Hæstiréttur íslands
Mál nr. 432/2005
Lykilorð
- Sjúkrahús
- Læknir
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 11.apríl 2006. |
|
Nr. 432/2005. |
Íslenska ríkið og (Skarphéðinn Þórisson hrl. Björn Jóhannesson hdl.) Þóra F. Fischer(Karl Axelsson hrl.) gegn Helga Magnúsi Hermannssyni og Björk Baldursdóttur (Ragnar Aðalsteinsson hrl. Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl.) |
Sjúkrahús. Læknar. Miskabætur. Sératkvæði.
H og B kröfðu Í og Þ um bætur vegna andláts sonar þeirra, sem lést rúmum fjórum sólarhringum eftir að hann fæddist. Dánarorsökin var alvarlegur súrefnisskortur vegna blæðingar frá æð í fósturyfirborði fylgjunnar, sem hafði laskast við legvatnsástungu, sem Þ framkvæmdi u.þ.b. fjórum klukkustundum áður en drengurinn fæddist. Ekki var ágreiningur um bótaskyldu en Í og Þ töldu kröfu H og B of háa. Niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var staðfest um að seint og illa hefði verið brugðist við vísbendingum um alvarlega fósturstreitu og gruns um blæðingarlosts hjá fóstrinu og að það yrði að meta sem stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Áttu H og B því rétt á miskabótum samkvæmt ákvæðinu og voru Í og Þ dæmd sameiginlega til greiðslu þeirra auk tímabundinna þjáningarbóta. Ósannað þótti hins vegar að H hefði orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni í kjölfar andlátsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson, Guðrún Erlendsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 4. og 5. október 2005. Báðir áfrýjendur krefjast þess að dómkröfur stefndu verði lækkaðar og málskostnaður í héraði felldur niður. Áfrýjandi íslenska ríkið krefst þess að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur niður, en áfrýjandi Þóra F. Fischer krefst þess að sér verði dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með tilvitnun í 18. gr. a. læknalaga nr. 53/1988, sbr. 2. gr. laga nr. 68/1998, sendi lækningaforstjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss landlækni tilkynningu 19. nóvember 2002 um óvæntan skaða í sambandi við læknismeðferð. Þar sagði: „Björk Baldursdóttir ... gekk með sitt þriðja barn og greindist immunisering með anti D og anti C í upphafi meðgöngu. Fyrri tvær meðgöngur, ´91 og ´98 áfallalausar. Hún var í mæðravernd í Miðstöð mæðraverndar hjá Þóru Fischer sem sér um rhesus varnir. Vegna hækkandi títera var gerð legvatnsástunga 28.10.02, framkvæmd af Hildi Harðardóttur sem hljóp í skarðið vegna veikinda Þóru Fischer. Legvatnsástungan gekk áfallalaust og sýndi ekki merki um anemíu barns (delta OD lágt, á zone 1 á Liley kúrfu). Fyrirhuguð var endurtekin ástunga eftir tvær vikur samkvæmt protokol. Í millitíðinni hækkuðu títerar enn frekar og var ástungu flýtt og gerð föstudaginn 08.11.02. Þóra Fischer framkvæmdi ástunguna og kom fram blæðing í legvatn sem hún taldi lítilvæga. Delta OD var enn lágt í zone 1, þ.e. barn ekki affecterað þrátt fyrir hækkandi títera. Konan var sett í monitor á meðgöngudeild og síðar komu fram streitumerki í riti sem leiddi til ákvörðunar um fæðingu með bráðakeisaraskurði. Kl. 16:59 fæðist drengur með anemíu og asphyxíu sem leiddi til dauða þriðjudaginn 12.11.02. ...” Nánari greinargerðir fylgdu í kjölfar þessarar tilkynningar. Kom fram að stefnda Björk hafði fætt sveinbarn með keisaraskurði 8. nóvember 2002 í kjölfar legvatnsástungu sem gerð var sama dag vegna blóðflokkamisræmis. Sveinbarnið sýndi strax einkenni um alvarlegan súrefnisskort í fæðingunni og lést fjórum dögum síðar. Ástæða súrefnisskortsins hjá barninu, sem leiddi til andláts þess, var blæðing frá æð í fósturyfirborði fylgjunnar sem laskast hafði við legvatnsástunguna. Dánarorsök var því fylgikvillar bráðs blæðingalosts eftir blæðingu í legi.
Meðal gagna, sem fylgdu í kjölfar tilkynningar lækningaforstjórans, var greinargerð dr. Reynis Tómasar Geirssonar prófessors og yfirlæknis kvennadeildar Landspítalaháskólasjúkrahúss frá 13. desember 2002, sem rakin er í héraðsdómi. Í niðurlagi hennar segir: „Hér varð óhappatilvik sem læknirinn uppgötvaði samstundis. Hún gerði ráðstafanir til að fylgjast með framvindu málsins, en áttaði sig ekki nægilega fljótt á því hve ástand barnsins var alvarlegt, enda hægt að túlka fósturhjartsláttarritið innan eðlilegra marka, a.m.k. 2 fyrstu klst eftir ástunguna. Þá virtist sem blæðingin hefði stöðvast. Þegar henni varð ljóst að fósturköfnun gat verið yfirvofandi og að gera þyrfti bráðan keisaraskurð vegna vaxandi teikna um fósturstreitu, þá var það undirbúið, en ástandið metið þannig að tími væri til að lágmarka áhættu af aðgerð fyrir konuna. Miðað við hversu sjaldgæft er að atburður sem þessi með bráðu blóðtapi fósturs gerist, er álitamál hversu rétt er að ætlast til þess að læknirinn hafi á þeim tíma átt að geta áttað sig til fullnustu á hversu alvarlegt ástand barnsins var.” Landlæknisembættið aflaði álits dr. Sæmundar Guðmundssonar, dósents og yfirlæknis kvennasjúkdómadeildar háskólasjúkrahússins í Malmö til undirbúnings álitsgerðar um atburð þennan. Fram kemur af bréfi aðstoðarlandlæknis 23. mars 2004 að leitað var til Sæmundar þar sem hann hafði aldrei unnið á kvennadeild Landspítalans og starfað erlendis eftir að hann lauk sérfræðinámi. Af álitsgerð Sæmundar verður ráðið að hann hafi haft gögn málsins undir höndum. Þar segir meðal annars að stefnda Björk sé í 0 blóðflokki, Rh neikvæðum, en hafi ekki haft einkenni um mótefnamyndun þegar hún gekk með fyrri drengi sína tvo. Samkvæmt ómskoðun við 19. viku meðgöngu, þeirrar sem hér um ræðir, hafi fæðingartími verið áætlaður 12. desember 2002. Við fyrstu vitjun til mæðraverndar 7. júní það ár hafi blóðsýni verið tekið og það sýnt jákvæða svörun við blóðflokkamótefnum. Aukin blóðflokkamótefnamyndun geti leitt til blóðleysis hjá barninu. Björk hafi því verið tekin í sérstakt eftirlit. Auk venjulegs mæðraeftirlits hafi áætlanir verið gerðar um nýjar mótefnarannsóknir á blóði og ómskoðanir til að greina einkenni hjartabilunar fósturs vegna blóðleysis. Engin einkenni um hjartabilun hafi verið sjáanleg við ómskoðanir og mótefnagildi í blóði voru óbreytt og lág þar til 24. október að aukning greindist. Ómskoðun var hins vegar áfram eðlileg. Venjulega sé mælt með legvatnsástungu til að greina blóðleysi hjá fóstri. Mæld séu niðurbrotsefni rauðra blóðkorna í legvatni með svokallaðri ljósþéttnimælingu, sem gefi vísbendingu um hvort um sé að ræða aukningu á niðurbrotsefnum rauðra blóðkorna og þar með hugsanlegu blóðleysi fósturs. Þessi greiningaraðferð hafi verið notuð í meira en 40 ár. Áhætta við legvatnsástungu sé lítil, sérstaklega á seinni hluta meðgöngu. Hún aukist þó nokkuð þurfi að stinga í gegnum fylgjuna. Líkur á að gera þurfi bráðakeisaraskurð vegna aukaverkana séu á bilinu 1/150300 stungur. Mjög sjaldgæft sé að barnið deyi eftir slíka aðgerð. Algengasta aukaverkun við stungu í gegnum fylgju sé blæðing, sem oftast stöðvist á skömmum tíma. Ákvörðun um legvatnsstungu á stefndu Björk hafi verið á rökum reist. Aðgerðin sem framkvæmd var 28. október hafi verið án aukaverkana. Stungið hafi verið gegnum fylgjuna þar sem ekki hafi annarra kosta verið völ. Niðurstaða ljósþéttnimælingar legvatns hafi ekki gefið til kynna að blóðkorn væru að skemmast hjá fóstrinu. Við nýja mótefnamælingu 8. nóvember á 35. viku meðgöngu hafi mótefni í blóði stefndu reynst hafa aukist verulega. Þetta gat haft áhrif á fóstrið. Ómskoðun hafi ekki sýnt einkenni um vökvasöfnun í fóstrinu og því verið mælt með nýrri legvatnsástungu til að dæma um blóðleysi hjá fóstrinu. Aftur hafi verið stungið í gegnum fylgjuna þar sem ekki var kostur á öðru. Í kjölfar stungu hafi verið lýst blæðingu frá stungustað, sem ekki sé óalgengt. Stefnda hafi því verið sett í hjartsláttarsírita og gefið 12 mg betametason til að flýta fyrir þroskun lungna fóstursins þyrfti barnið að fæðast fyrir tímann vegna blóðleysis.
