Hæstiréttur íslands
Mál nr. 183/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Miðvikudaginn 24. maí 2000. |
|
Nr. 183/2000. |
Norræna sjóeldið ehf. (Garðar Briem hrl.) gegn Rafmagnsveitum ríkisins (Lárus L. Blöndal hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
N höfðaði gagnsök gegn R og krafðist skaðabóta vegna tjóns, sem hann taldi R hafa valdið á fiskeldisstöð hans með því að opna botnloku á stíflugarði sínum og hleypa þannig gífurlegu magni af leðju og aur í í stöðuvatnið M, en fiskeldisstöðin tók vatn úr M. Talið var að af málsástæðum N og framsetningu aðalkröfu hans yrði ráðið að hann teldi tjón sitt nema verðmæti fiskeldisstöðvarinnar auk tjóns vegna fiskdauða og framleiðslutaps. Verulega þótti skorta á að grundvöllur þessarar kröfu N og samhengi hennar við málsástæður hans hefði verið skýrt með fullnægjandi hætti og var henni sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Varakrafa N, sem reist var á áætlunum um hagnað af sölu fisks, sem drapst eða þyngdist ekki eðlilega á árinu 1995, og áætlunum um hagnað miðað við nánar tiltekið framleiðslumagn á árunum 1996 til 2004, þótti hins vegar ekki svo óljós eða reifun hennar svo miklum annmörkum háð að ekki yrði bætt úr undir rekstri málsins. Þóttu ekki næg efni til að vísa þessari kröfu N frá dómi vegna vanreifunar og var úrskurður héraðsdóms, þar sem gagnsökinni var í heild vísað frá héraðsdómi, því felldur úr gildi að þessu leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. apríl 2000, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að gagnsök sóknaraðila í máli, sem varnaraðili hefur höfðað gegn þeim fyrrnefnda, yrði vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka gagnsökina til efnislegrar meðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.
I.
Eins og er rakið í úrskurði héraðsdóms höfðaði sóknaraðili gagnsök gegn varnaraðila 25. október 1999, en mál varnaraðila gegn sóknaraðila var þingfest 28. september sama árs. Í gagnsök krefst sóknaraðili aðallega 617.113.645 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags, en til vara 492.740.318 króna með dráttarvöxtum frá sama degi. Til þrautavara krefst hann lægri fjárhæðar með dráttarvöxtum frá sama degi. Sóknaraðili reisir kröfur sínar á því að starfsmenn varnaraðila hafi valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti með því að opna botnloku á stíflugarðinum við Stífluvatn í Fljótum á árinu 1994 og aftur árið 1995 og hleypa þannig gífurlegu magni af leðju og aur í Fljótaá, sem rennur í Miklavatn, en fiskeldisstöð sóknaraðila taki vatn úr Miklavatni. Það hafi haft þau áhrif að vatn í fiskeldiskerjum mengaðist með þeim afleiðingum að fiskurinn hafnaði fóðri og mikill hluti hans drapst í kjölfarið. Sóknaraðili telur að nýrnaveiki, sem upp kom í stöðinni árið 1994, hafi orsakast af þessum gerðum starfsmanna varnaraðila. Hann telur einnig að fiskdauðann megi rekja til lífrænnna efna, sem borist hafi í Miklavatn, þegar stíflan var opnuð 1994. Afleiðingarnar af því að áðurgreind botnloka var opnuð séu þær að ekki sé lengur unnt að nota vatn úr Miklavatni til venjulegs fiskeldis. Hafi aðgerðir varnaraðila á árunum 1994 og 1995 valdið því að sóknaraðili hafi þurft að hætta rekstri stöðvarinnar.
II.
Í gagnstefnu segir að aðalkrafa sóknaraðila sé við það miðuð að sams konar fiskeldisstöð hefði verið reist annars staðar og tekin í notkun af sóknaraðila í ársbyrjun 1998. Við nánari sundurliðun kröfunnar framreiknar sóknaraðili kostnað við smíði stöðvarinnar á árunum 1988 til 1989, sem hann telur nema um það bil 400.000.000 krónum og framreiknar hann kostnaðinn á grundvelli lánskjaravísitölu frá 1. janúar 1989 til 1. október 1999. Miðað við þær forsendur telur hann kostnaðinn nema samtals 664.677.490 krónum. Við þessa fjárhæð bætir sóknaraðili 173.995.318 krónum, sem hann telur svara til tjóns síns vegna fiskdauða og framleiðslutaps á árunum 1996 og 1997. Frá fjárhæðum þessum eru dregnar 221.559.163 krónur með eftirfarandi athugasemd í gagnstefnu: „Frá dragast 5 ár af 15 sem liðið höfðu áður en gagnstefnendur eignuðust stöðina.“ Samkvæmt þessu telur sóknaraðili heildartjón sitt nema 617.113.645 krónum, sem er fjárhæð aðalkröfu hans.
Af málsástæðum sóknaraðila og framsetningu aðalkröfu hans verður ráðið að hann telji tjón sitt nema verðmæti umræddrar fiskeldisstöðvar, sem nú sé ónýt af völdum varnaraðila, auk tjóns vegna fiskdauða og framleiðslutaps. Af hálfu sóknaraðila hefur hins vegar engin grein verið gerð fyrir verðmæti stöðvarinnar miðað við þann tíma, sem sóknaraðili telur að skaðabótaábyrgð varnaraðila hafi stofnast, heldur kveðst hann, svo sem fyrr var vikið að, miða við að sams konar fiskeldisstöð hefði verið komið upp annars staðar og tekin í notkun í ársbyrjun 1998. Þann kostnað áætlar sóknaraðili miðað við útgjöld við smíði eigin stöðvar á árunum 1988 til 1989, sem hann telur um það bil 400.000.000 krónur auk verðbóta samkvæmt lánskjaravísitölu til 1. október 1999. Í málatilbúnaði sóknaraðila er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því hvers vegna hann telur að bæta beri sér tjón með fjárhæð, sem nemi framangreindum kostnaði. Sú fjárhæð, sem sóknaraðili dregur frá með þeirri athugasemd að frá dragist 5 ár af 15, sem liðið höfðu áður en sóknaraðili eignaðist stöðina, er einnig óútskýrð og hefur enga stoð í gögnum málsins eða málatilbúnaði hans. Samkvæmt framangreindu skortir verulega á að grundvöllur aðalkröfu sóknaraðila og samhengi hennar við málsástæður hans hafi verið skýrt með fullnægjandi hætti. Vegna þessarar vanreifunar verður aðalkröfu sóknaraðila sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
III.
