Hæstiréttur íslands
Mál nr. 175/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 29. apríl 1999. |
|
Nr. 175/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðahaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. maí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málsvarnarlauna í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 1999.
Með kröfu lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri í dag er þess krafist að X verði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 allt til þriðjudagsins 11. maí nk. kl. 16:00.
Í kröfu lögreglunnar kemur fram að hún rannsaki nú meint hegningarlagabrot kærða, S og Á. Fyrr í dag heimilaði Héraðsdómur Reykjavíkur húsleit á heimili S [...]. Við leitina hafi fundist gríðarlegt magn af ætluðu þýfi en vegna magnsins er ekki enn lokið samanburði við munaskrá lögreglunnar. Þó hefur verið staðfest að m.a. er um að ræða þýfi, sem stolið var úr bifreiðinni [...] og úr innbroti í [...] sama dag og innbroti í [...] í gær.
Við yfirheyrslu lögreglunnar greindi S frá því að þýfið úr bifreiðinni [...] og úr [...] sem fannst á heimili hans, hafi verið þar án hans vitundar. Hann telur það hafa verið þar á vegum kærða og Á en þeir hafi haft aðsetur á heimili hans síðustu daga. Við yfirheyrslu lögreglu í dag greindi kærði frá því að hann hafi, ásamt Á, hitt B sl. nótt og fengið þeim ýmis verkfæri, sem þeir hafi farið með að [...] til reynslu.
Verið sé að rannsaka ætluð brot kærða á 26. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sakarefni sem hér um ræði mundi varða fangelsisrefsingu ef sök teldist sönnuð. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi svo komið verði í veg fyrir að hann geti torveldað rannsókn málsins með því að skjóta undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka.
Kærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi gist í [...] sl. tvær nætur. Hann kvaðst hafa þekkt Á nokkur undanfarin ár en kvaðst ekki þekkja S en vita hver hann væri. Kærði kvaðst ekki hafa brotist inn undanfarið og ekkert vita um þá hluti sem fundust í [...] í morgun nema það sem hann hafi þegar borið um hjá lögreglu varðandi verkfærin en þau hafi hann fengið hjá B sl. nótt. Þeir hafi þá verið staddir í Laugardalnum og Á með kærða.
Kærði kveðst vera búsettur á Akranesi og hafa dvalið þar sl. mánuð nema það að hann hafi skroppið af og til til Reykjavíkur.
Eins og að framan var rakið fannst mikið magn af þýfi í íbúð sem kærði gisti í sl. tvær nætur. Hvorki kærði né þeir sem handteknir voru þar ásamt honum hafa getað gefið trúverðugar skýringar varðandi það sem í íbúðinni fannst og íbúðareigandinn hefur bendlað kærða við muni er fundust í íbúðinni og eru úr innbroti frá [...] en þann dag mun kærði hafa verið í Reykjavík. Kærði er þannig undir rökstuddum grun um að hafa framið brot, er geta varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt 26. kafla almennra hegningarlaga. Rannsókn máls þessa er á frumstigi og af gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn er ljóst að rannsóknin mun taka allnokkurn tíma. Samkvæmt þessu og með skírskotun til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður orðið við kröfu lögreglunnar eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg, héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. maí 1999 kl. 16:00.