Hjartsláttarsíritið hafi í byrjun sýnt grunnlínu sem var nokkuð lág, en með eðlilegum breytileika og hröðun fyrstu 30 mínúturnar. Milli kl. 14.00 og 14.50 hafi hjartsláttur fóstursins aukist upp í 130-150 slög á mínútu. Góður breytileiki hafi verið í ritinu og eðlilegar hraðanir. Um kl. 15.30 hafi hjartsláttur fóstursins aukist enn frekar og legið á bilinu 150-160. Telja megi ritið eðlilegt fram að þessum tíma, utan aukningar á hjartslætti, sem verið gat fyrsta einkenni um súrefnisskort fósturs. Hjartsláttartíðnin hafi þó verið innan eðlilegra marka. Eftir kl. 15.30 hafi hjartslátturinn breyst til muna. Breytileikinn hafi minnkað, hjartsláttur vaxið og dýfur sést á ritinu. Stefnda hafi einnig haft samdrætti og kvartað undan minnkandi hreyfingum fósturs. Stefnda hafi verið tekin úr ritinu kl. 15.53 og gerð ómskoðun, sem sýnt hafi blæðingu milli fylgju og legveggs á stungustað. Stefnda hafi þá verið sett í sírita að nýju kl. 15.57 og áætluð bráðaaðgerð ef ástand versnaði. Hjartsláttarritun hafi verið haldið áfram til kl. 16.13 og tíðni hjartsláttar verið vaxandi. Stefnda hafi komið á skurðstofu kl. 16.40. Barnið hafi fæðist kl. 16.59 og sýnt þá einkenni um alvarlegan súrefnisskort. Í sérfræðiálitinu segir síðan að af tiltækum gögnum verði ekki lesið hvað olli því að það tók 46 mínútur frá því að stefnda var tekin úr síritanum þar til að barnið fæddist en tímalengdin sé óeðlileg með hliðsjón af því sem sást af hjartsláttarsíritinu.
Af framangreindri yfirferð var það skoðun sérfræðingsins að meðferðin í mæðravernd hafi verið rétt og ákvörðunin um legvatnsástunguna rétt og tímabær. Í kjölfar stungunnar hafi orðið blæðing, sem sé sjaldgæf og óvænt aukaverkun. Viðbrögðin við því hafi verið rétt, það er að fylgst hafi verið með líðan fóstursins með hjartsláttarsírita. Ritið hafi hins vegar gefið til kynna versnandi líðan fóstursins. Tíminn frá því að stefnda var tekin úr síritanum og búin undir aðgerð hafi hins vegar verið langur sé tillit tekið til þess að um bráðaástand var að ræða.
Á grundvelli þessa álits sérfræðingsins samdi landlæknisembættið álitsgerð 8. apríl 2003 og var það niðurstaða þess að rétt hefði verið staðið að meðgöngueftirliti stefndu, þar með talinni ákvörðun um legvatnsástunguna 8. nóvember 2002. Rétt hafi verið þau byrjunarviðbrögð við blæðingunni að fylgjast með líðan fóstursins með hjartsláttarsírita. Ritið hafi hins vegar sýnt versnandi líðan fósturs að minnsta kosti 11/2 klukkustund fyrir fæðingu með keisaraskurði. Það ásamt því sem vitað var að blæðing hafði orðið inn í vatnsbelg ásamt minnkandi hreyfingum fóstursins hefði átt að leiða til skjótari viðbragða en raun varð á. Óeðlilega langur tími hafi liðið þar til barnið var tekið með keisaraskurði. Sérstaklega var í álitsgerðinni gerð athugasemd við hversu langur tími leið frá því að ákvörðun var tekin um keisaraskurð þar til hann var gerður, eða um þrír stundarfjórðungar.
Að fengnu áliti landlæknis féllst áfrýjandi íslenska ríkið fyrir sitt leyti á skaðabótaskyldu þar sem óeðlilega langur tími hafi liðið þar til barnið var tekið með keisaraskurði. Gerðu stefndu því næst kröfur á hendur ríkinu en sættir náðust ekki um bótafjárhæðina. Afstaða áfrýjandans kom fram í bréfi ríkislögmanns 9. október 2003. Sagði þar að ljóst sé að mikill munur sé á hugmyndum aðila um fjárkröfur stefndu. Taldi ríkislögmaður í fyrsta lagi að ekki hafi verið nægjanlega sýnt fram á vinnutap stefnda Helga. Í öðru lagi að hugmyndir um miskabætur á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, séu óraunhæfar. Jafnvel sé það verulegt álitamál hvort um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða af hálfu starfsfólks Landspítala-háskólasjúkrahúss, en það sé skilyrði bótaábyrgðar samkvæmt greindu ákvæði. Afstaða þessa áfrýjanda hefur verið óbreytt síðan. Í héraði fór ríkislögmaður með málið einnig fyrir hönd áfrýjandans Þóru, sem stefndu sóttu einnig til ábyrgðar á tjóni sínu. Málsástæður áfrýjenda féllu því saman í héraði og gera það að mestu einnig hér fyrir dómi, þótt áfrýjandinn Þóra láti nú flytja málið sérstaklega fyrir sig. Áfrýjendur fallast á niðurstöðu héraðsdóms um þjáningabætur. Kröfu fyrir vinnutap stefnda Helga mótmæla þeir sem ósannaðri, en miskabótakröfum með því að andlát barnsins verði ekki rakið til stórkostlegs gáleysis þeirra. Verði hins vegar talin lagaskilyrði fyrir því að dæma stefndu miskabætur mótmæla þeir fjárhæð þeirra, svo sem þær eru ákveðnar í héraðsdómi.
Áfrýjandinn Þóra hefur lagt fyrir Hæstarétt umsögn sína um héraðsdóminn, svo og umsögn nokkurra starfsfélaga sinna. Þá hefur áfrýjandinn íslenska ríkið lagt fyrir dóminn athugasemdir dr. Reynis Tómasar Geirssonar prófessors varðandi röksemdir héraðsdóms. Ljóst er að umsagnir þessar eru ekki sönnunargögn í málinu.
II.
Að framan er það rakið að áfrýjendur hafa viðurkennt bótaskyldu. Viðurkenning íslenska ríkisins hefur frá upphafi byggst á greinargerð dr. Reynis Tómasar Geirssonar og álitsgerð landlæknis frá 8. apríl 2003, sem eins og áður er sagt byggðist á sérfræðiláliti dr. Sæmundar Guðmundssonar. Af þessum umsögnum og þeim gögnum sem fyrir liggja verður ekki séð að ágreiningur sé um atvik málsins. Hins vegar deila aðilar um hvort aðgerðir og athafnaleysi áfrýjandans Þóru, sem sinnti læknismeðferð stefndu Bjarkar, og annars heilbrigðisstarfsfólks, sem áfrýjandinn íslenska ríkið ber einnig ábyrgð á, hafi verið með þeim hætti að meta verði til stórkostlegs gáleysi þeirra í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Við mat á því verður að líta til þess vandamáls sem uppi var og hvernig við því var brugðist. Meta verður ferlið í heild, svo sem gert var af dr. Sæmundi Guðmundssyni og rakið er að framan. Verður að telja fram komið að áfrýjandinn Þóra hafi ekki gert sér grein fyrir hversu alvarleg blæðingin var sem upphófst við legvatnsstunguna, en vegna þess sem segir í áliti Sæmundar og greinargerð Reynis Tómasar verður henni ekki lagt það til lasts og ekki fallist á það að sýnt hafi verið fram á að hættan hafi ekki getað dulist henni. Verður ekki annað séð en að aðgerðir hennar og annars starfsfólks hafi verið forsvaranlegar allt þar til hjartsláttarsíritinn sýndi upp úr kl. 15.30 merki um alvarlega fósturstreitu og grun um blæðingarlost hjá fóstrinu sem staðfestist við ómskoðun um kl. 15.45. Eins og málið liggur fyrir verður að telja sýnt að eftir það hafi verið ranglega brugðist við og grípa hafi átt til neyðarkeisaraskurðar þegar í stað fremur en til þess sem í gögnum málsins er nefnt bráðakeisaraskurður og framkvæmdur mun vera innan klukkustundar frá því að hann er ákveðinn. Hefur héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, metið það svo að þessi merki hafi verið svo augljós að stórkostlega gáleysislegt hafi verið að bregðast svona seint og illa við. Hefur það ekki verið hrakið fyrir Hæstarétti. Ekki hefur verið sýnt fram á það að barnið hefði ekki getað spjarað sig ef réttilega hefði verið brugðist við. Skilja verður málflutning áfrýjandans íslenska ríkisins svo að það telji sig ábyrgt fyrir skaðabótagreiðslum til stefndu, óháð því hvort sök starfsfólks spítalans verður metin til gáleysis eða stórkostlegs gáleysis. Verða stefndu dæmd in solidum til greiðslu miskabóta samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þykir fjárhæð bótanna hæfilega metin 1.500.000 krónur til stefndu Bjarkar en 1.200.000 krónur til stefnda Helga. Er sá munur gerður vegna tengsla andláts barnsins við fæðingu þess, svo og að teknu tilliti til gagna um andlegt áfall stefndu Bjarkar. Krafa stefndu um þjáningarbætur er eins og að framan greinir viðurkennd. Stefndi Helgi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tímabundu atvinnutjóni og verður því krafa hans um það ekki tekin til greina.
