Hæstiréttur íslands
Mál nr. 273/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Miðvikudaginn 7. júní 2006. |
|
Nr. 273/2006. |
K(Garðar Briem hrl.) gegn M (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna. Kæruheimild. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að við opinber skipti til fjárslita milli M og K vegna hjónaskilnaðar ætti SS rétt á að fá greidda tiltekna fjárhæð utan skipta samkvæmt 104. gr. hjúskaparlaga en að öðru leyti færi um fjárslitin eftir 103. gr. sömu laga. Kröfum SS um efnislega úrlausn dómkrafna sem vísað hafði verið frá dómi í hinum kærða úrskurði var vísað frá Hæstarétti. Þá var vísað frá héraðsdómi kröfu SGÓ um húsaleigu þar sem hún þótti ekki studd viðhlítandi gögnum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2006, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum varðandi opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að dæmt verði að við fjárslitin skuli beitt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en að öðru leyti verði hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað, sem varnaraðila verði gert að greiða henni í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 11. maí 2006. Hann krefst þess að dæmt verði að við fjárslit milli aðilanna skuli vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga á þann hátt að eignarhlutur hans í fasteigninni A verði aðallega talinn 80% á móti 20% eignarhlut varnaraðila og til vara 75% á móti 25%, en að því frágengnu að eignarhlutur hans verði talinn nema meira en helmingi í hlutföllum samkvæmt ákvörðun dómsins. Í öllum tilvikum verði þó litið svo á að „aðilar beri helmingsábyrgð hvort á áhvílandi lánum.“ Varnaraðili krefst þess einnig að sóknaraðila verði gert að endurgreiða sér „helming af mánaðarlegum afborgunum af áhvílandi íbúðarlánasjóðslánum á fasteigninni A frá 15. ágúst 2004 þar til uppgjör fer fram milli aðila, með dráttarvöxtum frá 14. nóvember 2005 til greiðsludags“, svo og „fasteignagjöld, gjöld vegna lögboðinna trygginga og húseigendatryggingar í þeim hlutföllum sem úrskurðað verður að skiptin skuli byggjast á, með dráttarvöxtum frá 14. nóvember 2005.“ Að auki krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér 130.000 krónur með dráttarvöxtum frá síðastnefndum degi. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Með hinum kærða úrskurði var vísað frá dómi framangreindum kröfum varnaraðila, sem lutu að öðru en því að við fjárslit aðilanna yrði vikið frá meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga að því er varðar fasteignina að A. Varnaraðili krefst þess ekki fyrir Hæstarétti að úrskurður héraðsdómara verði að þessu leyti felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka þessar kröfur til efnismeðferðar, heldur leitar varnaraðili nú dóms um þær að efni til. Með því að heimild brestur til málskots í slíku skyni verður þessum kröfum varnaraðila vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að sóknaraðili eigi við fjárslitin rétt á að fá greiddar utan skipta 7.687.722 krónur vegna fasteignar aðilanna að A, en að öðru leyti fari um fjárslitin eftir því, sem segir í 103. gr. hjúskaparlaga.
Í úrskurði héraðsdómara var fallist á með sóknaraðila að hún ætti tilkall til mánaðarlegrar greiðslu að fjárhæð 70.000 krónur úr hendi varnaraðila frá 1. október 2004 í húsaleigu vegna afnota hans af fyrrnefndri fasteign. Krafa sóknaraðila, sem að þessu lýtur, er ekki studd neinum viðhlítandi gögnum. Þegar af þeirri ástæðu verður henni vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest, en rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Vísað er frá Hæstarétti kröfum varnaraðila, M, um greiðslu úr hendi sóknaraðila, K.
Fellt er úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um að lagt skuli til grundvallar við fjárslit milli aðilanna að varnaraðili skuldi sóknaraðila 70.000 krónur fyrir hvern mánuð frá 1. október 2004 að telja og er kröfu sóknaraðila, sem að þessu lýtur, vísað frá héraðsdómi.
Að öðru leyti skal hinn kærði úrskurður vera óraskaður.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2006.
Málið var þingfest 23. september sl. og tekið til úrskurðar 20. mars sl.
Sóknaraðili er M, [kt.].
Varnaraðili er K [kt.].
Dómkröfur sóknaraðila eru að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1003 með vísan til 1. mgr. 104. gr. s.l. á þá leið að við skiptin verði miðað við að eignarhlutdeild sóknaraðila í fasteign aðila að A í Reykjavík, sé 80% á móti 20% eignarhluta varnaraðila en þó þannig að aðilar beri helmingsábyrgð hvort á áhvílandi lánum.
