Hæstiréttur íslands

Mál nr. 169/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Barnavernd
  • Kröfugerð
  • Gjafsókn


                                                        

Fimmtudaginn 25. mars 2010.

Nr. 169/2010.

Barnaverndarnefnd X

(Ívar Pálsson hdl.)

gegn

K

(Ásbjörn Jónsson hdl.)

Kærumál. Barnavernd. Kröfugerð. Gjafsókn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu B um að barn K skyldi vera kyrrt á þeim stað sem það þá dvaldist á, utan heimilis, í sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. mars 2010, þar sem úrskurður sóknaraðila 5. janúar 2010 um að barn varnaraðila, A, skyldi vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvaldist í tvo mánuði, var felldur úr gildi og kröfu sóknaraðila um að barnið skyldi vera kyrrt á þeim stað þar sem það dveldist, utan heimilis, í sex mánuði frá og með 5. janúar 2010 að telja, var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að kveðið verði í dómi Hæstaréttar á um að barnið A skuli vistað utan heimils í sex mánuði frá og með 5. janúar 2010 að telja.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Sóknaraðili hefur uppi fyrir Hæstarétti aðra kröfu um vistun barnsins utan heimilis í sex mánuði en höfð var uppi í héraði, þar sem krafan er ekki fyrir Hæstarétti bundin við vistun á sama stað og verið hefur. Með vísan til 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er honum þetta óheimilt. Í héraði hljóðaði krafan um að dæmt yrði að barnið „skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það nú dvelst, utan heimilis, í sex mánuði frá og með 5. janúar 2010 að telja“. Fyrir liggur að í kjölfar hins kærða úrskurðar var barnið afhent varnaraðila. Með hliðsjón af því verður litið svo á að sóknaraðili geri kröfu um að barnið verði vistað nefnt tímabil á sama stað og það var vistað á fram að uppkvaðningu úrskurðarins.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er úrskurður sóknaraðila 16. mars 2010 þar sem kveðið er á um eftirlit með heimili varnaraðila og um daglega vistun barns hennar „í daggæslu í heimahúsi, eigi skemur en 4 stundir á dag, virka daga.“ Þá er í úrskurðinum kveðið á um að ekki megi fara með barnið úr landi. Skuli þessar ráðstafanir gilda til 15. apríl 2010 nema breyting verði gerð þar á. Í forsendum úrskurðarins er þess getið að þennan sama dag 16. mars 2010 hafi varnaraðila verið kynnt áætlun sóknaraðila samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga, fyrst í sex liðum, sem varnaraðili hafi verið fús til að fallast á ef fallið yrði frá þeirri kröfu sóknaraðila að varnaraðili tryggði að engin samskipti yrðu milli sambýlismanns hennar og barnsins. Þá hafi varnaraðila verið kynnt önnur áætlun í fimm liðum, þar sem fallið hafi verið frá kröfunni um að varnaraðili tryggði að engin samskipti yrðu milli barnsins og sambýlismannsins. Kemur fram að varnaraðili hafi verið reiðubúin til að ganga til samstarfs við sóknaraðila á grundvelli þessarar áætlunar með þeim fyrirvara að sóknaraðili félli frá kæru þessa máls til Hæstaréttar. Þessu hafnaði sóknaraðili og varð því ekki af samkomulagi um áætlun hans.

Þá hefur sóknaraðili lagt fram lögregluskýrslu 15. mars 2010 sem tekin var af systur sambýlismanns varnaraðila, sem komið hafi til Íslands í því skyni að fara með barn varnaraðila til [...]. Af hálfu varnaraðila hefur sú skýring verið gefin að tilgangurinn með þessu hafi verið að barnið hitti aldraða foreldra varnaraðila í [...] sem aldrei hafi séð barnið. Hafi þetta verið „eini tilgangur fararinnar en ekki sá að koma barninu úr landi til að komast hjá því máli sem væri nú til meðferðar hér.“

Varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt svonefndar dagnótur vegna eftirlits sóknaraðila með barninu á heimili varnaraðila um nokkurra daga skeið eftir að hinn kærði úrskurður gekk og barnið var aftur komið á heimili varnaraðila og sambýlismanns hennar. Samkvæmt þeim virðist drengnum líða vel og njóta góðrar umönnunar.

Gögn þau sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt þykja ekki breyta þeim forsendum sem niðurstaða hins kærða úrskurðar er byggð á. Fyrir Hæstarétti er einungis til endurskoðunar niðurstaða úrskurðarins um kröfu sóknaraðila sem lýtur að vistun barnsins í sex mánuði frá og með 5. janúar 2010 að telja. Með vísan til forsendna verður hinn kærði úrskurður um að hafna þessari kröfu staðfestur.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, svo sem hann er ákveðinn í dómsorði, greiðist úr ríkissjóði

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað í ríkissjóð eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvæði hins kærða úrskurðar þar sem hafnað er kröfu sóknaraðila, barnaverndarnefndar X, um að A, barn varnaraðila, K, verði vistað á sama stað og það var vistað á fram að uppkvaðningu úrskurðarins í sex mánuði frá 5. janúar 2010 að telja, er staðfest.

Sóknaraðili, barnaverndarnefnd X, greiði 350.000 krónur í kærumálskostnað sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Ásbjörns Jónssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur.

ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjaness 4. mars 2010.

I.

Hinn 15. janúar 2010 barst Héraðsdómi Reykjaness krafa sóknaraðila, K, kt. [...], til heimilis að [...], [...], dagsett sama dag, um að felldur verði úr gildi úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar X, [...], [...], sem kveðinn var upp í máli sóknaraðila 5. janúar 2010.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður varnaraðila um að drengurinn A, kt. [...], verði vistaður utan heimilis síns, á þeim stað er hann dvelst nú, í tvo mánuði frá og með 22. desember 2009 til 1. mars 2010, sbr. XI. kafla laga nr. 80/2002. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að barnið verði vistað utan heimilis í sex mánuði frá 5. janúar 2010 að telja.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að mati dómsins, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Af hálfu varnaraðila er krafist sýknu af kröfum sóknaraðila og að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að barnið A, kt. [...], skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það nú dvelst, utan heimilis, í sex mánuði frá og með 5. janúar 2010 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

II.

Málsatvik eru þau að hinn 13. ágúst 2009 fór sóknaraðili með son sinn, A, kt. [...], í reglulegt ungbarnaeftirlit. Kom upp grunur um að drengurinn gæti verið með vatnshöfuð vegna hratt vaxandi höfuðmáls. Í kjölfarið var drengurinn skoðaður af Sigurði Björnssyni barnalækni og Pétri Luðvigssyni taugasérfræðingi, sem leiddi til þess að drengurinn var lagður inn á Barnaspítala Hringsins hinn 21. ágúst 2009. Eftir frekari rannsóknir á drengnum var talið að unnt væri að útiloka að sjúkdómar eins og vatnshöfuð eða blóðstorknunarsjúkdómur skýrðu þau einkenni sem drengurinn hafði. Talið var að umtalsverðar líkur væru á því að drengurinn hefði orðið fyrir ytri áverka, s.s. verið hristur eða fengið höfuðhögg.

Í kröfu sóknaraðila segir að hún kannist hins vegar ekki við að drengurinn hafi orðið fyrir slíkum áverkum en hún hafi verið með drenginn í umsjá sinni frá fæðingu hans. Hafi drengurinn á því tímabili verið heilsuhraustur og ekki haft nein merki um sjúkdóm eða vanlíðan.

