Hæstiréttur íslands
Mál nr. 477/2016
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Viðar Már Matthíasson hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2016. Hann krefst þess að viðurkennt verði að fimm lánssamningar sem hann gerði við stefnda 20. desember 2004, 12. og 14. janúar og 23. febrúar 2005 og 10. apríl 2006, sem gerðir voru á grundvelli samnings 7. desember 2004 milli áfrýjanda og banka, er bar sama heiti og stefndi sem hefur samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tekið yfir réttindi og skyldur bankans gagnvart áfrýjanda, séu lánssamningar í íslenskum krónum bundnir ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í hinum áfrýjaða dómi er lýst atvikum málsins og nánari grein gerð fyrir einstökum kröfuliðum.
Lánssviðskipti þau sem deilt er um í málinu eru grundvölluð á lánssamningi aðila 7. desember 2004. Heiti samningsins er „Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum)“. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort einstaka lánveitingar eða ádrættir á grundvelli lánssamnings þessa hafi verið lán í íslenskum krónum sem bundin hafi verið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 eða hvort um hafi verið að ræða lögmæt lán í erlendri mynt.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi dró áfrýjandi alls átta sinnum á lánssamninginn og lúta dómkröfur hans að fimm þeirra, nánar tiltekið 20. desember 2004, 12. og 14. janúar, 23. febrúar 2005 og 10. apríl 2006.
Um ádrátt 20. desember 2004, sem fyrsti kröfuliður lýtur að, hefur verið lagt fyrir Hæstarétt afrit af lánsumsókn. Þá hafa verið lögð fyrir Hæstarétt afrit af tölvupóstsamskiptum áfrýjanda og stefnda sem ætlað er að varpa ljósi á aðdraganda þriðju lánveitingarinnar. Samkvæmt þessu er ljóst að lánveitingar, sem varða fyrsta, þriðja, fjórða og fimmta lið í dómkröfum áfrýjanda, voru á grundvelli umsókna þar sem sótt var um lán með ádrætti á fyrrgreindan rammasamning um lánveitingar í erlendri mynt. Þá sýna bankaútskriftir, að lán sem önnur dómkrafa lýtur að voru í erlendri mynt og er það einnig í samræmi við rammasamninginn. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Frosti ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. apríl sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Frosta, ehf., Melgötu 6, Grenivík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 15. september 2015.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur stefnanda og stefnda frá 20. desember 2004, að fjárhæð samtals 154.450.204 krónur, sem upphaflega hlaut lánsnúmerið 795824-8, og gerður var á grundvelli samnings milli stefnanda og Íslandsbanka hf., kt. 550500-3530, 7. desember 2004, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur stefnanda og stefnda frá 12. janúar 2005, að fjárhæð samtals 59.129.197 krónur, sem upphaflega hlaut lánsnúmerið 795835-9, og gerður var á grundvelli samnings milli stefnanda og Íslandsbanka hf., kt. 550500-3530, 7. desember 2004, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur stefnanda og stefnda frá 14. janúar 2005, að fjárhæð 103.400.000 krónur, sem upphaflega hlaut lánsnúmerin 795845-9, og gerður var á grundvelli samnings milli stefnanda og Íslandsbanka hf., kt. 550500-3530, 7. desember 2004, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur stefnanda og stefnda frá 23. febrúar 2005, að fjárhæð samtals 15.682.073 krónur, sem upphaflega hlaut lánsnúmerin 795866-8, og gerður var á grundvelli samnings milli stefnanda og Íslandsbanka hf., kt. 550500-3530, 7. desember 2004, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur stefnanda og stefnda frá 10. apríl 2006, að fjárhæð 216.000.000 krónur, sem upphaflega hlaut lánsnúmerin 796262-7, og gerður var á grundvelli samnings milli stefnanda og Íslandsbanka hf., kt. 55.0500-3530, 7. desember 2004, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, að skaðlausu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Þann 7. desember 2004 gerðu stefnandi og forveri stefnda með sér samning, sem á forsíðu ber heitið „Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum)“. Í inngangsorðum samningsins segir að hann sé um lán til 10 ára að jafnvirði 510.000.000 íslenskra króna í erlendum myntum með þeim skilmálum sem greini í samningnum.
Samkvæmt 1. gr. í samningnum lofaði stefnandi nánar tiltekið að taka að láni og lánveitandi að lána allt að umsaminni lánsfjárhæð og skyldi lánið vera laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 25. maí 2005. Stefnandi skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn væri sá reikningur sem leggja skyldi lánið eða lánshlutann inn á, en form að útborgunarbeiðni fylgdi samningnum sem viðauki 1. Í útborgunarbeiðni skyldi stefnandi tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hygðist taka lánið og hvaða hlutföllum, þó að lágmarki 5% fyrir einstaka gjaldmiðla af lánsfjárhæðinni. Fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig skyldi þó ekki ákvarðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins, en á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum. Lánið yrði eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum samkvæmt heimildum samningsins. Lánsloforð lánveitanda skyldi falla niður fyrirvaralaust ef lántaki hefði ekki sent lánveitanda skriflega beiðni um útborgun fyrir 23. maí 2005, gæfi lánveitandi ekki út staðfestingu um annað. Í 1. gr. í samningnum var og kveðið á um að ráðstafa skyldi láninu annars vegar til að endurfjármagna þáverandi langtímaskuldir stefnanda og að fjármagna kaup stefnanda á auknum aflaheimildum. Kom og fram að hámarkslánsfjárhæð réðist af því hve mikið lántaki keypti af varanlegum aflaheimildum.
Samkvæmt 2. gr. í samningnum skuldbatt stefnandi sig til að endurgreiða skuldbindinguna með 40 afborgunum á þriggja mánaða fresti þannig að á fyrstu 39 gjalddögunum, hverjum og einum, endurgreiddist 1/80 hluti, en á lokagjalddaga, 10. október 2014, skyldu eftirstöðvar endurgreiðast, eða 41/80 hluti hennar. Aðilar voru sammála um að lánveitandi myndi lána stefnanda fyrir lokagjalddaganum, að uppfylltum skilyrðum, og skyldi þá gerður sérstakur lánssamningur um þá lánveitingu. Lán samkvæmt samningnum bar að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af, en tekið er fram í greininni að samkvæmt viðauka 3 við samninginn skyldi greiða lán í erlendum myntum inn á viðeigandi gjaldeyrisreikninga lánveitanda. Lántaki mátti því aðeins greiða lánshluta í erlendum myntum í íslenskum krónum að lánveitandi hefði samþykkt það og hefði móttekið skriflega beiðni lántaka þar um, tveimur bankadögum fyrir gjalddaga. Greiðsla sem stefnanda bæri að inna af hendi í erlendum myntum yrði þá umreiknuð í íslenskar krónur. Í þessari grein samningsins var lánveitanda veitt heimild til að skuldfæra íslenskan reikning lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum, án sérstakrar tilkynningar þar um.