Niðurstaðan samkvæmt framansögðu er því sú að dæma ber áfrýjendur in solidum til að greiða stefnda Helga 1.285.500 krónur og stefndu Björk 1.620.950 krónur, hvort tveggja með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Áfrýjendur greiði stefndu málkostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, íslenska ríkið og Þóra F. Fischer, greiði óskipt stefnda, Helga Magnúsi Hermannssyni, 1.285.500 krónur með 4,5% ársvöxtum af 85.500 krónum frá 12. nóvember 2002 til 28. september 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.285.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags, og stefndu, Björk Baldursdóttur, 1.620.950 krónur með 4,5% ársvöxtum af 120.950 krónum frá 12. nóvember 2002 til 28. september 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.620.950 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjendur greiði stefndu sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Ég er sammála meirihluta dómenda um allt annað en ákvörðun fjárhæðar miskabóta til handa stefndu samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.
Miski samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga verður ekki mældur á peningalegan mælikvarða. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 37/1999 segir að lögð sé áhersla á að fjárhæðir bóta samkvæmt greininni eigi að ákvarðast samkvæmt því sem sanngjarnt þykir hverju sinni. Hafa skuli meðal annars í huga umfang tjóns, sök tjónvalds og fjárhagsstöðu hans. Ber að ákvarða fjárhæð miskabóta meðal annars með þessi sjónarmið í huga, en einnig hlýtur að eiga að hafa hliðsjón af því að skilyrði fyrir bótum samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga er að um ásetning eða stórfellt gáleysi sé að ræða af hálfu tjónvalds. Áfrýjandinn íslenska ríkið hefur lýst sig ábyrgt fyrir skaðabótagreiðslum til stefndu, verði þær dæmdar og ljóst er að missir stefndu er mikill og sár. Að framanrituðu gættu tel ég rétt að meta fjárhæð miskabóta 2.500.000 krónur til stefndu Bjarkar en 2.000.000 króna til stefnda Helga, en ég er sammála meirihlutanum um að mun megi gera á stefndu vegna tengsla andláts barnsins við fæðingu þess, svo og að teknu tilliti til gagna málsins um andlegt áfall stefndu Bjarkar.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2005.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 7. og 22. september 2004, þingfest 28. s.m. og dómtekið 24. f.m.
Stefnendur eru hjónin Helgi Magnús Hermannsson og Björk Baldursdóttir, Laugavegi 76 B, Reykjavík.
Stefndu eru íslenska ríkið og Þóra F. Fischer, Sörlaskjóli 24, Reykjavík.
Stefnendur krefjast þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða þeim 11.638.450 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. nóvember 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Af hálfu stefndu eru gerðar þær dómkröfur að kröfur stefnenda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.
I
Málið fjallar um það að legvatnsástunga, sem gerð var í Landspítala - háskólasjúkrahúsi á stefnandanum Björk þann 8. nóvember 2002, leiddi til þess að sonur stefnenda, sem fæddist með keisaraskurði fjórum klukkustundum síðar, lést rúmum fjórum sólarhringum eftir það.
Hér verður greint í meginatriðum frá lýsingu málsatvika í stefnu.
Síðari hluta árs 2002 gekk Björk með þriðja barn þeirra hjóna og var áætlaður fæðingardagur 12. desember 2002. Þar sem blóð hennar var rhesus mínus en barnsins rhesus plús þurfti að huga sérstaklega að því á meðgöngunni að hún myndaði ekki mótefni sem gæti reynst hættulegt lífi ófædds barns hennar og jafnvel hennar eigin. Var sérstaklega fylgst með þessum áhættuþætti alla meðgönguna og sem líður í slíku eftirliti voru framkvæmdar á henni tvær legvatnsstungur, sú fyrri þann 28. október 2002. Hildur Harðardóttir læknir framkvæmdi þá legvatnsstungu. Á sérstakt eyðublað sést hvar læknirinn hefur fyllt út skýringarmyndir varðandi það hvar fylgjan var staðsett og hvar stungið var í gegnum fylgjuna í legvatnsstungunni. Eftir þessa legvatnsstungu brýndi læknirinn, Hildur, vel fyrir Björk að fylgjast grannt með hreyfingum barnsins og láta strax vita ef þær hreyfingar yrðu minni eða fátíðari þar sem slíkt gæti verið hættumerki. Var Björk sett í sírita eftir þessa legvatnsstungu. Stuttu seinna, eða þann 8. nóvember 2002, vildi læknirinn Þóra F. Fischer framkvæma aðra legvatnsstungu vegna ótta um að enn væri að myndast mótefni í blóði Bjarkar. Þá legvatnsstungu framkvæmdi Þóra F. Fischer síðan ofangreindan dag. Hún stakk í gegnum fylgju Bjarkar og við þá ástungu kom strax í ljós að hún hefði stungið í gegnum æð í fylgjunni þar sem blóð kom í sprautuna. Skýringarmyndir voru ekki fylltar út eins og gert hafði verið áður, sbr. hér að framan. Við framkvæmd stungunnar varð lækninum að orði eitthvað á þá leið að nú hefði orðið óhapp því að blóð hefði komið í sprautuna. Stefnendur hafi strax farið að lýsa áhyggjum sínum vegna þessa og Björk hafi brostið í grát en Þóra hafi sagt að þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af, slíkar blæðingar stoppuðu yfirleitt af sjálfu sér. Eftir stunguna hafi Björk verið sett inn í svokallað monitorherbergi rétt eins og eftir fyrri ástunguna og skynjarar verið tengdir við hana. Stefnendur telja að starfsmenn spítalans í monitorherberginu hafi ekki vitað að Björk hafi verið að koma úr legvatnsstungu og að þess vegna væri verið að fylgjast með henni fyrr en þau sögðu ljósmæðrunum það sjálf og telja þau að læknirinn hafi ekki látið starfsmennina í monitorherberginu vita af því. Af fyrri reynslu af legvatnsstungum hafi stefnendum verið ljóst að Björk þyrfti að fylgjast vel með hreyfingum barnsins (fóstursins) og láta vita ef hreyfingar væru minni en venjulega. Þetta hafi Þóra F. Fischer þó ekki tjáð þeim í umrætt sinn. Frá upphafi þess að Björk var tengd við mælitæki inni í monitorherbergi hafi hún kvartað yfir því að hún fyndi ekki fyrir hreyfingum hjá barninu og beðið um að læknir yrði sóttur en því hafi ekki verið sinnt. Eftir ítrekaðar kvartanir stefnenda um hreyfingarleysi barnsins hafi ljósmóðir farið að reyna að hreyfa við því. Björk hafi fengið sprautu af Betametasol en stefnendum hafi verið tjáð að það væri vegna þess að þau ættu að koma aftur daginn eftir til frekari skoðunar. Þegar stefnendum hafi orðið ljóst að senda ætti þau heim hafi þau þrábeðið um að læknirinn yrði sóttur. Þóra F. Fischer hafi þá loksins verið sótt til að skoða Björk og hafi ákveðið að setja hana í sónarskoðun. Mynd úr þeirri sónarskoðun liggi ekki fyrir í gögnum málsins en hún sýni “skugga” sem gefi til kynna blæðingu í leginu. Eftir þessa sónarskoðun og þrátt fyrir að hún sýndi blæðingu í leginu sem alvarlegt hættumerki hafi Þóra F. Fischer ákveðið að enn um sinn skyldi bíða en framkvæma brákeisaraskurð á stefnanda ef ástandið versnaði. Það hafi verið kl. 16 og Björk þá búin að vera í sírita frá því upp úr kl. 13. Björk hafi öðru sinni verið tengd við sírita frá kl. 15.57 til kl. 16.10. Síðan hafi verið framkvæmdur bráðakeisaraskurður og sonur fæðst kl. 17.
Við aðalmeðferð málsins gáfu einungis stefnendur skýrslur og staðfestu þau það ferli sem greinir hér að framan. Stefnandinn Helgi Magnús var við hlið eiginkonu sinnar allan tímann að því undanskildu að hann var í hliðarherbergi er keisaraskurður var gerður.