Varnaraðili hóf aðkomu sína að máli þessu hinn 24. ágúst 2009 og í kjölfar útskriftar sonar sóknaraðila af Barnaspítalanum hinn 27. ágúst 2009 var lögð fyrir sóknaraðila áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga, dagsett sama dag, en áætlunin skyldi gilda frá 28. ágúst til 27. október 2009. Samkvæmt áætluninni skyldi sóknaraðili eiga samvinnu við nefndina, gangast undir sálfræðilegt mat, rækja umgengnisskyldur samkvæmt vistunarsamningi og samþykkja heimsóknir starfsmanna barnaverndarnefndar á heimili sóknaraðila. Varnaraðili skyldi hins vegar hlutast til um sálfræðilegt mat á sóknaraðila, vista barn sóknaraðila í allt að tvo mánuði samkvæmt b. lið 1. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2002, afla læknisfræðilegra gagna, gagna frá lögreglu og annarra gagna er nefndin teldi máli skipta. Undirritaði sóknaraðili áætlun þessa, umræddan vistunarsamning og samning um umgengni sóknaraðila og sambýlismanns hennar, B, kt. [...], við drenginn.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að sóknaraðili hafi á umræddu tímabili staðið við þá samninga sem undirritaðir voru en sálfræðimat hafi verið framkvæmt á sóknaraðila, sbr. skýrslu C, sálfræðings, dags. 21. október 2009. Þá hafi sambýlismaður sóknaraðila, B, einnig samþykkt að fara í slíkt mat en erfitt hafi verið að finna tíma, sem hentaði bæði þeim sálfræðingi sem í hlut átti og sambýlismanni sóknaraðila. Hvað varði þær fullyrðingar sem komi fram í málsatvikalýsingu í úrskurði varnaraðila frá 5. janúar 2010 um að B hafi ekki mætt þrátt fyrir ítrekaðar boðanir og hafi hvorki boðað forföll né óskað eftir breyttum tímasetningum, þá sé þeim mótmælt sem röngum. B hafi reynt eftir mætti að koma til móts við nefndina að þessu leyti en án árangurs, en hér verði að hafa í huga að B er eina fyrirvinna heimilisins og því hafi hann þurft að skipuleggja þá tíma sem lausir voru af hans hálfu, með hliðsjón af vinnutíma sínum.

Með bréfi, dags. 28. ágúst 2009, lagði varnaraðili fram kæru til lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna umræddra áverka á A, sem hafi leiddi til þess að sóknaraðili og sambýlismaður hennar, B, fengu réttarstöðu grunaðra í lögreglumáli nr. 008-2009-9474. Vegna málsins tók lögreglan skýrslu af vitninu D, kt.[...], hinn 15. september 2009, og af sóknaraðila hinn 6. október 2009, en engin skýrsla var hins vegar tekin af sambýlismanni sóknaraðila.

Sóknaraðili samþykkti hinn 22. október 2009 að nefndin vistaði son hennar í áframhaldandi tímabundið fóstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 25. gr. barnverndarlaga nr. 80/2002 í allt að tvo mánuði, eða til 22. desember 2009. Samhliða því var gerður nýr samningur um umgengni sóknaraðila við son sinn, sem var efnislega samhljóða hinum fyrri.

Hinn 2. og 22. desember 2009 voru haldnir fundir af hálfu varnaraðila með sóknaraðila, sambýlismanni hennar og lögmanni sóknaraðila þar sem lögð var fyrir sóknaraðila ný áætlun, þar sem gerð var sú krafa að sóknaraðili skapaði sér sjálfstæða búsetu og fæli það í sér að slíta sambandi sínu við sambýlismann sinn B. Þeim tillögum var hins vegar hafnað af hálfu sóknaraðila. Krafðist varnaraðili þá kyrrsetningar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Sú krafa var færð til bókar hinn 28. desember 2009 og sóknaraðila og lögmanni hennar tilkynnt hún 29. desember 2009. Var sóknaraðila enn fremur kynnt ný meðferðaráætlun, sem var samhljóða fyrri tillögum og óskað eftir lengri vistun sonar sóknaraðila utan heimilis þeirra. Þeim kröfum var hafnað af hálfu sóknaraðila þar sem ekki væru lengur fyrir hendi þær aðstæður sem réttlættu slíka ráðstöfun og ekki fengust svör frá varnaraðila um hversu lengi áframhaldandi vistun á syni sóknaraðila yrði.

Með bréfi, dags. 28. desember 2009, tók lögreglustjórinn á Suðurnesjum þá ákvörðun með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að hætta rannsókn á umræddu lögreglumáli er varðaði ætlað brot gegn barninu A, sbr. 218., 219. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með tölvupósti, dags. 30. desember 2009, var lögmanni sóknaraðila tilkynnt um fyrirhugaða fyrirtöku málsins hjá varnaraðila þann 5. janúar 2010, en þá var hinn umræddi úrskurður kveðinn upp, er mál þetta varðar.

Á fundi með starfsmönnum varnaraðila hinn 7. janúar sl. var sóknaraðila enn gefinn kostur á að ganga til samstarfs við varnaraðila á grundvelli þeirrar áætlunar sem legið hafði fyrir í málinu frá 22. desember sl. Sóknaraðili hafnaði því. Þann sama dag var hins vegar gerður samningur við sóknaraðila um umgengni við barnið til að tryggja samveru og samskipti þeirra.

Næst boðaði varnaraðili til fundar með sóknaraðila hinn 27. janúar sl. Í greinargerð varnaraðila segir að á fundinum hafi verið ætlunin að kynna henni nýja áætlun um meðferð máls, dags. 26. janúar sl., samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 56/2004. Í henni sé m.a. gerð sú tillaga að varnaraðili taki ákvörðun um málshöfðun á grundvelli 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Gerð yrði sú krafa fyrir Héraðsdómi Reykjaness að barnið A yrði vistað utan heimilis í allt að sex mánuði, á meðan reynt væri að koma á samstarfi á ný og tryggja öryggi barnsins. Áætlunin hafði verið kynnt lögmanni sóknaraðila hinn 26. janúar sl. og hafi hún legið frammi á fundinum, auk [...] þýðingar, dags. 27. janúar 2010.

Áður en sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um þá tillögu var henni enn á ný gefinn kostur á að ganga til samstarfs við varnaraðila. Kom þá fram vilji sóknaraðila til samstarfs á þeim forsendum að skýrt yrði kveðið á um það í áætlun hvenær gert væri ráð fyrir að barnið kæmi heim. Í kjölfarið var málinu frestað til að starfsmenn varnaraðila gætu sett saman nýja áætlun þar sem reynt yrði að koma til móts við þessi sjónarmið sóknaraðila.

Hinn 28. janúar sl. var lögmanni sóknaraðila send tillaga að nýrri og ítarlegri áætlun um samstarf og meðferð málsins til lengri tíma, sbr. dskj. nr. 12. Að höfðu samráði við lögmann sóknaraðila síðar þann dag var fundi, sem fram átti að fara kl. 18:00 sama dag, frestað um ótiltekinn tíma enda hafði sóknaraðili ekki tekið afstöðu til áætlunarinnar. Lögmaður sóknaraðila kallaði eftir nánari skýringum á því hvernig varnaraðili hefði í hyggju að standa að aðstoð við sóknaraðila til að hún gæti skapað sér sjálfstæða búsetu. Í tölvupósti frá starfsmanni varnaraðila til lögmanns sóknaraðila, dags. 29. janúar sl., var þeirri fyrirspurn svarað.