Til vara krefst sóknaraðili þess að við opinberu skiptin til fjárslita milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaganna með vísan til 1. mgr. 104. gr. s.l. á þá leið að við skiptin verði miðað við að eignarhlutdeild sóknaraðila í fasteign aðila að A í Reykjavík, sé 75% á móti 25% eignarhluta varnaraðila, en þó þannig að aðilar beri helmingsábyrgð hvort á áhvílandi lánum.
Til þrautarvara krefst sóknaraðili þess að við opinberu skiptin verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga með vísan til 1. mgr. 104. gr. s.l. í hlutföllum sem dómurinn ákveður en þó þannig að aðilar beri helmingsábyrgð hvort á áhvílandi lánum.
Þá krefst sóknaraðili þess í öllum tilvikum að varnaraðili endurgreiði sóknaraðila helming af mánaðarlegum afborgunum af áhvílandi íbúðarlánasjóðslánum á fasteigninni A, Reykjavík frá 15 ágúst 2004 þar til uppgjör fer fram milli aðila, með dráttarvöxtum frá 14. nóvember 2005 til greiðsludags. Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila fasteignagjöld, gjöld vegna lögboðinna trygginga og húseigendatryggingar í þeim hlutföllum sem úrskurðað verði að skiptin skuli byggjast á, með dráttarvöxtum frá 14. nóvember 2005. Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila 130.000 kr. með dráttarvöxtum frá 14. nóvember 2005 til greiðsludags.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Dómkröfur varnaraðila eru að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila um frávik frá helmingaskiptareglu. Varnaraðili krefst þess að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði fylgt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að varnaraðili fái helming úr skírri hjúskapareign aðila.
Varnaraðili krefst þess til vara að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði miðað við að eignarhlutdeild varnaraðila í eignum aðila verði aldrei meira en kr. 2.500.000 lægri en eignarhlutur sóknaraðila.
Þá krefst varnaraðili í öllum tilvikum þess jafnframt að hún verði sýknuð af öllum fjárkröfum sóknaraðila.
Þá krefst varnaraðili í öllum tilvikum leigugjalds að fjárhæð kr. 75.000 á mánuði frá samvistaslitum 15. ágúst 2004 og þar til uppgjör fer fram milli aðila, með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. september 2005 til greiðsludags.
Þá krefst varnaraðili að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila kr. 51.374 vegna skipulagsgjalds og greiddra skatta sóknaraðila.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I
Þegar aðilar hófu sambúð á árinu 1999 hafði sóknaraðili fest kaup á íbúð að B í Reykjavík af C sem er fyrirtæki í eigu fjölskyldu sóknaraðila. Aðilar fluttu í íbúðina í maí 2000. Kaupsamningur um íbúðina er dagsettur 10. þess mánaðar. Samkvæmt honum var kaupverð íbúðarinnar kr. 8.000.000 sem greiðist skyldi með útborgun kr. 2.500.000, þar af voru kr. 500.000 sagðar greiddar, kr. 1.500.000 skyldu greiðast með afsali á bifreiðinni D og kr. 500.000 við afhendingu íbúðarinnar. Óumdeilt er að sóknaraðili greiddi kr. 1.000.000 en varnaraðili heldur því fram að greiðslan í formi bifreiðarinnar hafi aldrei farið fram og að því leyti hafi verið um örlætisgerning að ræða af hálfu föður sóknaraðila. Kr. 5.500.000 skyldu greiðast með fasteignaveðbréfum og voru þau útgefin í mars og júlí 2000.