Samkvæmt grein 3 í samningnum skyldu lánshlutar í erlendum myntum, öðrum en evrum, bera þriggja mánaða LIBOR-vexti, en lánshluti í evrum þriggja mánaða EURIBOR-vexti, hvort tveggja að viðbættu 1,60% álagi. Dráttarvextir skyldu vera vaxtagrunnur auk álags, að viðbættu 4,5% vanskilaálagi. Vanefndi lántaki samninginn var lánveitanda, samkvæmt sömu grein samningsins, veitt heimild til að umreikna skuld í erlendum myntum í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags, en stefnanda bæri þá að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Í 4. gr. í samningnum var ákvæði um myntbreytingarheimild lántaka, en þar var lántaka veitt heimild til að óska eftir myntbreytingu lánshluta í erlendum myntum á gjalddögum, þannig að eftirstöðvar myndu miðast við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu. Við myntbreytingu skyldi við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skyldi miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni, nema samið yrði sérstaklega um annað. Þá var tekið fram að við myntbreytingu kynni samningurinn að fá ný lánsnúmer að öllu leyti eða hluta.
Í 6. gr. í samningnum var kveðið á um að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skyldi stefnandi gefa út tvö tryggingarbréf til lánveitanda, hvort um sig að fjárhæð 2.900.000 evrur, eða samtals 5.800.000 evrur, tryggð með veði í skipinu Frosti ÞH-229. Tryggingarbréfunum skyldi þinglýst í tvennu lagi, hinu fyrra strax en hinu síðara ef lánsfjárhæð samkvæmt samningnum næði helmingi hámarkslánsfjárhæðar, eða að jafnvirði 255.000.000 króna.
Í viðauka nr. 1 var form að útborgunarbeiðni sem fylgdi samningnum, ekki útfyllt af stefnanda, en þó ber það með sér að hafa verið undirritað af hálfu stefnanda. Framkvæmd við útborgun lánsfjárhæða samkvæmt samningnum fór fram með þeim hætti að lánveitandi staðfesti lánsbeiðnir stefnanda um útborgun einstakra lánshluta með útgáfu svokallaðra lánveitingaskjala og greiðslu í framhaldinu.
Fyrsti ádráttur á lán samkvæmt samningnum var 20. desember 2004. Í málinu liggja frammi fimm lánveitingaskjöl, sem stafa frá lánveitanda og stíluð eru á stefnanda. Hins vegar er ekki að finna í gögnum málsins sérstaka útborgunarbeiðni stefnanda vegna þessara ádrátta á lánið. Í þeim skjölum kemur fram að lánveitandi hafi framkvæmt lánveitingar samkvæmt samkomulagi, og þær fjárhæðir eru tilgreindar í evrum, japönskum jenum, svissneskum frönkum, breskum pundum og Bandaríkjadölum. Þá segir í skjölunum að nánar tilgreindar fjárhæðir í hinum erlendu myntum, er dregið hafi verið frá lántökugjald, séu til útborgunar. Á skjölunum kemur einnig fram hvert var andvirði hverrar fjárhæðar í erlendum gjaldmiðlum í íslenskum krónum miðað við tiltekið gengi, og að andvirði þeirrar lánsfjárhæðar í íslenskum krónum hafi verið lagt inn á íslenskan tékkareikning stefnanda. Lánshlutarnir voru með LIBOR- og EURIBOR-vöxtum og var lokadagur samningsins sagður 10. október 2024. Lánshlutarnir fengu lánsnúmerin 795824-8, sem lúta að fyrstu dómkröfu stefnanda.
Annar ádráttur á lánið var 22. desember 2004. Samkvæmt lánsumsókn stefnanda óskaði hann eftir útgreiðslu lánshluta í breskum pundum að fjárhæð 41.485 bresk pund, sem skyldi bera LIBOR-vexti. Á lánsumsókninni kemur einnig fram andvirði fjárhæðarinnar í íslenskum krónum miðað við tiltekið gengi krónunnar og að þá fjárhæð skyldi leggja inn á íslenskan tékkareikning stefnanda, sem var gert. Í gögnum málsins er einnig að finna svokallaðar skjámyndir af þeim gjaldeyrisviðskiptum sem fram fóru í tengslum við útborgun lánshlutans, þ.e. þar sem breskum pundum er umbreytt í íslenskar krónur, sem síðan voru lagðar inn á reikning stefnanda. Lánstíminn var einn mánuður og gjalddagi einn, 22. janúar 2005. Lánshlutinn fékk númerið 795829. Stefnandi greiddi þennan lánshluta upp þann 24. janúar 2005, með því að reikningur hans í breskum pundum var skuldfærður. Lýtur málshöfðun ekki að þessum lánshluta.
Þriðji ádráttur á lánið var 12. janúar 2005. Í málinu liggja frammi fimm lánveitingaskjöl, sem stafa frá lánveitanda og stíluð eru á stefnanda. Hins vegar er ekki að finna í gögnum málsins sérstaka útborgunarbeiðni stefnanda vegna þessara ádrátta á lánið. Í þeim skjölum kemur fram að lánveitandi hafi framkvæmt lánveitingar samkvæmt samkomulagi, og þær fjárhæðir tilgreindar í evrum, breskum pundum, Bandaríkjadölum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Þá segir í skjölunum að nánar tilgreindar fjárhæðir í evrum, breskum pundum og Bandaríkjadölum hafi verið lagðar inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda í hverjum gjaldmiðli, þ.e. reikninga með höfuðbók 38. Samkvæmt lánveitingaskjölunum er varða japönsk jen og svissneska franka er hins vegar tiltekið hvert andvirði fjárhæða í japönskum jenum og svissneskum frönkum er í íslenskum krónum, sem lagðar hafi verið inn á íslenskan krónureikning stefnanda hinn 12. janúar 2005. Í gögnum málsins er einnig að finna svokallaðar skjámyndir af þeim gjaldeyrisviðskiptum sem fram fóru í tengslum við útborgun lánshlutans, þ.e. þar sem japönskum jenum og svissneskum frönkum er umbreytt í íslenskar krónur, sem síðan voru lagðar inn á reikning stefnanda. Lánshlutarnir voru með LIBOR- og EURIBOR-vöxtum og var lokadagur samningsins sagður 10. janúar 2025. Lánshlutarnir fengu lánsnúmerin 795835-9, sem lúta að annarri dómkröfu stefnanda.
Fjórði ádráttur á lánið var 14. janúar 2005. Samkvæmt lánsumsókn stefnanda, dagsettri 17. janúar 2005, óskaði hann eftir útgreiðslu lánshluta í Bandaríkjadölum, breskum pundum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum og er fjárhæð hvers gjaldmiðils þar tilgreind, sem skyldi bera LIBOR- og EURIBOR-vexti. Á lánsumsókninni kemur einnig fram andvirði hvers lánshluta í íslenskum krónum miðað við tiltekið gengi krónunnar og að þá fjárhæð skyldi leggja inn á íslenskan tékkareikning stefnanda, sem var gert. Fram kemur að lánstíminn sé 10 ár og fjöldi gjalddaga 39, sá fyrsti 10. apríl 2005. Í málinu liggja einnig frammi fimm lánveitingaskjöl, sem stafa frá lánveitanda og stíluð eru á stefnanda. Í þeim skjölum kemur fram að lánveitandi hafi framkvæmt lánveitingar samkvæmt samkomulagi, í samræmi við fyrrgreinda lánsumsókn stefnanda. Þá segir í skjölunum að nánar tilgreindar fjárhæðir í Bandaríkjadölum, breskum pundum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum og andvirði hverrar útborgunarfjárhæðar séu í íslenskum krónum miðað við tiltekið gengi íslensku krónunnar. Þessar fjárhæðir hafi verið lagðar inn á íslenskan krónureikning stefnanda hinn 14. janúar 2005. Í gögnum málsins er einnig að finna svokallaðar skjámyndir af þeim gjaldeyrisviðskiptum sem fram fóru í tengslum við útborgun lánshlutans, þ.e. þar sem hinum erlendu gjaldmiðlum er umbreytt í íslenskar krónur, sem síðan voru lagðar inn á reikning stefnanda. Lánshlutarnir voru með LIBOR- og EURIBOR-vöxtum og var lokadagur samningsins sagður 10. janúar 2025. Lánshlutarnir fengu lánsnúmerin 795845-9, sem lúta að þriðju dómkröfu stefnanda.