Í tölvupósti, dags. 2. febrúar sl., kunngjörði lögmaður sóknaraðila varnaraðila að sóknaraðili hefði ekki í hyggju að ganga til frekara samstarfs við varnaraðila og myndi halda áfram rekstri málsins fyrir héraðsdómi.

Í kjölfarið var málið tekið fyrir á fundi varnaraðila hinn 3. febrúar sl. Á fundinum var sóknaraðila kynnt sú tillaga starfsmanna varnaraðila að varnaraðili myndi óska eftir því við Héraðsdóm Reykjaness að barnið yrði vistað í allt að sex mánuði utan heimilis. Var sóknaraðila gefinn kostur á að tjá sig um þá tillögu. Sóknaraðili kaus að tjá sig ekki fyrir varnaraðila. Lögmaður sóknaraðila mótmælti tillögunni en gerði að öðru leyti ekki athugasemdir. Hann óskaði hins vegar eftir að samningur um umgengni yrði endurskoðaður m.t.t. atvinnu sóknaraðila.

Á fundinum samþykkti varnaraðili áætlun um meðferð málsins frá 26. janúar sl. og tók ákvörðun um að óska eftir því við Héraðsdóm Reykjaness, skv. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, að dómstóllinn úrskurðaði að barnið A, kt. [...], skyldi vera kyrrt á þeim stað þar sem það nú dvelst, utan heimilis, í sex mánuði frá og með 5. janúar 2010 að telja.

Hinn 30. desember sl. kærði varnaraðili þá niðurstöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum að hætta rannsókn málsins á hendur sóknaraðila og stjúpföður barnsins. Með bréfi, dagsettu þann 3. febrúar sl., sbr. dskj. nr. 17, felldi ríkissaksóknari ákvörðun lögreglustjórans úr gildi og lagði fyrir hann að halda áfram rannsókn málsins. Í bréfinu kemur fram það mat ríkissaksóknara að leiða megi að því líkum að sóknaraðili eða stjúpfaðir barnsins hafi valdið áverkunum. Lagði ríkissaksóknari m.a. fyrir lögregluna að afla mats dómkvaddra matsmanna um málið.

III.

Til stuðnings kröfu sinni um að fella úr gildi úrskurð varnaraðila frá 5. janúar sl. vísar sóknaraðili í fyrsta lagi til þess að réttur aðili hafi ekki tekið ákvörðun í máli þessu, en ljóst sé að sóknaraðili hafi á því tímabili sem um ræðir, þ.e. frá því í lok ágúst 2009, verið með fasta búsetu að [...], [...].

Samkvæmt 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé kveðið á um valdsvið barnaverndarnefnda og samkvæmt 1. mgr. skuli barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn á fasta búsetu eiga úrlausn um málefni þess. Þá sé ennfremur kveðið svo á í 2. mgr. sömu greinar að ef barn flyst úr umdæmi nefndar á meðan hún hefur mál þess til meðferðar skuli nefnd í umdæminu sem barnið flytur í taka við meðferð máls. Þá sé ennfremur kveðið á um þessar reglur í 7. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004.

Ljóst sé af ofangreindum ákvæðum að varnaraðili hafi í máli þessu farið út fyrir staðarleg valdmörk sín en varnaraðili hafi ekki haft heimild til að fara með meðferð umrædds máls frá því í lok ágúst 2009 eða taka þá ákvörðun sem um ræðir. Valdþurrð þessi af hálfu varnaraðila eigi að leiða til þess að umræddur úrskurður verði felldur úr gildi.

Auk framangreinds kveðst sóknaraðili byggja kröfu sína um að áðurgreindur úrskurður verði felldur úr gildi, á eftirfarandi atriðum:

Í fyrsta lagi kveðst sóknaraðili telja að sú tveggja mánaða vistun sonar hennar utan heimilis, sem umræddur úrskurður kveði á um, sé ekki barninu fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002. Hér beri að líta til ungs aldurs barnsins og þess að barnið hefur ekki frá því í ágúst 2009 verið í umsjá móður sinnar, sóknaraðila. Ljóst sé að áframhaldandi vistun barnsins utan heimilis þess feli í sér mjög mikla röskun á högum þess.

Í öðru lagi sé ljóst að sóknaraðili hafi að öllu leyti sýnt mikinn samstarfsvilja við varnaraðila í máli þessu. Hafi sóknaraðili veitt samþykki sitt fyrir vistun sonar síns utan heimilis í tæpa fjóra mánuði eða frá 28. ágúst 2009 til 22. desember 2009 í því skyni að komast að niðurstöðu um ástæðu þeirra áverka sem sonur hennar greindist með í ágúst 2009. Þá hafi hún fylgt umræddum meðferðaráætlunum í hvívetna. Þá sé einnig ljóst að ekki séu lengur fyrir hendi þeir brýnu hagsmunir sem réttlætt geti vistun sonar sóknaraðila utan heimilis hennar, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002. Með bréfi, dags. 28. desember 2009, hafi lögreglustjórinn á Suðurnesjum tilkynnt að rannsókn lögreglumáls nr. 008–2009–9474 vegna áverka sonar sóknaraðila væri hætt. Ekki sé því fyrir hendi fullgild sönnun þess að sóknaraðili eða sambýlismaður hennar hafi veitt barninu áðurgreinda áverka. Þá sé ennfremur uppi læknisfræðilegur vafi um hvað valdið geti áverkanum.

Í þriðja lagi beri að líta til þess að í ljósi þess vafa sem uppi sé í málinu um tildrög áverka sonar sóknaraðila og þess að ekkert virðist rengja það að sóknaraðili hafi verið barninu góð móðir allt frá fæðingu þess, þá verði að telja að varnaraðili hafi hér ekki gætt meðalhófs við meðferð málsins. Hefðu vægari úrræði hér getað komið til skoðunar til stuðnings sóknaraðila og fjölskyldu hennar, í því skyni að ná fram því markmiði að gæta hagsmuna sonar sóknaraðila, sbr. 7. mgr. 4. gr. laga. nr. 80/2002 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í fjórða lagi beri að líta til þess að framburður vitnisins D um meðferð sambýlismanns sóknaraðila á barninu sé mjög óskýr. Í skýrslu hjá lögreglu segist hún hafa orðið vitni að því er sambýlismaður sóknaraðila hristi barn sóknaraðila harkalega. Þá hafi hún ennfremur heyrt barnið gráta óeðlilega þegar hún var í heimsókn hjá sóknaraðila og barnið var eitt með sambýlismanni sóknaraðila.

Hér beri að hafa í huga að vitnið geti ekki tilgreint með hvaða hætti hristingurinn hafði áhrif á barnið, þ.e. hvort höfuð þess hreyfðist óeðlilega við hristinginn eða hvort barnið grét eða ekki. Þá sé vitnið ennfremur óljóst í framburði sínum um viðbrögð sóknaraðila við umræddum atburði. Þá sé ljóst að vitnið hafi einungis heyrt grátur og getið sér til um að hann hafi verið óeðlilegur þrátt fyrir að hún hafi ekki haft vitneskju um hvað fór fram í herberginu þar sem barn sóknaraðila og sambýlismaður hennar voru. Að þessu leyti sé framburður vitnisins óskýr og ótrúverðugur. Þá er á það bent að framburður D eigi sér ekki stoð í framburði sóknaraðila sem hafi verið á staðnum er hinir meintu atburðir eigi að hafa átt sér stað.