Í desember 2001 festu aðilar kaup á raðhúsinu að A tilbúnu undir tréverk af C og var sóknaraðili sagður kaupandi að 75% en varnaraðili 25%. Varnaraðili kveður sóknaraðila og föður hans hafa ákveðið hlutföllin en það hafi ávallt verið skilningur aðila að þau ættu húsið í jöfnum eignarhlutföllum. Kaupverð hússins, kr. 15.800.000, var fjármagnað með söluandvirði íbúðarinnar að B, kr. 7.687.722, og með húsbréfum Íbúðalánasjóðs að nafnvirði kr. 9.000.000. Þá heldur sóknaraðili því fram að andvirði bifreiðar hans E, kr. 1.200.00, hafi runnið til kaupanna en því mótmælir varnaraðili. Faðir varnaraðila lagði rafmagn í húsið og kveður varnaraðili þau hafa fengið lækkun á kaupverði sem því nam eða um kr. 1.931.208 þar sem rafmagn hafi átt að fylgja húsinu. Þau hafi því eftir kaupin átt inneign hjá C að fjárhæð kr. 2.818.930 sem hafi átt að ganga upp í efniskaup og framkvæmdir. C annaðist smíði allra innréttinga og tréverks hússins, svo og frágang á lóð og stétt utanhúss. Þá sá C um kaup á efnum og tækjum í eldhús og bað. Heldur sóknaraðili því fram að C hafi ekki gefið út reikninga vegna þessa þar sem foreldrar hans hafi litið svo á um lán væri að ræða til hans sem kæmi til endurgreiðslu síðar. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að við sambúðarslitin hafi eignin verið fullkláruð og öll efniskaup og skuldir greiddar. Öll lánsviðskipti milli C og aðila hafi frá upphafi verið gefin upp á skattframtali aðila, sem móðir sóknaraðila og annar eigandi C hafi gert, og að um aðrar lánveitingar hafi ekki verið að ræða. Fyrir liggur að á skattframtali 2004 er skuldin aðila við C sögð kr. 750.000. Varnaraðili kveður aðila þessu til viðbótar hafa lagt fram sameiginlegt fé og eigin vinnu til að fullklára eignina á sem hagkvæmastan máta, auk þess sem þau hafi fengið aðstoð vina og vandamanna og keypt efni með verulegum afsláttarkjörum. Fyrir liggur að í júnímánuði 2002 greiddu aðilar kr. 1.107.000 vegna framkvæmdanna af sameiginlegu sparifé. Aðilar fluttu í raðhúsið haustið 2002 og í nóvember sama ár fæddist þeim sonur. Í júlímánuði árið 2003 gengu aðilar í hjónaband en slitu samvistum ári síðar þ.e. um mánaðamótin júlí/ágúst 2004. Hinn 27. september s.á. sótti sóknaraðili um skilnað að borði og sæng. Ágreiningur reis um fjárskipti aðila og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 28. janúar 2005, var ákveðið að opinber skipti skyldu fara fram til fjárslita milli þeirra. Á skiptafundi kom upp ágreiningur um heildarskiptingu á eignum málsaðila. Skiptastjóri lagði til að við skipti á eignum málsaðila yrði vikið frá helmingaskiptareglunni og að hrein eign fasteignarinnar A skiptist þannig að í hlut mannsins komi 65% og í hlut konunnar 35%.
Sóknaraðili féllst ekki á sáttatillögu þessa og var því með vísan til 112. gr. sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum málinu beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar.
II
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að helmingaskipti í samræmi við 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 séu honum bersýnilega ósanngjörn í skilningi 1. mgr. 104. gr. s.l. Hann hafi átt eignina að B er sambúð aðila hófst og hafi söluandvirði hennar, þ.e. kr. 7.687.722, runnið til kaupa á raðhúsinu að A sem hafi verið keypt á kr. 15.800.000. Framlag varnaraðila við kaup á raðhúsinu, sem sé sú eign sem komi til skipta við fjárslit aðila, hafi verið helmingur í Íbúðalánasjóðsláni að fjárhæð kr. 4.500.000:
Maðurinn Konan
Húsbréf 9.000.000 4.500.000 4.500.000
Söluandvirði B 7.687.722 7.687.722
Bifreiðin E 1.200.000 1.200.000
Kaupverð A 17.887.722 13.387.722 4.500.000
Eignarhlutföll 75% 25%
Í samræmi við framangreinda sundurliðun hafi eignarheimild aðila á þinglýstu afsali A verið tilgreint 75% hlutur sóknaraðila á móti 25% hlut varnaraðila. Afföll af húsbréfum hafi numið kr. 845.199 en fjárhæð umfram kaupsamningsverðið hafi verið ráðstafað til C sem hafi séð um að fullgera húsið. Byggir sóknaraðili á að C hafi lagt í eignina kr. 6.431.367 sem ekki hafi verið gefnir út reikningar fyrir þar sem sóknaraðili hafi ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða C enda aðilar báðir með lágmarkstekjur á þessum tíma. Ekki hafi verið um örlætisgerning að ræða heldur lán til sóknaraðila. Sé skuldin tilgreind í bókhaldi C sem hluti af verkbirgðum. Aðilar hafi greitt til C kr. 1.107.000 en þá fjárhæð hafi þau átt á sameiginlegum sparireikningi á nafni varnaraðila. Stofnkostnaður eignarinnar hafi þannig verið kr. 25.426.089.