II
Í málinu liggur frammi greinargerð Reynis Tómasar Geirssonar, prófessors/yfirlæknis kvennadeildar LSH-H, dags. 13 desember 2002, um meðgöngueftirlit og fæðingu barns stefnanda þ. 8. nóvember 2002. Þar segir m.a.:
“. . . Hjartsláttarritun af fóstrinu hefst kl. 13:29 skv. því sem skráð er á fósturritanum. Unnur Baldvinsdóttir, ljósmóðir á meðgöngudeildinni hefur skrifað síðari athugasemd (dags. 27.11.2002) um að konan hafi komið í fósturhjartsláttarritið kl. 13:25 og að “örfáum mínútum” eftir að hún var sett í ritið hafi önnur ljósmóðir á deildinni, Aðalbjörg Þórey Ólafsdóttir, náð í fæðingalækni á deildinni (Þóru Steingrímsdóttur) sem ráðlagði að konan ætti að vera áfram í ritinu. Þóra Steingrímsdóttir taldi að ritið vera innan eðlilegra marka. Um einni klukkustund síðar hafi verið haft samband við Þóru Fischer, sem kom og skoðaði ritið. Um kl. 15:30 hafi ljósmæðurnar tvær á deildinni verið “mjög óánægðar” með ritið, þar sem engar hreyfingar voru til staðar hjá barninu og greinilegar hjartsláttardýfur sjáanlegar að þeirra mati. Haft var þá samband við Þóru Fischer sem fór með konuna í ómskoðun kl. 15:45.
Fósturritinn hefur verið athugaður og er tímaskráning á fósturritanum um 5 (fimm) mínútum á undan réttri klukkustund og mínútum. Í öllu eftirfarandi verður að taka mið af því (skráð hér á eftir sem -5 mín). Hjartsláttarritið sýnir grunnlínu, sem er um 110-120 slög/mínútu með eðlilegum breytileika og 6-7 hröðunum fyrstu 30 mínúturnar. Hraðanirnar eru breiðar og fremur óvanalegar. Þó sýnist rétt að túlka ritið svo að grunnlína sé innan eðlilegra marka með hröðunum sem fara upp í slagbilið 140-160. Rétt upp úr kl. 14:00 (-5 mín) eykst grunnhraðinn upp í u.þ.b. 130-140 slög/mín. og hækkar aðeins enn, upp í 140-150/mín, fram til kl: 14:26. Á þessum tíma, frá kl. 14:00 til 14:26 er grunnbreytileiki heldur minni en verður þó að teljast innan eðlilegra marka.
Því næst eykst grunnhjartsláttarhraðinn upp undir 150 slög/mín. Eðlilegur grunnhjartsláttarhraði er á bilinu 120-160 á þessum tíma meðgöngu. Þóra Steingrímsdóttir, fæðingalæknir, mun hafa litið á hjartsláttarritið milli kl. 13:30 og 14:00 og talið það innan eðlilegra marka. Hjartsláttarritið fer síðan hægt upp á við og grunnhraðinn fer upp í 150-160 slög/mín. upp úr kl. 14:40 (-5 mín). Um kl. 14:48 (-5 mín) kemur lítil dýfa í ritið.
Á þessum tíma öllum hefur konan ekki merkt neinar fósturhreyfingar á ritið og engar fósturhreyfingar sjást í sjálfkrafa færslu á ritinu (getur verið tæknilegt atriði líka) nema hvað ein hreyfing er merkt af konunni í kringum kl. 14:30 (-5 mín) og önnur laust fyrir kl. 14:50 (-5 mín). Þriðja hreyfingin er merkt um kl. 15:03 (-5 mín), þegar grunnhjartsláttur fóstursins hafði aftur farið niður undir 140 slög/mín. Stuttu síðar fer hjartslátturinn aftur upp undir 160 og kl. 15:23 (-5 mín) upp í bilið milli 160-170 og er þar síðan og heldur fyrir ofan 160 á tímabilinu frá kl. 15:30 til kl. 15:50 (-5 mín) þegar ritun er hætt.
Á tímabilinu frá kl. 15:20 og fram til 15:50 (- 5 mín) breytist grunnlínan þannig að grunnbreytileiki verður mun víðari (skammtímabreytileiki, microvariability) og ritið fær form sem kallað hefur verið “sagtennt sinusoidal” rit, sem erfitt getur verið að átta sig á, en hefur verið tengt yfirvofandi fósturköfnun eða gjöf slævandi lyfja með áhrif á miðheila og stjórnstöðvar hjartsláttar í fóstri. Þetta hjartsláttarmunstur hefur einnig verið tengt blóðleysi í fóstrinu, t.d. í tvíburameðgöngum þar sem blóðtilfærsla verður frá einu fóstri til annars.
Upp úr kl. 15:30 (-5 mín) koma einnig til þrjár dýfur, hvar af tvær eru greinilegar og teljast þær vera seinar dýfur, þar sem þær koma í kjölfar mesta samdráttarkraftsins, sem mælist á ritinu (“lag-time um 30-60 sek.). Ritinu lýkur í kringum 15:50 (-5 mín), en rúmum 7 mínútum síðar er ritið aftur sett í samband og liggur grunnlína hjartsláttarins þá í 170 slögum/mín. og breytileiki er minnkaður með aðkenningu að sagtenntu sinusoidal riti og tveim dýfum sem sennilega teljast seinar. Ritbút þessum lýkur kl. 16:13 (-5 mín) skv. skráningu á ritið.
Kl. 16:00 hefur Þóra Fischer læknir skrifað í dagál deildarinnar um ástunguna og segir þar að ástungan hafi verið gerð kl. 13:00 í gegnum fylgjuna til hliðar á kviðnum, en greinilega hafi verið farið í æð með nálina, þannig að blæðing varð inn í vatnsbelginn. Þess vegna hafi konan verið sett í fósturhjartsláttarritið (sírita, monitor), en erfitt hafi verið að meta ritið með fáum hröðunum og konan fundið litlar hreyfingar.
Ný ómskoðun sem gerð var um kl. 16:00 þegar ritinu sleppti, sýndi nú að mati Þóru Fischer blæðingamerki í móður-yfirborði fylgjunnar rétt undir belgjunum þar sem stungið var, en ekki sást áframhaldandi blæðing. Blóðflæðimæling sést á stakri mynd sem er merkt kl. 15:41 og sýnir eðlilegt blóðflæði en merki um blóð virðist vera á myndinni í legholinu. Blóðið virðist að hluta til storkið. Þóra Fischer getur þess síðan að vaxandi samdrættir hafi komið, sem sjást á hjartsláttarritinu frá kl. 15:35 (-5 mín) þar til konan er tekin úr ritinu vegna ómskoðunarinnar og sjást þegar hún var aftur sett í ritið, á þeim bút sem tekinn var milli kl. 15:57 og 16:13 (-5 mín). Samkvæmt ritinu stóðu samdrættirnir í um eina mínútu og 2-3 mínútur eru á milli þeirra, þannig að slaki varð á leginu, sem bendir ekki til blæðingar milli fylgju og legveggs. Þóra hefur skrifað í skýrsluna að konan verði nú lögð inn vegna blæðingar við fylgjuna eftir ástunguna og áformuð sé rúmlega og áframhaldandi síritun og bráðakeisaraskurður ef ástandið versni. Jafnframt var Blóðbankinn látinn vita m.t.t. þess að blóð væri til í barnið og móðurina ef til keisaraskurðar og fæðingar barnsins kæmi.
Kl. 16:15 er færsla á fæðingagangi um að konan komi “beint frá legvatnsástungu á sónardeild með tilliti til bráðakeisaraskurðar” (hér er greinilega ekki réttur skilningur þar sem konan hafði í millitíðinni verið á dagannastofu meðgöngudeildar). Konan hafði verið undirbúin undir keisaraskurð og hjartsláttur heyrðist hjá fóstrinu við ytri hlustun, um 170/mín. Ekki er kvittað fyrir færsluna, en um var að ræða ljósmóðurina Önnu Harðardóttur, sem tók á móti konunni á Fæðingargangi. Í mæðraskránni er stutt rit (u.þ.b. 4 mín) af hjartslætti barnsins upp úr kl. 16:30 og virðist hann staðfesta hjartslátt um 170/mín með 2 samdráttum sem sjást á því bili.
Í fæðingarlýsingu Þóru Fischer rekur hún fyrst aðdraganda aðgerðarinnar og hvernig blæðing sást frá vatnsbelgsyfirborðinu á stungustað. Hafi því þótt ástæða til að fylgjast með fóstrinu og konan var sett í fósturhjartsláttarrit (síritun) á meðgöngudeildina 22-B. Ritið hafi verið þannig að lítil viðbrögð komu frá fóstrinu (“reactionslítið”) og erfitt hafi verið að meta það og konan var því höfð áfram í ritinu. Síðan segir að konan hafi fundið áberandi lítið fyrir hreyfingum og svo farið að fá samdrætti. Þóra segir þá að hún hafi ómskoðað konuna aftur (laust fyrir kl. 16:00) og greindi hún þá “nokkuð vænt” hematom (blóðsöfnun) milli vatnsbelgs og fylgjuvefs. Hjartsláttarritið hafi líka verið “flatt og hækkandi basal frekvens” og því hafi verið ákveðið að taka konuna í bráðakeisaraskurð.
Greining fyrir aðgerðina hafi verið “Blæðing inn í vatnsbelg eftir ástungu, rhesusnæming og fyrirburafæðing”.