Í fimmta lagi er á því byggt að sú ákvörðun sóknaraðila, að neita því að skapa sér sjálfstæða búsetu, geti ekki réttlætt umrædda ákvörðun varnaraðila um áframhaldandi vistun barns sóknaraðila utan heimilis þess. Í því sambandi vegi þungt að ekki liggi fyrir fullgild sönnun um að sambýlismaður sóknaraðila hafi veitt barni sóknaraðila umrædda áverka, en frásagnir sóknaraðila og vitnisins D beri það með sér að samband sambýlismanns sóknaraðila og barnsins hafi verið gott og að sá fyrrnefndi hafi verið barninu mjög góður. Hafi aðstæður ekki verið með þeim hætti að brýnir hagsmunir barnsins réttlæti þessa ráðstöfun.

Í sjötta lagi telji sóknaraðili að rannsóknarreglu 41. gr. laga nr. 80/2002 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið fullnægt áður en sú ákvörðun varnaraðila var tekin, sem umræddur úrskurður byggi á. Í því sambandi er bent á að varnaraðili hafi aldrei farið á heimili sóknaraðila til að kanna heimilisaðstæður á því tímabili er vistun á syni sóknaraðila hafi átt sér stað. Þá sé ljóst að ekki liggi fyrir skýrslur sóknaraðila og sambýlismanns hennar varðandi tildrög áverka sonar sóknaraðila. Ennfremur er bent á að varnaraðila hafi borist upplýsingar um að rannsókn lögreglu væri hætt í ofangreindu lögreglumáli vegna meintra brota á syni sóknaraðila, áður en úrskurður þessi var kveðinn upp, en slíkt hafi gefið tilefni til beitingar vægari úrræða en raunin varð.

Í athugasemdum sóknaraðila við greinargerð varnaraðila, sem lagar voru fram 24. febrúar sl., mótmælir sóknaraðili þeirri kröfu varnaraðila að barnið verði vistað áfram utan heimilis þess í allt að sex mánuði frá 5. janúar sl. að telja. Ekkert nýtt hafi komið fram í málinu frá því það hófst í lok ágúst 2009. Með hliðsjón af því séu ekki lengur fyrir hendi þeir brýnu hagsmunir, sem fyrir hendi hafi verið á sínum tíma og réttlætt hafi frekari vistun sonar sóknaraðila utan heimilis hennar.

Sóknaraðili bendir á að í greinargerð varnaraðila komi ekkert fram um samskipti sóknaraðila við starfsmenn varnaraðila á tímabilinu frá því í ágúst 2009 fram til janúar 2010, en sóknaraðili hafi á þessu tímabili sýnt varnaraðila mikinn samstarfsvilja.

Þá bendi margt til þess að margítrekuð loforð varnaraðila um framkvæmd umgengni sóknaraðila við barn hennar á umræddu tímabili hafi aldrei verið efnd. Hafi ákvörðun um lengd og tilhögun umgengninnar verið tekin einhliða, þ.e. án alls samráðs við sóknaraðila. Sá tveggja tíma umgengnistími, sem sóknaraðila hafi verið úthlutaður á þessu tímabili, hafi alla jafna verið skertur um allt að hálftíma þar sem starfsmaður á vegum varnaraðila hafi sótt sóknaraðila of seint á [...]. Þá hafi varnaraðili einnig lofað sóknaraðila greiðslum vegna kostnaðar hennar við að heimsækja barn sitt og við að fara í viðtöl við starfsmenn varnaraðila en sá kostnaður hafi ekki verið greiddur fyrr en eftir nokkrar ítrekanir af hálfu sóknaraðila.

Ennfremur bendir sóknaraðili á að það hafi verið henni mjög þungbært að fara alla leið til [...] að heimsækja barn sitt. Bendir sóknaraðili sérstaklega á að engar almennilegar aðstæður hafi verið fyrir hendi í heimsóknartímum og hafi hún þurft að sætta sig við það að umgangast barnið sitt í kirkju. Hafi þessi skortur á aðstæðum takmarkað mjög þá umgengni sem sóknaraðili hafi getað notið við son sinn.

Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi alla tíð verið mjög samvinnuþýð við varnaraðila á því tímabili sem um ræði hafi hún hvorki fengið þá aðstoð né þjónustu sem henni hafi verið lofað. Hafi sóknaraðili því upplifað sig sem mjög vanmáttuga í samskiptum sínum við starfsmenn varnaraðila. Hafi henni verið nóg boðið í lok desember sl. og ákveðið því að hætta samstarfi við varnaraðila en hún hafi tilkynnt það á fundi með starfsmönnum varnaraðila hinn 22. desember sl. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar sóknaraðila hafi starfsmenn varnaraðila ákveðið að kyrrsetja barnið áfram og jafnframt tekið þá ákvörðun að sóknaraðili fengi hvorki að sjá barn sitt yfir jól né áramót þrátt fyrir að hluti af fjölskyldu sóknaraðila hefði komið til landsins í heimsókn alla leið frá [...].

Þá kveðst sóknaraðili vilja halda því til haga að sóknaraðili hafi í upphafi þessa máls haft réttarstöðu grunaðs manns en strax í október sl. hafi orðið nokkuð ljóst að sóknaraðili hafi ekki átt neinn þátt í að barnið varð fyrir þeim áverkum sem það greindist með í ágúst 2009. Hafi rannsókn málsins verið hætt þann 28. desember sl., en eins og komið hafi fram hafi ríkissaksóknari lagt fyrir lögreglu að halda áfram rannsókn áðurgreinds lögreglumáls. Hafi ríkissaksóknari lagt áherslu á að óskað yrði eftir sérstakri matsgerð um áverkana þar sem sérstaklega yrði kannað af hverju þeir kynnu að stafa og hvaða skaða þeir hefðu valdið. Ljóst sé því að ríkissaksóknari telji að ekki liggi fyrir nægjanlegar sannanir um að barnið hafi orðið fyrir þeim áverkum sem varnaraðili telji barnið hafa orðið fyrir. Því verði að telja að vangaveltur varnaraðila í greinargerð um slíkt séu rangar hvað þennan þátt varðar.

Hvað varði þá tillögu varnaraðila að skapa sóknaraðila sjálfstæða búsetu telji sóknaraðili sér ekki fært að samþykkja hana, sérstaklega í ljósi þess vafa sem uppi sé um það hvort hún geti stundað atvinnu á þeim stað þar sem barnið er í vistun, þ.e. á [...]. Sóknaraðili sé nú atvinnulaus og hafi því engin laun. Hafi varnaraðili talið sig geta veitt sóknaraðila styrk sem hún gæti lifað á en þegar á hafi reynt hafi komið í ljós að sóknaraðili átti að sækja þær greiðslur til [...], sbr. meðfylgjandi afrit af netpósti frá starfsmanni varnaraðila. Með hliðsjón af því sem á undan sé gengið og þeirri reynslu sem sóknaraðili hafi af samskiptum við varnaraðila geti sóknaraðili ekki treyst því að fá þá hjálp sem varnaraðili hafi boðið henni. Af þeirri ástæðu hafi sóknaraðili hafnað áætlun varnaraðila frá 26. janúar sl.