Í ljósi framangreinds verði að líta svo á að sóknaraðili hafi flutt verulega miklu meiri eignir í búið en varnaraðili við hjúskaparstofnun í skilningi 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga. Að teknu tilliti til kostnaðar við að gera húsið fullbúið samkvæmt framangreindu hafi heildarframlög sóknaraðila við það numið kr. 20.372.589 eða 80% og varnaraðila kr. 5.053.500 eða 20%. Hafi stofnkostnaður þessi verið orðinn til við hjúskaparstofnun aðila árið 2003 og sóknaraðili þannig lagt verulega meira með sér inn í búið en varnaraðili. Því sé bersýnilega ósanngjarnt að byggja fjárskipti aðila, sem einungis hafi verið 12 mánuði í hjúskap, á helmingaskiptareglunni en í þessu sambandi eigi ekki að líta til sambúðartíma aðila á undan hjúskapnum. Þá beri einnig að líta til þess að verðmæti eignarinnar hafi aukist verulega við það að ljúka byggingu hennar og að sú verðmætaaukning hafi að langmestu leyti orðið vegna vinnu C Því beri að miða fjárframlög aðila við stofnkostnað eignarinnar, en ekki þinglýsta eignarheimild, og skipta eigninni á milli aðila þannig að sóknaraðili fái í sinn hlut 80% en varnaraðili 20% en þó þannig að aðilar beri sameiginlega að jöfnu ábyrgð á áhvílandi íbúðalánasjóðsláni.
Sóknaraðili byggir varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og að framan eru rakin um að víkja beri frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga þannig að við skiptingu eignarinnar verði miðað við þinglýst eignarhlutföll en ekki helmingaskiptareglu. Varnaraðili hafi ekki fært sönnur fyrir því að eignarheimild hennar nemi hærra hlutfalli en þinglýst eignarheimild segi til um og það væri því bersýnilega ósanngjarnt að eignin lyti ákvæðum hjúskaparlaga um helmingaskipti. Við skiptingu verði við það miðað að aðilar beri sameiginlega og að jöfnu ábyrgð á áhvílandi íbúðalánasjóðsláni.
Þrautarvarakröfu byggir sóknaraðili á sömu sjónarmiðum um að helmingaskipti yrðu honum bersýnilega ósanngjörn.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að varnaraðili endurgreiði honum helming afborgana af áhvílandi íbúðalánasjóðslánum á að hlutdeild varnaraðila í eignamyndun í fasteigninni byggi að öllu leyti á helmingshlutdeild hennar í láninu. Sóknaraðili hafi frá sambúðarslitum einn greitt mánaðarlegar afborganir af því og samtals nemi helmingur þessara afborgana nú um það bil kr. 360.000.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að varnaraðili endurgreiði honum fasteignagjöld, lögboðnar tryggingar og húseigendatryggingu á að eðlilegt sé að varnaraðili taki þátt í þeim kostnaði í samræmi við skiptahlutföll en hann hafi einn greitt þessi gjöld frá sambúðarslitum.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að varnaraðili endurgreiði honum kr. 130.000 á því að sú upphæð sé helmingur fjárhæðar sem varnaraðili hafi fjarlægt af reikningi sem hafi verið sameiginlegur sparnaðarreikningi þeirra þótt hann hafi verið á nafni varnaraðila.
III
Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því að helmingaskiptaregla 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sé meginregla um fjárskipti milli hjóna og allar undantekningar frá þeirri reglu beri að túlka þröngt. Varnaraðili mótmæli því að fjárskipti milli aðilanna yrðu bersýnilega ósanngjörn ef beitt yrði helmingaskiptareglu, en slík ósanngirni sé skilyrði þess að unnt sé að beita 104. gr. laganna. Varnaraðili byggir á því að önnur skipti en helmingaskipti yrðu hins vegar bersýnilega ósanngjörn. Sóknaraðili hafi lagt fram kr. 1.000.000 til kaupa á íbúðinni að B en kr. 1.500.000 sem greiðast hafi átt með bifreið hafi aldrei verið greiddar. Að öðru leyti hafi fasteignin verið keypt fyrir lánsfé sem tekið var á sambúðartíma aðila. Eignamyndun í fasteigninni hafi eingöngu orðið vegna hækkana á fasteignamarkaði en þegar hún hafi verið seld hafi áhvílandi skuldir hækkað um kr. 612.278. Varnaraðili hafi lagt til búsins bifreið sem seld hafi verið um það leyti sem aðilar fluttu í íbúðina. Þá hafi varnaraðili lagt fram töluvert innbú. Byggir varnaraðili á því að hún hafi ásamt sóknaraðila komið að því að fullklára íbúðina sem skyldi vera heimili þeirra beggja. Allt frá upphafi sambúðar hafi aðilar greitt sameiginlega af lánum íbúðarinnar og allar tekjur varnaraðila hafi runnið til sameiginlegra útgjalda. Þannig hafi strax myndast fjárhagsleg samstaða með aðilum.