Samkvæmt hjúkrunarblaði kom konan á skurðstofuna kl. 16:40 og deyfing (spinal deyfing), sem gefin var af Svajunas Statkevicius, deildarlækni í sérnámi í svæfingum, undir umsjón Hjördísar Smith, svæfingalæknis. Á svæfingarblaðinu er skrifaður tíminn 17:40 o.s.frv., sem augljóslega á að vera 16:40 o.s.frv., en samræmi er í tímasetningu að öðru leyti. Aðgerðin hófst samkvæmt hjúkrunarskýrslu kl. 16:53 og barnið fæddist kl. 16:59. Gerður var venjulegur þverskurður með Pfannenstiel aðferð og mikið magn af töluvert blóðugu legvatni kom að sögn Þóru Fischer, sem gerði aðgerðina ásamt Brynju Ragnarsdóttur, deildarlækni. Kolli barnsins var náð upp með fæðingarspaða eins og oft er gert og þrýst á legbotninn til að ná kolli barnsins út um sárið og síðan fæddist barnið auðveldlega. Barnið var lifandi og að sögn Þóru Fischer tók það strax andköf og var með góða vöðvaspennu (“tónus”) í byrjun, en áberandi fölt. Klippt var á naflastrenginn og barn fært barnalækni. . . .”
Í niðurlagi greinargerðarinnar segir:
“Hér varð óhappatilvik sem læknirinn uppgötvaði samstundis. Hún gerði ráðstafanir til að fylgjast með framvindu málsins en áttaði sig ekki nægilega fljótt á því hve ástand barnsins var alvarlegt enda hægt að túlka fósturhjartsláttarritið innan eðlilegra marka, a.m.k. 2 fyrstu klst. eftir ástunguna. Þá virtist sem blæðingin hefði stöðvast. Þegar henni varð ljóst að fósturköfnun gat verið yfirvofandi og að gera þyrfti bráðan keisaraskurð vegna vaxandi teikna um fósturstreitu þá var það undirbúið en ástandið metið þannig að tími væri til að lágmarka áhættu af aðgerð fyrir konuna. Miðað við hversu sjaldgæft er að atburður sem þessi með bráðu blóðtapi fóstur gerist er álitamál hversu rétt er að ætlast til þess að læknirinn hafi á þeim tíma átt að geta áttað sig til fullnustu á hversu alvarlegt ástand barnsins var.”
Í greinargerð Atla Dagbjartssonar, yfirlæknis vökudeildar Barnaspítala Hringsins, dags. 11. desember 2002, segir m. a. : “. . . Um kl. 16.00 þann 12. nóvember, þegar drengurinn var um það bil 4ra sólarhringa gamall, var ástandið orðið mjög alvarlegt þannig að ekki tókst að halda uppi hjá honum blóðþrýstingi, blóðgös versnuðu þrátt fyrir öndunarhjálp og við skoðun var sýnt að drengurinn var kominn með verulega aukinn intracranial þrýsting. Þá var gerð ómskoðun af höfði sem þegar í stað sýndi mikla blæðingu í heila. Þá var rætt við foreldrana og þeim tjáð að líkur á bata væru engar og að drengurinn myndi ekki lifa af þetta áfall sem hann hafði orðið fyrir. Foreldrar fengu umþóttunartíma við sjúkrabeð drengsins svo og í einrúmi áður en meðferðin var stöðvuð. Drengurinn var aftengdur öndunarvélinni kl. 22.20 og hann lést kl. 23.15. Foreldrarnir samþykktu að krufning yrði gerð.”
Lík drengsins var krufið 15. nóvember 2002 í rannsóknastofu Háskólans í meinafræði. Í niðurlagi krufningarskýrslu Þóru Steffensen, dags. 11. febrúar 2003, segir: “Í samantekt er þannig um að ræða eðlilega skapað sveinbarn með eðlilegan þroska innri líffæra og án ummerkja um “hemolytic disease of the newborn”. Glerhimnusjúkdómur í lungum var vægur og hefði einn og sér ekki átt að hafa marktæk áhrif á heilsu barnsins. Ekkert sást er benti til krónísks fósturstress á meðgöngu. Fylgjan sýndi engin merki um fetal anemiu. Krufningin staðfesti klínískar greiningar barnalækna um DIC og blæðingar í fjölmörg líffæri sem complication af akút hemorrhagísku losti eftir intrauterine blæðingu. Fylgjuskoðun sýndi rof í bláæð í chorionic plate eftir amniocenthesis og er það upptökustaður intrauterine blæðingarinnar.”
Frammi liggur “Álitsgerð Landlæknisembættisins í máli Bjarkar Baldursdóttur, at. 220967-5659, og Hermanns Kára Helgasonar, f. 08.11.2002 d. 12.11.2002”, sem er dagsett 8. apríl 2003 og undirrituð af Hauki Valdimarssyni aðstoðarlandlækni.
Þar segir í upphafi: “Hinn 20.11.2002 barst Landlæknisembættinu bréf frá Jóhannesi M. Gunnarssyni lækningaforstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss, dags. 19.11.2002. Um er að ræða tilkynningu samkvæmt 18. gr. a. Laga nr. 53/1988 um óvæntan skaða í sambandi við læknismeðferð. Hinn 29.11.2002 barst Landlæknisembættinu bréf frá Sigríði Rut Júlíusdóttur lögmanni, dags. 27.11.2002. Bréfið inniheldur ósk um gagnaöflun og rannsókn á sama máli.
Í fyrrgreindum bréfum kemur fram að Björk Baldursdóttir hafði hinn 08.11.2002 undirgengist keisaraskurð á Landspítalanum í kjölfar legvatnsástungu sem gerð var sama dag vegna blóðflokkamisræmis. Sveinbarnið sem fæddist með keisaraskurði sýndi einkenni um alvarlegan súrefnisskort í fæðingunni og lést fjórum dögum síðar. Ástæða súrefnisskorts hjá barninu (fósturköfnunareinkenna) og síðan þess sem leiddi til andláts barnsins fjórum dögum síðar var blæðing frá æð í fósturyfirborði fylgjunnar sem laskast hafði við legvatnsástungu sama dag. Dánarorsök var með öðrum orðum fylgikvillar bráðs blæðingar-losts (akút hemorrhagískt lost) eftir blæðingu inn í legi (intra-uterine blæðing).”
Helstu gögn, sem fyrir lágu hjá Landlæknisembættinu, eru afrit úr sjúkraskrá, þ.m.t. meðgöngu- og mæðraskrá, ljósmæðraskrá, greinargerð Reynis Tómasar Geirssonar prófessors/yfirlæknis og álitsgerð sérfræðings auk athugasemda af hálfu stefnenda og afrit bréfaskipta þeirra og forstjóra og lækningaforstjóra Landspítala - háskólasjúkrahúss.
Eftir að greint hefur verið frá málsatvikum segir í álitsgerðinni:
“Samantekt:
Blæðing varð inn í vatnsbelg (amnion) eftir legvatnsástungu sem gerð var við 35 vikna meðgöngu vegna blóðflokkamisræmis. Um er að ræða þekkta er fremur sjaldgæfa aukaverkun. Áhættur við legvatnsástungur eru litlar, sérstaklega á seinni hluta meðgöngu. Þær aukast nokkuð ef stinga þarf í gegnum fylgjuna eins og þurfti í þessu tilfelli. Líkur á því að gera þurfi bráðan keisaraskurð vegna aukaverkana eftir legvatnsástungu er á bilinu 1/150-300 stungur. Blæðing sem verður við stungu í gegnum fylgju stöðvast oftast af sjálfu sér á skömmum tíma.
Niðurstaða:
Rétt var staðið að meðgöngueftirliti Bjarkar Baldursdóttur, þar með talin ákvörðunin um legvatnsástungu sem framkvæmd var 08.11.2002. Viðbrögð við blæðingunni voru í byrjun rétt, þ.e.a.s. fylgst var með líðan fósturs a.m.k. 1 ½ klukkustund fyrir fæðingu með keisaraskurði. Það ásamt því að vitað var um að blæðing hefði orðið inn í vatnsbelg ásamt minnkandi hreyfingum fósturs hefði átt að leiða til skjótari viðbragða er raun varð á. Óeðlilega langur tími leið þar til barnið var tekið með keisaraskurði. Sérstaklega er gerð athugasemd við hversu langur tími leið frá því ákvörðun var tekin um keisaraskurð þar til hann var gerður, eða um þrír stundarfjórðungar.”
III
Í Morgunblaðinu 19. mars 2004 birtist eftirfarandi yfirlýsing frá öllum læknum sem starfa á kvennadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss: “Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um þann hörmulega atburð sem átti sér stað á Kvennadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í nóvember 2002 þegar dauðsfall nýbura varð í kjölfar nauðsynlegrar greiningaraðgerðar á sjúkrahúsinu viljum við koma eftirfarandi á framfæri. Greiningaraðgerð á borð við legvatnsástungu á seinni hluta meðgöngu er aldrei gerð nema brýna nauðsyn beri til og er hún ávallt gerð með fullu samþykki verðandi foreldra þar sem vel er þekkt að slík aðgerð er ekki án áhættu fyrir ófædda barnið. Vegna þess að aðgerðin er áhættusöm er hún á höndum fárra lækna sem öðlast mikla reynslu í slíkum aðgerðum. Umræddur læknir er sá reyndasti hérlendis í slíkum aðgerðum. Enn fremur er þessi læknir með allra reyndustu fæðingarlæknum landsins, hefur hugsað um þúsundir fæðandi kvenna og komið börnum þeirra heilum í heiminn á löngum og farsælum starfsferli. Við samstarfslæknar hennar berum til hennar fullt traust og hörmum þá aðför sem hefur verið gerð að hennar mannorði og starfsheiðri í fjölmiðlum undanfarin misseri. Við vonumst til þess að fjölmiðlar sjái sóma sinn í því að stöðva einhliða umfjöllun um þetta mál og önnur skyld þar sem vel er þekkt að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk getur ekki tjáð sig um einstök mál vegna þagnarskyldu við skjólstæðinga sína.” Í kjölfar þessa ritaði stefnandi, Helgi Magnús, grein í Mbl. 9. maí 2004 sem Reynir Tómas Geirsson svaraði með grein í Mbl. 16. maí 2004 og veitti Helgi Magnús þeim skrifum andsvör með grein í Mbl. 30. maí 2004.