Varakröfu sína miðar sóknaraðili við fjölda fiska, sem drápust á árinu 1995 og áætlun um fisk, sem ekki hafi á því ári þyngst eins og vænta mátti, svo og áætluðu tjóni vegna framleiðslutaps á árunum 1996 til 2004. Sóknaraðili leggur til grundvallar skráðan fiskdauða á árinu 1995 og að þessi fiskur hefði náð sláturstærð, sem sé 3,5 kg, og hefði söluverðmæti hans numið 29,58 norskum krónum á hvert kg. Að frádregnum nánar tilgreindum eldiskostnaði nemi tjón hans vegna ársins 1995 samtals 70.551.621 íslenskri krónu. Tjón sitt af töpuðum hagnaði vegna áranna 1996 og 1997 reiknar sóknaraðili út á grundvelli áætlaðs framleiðslumagns, söluverðs fisks og eldiskostnaðar. Tjón sitt vegna áranna 1998 til 2004 áætlar sóknaraðili að hafi numið um það bil 5.000.000 norskum krónum á ári með hliðsjón af áætlaðri arðsemi stöðvarinnar 1996 og 1997. Sóknaraðili lætur þess getið í sundurliðun varakröfu sinnar að ending þeirrar fiskeldisstöðvar, sem hér um ræðir, sé um það bil 15 ár og hefði stöðin því þurft fullkominnar endurnýjunar við árið 2004.
Samkvæmt framangreindu reisir sóknaraðili varakröfu sína á áætlunum um hagnað af sölu fisks, sem drapst eða þyngdist ekki eðlilega á árinu 1995, og áætlunum um hagnað miðað við nánar tiltekið framleiðslumagn á árunum 1996 til 2004. Það er á forræði sóknaraðila að ákveða hvaða hagsmuni hann krefst að fá bætur fyrir úr hendi sóknaraðila og hvaða gögn hann telur nægja til þess að sanna tjón sitt að þessu leyti. Verður ekki á það fallist að krafan sé svo óljós eða að reifun hennar í stefnu sé svo miklum annmörkum háð að ekki verði úr bætt undir rekstri málsins. Mótmæli varnaraðila við gildi þeirra gagna, sem sóknaraðili styður útreikninga sína um tapaðan hagnað við, og aðrar fullyrðingar hans um að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á tjón sitt með viðhlítandi gögnum, varða efnishlið málsins og geta ekki leitt til frávísunar kröfunnar. Sömuleiðis varða staðhæfingar varnaraðila um tómlæti sóknaraðila við að afla gagna um tjón sitt og halda rétti sínum fram efnishlið málsins. Samkvæmt framangreindu eru ekki næg efni til þess að vísa varakröfu sóknaraðila frá dómi vegna vanreifunar. Með því að gagnsök sóknaraðila fullnægir skilyrðum 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er tekur til varakröfu sóknaraðila.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar frávísun á varakröfu í gagnsök og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið að því leyti til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. apríl 2000.
Stefnandi í aðalsök og sóknaraðili í þessum þætti málsins eru Rafmagnsveitur ríkisins, kt. 520269-2669, Rauðarárstíg 10, Reykjavík.
Stefndi í aðalsök og varnaraðili í þessum þætti málsins er Norræna sjóeldið hf. kt. 690894-2709, Lambanesreykjum, Fljótum, Skagafirði.
Málið er höfðað með stefnu sóknaraðila þingfestri 28. september sl. Í þinghaldi þann 9. nóvember sl. skilaði varnaraðili greinargerð í málinu. Samhliða greinargerð sinni lagði varnaraðili fram gagnstefnu. Í framhaldi af gagnstefnu varnaraðila krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði. Með úrskurði dómsins uppkveðnum þann 23. nóvember sl. hafnaði dómurinn kröfunni. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar af sóknaraðila en rétturinn staðfesti úrskurðinn með dómi uppkveðnum 5. janúar sl. Þann 25. febrúar lagði sóknaraðili fram greinargerð í gagnsök og þar kemur m.a. fram krafa um að gagnsökinni verði vísað frá dómi og er sá þáttur til úrlausnar hér. Málflutningur um frávísunarkröfuna fór fram 30. mars sl.
II.
Dómkröfur sóknaraðila í aðalsök eru þær að varnaraðila verði gert að greiða skuld að fjárhæð 3.836.926 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga af mismunandi fjárhæðum frá 3. janúar 1996 til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur varnaraðila í aðalsök eru þær að hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum sóknaraðila á grundvelli skuldajafnaðar en til vara krefst hann þess að honum verði ekki gert að greiða hærri fjárhæð en 2.368.848 krónur. Hann krefst og málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðili gerir þær dómkröfur í gagnsök, aðallega að sóknaraðila verði gert að greiða honum 617.113.645 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða 429.740.318 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist, að sóknaraðila verði gert að greiða aðra lægri upphæð að mati dómsins með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar skv. mati réttarins eða skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur sóknaraðila í gagnsök eru aðallega þær, að gagnsökinni verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að hann verði sýknaður af gagnkröfum varnaraðila. Í báðum þessum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins. Til þrautavara er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu lægri fjárhæðar en krafist er í gagnstefnu og að þá verði málskostnaður látinn niður falla.