Byggir varnaraðili á því að sú staðreynd að sóknaraðili hafi átt fyrir óverulega útborgun í íbúð dugi ekki ein og sér til að víkja megi frá meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti enda hafi hún einnig komið með peninga og innbú til stofnunar sameiginlegs heimilis. Útborgunarfjárhæðin kr. 1.000.000 eða kr. 2.500.000 eins og hún átti að vera samkvæmt kaupsamningi sé óveruleg fjárhæð þegar nettóeign aðila sé metin um það bil kr. 40.000.000. Önnur skipti en helmingaskipti yrðu bersýnilega ósanngjörn enda helmingaskiptareglan í samræmi við skilning aðila um að þau væru að fjárfesta í fasteignunum í sameiningu.
Varnaraðili byggir á að hún hafi tekið þátt í þeirri eignamyndun sem varð í fasteigninni að B. Hún hafi strax frá upphafi tekið fullan þátt í að greiða af áhvílandi skuldum á íbúðinni sem hafi numið 70% af virði hennar og að hún hafi lagt fram ríkari skerf en sóknaraðili. Aðilar hafi litið á íbúðina að B sem sameign þeirra beggja, hafi stofnað sérstakan reikning til að borga sameiginlega af henni og talið hana fram á sameiginlegu skattframtali. Því væri bersýnilega ósanngjarnt að sóknaraðili ætti einn að njóta verðhækkunarinnar.
Við kaupin á A hafi aðilar báðir farið í greiðslumat vegna lántöku hjá íbúðalánasjóði og báðir lagt fram sparifé, launatekjur og vinnuframlag við að fullklára eignina. Þegar aðilar giftu sig hafi ekki verið rætt um gerð kaupmála enda töldu aðilar sig eiga fasteignina sameiginlega. Varnaraðili byggir á að sönnunarbyrðin fyrir því að skilyrðum 104. gr. hjúskaparlaga sé fullnægt hvíli alfarið á sóknaraðila.
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi sett bifreiðina D upp í kaupin á A. Sú bifreið hafi verið seld á árinu 2001 eins og fram komi á skattframtali og keyptar tvær bifreiðar í staðinn.
Varnaraðili byggir á að aðilar hafi sjálfir greitt fyrir efni, tæki og annað sem þurfti til að fullgera fasteignina með sparifé, launatekjum og vinnuframlagi. Aðilar hafi hins vegar nýtt sér afsláttarkjör sem C hafði og sem að ættingjar gátu útvegað.
Varnaraðili fullyrðir að eftir að kaupin á A hafi aðilar alfarið séð um að ljúka við hana og heldur því fram að öll fjármál milli þeirra og C hafi verið á hreinu. Báðir aðilar hafi unnið við fasteignina. Eldhús- og baðinnrétting hafi verið keypt af C en sóknaraðili hafi unnið í henni sumarið 2003 og 2004 og varnaraðili unnið í [...] í eigu foreldra sóknaraðila í 2 mánuði. Engin laun hafi verið greidd fyrir þá vinnu heldur hafi verið samkomulag um að vinnuframlagið væri fyrir innréttingunum. Parket, hurðir, flísar, málning, eldhústæki o.fl. hafi aðilar keypt sjálf og greitt strax fyrir en vegna verulegs afsláttar sem C njóti hafi viðskiptin farið þar í gegn. Vinna við loftin hafi hins vegar verið gjöf frá foreldrum sóknaraðila til barna sinna og tengdabarna.
Byggir varnaraðili á að C hafi ekki með sannanlegum hætti sýnt fram á skuld aðila við félagið umfram þá skuld sem tilgreind hafi verið á skattframtali aðilanna frá árinu 2002 og sem greidd hafi verið niður hratt og örugglega og hafi við skilnað aðilanna staðið í kr. 750.000.