Sú krafa varnaraðila að framlengja vistun barnsins í sex mánuði utan heimilis þess, án þess að kanna aðstæður nánar hjá sóknaraðila, bendi eindregið til þess að hér liggi til grundvallar aðrar ástæður en þær sem varnaraðili vilji halda fram í greinargerð sinni, þ.e. að verið sé að tryggja öryggi barnsins. Það sé með ólíkindum að vægari úrræði skuli ekki rædd, sérstaklega í ljósi þess að móðirin er ung erlend kona.

Að lokum kveðst sóknaraðili vísa til þess að athyglisvert sé að í greinargerð varnaraðila sé krafan um framlengingu á kyrrsetningu barnsins studd þeim rökum að það muni taka einhvern tíma að koma á samstarfi við sóknaraðila. Varnaraðili hafi hins vegar nú þegar sýnt það í verki að hann hafi hvorki áhuga né getu til slíks samstarfs. Í því sambandi er sérstaklega bent á þá ákvörðun varnaraðila að neita ungri móður, sóknaraðila, um að sjá barn sitt yfir jólahátíðina. Hins vegar sé ljóst að sóknaraðili hafi margítrekað reynt að koma til móts við varnaraðila en án árangurs. Kveðst sóknaraðili því mótmæla framangreindum rökum varnaraðila sem röngum.

IV.

Málsástæður varnaraðila vegna kröfu varnaraðila um áframhaldandi kyrrsetningu/vistun utan heimilis eru eftirfarandi:

Samkvæmt 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80 frá 2002 eigi börn rétt á vernd og umönnun. Þá skuli við uppeldi barna sýna þeim virðingu og umhyggju en óheimilt sé að beita börn hvers konar ofbeldi. Samkvæmt 2. gr. laganna sé markmið þeirra að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þá skuli í barnaverndarstarfi leitast við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki þeirra en beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það eigi við.

Varnaraðili bendi á að í 4. gr. laganna séu tilgreindar ákveðnar meginreglur sem hafa skuli í heiðri í barnaverndarstarfi. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skuli í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Í 3. mgr. sömu greinar komi fram að barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleika í uppvexti barna. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. skuli barnaverndaryfirvöld í starfi sínu leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. skuli barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Í 12. gr. laga um barnavernd nr. 80 frá 2002 sé fjallað um hlutverk barnaverndarnefnda. Í 2. tl. 1. mgr. 12 gr. segi: „Barnaverndarnefndir skulu beita þeim úrræðum samkvæmt lögum þessum til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.“ Í 2. gr. sömu greinar sé tekið fram að barnaverndarnefnd sé skylt að aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum sínum og grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt ákvæðum þessara laga ef nauðsyn beri til.

Í málinu liggi fyrir að barn sóknaraðila, A, hafi verið lagður inn á spítala vegna hratt vaxandi höfuðmáls. Við rannsóknir hafi komið í ljós blæðingar undir heilabast beggja vegna og blæðingar í augnbotnum. Um sé að ræða mjög alvarleg einkenni/áverka sem leitt geti til dauða eða varanlegrar sköddunar sé ekkert að gert. Í læknabréfi Halldóru Kristínar Þórarinsdóttur, dags. 28. ágúst 2009, komi fram að þegar þetta hafi verið staðreynt hafi strax vaknað grunur um að barnið hafi verið beitt ofbeldi „child abuse“ en sjúkdómar hafi verið útilokaðir.

Í viðtölum starfsmanna varnaraðila við lækna, sem annast hafi barnið sbr. greinargerð um könnun máls frá 27. ágúst 2008, komi fram að læknar hafi metið ástand barnsins svo að það hafi að líkindum orðið fyrir höggi eða verið hrist. Rannsóknarniðurstöður hafi ekki leitt í ljós neina sjúkdóma sem skýri einkenni barnsins. Umtalsverðar líkur séu á því að barnið hafi orðið fyrir ytri áverka, s.s. verið hrist eða fengið höfuðhögg. Áverkarnir séu það miklir að afar ólíklegt sé að barnið hafi orðið fyrir svo miklu hnjaski án þess að þeir sem höfðu hann í umsjá sinni hefðu orðið þess varir. Framangreint sé staðfest með tölvupóstsamskiptum starfsmanna varnaraðila við lækna sem annast hafa barnið frá því í september 2009. Þar komi jafnframt fram það álit Mikaels Mosskin, læknis á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi að myndir sem hann hafi skoðað bendi til þess að barnið hafi verið beitt ofbeldi.

Í dagál Péturs Lúðvígssonar læknis, dags. 24. ágúst 2009, sé tekið fram að augnlæknir hafi séð tvær blæðingar í vinstra augnbotni sem „... gátu komið heim og saman við shaken infant syndrome.“ Í skýrslu Halldórs Benediktssonar, sem gerð hafi verið eftir segulómun á heila sé tekið fram að útlit bendi til blæðinga af mismunandi aldri. Sé það í samræmi við álit Mikaels Mosskins, læknis á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.

Samantekið sé niðurstaða þeirra lækna sem komið hafi að málinu sú að rannsóknarniðurstöður hafi ekki leitt í ljós neina sjúkdóma. Umtalsverðar líkur séu á því að barnið hafi orðið fyrir ytri áverka, s.s. verið hrist eða fengið höfuðhögg. Áverkarnir séu það miklir að ólíklegt sé að barnið hafi orðið fyrir svo miklu hnjaski án þess að þeir sem höfðu hann í umsjá sinni hefðu orðið þess varir. Þá gefi gögn til kynna að ekki sé útilokað að um endurtekna áverka sé að ræða. Varnaraðili kveðst telja með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi gagna að verulegar líkur séu á því að barnið hafi verið beitt ofbeldi sem leitt hafi til hinna lífshættulegu áverka og hins alvarlega ástands.

Í skýrslum sóknaraðila og sambýlismanns hennar hjá lögreglu komi skýrt fram að enginn annar en þau hafi annast barnið, A. Þá fullyrði þau bæði að barnið hafi ekki orðið fyrir neinu hnjaski eða slysi. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi vitnið D lýst atvikum, sem bendi til þess að stjúpfaðir barnsins hafi hrist það. Þá liggi fyrir gögn í málinu frá lögreglu um að stjúpfaðir barnsins sé eftirlýstur í [...] og á skrá fyrir ýmis brot, s.s. líkamsmeiðingar/slagsmál, fjársvik og ölvunarakstur.

Í sálfræðiskýrslu um sóknaraðila komi fram, að varðandi spurninguna um foreldrahæfni ætti frekar að horfa til þeirrar breytni sem mögulega hafi átt sér stað en þeirrar myndar, sem dregin hafi verið upp í skýrslunni og sé í stórum dráttum innan ásættanlegra marka. Engin skýrsla sálfræðings liggi fyrir vegna sambýlismanns sóknaraðila þar sem hann hafi ekki mætt í þau viðtöl sem boðuð höfðu verið.