Fimmti ádráttur á lánið var 28. janúar 2005. Samkvæmt lánsumsókn stefnanda 24. janúar 2005 óskaði hann eftir útgreiðslu lánshluta í breskum pundum að fjárhæð 41.485 bresk pund, sem skyldi bera LIBOR-vexti. Á lánsumsókninni kemur hvorki fram fjárhæð lánshlutans í íslenskum krónum né heldur inn á hvaða reikning leggja skyldi fjárhæðina. Lánstíminn var einn mánuður og gjalddagi einn, 24. febrúar 2005. Lánsfjárhæðin var lögð inn á gjaldeyrisreikning stefnanda í breskum pundum þann 28. janúar 2005. Stefnandi greiddi þennan lánshluta upp 24. febrúar 2005. Lýtur málshöfðun ekki að þessum lánshluta.
Sjötti ádráttur á lánið var 23. febrúar 2005. Samkvæmt lánsumsókn stefnanda 23. febrúar 2005 óskaði hann eftir útgreiðslu lánshluta í 27.556 Bandaríkjadölum, 23.740 breskum sterlingspundum og 140.054 evrum, sem skyldu bera LIBOR- og EURIBOR-vexti. Fjárhæð hvers lánshluta í íslenskum krónum, miðað við tiltekið gengi var einnig tilgreint, en heildarupphæð lánsumsóknarinnar í íslenskum krónum var 15.682.074 krónur. Auk þess var getið reiknings stefnanda nr. 565-26-1878, en lánsfjárhæðin var hins vegar ekki lögð inn á þann reikning. Lánstíminn var 10 ár og fjöldi gjalddaga 39, sá fyrsti 10. apríl 2005. Samkvæmt svonefndum lánveitingaskjölum, dagsettum 23. febrúar 2005, framkvæmdi lánveitandi „Lánveitingar samkvæmt samkomulagi“ að fjárhæð 27.556 Bandaríkjadalir, 23.740 bresk sterlingspund og 140.054 evrur, að frádregnu 0,35% lántökugjaldi væru 27.459,55 Bandaríkjadalir, 23.656,91 bresk pund og 139.563,81 evra lögð inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda í hverjum gjaldmiðli, höfuðsbók 38, þann 23. febrúar 2005. Lánshlutarnir voru með LIBOR- og EURIBOR-vöxtum og var lokadagur samningsins sagður 10. október 2024. Lánshlutarnir fengu lánsnúmerin 795866-8, sem lúta að fjórðu dómkröfu stefnanda.
Hinn 11. apríl 2005 voru lánshlutar í sömu erlendu gjaldmiðlum sameinaðir undir eitt lánsnúmer, að ósk stefnanda. Lánshlutar í evrum voru sameinaðir undir lánsnúmerið 795849, lánshlutar í Bandaríkjadölum undir lánsnúmerið 795824, lánshlutar í breskum pundum undir lánsnúmerið 795825, lánshlutar í svissneskum frönkum undir lánsnúmerið 795826 og lánshlutar í japönskum jenum undir lánsnúmerið 795827.
Sjöundi ádráttur á lánið var 4. október 2005. Samkvæmt lánsumsókn stefnanda þann dag óskaði hann eftir útgreiðslu lánshluta í íslenskum krónum að fjárhæð 216.000.000 króna sem skyldi bera REIBOR-vexti, og skyldi leggja fjárhæðina inn á reikning stefnanda nr. 565-26-1878, sem og varð raunin. Um endurgreiðslu lánshlutans kom fram að hún ætti að vera sú sama og lánshluta nr. 795824-7 og nr. 795849. Þessi lánshluti fékk lánsnúmerið 795967. Lánshlutanum var síðan myntbreytt á gjalddaga 10. apríl 2006.
Stefnandi og lánveitandi gerðu með sér viðauka við samninginn frá 7. desember 2004. Í inngangsorðum viðaukans kom fram að heildarskuldbinding lánssamnings í erlendri mynt samkvæmt samningnum mætti á hverjum tíma vera að jafngildi 510.000.000 króna. Með viðaukanum var 3. gr. í samningnum breytt þannig að kveðið var á um að lánshluti í íslenskum krónum skyldi bera þriggja mánaða REIBOR-vexti, eins og þeir væru skráðir af Seðlabanka Ísalands að viðbættu 1,60% álagi. Auk þess var heimild til að draga á lánssamninginn framlengd. Önnur ákvæði samningsins skyldu hins vegar haldast óbreytt.
Áttundi ádráttur á lánið var 10. apríl 2006. Samkvæmt lánsumsókn stefnanda 7. apríl 2006 óskaði hann eftir útgreiðslu á 1.073.660,07 Bandaríkjadölum, 263.041,64 breskum sterlingspundum, 396.610,88 svissneskum frönkum, 36.111.707 japönskum jenum og 754.688,91 evru, sem skyldu bera LIBOR-vexti. Í lánsumsókninni var ekki getið fjárhæða í íslenskum krónum en vísað til gjaldeyrisreikninga stefnanda, höfuðbókar 38, sem hver lánshluti skyldi lagður inn á. Í athugasemd við umsókn stefnanda kom hins vegar jafnframt fram að um væri að ræða myntbreytingu á lánshluta nr. 795967, þ.e. lánshluta sem stefnandi hefði óskað eftir í íslenskum krónum, en jafnframt jók stefnandi við skuldbindingu sína. Óskaði stefnandi eftir því að hinir nýju lánshlutar væru að jafnvirði 10 milljónum króna hærri en eldri skuldbinding hans í íslenskum krónum, sem myntbreyta átti. Lánshlutarnir voru greiddir út með þeim hætti að 1.073.660,07 Bandaríkjadölum, 263.041,64 breskum sterlingspundum, 396.610,88 svissneskum frönkum, 36.111.707 japönskum jenum og 754.688,91 evru var ráðstafað inn á reikninga stefnanda í sömu erlendu gjaldmiðlum. Hverri fjárhæð var síðan ráðstafað aftur út af sömu reikningum í tveimur hlutum. Síðan fóru fram gjaldeyrisviðskipti í tveimur hlutum þar sem hinum erlendu gjaldmiðlum var umbreytt í íslenskar krónur og þeim síðan ráðstafað til uppgreiðslu lánshluta nr. 795967, sem var í íslenskum krónum. Í lánsumsókninni kom fram að um endurgreiðslu skyldi fara eins og af lánum nr. 795824-27 og láni 795849. Lánshlutarnir fengu lánsnúmerin 796263-7, sem lúta að fimmtu dómkröfu stefnanda.