III.
Málavextir.
Með lögum frá árinu 1935 fékk Bæjarstjórn Siglufjarðar heimild til að reisa og reka raforkuver við Fljótá í Skagafirði og jafnframt var bæjarstjórn heimilað að reisa nauðsynleg mannvirki til að koma orkunni til Siglufjarðar. Fljótlega var ráðist í að reisa þessi mannvirki og eru stíflan og miðlunarlónið, sem koma við sögu í þessu máli því um 60 ára gömul mannvirki. Á árinu 1991 keypti sóknaraðili mannvirkin af Siglufjarðarkaupstað.
Varnaraðili bendir á að miðlunarlónið sé nefnt Stífluvatn en það sé tilkomið vegna mannvirkjanna því þar hafi áður ekki verið stöðuvatn. Hlutverk þess sé því að safna vatni og miðla því áfram til raforkuframleiðslu. Í lóninu sé mismikið vatn eftir árstíma og veðurfari en virkjunin verði alltaf að hafa ákveðið lágmarksrennsli til raforkuframleiðslu. Fljótá heitir áin sem rennur úr Stífluvatni og fellur hún í Miklavatn og þaðan til sjávar.
Á árunum 1988-1989 byggði fyrirtækið Miklilax seiðaeldisstöð og matfisksstöð á jörðunum Hraunum og Lambanesreykjum í Fljótum en aðstæður þóttu góðar til laxeldis við Miklavatn. Síðla árs 1994 keypti varnaraðili eignir þrotabús Miklalax hf.
Á árinu 1994 réðst sóknaraðili í viðamiklar viðhaldsviðgerðir á stíflumannvirkjum. Vegna þessara viðgerða varð að tæma miðlunarlónið og var botnlokan tekin burt. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að við þetta hafi gífurlegt magn af leðju og aur, gömul setlög, dauður fiskur, jurtaleifar og ýmis lífræn efni sem safnast höfðu fyrir ofan stífluna í áranna rás flætt niður ána og út í Miklavatn. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að magnið hafi ekki verið nærri eins mikið og varnaraðili heldur fram.
Á árinu 1995 varð mikill fiskadauði í laxeldisstöðinni og telur varnaraðili að hann megi rekja til brennisteinsvetnis sem komið hafi í stöðina gegnum inntaksrör úr Miklavatni. Drullan sem barst í vatnið sem áður er getið hafi aukið á rotnun sem með tímanum hafi myndað gas og eiturverkanir fyrir fiskinn í stöðinni. Á þessu sama ári hafi sóknaraðili aftur opnað fyrir botnloka stíflumannvirkisins með þeim afleiðingum að aftur barst mikið magn af leir og drullu í mannvirki stöðvarinnar sem leiddi til þess að mikið magn fiskjar drapst. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að vegna mikilla snjóa veturinn áður og gríðarlegra leysinga um vorið hafi verið nauðsynlegt að létta á stíflumannvirkjum og því hafi vatni verið hleypt smátt og smátt úr miðlunarlóninu til að tempra toppinn á leysingunum. Leysingarnar hafi verið það miklar að Skeiðsá sem alla jafna renni í Stífluvatn hafi brotið sér nýjan farveg og fallið eftir hlíðinni meðfram Fljótá og sameinast henni töluvert fyrir neðan virkjunina. Kveður sóknaraðili Fljótá hafa verið lítillega litaða frá virkjuninni og þar til árnar komu saman en þar fyrir neðan hafi hún verði mjög dökk og moldarlituð.
Varnaraðili kveðst hafa hætt allri starfsemi í Fljótum undir lok febrúarmánaðar 1996 eftir að viðræður við sóknaraðila um bætur vegna tjónsins hafi reynst árangurslausar. Frá þeim tíma hafi nýtt fyrirtæki, Stormöllen, tekið við rekstrinum.
Málsástæður og lagarök í aðalsök.
Sóknaraðili heldur því fram að reikningar hans séu vegna rafmagnsnotkunar varnaraðila að Lambanesreykjum í Fljótum og séu gjalddagar frá 3. janúar til 3. júní 1996 í vanskilum samtals að fjárhæð 3.836.926 krónur en varnaraðili hafi ekki fengist til að greiða fyrir notkunina. Sóknaraðili styður kröfur sínar í aðalsök við almennar reglur samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti byggir hann á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 en kröfu um málskostnað styður hann við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Varnaraðili byggir sýknukröfu sýna í aðalsök á skuldajöfnuði. Sóknaraðili hafi með vítaverðu gáleysi valdið varnaraðila tjóni sem hafi haft þær afleiðingar að rekstrargrundvöllur fyrir starfsemi hans hafi brostið. Telur varnaraðili að sóknaraðila hafi mátt vera ljóst að þau skaðlegu efni sem bárust í Miklavatn þegar hleypt var úr Stífluvatni hefðu áhrif á umhverfið. Gagnstefnda hafi af þessum sökum borið skylda til, áður en hleypt var úr vatninu, að kanna áhrif sem slíkt hefði á umhverfið og hreinsa burt öll skaðleg efni með sogtækjum sem hönnuð eru til slíkra verka. Sóknaraðili hafi með háttsemi sinni brotið lög og bakað sér bótaábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Varnaraðili vísar til gagnstefnu varðandi sundurliðun á því tjóni sem hann varð fyrir en sú krafa sé langtum hærri en krafa sóknaraðila.