Varnaraðili kveður frumskyldu nefndarinnar skv. 1. mgr. 4. gr. og 2. gr.  laga um barnavernd vera þá að tryggja öryggi barns. Á grundvelli framangreindra upplýsinga hafi varnaraðili talið að barnið væri ekki öruggt á heimili sóknaraðila, a.m.k. ekki að svo stöddu. Sóknaraðili hafi hafnað frekari samvinnu við nefndina á grundvelli tillagna varnaraðila nema hún fengi vissu fyrir því hvenær hún fengi barnið heim en slíka yfirlýsingu sé ógerningur fyrir varnaraðila að gefa. Þá hafi ekki komið til greina af hálfu sóknaraðila að hún skapaði sér sjálfstæða búsetu. Engu skipti fyrir þá afstöðu hennar hvort varnaraðili tryggði henni fjárhagslega getu til þess.

Til að tryggja öryggi barnsins, á meðan enn yrði reynt að ná samkomulagi um áætlun við sóknaraðila, hafi varnaraðili talið að engin vægari úrræði væru möguleg önnur en þau að vista barnið áfram utan heimilisins, enda ógerningur að tryggja öryggi barnsins með eftirliti á heimili sóknaraðila. Varnaraðila hafi þá verið nauðugur sá kostur að kyrrsetja barnið á þeim stað sem það dvaldist í tvo mánuði, gegn vilja sóknaraðila, á grundvelli 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, svo sem gert hafi verið með hinum kærða úrskurði frá 5. janúar sl. Í framhaldinu yrði leitast við að ná samstarfi við sóknaraðila, upplýsa málið frekar og gefa sóknaraðila tíma til að átta sig á stöðu sinni.

Þegar liðið hafi á janúarmánuð hafi verið ljóst að sóknaraðili hafnaði áfram samstarfi við varnaraðila og leitaðist við að fá úrskurði varnaraðila hnekkt fyrir dómstólum og barnið þar með afhent. Engar forsendur höfðu hins vegar breyst í málinu. Til að tryggja öryggi barnsins áfram, festu í uppeldi þess og til að reyna til þrautar að koma á samstarfi við sóknaraðila, m.t.t. meðalhófsreglu og þeirrar skyldu barnaverndarnefnda að aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum, hafi verið ljóst að afla þyrfti heimildar dómstóla fyrir lengri vistun en varnaraðili hafi heimild til að ákveða skv. 27. gr. barnaverndarlaga. Það hafi þurft að gera tímanlega þannig að niðurstaða dómstóls lægi fyrir áður en tveggja mánaða kyrrsetning barnsins rynni út.

Á fundi varnaraðila hinn 27. janúar sl. hafi verið lögð fram ný áætlun. Í þeirri áætlun hafi verið lagt til að nefndin tæki ákvörðun um málshöfðun skv. 28. gr. barnaverndarlaga. Fundinum hafi verið frestað þar sem sóknaraðili hafi sýnt vilja til samstarfs, m.a. með því að lýsa því yfir að hún væri hugsanlega tilbúin til að skapa sér sjálfstæða búsetu. Varnaraðili hafi unnið ítarlega áætlun til að leitast við að koma til móts við sjónarmið sóknaraðila. Samkvæmt áætluninni hafi barnaverndarnefnd átt að styðja sóknaraðila í því að skapa sér sjálfstæða búsetu og sóknaraðili að sækja viðtöl hjá sálfræðingi í þeim tilgangi að styrkja sig í uppeldishlutverkinu. Hafi áætlunin miðað að því að athugað yrði, á því tímamarki er skýrsla sálfræðings lægi fyrir, hvort hægt yrði að hefja aðlögun að heimkomu barnsins. Sóknaraðili hafi hafnað áætluninni og samstarfi við varnaraðila án athugasemda á fundi varnaraðila hinn 3. febrúar sl.

Varnaraðili hafi því samþykkt á fundi sínum hinn 3. febrúar sl. fyrirliggjandi áætlun frá 26. janúar til að reyna enn einu sinni að koma á samstarfi við sóknaraðila. Nefndin hafi jafnframt óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjaness að dómurinn úrskurðaði um þá kröfu sem höfð sé uppi í máli þessu, þ.e. að barnið yrði kyrrsett áfram á þeim stað þar sem það nú dvelst á í sex mánuði frá 5. janúar 2010 að telja.

Framangreind krafa byggi á því að öryggi barnsins verði ekki tryggt með öðru og vægara úrræði. Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafi hafnað öllu samstarfi við nefndina þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá hana til samstarfs.

Um grundvöll fyrir því að setja fram kröfu skv. 28. gr. barnaverndarlaga í máli sem sóknaraðili hefur höfðað til ógildingar úrskurði varnaraðila á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga vísar varnaraðili til dómafordæma, m.a. til dóma Hæstaréttar í málum nr. 313/2008 frá 16. júní 2008, nr. 399/2008 frá 30. júlí 2008 og nr. 682/2008 frá 16. janúar 2009. Jafnframt er vísað til grunnreglu barnaverndarlaga um öryggi barna og reglunnar um skjóta málsmeðferð, sbr. 3. mgr. 54. gr. laga um barnavernd. Jafnframt er vísað til ákvæða einkamálalaga nr. 91 frá 1991 um gagnstefnu og sameiningu mála sbr. 28.–30. gr. laganna.

Eins og fram komi í gögnum málsins hafi varnaraðili reynt til þrautar að ná samstarfi við sóknaraðila. Úrskurður varnaraðila frá 5. janúar 2010 um tveggja mánaða kyrrsetningu skv. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga gildi frá 5. janúar til 5. mars 2010. Eftir að sóknaraðili hafi hinn 2. febrúar sl. hafnað meðferðaráætlun, dags. 27. janúar sl., og kært úrskurð varnaraðila til dómsins sé ljóst að litlar líkur hafi verið á því að ná samstarfi um framhald málsins fyrir 5. mars nk., m.a. á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólnum.

Krafan um sex mánaða kyrrsetningu frá 5. janúar að telja veiti varnaraðila því í raun fjóra mánuði til viðbótar til að reyna að koma á samstarfi við sóknaraðila. Takist það ekki þurfi varnaraðili að taka ákvörðun um framhald málsins innan sama tímabils og gera viðeigandi ráðstafanir, s.s. að óska eftir framlengingu á vistun á grundvelli 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga eða taka ákvörðun um að höfða mál til sviptingar forsjár skv. 29. gr. s.l.

Varnaraðili kveður meginregluna vera þá samkvæmt 15. gr. laga um barnavernd að flytji barn úr umdæmi nefndar á meðan mál þess er til meðferðar flytjist mál þess til nefndar í því umdæmi. Undantekningar á þessu séu tilgreindar í 3. og 4. mgr. Í 3. mgr. sé tekið fram að ef það þyki hentugra geti barnaverndarnefndir samið svo sín á milli að mál sé rekið í öðru umdæmi. Í 4. mgr. 15. gr. sé mælt svo fyrir að ef barnaverndarnefnd ráðstafi barni í fóstur eða vistun í annað umdæmi fari hún áfram með málið.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 56 frá 2004, um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, sé mælt fyrir um að ráðstafi barnaverndarnefnd barni í fóstur eða vistun í annað umdæmi fari nefndin áfram með málið á meðan ráðstöfunin vari. Flytji forsjáraðili á meðan slík ráðstöfun vari eigi barnaverndarnefnd í því umdæmi sem forsjáraðili flyst til að taka við málinu nema samið sé um annað skv. 15. gr. laganna.