Í kjölfar útgreiðslu lánshluta nr. 796263-7 voru eldri lánshlutar í sömu erlendu gjaldmiðlum sameinaðir lánshlutum nr. 796263, sem sagðir voru í Bandaríkjadölum, 796264 í breskum sterlingspundum, 796265 í svissneskum frönkum, 796266 í japönskum jenum og 796267 í evrum. Síðar var lánsnúmerunum aftur breytt þannig að lánshluti í Bandaríkjadölum fékk númerið 313324, lánshluti í breskum sterlingspundum nr. 313325, lánshluti í svissneskum frönkum fékk númerið 313326, lánshluti í japönskum jenum fékk númerið 313327 og lánshluti í evrum númerið 313328.
Hinn 24. nóvember 2008, eftir að umþrættum kröfuréttindum hafði verið ráðstafað til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008, gerðu stefnandi og stefndi viðauka við samninginn. Með þeim viðauka var endurgreiðsluskilmálum breytt og lokagjalddaga frestað fram til 10. október 2015. Í inngangsorðum hvors viðauka voru skuldbindingar samkvæmt framangreindum lánshlutum, miðað við 17. nóvember 2008 annars vegar og 9. júlí 2009 hins vegar, tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum.
Stefnandi efndi samninginn að mestu leyti með því að reikningur hans í íslenskum krónum var skuldfærður fyrir greiðslum afborgana og vaxta, sbr. 2. gr. samningsins. Þann 24. janúar 2005, 10. apríl 2006, 10. júlí 2006 og 10. október 2006 voru hins vegar reikningar stefnanda í viðeigandi erlendum gjaldmiðlum skuldfærðir við efndir samningsins.
Þann 10. október 2015 tók stefnandi ný lán hjá stefnda til endurfjármögnunar á lánssamningi nr. 565-102738, þ.e. umþrættum lánssamningi. Annars vegar var um að ræða lán að fjárhæð 2.270.000 evrur, en lánið var greitt inn á reikning stefnanda í evrum í samræmi við útborgunarbeiðni hans. Hins vegar var lán að fjárhæð 321.000.000 króna og var lánið greitt inn á reikning stefnanda í íslenskum krónum. Stefndi kveður stefnanda síðan hafa staðið fyrir því að evrunum væri umbreytt í íslenskar krónur, sem færðar hafi verið inn á reikning hans í íslenskum krónum. Öllum íslensku krónunum hafi síðan verið umbreytt í þá erlendu gjaldmiðla sem umþrættar skuldbindingar stefnanda hafi staðið í. Hinum erlendu gjaldmiðlum hafi síðan verið ráðstafað til uppgreiðslu hinna umþrættu skuldbindinga.
III
Stefnandi byggir á því að framangreindir lánssamningar, sem allir voru gerðir á grundvelli samnings, dagsetts 7. desember 2004, séu lán í íslenskum krónum í skilningi 13. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í ákvæðinu segi m.a. að með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og að um heimildir til verðtryggingar fari samkvæmt 14. gr. sömu laga. Í 1. mgr. síðarnefnda ákvæðisins sé heimild til verðtryggingar takmörkuð við vísitölu neysluverðs, sbr. þó 2. mgr. 14. gr., þar sem heimilt sé að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi. Samkvæmt skýrum texta fyrrgreindra ákvæða sé því óheimilt að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.
Stefnandi byggir á því að allir fimm lánssamningar sem lýst sé hér að framan og mál þetta varði, séu lán í íslenskum krónum á grundvelli orðalags samnings aðila frá 7. desember 2004 og þeim viðaukum sem gerðir hafa verið við samninginn.
Af orðalagi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og lögskýringargögnum verði ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggi til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim.
Ljóst sé að skjalagerð lánveitanda við hvern og einn lánssamning sem mál þetta taki til hafi verið verulega ábótavant. Fyrir liggi að stefnandi hafi ekki fyllt út eyðublað fyrir beiðni um útborgun lánsins, sbr. viðauka 1 við samninginn frá 7. desember 2004, sem gert hafi verið ráð fyrir að fylla ætti út við hvern og einn ádrátt. Þá hafi tilviljun ein ráðið því hvort lánveitandi krefðist þess að stefnandi undirritaði skjal með yfirskriftinni „Lánsumsókn“ við hvern ádrátt, enda liggi slíkt skjal ekki fyrir í öllum tilvikum. Stefndi þurfi að bera hallann af öllum óskýrleika sem af þessu stafi, enda séu öll fyrirliggjandi skjöl samin einhliða af lánveitanda og eftir atvikum stefnda.
Í meginmáli samningsins frá 7. desember 2004 sé tilgreint að um sé að ræða lánssamning til 10 ára að jafnvirði 510.000.000 króna í erlendum myntum með þeim skilmálum sem greini í samningnum. Þótt fram komi í fyrirsögn samningsins að um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum sé hvergi í lánssamningnum sagt til um hverjir þeir gjaldmiðlar þá yrðu og með hvaða fjárhæð í þeim eða hlutfall af fjárhæðinni í íslenskum krónum. Eina tilgreiningin í samningnum á fjárhæð lánsins sé samkvæmt þessu í íslenskum krónum, en hvergi sé getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlenda gjaldmiðli. Engar skýringar hafi komi fram hjá stefnda hvers vegna fjárhæð lánsins hafi verið tilgreind með þessum hætti ef um lán í erlendum gjaldmiðlum heftur verið að ræða.
Í 1. mgr. 1. gr. í samningnum komi fram að lántaki lofi að taka að láni og lánveitandi að lána allt að umsaminni lánsfjárhæð. Einnig sé rétt að benda á að í lokamálslið 1.mgr. 6. gr. í lánssamningnum sé vísað til helmings hámarkslánsfjárhæðar eða jafnvirði 255.000.000 króna. Í formi útborgunarbeinar sem fest hafi verið við samninginn sem viðauki 1, komi fram að um sé að ræða lán að fjárhæð 510.000.000 króna. Byggir stefnandi á því að með því að eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint hafi verið tilgreind í samningnum, hafi verið í íslenskum krónum geti engum vafa verið háð að samningurinn hafi eingöngu tekið til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli sem óheimilt hafi verið samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 að binda við gengi erlendra gjaldmiðla. Af því leiði sjálfkrafa að þeir lánssamningar sem gerðir hafi verið á grundvelli samningsins séu um lán í íslenskum krónum. Þá bendi tilgreining lánsfjárhæðarinnar í öðrum þeim skjölum sem liggi til grundvallar lánveitingum til stefnanda, eindregið til þess að um lán í íslenskum krónum sé að ræða.
Í viðauka, dagsettum 6. nóvember 2005, segi orðrétt: „...en heildarskuldbinding lánssamnings í erlendri mynt samkvæmt samningnum má á hverjum tíma vera að jafngildi ISK 510.000.000,- krónur fimmhundruðogtíumilljónir 00/100.“ Hvergi sé í viðaukanum minnst á um hvaða erlendu gjaldmiðla kunni að vera að ræða, fjárhæð þeirra eða hlutfall af fjárhæðinni í íslenskum krónum.