Varakröfu sína í aðalsök byggir varnaraðili á því, að honum beri ekki að greiða fyrir rafmagnsnotkun lengur en til febrúarloka 1996. Á þeim tíma hafi framkvæmdastjóri varnaraðila tilkynnt sóknaraðila að félagið væri að hætta rekstri og því beri ekki að greiða fyrir raforku eftir þann tíma. Telur varnaraðili það viðtekna venju að eigendaskipti að fasteignum eða félögum séu tilkynnt sóknaraðila símleiðis í því skyni að gerð verði breyting á nafni orkunotanda. Þessi venja sé almennt viðurkennd og ekki tíðkist að tilkynna slíkar breytingar skriflega. Þá bendir varnaraðili á að engir reikningar hafi verið lagðir fram er varði orkunotkunina heldur einungis yfirlit og telur varnaraðili að þetta geri málatilbúnað sóknaraðila tortryggilegan og með öllu ófullnægjandi.
Varnaraðili kveðst hafa beint kröfum að sóknaraðila strax og ljóst varð hvert tjón hans varð og hafi sóknaraðili móttekið bréf vegna þessa. Sóknaraðili hafni hins vegar bótaábyrgð og geri kröfu um dráttarvexti en kröfu um greiðslu þeirra er sérstaklega mótmælt. Varnaraðili kveðst ekki hafa fengið upplýsingar um kröfuna fyrr en við birtingu stefnu enda hafi greiðsluáskorun sem lögð hefur verið fram ekki komist til varnaraðila. Hann hafi verið í þeirri trú að sóknaraðili myndi ekki krefjast greiðslu fyrir þessa rafmagnsnotkun enda hafi aðilar átt í samningaviðræðum varðandi bótagreiðslu sóknaraðila. Af þessu sökum sé krafa um dráttarvexti bersýnilega ósanngjörn.
Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til almennu skaðabótareglunnar, sakarreglunnar og til reglna um skuldajöfnuð. Kröfu um málskostnað byggir hann á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök í gagnsök.
Varnaraðili byggir gagnsakarkröfur sínar á því að opnun botnlokans hafi valdið honum gífurlegu tjóni og af þeim sökum hafi hann orðið að hætta rekstri. Raunar hafi opnun botnlokans valdið því að ekki er lengur unnt að nota vatn úr Miklavatni til venjulegs fiskeldis.
Á því er byggt að forsvarsmönnum sóknaraðila hafi verið fullkomlega ljóst það magn leðju, drullu og lífrænna efna sem var á botni Stífluvatns enda hafi þeir hæglega getað aflað sér upplýsinga um þetta. Þeim hafi borið skylda til að kanna afleiðingar sem losun þessara skaðlegu efna hefði á lífríkið ef þeim yrði hleypt niður árfarveginn í Miklavatn. Þeim hafi verið skylt að fjarlægja efnin með sogtækjum og koma þeim með einhverjum hætti á brott áður en hafist var handa við viðgerð á stíflumannvirkjunum. Hafi þeir verið í vafa um magn efnanna eða eiginleika þeirra hafi þeim verið skylt að láta meta hvaða áhrif losun efnanna hefði á umhverfið áður en ákvörðun var tekin um að hleypa þeim niður ána.
Varnaraðili byggir á því að rotnun lífrænna efna í drullulagi því sem barst á botn Miklavatns hafi valdið eitrun í vatninu. Eitrunin hafi borist inn í laxeldisstöðina gegnum inntaksmannvirki í Miklavatni og valdið verulegum fiskdauða. Gasmyndun vegna drullunnar hafi orðið viðvarandi vandamál allt frá því að hún barst í vatnið og hafi leitt til þess að æ síðan var yfirvofandi hætta á að fá eitrun inn í stöðvarnar, sem leitt hafi til þess að ekki reyndist grundvöllur fyrir rekstri þeirra til frambúðar.
Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðila hafi í maí og júní 1995 verið kunnugt um afleiðingar opnunarinnar frá því árið áður. Þá hafi einnig verið ljóst að veturinn hafði verið snjóþungur og mikill snjór í fjöllum. Af þeim sökum hafi sóknaraðila borið að hafa yfirborð Stífluvatns lágt til að mæta yfirvofandi leysingarvatni. Starfsmenn sóknaraðila hafi hins vegar sofið á verðinum og vegna skyndilegrar hláku hafi þeir gripið til þess ráðs að opna aftur fyrir botnlokuna og þannig hafi þeir komið í veg fyrir tjón hjá sóknaraðila. Þetta hafi þeir þó gert án þess að huga að umhverfisáhrifum hvað ána og Miklavatn varðaði. Afleiðingin hafi orðið sú að í Miklavatn barst aftur talsverð drulla og aur sem gruggaði vatnið, streituáhrif hafi orðið hjá fiskinum en hann sé viðkvæmur fyrir öllum breytingum og fiskur hafi drepist í stórum stíl úr nýrnaveiki.
Varnaraðili byggir kröfur sínar í gagnsök ennfremur á því að í hvorugt skiptið hafi verið tilkynnt að til stæði að opna fyrir botnlokuna og forráðamönnum fiskeldisstöðvanna hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig fyrirfram um þessar áætlanir. Varnaraðili bendir á að þegar fiskeldisstöðvarnar voru reistar hafi virkjunin starfað í fjölda ára og menn hafi treyst miðlunargildi hennar fyrir vatnasvæðið og jafnframt hafi verið horft til þessa sem öryggisþáttar þegar fiskeldisstöðvarnar voru reistar. Fram að þessum tíma hafi ekki verið nein vandkvæði á vorin vegna leysinga.
Varnaraðili bendir á að fiskeldisstöðin að Hraunum geti ekki sótt vatn annað en í Miklavatn en Hrauná sé svo vatnslítil að hún sjái stöðinni engan veginn fyrir vatni. Auk þess verði að blanda sjó í vatnið.