Með bréfi, dags. 15. apríl 2004 til lögmanns stefnenda, upplýsir Hulda Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi, grúppuanalysti og psychotherapisti, að Halldóra Ólafsdóttir geðlæknir hafi vísað stefnendum til sín til viðtalsmeðferðar vorið 2003. Tilvísunarástæðan hafi verið mikil sálræn vanlíðan, depurð og álagseinkenni (post-traumatic stress disorder) eftir sviplegan missi barns þeirra mjög skömmu eftir fæðingu þess. Þá liggur frammi staðfesting vinnuveitanda um að stefnandinn Björk hafi verið fjarverandi frá vinnu frá og með 8. nóvember 2002 til 1. febrúar 2003.
Frammi liggur svohljóðandi bréf lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 30. maí 2005, til lögmanns stefnenda:
“Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur haft til meðferðar ofangreint mál er varðar bréf yðar, dags. 4. nóvember 2003, þar sem þess er óskað að lögreglan rannsakaði andlát barnsins Hermanns Kára Helgasonar á Landspítala þann 12. nóvember 2002 og hvort starfsfólk Landspítala hafa brotið gegn lögum með því að tilkynna ekki andlátið til lögreglu.
Með bréfi, dags. 12. júlí sl., var yður tilkynnt að rannsókn málsins sem fram fór á grundvelli 3. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 hefði verið hætt. Þá ákvörðun kærðuð þér til ríkissaksóknara. Með bréfi, dags. 17. ágúst s.á., féllst ríkissaksóknari á að atvik er varðar andlát barnsins hefði sætt fullnægjandi rannsókn samkvæmt nefndu ákvæði laganna en fann að því að ekki hefði verið tekin afstaða til þess hvort ákært yrði í þeim þætti málsins er varðaði tilkynningu til lögreglu. Í þessu sambandi vísaði ríkissaksóknari til 112. gr. laga nr. 19/1991.
Af þessu tilefni tilkynnist yður það hér með að af hálfu embættisins er ekki krafist frekari aðgerða í máli þessu.
Unnt er að kæra ákvörðun þessa til ríkissaksóknara.”
Með tölvupósti ríkislögmanns til lögmanns stefnenda 11. ágúst 2003 var viðurkennd bótaskylda í málinu.
Lögmaður setti fram bótakröfu í bréfi til ríkislögmanns 24. september 2003. Tekið er fram að auk þess að krefja ríkið um bætur á grundvelli húsbóndaábyrgðar áskilji stefnendur sér allan rétt til að krefja að auki lækninn og/eða aðra starfsmenn spítalans in solidum um bætur fyrir tjón sitt. Samtals nam bótakrafan 11.713.450 krónum og var þannig sundurliðuð: Beint fjártjón 75.000 krónur, miskabætur 10.000.000 króna (5.000.000 kr. til handa hvoru), vinnutekjutap stefnandans Helga Magnúsar Hermannssonar 1.432.000 krónur og þjáningabætur samtals til beggja að upphæð 206.450 krónur.
Í svarbréfi ríkislögmanns 9. október 2003 er staðfest viðurkenning íslenska ríkisins á bótaskyldu gagnvart stefnendum. Því er hins vegar lýst að um fjárkröfur sé mjög mikill munur á hugmyndum stefnenda og þeim hugmyndum sem embætti ríkislögmanns byggi á.
IV
Stefnendur byggja á því að þau hafi orðið fyrir beinu fjártjón og miska vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna stefnda, íslenska ríkisins, sem beri vinnuveitendaábyrgð á starfsmönnum sínum. Lækninum, sem gerði mistökin og olli þar með tjóni stefnenda, er einnig stefnt í málinu.
Um bótagrundvöll vísa stefnendur m.a. til almennu skaðabótareglunnar. Að auki vísa stefnendur til 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Byggt er á því að starfsmaður eða starfsmenn spítalans og þá aðallega læknirinn stefnda Þóra F. Fischer hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með hátterni sínu gagnvart stefnendum og að það hafi orsakað mistökin sem leiddu til dauða sonar stefnenda, Hermanns Kára. Einnig er vísað til a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Á því er byggt að álitsgerð Landlæknis verði ekki skilin öðruvísi en svo að um stórkostlegt gáleysi og margþætt mistök hafi verið að ræða af hálfu starfsmanns eða starfsmanna stefnda. Þá verði ekki fram hjá því litið að stefnda Þóra F. Fischer sé ekki einungis sérfræðingur í ljósi þess að hún sé læknisfræðilega menntuð heldur sé hún að auki sérfræðingur á þessu tiltekna sviði lækninga. Ábyrgð beggja stefndu skuli skoðast í þessu ljósi og metin enn strangar fyrir þær sakir. Þar sem íslenska ríkið hafi viðurkennt bótaskyldu í málinu sé ljóst að viðurkennt sé að um hafi verið að ræða stórkostlegt gáleysi af hálfu læknisins.
Bótakrafa stefnenda sundurliðast þannig.
1. Þjáningabætur Bjarkar kr. 120.950
2. Þjáningabætur Helga kr. 85.500
3. Vinnutap Helga kr. 1.432.000
4. Miskabætur Helga og Bjarkar kr. 10.000.000
Samtals kr. 11.638.450
1 2. Þjáningabætur.
Því var lýst yfir við munnlegan málflutning að fallist væri á þessa kröfuliði af hálfu stefndu og eru því ekki efni til að gerð sé grein fyrir hvernig þeir eru fundnir.
3. Vinnutap.
Stefnandi Björk fékk greidd laun í veikindafríi og eru því ekki gerðar kröfur um vinnutap hennar.
Stefnandi Helgi Magnús er hins vegar sjálfstætt starfandi atvinnurekandi og var hann einnig frá vinnu frá fæðingu Hermanns Kára og fram í febrúar en út febrúar og mars var hann eingöngu í hálfu starfi. Þar sem Helgi Magnús er sjálfstætt starfandi fékk hann ekki greidd laun í veikindafríi. Við kröfu um vinnutap er í aðalkröfu miðað við meðaltekjur viðskiptafræðinga og annarra sérfræðinga í viðskiptagreinum samkvæmt ársfjórðungsniðurstöðum kjararannsóknarnefndar fyrir lokaársfjórðung 2002. Samkvæmt niðurstöðum kjararannsóknarnefndar voru mánaðarlaun viðskiptafræðinga og annarra sérfræðinga í viðskiptagreinum kr. 358.000 á mánuði á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi var á þeim tíma löggiltur fasteignasali og að auki langt kominn með löggildingu verðbréfamiðlara. Hann rak fasteignasölu frá 1. júní 1997 og starfar jafnframt sem ráðgjafi á því sviði. Að auki hefur Helgi Magnús starfað sem stjórnarmaður í tveimur öðrum fyrirtækjum. Stefnandi Helgi var alveg frá vinnu í þrjá mánuði og er gerð krafa um kr. 1.074.000 (358.000 x 3) og hann var eingöngu í hálfu starfi næstu tvo mánuði þar á eftir og er því að auki gerð krafa um kr. 358.000 ((358.000/2 x 2).
Varakrafa stefnenda er við það miðuð að við útreikning vinnutekjutaps stefnanda Helga Magnúsar skuli miða við þær lágmarkstekjur sem uppgefnar eru í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þ.e. 1.200.000 krónur á ársgrundvelli. Er því varakrafa stefnenda miðuð við að vinnutekjutap stefnanda Helga Magnúsar sé 400.000 krónur.
4. Miskabætur.
Stefnendur gera hvort um sig kröfu um miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna eða samtals 10.000.000 króna.
Áður hefur verið gerð grein fyrir meginrökstuðningi stefnenda.