Í meginmáli viðauka, dagsetts 24. nóvember 2008, komi fram að um sé að ræða óverðtryggt lán í erlendum gjaldmiðlum til 10 ára að jafnvirði 510.000.000 króna. Sömu tilgreiningu sé að finna í meginmáli viðauka, dagsetts 28. ágúst 2009. Telur stefnandi að ef um væri að ræða erlend lán væru framangreindar tilgreiningar á hámarksskuldbindingu með öllu óþarfar og undirstriki þær tilgreiningar í raun að skuldbindingarnar séu í íslenskum krónum en bundnar gengi hinna erlendu gjaldmiðla.
Stefnandi byggir á því að þar sem eina fjárhæðin sem beint hafi verið tilgreind í samningnum frá 7. desember 2004 og skjölum honum tengdum hafi verið í íslenskum krónum geti engum vafa verið háð að þeir lánssamningar sem gerðir hafi verið á grundvelli samningsins hafi eingöngu tekið til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt hafi verið, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, að binda við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í málum nr. 386/2012 og 189/2013. Þegar af þeirri ástæðu geti lánssamningarnir ekki talist vera um annað en lán í íslenskum krónum.
Stefnandi byggir og á því að atriði er varði efndir og framkvæmd samningsaðila á skuldbindingum sínum leiði til sömu niðurstöðu. Aðalskylda forvera stefnda, sem lánveitanda, hafi verið að afhenda stefnanda lánsfjárhæðir viðkomandi lánssamninga og í upphaflegum skilmálum samningsins frá 7. desember 2004 hafi verið gert ráð fyrir að það yrði gert í fjórum ádráttum. Óumdeilt sé að stefnandi hafi ekki fyllt út eyðublað fyrir beiðni um útborgun lánsins. Þess í stað hafi, við ádrætti lánsins, ýmist verið ritað undir skjöl með yfirskriftinni „lánsumsókn“ eða forveri stefnda sent stefnanda skjöl með yfirskriftinni „lánveiting“. Í lánssamningnum sjálfum segi að ráðstafa skuli láninu annars vegar til að endurfjármagna núverandi langtímaskuldir lántaka og hins vegar til að fjármagna kaup lántaka á auknum aflaheimildum. Samkvæmt þessu verði ekki ráðið af ákvæðum lánssamningsins og fylgigagna að greiða ætti lánið út í erlendum myntum. Þvert á móti hafi verið gengið út frá því í umræddu formi í viðauka 1 við lánssamninginn að andvirði lánssamninganna skyldi greiða út á reikning stefnanda í íslenskum krónum. Gefi það til kynna þann vilja aðila að lánin yrðu greidd út í íslenskum krónum. Í málinu liggi fyrir að lánssamningarnir hafi ýmist verið greiddir út í íslenskum krónum eða erlendum myntum.
Engin lánsumsókn hafi verið undirrituð vegna lánssamnings aðila frá 20. desember 2004, með lánsnúmerin 795824-8. Af þeim fimm skjölum sem beri yfirskriftina „lánveiting“ og stafi frá lánveitanda megi ráða að samtals 154.450.204 krónur hafi verið lagðar inn á íslenskan veltureikning stefnanda nr. 565-26-1878 hjá lánveitanda þann dag. Fjárhæðir lánsins hafi miðast við gengi evru, japanskra jena, svissneskra franka, breskra punda og dollara. Þannig sé ljóst að lánveitandi hafi einungis afhent stefnanda íslenskar krónur vegna þessa ádráttar og hafi því erlendar myntir ekki skipt um hendur.
Engin lánsumsókn hafi verið undirrituð vegna lánssamnings aðila frá 12. janúar 2005 með lánsnúmerunum 795835-9. Af þeim skjölum sem beri yfirskriftina „lánveiting“ og stafi frá lánveitanda megi ráða að greiddar hafi verið evrur, bresk sterlingspund og Bandaríkjadalir inn á gjaldeyrisreikninga í eigu stefnanda þann dag. Þær fjárhæðir hafi samsvarað samtals 38.385.661 krónu. Þennan sama dag hafi jafnframt verið lagðar samtals 20.743.536 krónur inn á íslenskan veltureikning stefnanda nr. 565-26-1878 vegna lánshluta sem tengdir hafi verið við gengi svissneskra franka og japanskra jena. Þannig sé ljóst að lánveitandi hafi afhent stefnanda bæði íslenskar krónur og erlendar myntir vegna þessa ádráttar. Það að hluti ádráttarins hafi verið greidd út í erlendum myntum nægi þó hins vegar ekki, eitt og sér til að lánið teljist vera í erlendum myntum. Í því sambandi þurfi að horfa til þess sérstaklega að engin lánsumsókn hafi verið undirrituð vegna þessa lánssamnings og því ekki hægt að staðreyna að það hafi verið vilji stefnanda að fá afhentar erlendar myntir frekar en íslenskar krónur.
Undirrituð hafi verið lánsumsókn þann 17. janúar 2005 vegna lánssamnings frá 14. janúar 2005, sem hlotið hafi lánsnúmerin 795845-9. Með henni hafi stefnandi óskað eftir láni að fjárhæð 103.400.000 krónur sem greitt yrði út miðað við hinn 14. janúar 2005 í fimm hlutum inn á reikning nr. 565-26-1878. Nánar tiltekið komi fram að skipting í erlendar myntir yrði með þeim hætti að greidd yrðu út 82.799 Bandaríkjadalir, 132.723 bresk sterlingspund, 390.631 svissneskur franki, 33.790.850 japönsk jen og 505.068 evrur með tilteknu viðmiðunargengi fyrir hverja mynt. Samkvæmt öllum fimm skjölunum, dagsettum 18. janúar 2005, sem beri yfirskriftina „Lánveiting“ og stafi frá lánveitanda, hafi lánsfjárhæðin, að frádreginni þóknun, samtals 103.038.102 krónur, verið greidd inn á nefndan reikning í íslenskum krónum tilgreindan dag. Þannig sé ljóst að lánveitandi hafi einungis afhent stefnanda íslenskar krónur vegna þess ádráttar og hafi því engar erlendar myntir skipt um hendur.
Undirrituð var lánsumsókn vegna lánssamnings frá 23. febrúar 2005, sama dag. Með henni óskaði stefnandi eftir láni að fjárhæð samtals 15.682.073 krónur, sem greitt yrði út í fimm hlutum inn á reikning nr. 565-26-1878, sem fyrir liggi að sé í íslenskum krónum. Nánar tiltekið hafi komið fram að „skipting í erlendar myntir“ yrði með þeim hætti að greidd yrðu út 27.556 Bandaríkjadalir, 23.749 bresk pund og 140.054 evrur, með tilteknu viðmiðunargengi fyrir hverja mynt.