Varakröfu sín byggir varnaraðili á sömu málsástæðum. Verði helmingaskipi hins vegar talin bersýnilega ósanngjörn byggir varnaraðili á að einungis sé hægt að horfa á að framlag sóknaraðila umfram varnaraðila hafi í mesta lagi verið kr. 2.500.000. Telur varnaraðili að nauðsynlegt sé að meta hlut hennar í þeirri eignamyndun sem orðið hafi á sambúðartímanum bæði hlutdeild hennar í afborgunum og rekstri fasteignarinnar að B, hlut hennar í verðhækkun þeirrar fasteignar á sambúðartímanum sem og fjárframlög og vinnuframlag til fasteignarinnar að A. Byggir varnaraðili á að henni beri jafn hlutur í þeirri verðhækkun sem orðið hafi á fasteignamarkaði og að meta verði vinnu á heimili m.a. við umönnun barns til jafns við vinnuframlag við framkvæmdir við fasteignina. Þrátt fyrir skamman hjúskap hafi allt frá upphafi sambúðartímans verið sameiginlegt fjárfélag með aðilum og til þess verði að horfa sbr. Hrd. 41/2005.
Kröfu sína um að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða henni kr. 75.000 á húsaleigu á mánuði byggir varnaraðili á því að henni hafi verið gert að hverfa á brott af fasteign aðilanna. Sé óeðlilegt annað en að varnaraðili greiði leigugjald fyrir full afnot fasteignarinnar en kr. 150.000 í leigu fyrir húsið verði að telja hóflegt leigugjald.
IV
Málsaðilar, sem hófu sambúð á árinu 1999, gengu í hjónaband í júlí 2003 og skildu ári síðar. Er í máli þessu til úrlausnar hvort fullnægt sé skilyrðum 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 til að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. laganna við skipti á búi þeirra.
Áður en aðilar hófu sambúð á árinu 1999 hafði sóknaraðili fest kaup á íbúð að B í Reykjavík fullbúinni án gólfefna fyrir kr. 8.000.000. Aðilar fluttu í íbúðina í maí árið 2000. Ljóst er af gögnum málsins að tiltölulega snemma á sambúðartíma aðila hafi fjárhagur þeirra orðið mjög samtvinnaður. Íbúðin að B var seld í nóvember 2001. Þykir varnaraðila ekki hafa tekist að sanna að hún hafi á þessum stutta tíma látið slík framlög af hendi að hún hafi eignast hlutdeild í íbúðinni.
Í desember 2001 festu aðilar saman kaup á raðhúsinu að A, tilbúnu undir tréverk og var sóknaraðili kaupandi að 75% en varnaraðili að 25%. Var húsið keypt af C sem er fyrirtæki í eigu fjölskyldu sóknaraðila. Kaupverðið var kr. 15.800.000 og var það greitt með söluandvirði íbúðarinnar að B, kr. 7.687.722.-, og með húsbréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði að nafnvirði kr. 9.000.000. Þá heldur sóknaraðili því fram að bifreið hans, E, kr. 1.200.000, hafi runnið til kaupanna. Varnaraðili mótmælir því og er sú fullyrðing sóknaraðila ósönnuð. Varnaraðili heldur því fram að til frádráttar kaupverðinu hafi komið kr. 1.931.208 vegna rafmagns sem faðir hennar sá um að leggja í húsið, þar sem raflögn hafi átt að vera innifalin í verði þess, og þannig hafi myndast inneign hjá C að fjárhæð kr. 2.818.930. Þessu mótmælir sóknaraðili. Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili og faðir hans hafi ákveðið í hvaða hlutföllum aðilar væru þinglesnir eigendur eignarinnar án samráðs við sig. Milli hennar og sóknaraðila hafi ávallt ríkt sá skilningur að þau ættu fasteignina í jöfnum hlutföllum en því hafnar sóknaraðili.
Það er mat dómsins að það að sóknaraðili var kaupandi að 75% eignarinnar en varnaraðili 25% styðji mjög eindregið að það hafi verið sameiginlegur skilningur aðila að varnaraðili hafi ekki eignast hlutdeild í íbúðinni að B og byggist á að framlag varnaraðila til kaupa á A hafi einungis verið í formi helmings lánsins eða kr. 4.500.000.
