framan greini. Lögregla hafi undir höndum upplýsingar frá Mastercard sem staðfesti að B hafi keypt veitingar á tailenskum veitingastað um svipað leyti. Í gögnum sem lögregla hafi aflað frá Flugleiðum komi fram að B hafi keypt flugmiða fyrir A. Verulegt misræmi sé í framburðum B og kærðu. Þurfi að rannsaka mun betur meinta aðild hennar að meintri brotastarfsemi.

Rökstuddur grunur þyki fram kominn um aðild kærðu að stórfelldu fíkniefnabroti B og A.  Fyrirhugað sé að yfirheyra kærðu á næstu dögum ásamt því sem yfirheyra þurfi aðra sem tengist málinu. Miklu skipti að tryggja nærveru kærðu hér á landi á meðan málið sæti áframhaldandi rannsókn.  Kærða sé litháískur ríkisborgari og myndi það torvelda mjög frekari rannsókn málsins ef kærða færi af landi brott. Um farbann sem grundvöll að rannsóknarhagsmunum sé vísað til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 48/2006 og 97/2003.

Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til farbanns er vísað til b-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Með vísan til framanritaðs er lögreglan nú að rannsaka meint brot á fíkni­efna­löggjöfinni. Er þar um að ræða innflutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins og sitja nú tveir litháískir ríkisborgarar í gæsluvarðahaldi vegna málsins og er annar þeirra eiginmaður kærðu. Samkvæmt gögnum málsins er kominn fram rökstuddur grunur um að kærða, sem er litháískur ríkisborgari, geti tengst framan­greindu broti. Þá liggur fyrir að rannsókn málsins er ekki lokið og er fallist á það með lögreglustjóranum, að þó svo kærða hafi átt hér lögheimili í sex ár, að hennar sögn, sé hætta á hún reyni að komast úr landi og gæti brottför hennar af landinu torveldað rannsókn málsins og því sé nauðsynlegt að tryggja nærveru hennar meðan á rannsókn þess stendur.

Svo sem hér hefur verið rakið eru skilyrði b- liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála uppfyllt til að krafa lögreglustjórans í Reykjavík verði tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærðu X, [kt.], litháískum ríkisborgara, er bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 24. mars 2006, kl. 16:00.