Varnaraðili reisir kröfur sínar einnig á því að með framferði sínu hafi sóknaraðili á ólögmætan hátt framið stórkostlega spjöll á íslenskri náttúru, varnaraðila og öðrum til verulegs fjárhagslegs tjóns. Sóknaraðili hafi með háttsemi sinni brotið gegn IX. kafla vatnalaga nr. 15/1923 um óhreinkun vatna. Ekki sé vitað til þess að ráðherra hafi veitt sóknaraðila heimild til opnunarinnar í samræmi við 2. tl. 83. gr. laganna eða yfirleitt til þessa að breyta vatnsyfirborðinu í Stífluvatni eins og áskilið er í 133. gr. laganna 1. tölulið. liðum a., d. og e. Vísar hann ennfremur til víðtæks bótaákvæðis sem finna má í 136. gr. vatnalaga varðandi framkvæmdir sem unnar eru án leyfis.
Varnaraðili byggir á því að sönnuð tengsl séu milli opnana stíflulokans og dauða fiskjar í fiskeldisstöðinni með vísan til skýrslna sérfræðinganna Jóns Kristjánssonar og Gísla Jónssonar sem lagðar hafi verið fram í málinu. Í ljósi skýrra brota sóknaraðila á nefndum ákvæðum vatnalaga beri hann sönnunarbyrgði fyrir því að opnunin hafi ekki haft áhrif á sjúkdómsferli í fiskeldisstöðinni sem orsökuðu dauða fiskjar í stórum stíl. Í þessari öfugu sönnunarbyrgði felist einnig að sóknaraðili verði að sanna að tjón varnaraðila sé minna en fram komi í gangstefnu. Þá bendir varnaraðili á að vegna þess mikla fjárhagstjóns sem hann hafi orðið fyrir sé honum ómögulegt að láta fara fram umfangsmikla og kostnaðarsama úttekt á lífríki Miklavatns.
Varnaraðili kveðst vita til þess að sóknaraðili hafi látið fara fram athugun á umhverfisáhrifum opnunarinnar árið 1994 á lífríki Fljótár og í ljósi þeirrar niðurstöðu hafi verið gert samkomulag við veiðiréttareigendur um greiðslu bóta. Varnaraðili heldur því fram að hann hafi ekki fengið að sjá þessa skýrslu og að sóknaraðili hafi einnig látið reikna út það magn efna sem fór niður í Miklavatn en skýrslan hafi ekki verið sýnd honum. Þá bendir varnaraðili á að framkvæmdastjóri sóknaraðila hafi í fjölmiðli gefið út yfirlýsingu sem skilja megi þannig að nákvæm úttekt yrði gerð á öllum umhverfisáhrifum opnunarinnar og að allt tjón af hennar völdum yrði bætt. Þá bendir varnaraðili á að í fundargerð vegna fundar í veiðifélagi Miklavatns og Fljótár sé bókað að nafngreindur starfsmaður sóknaraðila hafi fullyrt að ekki þyrfti að opna botnlokann næstu 20 árin og að sóknaraðili hefði boðist til að bæta tjón vegna opnunarinnar.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili sé skaðabótaskyldur, á grundvelli nefndrar bótareglu vatnalaga og almennu skaðabótareglunnar, gagnvart sér vegna þess tjóns sem sóknaraðili olli en sóknaraðili hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við opnun botnlokans. Tjónið felist í miklum fiskdauða í stöðinni, sem annarsvegar megi rekja til eitrunarinnar í byrjun apríl 1995 og hins vegar til nýrnaveiki sem blossaði upp í kjölfar opnunarinnar í júní 1995. Auk þess sé verulegt tjón vegna þess að rekstrargrundvöllur stöðvarinnar brast.
Við útreikning á tjóni sínu leggur varnaraðili eftirfarandi forsendur til grundvallar.
a) Skráningargögn frá fiskeldisstöðvum við Miklavatn um magn fiskjar í kerjum á hverjum tíma.
b) Gögn um verð og framleiðslukostnað fiskjar frá Kontali Analysa A/S. Það fyrirtæki sérhæfi sig í skýrslugerð, áætlunum og markaðsrannsóknum á fiski og sjávarafurðum. Vinna fyrirtækisins byggist á skýrslum sem norskum framleiðendum í fiskiðnaði er lögskylt að senda til stofnunar sem samsvari Fiskistofu hér á landi.
c) Upplýsingar frá forsvarsmönnum varnaraðila um áætlaðan líftíma fjárfestingar í greininni og áætlaðan byggingarkostnað stöðvar á öðrum stað.
Aðalkröfu sína sundurliðar varnaraðili þannig:
Miðað við samskonar fiskeldisstöð sem byggð hefði verið á öðrum stað en byggingarkostnaður stöðvanna hafi á árunum 1988 til 1989 numið u.þ.b. 400.000.000 króna og sú tala framreiknuð með byggingarvísitölu eins og hún var 1. janúar 1989, 2279 stig til 1. október 1999, 3787 stig geri samtals 664.667.490 krónur.
Við bætist fiskidauði og framleiðslutap í tvö ár sem hefði tekið að koma nýrri verksmiðju á stofn, árin 1996 og 1997 samtals 173.995.318 krónur.
Frá þessu dragist 5 ár af þeim 15 sem liðið höfðu áður en varnaraðilar eignuðust stöðina samtals 221.559.163 krónur.
Heildartjón, sem sé aðalkrafa, nemi því samtals 617.113.645 krónum.
Varakrafa, sem miðar við að framleiðsla hefði haldist óbreytt fram til ársins 2004, sundurliðast þannig:
Tjón ársins 1995.
