Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2017 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 8. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni og brottvísun af heimili. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að brottvísun af heimili og nálgunarbanni verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að varnaraðila verði ekki gert að sæta nálgunarbanni.
Eftir 2. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili ef það þykir nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni brotaþola. Samkvæmt því verður nálgunarbanni markaður sami tími og brottvísun af heimili. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni til sunnudagsins 5. febrúar 2017 klukkan 16.00.
Þóknun verjanda varnaraðila, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2017.
Þann 10. janúar síðastliðinn krafðist lögreglustjórinn á Suðurnesjum þess að héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 8. janúar 2017 þess efnis að X, kt. [...], sé gert að sæta brottvísun af heimili sínu að [...], [...], [...], frá uppkvaðningu úrskurðar til sunnudagsins 5. febrúar 2017, kl. 16:00 og nálgunarbanni frá uppkvaðningu úrskurðar til mánudagsins 3. júlí 2017, kl. 16:00, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að hann veiti A eftirför, nálgaðist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.
Varnaraðili mótmælti kröfunni og krafðist þess að henni yrði hafnað.
Í greinargerð lögreglustjóra segir vegna máls lögreglu nr. 008-2107-[...] að brotaþoli, A, kt. [...], hafi komið á Lögreglustöðina við Hringbraut og greint frá því að hún hefði orðið fyrir líkamsárás af hálfu varnaraðila, X, fyrr um kvöldið 7. janúar 2017, á sameiginlegu heimili þeirra að [...], [...].
Lögregla hafi rætt við brotaþola og hafi hún sjáanlega í miklu uppnámi. Hún hafi meðal annars greint lögreglu frá því að hún hefði orðið fyrir líkamsárás af hálfu varnaraðila. Aðspurð um atburðarásina fyrr um nóttina hafi hún greint frá því að ágreiningur á milli hennar og varnaraðila hafi endað með því að hún hafi hlaupið út á svalir sem séu við íbúð þeirra á 3. hæð og hafi hún hangið fram af þeim þegar nágrannar í íbúð á hæðinni fyrir neðan hafa gripið um fætur hennar og bjargað henni. Brotaþoli hafi verið með sjáanlega áverka í andliti og verið draghölt. Lögregla hafi farið með brotaþola til skoðunar hjá lækni. Daginn eftir hafi lögregla tekið skýrslu af brotaþola og hafi hún þá greint frá atburðum á sama hátt. Hún hafi greint frá því að varnaraðili væri mjög oft illskeyttur í hennar garð þegar hann drykki áfengi. Varnaraðili hafi verið að drekka bjór sem hafi endað með því að hann kýldi brotaþola í andlit og höfuð hennar og reif í hár hennar. Greindi brotaþoli jafnframt frá því að hún væri hrædd við varnaraðila og að hún óttaðist um eigið öryggi. Taldi hún líklegt að varnaraðili myndi skaða hana frekar og óttaðist hún að hann kynni að framkvæma hótun sína um að drepa hana. Varnaraðili hafi margoft hótað að drepa brotaþola, einnig með orðum í SMS skilaboðum. Brotaþoli hafi einnig greint frá því að varnaraðili sé ákaflega stjórnsamur og hann sendi henni mjög mörg SMS skilaboð á hverjum degi og hún megi ekki eiga karlkynsvini á Facebook. Einnig hafi hún greint frá því að varnaraðili hefði hana algerlega undir eftirliti og sé hún ekki frjáls. Einnig hafi brotaþoli greint frá því að hún og varnaraðili hafi verið gift í langan tíma og eigi sama fjögur uppkomin börn. Hafi varnaraðili beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi síðastliðin 10 ár og óttist hún hann afar mikið. Hafi brotaþoli verið með áverka við vinstri auga og munn og kvaðst vera mjög illt í vinstra hné og í maganum. Hafi hún óskað eftir nálgunarbanni og brottvísun af heimili.
Í skýrslutökuna varnaraðila hjá lögreglu 8. janúar 2017 hafi hann neitað því að hafa beitt brotaþola ofbeldi. Hafi hann greint frá atburðum með þeim hætti að hann og brotaþoli hafi verið að rífast eða aðallega brotaþoli að nöldra í honum og svo hafi hún farið út á svalir og hótað því að hoppa fram af. Greindi varnaraðili frá því að hann hefði haldið í hendur brotaþola þannig að hún myndi ekki falla fram af svölunum og þannig hafi hann bjargað lífi hennar. Aðspurður hafi varnaraðili sagt það rangt að hann hefði beitt brotaþola ofbeldi síðastliðin 10 ár. Þau hafa bara rifist annað slagið eins og gengur og gerist. Spurður um það hvernig hann skýri áverka á brotaþola bar varnaraðili að þeir hefðu komið til þegar brotaþoli var að reyna hoppa fram af svölunum. Varnaraðili neitaði að gera samning við lögreglu um að hann færi tímabundið af heimilinu þannig að brotaþoli gæti búið örugg á sínu heimili.
Í málinu komi fram að íbúar hafi aðstoðað brotaþola að komast í skjól með því að grípa í fætur hennar þar sem hún hafi hangið á svölum þriðju hæðar. Þá komi fram hjá vitni að heyrst hafi mikið öskur frá íbúðinni að ofan og þegar vitnið hafi komið út á svalir hafi vitnið veitt brotaþola athygli þar sem hún hafi hangið fram af svölum á þriðju hæð. Vitnið hafi sagt að ef það hefði ekki gripið inn í og dregið brotaþola inn á svalir á 2. hæð hefði hún fallið niður þrjár hæðir, enda hafi hún misst gripið þegar vitnið hafi tekið um mitti hennar. Þegar hún hafi verið komin inn í íbúðina á ný hafi hún rokið út.