Í máli þessu hafði barninu verið ráðstafað í vistun þegar sóknaraðili flutti í annað umdæmi þ.e. til Reykjanesbæjar. Starfsmenn varnaraðila hafi haft samband við barnaverndaryfirvöld í Reykjanesbæ, sem óskað hafi eftir að málið yrði áfram rekið af hálfu varnaraðila. Varnaraðili sé því fyllilega bær til að reka mál þetta, sbr. heimild í 3. mgr. 15. gr. og 7. gr. reglugerðar nr. 56 frá 2004, enda þyki hentugra að varnaraðili haldi málinu áfram þar sem varnaraðili þekkir málið í stað þess að fela það nýrri nefnd og tefja þannig málsmeðferð. Varnaraðila sé og heimilt skv. 4. mgr. 15. gr. laganna og 7. gr. reglugerðar nr. 56 frá 2004 að reka málið áfram þar sem barninu hafði verið ráðstafað í vistun og sú ráðstöfun vari enn. Varnaraðili hafi því verið fullkomlega bær samkvæmt ákvæðum laga um barnavernd að taka hina kærðu ákvörðun og óska eftir úrskurði héraðsdóms um áframhaldandi vistun barnsins utan heimilis.

Ekki verði séð að sóknaraðili hafi neitt óhagræði af því að málið sé rekið af varnaraðila né að af því hafi hlotist nein réttarspjöll. Þá sé rétt að benda á að sóknaraðili hafi ekki borið þessu við áður í málinu eða mótmælt meðferð málsins á þessu forsendum fyrr en með kröfugerð sinni fyrir dómnum svo sem rétt hefði verið að gera væri á þessu byggt. Varnaraðili telji þessa málsástæðu því of seint fram komna en sóknaraðili hafi notið aðstoðar lögmanns við meðferð málsins hjá varnaraðila. Framangreind ráðstöfun sé og eðlileg í ljósi þeirra meginreglna laga um barnavernd að tryggja samfellu í uppeldi barna og flýta málsmeðferð fyrir barnaverndaryfirvöldum eins og kostur sé.

Varnaraðili kveðst mótmæla því að málið hafi ekki verið rannsakað eins og nauðsynlegt verði að telja. Telji varnaraðili að allar nauðsynlegar upplýsingar sem varnaraðili hafi haft möguleika á að afla á þessu stigi málsins liggi fyrir. Engin þörf hafi verið á því að fara á heimili sóknaraðila, enda snúist málið ekki um að aðstæður þar séu ófullnægjandi að öðru leyti en því að öryggi barnsins sé ekki borgið þar. Varnaraðili fái ekki séð hvernig heimsóknir á heimili sóknaraðila gætu haft áhrif á það mat og ákvarðanir varnaraðila. Hvað varði viðtöl við sóknaraðila og fósturföður barnsins þá liggi fyrir í málinu ítarlegar lögregluskýrslur af þeim báðum, auk sálfræðilegrar athugunar C sálfræðings, dags. 21. október 2009. Að auki hafi starfsmenn varnaraðila átt marga fundi með sóknaraðila vegna málsins, auk þess sem hún hafi komið á þrjá fundi varnaraðila og verið gefinn kostur á að tjá sig um málið á öllum fundunum. Bendir varnaraðili á að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga um barnavernd.

V.

Samkvæmt efni og hljóðan úrskurðar varnaraðila, sem kveðinn var upp 5. janúar sl., gildir áframhaldandi vistun barnsins á þeim stað þar sem barnið var í fóstri í tvo mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins eða til 5. mars nk., en ekki frá 22. desember til 1. mars 2010 eins og gert er ráð fyrir í dómkröfum sóknaraðila.

Fram hefur komið að sóknaraðili flutti lögheimili sitt úr umdæmi barnaverndarnefndar X og til [...] skömmu eftir að nefndin hóf afskipti af máli þessu. Virðist flutningurinn hafa átt sér stað eftir að sóknaraðili undirritaði áætlun um meðferð máls hinn 27. ágúst sl. þar sem hún samþykkti að vista barnið utan heimilis samkvæmt b-lið 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 í allt að tvo mánuði. Þá hefur komið fram að barnið hefur verið vistað utan heimilis frá þeim tíma og að sú ráðstöfun varir enn.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga er meginreglan sú að barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn á fasta búsetu eigi úrlausn um málefni þess. Er í 2. mgr. gert ráð fyrir að ef barn flytur úr umdæmi nefndar á meðan nefndin hefur mál þess til meðferðar skuli barnaverndarnefnd í umdæminu sem barn flytur í taka við meðferð þess. Mælt er fyrir um undantekningar frá þessari reglu í 3. mgr.

Í 4. mgr. 15. gr. segir að ef barnaverndarnefnd ráðstafar barni í fóstur eða vistun í annað umdæmi fari hún áfram með málið. Í 7. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd segir og að ef barnaverndarnefnd ráðstafar barni í fóstur eða vistun í annað umdæmi fari nefndin áfram með málið meðan ráðstöfun varir. Þá segir að ef forsjáraðili barns flyst úr umdæmi nefndar á meðan fóstur eða vistun varir skuli barnaverndarnefnd í umdæminu sem forsjáraðili flytur í taka við meðferð þess þegar fóstur- eða vistunarsamningur fellur úr gildi nema annað sé ákveðið með heimild í 15. gr. barnaverndarlaga. Þá segir að barnaverndarnefndin sem ráðstafaði barni skuli tilkynna um flutninginn til nefndar í viðkomandi umdæmi tímanlega áður en fóstur- eða vistunarsamningur fellur úr gildi.

Með vísan til framangreinds, sérstaklega 4. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga og 7. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, er ekki fallist á með sóknaraðila að varnaraðila hafi skort heimild til að fara með meðferð málsins og taka hina kærðu ákvörðun.

Í 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir að markmið laganna sé að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þá segir að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.

Í 4. gr. laganna, sem fjallar um meginreglur í barnaverndarstarfi, segir í 1. mgr. að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Í 3. mgr. segir að barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleika í uppvexti barna og í 4. mgr. segir að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Loks segir í 7. mgr. að barnaverndaryfirvöld skuli ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Barn sóknaraðila hefur nú verið vistað utan heimilis þess frá 27. ágúst sl. eða í rúma sex mánuði. Á þeim tíma hefur sóknaraðili haft rétt til að umgangast barnið undir eftirliti í tvo klukkutíma tvisvar í viku.

Rannsókn lögreglu vegna ætlaðs brots gegn barninu samkvæmt 218., 219. eða 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hófst í lok ágúst sl. og höfðu sóknaraðili og sambýlismaður hennar, B, stöðu grunaðra manna við rannsóknina. Með bréfi, dags. 28. desember 2009, tilkynnti lögreglustjórinn á Suðurnesjum sóknaraðila og sambýlismanni hennar að ákveðið hefði verið að fella rannsókn málsins niður þar sem lögreglustjóra þætti ekki efni til að halda henni áfram.