Samkvæmt þremur skjölum, dagsettum 23. febrúar 2005, sem beri yfirskriftina „Lánveiting“ og stafi frá lánveitanda, hafi umræddum fjárhæðum í þessum ádrætti, að frádreginni þóknun, verið ráðstafað inn á gjaldeyrisreikning lántaka í viðkomandi myntum, en ekki inn á reikning í íslenskum krónum, eins og stefnandi hefði óskað eftir með lánsumsókninni. Þótt ljóst sé að lánveitandi hafi afhent stefnanda erlendar myntir vegna þessa lánssamnings verði, við mat á lögmæti lánsins, að líta til þess að stefnandi hafi óskað eftir að fá andvirði lánsins greitt út á veltureikning sinn hjá lánveitanda í íslenskum krónum en ekki á þá gjaldeyrisreikninga sem lánið hafi í raun verið greitt inn á.
Fimmti lánssamningurinn, sem um sé deilt, hafi þá sérstöðu að tildrög hans hafi verið þau að með lánsumsókn, dagsettri 4. október 2005, hafi stefnandi óskað eftir því að fá greiddar 216.000.000 króna inn á reikning nr. 565-26-1878. Hafi sú beiðni verið samþykkt og andvirði lánsins verið greitt inn á reikninginn þann sama dag. Á þeim tíma sem lánsumsóknin hafi verið gerð og afgreidd hafi engin heimild verið fyrir því samkvæmt skilmálum lánssamningsins að draga á lánið. Samt sem áður hafi lánveitandi heimilað að dregið yrði á lánið í það sinn. Það hafi ekki verið fyrr en mánuði síðar að undirritaður hafi verið viðauki við samninginn frá 7. desember 2004, þar sem tiltekið hafi verið að lánveitandi heimilaði að framlengja heimild til að draga á lánssamninginn, samkvæmt 1. gr. í samningnum, „frá undirritun viðauka þessa til 15. október 2005“, en athygli veki að sá dagur hafi verið liðinn þegar viðaukinn hafi verið undirritaður. Þá hafi sérstaklega verið tekið fram að lánssamningurinn skyldi framvegis vera „lán í erlendum gjaldmiðlum og/eða íslenskum krónum óverðtryggt“.
Umræddum lánshluta hafi verið myntbreytt 10. apríl 2006, samkvæmt lánsumsókn sem undirrituð hafi verið þann 7. apríl 2006. Nánar tiltekið hafi komið fram að „skipting í erlenda mynt“ yrði með þeim hætti að greidd yrðu út 1.073.660 Bandaríkjadalir, 263.041,64 bresk pund, 396.610,88 svissneskir frankar, 36.111.707 japönsk jen og 754.688,91 evra, inn á tilgreinda gjaldeyrisreikninga stefnanda hjá lánveitanda fyrir hverja og eina mynt. Jafnframt liggi fyrir að umræddar fjárhæðir hafi verið greiddar inn á tilgreinda gjaldeyrisreikninga þann 10. apríl 2006. Við mat á lögmæti þessa lánssamnings verði að gæta að því að hann hafi upphaflega verið greiddur út í íslenskum krónum og í gerningnum frá 10. apríl 2006 felist aðeins myntbreyting á láninu. Sérstaklega sé áréttað að engin heimild hafi verið fyrir því í skilmálum samningsins frá 7. desember 2004 að myntbreyta lánshluta í íslenskum krónum. Ákvæði í 4. gr. í lánssamningnum kveði skýrt á um að ef lánið er í skilum sé lántaka heimilt að óska eftir myntbreytingu „lánshluta í erlendum myntum“ á gjalddögum, þannig að eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt eða reikningseiningu. Þegar af þeim sökum geti stefndi ekki byggt rétt á myntbreytingunni, heldur verði að líta til þess hvernig lánið hafi upphaflega verið greitt út, þ.e. í íslenskum krónum. Þá sé bent á að ekki hafi verið notast við myntbreytingarformið sem samkvæmt 4. gr. í samningnum frá 7. desember 2004 hafi átt að nota og fylgt hafi samningnum sem viðauki 2. Þess utan leiði sú staðreynd að umræddum lánshluta hafi verið myntbreytt til þess að lánssamningurinn teljist við það eitt lögmætt erlent lán. Það sé mat stefnanda að við mat á útgreiðslu lánssamningsins verði stefndi að bera hallann af öllum óskýrleika sem stafi af skilmálum hans og skjölum honum tengdum, enda hafi forveri stefnda og síðan stefndi einhliða séð um alla skjalagerð.
Heildarútborgun fyrstu fjögurra lánssamninganna hafi numið samtals 354.796.323 krónum, eftir atvikum að teknu tilliti til 3,5% þóknunar lánveitanda sem dregin hafi verið af ákveðnum hlutum lánsins. Þar af hafi 278.231.842 krónur verið greiddar inn á íslenska veltureikninga stefnanda, eða sem samsvari 78,42% af heildarútgreiðslufjárhæðinni og jafnvirði 76.561.481 krónu hafi verið greitt inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda í viðkomandi mynt eða sem samsvari 21,58% af heildarútgreiðslufjárhæðinni.
Samkvæmt framangreindu sé ljóst að efndir aðalskyldu forvera stefnda samkvæmt upphaflegum skilmálum samningsins frá 7. desember 2004 hafi að langmestu leyti farið þannig fram að fé í íslenskum krónum hafi í reynd skipt um hendur. Þá sé ljóst að með ádrætti lánsins þann 4. október 2005 hafi lánsfjárhæðin í upphafi sannanlega verið greidd út í íslenskum krónum, þ.e. 216.000.000 króna inn á veltureikning nr. 565-26-1878. Við myntbreytinguna 10. apríl 2006 hafi fjárhæðir í erlendum myntum verið greiddar inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda í erlendum myntum. Samkvæmt upplýsingum frá stefnanda hafi lánið frá 4. október 2005 verið greitt upp við þá aðgerð.
Þegar útgreiðslur á samningnum séu virtar í heild verði að telja að þær hafi ekki að svo miklu leyti falist í því að erlendar myntir skiptu um hendur að hægt sé að leggja til grundvallar að lánssamningarnir hafi verið í erlendum myntum. Þvert á móti verði að mati stefnanda að líta svo á að stefndi hafi í meginatriðum efnt skyldur sínar með því að íslenskar krónur skiptu um hendur í lánsviðskiptunum. Verði því að telja að lánssamningarnir teljist vera gengistryggðir í andstöðu við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001.
Í 2. gr. samningsins frá 7. desember 2004 sé tekið fram að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af, svo og að lánveitanda væri heimilt að skuldfæra nánar tiltekinn veltureikning stefnanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum. Óumdeilt sé að tilvitnaður reikningur nr. 525-26-1878, sé veltureikningur í íslenskum krónum í eigu stefnanda. Framkvæmd endurgreiðslunnar vegna lánssamningsins hafi í raun verið sú að stefnandi endurgreiddi lánin að verulegu leyti með þeim hætti að umræddur veltureikningur stefnanda í íslenskum krónum hafi verið skuldfærður fyrir greiðslum afborgana og vaxta. Einungis þann 10. júlí 2006 og 10. október 2006 hafi afborganir af lánssamningnum verið gerðar með skuldfærslu af gjaldeyrisreikningum lántaka í erlendri mynt. Í öðrum tilvikum hafi verið greitt með íslenskum krónum.
