Hæstiréttur íslands

Mál nr. 362/2012


Lykilorð

  • Rán
  • Þjófnaður
  • Gripdeild
  • Ávana- og fíkniefni
  • Akstur án ökuréttar
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Hegningarauki


                                     

Fimmtudaginn 13. desember 2012.

Nr. 362/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Ívari Aroni Hill Ævarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Rán. Þjófnaður. Gripdeild. Ávana- og fíkniefni. Akstur án ökuréttinda. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hegningarauki.

Í var sakfelldur fyrir rán, þjófnað, fíkniefnalagabrot og nánar tilgreind umferðarlagabrot. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár. Þá var Í sviptur ökurétti ævilangt og gert að sæta upptöku á fíkniefnum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Benedikt Bogason og Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ríkissaksóknari skaut tveimur málum til Hæstaréttar 22. maí og 13. ágúst 2012 í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hinna áfrýjuðu dóma að öðru leyti en því að refsing verði þyngd. 

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og bundin skilorði.

Fyrir Hæstarétti hafa málin verið sameinuð.

Með fyrri dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Suðurlands 13. apríl 2012, var ákærði sakfelldur fyrir rán 11. desember 2010. Með þeim dómi var tekið upp 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi samkvæmt fyrri dómi 22. nóvember 2011 og refsing ákveðin í einu lagi 14 mánaða fangelsi. Síðari dómurinn, sem er áfrýjað, var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. júlí 2012, en með honum var ákærði sakfelldur fyrir nánar tilgreind auðgunarbrot, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot framin á tímabilinu 10. nóvember 2011 til 8. júní 2012. Með þeim dómi var ákærða gerður hegningarauki og refsing ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

Með vísan til forsendna hinna áfrýjaðu dóma verða þeir staðfestir á þann veg sem í dómsorði greinir.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málanna, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Ívar Aron Hill Ævarsson, sæti fangelsi í 2 ár, en frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald sem ákærði sætti 13. til 20. desember 2010.

Ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2012 um sviptingu ökuréttar ákærða og upptöku fíkniefna og ákvæði beggja hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málanna, 362.401 króna, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. apríl 2012.

Mál þetta, sem þingfest var þann 22. mars 2012 og dómtekið sama dag, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 23. febrúar 2012, á hendur X, kt. [...], [...], [...], Y, kt. [...], [...], [...] og Ívari Aroni Hill Ævarssyni, kt. [...], [...], [...],

„fyrir eftirtalin brot:

1.       Á hendur ákærðu X og Y fyrir rán með því að hafa sunnudaginn 5. desember 2010, ruðst inn í sameign hússins að [...] á [...] eftir að ákærði X hafði brotið upp kjallarahurð húsnæðisins og í sameiningu neytt A, inn í kjallaraíbúð þar sem ákærðu hótuðu honum líkamlegu ofbeldi í því skyni að hafa af honum verðmæti og hótuðu A líkamsmeiðingum ef hann segði frá atvikinu og þorði hann ekki að sporna við verknaðinum af ótta við ákærðu sem höfðu á brott með sér tvær fartölvur, hátalarakerfi, verkfæratösku, töng, klippur, snjóbuxur og vasahníf.

 M.033-2010-9005

2.       Á hendur ákærðu öllum fyrir rán, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 11. desember 2010, farið óboðnir inn í kjallaraherbergi að [...] á [...], þar sem B, C, D og E voru að spila tölvuleiki, og látið þá taka saman tölvubúnað, síma og aðra hluti til að hafa á brott með sér. Ákærði X ógnaði B með því að strjúka hníf við andlit hans og sló B með opnum lófa þegar hann neitaði að afhenda símann sinn. Ákærði X otaði hnífnum einnig að C með ógnandi hætti. Ákærði Ívar Aron sló C með krepptum hnefa þegar hann neitaði að afhenda símann sinn svo hann hlaut mar á neðri vör. Ákærði Y ógnaði öllum drengjunum með því að munda hafnaboltakylfu á meðan atvikið stóð yfir. Ákærðu allir hótuðu drengjunum lífláti eða líkamsmeiðingum ef sagt yrði frá atvikinu. Ákærðu höfðu á brott með sér tvær borðtölvur, fartölvu, tölvuskjá, hátalarakerfi, þrjú lyklaborð, tvær tölvumýs, tvær töskur, úlpu, skó, sveðju og þrjá farsíma.

