Hæstiréttur íslands

Mál nr. 95/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Sératkvæði


 

Mánudaginn 13. febrúar 2012.

Nr. 95/2012.

 

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Vitni. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu X um að A yrði gert að koma fyrir dóm að nýju, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að A yrði gert að koma fyrir dóm að nýju. Um kæruheimild vísar varnaraðili til f. og n. liða 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind krafa hans tekin til greina.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Varnaraðili hefur frá upphafi rannsóknar málsins neitað þeim sökum sem hann er borinn. Sönnunarfærsla gegn honum byggist á framburði sem dóttir hans gaf fyrir dómi 30. nóvember 2011 við upphaf rannsóknarinnar. Samkvæmt skýrslu B sálfræðings 17. janúar 2012, þar sem meðal annars er greint frá viðtölum sálfræðingsins við dóttur varnaraðila í desember 2011 og janúar 2012, kemur fram að stúlkan hafi í viðtali 28. desember sagst „ekkert vita hvort þetta hefði verið satt eða hvort þetta væri draumur.“ Í frásögn af viðtali 6. janúar segir svo í skýrslu sálfræðingsins: „A segist enn hugsa mikið um hvort þetta hefði gerst eða ekki og sagði að sig langaði bara til að segja satt. Sagðist hún halda að kannski hefði hún sagt vinum sínum þetta vegna þess að hún hefði ekki þorað að segja þeim frá Skype-samskiptunum af því að það hefðu verið konur. Áður hafði komið fram hjá A að hún teldi að konurnar sem hún talaði við á Skype gætu líka hafa verið karlmenn. Hún gæti ekki vitað það því konurnar hefðu aldrei sýnt sig í vefmyndavélinni.“ Sálfræðingurinn getur þess í samantekt og áliti í lok skýrslunnar að stúlkan hafi nefnt að „það gæti verið að þetta hefði ekki gerst heldur hefði hún verið að segja þetta út af konunum á Skypinu.“ Í upplýsingaskýrslu lögreglu 6. janúar 2012 kemur fram að rannsókn hafi verið gerð á tölvu stúlkunnar og samskipti hennar á Skype skoðuð. Í greinargerð um rannsóknina komi fram staðfesting á að stúlkan hafi átt í „kynferðissamskiptum“ við erlenda aðila á samskiptaforritinu Skype. Eru þar nefnd tvö dæmi um samskipti við konur í nóvember 2011. Í skýrslunni segir: „Samskiptin við báðar þessar konur eru af kynferðislegum toga þar sem þær biðja um að fá að sjá kynfæri A og skrifa um sjálfsfróun og virðast senda A myndir af sér þar sem þær eru að fróa sér og hvetja A til að prófa að fróa sér fyrir framan vefmyndavél.“

Hinn 6. janúar 2012 munu barnaverndaryfirvöld á [...] hafa tekið ákvörðun um að taka dótturina af heimili móður hennar og vista hana annars staðar meðan málið væri til meðferðar fyrir dómstólum. Tilefnið hafi verið áhyggjur ákæruvalds og lögreglu um að móðir stúlkunnar væri að reyna að hafa áhrif á framburð hennar og beitti hana þrýstingi. Í gögnum málsins kemur fram, án þess að þess sé getið í hinum kærða úrskurði, að dóttir varnaraðila hafi haft samband við móður sína 21. janúar 2012 á svonefndri fésbók á internetinu. Í útskrift af samtalinu kemur fram að stúlkan hafði orð á því að móðir hennar hafi ekki reynt að fá hana til að breyta frásögn sinni af hinum meintu sökum varnaraðila.