Fyrir liggur að aðilar, sem óumdeilt er að höfðu sameiginlegan fjárhag, réðu yfir nokkru sparifé auk þess að hafa launatekjur, réðust þegar í að fullgera húsið. Ágreiningslaust er að C annaðist smíði allra innréttinga og tréverks í húsið og frágang utanhúss. Auk þess annaðist C kaup á efnum og tækjum í eldhús og bað. Heldur sóknaraðili því fram að C hafi lagt til eignarinnar kr. 6.431.367 og hafi verið um að ræða lán til sóknaraðila sem sé ógreitt. Varnaraðili neitar því hins vegar að skuld sé til staðar og kveður aðila hafa greitt C allan kostnað við að fullgera húsið svo og efni og tæki með sparifé sínu, aflafé og vinnuframlagi. Bendir varnaraðili á að samkvæmt skattframtali aðila 2004 sé skuldin tilgreind 750.000. Vinnu við loft hússins kveður varnaraðili hafa verið gjöf frá foreldrum sóknaraðila. Úr því hvort til staðar sé skuld við C vegna framkvæmda við húsið og þá hver verður ekki leyst í máli þessu enda ekki við gögn að styðjast sem byggt verður á. Fyrir liggur hins vegar að C hefur falið lögfræðistofu að innheimta helming upphæðarinnar eða kr. 3.21.684 hjá varnaraðila á grundvelli reiknings útgefins 23.11.2005.
Þá er ágreiningslaust að faðir varnaraðila lagði rafmagn í húsið og samkvæmt yfirliti frá F var kostnaður vegna þess samtals kr. 1.931.208. Heldur varnaraðili því fram að ekki hafi verið greitt fyrir vinnu föður hennar heldur hafi aðilar eins og áður greinir fengið lækkun á kaupverði hússins sem nemur þeirri upphæð. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að verðmæti rafmagnsvinnu föður varnaraðila sé til muna minna og að fyrir hana hafi verið greitt. Úr ágreiningi aðila hvað þetta varðar verður heldur ekki leyst í máli þessu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Að öðru leyti en að ofan greinir er ekki ágreiningur milli aðila sem neinu þykir nema um það hvernig staðið var að því að fullgera húsið. Það er því niðurstaða dómsins að hvað sem ágreiningi þessum líður að ekki sé við annað að styðjast en að framlög aðila við að standsetja húsið hafi verið sambærileg enda liggur og fyrir að fjárhagur þeirra var sameiginlegur. Aðilar þykja því hafa átt jafnan þátt í þeirri verðmætaaukningu sem það hafði í för með sér burtséð frá því hvort einhverjar skuldir vegna framkvæmdanna kunni að vera ógreiddar.
Aðilar fluttu í húsið nær fullbúið haustið 2002 og eignuðust barn í nóvember mánuði það ár. Í júlímánuði 2003 gengu aðilar síðan í hjónaband sem lauk eins og áður greinir ári síðar. Þegar aðilar gengu í hjónaband fluttu þau með sér í búið nánast fullbúna fasteignina A sem þau höfðu keypt, eins og áður greinir, tilbúna undir tréverk í desember 2001 fyrir kr. 15.800.000. Fasteignin er aðaleign búsins við hjúskaparslitin og sú eign sem ágreiningur er um hvernig beri að skipta.
Samkvæmt 104. gr. laga nr. 31/1993 er það forsenda fyrir fráviki frá helmingaskiptareglu að skiptin yrðu bersýnilega ósanngjörn að öðrum kosti fyrir annað hjóna. Þau tilvik sem taka á tillit til þegar sanngirnismælikvarði er á lagður er fjárhagur hjóna og lengd hjúskapar. Einnig ber að hafa hliðsjón af því að annað hjóna kann að hafa flutt í búið við hjúskaparstofnun verðmæti sem eru verulega miklu meiri en þau er frá hinu stafa eða hafi síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum.
Hjúskapur aðila stóð eins og áður greinir í 1 ár og var því skammvinnur í skilningi 104. gr. hjúskaparlaga. Ekki liggur fyrir hvert verðmæti A var við stofnun hjúskapar aðila en fyrir liggur að húsið sem aðilar höfðu keypt tilbúið undir tréverk var þá nánast fullbúið. Ljóst er því að verðmæti þess jókst ekki að ráði fyrir tilverknað aðila meðan hjúskapur þeirra stóð. Fyrir liggur hins vegar að sóknaraðili lagði til kaupa á húsinu umfram varnaraðila kr. 7.687.722 og átti sú fjárhæð rætur að rekja til hreinnar eignar sóknaraðila í íbúðinni að B og nam allri útborgun aðila í A. Þykir því mega við það miða að sóknaraðili hafi flutt sem þeirri upphæð nemur meira í búið við hjúskaparstofnun en varnaraðili, en eins og áður greinir er það mat dómsins að leggja verði til grundvallar að framlag aðila til að fullgera húsið hafi verið jafnt. Þykja því vera fyrir hendi skilyrði 104. gr. hjúskaparlaga til að sóknaraðili fái utan skipta við fjárslit milli sín og varnaraðila þá fjárhæð eða kr. 7.687.722. Að öðru leyti skal fara um fjárskipti aðila samkvæmt því sem segir í 103. gr. laganna.