Samkvæmt framangreindu sé ljóst að bæði íslenskar krónur og fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur við endurgreiðslu lánsins. Þegar endurgreiðslur af samningnum séu virtar í heild verði að telja að þær hafi ekki að svo miklu leyti falist í því að erlendar myntir skiptu um hendur að hægt sé að leggja til grundvallar að lánssamningarnir hafi verið í erlendum myntum. Þvert á móti verði að líta svo á að stefnandi hafi í meginatriðum efnt skyldur sínar með því að íslenskar krónur skiptu um hendur í lánsviðskiptunum. Verði því að telja að lánssamningarnir teljist vera gengistryggðir í andstöðu við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001.
Um lagrök vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um kröfu hans enda ljóst að ef á hana verður fallist feli það í sér að endurreikna þurfi skuldir stefnanda við stefnda, sem muni lækka þær verulega. Ekki sé um það deilt í málinu hvaða aðferð beri að beita við endurútreikninginn en stefnandi byggir á því að ljóst sé að hann eigi a.m.k. rétt til þess að lánssamningarnir verði endurreiknaðir miðað við þá forsendu að skuldirnar hafi frá öndverðu borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, þ.e.a.s. vexti jafnháa þeim sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 og 18. gr. laga nr. 38/2001. Vart þurfi að fara um það mörgum orðum, í ljósi gengisþróunar á þeim tíma sem hér skipti máli, að sé þeirri aðferð beitt við útreikning skuldarinnar leiði það til mun hagstæðari niðurstöðu fyrir stefnanda en ella.
Stefnandi vísar og til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010. Þá vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, m.a. um endurheimtu ofgreidds fjár, gildi fullnaðarkvittana, brostnar forsendur og ógildi samningsákvæða.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að þær skuldbindingar sem stefnandi hafi stofnað til á grundvelli samningsins teljist lögmætar skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum.
Umþrættur samningur, sem í reynd sé rammasamningur, beri með sér að vera um lán í erlendum gjaldmiðlum samkvæmt auðkenni á forsíðu. Þá sé í inngangsorðum samningsins vísað til þess að hann sé um lán í erlendum myntum að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, með þeim skilmálum sem nánar greini í samningnum. Þetta orðalag geti ekki bent til annars en að stefnanda hafi í upphafi einungis verið fært að stofna til skuldbindinga, í skjóli samningsins, í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum. Önnur ákvæði samningsins styðji þetta jafnframt, sbr. t.d. 1. gr. í samningnum, sem fjalli um útborgunarbeiðni, 2. gr. um að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af, að greiða skyldi lán í erlendum gjaldmiðlum inn á viðeigandi gjaldeyrisreikninga lánveitanda og um umreikning greiðslna í erlendum myntum yfir í íslenskar krónur, 3. gr. í samningnum um svonefnda LIBOR- og EURIBOR-vexti og 4. gr. um myntbreytingarheimild stefnanda. Síðar hafi stefnandi hins vegar verið heimilað að stofna til skuldbindinga í íslenskum krónum, sbr. viðauka við samninginn, sem hann hafi og gert.
Hér skipti og máli að samkvæmt efni og eðli samningsins, sem skuldbindingar stefnanda sæki stoð sína í, hafi honum verið afmarkaður rammi heildarlánsloforðs lánveitanda gagnvart stefnanda, sbr. 1. gr. í samningnum, m.a. með ákvæðum um útborgun hugsanlegra einstakra lánshluta á grundvelli samningsins, endurgreiðslu þeirra og vexti af þeim, ef til þess kæmi að stefnandi léti reyna á rétt sinn til að fá lán á grundvelli samningsins. Samningurinn hafi hins vegar ekki kveðið á um kröfurétt tiltekinnar fjárhæðar sem stefnandi skuldaði lánveitanda. Í þessu ljósi, og með hliðsjón af dómaframkvæmd, geti það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli þótt heildarumfang lánsviðskiptanna hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafnvirði fjárhæðar í íslenskum krónum, eins og stefnandi leggi áherslu á. Sama sé að segja um síðari viðauka við samninginn, enda heildarlánsloforðið jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Af efni og eðli samningsins leiði einnig að ókleift hafi verið að tilgreina lánsfjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum í þeim samningi. Við gerð þess samnings hafi enda ekki legið fyrir hvort, og þá með hvaða hætti, stefnandi myndi óska eftir útborgun innan ramma samningsins, þ.e. í hvaða erlendu gjaldmiðlum og að hvaða fjárhæðum. Slíkt hafi þvert á móti fyrst orðið ljóst þegar stefnandi hafi óskað eftir útborgun einstakra lána/lánshluta, sem lánveitandi hafi síðan staðfest með útborgun til samræmis við óskir stefnanda.
Gögn málsins beri síðan ótvírætt með sér, og a.m.k. þannig að hafið sé yfir vafa, þ. á m. samkvæmt túlkunarreglum samningaréttar, að stefnandi hafi farið þess á leit að umþrættar skuldbindingar yrðu í erlendum gjaldmiðlum, í samræmi við efni og eðli samningsins. Í öllum lánsumsóknum og lánveitingaskjölum lánveitanda séu lánsfjárhæðir í hinum erlendu gjaldmiðlum nákvæmlega tilgreindar. Í ljósi atvika málsins verði að líta svo á að beiðnir stefnanda um lán í erlendum myntum, og staðfestingar stefnda til samræmis, hafi falið í sér samkomulag aðila um frekari útfærslu á skyldum þeirra samkvæmt þeim samningi, sem áður hafi komist á. Að virtu efni framangreindra skjala er varði lánveitingarnar og samhengi þeirra beri að leggja til grundvallar að um stofnun skuldbindinga í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða. Í þessu sambandi sé haldlaust fyrir stefnanda að bera því við, m.a. í ljósi reglna fjármunaréttar um túlkun samninga, að áhrif eigi að hafa ef ekki liggur fyrir undirrituð lánsumsókn vegna hverrar skuldbindingar eða viðauki 1 við samninginn ekki fylltur út, enda hafi stefnandi viðurkennt í verki að hafa stofnað til slíkra skuldbindinga, sbr. m.a. síðari viðauka við samninginn og framlagða ársreikninga. Þá geti engu breytt, í ljósi atvika málsins, þótt stefnandi hafi eftir atvikum óskað eftir að lánsfé yrði lagt inn á reikning í krónum.
Öll framkvæmdin að öðru leyti hnígi að sömu niðurstöðu. Þannig liggi fyrir að hið erlenda lánsfé hafi ýmist verið millifært á gjaldeyrisreikninga lántaka, eða að hinu erlenda lánsfé hafi verið umbreytt í íslenskar krónur og lagt inn á reikning í íslenskum krónum, allt eftir óskum stefnanda, með gjaldeyrisviðskiptum. Efndir aðalskyldna stefnanda hafi að umtalsverðu leyti farið fram með þeim hætti að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur, og teljist þær skuldbindingar a.m.k. gildar skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum. Þá geti einu gilt þótt reglulegar greiðslur stefnanda hafi mestmegnis farið fram í íslenskum krónum, enda slíkt samkvæmt sérstakri skuldfærsluheimild í samningnum sjálfum, sem hafi hins vegar kveðið á um að að öðrum kosti skyldi endurgreiða lánin í þeim myntum sem þau samanstæðu af. Í þessu sambandi sé til þess að líta að greiðslur stefnanda hafi verið meðhöndlaðar af lánveitanda, og síðar stefnda, sem greiðslur af skuldbindingum í erlendum gjaldmiðlum, sbr. þær tilkynningar og greiðslukvittanir sem liggi fyrir. Lánin hafi loks verið gerð upp með því að stefnandi hafi stofnað til nýrra skuldbindinga annars vegar í evrum og hins vegar í íslenskum krónum. Framkvæmd uppgreiðslu beri skýrlega með sér að um lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða.
