Hæstiréttur íslands

Mál nr. 803/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Súsanna Björg Fróðadóttir fulltrúi)
gegn
X (Hjalti Brynjar Árnason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. desember 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að vægari úrræðum verði beitt, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir sterkum grun um brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur 10 ára fangelsi. Þá er nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að varnaraðili gangi ekki laus meðan mál hans er til meðferðar. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2016.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að erlendum ríkisborgara, sem kveðst heita X, fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. desember 2016, kl. 16:00.

Krafan er reist á c. lið 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og eru meint brot kærða talin varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess aðallega að henni verði hafnað, til vara að beitt verði vægari úrræðum eins og vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun, og til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er.

I

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að verið sé að rannsaka rán sem framið var í Apóteki [...], 15. nóvember 2016, um kl. 18:47. Hafi maður komið inn í apótekið, ógnað starfsfólki með hnífi, krafist þess að fá lyf og peninga og yfirgefið apótekið þegar orðið hafði verið við kröfum hans. Brotið er talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fram kemur að lögreglan hafi þegar hafið eftirgrennslan eftir aðilanum samkvæmt lýsingu frá starfsfólki apóteksins. Við næsta hús brotavettvangs hafi á bílastæði fundist svartur trefill sem talin var hafa getað dottið af kærða. Hafi lögreglan leitað til annarra lögregluembætta og óskað eftir vitnum af atburðinum í fjölmiðlum. Lögregluembættið á Vesturlandi hafi sett sig í samband þar sem þeir höfðu haft afskipti af kærða þann 9. nóvember sl. en þar hafði kærði framið vopnað rán í Apóteki [...] og verið handtekin og úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfarið sbr. úrskurður nr. R-9/2016, til mánudagsins 14. nóvember og í farbann til 12. desember 2016. Þá hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu einnig haft samband þar sem þeir höfðu kærða grunaðan um samskonar rán í tveimur tilvikum.

Nánar segir í greinargerð að kærði sé bandarískur ríkisborgari og tali hann ekki íslensku. Að mati lögreglu eigi öll framangreind mál það sameiginlegt að vitni lýsa því að brotamaður hafi talað bandarísku. Í ljós hafi komið að í málinu á Vesturlandi hafi kærði verið í för með íslenskri stúlku sem hafi sagst vera kærasta hans og heiti A, kt. [...]. Hafi hún kynnst kærða á netinu og í kjölfarið hafi hann komið hingað til lands og hún ætlað að sýna honum landið. A hafi borið kennsl á kærða á myndbandsupptöku sem lögreglan Vesturlandi hafi borið undir hana.

Lögreglan fann kærða á heimili A í Hafnarfirði þar sem kærði. Var hann handtekinn, grunaður um rán. Lögreglan mun hafa yfirheyrt kærða í tvígang, þar sem kærði hafi neitað að tjá sig um það sem hann sé sakaður um og það sem kærði hafi tjáð sig um sé að mati lögreglu afar ótrúverðugt og í hrópandi ósamræmi við það sem önnur vitni segja. Að auki mun kærði hafa haft í hótunum við lögreglumenn sem tóku af honum framburðarskýrslu. A hafi einnig verið yfirheyrð vegna málsins tvisvar sinnum. Þegar föt sem hafi fundist ekki langt frá ránstaðnum hafi verið borin undir hana, hafi hún sagt þau vera föt kærða.

II

Lögregla segir að fyrir liggi nokkuð umfangsmiklar rannsóknaraðgerðir til að upplýsa nánar um framangreind atriði. Hafi þegar verið haft samband við löggæsluyfirvöld annar staðar á landinu vegna málsins. Þá vinni lögregla nú að því að rannsaka muni, þ.á.m. snjallsíma kærða. Þykir það sem fram hafi komið við rannsóknina fram til þessa eindregið benda til þess að kærði hafi verið að verki. Þá hafi komið fram upplýsingar um að kærði hafi verið eða sé haldinn fíkniefnafíkn og reynslan sýni að veruleg hætta sé á því að fólk í þeirri stöðu haldi áfram brotum á meðan málunum er ekki lokið.

Samkvæmt því sem að framan hafi verið rakið og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri fram kominn sterkan grun um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot á 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem við liggi allt að 16 ára fangelsi og telji lögreglustjóri að brot kærða muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu, verði hann fundinn sekur af slíku broti.

Að mati lögreglustjóra eru taldar yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda áfram brotastarfssemi fari hann frjáls ferða sinna og séu því uppfyllt skilyrði c. liðar 95. gr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Þá verði að telja kærða hættulegan umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Jafnframt myndi það særa réttarvitund almennings ef kærði yrði látinn laus. Telur lögreglustjóri að jafnframt séu uppfyllt ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til alls framangreinds, c. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telur lögreglustjóri m.a. almannahagsmunir standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. desember 2016.

III

Kærði kom til landsins þann 16. september sl. Fyrir liggur játning kærða um að hafa þann 9. nóvember sl. framið vopnað rán í Apóteki [...], þar sem hann rændi lyfjum. Kærði var látin laus úr gæslu vegna þess máls þann 14. nóvember sl. og settur í farbann. Þann 15. nóvember sl. var framið vopnað rán í Apóteki [...] þar sem meðal annars sömu tegund af lyfjum var rænt. Með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir, telst vera fram kominn rökstuddur grunur um aðild ákærða að ráninu í Apóteki [...].

Í gögnum lögreglu liggja einnig fyrir upplýsingar um tvö önnur vopnuð rán. Annars vegar í [...] við [...] í Kópavogi sem framið var þann 26. september sl. og hins vegar í [...], sem framið var þann 5. nóvember sl. Margt í þeim málum svipar til þeirra mála sem að framan greinir, meðal annars var sömu tegund lyfja rænt.

Í öllum framangreindum ránum var brotamaður með hníf. Hins vegar virðist ekki hafa af hlotist líkamstjón og brotamaður hafi ekki gert sig líklegan til þess að beita hnífnum eða sett fólk í augljósa hættu með háttsemi sinni.

Með vísan til framangreinds þykja ekki vera til staðar nægileg skilyrði þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Máli kærða vegna ránsins í Apóteki [...] er ólokið. Rökstuddur grunur er um aðild hans að ráni í Apóteki [...]. Þá er kærði samkvæmt framlögðum gögnum einnig grunaður um valdstjórnarbrot gegn lögreglumönnum á meðan hann sætti gæsluvarðhaldi.

Að mati dómsins eru fyrir hendi öll skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ekki lokið. Framangreind brot voru framin á mjög stuttu tímabili. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing sannist sök. Eins og öllum atvikum er háttað þykja hvorki vera efni til þess að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en krafist er, né að beita öðrum og vægari úrræðum svo sem um vistun á sjúkrahúsi, og er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X., skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. desember nk. kl. 16:00.