Sóknaraðili gerir kröfu um að varnaraðili verði dæmdur til að endurgreiða honum helming af afborgunum af áhvílandi íbúðalánasjóðslánum frá sambúðarslitum eða u.þ.b. kr. 360.000. Mál þetta er borið undir dóminn sem ágreiningsmál vegna opinberra skipta til fjárslita á milli hjóna. Verða fjárkröfur ekki dæmdar í slíku máli án tillits til eignaskiptingar þeirra sem er markmið hinna opinberu skipta og ekki umfram það sem eignir hvors um sig hrökkva til að standa undir kröfum hins. Að þessu gættu verður að skilja kröfugerð sóknaraðila þannig að við opinber skipti milli hans og varnaraðila verði tekið tillit til þeirra greiðslna sem að framan greinir honum til hagsbóta. Samkvæmt meginreglu einkamálaréttarfars þarf kröfugerð að vera svo ákveðin og ljós að unnt sé að taka hana upp sem dómsniðurstöðu í máli. Kröfugerð sóknaraðila uppfyllir ekki þetta skilyrði og er því í andstöðu við d. lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Verður því ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi.
Krafa sóknaraðila um að varnaraðili endurgreiði honum fasteignagjöld, lögboðnar tryggingar og húseigendatryggingu er haldin sama annmarka og verður einnig vísað frá dómi.
Fyrir liggur að varnaraðili tók kr. 260.000 út af sameiginlegum reikningi aðila í ágúst 2004 eða áður en sóknaraðili fór fram á skilnað en það er það tímamark sem miða ber við varðandi það á hverjum tíma eignir eða skuldbindingar þurfi að hafa verið til staðar til að tillit verði tekið til þeirra við opinberu skiptin samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt því verður að hafna kröfu sóknaraðila um að við skiptin verði tekið tillit til þess að varnaraðili skuldi sóknaraðila 130.000 krónur.
Krafa varnaraðila um að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða henni kr. 51.374 vegna skipulagsgjalds og greiddra skatta sóknaraðila er vanreifuð og verður henni vísað frá dómi.
Fyrir liggur að sóknaraðili hefur búið í húsi aðila eftir að sambúð þeirra var slitið í ágúst mánuði 2004. Verður ekki hjá því komist að gera honum að greiða varnaraðila nokkurt endurgjald fyrir afnotin. Ósannað verður að telja hvað sé hæfileg leiga fyrir húsið. Að álitum þykir rétt að sóknaraðili greiði 70.000 krónur á mánuði til skiptaloka en rétt þykir að upphaf leigugreiðslna miðist við 1. október 2004, en fyrir liggur að sýslumaður tók fyrir kröfu sóknaraðila um skilnað að borði og sæng þann 27. september þ.á. Dráttarvextir dæmast ekki.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, á sóknaraðili rétt á að fá greiddar utan skipta 7.687.722 krónur. Að öðru leyti fer um fjárslitin samkvæmt því sem segir í 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Kröfu sóknaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila verði lagt til grundvallar að varnaraðili skuldi sóknaraðila um það bil 360.000 krónur er vísað frá dómi.
Kröfu sóknaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila verði lagt til grundvallar að varnaraðili skuldi sóknaraðila fasteignagjöld, lögboðnar tryggingar og húseigendatryggingu er vísað frá dómi.
Kröfu sóknaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila verði lagt til grundvallar að varnaraðili skuldi sóknaraðila 130.000 krónur er hafnað.
Kröfu varnaraðila um að við opinber skipti til fjárslita á milli hennar og sóknaraðila verði lagt til grundvallar að sóknaraðili skuldi henni 51.374 krónur er vísað frá dómi.
Við opinber skipti til fjárslita milli varnaraðila og sóknaraðila skal leggja til grundvallar að sóknaraðili skuldi varnaraðila að fjárhæð 70.000 krónur á mánuði frá og með 1. október 2004.
Málskostnaður fellur niður.