Stefndi telur að fyrrnefndir viðaukar hnígi jafnframt að sömu niðurstöðu, sbr. viðauka frá 6. nóvember 2005, þar sem lánssamningnum frá 7. desember 2004 hafi verið breytt þannig að stefnanda yrði heimilt að stofna til skuldbindinga í íslenskum krónum, með tilheyrandi breytingum á 3. gr. samningsins um vexti. Sú breyting hefði augljóslega verið óþörf ef rammasamningurinn frá 7. desember 2004 hefði heimilað stofnun skuldbindinga í íslenskum krónum. Stefndi vísar og til viðauka við rammasamninginn frá 24. nóvember 2008 og 28. ágúst 2009, þar sem eftirstöðvar lánsins, þ.e. skuldbindingar stefnanda, miðað við 17. nóvember 2008 annars vegar og 9. júlí 2009 hins vegar, séu sérstaklega tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Þótt þessir viðaukar geti, samkvæmt dómaframkvæmd, ekki einir og sér ráðið því í hvaða gjaldmiðlum stofnað hafi verið til skuldbindingar, eða haggað efni þegar stofnaðra skuldbindinga, séu þeir ótvírætt til marks um viðhorf samningsaðila í þeim efnum. Sama sé að segja um framlagða ársreikninga.
Stefndi telur að við skýringuna beri og að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum. Jafnframt byggir stefndi á því að stefnandi hafi, hvað sem öðru líður, með athafnaleysi sínu samþykkt að líta skuli svo á að umþrættar skuldbindingar séu í hinum erlendu gjaldmiðlum, og hvers konar réttur stefnanda raunar fallinn niður fyrir tómlæti. Til þess sé og að líta að til skuldbindinganna hafi verið stofnað á árunum 2004-2006, sem geri alla sönnunarfærslu stefnda jafnframt örðuga, svo sem málið beri að nokkru leyti með sér. Stefndi vísar og til útdrátta úr ársreikningum stefnanda, þar sem skuldbindingarnar virðist tilgreindar sem lán í erlendum gjaldmiðlum.
Þá sé og til þess að líta að málatilbúnaður stefnanda, um að hann hafi stofnað til skuldbindinga í íslenskum krónum, eða að vilji hans hafi staðið til þess, sé heldur sérkennilegur í ljósi þess að stefnandi virðist hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum og hafi meira að segja endurfjármagnað skuldbindingarnar að hluta til í erlendum gjaldmiðlum.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og meginreglna fjármunaréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Í máli þessu greinir aðila á um hvort framangreindir lánssamningar, dagsettir 20. desember 2004, 12. janúar 2005, 14. janúar 2005, 23. febrúar 2005 og 10. apríl 2006, sem gerðir voru milli stefnanda og forvera stefnda, Íslandsbanka hf., séu um skuld í erlendum myntum eða hvort um sé að ræða skuld í íslenskum krónum sem bundin sé með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla, í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 28/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.
Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.
Umdeildar lánveitingar voru gerðar á grundvelli lánssamnings aðila, dagsetts 7. desember 2014, sem hefur verið lýst hér að framan. Eins og þar greinir bar fyrirsögn hans með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum. Í samningnum sjálfum er hann sagður vera að jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Ekki er tekið fram í hvaða gjaldmiðlum lánið eigi að vera en skírskotað til óska lántaka þar um. Líta ber til þess að í samningnum sjálfum var hvorki að finna yfirlýsingu stefnanda um að hann stæði í skuld við bankann né að hann myndaði kröfuréttindi bankans á hendur stefnanda, heldur setti samningurinn aðeins ramma um lánsviðskipti milli þeirra með ákvæðum um beiðni um lán, útborgun þess, vexti af því og endurgreiðslu. Fólust því lánssamningar í beiðnum stefnanda, sem bankinn samþykkti í verki með útborgun lánsins. Í þessu ljósi getur það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli að heildarumfang lánsviðskiptanna hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum. Verður því að líta svo á að í raun hafi stofnast til skuldbindinga um greiðslu lánsfjár og endurgreiðslu með beiðni stefnanda um útborgun lánsins og útborgun þess.
Eins og að framan greinir lýtur ágreiningur aðila að fimm ádráttum á lánið. Lýtur fyrsta dómkrafa stefnanda að fyrsta ádrætti, önnur dómkrafan lýtur að þriðja ádrætti, þriðja dómkrafan að fjórða ádrætti og fjórða dómkrafan að sjötta ádrætti. Ráðgert var í umdeildum lánssamningi frá 7. desember 2004, að stefnandi fyllti út sérstaka útborgunarbeiðni, en raunin varð hins vegar sú að lánveitingar á grundvelli samningsins fóru fram með þeim hætti að lánveitandi staðfesti beiðnir stefnanda um útborgun einstakra lánshluta. Í málinu liggja eingöngu frammi útborgunarbeiðnir varðandi lánshluta sem lúta að þriðju, fjórðu og fimmtu dómkröfu stefnanda. Í þeim beiðnum er óskað eftir lánshlutum í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum. Þó að í málsgögnum sé ekki fyrir að fara sérstakri beiðni stefnanda um útborgun allra umdeildra lánshluta liggur fyrir í framlögðum lánveitingarskjölum, staðfesting á útborgun lánshlutanna og að lánveitandi hafi veitt stefnanda lán í nánar tilgreindum gjaldmiðlum. Þá sýna gögn lánveitanda varðandi gjaldeyrisviðskipti sem fram fóru samhliða útborgun lánshlutanna, skipting lánshluta og fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum. Til þess er og að líta að í þeim viðaukum sem gerðir voru við samninginn voru eftirstöðvar skuldbindingar stefnanda sérstaklega tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Þá samræmist ákvæði samningsins um vexti, sem og heimild lánveitanda til að umreikna lánið í íslenskar krónur við gjaldfellingu þess og reikna á það dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Í sömu átt hníga ákvæði lánssamningsins um heimild lántaka til myntbreytinga og það að gerður var sérstakur viðauki við samninginn 6. nóvember 2005, þar sem stefnanda var heimilað að stofna til skuldbindingar í íslenskum krónum. Það styður og framangreinda niðurstöðu að tilgreining lánsins í ársreikningum stefnanda, sem erlent lán gefur vísbendingu um að samningsvilji stefnanda hafi staðið til þess að lánin væru í erlendum gjaldmiðlum. Stefnandi efndi skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum oftast með greiðslu í íslenskum krónum en einnig í erlendum gjaldmiðlum, en sú greiðslutilhögun var í samræmi við 2. gr. í samningi aðila.
Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að umþrættar lánsskuldbindingar hafi verið í erlendum gjaldmiðlum í samræmi við lánssamninginn frá 7. desember 2004.
Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Frosta ehf.
Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.