M.033-2010-8916

Telst háttsemi samkvæmt 1. og 2. ákærulið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3.       Á hendur ákærða Y fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa í kjölfar ofangreindra atvika sem lýst er í ákærulið 1. [sic] og 2.[sic], ekið bifreiðinni [...] um götur [...], án þess að hafa öðlast ökuréttindi.

033-2010-9005 og 8916

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákæruvaldið hefur undir rekstri málsins fallið frá því atriði í öðrum tölulið ákæru að ákærði X hafi strokið hnífi við andlit B.

Ákærðu mættu allir við þingfestingu málsins þann 22. mars sl., og voru þeim, að þeirra ósk,  skipaðir verjendur.

Af hálfu ákærðu er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjendur ákærðu krefjast jafnframt hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Um málavexti vísast til ákæruskjals að teknu tilliti til þess atriðis í öðrum tölulið ákæru sem ákæruvaldið féll frá undir rekstri málsins eins og að framan greinir.

Ákærði X hefur skýlaust játað þau brot sem honum eru gefin að sök í fyrsta og öðrum tölulið ákæru að því gættu að fallið hefur verið frá því ákæruatriði í öðrum tölulið ákæru að hann hafi strokið hnífi við andlit B. Skýlaus játning ákærða X er studd framlögðum rannsóknargögnum lögreglu. Samkvæmt þessu verður ákærði X sakfelldur fyrir framangreind brot sem réttilega eru heimfærð til refsiákvæða í ákæru. 

Ákærði Y hefur skýlaust játað þau brot sem honum eru gefin að sök  í fyrsta, öðrum og þriðja tölulið ákæru og er játning hans í samræmi við framlögð rannsóknargögn lögreglu. Með vísan til þess verður ákærði Y sakfelldur fyrir framangreind brot sem réttilega eru heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði Ívar Aron hefur skýlaust játað það brot sem honum er gefið að sök í öðrum tölulið ákæru. Játning hans er studd framlögðum rannsóknargögnum. Ákærði Ívar Aron verður því sakfelldur fyrir framangreint brot sem réttilega er heimfært til refsiákvæðis í ákæru. 

 Með vísan til skýlausra játninga ákærðu allra og að uppfylltum öðrum skilyrðum 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var farið með málið í samræmi við ákvæði áðurnefndrar lagagreinar án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjendum ákærðu  hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákvörðun refsinga

Ákærðu X og Y frömdu ránsbrotin tvö með nokkurra daga millibili. Bæði brotin voru alvarleg, framin í samverknaði og var háttsemi ákærðu til þess fallin að vekja ótta þeirra sem fyrir henni urðu. Í síðara ránsbrotinu, sem ákærðu allir frömdu, sló ákærði X B með opnum lófa og otaði hníf að C með ógnandi hætti. Ákærði Y ógnaði öllum drengjunum með því að munda hafnarboltakylfu og ákærði Ívar Aron sló C í andlitið. Þá höfðu ákærðu á brott með sér nokkur verðmæti. Rannsókn máls þessa hófst í kjölfar síðara ránsins, þ.e. að kvöldi laugardagsins 11. desember 2010, og bera gögn málsins með sér að málið hafi verið full rannsakað í lok árs 2010. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 23. febrúar 2012 eða rúmu ári síðar. Í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er skýrlega kveðið á um að hraða skuli meðferð sakamála eftir því sem kostur er, sbr. m.a. 18. og 53. gr. laganna. Markmið málshraðareglunnar er að bæta réttarstöðu sakborninga og brotaþola, auk þess að styrkja réttaröryggi borgaranna, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að dráttur á útgáfu ákæru hafi verið af völdum ákærðu sem allir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald 13. desember 2010 vegna máls þessa. Þá hófu ákærðu Y og Ívar Aron þann 20. sama mánaðar afplánun eftirstöðva refsidóma í framhaldi af gæsluvarðhaldsvistinni, ákærði Y 255 daga og ákærði Ívar Aron 196 daga. Sama dag, þann 20. desember 2010, hóf ákærði X hins vegar  afplánun tveggja ára fangelsisdóms Hæstaréttar Íslands frá [...] og hefur setið í fangelsi síðan. 

Ákærði Y, sem fæddur er [...], var 19 ára þegar hann framdi brot þau sem hann er nú sakfelldur fyrir. Þrátt fyrir ungan aldur er sakarferill ákærða nokkur og hefur hann verið vistaður í fangelsi talsverðan hluta unglingsáranna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] var ákærði Y dæmdur fyrir hylmingu en frestað var ákvörðun refsingar hans skilorðsbundið í tvö ár. Hann var á ný dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands [...] fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar og fíkniefnalagabrot og var ákvörðun refsingar hans þá einnig frestað skilorðsbundið í tvö ár. Bæði þessi brot framdi ákærði Y nýorðinn [...] ára. Með dómi Hæstaréttar þann [...] var ákærði dæmdur í fjögurra ára fangelsi og voru dómarnir frá [...] og [...] dæmdir upp með þeim dómi. Með dómi Hæstaréttar var ákærði  sakfelldur fyrir þrjár líkamsárásir, ýmis auðgunarbrot, þar á meðal þrjú fullframin rán og eina ránstilraun, nytjastuld, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot, en framangreind brot framdi ákærði Y þegar hann var [...] ára. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands [...] var ákærða ekki gerð sérstök refsing fyrir nytjastuld og þjófnað sem hann framdi [...] ára gamall. Þá var ákærði Y dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir þjófnað í Héraðsdómi Reykjavíkur [...] en brotið framdi hann [...], þá nýlega orðinn [...] ára gamall. Loks gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Reykjavíkur [...], 300.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 15 mánuði, vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og aksturs ökutækis án gildra ökuréttinda í október og nóvember 2010. Vegna máls þess sem hér er til meðferðar var ákærða Y, eins og áður er rakið, með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands [...], gert að afplána eftirstöðvar dóms Hæstaréttar Íslands frá [...] og dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...], sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, og lauk hann afplánun þann [...] 2011. 

Brot þau sem ákærði Y er nú sakfelldur fyrir framdi hann áður en hann gekkst undir viðurlagaákvörðun [...] og ber því að dæma ákærða hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 Það er ákærða Y til refsiþyngingar að um er að ræða tvö ránsbrot sem ákærði vann annars vegar í sameiningu með ákærða X og hins vegar meðákærðu báðum,  sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er það ákærða Y einnig til refsiþyngingar að í síðara ráninu var drengjunum ógnað með hníf og hafnarboltakylfu auk þess sem einn drengjanna fékk áverka á neðri vör eftir högg með krepptum hnefa frá öðrum meðákærða eins og áður er rakið. Ákærða Y til refsilækkunar er ungur aldur hans. Þá er til þess að líta að ákærði Y framdi þau brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem tilgreind eru á sakavottorði  áður en hann var fullra 18 ára gamall að undanskildum þjófnaði sem hann var dæmdur fyrir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. Til refsimildunar er horft til skýlausrar játningar ákærða Y og þess að nokkur dráttur, sem ekki verður séð að hafi verið ákærða um að kenna, hefur orðið á rekstri málsins hjá lögreglu og/eða ákæruvaldi og ekki hefur verið skýrður. Að þessu virtu og með vísan til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsing ákærða Y ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

Í framlögðum gögnum er upplýst að ákærði Y hafi stundað nám og vinnu og verið í meðferð meðan á afplánun eldri dóma stóð. Ákærði hafi einnig sótt AA fundi reglulega eftir vímuefnaneyslu frá unga aldri og geri enn. Þá liggja frammi gögn um að ákærði Y hafi, eftir að hann lauk afplánun þann 1. september 2011, lifað reglusömu lífi, stundað nám og vinnu og sýnt með ótvíræðum hætti að hann hafi fullan vilja til að halda sér á beinu brautinni í framtíðinni. Að öllu framansögðu virtu þykir, með vísan til  ungs aldurs ákærða og sérstaklega vegna breyttra aðstæðna hans eftir að hann lauk afplánun, eftir atvikum rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða, Y, og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til fullnustu refsingarinnar skal dragast frá með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærða Y frá 13. til 20. desember 2010. 

 Ákærði X, sem fæddur er [...], var 22 ára þegar hann framdi brot þau sem hann er nú sakfelldur fyrir. Samkvæmt sakavottorði ákærða X á hann að baki langan og nær óslitinn sakaferil frá 18 ára aldri. Ákærði X gekkst, með lögreglustjórasátt á árinu 2006, undir greiðslu sektar vegna fíkniefnabrots. Með dómi [...] var ákærða gert að greiða 250.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár og þrjá mánuði fyrir fíkniefnaakstur. Þann [...] var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, fíkniefnaakstur, þjófnað og nytjastuld sem hann framdi þegar hann var [...] ára gamall. Með dómi [...] var ákærða X gert að sæta tólf mánaða fangelsi fyrir tvö rán, framin [...] og [...] þegar ákærði var á [...] aldursári. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] var ákærði dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld, fjársvik, ölvunarakstur, sviptingarakstur og fíkniefnabrot og var ákærði þá sviptur ökurétti í tvö ár og sex mánuði. Með dómi [...] var ákærði X sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, ölvunarakstur og að aka sviptur ökurétti en honum var þá ekki gerð sérstök refsing. Með viðurlagaákvörðun [...] gekkst ákærði undir að greiða 170.000 króna sekt fyrir þjófnað og fíkniefnabrot. Með dómi [...] var ákærði X dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir fíkniefnabrot, fíkniefnaakstur, akstur sviptur ökurétti og fleiri umferðarlagabrot og var ákærði þá og sviptur ökurétti ævilangt. Með viðurlagaákvörðun [...] gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna fíkniefnabrots og í október sama ár var honum með viðurlagaákvörðun ekki gerð sérstök refsing vegna fíkniefnabrots. Þá var ákærði X dæmdur í átta mánaða fangelsi [...] fyrir þjófnað, nytjastuld, fíkniefnabrot og sviptingarakstur. Með dómi Hæstaréttar Íslands [...] var ákærði X dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir þjófnað, hylmingu, fjársvik, nytjastuld, brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf, fíkniefnaakstur, sviptingarakstur og fleiri umferðarlagabrot. Með dómnum staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] en þyngdi refsingu ákærða um 12 mánuði. Áðurnefndur héraðsdómur hefur ítrekunaráhrif á brot ákærða sem hér eru til meðferðar sem og aðrir framangreindir dómar sem ákærði X hefur hlotið fyrir brot á XXVI. kafla almennra hegningarlaga. Loks var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi og ævilanga sviptingu ökuréttar með dómi Héraðsdóms Suðurlands [...] fyrir þjófnað, nytjastuld, hylmingu, sviptingarakstur og fleiri umferðarlagabrot framin á tímabilinu [...]. Brot þau sem ákærði X er nú sakfelldur fyrir framdi hann áður en dómur Héraðsdóms Suðurlands frá [...] gekk og ber því að dæma ákærða hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Það er ákærða X til refsiþyngingar að um er að ræða tvö ránsbrot sem ákærði framdi annars vegar í sameiningu með ákærða Y og hins vegar meðákærðu báðum,  sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er það ákærða X einnig til refsiþyngingar að í síðara ráninu var drengjunum ógnað með hnífi og hafnarboltakylfu auk þess sem einn drengjanna fékk áverka á neðri vör eftir högg með krepptum hnefa frá öðrum meðákærða eins og áður er rakið. Til refsimildunar er horft til skýlausrar játningar ákærða X og þess að nokkur dráttur, sem ekki verður séð að hafi verið ákærða um að kenna, hefur orðið á rekstri málsins hjá lögreglu og/eða ákæruvaldi og ekki hefur verið skýrður. Eins og áður er rakið hafði ákærði X verið dæmdur samanlagt í 39 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu áður en hann framdi brot þau sem mál þetta varðar, aðallega ýmis auðgunarbrot en einnig tvö ránsbrot. Ber því að ákveða ákærða X refsingu með vísan til 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði X á að baki nær samfelldan brotaferil frá árinu 2007. Hann er síbrotamaður og verður við ákvörðun refsingar því höfð hliðsjón af 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu öllu virtu, og með vísan til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er refsing ákærða X ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Lögð voru fram gögn undir rekstri málsins fyrir dómi um að ákærði X, sem nú afplánar 28 mánaða fangelsisrefsingu, sé fyrirmyndarfangi og hafi sýnt mikinn vilja til að ná tökum á lífi sínu og breyta til betri vegar. Með vísan til sakarferils ákærða og alvarleika þeirra brota sem honum er nú ákveðin refsing fyrir, þykja hins vegar ekki efni til að binda refsinguna skilorði. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að draga frá refsivistinni gæsluvarðhald er ákærði X sætti frá 13.  til 20. desember 2010.   

Ákærði Ívar Aron, sem fæddur er [...], var 24 ára þegar hann framdi brot það sem hann er nú sakfelldur fyrir. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði Ívar Aron frá árinu 2007 hlotið tíu refsidóma en þar af er einn danskur dómur fyrir skemmdarverk. Ákærði Ívar Aron gekkst, með lögreglustjórasátt á árinu 2004, undir greiðslu sektar vegna fíkniefnabrots og svo aftur árið 2007. Þá er áðurnefndur danskur dómur uppkveðinn í desember 2007 og var ákærða með honum gerðar dagsektir. Með dómi Hæstaréttar Íslands 28. febrúar 2008 var ákærði Ívar Aron sakfelldur fyrir fjölda auðgunarbrota, þar af þrjú ránsbrot, nytjastuld, stórfelld eignaspjöll sem og umferðarlaga- og fíkniefnabrot og dæmdur í 3 ára fangelsi. Þann 10. október 2008 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld og fjársvik. Með dómi 19. nóvember sama ár var ákærði Ívar Aron dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir þjófnað. Í desember sama ár var ákærði dæmdur í sekt fyrir fíkniefnabrot og aftur með dómi í ágúst 2009. Þann 14. desember 2009 var ákærði Ívar Aron dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot. Með dómi Héraðdóms Norðurlands eystra 18. nóvember 2010 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld, fíkniefnabrot og umferðalagabrot. Þá var ákærði Ívar Aron með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2011 dæmdur í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir rán, frelsisskerðingu og þjófnað en brotin voru framin í október 2009. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2011 var ákærði dæmdur í sekt fyrir fíkniefnalagabrot. Vegna máls þess sem hér er til meðferðar var ákærða Ívari Aroni, gert eins og áður er rakið, með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2010, að afplána eftirstöðvar dóms Héraðsdóms Suðurlands frá 14. desember 2009 og dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 18. nóvember 2010, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, og lauk hann afplánun þann 4. júlí 2011. 

Það er ákærða Ívari Aroni til refsiþyngingar að um er að ræða ránsbrot sem ákærði framdi í sameiningu með meðákærðu Y og X, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er það ákærða Ívari Aroni einnig til refsiþyngingar að í ráninu var drengjunum ógnað með hnífi og hafnarboltakylfu auk þess sem einn drengjanna fékk áverka á neðri vör eftir högg með krepptum hnefa frá ákærða Ívari Aroni eins og áður er rakið. Til refsimildunar er horft til skýlausrar játningar ákærða Ívars Arons og þess að nokkur dráttur, sem ekki verður séð að hafi verið ákærða um að kenna, hefur orðið á rekstri málsins hjá lögreglu og/eða ákæruvaldi og ekki hefur verið skýrður. Ákærði Ívar Aron hafði verið dæmdur samanlagt í 51 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu áður en hann framdi brot það sem mál þetta varðar, aðallega ýmis auðgunarbrot en einnig þrjú ránsbrot. Ákærði Ívar Aron á að baki nær samfelldan brotaferil frá árinu 2007. Hann er síbrotamaður og verður við ákvörðun refsingar því höfð hliðsjón af 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eins og áður er rakið var ákærði Ívar Aron dæmdur í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2011 og þá var ákærði dæmdur í sekt með dómi Héraðsdóms Reykjaness 30. sama mánaðar. Ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að dæma fyrrgreindan dóm frá 22. nóvember 2011 upp og gera ákærða Ívari Aroni nú refsingu í einu lagi samkvæmt 78. gr. áðurgreindra hegningarlaga. Að þessu öllu virtu, og með vísan til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er refsing ákærða Ívars Arons ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Upplýst var undir rekstri málsins fyrir dómi að ákærði Ívar Aron sé í sambúð og atvinnuleit og hafi unnið markvisst að því að halda skilyrði dómsins 22. nóvember 2011. Með vísan til sakarferils ákærða og alvarleika brots ákærða í máli þessu, þykja hins vegar ekki efni til að binda refsinguna skilorði. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að draga frá refsivistinni gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 13. til 20.  desember  2010.  

Sakarkostnaður

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til að greiða þóknun skipaðra verjenda og annan útlagðan sakarkostnað sem hér segir: Ákærði X greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Steinbergs Finnbogasonar hdl., 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 12.654 krónur í ferðakostnað. Ákærði greiði einnig samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað 276.100 krónur vegna starfa Sigurðar Jónssonar hrl., verjanda ákærða á rannsóknarstigi, og 4.318 krónur sem hlutdeild í öðrum sakarkostnaði. Ákærði Y greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar hdl., 577.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna vinnu verjanda á rannsóknarstigi og fyrir dómi, 76.368 krónur í ferðakostnað vegna sama og samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað 4.318 krónur sem hlutdeild í öðrum sakarkostnaði. Ákærði Ívar Aron Hill Ævarsson greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hd1., 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna vinnu verjanda á rannsóknarstigi og fyrir dómi, 76.368 krónur í ferðakostnað vegna sama og samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað 4.318 krónur sem hlutdeild í öðrum sakarkostnaði.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóm þennan

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 14 mánuði. Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald er ákærði sætti  13. - 20. desember 2010.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar refsivistar skal draga frá gæsluvarðhald er ákærði sætti 13. - 20. desember 2010.

Ákærði, Ívar Aron Hill Ævarsson, sæti fangelsi í 14 mánuði. Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald er ákærði sætti 13. - 20. desember 2010.

Ákærði, X, greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Steinbergs Finnbogasonar hdl., 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, 12.654 krónur í ferðakostnað og 280.418 krónur í sakarkostnað.

Ákærði, Y, greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar hdl., 577.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, 76.368 krónur í ferðakostnað og 4.318 krónur í sakarkostnað.

Ákærði, Ívar Aron Hill Ævarsson, greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, 76.368 krónur í ferðakostnað og 4.318 krónur í sakarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 9. júlí 2012, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 3. júlí 2012, á hendur Ívari Aroni Hill Ævarssyni, kt. [...], [...], [...], Z, kt. [...], [...], [...] og Þ, kt. [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin á árunum 2011 og 2012:

I.

Á hendur ákærðu öllum fyrir eftirtalin hegningarlagabrot framin í félagi föstudaginn 8. júní 2012:

1. Nytjastuld, með því að hafa tekið bifreiðina [...] til eigin nota, hjá [...] í [...], ekið henni um götur á [...] og um [...], skilið bifreiðina eftir við afleggjarann að [...] þar sem hún fannst skömmu síðar.

2. Gripdeild, með því að hafa dælt eldsneyti á sömu bifreið og greinir í 1. lið við bensínstöð [...] í [...] að andvirði 8.032 krónur og ekið á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.

3.  Þjófnað, með því að hafa farið inn um glugga íbúðarhúsnæðis að [...] í [...] og stolið þaðan skartgripum og borðbúnaði að óþekktu verðmæti.

4. Þjófnað, með því að hafa farið inn um glugga á íbúð [...] að [...] í [...] og stolið þaðan lyfjum, Play station leikjatölvu, flakkara, DVD spilara, þremur Dell fartölvum, áfengi, Nokia farsíma, hátalara, tveimur Nintendo leikjatölvum, Olympus myndavél, myndbandsupptökuvél, sjö tölvuleikjum, Playstation portable leikjatölvu, peningum og ferðatösku.

5. Þjófnað, með því að hafa í heimildarleysi farið inn um ólæstar bakdyr á íbúð [...] að [...] í [...] og stolið þaðan lyfjum og peningum og safnað saman í bakpoka leikjatölvu og fleiri munum sem þeir hugðust stela, lögregla kom hinsvegar á vettvang og handtók Z og  á vettvangi en Ívar Aron Hill var handtekinn skömmu síðar við [...].

Telst brot í lið 1 varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, brot í lið 2 við 245. gr. sömu laga og brot í liðum 3-5 við 244. gr. sömu laga.

II.

Á hendur ákærða Ívari Aroni fyrir eftirtalin brot:

1. Umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa þann 10. nóvember 2011 í [...] ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 215 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,9 ng/ml), um [...] og um bifreiðastæði við [...]banka þar sem hann stöðvaði aksturinn og lögregla hafði afskipti af honum skömmu síðar, jafnframt í sama skipti haft í vörslum sínum 1,63 g af amfetamíni og 1,13 g af maríhúana sem lögregla fann við leit og lagt var hald á.

2. Umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 2. apríl 2012 í [...] ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóð mældist amfetamín 90 ng/ml, MDMA 145 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 3,1 ng/ml) niður afleggjara frá [...] í [...] uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar við gatnamót [...] og [...], jafnframt í sama skipti haft í vörslum sínum 2,5 g af amfetamíni og 2 g af maríhúana sem lögregla fann við leit í seðlaveski ákærða lagt var hald á.

3. Umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 3. júní 2012 í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 12 ng/ml) austur [...], við [...], uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar við [...].

4. Þjófnað, með því að hafa sama morgun og frá greinir í 2. tl. brotist inn í [...] ehf. í [...] í [...] með því að brjóta rúðu í hurð á bakhlið [...] og stela þar sígarettum, gosdrykkjum, sælgæti, skiptimynt og símakortum, samtals að verðmæti 270.781 krónur, en ákærði var með þýfið í bifreið sinni er lögregla stöðvaði hann við akstur þann er lýst er í fyrri ákærulið.

5. Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 30. maí 2012 brotist inn í bílskúr við íbúðarhús að [...], [...], og farið inn í bifreiðina [...] og stolið þaðan lyklum og sólgleraugum, en lögregla handtók ákærða í námunda við innbrotsstað þar sem hann kastaði frá sér lyklunum.

6. […]

Teljast brot í liðum 1-3 varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., en brot í liðum 2-3 einnig við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og brot í  liðum 1, 2 og […] auk þess við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu  og brot í liðum 4-5 við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og að ákærða Ívari Aroni Hill Ævarssyni verði gert að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102 gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingu, og jafnframt að ávana- og fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Í þinghaldi 9. júlí sl. féll sækjandi frá ákæruliðum I.1, I.3 og II.6, að því er ákærða Ívar Aron varðar.

Verjandi ákærða Ívars Arons krefst þess aðallega að ákærða verði ekki gerð refsing í málinu, en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Verjendur ákærðu Þ og Z krefjast vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefjast verjendur hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjendum ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærðu hafa skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærðu eru sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði Ívar Aron er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt 20. janúar 2004 og aftur 31. janúar 2007 fyrir fíkniefnalagabrot. Hinn 11. desember 2007 var ákærði dæmdur í Héraðsdómi Kaupmannahafnar til sektargreiðslu fyrir eignaspjöll. Ákærði var dæmdur 28. febrúar 2008 í þriggja ára fangelsi fyrir þjófnað, fjársvik, rán, eignaspjöll, nytjastuld, tilraun til þjófnaðar, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot, en þar var um hegningarauka að ræða. Hinn 10. október 2008 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld og fjársvik. Hinn 19. nóvember 2008 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir þjófnað og var refsingin ákveðin sem hegningarauki. Ákærði var dæmdur til sektargreiðslu 11. desember 2008 fyrir fíkniefnalagabrot og aftur 25. ágúst 2009.  Hann var dæmdur í eins mánaðar fangelsi 14. desember 2009 fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot. Hinn 18. nóvember 2011 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot, þjófnað, umferðarlagabrot og nytjastuld og sviptur ökurétti í tvo mánuði, en þar var um hegningarauka að ræða. Ákærði var dæmdur 22. nóvember 2011 í níu mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir ólögmæta nauðung, rán og þjófnað. Hinn 30. nóvember 2011 var hann dæmdur til sektargreiðslu fyrir fíkniefnalagabrot. Hinn 23. febrúar 2012 var hann dæmdur til sektargreiðslu fyrir fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot, brot gegn áfengislögum og lögreglulögum og jafnframt sviptur ökurétti í fimm ár. Hinn 13. apríl 2012 var hann dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir rán og var refsingin ákveðin sem hegningarauki. Hinn 27. júní 2012 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir þjófnað og var refsingin ákveðin sem hegningarauki. Loks var ákærði sama dag dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot og var refsingin ákveðin sem hegningarauki. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir fimm auðgunarbrot, m.a. með því að hafa brotist inn í heimahús. Þá eru ölvunarakstursbrot ákærða ítrekuð öðru sinni. Brotin voru framin fyrir uppkvaðningu tveggja refsidóma frá 27. júní sl. og brot samkvæmt ákæruliðum II.1 og 3-5 jafnframt fyrir uppkvaðningu dómsins frá 13. apríl sl. Verður refsing ákærða því ákveðin sem hegningarauki. Það horfir ákærða til málsbóta að hann hefur gengist greiðlega við brotum sínum. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til 2. mgr. 70. gr., 77. gr., 78. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði Þ er fæddur í [...]. Hinn [...] var ákærði dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni og frelsissviptingu, en ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Ákærði var dæmdur [...] fyrir umferðarlagabrot og eignaspjöll og var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Hann gekkst undir lögreglustjórasátt [...] fyrir fíkniefnalagabrot. Loks gekkst ákærði undir sektargreiðslu með viðurlagaákvörðun [...] fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot og var jafnframt sviptur ökurétti í sex mánuði. Refsing ákærða var ákveðin sem hegningarauki.

Ákærði Z er fæddur í .... Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Við ákvörðun refsingar ákærðu Þ og Z verður litið til þess að ákærðu eru ungir að árum og hafa gengist greiðlega við brotum sínum. Ákærðu eru í máli þessu sakfelldir fyrir fjögur auðgunarbrot og nytjastuld og var í þremur tilvikum um að ræða innbrot í heimahús. Refsing verður ákveðin með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða Þ verður jafnfram ákveðin sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar beggja ákærðu og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Ívar Aron verður sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dómsins að telja, samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga.

Ákærði Ívar Aron verður dæmdur til að sæta upptöku á 4,13 g af amfetamíni og 3,13 g af maríjúana, samkvæmt lagaákvæðum sem í ákæru greinir.

Ákærði Ívar Aron greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar hdl., 150.600 krónur, og þóknun verjenda sinna á rannsóknarstigi málsins, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 50.200 krónur og Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 50.200 krónur, auk útlagðs kostnaðar 24.544 krónur. Ákærði Ívar Aron greiði 479.585 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærði Þ greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 100.400 krónur og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Bjarna Haukssonar hdl., 25.100 krónur. Ákærði Þ greiði 25.100 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærði Z greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 100.400 krónur. Ákærði Z greiði 75.100 krónur í annan sakarkostnað.

Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigrún Inga Guðnadóttir, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Ragnhsteiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Ívar Aron Hill Ævarsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði, Þ, sæti fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppkvaðningu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, Z, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppkvaðningu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Ívar Aron er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsuppkvaðningu að telja.

Upptæk eru dæmd 4,13 g af amfetamíni og 3,13 g af maríjúana.

Ákærði Ívar Aron greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar hdl., 150.600 krónur, og þóknun verjenda sinna á rannsóknarstigi málsins, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 50.200 krónur, og Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 50.200 krónur, auk útlagðs kostnaðar 24.544 krónur. Ákærði Ívar Aron greiði 479.585 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærði Þ greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 100.400 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Bjarna Haukssonar hdl., 25.100 krónur. Ákærði Þ greiði 25.100 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærði Z greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 100.400 krónur. Ákærði Z greiði 75.100 krónur í annan sakarkostnað.