Sakargiftir á hendur varnaraðila byggja í raun eingöngu á framburði dóttur hans. Fyrir liggur að dóttirin hefur sjálf, eftir að hún gaf dómskýrslu sína við upphaf rannsóknar málsins 30. nóvember 2011, ítrekað látið í ljósi efasemdir um réttmæti sakargifta sinna á hendur varnaraðila. Eins og málið liggur nú fyrir er ljóst að framburður hennar þá hefur lítið sem ekkert sönnunargildi um sakargiftirnar á hendur varnaraðila. Allt að einu hefur hann krafist þess að tekin verði skýrsla af stúlkunni á ný á grundvelli undantekningarreglunnar í niðurlagi 2. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að brotaþoli skuli ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til. Vandséð er hvenær ríkari ástæða er til að kveðja brotaþola fyrir dóm á ný en í tilviki þar sem komnar eru fram skýrar vísbendingar um að fyrri framburður brotaþolans kunni að vera rangur og sakborningur sætir að auki gæsluvarðhaldi. Með því að andmæla kröfunni virðist sóknaraðili vilja að málið gangi til dóms án þess að kannað hafi verið svo vel sem unnt er hvort sönnunarfærslan sem hann byggir á geti skipt máli við úrlausn málsins. Þar sem varnaraðili hefur þrátt fyrir þessar aðstæður kosið að gera kröfu um skýrslutöku á ný, tel ég að ekki verði hjá því komist að verða við henni. Með því að synja kröfunni er varnaraðila að mínum dómi synjað um réttláta málsmeðferð fyrir dómi sem mælt er fyrir að hann skuli njóta meðal annars í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt þessu tel ég að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi og fallast á kröfu varnaraðila um að A komi fyrir dóm að nýju.

                                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. febrúar 2012.

Með ákæru útgefinni 5. janúar sl. höfðaði ríkissaksóknari sakamál fyrir Héraðsdómi Vesturlands á hendur X fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni A, talin framin á tímabili frá maí til júlí á síðasta ári.

Barnið sem fætt er [...] 2000 gaf skýrslu fyrir dómi um ætluð brot föður hennar í Barnahúsi hinn 30. nóvember sl.

Mál þetta var þingfest 17. janúar sl. og í þinghaldi 20. janúar sl. kom fram krafa frá verjanda um að brotaþoli gæfi skýrslu að nýju. Vísaði verjandi til þess að fram hefði komið hjá móður stúlkunnar að hana kynni að hafa dreymt atvik og jafnframt kæmi fram í skýrslu B sálfræðings að brotaþoli hefði haft við orð í samtali þeirra að hana kynni að hafa dreymt atvik. Saksóknari mótmælti kröfu þessari og af hálfu barnaverndaryfirvalda er því mótmælt að barnið gefi skýrslu fyrir dómi að nýju. Í þinghaldi 23. janúar færðu verjandi, saksóknari og réttargæslumaður brotaþola fram sjónarmið sín varðandi álitaefnið og var það að svo búnu tekið til úrskurðar.

I

Brotaþoli er nú 11 ára gömul og hefur þegar gefið skýrslu um atvik máls í samræmi við ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og ákæra verið gefin út m.a. á grundvelli þeirrar skýrslu. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði fer skýrslutaka fram fyrir dómi af brotaþola meðan á rannsókn stendur ef hún beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og hann hefur ekki náð 15 ára aldri þegar rannsókn máls hefst.

II

 Fram kemur í lögskýringargögnum að með ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála er að því stefnt, að börnum, sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðisbroti, verði hlíft við því, eftir því sem kostur er, að þurfa að gefa skýrslu í opinberu máli oftar en einu sinni. Er það markmið að hlífa börnum, eftir því sem unnt er, við því að þurfa að rifja oftar en einu sinni upp atburði sem oftast nær hafa valdið þeim miklum andlegum og jafnvel líkamlegum þjáningum.

Samkvæmt 111. gr. laga um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.

 Dómara er heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 59. og 106. gr. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.

 Brotaþoli hefur samkvæmt framansögðu þegar gefið skýrslu fyrir dómi um atvik máls að viðstöddum þáverandi verjanda ákærða. Framburður hennar er afdráttarlaus og þykja hugleiðingar móður hennar og frásögn sálfræðings um samtöl þeirra ekki vera sérstök ástæða til þess nú að brotaþoli komi fyrir dóm að nýju.

Samkvæmt þessu verður kröfu verjanda um að brotaþoli komi fyrir dóm að nýju hafnað.

Rétt er að taka fram að dómari sá er stjórnaði yfirheyrslu í Barnahúsi féllst á kröfu um að ákærði sæti gæsluvarðhaldi skv. 2. mgr. 95 gr. laga um meðferð sakamála með úrskurði sínum hinn 11. desember 2011 og 6. janúar 2012. Fer hann því ekki með mál þetta sbr. lokamálsgrein 6. gr. laganna.

                Allan V. Magnússon, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu verjanda ákærða X um að A komi fyrir dóm að nýju er hafnað.