Eins og fram hefur komið kærði varnaraðili þessa ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til ríkissaksóknara, sem ákvað hinn 3. febrúar sl. að fella áðurgreinda ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum úr gildi og lagði fyrir lögreglustjórann að halda rannsókninni áfram. Einnig var lagt fyrir lögreglustjóra að fá dómkvadda matsmenn til að meta af hverju áverkarnir kunni að stafa og hvaða skaða þeir hafi valdið. Í ákvörðun ríkissaksóknara kemur og fram að leiða megi að því líkur að móðir eða fósturfaðir brotaþola hafi valdið fyrrnefndum áverkum.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að bæði sóknaraðili og sambýlismaður hennar hafa enn réttarstöðu sakborninga við lögreglurannsókn málsins.

Í gögnum málsins kemur fram að drengurinn gekkst undir aðgerð á Landspítala háskólasjúkrahúsi hinn 21. ágúst sl., sem virðist hafa tekist vel og staðfesti Pétur Lúðvígsson, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum barna, hér fyrir dómi að gangur mála hefði verið góður eftir aðgerðina. Hann sagði að höfuðmál barnsins hefði ekki aukist frekar og að eftirfylgnin benti til þess að meðferðin hefði gengið eins vel og vonast var til.

Fram hefur komið hjá varnaraðila að grunsemdir varnaraðila beinist ekki að því að aðstæður á heimili sóknaraðila séu ófullnægjandi að öðru leyti en því að öryggi barnsins sé ekki borgið þar. Ljóst er af gögnum málsins að nefndin hefur leitast við að ná samkomulagi við sóknaraðila um að skapa sér sjálfstæða búsetu, eins og það er orðað, þ.e. að hún búi ekki á sama heimili og B, sbr. tillögu að áætlun dags. 2. og 22. desember 2009 og 27. janúar 2010. Í tillögu að áætlun frá 2. desember og 27. janúar sl. er gert ráð fyrir að sóknaraðili fallist á að tryggja að engin samskipti séu á milli sambýlismanns hennar og barnsins og að sambýlismaðurinn komi ekki inn á heimili hennar á tímabili áætlunarinnar.

Í símaskýrslu lögreglu, dags. 26. ágúst sl., er haft eftir E, yfirhjúkrunarfræðingi í [...], að hún hafi farið á heimili sóknaraðila í eftirlit vegna ungbarnaverndar. Barnið hefði alltaf verið hreint og allt verið með eðlilegu móti. Þá kemur fram kemur í greinargerð varnaraðila um könnun máls, dags. 27. ágúst sl., að E hafi komið til viðtals við starfsmenn barnaverndarnefndar. Þar hafi hún tjáð starfsmönnum að hún hefði sinnt móður og barni frá því að þau komu af fæðingardeild í hefðbundnu ungbarnaeftirliti og m.a. farið heim til móður í tvö til þrjú skipti. Hún hefði ekki orðið vör við nein merki um vanrækslu. Þá hefði hún tjáð starfsmönnum að móðir hefði ekki virst hafa neinar áhyggjur af höfuðlagi barnsins en skýrt frá því að sambýlismanni hennar hefði þótt höfuðlagið einkennilegt.

Þá kemur fram í skýrslu D hjá lögreglu 15. september sl. að samband sóknaraðila við barnið hafi verið gott og að sóknaraðili og B, sambýlismaður hennar, hafi hugsað vel um það. Jafnframt að hún hafi oft séð B skipta á barninu og gefa því að borða, en hún hafi komið á heimili sóknaraðila og sambýlismanns hennar á nánast hverjum degi frá miðjum júní og fram í miðjan júlí.

Loks kemur fram í sálfræðilegri athugun C sálfræðings, dags. 21. október sl., að hann hafi fylgst með samskiptum sóknaraðila og sambýlismanns hennar við drenginn á meðan á umgengni stóð hinn 2. október sl. Þar segir að sóknaraðili hafi haldið sig frekar til hlés en B sinnt drengnum. Drengurinn hafi legið á sófa og þau setið hjá honum. B hafi tekið drenginn upp og látið vel að honum. Gæslukona á staðnum hafi tjáð sálfræðingnum að þetta væri mynstrið þegar þau væru bæði á staðnum, þ.e. B sinnti drengnum en sóknaraðili skipti sér lítið af.

Eins og áður greinir var það ætlun varnaraðila að ná samkomulagi við sóknaraðila um að hún skapaði sér sjálfstæða búsetu, þ.e. samþykkti að búa ekki á sama heimili og B, og sæi jafnframt til þess að B kæmi ekki inn á heimilið og ætti engin samskipti við barnið á tímabili áætlunar varnaraðila. Gengi sóknaraðili að þessum skilmálum skyldi barnaverndarnefnd taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til að hefja aðlögun vegna heimkomu barnsins til móður.

Í áðurgreindri áætlun kemur fram að ætlun varnaraðila var að hafa eftirlit með heimili sóknaraðila með því að koma í boðaðar og óboðaðar heimsóknir til sóknaraðila og tryggja þannig öryggi barnsins á heimilinu.

Ljóst er að hugur sóknaraðila stendur ekki til þess að slíta sambandi sínu við núverandi sambýlismann sinn, B, þrátt fyrir að til greina hafi komið hjá henni að slíta sambúð þeirra tímabundið til að koma til móts við óskir varnaraðila.

Í ljósi framangreinds verður að telja, að einu gildi hvort sambýlismaður sóknaraðila víkur af heimilinu eða ekki, þar sem í báðum tilvikum sé jafnlíklegt að varnaraðili nái því lögmælta markmiði sínu að tryggja öryggi barnsins á heimilinu með öflugu eftirliti, s.s. boðuðum og óboðuðum heimsóknum á heimilið og með því að styrkja sóknaraðila og sambýlismann hennar í uppeldishlutverkinu með fræðslu og beinum stuðningi. Hér verður að hafa í huga að þótt bæði sóknaraðili og sambýlismaður hennar hafi enn stöðu sakborninga við áðurgreinda lögreglurannsókn virðist rannsókn málsins litlu hafa skilað hingað til.

Eins og áður greinir skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barninu sé fyrir bestu. Eins og atvikum málsins er háttað verður að telja að barninu sé fyrir bestu að það fái að dvelja hjá móður sinni og fósturföður undir öflugu eftirliti varnaraðila og að með því móti sé stuðlað að stöðugleika í uppvexti þess.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að fella beri úr gildi úrskurð varnaraðila frá 5. janúar 2010, um að barnið A, kt. [...], skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í tvo mánuði.

Þá er kröfu varnaraðila um að barnið skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það nú dvelst, utan heimilis, í sex mánuði frá og með 5. janúar 2010 að telja, hafnað.

Af hálfu sóknaraðila er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en með bréfi dóms- og mannréttindaráðuneytisins, dags. 25. febrúar 2010, var sóknaraðila veitt gjafsókn vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi. Engin málskostnaðarkrafa er gerð af hálfu varnaraðila.

Rétt þykir að fella niður málskostnað í málinu.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem felst í þóknun lögmanns hennar, Ásbjörns Jónssonar hdl,, og þykir hæfilega ákveðin 815.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurðarorð:

Úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar X, frá 5. janúar 2010, um að barn sóknaraðila, K, A, kt. [...], skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í tvo mánuði, er felldur úr gildi.

Kröfu varnaraðila um að barnið skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það nú dvelst, utan heimilis, í sex mánuði frá og með 5. janúar 2010 að telja, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þóknun lögmanns hennar, Ásbjörns Jónssonar hdl., 815.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði.