Hæstiréttur íslands
Mál nr. 286/2004
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Nauðungarsala
- Uppsögn
- Sjóveðréttur
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2005. |
|
Nr. 286/2004. |
Lúðvík Ólafsson(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Olíuverslun Íslands hf. (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Nauðungarsala. Uppsögn. Sjóveðréttur.
L var vélstjóri á skipi sem var við veiðar í Brasilíu. Skipið var selt nauðungarsölu og var O hf. hæstbjóðandi. Þar sem félagið varð ekki við áskorun L um greiðslu vangreiddra launa rifti sá síðarnefndi ráðningunni og höfðaði mál til heimtu þeirra auk launa á þriggja mánaða uppsagnarfresti og um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna heimfarar frá Brasilíu. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við L, svo sem boðið er í 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Var talið að O hf. hefði ekki fært sönnur á að L hefði verið ráðinn tímabundið til starfa á skipinu. Var því fallist að á ráðning L hefði verið ótímabundin og að ráðningarsamningur hans hefði verið í gildi er O hf. eignaðist skipið með samþykki tilboðs hans við nauðungarsölu þess. Hefði nauðungarsalan ekki sjálfkrafa leitt til slita á ráðningarsamningi L til starfa á skipinu og réttindi og skyldur útgerðarmanns gagnvart L hefðu færst til O hf. þegar tilboðið við nauðungarsöluna var samþykkt enda hefði L ekki neytt heimildar sinnar samkvæmt 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga til að segja starfi sínu lausu. Var því fallist að mestu á kröfur L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.347.454 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 148.474 krónum frá 15. ágúst 2003 til 15. september sama ár, af 334.067 krónum frá þeim degi til 15. október sama ár, af 1.322.746 krónum frá þeim degi til 15. nóvember sama ár, en af 1.347.454 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Loks krefst hann þess að viðurkenndur verði sjóðveðréttur til tryggingar kröfu sinni í Marz AK 80, skipaskrárnúmer 1441.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Þá krefst hann þess að lögmaður áfrýjanda verði sektaður samkvæmt 2. mgr., sbr. d., e. og f. lið 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga vegna ummæla um að stefndi „hefði látið afskrá áfrýjanda af skipinu aftur í tímann.“
I.
Áfrýjandi kvaðst í skýrslu fyrir héraðsdómi hafa ráðið sig í byrjun október 2002 sem 1. vélstjóri á fiskiskipið Marz AK 80 en skipið var í eigu Avonu ehf. Ekki var gerður skriflegur samningur um ráðningu hans. Vann hann við að undirbúa skipið til veiða við Brasilíu. Beiðni um lögskráningu áhafnar skipsins barst sýslumanninum á Akranesi 16. október 2002 og var áfrýjandi lögskráður 1. vélstjóri að fenginni undanþágu samkvæmt 8. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Skipið hélt um það leyti til Brasilíu og mun hafa hafið veiðar þar við land í desember 2002. Í annarri veiðiferð skipsins í lok desembermánaðar bilaði gír þess. Hélt það til hafnar í Santos og fór ekki aftur á veiðar að því er virðist vegna fjárhagsvanda útgerðarinnar. Munu skipstjóri, yfirvélstjóri og áfrýjandi hafa beðið þess að veiðar gætu hafist á ný en aðrir í áhöfninni hætt störfum. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi bar áfrýjandi að vonast hafi verið til að úr því rættist og hafi hann ásamt skipsfélöfum sínum fylgst með skipinu að beiðni forsvarsmanns útgerðar þess. Hafi þeir búið á hóteli og útgerð skipsins greitt fé til uppihalds þeirra. Fyrrnefnt skip var selt nauðungarsölu á framhaldsuppboði sem sýslumaðurinn á Akranesi hélt 26. maí 2003 og var stefndi hæstbjóðandi. Samþykkti sýslumaður boð stefnda 7. júlí 2003. Í hinum áfrýjaða dómi er lýst samskiptum áfrýjanda og skipsfélaga hans við stefnda eftir að sá síðastnefndi eignaðist skipið á uppboðinu. Með bréfi 15. september 2003 tilkynnti áfrýjandi stefnda að þar sem hann hefði ekki orðið við áskorun í bréfi 29. ágúst sama ár um greiðslu launa væri ráðningu sinni „hér með rift.“ Kom áfrýjandi til Íslands 4. október 2003.
Áfrýjandi gerir kröfu til greiðslu launa frá 7. júlí 2003 til 4. október sama ár, en síðargreindan dag telur hann ráðningu sinni hafa lokið við komuna til Íslands. Þá gerir hann kröfu um laun á þriggja mánaða uppsagnarfresti og loks um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna heimfarar sinnar frá Santos í Brasilíu. Er sundurliðun krafna áfrýjanda og málsástæðum aðila lýst í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Áfrýjandi byggir á því að hann hafi verið ráðinn ótímabundinni ráðningu til starfa sem 1. vélstjóri um borð í Marz AK 80 haustið 2002. Stefndi telur hins vegar að ósannað sé að ráðningarsamningur hafi verið í gildi milli áfrýjanda og fyrri útgerðar skipsins er stefndi eignaðist það við fyrrgreinda nauðungarsölu. Telur hann þau takmörkuðu gögn, sem nýtur um ráðningu áfrýjanda og rakin eru í hinum áfrýjaða dómi, benda til þess að áfrýjandi hafi annað hvort verið ráðinn tímabundinni ráðningu eða ætlað sér að vinna kauplaust. Skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður við áfrýjanda sem þó er boðið í 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Hefur stefndi ekki fært sönnur á að áfrýjandi hafi verið ráðinn tímabundið til starfa á skipinu. Verður því talið að ráðning áfrýjanda hafi verið ótímabundin og að ráðningarsamningur hans hafi verið í gildi er stefndi eignaðist skipið með samþykki tilboðs hans við nauðungarsölu þess 7. júlí 2003.
Í 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga er mælt fyrir um heimild skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi ef skip er selt öðrum innlendum útgerðarmanni, en skipverjinn verði þá að segja starfi sínu lausu þegar eftir að hann fær vitneskju um þetta. Af þessu ákvæði, sem beitt verður þegar skip er selt nauðungarsölu, verður að draga þá gagnályktun að ráðning skipverja standi óbreytt ef innlendur útgerðarmaður gerist kaupandi að því, nema skipverjar nýti sér rétt samkvæmt ákvæðinu til að slíta ráðningunni vegna sölunnar, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 2000, bls. 1884. Vegna þessa leiddi nauðungarsala skipsins ekki sjálfkrafa til þess að slitið væri ráðningarsamningi áfrýjanda til starfa á því. Færðust réttindi og skyldur útgerðarmanns gagnvart áfrýjanda til stefnda 7. júlí 2003 þegar tilboð hans í skipið við nauðungarsöluna var samþykkt, enda neytti áfrýjandi ekki fyrrnefndrar heimildar 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga til að segja starfi sínu lausu. Breytir engu um þessa niðurstöðu að sýslumaðurinn á Akranesi afskráði áfrýjanda að eigin frumkvæði úr skiprúminu 27. október 2003 og miðaði þá afskráningu við 27. desember 2002, sbr. bréf sýslumannsins á Akranesi 30. júlí 2004 sem lagt hefur verið fram í Hæstarétti.
Samkvæmt framansögðu á áfrýjandi kröfu til launa úr hendi stefnda frá 7. júlí 2003 þar til hann sleit ráðningarsamningi sínum með bréfi 15. september sama ár. Þá á hann rétt til launa á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga sbr. 27. gr. sömu laga. Fellur heimferðartími hans frá Brasilíu innan þess uppsagnarfrests. Stefndi mótmælir því að áfrýjandi eigi rétt til starfsaldursálags og fæðispeninga. Þar sem áfrýjandi styður þessar kröfur við greinar 1.15 og 1.19 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands, en mótmæli stefnda eru engum rökum studd, verða þær teknar til greina. Þá verður fallist á kröfu áfrýjanda vegna glataðra lífeyrisréttinda. Loks verður fallist á kröfu áfrýjanda um endurgreiðslu kostnaðar að fjárhæð 100.568 krónur vegna heimferðar hans frá Brasilíu. Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 1.229.950 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ekki eru efni til að verða við kröfu stefnda um að lögmaður áfrýjanda verði sektaður vegna ummæla í greinargerð hans til Hæstaréttar.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Fallist verður á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á sjóveðrétti í fiskiskipinu Marz AK 80 til tryggingar tildæmdri kröfu.
Dómsorð:
Stefndi, Olíuverzlun Íslands hf., greiði áfrýjanda, Lúðvík Ólafssyni, 1.229.950 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 148.474 krónum frá 15. ágúst 2003 til 15. september sama ár, af 334.067 krónum frá þeim degi til 15. október sama ár, af 1.129.382 krónum frá þeim degi til 21. október sama ár en af 1.229.950 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi á sjóveðrétt í Marz AK 80, skipaskrárnúmer 1441, til tryggingar framangreindri kröfu sinni.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 15. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Lúðvík Ólafssyni, kt. [...], Vesturbergi 78, Reykjavík, á hendur Olíuverslun Íslands hf., kt. [...], Sundagörðum 2, Reykjavík, og var málið þingfest 21. október 2003.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Olíuverslun Íslands hf., kt. 510796 2849, verði dæmdur til að greiða stefnanda fjárhæð kr. 1.347.454.- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 148.474 frá 15. ágúst 2003 til 15. september 2003, en kr. 334.067 frá þeim degi til 15. október 2003, en af kr. 1.322.746 frá þeim degi til 15. nóvember 2003, en af kr. 1.347.454.- frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu og tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Þá er krafist viðurkenningar sjóveðsréttar í b.v. Marz AK 80 (1441) til viðurkenningar dæmdum kröfum.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfufjárhæðir verði lækkaðar og að málskostnaður verði látinn falla niður.
Málsatvik
Málavextir eru þeir að sögn stefnanda, að hann réð sig til starfa í ágúst 2002, sem 1. vélstjóri á b.v. Marz AK 80 (1441) eign Avonu ehf., kt. 510796 2849, Presthúsabraut 28, 300 Akranesi. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, né tímabundinn ráðningarsamningur. Ráðningarkjör skyldu fara eftir kjarasamningum V.S.F.Í. og L.Í.Ú.
Vann stefnandi ásamt öðrum skipverjum við skipið við að undirbúa það til veiða við Brasilíuströnd. Þann 15. október 2002 var lögskráð á skipið og haldið af stað til Brasilíu. Var komið til Santos í Brasilíu þann 12. nóvember 2002, en þar sem ekki hafði tekizt að útvega skipinu veiðileyfi, var beðið fram í byrjun desember 2002, unz veiðileyfið loks fékkst. Þann 10. desember 2002 var þá lagt af stað í fyrstu veiðiferðina og landað úr þeirri veiðiferð rétt fyrir jól. Var strax lagt af stað í aðra veiðiferð, sem lauk með löndun milli jóla og nýárs. Reyndist það síðasta veiðiferð skipsins að sinni, því skipið fór ekki aftur á veiðar af ýmsum ástæðum er útgerðina varðaði. Hefur skipið legið síðan í höfn í Santos í Brasilíu. Var áhöfninni alltaf haldið volgri, að verið væri að leysa málin og skipið færi nú að komast aftur á veiðar. Lögskráð hafi verið á skipið allan tímann. Biðu skipstjórinn, yfirvélstjórinn og 1. vélstjórinn, þ.e. stefnandi, þarna síðan eftir því að útgerð skipsins kæmi skipinu aftur á veiðar, sem ekki tókst. Áður höfðu aðrir í áhöfninni hætt störfum.
Þann 26. maí 2003 fór fram framhaldsuppboð á skipinu hjá sýslumannsembættinu á Akranesi. Var skipið slegið stefnda, Olíuverzlun Íslands hf., sem átti veð á 1. veðrétti í skipinu. Samþykkisfrestur var ákveðinn 6 vikur. Þann 7. júlí 2003 samþykkti sýslumaðurinn síðan boð stefnda.
Byggir stefnandi á því í málinu að við nauðungarsöluna hafi stefndi yfirtekið sjálfkrafa ráðningarsamninga skipverjanna þriggja, þ.m.t. stefnanda, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 2000 1884, enda hafði ráðningarsamningi þeirra ekki verið slitið.
Með símbréfi dags. 14. júlí 2003 til Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar óskuðu framangreindir þrír yfirmenn á skipinu eftir aðstoð við að innheimta vangreidd laun hjá Avonu ehf., en launakröfum þeirra hafði ekki verið lýst við nauðungunarsölu skipsins.
Um miðjan ágúst 2003 hafði lögmaður stefnanda samband við starfsmann stefnda og greindi honum frá þeirri skoðun sinni að stefndi hefði með kaupum skipsins á nauðungarsölunni þann 26. maí 2003 yfirtekið ráðningarsamninga nánargreindra skipverja.
Með bréfi dags. 29. ágúst 2003 ítrekaði lögmaður stefnanda þessa munnlegu ábendingu til stefnda, að stefndi væri bundinn ráðningarsamningi við skipverjana þrjá. Jafnframt því var gerð krafa um vangreidd laun frá yfirtöku stefnda á ráðningarsamningi skipverjanna frá þeim tíma, er skipið var slegið stefnda á framhaldsuppboði þann 26. maí 2003 fram að næstu mánaðamótum, þ.e. til 31. ágúst 2003. Þá segir í bréfinu þetta. “Verði skuld þessi ekki innt af hendi að fullu hingað til lögmannsstofunnar fyrir 15. september 2003, mun ráðningu umbj.m verða rift og Olíuverzlun Íslands hf. krafin um laun í uppsagnarfresti, sem er þrír mánuðir hjá þessum skipverjum.”
Tveir skipverja, skipstjórinn og yfirvélstjórinn, gengu frá samkomulagi við stefnda. Þar segir að skipverjarnir hafi sagt skiprúmi sínu lausu í samræmi við 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga við eigendaskiptin að b.v. Marz AK 80 við nauðungarsöluna. Jafnframt greiði stefndi skipverjunum 6 vikna uppsagnarfrestinn með tilgreindri fjárhæð. Í annan stað geri aðilar með sér ráðningarsamning, þar sem skipverjarnir ráði sig til tímabundinna starfa, þ.e. frá 1. september til 10. október 2003 gegn tilgreindri fjárhæð í laun þennan tímabundna ráðningartíma. Stefnandi féllst ekki á að gera slíkt samkomulag.
Með bréfi þann 15. september 2003 tilkynnti lögmaður stefnanda í samræmi við fyrra bréf hans frá 29. ágúst 2003, að ráðningu stefnanda væri rift. Stefnandi kom til Íslands 4. október 2003.
Þar sem stefndi hefur hafnað kröfum stefnanda er mál þetta höfðað.
Krafa stefnanda er þríþætt. Í fyrsta lagi gerir stefnandi kröfu um greiðslu vangreiddra launa sinna hjá stefnda á ráðningartíma sínum á skipinu hjá stefnda tímabilið frá 26. maí 2003 til 4. október 2003.
Í annan stað krefur stefnandi stefnda um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti vegna lögmætrar riftunar stefnanda á ráðningarsamningi sínum. Í þriðja lagi um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna heimfarar.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir mál sitt á því, að hann hafi verið ráðinn ótímabundinni ráðningu í ágúst 2002 á b.v. Marz AK 80, sem þá var í eigu Avonu ehf., Akranesi. Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ráðningu stefnanda í þjónustu Avonu ehf., hafi lokið sjálfkrafa þann 7. júlí 2003, þegar boð uppboðskaupanda, stefnda Olíuverslunar Íslands hf., var samþykkt vegna framhaldsnauðungarsölu skipsins þann 26. maí 2003. Við það varð stefnandi starfsmaður uppboðskaupa, þ.e. stefnda, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 2000 1884.
Samkvæmt nefndum hæstaréttardómi fari með nauðungarsölu á skipi á sama hátt og með frjálsa sölu skips, hvað ráðningarsamninga skipverjana snerti. Með vísan til nefnds hæstaréttardóms og 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 segir að sé skip selt öðrum innlendum útgerðarmanni sé skipverja heimilt að krefjast lausnar úr skiprúmi, en skipverjinn verði þá að segja skiprúmi sínu lausu, þegar hann fái vitneskju um söluna. Kjósi hann að segja skipsplássinu lausu eigi hann rétt á launum í 6 vikur, nema uppsagnarfrestur hans sé skemmri tími. Í tilviki stefnanda hafi hvorki stefnandi né stefndi sagt ráðningarsamningnum lausum. Af hálfu stefnanda hafi heldur ekki verið áhugi á að hætta störfum á skipinu, heldur halda áfram störfum í þjónustu stefnda, enda hafði stefnandi ekki að neinu öðru starfi að hverfa. Af þeim ástæðum hafi stefnandi ekki viljað skrifa undir samkomulag þess efnis, að stefnandi og stefndi væru sammála um það að stefnandi hefði sagt skiprúmi sínu lausu þann 7. júlí 2003, þegar sýslumaðurinn á Akranesi hafi samþykkt boð stefnda í b.v. Marz AK 80.
Stefndi hafi ekki greitt stefnanda nein laun frá því að stefndi yfirtók ráðningu stefnanda, þ.e. fyrir tímabilið 7. júlí 2003 til 31. ágúst 2003, þrátt fyrir ítarlega eftirgangsmuni stefnanda og lögmanns hans og svo annarra í áhöfn skipsins.
Stefnandi hafi rift ráðningasamningi sínum við stefnda með bréfi lögmanns stefnanda þann 15. september 2003. Hafi ráðningu stefnanda lokið, þegar hann hafi komist til Íslands frá Brazilíu þann 4. október 2003. Eigi stefnandi rétt á launum til þess tíma og jafnframt greiðslu ferðakostnaðar og uppihalds, sbr. 1. mgr. 10. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 15. gr. Þá er krafist launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Krafa stefnanda sé um greiðslu kauptryggingar og tilheyrandi launaliða í samræmi við kjarasamning V.S.F.Í og L.Í.Ú og kaupskrá L.Í.Ú. tilgreint ráðningartímabil hans, sbr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Samkvæmt 1. mgr. 1.18 gr. í kjarasamningi V.S.F.Í. og L.Í.Ú. komi fram að kauptryggingu skuli greiða vikulega. Þá skuli útgerðarmaður hafa lokið launauppgjöri og launagreiðslum til vélstjóra eigi síðar en 15 dögum eftir lok hvers mánaðarlegs kauptryggingartímabils, sbr. 2. mgr. gr. 1.18.
Þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir, hafi stefndi ekki fengist til að greiða stefnanda vangreidd laun í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Um fjárhæð vangreiddra launa komi fram eftirfarandi sundurliðun krafna.
Sundurliðun krafna
Krafa stefnanda er í fyrsta lagi um greiðslu vangreiddra launa, þ.e. kauptryggingar fyrir ráðningartímabilið frá 7. júlí 2003, er Olís hf. yfirtók ráðningarsamning stefnanda, þegar boð stefnda í skipið var samþykkt og til 4. október 2003, er stefnandi kom til Íslands frá Brazilíu.
Í annan stað gerir stefnandi kröfu um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Í þriðja lagi krefst stefnandi endurgreiðslu útlagðs ferðakostnaðar.
Vangreidd laun.
Stefnandi eigi rétt á kauptryggingu (lágmarkslaunum) á ráðningartíma sínum hjá stefnda, ásamt öðrum launaliðum, í samræmi við gildandi kjarasamning V.S.F.Í og L.Í.Ú um kaup og kjör á fiskiskipum og kaupskrá L.Í.Ú.
Kröfu sína um laun á ráðningartíma tímabilið 7. júlí 2003 til 4. október 2003, þ.e. 88 daga, sundurliðar stefnandi þannig:
Kauptrygging pr. mán. kr. 158.802.- ( 158.802.- : 30 x 88) = kr. 465.819.- ( gr. 1.12)
Fatapeningar kr. 2.833.- (2.833.- : 30 x 88) = kr. 8.310.- (gr. 1.19)
Starfsaldursálag kr. 3.811.- (3.811.-: 30 x 88) = kr. 11.178.- (gr. 1.15).
Fast kaup kr. 3.015.- (3.015.-: 30 x 88) = kr. 8.844.- ( gr. 1.14).
Alls kr. 494.151.- + 10.17% orlof kr. 50.255.- , ( kr. 6.186.- pr. dag x 88 dagar) eða samtals kr. 544.368.-.
Laun í uppsagnarfresti.
Kröfu sína um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti, þ.e. 90 daga sundurliðar stefnandi þannig:
Kauptrygging pr. mán. kr. 158.802.- ( 158.802.- : 30 x 90) = kr. 476.406.- ( gr. 1.12)
Fatapeningar kr. 2.833.- (2.833.- : 30 x 90) = kr. 8.499.- (gr. 1.19)
Starfsaldursálag kr. 3.811.- (3.811.-: 30 x 90) = kr. 11.433.- (gr. 1.15)
Fast kaup kr. 3.015.- (3.015.-: 30 x 90) = kr. 9.045.- ( gr. 1.14)
Fæðispeningar pr. dag kr. 945.- x 90 = kr. 85.050.-
Alls kr. 590.433.- + 10.17% orlof kr. 60.047.- eða samtals kr. 650.480.- fyrir 90 daga í uppsagnarfresti auk 8% (6% + 2%) framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð vegna glataðra lífeyrisréttinda kr. 52.038.- (gr L.46). Samtals (kr. 650.480.- + kr. 52.038.-) kr. 702.518.-.
Útlagður ferðakostnaður.
Ferðakostnaður stefnanda frá Santos í Brazilíu, þar sem skipið lá og alla leið heim til Íslands skv. kvittunum á dómskj. nr. 14 eru 3.868.- brazilískir realar, sem samsvarar kr. 28.- pr. reali eða alls kr. 100.568.-.
Heildarkrafa stefnanda vegna vangreiddra launa kr.544.368.-. Vegna launa í uppsagnarfresti kr. 702.518.- og vegna útlagðs ferðakostnaðar kr. 100.568.- er því samtals kr. 1.347.454.- ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.
Sundurliðun dráttarvaxtakröfu
Dráttarvaxtakrafan sundurliðast þannig:
Laun tímabilið 7. júlí til 31. júlí 2003 = kr. 158.802.- + 2.833.- + 3.811.-+ 3.015.- = kr. 168.461.- x 10.17% orlof, kr. 19.628.- = Heildarlaun kr. 185.593.- pr. mán. : 30 x 24 = kr.148.474.-, vegna júlí 2003 sem síðan bætist við heildarmánaðarlaun kr. 185.593.- pr. mánuð og hlutfallslega eftir ráðningardögum, sem greiðast skulu 15 dögum eftir mánaðarmót. Laun vegna 1. til 4. október 2003 séu kr. 24.746. Dráttarvextir séu reiknaðir af riftunarkröfunni, þ.e. launum í uppsagnarfresti, kr. 702.518,- frá 15. október 2003.
Stefnandi krefur dráttarvaxta af kr. 148.474 frá 15. ágúst 2003 til 15. september 2003, en af kr. 334.067 (148.474 + 185.593) frá þeim degi til 15. október 2003, en af kr. 1.322.746 (334.067 + 702.518 + 100.568 + 185.593) frá þeim degi til 15. nóvember 2003, en af kr. 1.347.454.-(1.322.746 + 24.746) frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi byggir kröfu sína á 1. gr.; 6. gr.; 9. gr.; 10. gr.; 15. gr.; 22. gr.; 25. gr. og 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Þá byggir stefnandi á gr. 1.12; gr. 1.14; gr. 1.15; gr. 1.17; gr. 1.18; gr. 1.19; gr. 1.20, gr. 1.21; gr. 1.24 og gr. 1.46 gr. í kjarasamningi V.S.F.Í og L.Í.Ú. og almennum reglum vinnuréttar um greiðslu verklauna og launa í uppsagnarfresti. Þá er vísað í 10. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 90/1991. Um orlof er vísað til orlofslaga nr. 30/1987. Um dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. EML nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt er vísað til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er tekið fram um málavexti að hann taldi sig engan veginn geta orðið við kröfum lögmanns stefnanda enda taldi hann ekkert ráðningarsamband hafa getað myndast milli sín og skipverjanna. Hann ákvað þó að bjóða þessum skipverjum vinnu við lagfæringar á skipinu enda vissi hann þá að þessir menn væru atvinnulausir og stefnda vantaði vinnuafl til að koma skipinu í söluhæft ástand. Fullyrðingum lögmanns stefnanda í þá veru að þessir menn hafi verið neyddir til að skrifa undir samkomulag við stefnda er harðlega mótmælt sem röngum og meiðandi í garð stefnda.
Stefndi heyrði síðan ekkert frá stefnanda í máli þessu fyrr en bréf barst frá lögmanni stefnanda, dagsett þann 15. september 2003, þess efnis að meintum ráðningarsamningi stefnanda við stefnda væri rift.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ekkert ráðningarsamband hafi eða geti hafa stofnast milli stefnanda og stefnda þegar stefndi varð hæstbjóðandi við nauðungarsölu skipsins Marz AK-80.
Þegar skipið Marz AK-80 var boðið upp á skrifstofu sýslumannsins á Akranesi hafi ekki verið tekið fram að nokkrar kvaðir eða höft ættu að hvíla áfram á skipinu eftir nauðungarsölu þess, en skylt hefði verið að geta um slík höft við uppboðið, sbr. 3. tl. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Mátti stefndi þannig ætla að skipið væri selt án þeirrar kvaðar, að stefndi skyldi yfirtaka ráðningarsamninga skipverja, ef þeir væru til staðar og í gildi. Sé því þannig haldið fram að við útgáfu afsals sem dagsett sé þann 25. ágúst 2003 hafi allar kvaðir og þar með talið þeir ráðningarsamningar sem mögulega hafi verið í gildi gagnvart fyrrverandi eiganda skipsins fallið niður, sbr. 2. mgr. 56 .gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Við uppboðið þann 26. maí 2003 hafi legið fyrir að skipið hafði legið við höfn um fimm mánaða skeið. Þannig hafi aðilar að nauðungarsölunni mátt ætla að engin skipverji væri lögskráður á skipið enda skylda að lögskrá úr skiprúmi í hvert sinn er veru skipverja um borð ljúki, sbr. 5. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna. Stefndi telur eðli málsins samkvæmt ljóst að allir þeir skipverjar sem ráðnir höfðu verið á skipið í upphafi hafi verið hættir störfum á skipinu enda hafði það eins og áður segir legið í höfn vélarvana í tæpa fimm mánuði í Brasilíu.
Því er sérstaklega mótmælt að stefnandi hafi verið lögskráður á skipið á árinu 2003 og er vísað til meðfylgjandi lögskráningarvottorða um það. Fyrir liggi að skipið Marz AK-80 hafi komið úr síðustu veiðiferð sinni þann 27. desember 2002 og hafi skipið ekki farið úr höfn síðan þá. Það væri því í andstöðu við ákvæði laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna ef stefnandi hafi verið lögskráður á skipið á árinu 2003.
Stefndi bendir jafnframt á að ósannað sé að ráðningarsamningur hafi verið í gildi milli stefnanda og fyrrverandi útgerðaraðila skipsins. Stefnandi hafi í máli þessu ekki lagt fram nein gögn varðandi ráðningu sína á skipið Marz AK-80 annað en lögskráningarvottorð sem ekki verði byggt á og bréf þar sem stefnandi lýsir ráðningarkjörum sínum hjá fyrrverandi útgerðarmanni skipsins þannig:
“Um ráðningarsamning var ekkert talað að öðru leyti en það að 100.000,- kr. yrðu lagðar inn á reikning hjá mönnum til að byrja með þangað til veiðar hæfust og yrði það skoðað betur í ljósi þess hvernig þær gengju”
Stefndi telur að sú skylda hljóti að hvíla á stefnanda að sýna fram á ráðningarsamning sinn við fyrrverandi útgerðaraðila, Avona ehf., sem hann heldur fram að stefndi eigi að hafa yfirtekið sjálfkrafa við nauðungarsöluna 26. maí 2003 eða samþykki boðs 7. júlí 2003. Samkvæmt því virðist stefnandi annað hvort hafa ráðið sig tímabundið á skipið meðan það væri á veiðum eða þá að hann hafi ætlað sér að vinna kauplaust fyrir útgerðaraðilann sem sé auðvitað andstætt kjarasamningum þeim er stefnandi vísar til í stefnu. Ef stefndi verður sjálfkrafa látinn yfirtaka ráðningarsamning stefnanda við Avona ehf. verði slíkur ráðningarsamningur auðvitað að liggja fyrir. Þrátt fyrir að það sé skylda útgerðaraðila að gera skriflegan ráðningarsamning við skipverja geti slík skylda ekki færst yfir á kaupanda skips enda eigi hann samkvæmt kröfum stefnanda að yfirtaka gildandi ráðningarsamning. Stefnandi hafi engum kröfum lýst við nauðungarsölu skipsins og hafi svo vitað séð ekki reynt að krefja fyrrverandi útgerðarmann skipsins um launagreiðslur. Bendi þetta eindregið til þess að enginn grundvöllur hafi verið fyrir slíkum kröfum og verði stefnandi að bera hallann af óljósum ráðningarkjörum sínum við fyrrverandi útgerðaraðila skips.
Verði að telja eðlilegt að stefnandi snúi sér fyrst að fyrrverandi útgerðaraðila skipsins með launakröfur áður en reynt sé að hafa peninga af grandlausum kaupanda skips við nauðungarsölu. Það geti ekki verið rétt að kaupandi skips við nauðungarsölu eigi að sæta því að yfirtaka ráðningu skipverja er sannanlega hafi ekki unnið við skipið í fimm mánuði. Með vísan til þessa geti forsendur í hæstaréttardómi nr. 169/2000 ekki átt við um atvik þessa máls.
Stefndi vísar einnig til 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt þessu lagaákvæði sé skiprúmssamningi slitið ef skip verði af óviðráðanlegum ástæðum tekið úr þjónustu útgerðarmanns um ófyrirsjáanlegan tíma. Stefndi telur að beita eigi þessu lagaákvæði með lögjöfnun um það atvik er skip sé selt nauðungarsölu enda sé þá skip tekið úr þjónustu útgerðarmanns af óviðráðanlegum orsökum um ófyrirsjáanlegan tíma. Þannig hafi meintum skiprúmssamningi stefnanda verið slitið við nauðungarsölu skipsins.
Verði ofangreindar röksemdir ekki teknar til greina heldur stefndi því fram að stefnanda hafi verið vikið úr skiprúmi við eigendaskipti að skipinu þann 7. júlí 2003 vegna afstöðu stefnda og vísar stefndi til hæstaréttardóma nr. 197/2001 og 135/2002 um þetta atriði.
Verði ekki fallist á ofangreindar röksemdir stefnda um sýknu telur stefnandi engu að síður ljóst að stefnandi geti einungis átt rétt á launum í uppsagnarfresti frá því að eigendaskipti urðu á skipinu Marz AK-80 þann 7. júlí 2003. Stefndi telur ljóst að stefnandi hafi ekki átt kost á að halda skiprúmi sínu hjá nýjum eiganda er eigendaskiptin urðu enda sé stefndi olíufélag sem standi ekki að útgerð fiskiskipa. Þannig verði að miða við að stefnanda hafi verið vikið úr skiprúmi við söluna, hvort sem miðað sé við dagsetningu nauðungarsölu þann 26. maí 2003 eða við eigendaskiptin þann 7. júlí 2003. Stefnda geti því einungis verið skylt að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti í samræmi við 25. gr., sbr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Vísað er um þetta atriði meðal annars til dóms hæstaréttar nr. 135/2002.
Verði ekki fallist á ofangreinda málsástæðu stefnda er því haldið fram að yfirtaka stefnda á ráðningu stefnanda geti í fyrsta lagi miðast við eigendaskiptin á skipinu Marz AK-80. Ljóst sé að eigendaskipti hafi orðið á skipinu þann 7. júlí 2003 með samþykki boðs við nauðungarsölu þess. Fram til þess tíma hafi stefndi ekki verið orðinn eigandi skipsins og hann hafi ekki fengið umráð þess fyrr en þá. Eigandi skipsins hafi fram að þeim tíma getað samið við gerðarbeiðanda og kröfuhafa um afturköllun uppboðs og jafnframt hafi hann fyrir þann tíma getað sagt stefnanda máls þessa upp ef ráðningarslit höfðu ekki orðið fyrr. Vísað er um þetta atriði til 6. tl. 1. mgr. 28. gr. og 55. gr. laga nr. 90/1991. Sú niðurstaða væri einnig í samræmi við fordæmi hæstaréttar þar á meðal dóm nr. 169/2000. Því er sérstaklega mótmælt að 10. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 90/1991 geti átt við í máli þessu.
Stefndi mótmælir því jafnframt að ráðningarslit hafi orðið þann 4. október 2003 og telur að þau geti í síðasta lagi miðast við 14. ágúst 2003 þegar starfsmaður stefnda lýsti því yfir við lögmann stefnanda að stefndi féllist ekki á að hafa yfirtekið meintan ráðningarsamning stefnanda við fyrri útgerðaraðila og eiganda Marz AK-80. Geti stefnandi því í mesta lagi átt rétt á greiðslu launa í 37 daga.
Þeim liðum í kröfugerð stefnanda er varða greiðslu starfsaldursálags og fæðispeninga er mótmælt enda verði ekki séð að stefnandi geti átt rétt til slíkra greiðslna samkvæmt kjarasamningum. Auk þess er kröfum stefnanda um greiðslu vegna glataðra lífeyrisréttinda mótmælt.
Stefndi mótmælir einnig kröfu stefnanda um greiðslu ferðakostnaðar enda liggi fyrir að Marz AK-80 hafi verið gerður út frá Santos í Brasilíu og hljóti stefnanda að hafa verið það kunnugt frá upphafi. Hann geti því ekki með réttu átt kröfu um greiðslu ferðakostnaðar til Íslands.
Varakrafa stefnda varðar einnig upphafsdag dráttarvaxta og er þess krafist að ef einhverjar kröfur stefnanda verði teknar til greina skuli upphafsdagur þeirra miðast við dómsuppsögu. Fyrir þann tíma hafi stefndi ekki sýnt fram á réttmæti krafna sinna. Þó að ekki verði fallist á að miða upphafsdag dráttarvaxta við dómsuppsögu er upphafsdögum dráttarvaxtakrafna mótmælt sem röngum enda hafi engar kröfur verið gerðar á hendur stefnda fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda dagsettu þann 29. ágúst 2003. Upphafsdagur dráttarvaxta geti því í fyrsta lagi orðið 29. september 2003. Varðandi kröfu um dráttarvexti á laun í uppsagnarfresti verði að miða við ráðningarlok eða lok uppsagnarfrests, sbr. dóm hæstaréttar nr. 326/2000.
Um varakröfu stefnda vísast einnig til röksemda fyrir aðalkröfu þar sem við á.
Málskostnaðarkröfur eru byggðar á 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með breytingum.
Niðurstaða
Fyrir dómi skýrði stefnandi frá því að hann hefði ráðið sig á b.v. Marz AK-80 í byrjun október 2002. Hann hefði þá strax farið að vinna um borð við að standsetja fyrir væntanlega för til Brasilíu. Hann hefði skrifaði undir lögskráningu 15. október 2002, og talið að það væri nóg, enda nyti hann þar með réttinda í samræmi við kjarasamninga, ekki væri þörf á því að gera sérsamning. Stefnandi greindi frá því að lagt hefði verið af stað til Brasilíu 15. október 2002. Siglingin til Santos í Brasilíu hefði tekið tæpan mánuð og þar hefði skipið legið í rúman mánuð vegna undirbúnings fyrir veiðar. Síðan hafi verið farið í tvo veiðitúra, en skipið hafi bilað á leiðinni til lands úr síðari veiðitúrnum. Skipið hafi síðan legið bilað í Santos, það fór lega í gírnum. Alltaf hafi staðið til að farið yrði á veiðar, en til þess kom ekki, þar sem ekki var gert við skipið vegna fjárskorts. Stefnandi kvaðst ekki hafa haft hugmynd um uppboð skipsins, sem fram fór í maí 2003 og kvaðst fyrst hafa frétt af því í símtali við lögmann sinn. Stefnandi kvaðst ekki hafa viljað skrifa undir tilboð um starfslok við stefnda, eins og skipstjórinn og yfirvélstjórinn gerðu.
Stefnandi byggir á því að þegar stefndi eignaðist b.v. Marz AK-80 við nauðungarsölu skipsins 26. maí 2003 hafi stefnandi orðið starfsmaður stefnda samkvæmt 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og með vísan til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 169/2000 frá 17. maí 2000. Það ráðningarsamband hafi staðið til 4. október 2003 er stefnandi kom til Íslands frá Brasilíu. Er á því byggt að stefnandi eigi rétt á launum úr hendi stefnda til þess tíma, auk greiðslu ferðakostnaðar og uppihalds. Er krafa stefnanda í málinu við það miðuð.
Af hálfu stefnanda var engum kröfum eða kvöðum lýst við uppboð skipsins, sbr. 3. tölulið 2. mgr. 31. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Lá þannig ekkert fyrir um ráðningu stefnanda á skipinu, sem legið hafði í höfn í Santos í Brasilíu mánuðum saman og án þess að stefnandi væri lögskráður á skipið, en samkvæmt framlögðu vottorði sýslumannsins á Akranesi var stefnandi lögskráður á skipið frá 15. október 2002 til 27. desember 2002 er síðari veiðiferðinni lauk. Gat stefndi því ekki búist við að þurfa að yfirtaka ráðningarsamning við stefnanda og mátti ætla að skipið væri selt án slíkrar kvaðar. Við útgáfu afsals fyrir skipinu til stefnda 25. ágúst 2003 féllu og niður allar kvaðir og höft á skipinu samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991.
Þegar þetta er virt og þær sérstæðu aðstæður, sem uppi eru í máli þessu og með tilliti til þess að stefnandi verður, gagnvart stefnda, að bera halla af skorti á sönnun um óljósan ráðningarsamning sinn í upphafi, verður ekki talið að ráðningarsamband hafi stofnast milli aðila við nauðungarsöluna 26. maí 2003 eða samþykkt boðs 7. júlí 2003 á grundvelli 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Breytir engu hér um þótt stefndi hafi samið við tvo skipverja um starfslok á grundvelli 3. mgr. tilvitnaðs lagaákvæðis, enda er ekki byggt á því í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Olíuverslun Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Lúðvíks Ólafssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.