Skráður fiskadauði var sem hér segir: Frá apríl til miðs júní 1995 26.560 fiskar, meðalþyngd 532 gr. Frá miðjum júní til nóvember 41.400 fiskar, meðalþyngd 400 gr.
samtals 67.960 fiskar. Áætlaður fjöldi fiska sem lifði en náði ekki frekari þyngdaraukningu 10.000 fiskar samtals 77.960 fiskar. Varnaraðili miðar við að fiskurinn sem drapst hefði verið alinn í sláturstærð sem er 3,5 kg. og telur rétt að draga kostnað við að ala þá í þá þyngd frá. Reiknar hann því tjón sitt þannig:
77.960 fiskar. x 3,5 kg. x NOK 29,58 pr. kg. samtals NOK 8.071.199
Frá dregst 77.960 fiskar x 3,5 kg. x (17,60-2,50) NOK 15.10 pr. kg. NOK 4.120.186
Tjón vegna fiskadauða samtals NOK 3.951.013
Tjón vegna vaxtartaps fiskjar á árinu 1995:
200.000 kg. x (29,58-15,10) NOK 14,48NOK 2.896.000
Samtals tjón á árinu 1995NOK 6.847.013
Miðað við gengi ísl. kr. 2. október 1995 10.304IKR 70.551.621
Áætlað tjón á árinu 1996.
Söluverð fiskjar NOK 26,51
Eldiskostnaður í sláturstærðNOK 19,56
Hagnaður pr. kílóNOK 6,95
Áætlað heildar framleiðslumagn 750.000 kg. x 6,96NOK 5.212.500
Miðað við gengi ísl. kr. 1. október 1996 10.2990IKR 53.683.537
Áætlað tjón á árinu 1997
Söluverð fiskjar NOK 26,31
Eldiskostnaður í sláturstærðNOK 19,67
Hagnaður pr. kílóNOK 6,64
Áætlað heildar framleiðslumagn 750.000 kg. x 6,64NOK 4.980.000
Miðað við gengi ísl. kr. 1. október 1997 9.992IKR 49.760.160
Samtals tjón áranna 1995,1996 og 1997IKR 173.995.318
Samkvæmt þessu sé ljóst að arðsemi reiknist u.þ.b. NOK 5.000.000 á ári. Líftími stöðvar sem þessarar er 15 ár þannig að álykta má að árið 2004 hefði hún þurft fullkominnar endurnýjunar við.
7 ár (1997-2004) x NOK 5.000.000NOK 35.000.000
Miðað við gengi ísl. kr. 22. október 1997 9,107ÍKR 318.745.000
Heildartjón, sem er varakrafa varnaraðila, nemi því ÍKR 492.740.318
Hvað lagarök fyrir gagnkröfum sínum varðar vísar varnaraðili til vatnalaga nr.15/1923 og almennu skaðabótareglunnar. Varðandi dráttarvexti vísar hann til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 en um málskostnað vísar hann til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína um frávísun á því að framsetning bótakröfu varnaraðila sé óskýr. Þannig sé staðhæft í gagnstefnu að byggingarkostnaður fiskeldisstöðvanna hafi á árunum 1988 og 1989 numið u.þ.b. 400.000.000 króna. Framsetning með þessum hætti sé óskýr og dómurinn geti ekki tekið til greina kröfu sem sé u.þ.b. eitthvað. Þá komi fram í gagnstefnu að upplýsingar um áætlaðan byggingarkostnað og líftíma fiskeldisstöðva byggi á upplýsingum frá forsvarmönnum varnaraðila. Í gagnstefnunni sé sagt að miðað sé við að samskonar fiskeldisstöð hefði verið byggð annars staðar og tekin í notkun í ársbyrjun 1998. Engar upplýsingar sé að finna í málinu um þennan byggingarkostnað. Þá segi skömmu síðar í gagnstefnunni að meginhluti bótakröfunnar sé byggður á áætluðum byggingarkostnaði stöðvanna á árunum 1988 og 1989, þ.e. á þeim árum sem stöðvarnar voru byggðar og bregður nú svo við að bótakrafan grundvallast ekki lengur á þeirri meginforsendu sem varnaraðili hefur sjálfur gefið í upphafi, þ.e. að um sé að ræða byggingarkostnað stöðvarinnar á öðrum stað sem tekin hefði verið í notkun í ársbyrjun 1998. Auk þessa virðist varnaraðili reikna byggingarkostnað miðað við að stöð yrði tekin í notkun í ársbyrjun 1998 en framreikningur sé hins vegar miðaður við vísitölu í október 1999. Í dómkröfum sínum krefjist varnaraðili dráttarvaxta frá 31. ágúst 1995 og þá m.a. af framreiknaðri fjárhæð til október 1999. Bótakrafa þessi sé ruglingsleg og erfitt að átta sig á forsendum hennar og þar með sé hún í andstöðu við meginreglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi skýran og glöggan málatilbúnað. Auk þessa verði að benda á að ekkert liggi fyrir í málinu um að byggingarkostnaður hafi verið u.þ.b. 400.000.000 króna á árunum 1988 og 1989 heldur sé hér sett fram bótakrafa byggð á persónulegum hugleiðingum forsvarsmanna varnaraðila sjálfs. Framreikningur byggingarkostnaðar með lánskjaravísitölu er órökstuddur bæði hvað varðar af hverju hann er framreiknaður og þá með þessari vísitölu. Þá verði að benda á að framreikningur fjárhæðar sem er u.þ.b. eitthvað verður áfram u.þ.b. eitthvað.
Aðalkrafa varnaraðila byggi á því að fiskeldisstöð hefði verið reist á öðrum stað og tekin í notkun í ársbyrjun 1998. Þessi forsenda sé hins vegar með öllu órökstudd.
