Hæstiréttur íslands

Mál nr. 78/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 8. febrúar 2011.

Nr. 78/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 4. mars 2011, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2011.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kennitala [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 4. mars 2011, kl. 16:00

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að þann 20. janúar sl. hafi embættinu borist rannsóknargögn í ofangreindu máli. Með ákæru dagsettri 21. janúar sl. hafi ríkissaksóknari höfðað sakamál á hendur X. Sé hann sakaður um stórfellda líkamsárás með því að hafa að morgni nýársdags, 1. janúar 2011, veist með ofbeldi að A, kennitala [...], m.a. sparkað í hann, svo hann féll í gangstéttina og síðan sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama þar sem hann lá. Afleiðingar árásarinnar hafi orðið þær að A hlaut lífshættulegan höfuðáverka, þ.e. höfuðkúpubrot með utanbastsblæðingu undir brotinu hægra megin á gagnaugasvæði og heilamar vinstra megin í gagnstæðum hluta heila. Telst háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Málið hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. janúar sl. Við fyrirtöku málsins þann 1. febrúar hafi ákærði neitað sök. Aðalmeðferð málsins hafi verið ákveðin 14. febrúar 2011.

Í rannsóknargögnum lögreglu komi fram að þann 1. janúar, snemma morguns, hafi lögreglu borist tilkynning um að maður lægi eftir slagsmál framan við [...] í [...] í Reykjavík. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi brotaþoli legið meðvitundarlaus á gangstéttinni. Hafi hann verið fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið og um tíma verið talinn í lífshættu. Samkvæmt læknisvottorði dags. 6. janúar sl. hafi brotaþoli hlotið „alvarlegan lífshættulegan höfuðáverka“ í umrætt sinn. Sé áverkum þar nánar lýst og sú lýsing tekin upp í ákæru. Komi fram í vottorðinu að brotaþoli hafi verið útskrifaður af gjörgæsludeild og sé reiknað með að hann muni dvelja áfram á spítalanum í 5-7 daga en muni þá væntanlega útskrifast.

Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu dags. 19. janúar sl. komi fram að G læknir, sem hefur annast brotaþola, meti ástand hans óbreytt frá því sem það var þann 6. janúar þegar vottorð hafi verið gefið út, nema nú sé brotaþoli kominn á Grensásdeild í endurhæfingu. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu dags. 7. janúar hafi lögregla rætt við brotaþola sama dag. Sé haft eftir honum að hann myndi lítið eftir atvikum, að hann kannist lítillega við árásarmanninn, en viti ekki nafn hans. Hafi maðurinn ítrekað kýlt hann í andlitið og annars staðar. Í upplýsingaskýrslunni komi jafnframt fram að brotaþoli hafi átt erfitt með tal og stundum hafi verið erfitt að skilja svör hans. Samkvæmt lækni hans væri það vegna áverka á heila.

Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi ákærði lýst samskiptum sínum og A þannig að hann hafi kannast við A og spurt hann hvort hann væri ekki bróðir B. A hafi svarað með orðunum „og hvað með það“ og verið með „stæla“ og byrjað að ýta við ákærða. Þeir hafi báðir farið að hrinda hvor öðrum og báðir klætt sig úr að ofan. Sagði hann A ekki hafa fallið við þessar hrindingar heldur hafi hann dottið í tröppum sem séu þarna. A hafi þó staðið upp aftur en hann hafi verið svo ölvaður að hann hafi varla getað staðið í fæturna og hafi hann fallið aftur. Sagðist ákærði þá hafa farið, ásamt bróður sínum og tveimur félögum. Ákærði hafi neitað því aðspurður að hafa sparkað eða traðkað á A.

Við rannsókn málsins hafi verið rætt við nokkur vitni. C kvaðst hafa séð átökin, hann hafi séð hvar annar mannanna sparkaði í andlit hins með þeim afleiðingum að hann hafi fallið í gangstétt. Hafi árásarmaðurinn sparkað þrisvar sinnum í brotaþola þar sem hann hafi legið, í andlit hans og bringu. D kvaðst hafa séð árásarmanninn sparka í brotaþola svo hann féll í gangstéttina og hafi legið þar meðvitundarlaus. Hafi árásarmaðurinn sparkað tveimur spörkum í brotaþola þar sem hann hafi legið og traðkað ofan á honum. Þá hafi tvö önnur vitni, E og F, borið um að árásarmaðurinn hafi veist að brotaþola með karate eða kick-box spörkum.

Að mati ríkissaksóknari liggi ákærði undir sterkum grun um að hafa framið brot það sem tilgreint sé í ákæru, en brotið geti varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar fyrir héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé jafnframt vísað til þess að ákærði hefur nýverið hlotið tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir, rán og frelsissviptingu, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-553/2010. Vísist að öðru leyti til fyrri úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-10/2011 um gæsluvarðhald ákærða.

Niðurstaða

Sterkur grunur er um að ákærði hafi brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Sætir hann ákæru fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa veist að manni í miðborginni á nýársnótt, sparkað í hann svo að hann féll í gangstéttina og síðan sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama þar sem hann lá, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut lífshættulegan höfuðáverka. Með tilliti til almannahagsmuna verður á það fallist með ríkissaksóknara að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að ákærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er einnig til þess að líta að ákærði hefur nýverið hlotið tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir, rán og frelsissviptingu. Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, kennitala [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 4. mars 2011, kl. 16:00.