Hæstiréttur íslands

Mál nr. 427/2016

Félag atvinnurekenda (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (enginn) og Bændasamtökum Íslands (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Flýtimeðferð

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu F um að mál sem hann hugðist höfða á hendur Í og B sætti flýtimeðferð þar sem skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 var ekki fullnægt í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 3. júní 2016, en kærumálsgögn bárust Hæstarétti 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2016 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli hans á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu og heimila flýtimeðferð.

Varnaraðilar hafa ekki átt þess kost að láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hyggst sóknaraðili höfða mál á hendur varnaraðilum og krefjast þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að samningur þeirra á milli um starfsskilyrði nautgriparæktar 19. febrúar 2016 sé ólögmætur, en til vara að tilteknar þrjár greinar hans séu ólögmætar. Í umræddum samningi segir að hann gildi frá og með 1. janúar 2017 og jafnframt kemur þar fram að samningurinn sé undirritaður af hálfu varnaraðilans íslenska ríkisins „með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis.“ Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum nr. 99/1993, búnaðarlögum nr. 70/1998 og tollalögum nr. 88/2005. Í athugasemdum með frumvarpinu er tilefni þess sagt vera að lögfesta þær breytingar, sem fjórir samningar milli varnaraðila er undirritaðir voru 19. febrúar 2016, þar á meðal áðurgreindur samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar, geri ráð fyrir og nauðsynlegt sé að gera svo að þeir geti tekið gildi 1. janúar 2017. Frumvarpið hefur ekki verið afgreitt og því óvíst hver verða afdrif þess.

Sóknaraðili er ekki aðili að þeim samningi sem fyrirhuguð málsókn hans lýtur að. Að teknu tilliti til þess og annarra málsatvika hefur sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um þær kröfur sem hann hyggst tefla fram í fyrirhuguðu dómsmáli. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að málið sæti flýtimeðferð, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. janúar 2014 í máli nr. 816/2013. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2016.

I

Með bréfi, dagsettu 27. maí sl. og mótteknu sama dag, fór Páll Rúnar Mikael Kristjánsson hrl. þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðandi hans, Félag atvinnurekenda, Kringlunni 7, Reykjavík, hyggst höfða á hendur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, f.h. íslenska ríkisins, og Bændasamtökum Íslands sætti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Samkvæmt meðfylgjandi stefnu hljóða kröfur stefnanda þannig: „...aðallega að viðurkennt verði með dómi að samningur stefndu um starfsskilyrði nautgriparæktar sem dagsettur er 19. febrúar 2016, sé ólögmætur. Og til vara kveðst stefnandi gera þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að 11., 12 og 13. gr. samnings stefndu um starfsskilyrði nautgriparæktar sem dagsettur er 19. febrúar 2016 séu ólögmætar.“ Einnig krefst stefnandi málskostnaðar.

II

Til stuðnings kröfu sinni um flýtimeðferð málsins bendir lögmaðurinn á að til standi að halda Alþingiskosningar á haustmánuðum. Af þeirri ástæðu sé nú fjölda mála flýtt í gengum þingið. Umræddur samningur, eða svokallaður búvörusamningur, þ.e. samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar, verði tekinn fyrir á Alþingi eftir tvær vikur, og því sé ráðrúm stefnanda til að sækja dóm um ólögmæti samningsins takmarkaðra en ella. Nauðsynlegt sé því að hraða málinu eins og kostur sé. Í téðu bréfi lögmannsins er bent á að umræddur samningur byggi á 30. gr. búvörulaga nr. 99/1993, og sé hann gerður til 10 ára, þrátt fyrir að slíkir samningar eigi lögum samkvæmt að vera til eins árs, þótt heimilt sé að gera þá til lengri tíma. Telur stefnandi að efni samningsins sé langt frá því að vera bundið við greiðslur til framleiðenda mjólkurafurða eða til að tryggja tiltekið afurðaverð til bænda. Í samningnum semji ráðherra t.d. við Bændasamtök Íslands um að lagðar verði miklar álögur á þá sem keppi við innlenda landbúnaðarframleiðslu, auk þess sem framleiðsla innlends samkeppnisrekstrar sé niðurgreidd um milljarða króna ár hvert. Byggt er á því að samningurinn sé í andstöðu við lögmætisreglu íslensks réttar, auk þess sem hann brjóti gegn ákvæðum samkeppnislaga, ákvæðum stjórnarskrár, sér í lagi 2., 40., 65., 72., 74., og 76. gr., þingræðisreglu íslenskrar stjórnskipunar og banni við afturvirkni laga. Jafnframt telur stefnandi að ráðherra hafi með samningi þessum brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til ofanritaðs telur lögmaðurinn að uppfyllt séu öll skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 til þess að verða við beiðni hans um flýtimeðferð málsins.

III

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Við mat á því hvenær brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni verður að líta til atvika hverju sinni. Þar sem umrætt ákvæði felur jafnframt í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga verður að skýra  það þröngri lögskýringu.

Meðal gagna málsins er umræddur samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar, svokallaður búvörusamningur, og er hann dagsettur 19. febrúar 2016. Í gr. 16.4 segir eftirfarandi: „Samningur þessi er undirritaður f.h. ríkisstjórnar Íslands með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis. Af hálfu Bændasamtaka Íslands er samningur þessi undirritaður með fyrirvara um samþykki kúabænda.“

Tilefni fyrirhugaðrar málsóknar stefnanda á hendur stefndu er að fyrir Alþingi liggur nú stjórnarfumvarp um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, og er frumvarpið lagt fram í kjölfar þess samnings sem hér hefur verið fjallað um. Eins og áður greinir byggir stefnandi á því að sá samningur sé ólögmætur.

Umrætt lagafrumvarp er í meðförum þingsins og því óvíst um afdrif þess. Fyrir vikið verður ekkert fullyrt um að fyrirhuguð lagasetning muni hafa áhrif á hagsmuni stefnanda, þótt óljóst sé raunar hverjir þeir hagsmunir eru eða kunni að verða eins og málið liggur nú fyrir. Þá fær dómurinn ekki annað ráðið en að kröfur stefnanda, eins og þær eru orðaðar í fyrirliggjandi stefnu, feli í sér lögspurningu, og fari þannig í bága við fyrirmæli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 Með vísan til ofanritaðs eru ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 til þess að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla sömu laga. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli Félags atvinnurekenda gegn íslenska ríkinu og Bændasamtökum Íslands.