Þá bendir sóknaraðili á að hluti aðalkröfu sé fiskdauði og framleiðslutap árin 1995, 1996 og 1997 eins og nánar er sundurliðað í gagnstefnu. Til grundvallar þessari kröfu séu hins vegar upplýsingar frá norsku fyrirtæki sem sérhæfi sig í ákveðnum þáttum varðandi fisk og sjávarútveg eins og fram kemur í gagnstefnunni. Gögn frá þessu fyrirtæki eigi því að vera sönnunargagn um framleiðslukostnað á árunum 1995 til 1998 og söluverð fiskjar á sama árabili. Þessi gögn eigi við í norsku fiskeldi og þá væntanlega í Noregi og virðist sem þau séu samantekt fyrir norsk fiskeldisfyrirtæki almennt. Þar fyrir utan séu þau á norsku, illskiljanleg og því vandséð hvaða þýðingu þau hafi í þessu máli. Telur sóknaraðil ómögulegt að átta sig á rökstuðningi bótakröfunnar enda sé hann fráleitur og þar með geti hann ekki áttað sig á grundvelli gagnsakarinnar.
Öll þessi vandræði sem varnaraðili hafi komið sér í með framlagningu þessara gagna og framsetningu bótakröfunnar með þessum hætti leiði til mikilla erfiðleika fyrir sóknaraðila að fjalla um bótakröfuna sjálfa, fjárhæð hennar, útreikning og forsendur og gera henni einhver efnisleg skil. Af þessum sökum telur sóknaraðili að ef gagnsökinni verði ekki vísað frá dómi þá muni varnaraðili verða að afla frekari gagna til skýringa á málatilbúnaði sínum eftir framlagningu greinargerðar sóknaraðila en slíkt sé í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Því verði að vísa máli þessu frá dómi. Sóknaraðili vísar til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 einkum 80 gr. til rökstuðnings fyrir þessari kröfu sinni.
Varakrafa um sýknu af gagnkröfum varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að Miklilax hf. hafi verið eigandi stöðvarinnar þegar hleypt var úr Stífluvatni vorið 1994. Bú Miklilax hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og við sölu á eignum þess seinni hluta ársins 1994 til varnaraðila hafi legið fyrir að stöðin var sýkt af nýrnaveiki. Þegar sýktur fiskur og aðrar eignir búsins
voru seldar hafi þetta legið ljóst fyrir. Sóknaraðili kveðst hafa munnlegar upplýsingar, frá skiptastjóra þrotabúsins, fyrir því að mögulegar bótakröfur á hendur sóknaraðila hafi ekki verið seldar varnaraðila. Á þeim tíma sem salan fór fram hafi legið fyrir að Miklilax hf. hafði áskilið sér allan rétt gagnvart sóknaraðila vegna hugsanlegra skaðabóta. Því sé það þrotabú Miklalax sem eigi bótarétt, ef hann sé til staðar, en ekki varnaraðili enda hafi bótakrafan ekki verið framseld til varnaraðila. Af þessu megi ráða að sýkna beri sóknaraðila af kröfum varnaraðila vegna aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Sóknaraðili byggir sýknukröfu sína ennfremur á því að 136. gr. vatnalaga eigi ekki við í þessu máli eins og varnaraðili heldur fram. Þá sé skilyrðum almennu skaðabótareglunnar, einkum er varðar ólögmæti og orsakatengsl, ekki uppfyllt og að auki sé tjón varnaraðila með öllu ósannað. Sóknaraðili bendir á að IX. kafli vatnalaga eigi við um iðjuver en ekki orkuver eins og það sem hann reki. Skilgreiningu á þessum hugtökum sé að finna í 1. gr. vatnalaga en gerður sé greinarmunur á iðjuveri og orkuveri. Sóknaraðili kveður að horfa beri til VI. kafla vatnalaga varðandi vatnsmiðlanir. Í 73 gr. komi fram að sóknaraðila hafi ekki einungis verið heimilt að halda mannvirkjum sínum við heldur hafi honum beinlínis verð skylt að gera það. Sóknaraðili byggir ennfremur á því að hann hafi leyfi til að reka umrædda virkjun og að viðgerðir þær sem fram fóru á árinu 1994 hafi verið óumflýjanlegar og nauðsynlegar til að tryggja öryggi mannvirkjanna og þar með hafi háttsemi hans hvorki verið saknæm né ólögmæt.
Sóknaraðili byggir ennfremur á því að engar sannanir liggi fyrir um orsakatengsl milli háttsemi hans og þess tjóns sem varnaraðili telur sig hafa orðið fyrir. Raunar telur sóknaraðili sannað að engin tengsl séu þarna á milli. Ekkert liggi fyrir um það að nýrnaveikismitið sem kom upp í fiskeldisstöðinni sé af orsökum sem hann beri ábyrgð á. Þvert á móti bendi gögn málsins til þess að smitið hafi verið komið upp í stöðinni löngu áður en atvik þau sem þetta mál fjallar um áttu sér stað. Orsakir smitsins megi fyrst og fremst rekja til seiðaeldisstöðvarinnar. Sóknaraðili telur að samkvæmt skýrslu dýralæknis fisksjúkdóma, sem liggur fyrir í málinu, megi ráða að nýrnaveikismit var komið í stöðina 13. apríl 1994 en sjúkdómurinn hafi langan meðgöngutíma. Af þessu megi ráða að nýrnaveikin var komin í stöðina áður en miðlunarlónið var tæmt vorið 1994. Eins og áður er getið vissi varnaraðili af því að nýrnaveiki hafði komið upp í stöðinni þegar hann keypti hana ásamt fiski og því
tók hann á sig áhættu sem því var samfara. Í samræmi við meginreglur skaðabótaréttar beri varnaraðila að bera tjón sitt sjálfur enda liggi ekki fyrir orsakatengsl milli tjóns hans og háttsemi sóknaraðila.
