Hæstiréttur íslands

Mál nr. 221/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                         

Miðvikudaginn 9. júní 1999.

Nr. 221/1999.

Sýslumaðurinn á Akranesi

(Ólafur Þór Hauksson sýslumaður)

gegn

X

(Tryggvi Bjarnason hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 6. júní 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 12. júní nk. kl. 12. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, svo sem lögunum var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999.

Það athugast að samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili handtekinn 5. júní sl. kl. 9.15, en ekki leiddur fyrir dómara fyrr en kl. 9.47 næsta dag. Þessi töf, sem ekki hefur verið nægilega réttlætt, var andstæð 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 6. júní 1999.

                Sýslumaðurinn á Akranesi krefst þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 12. júní nk. kl. 12:00. 

                Lögreglan á Akranesi handtók kærða, X, kl. 9:15 í gærmorgun. Dómara var kl. um 22:30 í gærkvöldi tilkynnt símleiðis um kröfu sýslumanns og var þá ákveðin fyrirtaka málsins kl. 9:30 í morgun. Var málið þá tekið fyrir og til úrskurðar.

                Sýslumaður styður kröfu sína um gæsluvarðhald við 1. mgr. 103 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. a-lið þeirrar málsgreinar.

                Af hálfu kærða er kröfunni um gæsluvarðhaldsúrskurð mótmælt. Verjandi kærða telur að ekki liggi fyrir sú rannsóknarnauðsyn sem lögreglan heldur fram og að grunur um brot kærða sé ekki nægjanlega vel rökstuddur.

[...]

Niðurstöður.

                Lögreglan á Akranesi handtók í gær bræðurnar Z og Y. Þeir voru á stolnum bíl og í honum var þýfi úr innbrotum sem lögreglan er að rannsaka. Upplýst er með frásögn kærða hér fyrir dómi að hann kom með nefndum Z frá Reykjavík til Akraness sl. föstudagskvöld og að hann var með þeim bræðrum báðum á krá hér á Akranesi og á ferð með þeim eftir lokun krárinnar einhvern tíma fram undir morgun.

                Þegar kærði var handtekinn fannst á honum gullhálsmen sem ástæða er til að ætla að hafi verið stolið úr húsinu [...] á Akranesi, enda hefur kærði ekki gefið á því trúverðuga skýringu hvernig það hálsmen komst í hans vörslur.

                Kærði var í gærmorgun handtekinn í næsta nágrenni við [...] og þær [...] bifreiðar sem lögreglan tilgreinir að brotist hafi verið inn í.

                Í málinu liggur ekki frammi sakarvottorð en sækjandi hefur lagt fram málaskrá lögreglu þar sem fram kemur að kærði hefur margoft verið kærður og oft verið dæmdur fyrir innbrot, fíkniefnabrot, þjófnað og fleiri brot. Kærði hefur sjálfur skýrt svo frá að hann hafi fyrir örfáum dögum verið dæmdur í 9 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þjófnað.

                Með vísan til þess sem hér hefur verið saman dregið fellst dómari á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um innbrot og þjófnað, sem fangelsisrefsing liggur við. Kærði hefur neitað allri sök. Telur dómari að a-liður 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991 eigi við, og fellst hann því á kröfu sýslumannsins á Akranesi um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldstímanum sem krafist er, þykir dómara í hóf stillt.

Úrskurðarorð:

                X sæti gæsluvarðhaldi; þó ekki lengur en til laugardagsins 12. júní 1999 kl. 12 á hádegi.