Stefnendur byggja á því að aukið miskatjón hafi falist í háttsemi starfsmanna spítalans í kjölfar andláts sonar þeirra og valdið þeim auknum og óþarfa harmi. Þar beri fyrst að nefna sífelldar tilraunir starfsfólks til að koma á fundi með stefnendum og lækninum Þóru F. Fischer, að sögn að beiðni læknisins; engu hafi breytt þó að stefnendur hefðu frá fæðingu barnsins tekið það skýrt fram að þau vildu alls ekki ræða við lækninn Þóru. Þá hafi stefndi (svo) sent stefnendum spurningalista eftir andlát sonar þeirra varðandi viðhorf þeirra til þjónustu á sængurlegudeild og bréfið hafist á hamingjuóskum með nýfætt barn þeirra. Starfsfólki spítalans hafi láðst að láta sjúkrahúsprestinn vita af því að sonur þeirra hefði látist og hafi það komið í hlut þeirra sjálfra að láta hann vita af því. Við brottför úr spítalanum þann 12. nóvember eftir andlát sonar þeirra hafi þeim verið tjáð að koma ekki síðar en 14. eða 15. nóvember til saumatöku. Þau hafi haft samband við spítalann þann 14. nóvember og fengið bókaðan tíma daginn eftir. Þegar þau hafi mætt á þeim tíma til saumatökunnar hafi starfsfólki þar ekki verið tjáð að barn stefnenda hefði látist og þau verið spurð að því hvar barnið væri og hvort því liði ekki vel. Sama hjúkrunarkona hafi síðan ætlað að senda stefnendur inn á sængurkvennadeild til að láta stefnanda Börk í svokallaða mjaltavél þrátt fyrir að hafa verið tjáð að barn stefnenda hefði látist. Stefnendum hafi naumlega tekist að afstýra því enda hafi þau engan veginn treyst sér til að vera innan um þungaðar konur og nýfædd börn á þeim tíma. Öll ofangreind atriði hafi valdið stefnendum auknu álagi og aukinni vanlíðan.
Einnig er á því byggt að aukinn miski sé fólginn í því að stefnandi Björk þjáðist af svokallaðri mótefnamyndun eða immunisering með anti D og anti C. Slík mótefnamundun versni yfirleitt við hverja meðgöngu. Þetta muni því hafa áfram veruleg áhrif á heilsu hennar. Í janúar hafi hún alið fjórða barn þeirra stefnenda. Vegna mótefnamyndunar á háu stigi hafi orðið að skipta um blóð í barninu í móðurkviði en slík aðgerð sé áhættusöm og valdi miklu álagi.
Þá er byggt á því að aukinn miski sé fólginn í því að læknar LSH, þ.á m. Reynir T. Geirsson, hafi fjallað um málið í fjölmiðlum, vænt þar stefnendur um ósannindi og farið frjálslega með staðreyndir málsins opinberlega. Þessi framkoma læknanna hafi valdið stefnendum auknum sárindum og vanlíðan.
Telja verði víst að sonarmissirinn komi til með að hafa veruleg og varanleg áhrif á líf stefnenda. Sama máli gegni um framkomu lækna og annars starfsfólks LSH í kjölfar fæðingar og dauða sonar þeirra.
V
Í greinargerð stefndu segir að þau telji ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til málavaxtalýsingar stefnenda þar sem stefndi, íslenska ríkið, hafi þegar viðurkennt bótaskyldu vegna andláts sonar stefnenda og boðist til að greiða þeim bætur. Þá segir að viðurkenning stefnda, íslenska ríkisins, á bótaskyldu byggist á greinargerð Reynis Tómasar Geirssonar yfirlæknis dags. 13. desember 2002 og áliti landlæknis frá 8. apríl 2003.
Málflutningur stefndu verður skilinn þannig að það, sem hér var sagt um viðhorf stefnda, íslenska ríkisins, eigi einnig við um stefndu, Þóru F. Fischer.
Áður er fram komið um viðurkenningu á þjáningabótakröfum stefnenda á grundvelli skaðabótalaga.
Kröfu um bætur fyrir vinnutap stefnanda, Helga Magnúsar, er mótmælt sem vanreifaðri og sé útilokað að meta hana að álitum. Telji stefnandi sig hafa orðið fyrir vinnutapi hljóti hann að geta sýnt fram á tjón sitt með eðlilegum samanburði milli ára eða tímabila á grundvelli framtalsgagna. Það hafi hann ekki gert en vísi til meðaltalstekna viðskiptafræðinga í launarannsóknum kjararannsóknarnefndar. Að mati stefndu geta launarannsóknir kjararannsóknarnefnda, sem sýni meðaltalstekjur viðskiptafræðinga, ekki verið nægileg heimild til að dæma stefnanda bætur vegna ætlaðs vinnutaps Fleira þurfi til að koma til og þar vegi einstaklingsbundnar aðstæður þyngst.
Stefndu mótmæla miskabótakröfu stefnenda. Vísað er til þess að hún byggist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laganna sé heimilt að láta þann, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi valdi dauða annars manns, greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur. Stefndu mótmæla því að þessi tilteknu skilyrði miskabóta séu fyrir hendi í málinu. Stefndu hafi viðurkennt bótaskyldu. Hins vegar hafi þau ekki viðurkennt stórfellt gáleysi og mótmæla þeirri fullyrðingu stefnenda í málatilbúnaði þeirra að viðurkenning á bótaskyldu samsvari viðurkenningu á stórfelldu gáleysi.
Fjárhæð miskabótakröfu stefnenda er sérstaklega mótmælt sem of hárri. Í lögskýringargögnum með 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, séu sjónarmið á bak við lagaákvæðið rakin ítarlega. Lögð sé áhersla á að reglan sé matskennd og að það sé lagt í hendur dómstóla að ákveða hæfilegar bætur og að bætur séu ákveðnar á grundvelli sanngirni. Í því sambandi verði með öðru að hafa í hafa sök tjónvalds. Gert sé ráð fyrir því að bótum sé stillt í hóf og m.a. að aldrei verði hægt að bæta aðstandendum miska þann sem hér um ræðir.
Í stefnu sé lýst tilraunum stefndu, Þóru F. Fischer, til að ná tali af stefnendum og sagt frá dæmum um misskilning sem upp hafi komið á spítalanum milli starfsfólks og stefnenda. Stefndu mótmæla því að þessi tilgreindu dæmi eigi að leiða til bótaskyldu enda séu engar lagalegar forsendur til þess.
Af hálfu stefndu er vaxtakröfum svo og öllum tölulegum viðmiðunum stefnenda mótmælt í heild sinni.
VI
A
Samkvæmt samþykki stefndu verða stefnendum tildæmdar þjáningabætur; 120.950 krónur til handa Björk og 85.500 krónur til handa Helga Magnúsi.
B
Á það er fallist með stefndu að viðhlítandi sönnur séu ekki færðar að tjóni stefnanda, Helga Magnúsar, vegna vinnutekjutaps samkvæmt aðalkröfu hans. Þar sem varakrafa hans um 400.000 krónur sætir hins vegar ekki andmælum af hálfu stefndu verður hún tekin að fullu til greina.
C
Viðurkenning á bótaskyldu felur í sér skírskotun til ábyrgðar stefndu, Þóru F. Fischer, samkvæmt almennu skaðabótareglunni og stefnda, íslenska ríkisins, samkvæmt reglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð. Stefndu andmæla því að í viðurkenningu á bótaskyldu felist viðurkenning á því að um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða. Vandséð er að bótaábyrgð stefndu geti að lögum, og án þess að sérstakt samþykki komi til, grundvallast á öðru en miskabótum samkvæmt 2. mgr. (tilvísun í a. lið 1. mgr. á ekki við um efni málsins) 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þ.e. vegna þess að dauða sonar stefnenda hafi verið valdið af stórfelldu gáleysi. Ex tuto verður tekin afstaða til álitaefnis um stórfellt gáleysi.
Samkvæmt mæðraskránni gekk meðgangan eðlilega fyrir sig nema hvað mótefni fóru hækkandi og þann 28.10.02 var eftirfarandi skráð í mæðraskrána: “Hækkandi titer með 1:132 f anti D. Gerð ástunga í dag og síðan frh. eftir þeirri niðurstöðu. H.H.” Þessi ástungu / aðgerð gekk vel og var án eftirkasta og er ítarlega lýst með texta og myndum á ómskoðunarblaði en Björk var þá gengin 33 og 1/2 viku. Eftir ástunguna var henni um tíma fylgt eftir með sírita (monitor), en síðan send heim.
Þann 31.10.02 var eftirfarandi skráð í mæðraskrá: “OD í Zone 1 le...graph. Ástunga aftur eftir viku”
Björk kom síðan til fyrrgreindrar endurástungu þann 08.11.02 og var ástungan framkvæmd af Þóru F. Fischer lækni. Á ómskoðunarblaðinu stendur “35 vikur, einburi. Hjartsl fyrir+” og í dálkinn “athugasemdir” er eftirfarandi skráð: “ transplasentalt-blæðir inn í amnion!”
Í dagál læknis þennan sama dag hefur Þóra F. Fischer læknir jafnframt skráð eftirfarandi: “Meðgöngulengd 35 vikur. Anti-D (+C) immuniseruð hratt vaxandi titer. Var gerð ástunga fyrir 12 dögum = OD í Zone 1. Gerð ástunga nú. Eðlilegt útlit fósturs bjúgur eða acitis. En blæðing frá stungustað: Plan: steraprofylax 8/11 kl 13 15 gefið KB. Mat m.t.t. gangs eftir niðurstöðu OD Þ.F.”
Kl. 16 þennan sama dag skrifaði Þóra F. Fischer enn fremur í dagál læknis: “Ástunga var gerð kl 13:00 . Gerð transplacentalt á lateral svæði, en greinilega farið í æðblæðir inn í amníon. Sett þess vegna í monitor- rit erfitt að meta m. fáum hröðunum og konan finnur litlar hreyfingar. Ómskoðun nú sýnir haematom v fylgju þar sem stungið var. Fær síðan vaxandi samdrætti sem líða vel úr á milli. Innlögn v. Blæðingar v fylgju e. ástungu. Plan: rúmlega, síritun, acute sectio ef versnandi ástand. Blóðbanki látinn vita Þ.F.”