Að mati sóknaraðila ber ekki að skilja viðtal við forsvarsmann sóknaraðila, það, sem varnaraðili hefur vísað til, svo að hann hafi lýst því yfir að allt tjón yrði bætt. Forsvarsmaðurinn hafi einungis lýst því yfir að kannað yrði hvaða áhrif tæming lónsins hafi haft. Í framhaldi af slíkri athugun yrði skoðað með greiðslu bóta. Yfirlýsingin hafi að sjálfsögðu grundvallast á þeirri forsendu að bótaskylda samkvæmt lögum væri fyrir hendi.
Varðandi lagarök fyrir varakröfu sinni vísar sóknaraðili til almennra reglna íslensks skaðabótaréttar, til skilyrða almennu skaðabótareglunnar svo til tilvitnaðra ákvæða vatnalaga nr. 15/1923. Þá er og vísað til laga nr. 91/1991 varðandi aðildarskort. Bæði í aðal- og varakröfu er gerð krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila. Krafan byggir á XXI. kafla laga um meðferð einkamála. Loks bendir sóknaraðili á að gagnsökin nái ekki til virðisaukaskattskyldrar starfsemi sóknaraðila og því verði að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Þrautavarakrafa sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að ekki sé unnt að leggja dómkröfur varnaraðila til grundvallar verði talið að hann eigi bótarétt á annað borð. Því verði að dæma lægri bætur að álitum. Varnaraðili beri sjálfur áhættuna af ýmsum þeim þáttum sem sannað er að hafa valdið nýrnaveikinni, svo sem mikil lífræn mengun í Miklavatni sem stafar af sjálfri eldisstarfseminni auk ýmissa annarra áhættuþátta.
Vararaðili hafi keypt stöðina seinnipart árs 1994. Nýrnaveiki hafi verið staðfest í stöðinni 7. júní það ár og tilkynnt Miklalaxi hf. með bréfi 13. júní 1994. Þannig hafi varnaraðila verið ljóst að fiskur sem þeir keyptu hafði smitast af nýrnaveiki. Þegar kaupin áttu sér stað hafi verið búið að hleypa úr lóninu vegna viðgerða á botnlokunni. Þannig gat varnaraðila ekki dulist sú áhætta sem fólgin var í kaupum á þessari eign. Jafnframt verði að benda á að fyrrverandi framkvæmdastjóri Miklalax hf. varð framkvæmdastjóri varnaraðila. Varnaraðili hafi auk þessa rekið áhættusaman rekstur við vatn og vatnsfall þar sem sóknaraðili hafði áratugum saman haft leyfi til reksturs vatnsaflsvirkjunar.
IV.
Niðurstaða.
Í þessum þætti málsins er einungis fjallað um framkomna frávísunarkröfu sóknaraðila á gagnkröfum varnaraðila. Að mati sóknaraðila er gagnkrafan svo óskýr að hún standist ekki kröfur einkamálalaga um skýran og glöggan málatilbúnað.
Dómkröfur varnaraðila í gagnsök eru einar og sér skýrar og glöggar enda er þar aðallega og til vara krafist skaðabóta og ákveðnar fjárhæðir nefndar í því sambandi en til þrautavara er krafist lægri bóta að mati dómsins. Hins vegar er grundvöllur krafnanna og útreikningur þess tjóns sem varnaraðili telur sig hafa orðið fyrir óljós. Í því sambandi má benda á að varnaraðili hefur engin gögn lagt fram sem sýna kostnað við byggingu sambærilegra mannvirkja og hann telur að hafi farið forgörðum. Ekki liggur fyrir hvort varnaraðili telur að unnt hefði verið að nýta einhverja hluti úr laxeldistöðinni í nýja stöð á öðrum stað. Þá liggur í raun heldur ekki fyrir hvaða mannvirki það voru sem varnar aðili vill fá bætt. Ekki er gerð nein tilraun til að greina á milli kostnaðar við uppbyggingu seiðaeldisstöðvar að Lambanesreykjum og framhaldseldisstöðvar að Hraunum. Þá liggja heldur ekki fyrir nein gögn sem sýna kostnað við eldi á laxfiski á þeim tíma sem mál þetta fjallar um, raunar liggur ekki fyrir neitt sem bendir til þess að laxeldi hafi verið arðvænlegt á þessum tíma hér á landi.
Hugsanlega hefði verið unnt að bæta úr þessum göllum með gögnum og matsgerðum. Að mati dómsins er hér um grundvöll málatilbúnaðar varnaraðila að ræða. Hér þarf að afla veigamikilla gagna og mun öflun þeirra taka mikinn tíma og því fellur hún að mati dómsins utan þeirra gagna sem eðlilegt er að aflað sé eftir að mál er höfðað sbr. 2. og 3. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála. Fallast má á með varnaaðila að sá mánaðarfrestur sem stefndi hefur til að höfða gagnsök í máli sé skammur þegar mál eru jafn veigamikil og hér um ræðir. Hins vegar liggur fyrir að þetta mál er ekki nýtilkomið en meint tjón varð á árunum 1994 og 1995 og því hefur varnaraðila gefist góður tími til að ákveða hvort hann vilji sækja rétt sinn og verður því ekki talið að þessi skammi frestur leiði til þess að varnaraðila teljist heimilt að setja kröfur sínar fram með þeim hætti sem hér var gert.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður krafa sóknaraðila í þessum þætti málsins tekin til greina.
Ákvörðun málskostnaðar bíður niðurstöðu í aðalsök.
Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ.
Krafa sóknaraðila, Rafmagnsveitna ríkisins, um að gagnsök varnaraðila, Norræna sjóeldisins hf. verði vísað frá dómi, er tekin til greina.
Ákvörðun málskostnaðar bíður niðurstöðu í aðalsök.