Við skoðun á málaskrá lögreglu megi finna eitt mál þar sem deilur virðist hafa verið á milli brotaþola og varnaraðila, það er lögreglumálið númer 008-2016-[...]. Í málinu hafi lögreglu borist tilkynning aðfaranótt [...]. desember 2016 um hugsanlega yfirstandandi líkamsárás að [...], [...], heimili brotaþola og varnaraðila. Lögregla hafi farið á vettvang og hitt brotaþola þar fyrir. Hafi hún setið í stiga á milli 2. og 3. hæðar hússins og sjáanlega verið í miklu uppnámi. Í viðræðum við lögreglu hafi hún meðal annars greint frá því að varnaraðili hefði fyrr um kvöldið hótað að beita hana líkamlegu ofbeldi, verið mjög ógnandi og til alls líklegur og því hafi hún flúið fram á stigagang þar sem nágrannkona hafi aumkað sér yfir hana og hringt á lögreglu. Spurð um forsögu málsins hafi brotaþoli greint frá því að varnaraðili hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi í 10 ár og að hann sé veikur á geði. Hún hefði margoft flúið íbúð þeirra hjóna vegna ofbeldis og farið niður í kjallara og gist þar í geymslu sem fylgi íbúð þeirra. Geymslan sé mjög lítil og yrði hún því að sofa sitjandi þar inni. Þá sé hvorki hiti né rafmagn í geymslunni.
Síðar um nóttina hafi lögregla tekið skýrslu af brotaþola og hún þá greint frá atburðum á sama veg og lýst sé að framan. Hafi brotaþoli jafnframt greint frá því að hún væri hrædd við varnaraðila og að hún óttaðist um eigið öryggi. Taldi hún líklegt að varnaraðili myndi skaða hana frekar og óttaðist hún um að hann kynni að framkvæma hótun sína um að drepa hana.
Þann 11. janúar síðastliðinn hafi lögreglumenn farið að heimili brotaþola og hafi hún virst vera mjög hrædd við varnaraðila. Hún hafi ekki þorað að afhenda farsíma sinn þar sem hún óttaðist að þá myndi varnaraðili drepa hana. Eftir að lögreglustjóri hafi tekið ákvörðun um nálgunarbann og brottvísun af heimili hafi brotaþoli sagt að varnaraðili hafi sent sér SMS og reynt að hringja í hana. Varnaraðili kveðst hins vegar einungis hafa sent henni SMS. Miðað við þau gögn sem unnt hafi verið að afla og þeirra framburða aðila sem liggi fyrir telji lögreglustjóri að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að varnaraðili hafi framið refsiverð brot og/eða raskað friði brotaþola, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Að virtum atvikum málsins telji lögreglustjóri að hætta sé á því að varnaraðili muni á ný brjóta gegn brotaþola á sambærilegan hátt eða á annan hátt er raski friði hennar eins og kveðið er á um í 4. og 5. gr. nefndra laga nr. 85/2011. Jafnframt telji lögreglustjórinn á Suðurnesjum hættu á að varnaraðili muni brjóta gegn brotaþola ef brottvísun og nálgunarbanni verði ekki beitt í máli þessu. Samkvæmt þessu telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt og að verndarhagsmunir standi til þess að tryggja brotaþola þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og geta verið óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu varnaraðili. Þá þyki lögreglustjóra með vísan til 1. mgr. 6. gr. nefndra laga að ekki sé unnt að vernda friðhelgi brotaþola með öðrum og vægari hætti en með brottvísun af heimili og nálgunarbanni.
Vísað er til framangreinds, framlagðra gagna og laga nr. 85/2011, einkum 4., 5. og 12. gr. er þess krafist að fallist verði á hina umbeðnu kröfu.
Samkvæmt 4. og 5. gr. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni og brottvísun af heimili ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Jafnframt er heimilt að beita nálgunarbanni og brottvísun af heimili ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola. Þá er heimilt að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili ef nauðsynlegt þykir til að vernda hagsmuni brotaþola, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Með hliðsjón af öllu framangreindu og rannsóknargögnum málsins þykja vera fyrir hendi skilyrði samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 til að beita brottvísun af heimili og nálgunarbanni eins og kveðið er á um í ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 8. janúar 2017, enda er ekki talið sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðru og vægari móti. Verður ákvörðun lögreglustjóra því staðfest svo sem greinir í úrskurðarorði. Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola, sem greiðist úr ríkissjóði, er ákveðin eins og nánar greinir í úrskurðarorði, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 8. janúar 2017 um að X, kt. [...], sé gert að sæta brottvísun af heimili sínu að [...], [...], [...], frá uppkvaðningu úrskurðar til sunnudagsins 5. febrúar 2017, kl. 16:00 og nálgunarbanni frá uppkvaðningu úrskurðar til mánudagsins 3. júlí 2017, kl. 16:00, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að hann veiti A eftirför, nálgaðist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar hdl., 286.440 krónur og 17.354 krónur í aksturskostnað greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Halldóru Aðalsteinsdóttur hdl., 245.520 krónur og 17.354 krónur í aksturskostnað greiðist úr ríkissjóði.