Björk var flutt inn í svokallað eftirlitsherbergi eftir ástunguna. En þar var hún sett í fóstursírita og látin fylgjast með hreyfingum með sérstakri merkjagjöf. Engin sérstök munnleg né skrifleg fyrirmæli virðast hafa verið gefin af Þóru F. Fischer aðgerðarlækni til þeirra ljósmæðra sem sáu um eftirlitið þennan umrædda dag, þótt vitað væri að legvatn væri blóðlitað og því grunur um blæðingu hjá fóstrinu og yfirvofandi hættuástand sem bæri að taka alvarlega.
Stefnendur segjast sjálfir hafa upplýst eftirlitsljósmæðurnar um ástandið og alvarleika málsins og margítrekað að hreyfingar færu minnkandi og kalla yrði tafarlaust til lækni, en ekki orðið við bón þeirra. Samkvæmt skýrslu, undirritaðri af Unni Baldursdóttur ljósmóður, var þó brugðist við kvörtun þeirra með eftirfarandi hætti: “kl. 13:25 kemur Björk í monitor vegna legvatnsástungu v/Rh neg immuniseringu, gengin 35 vikur. Örfáum mínútum eftir að Björk er sett í rit nær Þórey í sérfræðinginn á deildinni v? bradicarediu (Þóru Steingrímsdóttur, sem segir hafa hana lengur í riti. Ca 1 klst seinna er haft samband við Þóru Fischer, sérfræðing sem gerði ástunguna og kom hún og leit á ritið. Kl. 15:30 erum við Þórey mjög óánægðar með ritið, s.s. engar hreyfingar og greinilegar dýfur í riti að okkar mati. Haft samband við Þóru aftur, og hún kom þegar hún var búin að sinna konu sem hún var með í sónar. Hún tók Björk síðan í sónar kl 15:45.” Athygli vekur að framangreind lýsing er skráð nokkru eftir umræddan atburð, eða 27. nóvember 2002, og hefur ekki verið staðfest fyrir dómi.
Gefin var sterasprauta og þegar stefnendum var ljóst að til stæði að senda þau heim og Björk yrði látin koma daginn eftir í aðra sprautu, kröfðust þau þess að aðgerðarlæknirinn Þóra F. Fischer yrði kölluð til og látin meta ástandið. Þóra F. Fischer kom svo og mat ástandið eins og rakið er í dagál hennar, sem er tímasettur kl 16, og lagði upp plan um rúmlegu, áframhaldandi síritun og acute sectio “ef versnandi ástand”.
Þegar ritið er skoðað í heild sinni frá kl 13 fram til þess tíma er Þóra F. Fischer kemur og endurmetur ástandið má sjá í því merki um fósturstreitu með hækkandi grunntíðni og minnkandi breytileika eftir því sem lengra líður frá ástungunni og seinum dýfum sem sjást upp úr kl. 15.30 og á sama tíma kvartar Björk undan minnkandi hreyfingum; hvort tveggja er merki um bráða hættu fóstursins í ljósi þess er undan var gengið og hefði átt að framkvæma tafarlaust keisaraskurð á þessum tímapunkti en ekki að bíða og sjá til eins og Þóra F. Fischer ákvað kl. 16.
Þar sem klínist ástand fóstursins (barnsins) fór greinilega versnandi var ákveðinn bráða keisaraskurður, eða eins og stendur í aðgerðalýsingu Þóru F. Fischer “Undir. ómskoðaði þá konuna aftur og greindi nokkuð vænt haematom milli amnion og fylgju. Rit var líka flatt og hækkandi basal sequenses og því ákv. taka konuna í acute keisaraskurð.”
Það er athyglisvert að Þóra F. Fischer talar um acute keisaraskurð, þegar þetta augljósa hættuástand var orðin staðreynd. Engu að síður fær konan mænudeyfingu í stað svæfingar fyrir aðgerðina sem eykur blæðingaráhættuna og lengir undirbúningstímann fyrir aðgerðina verulega.
Eins og áður er fram komið fæddist barnið alvarlega veikt vegna blóðleysis og súrefnisskorts og lést þann 12.11.2002 af völdum þessara áverka.
Niðurstöður á grundvelli framanritaðs:
1) Konan var heilbrigð í byrjun meðgöngu og rétt og eðlilega var staðið að mæðraeftirlitinu.
2) Er á leið meðgönguna kom fram við blóðrannsóknir mótefnamyndun gegn blóði (blóðkornum) fóstursins og var því legvatnsástunga ákveðin, sem framkvæmd var, þegar hún var gengin 33 og ½ viku. Sú ástunga gekk vel, en niðurstöður bentu til að endurtaka þyrfti þá ástungu innan fárra daga og var það fullkomlega réttlætanleg ákvörðun.
3) Seinni ástungan var svo framkvæmd 12 dögum síðar eða þann 08.11.´02. Eins og við fyrri ástunguna þurfti að stinga gegnum fylgjuna, þar sem hún var á framvegg legsins. Við þessa ástungu kom fram blóð í legvatnssýninu sem benti til að stungið hefði verið í fylgjuæð, en við það skapaðist hætta um blóðtap hjá fóstrinu, sem þegar var verið að rannsaka vegna gruns um blóðleysi.
4) Konan var sett í eftirlit með sírita og látin merkja við fósturhreyfingar. Engin skrifleg né munnleg fyrirmæli um strangt eftirlit með konunni og fóstrinu virðast hafa verið gefin af aðgerðarlækninum Þóru F. Fischer, þrátt fyrir yfirvofandi bráða hættu fyrir fóstrið.
5) Seint var brugðist við þráfelldum ábendingum verðandi foreldra um minnkaðar fósturhreyfingar og þótt eftirlitsljósmæður merktu alvarleg merki um fósturstreitu í sírita og létu aðgerðarlækni af því vita var ekki strax við því brugðist.
6) Þegar aðgerðarlæknir gerði sér síðan grein fyrir alvarleika málsins og staðfesti með ómun “ vænt haematom milli amnion og fylgju” var enn ákveðið að bíða og sjá til.
7) Þegar síðan var ljóst að fóstrið var í lífsháska og ákveðinn bráðakeisari var ákveðið að deyfa konuna í stað svæfingar þannig að tíminn frá ákvörðun um bráðakeisara fram að fæðingu barnsins var um þrír stundarfjórðungar auk þess sem blæðingaráhætta var aukin. Slíkt getur engan veginn fallist undir bráða aðgerð (acute sectio) og verður drátturinn ekki réttlættur en eðlileg tímamörk hefðu verið undir 20 mínútum við þessar aðstæður. Prófessor Reynir Tómas Geirsson færir fram eftirfarandi skýringu í greinargerð sinni um málið:”Hún [Þóra Fischer] mat ástandið stuttu síðar þannig að eðlilegs undirbúnings fyrir keisaraskurð ætti að gæta með tilliti til öryggis móðurinnar”. Vegna þessa skal tekið fram að ótvírætt er af gögnum málsins að það var barnið, ekki móðirin, sem var í bráðri hættu.
Ljóst er af framangreindu að eftirliti eftir legvatnsástungu með blæðingu með augljósri hættu fyrir fóstrið var mjög ábótavant. Þegar síðan klár merki um alvarlega fósturstreitu og grun um blæðingalost hjá fóstrinu komu fram var seint og illa við þeim brugðist. Það leiddi til þess að þegar barnið fæddist með keisaraskurði var það bráðveikt af blæðingalosti og lést fjórum dögum síðar. Hér verður því að telja að um stórfellt gáleysi í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, hafi verið að ræða. Á hinn bóginn er fallist á það með stefndu að fyrir því sé ekki lagastoð að mistök af hálfu starfsfólks umræddrar stofnunar í samskiptum við stefnendur eftir hið sviplega andlát og vöntun á tilhlýðilegri aðgát geti verið grundvöllur miskabóta.
Samkvæmt þessu er fallist á að dæma beri stefnendum miskabætur sem eru ákveðnar 3.500.000 krónur til handa hvoru þeirra um sig.
Niðurstaða dómsins er samkvæmt framangreindu sú að dæma beri stefndu óskipt til að greiða stefnanda, Helga Magnúsi Hermannssyni, 3.985.500 (85.500 + 400.000 + 3.500.000) krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði og stefnanda, Björk Baldursdóttur, 3.620.950 ( 120.950 + 3.500.000) krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnendum málskostnað sem er ákveðinn 750.000 krónur.
Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Benedikt Ó. Sveinsson og Konráð Lúðvíksson, sérfræðingar í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp.
D ó m s o r ð:
Stefndu, íslenska ríkið og Þóra F. Fischer, greiði óskipt stefnanda, Helga Magnúsi Hermannssyni, 3.985.500 krónur með 4,5% ársvöxtum af 485.500 krónum frá 12. nóvember 2002 til 28. september 2004 en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.985.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags og stefnanda, Björk Baldursdóttur, 3.620.950 krónur með 4,5% ársvöxtum af 120.950 krónum frá 12. nóvember 2002 til 28. september 2004 en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.620.950 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnendum 750.000 krónur í málskostnað.