Hæstiréttur íslands
Mál nr. 158/2015
Lykilorð
- Niðurfelling máls
- Afleiðusamningur
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2016. |
|
Nr. 158/2015.
|
Eignarhaldsfélag RS ehf. (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) gegn SPB hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Niðurfelling máls. Afleiðusamningur. Málsástæða.
S hf. höfðaði mál á hendur E ehf. til heimtu greiðslu samkvæmt nánar tilgreindum afleiðusamningi aðila frá árinu 2007. Þremur vikum fyrir munnlegum málflutningi í Hæstarétti tilkynnti E ehf. að hann hefði ákveðið að falla frá áfrýjun málsins og var þess farið á leit að málið yrði fellt niður. Nokkrum dögum síðar tilkynnti E ehf. að hann félli frá afturköllun málsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sökum þess að málið hafði ekki verið tekið fyrir á dómþingi um niðurfellingu þess og ákvörðun málskostnaðar yrði ekki talið að fyrri yfirlýsing E ehf. hefði fortakslaust leitt til þess að málið hefði átt að falla niður. Ekki var talið að lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti ættu við í málinu enda hefði hinn umþrætti samningur verið gerður fyrir gildistöku þeirra. Þá var ekki fallist á með E ehf. að S hf. hefði sýnt af sér tómlæti í málinu og þannig misst rétt sinn samkvæmt samningnum. Loks var talið að málsástæða E ehf. um umboðsskort starfsmanns S hf. við gerð samningsins hefði komið of seint fram við meðferð þess, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt framansögðu var E ehf. gert að greiða S hf. hina umkröfðu fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2015. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega að málið verði fellt niður en til vara staðfestingar héraðsdóms. Þá kefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var þingfest hér fyrir dómi 15. apríl 2015. Skilaði stefndi greinargerð sinni innan frests sem honum var veittur samkvæmt 1. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í samræmi við 1. mgr. og 1. málslið 3. mgr. 161. gr. laganna var málið sett á dagskrá réttarins til munnlegs flutnings á dómþingi 7. janúar 2016. Með bréfi 17. desember 2015 sendi lögmaður áfrýjanda réttinum tilkynningu um að fyrirsvarsmenn áfrýjanda hefðu ákveðið að falla frá áfrýjun málsins og var þess farið á leit að málið yrði fellt niður. Með tilkynningu réttarins 21. sama mánaðar var stefnda veittur frestur til 4. janúar 2016 til að lýsa afstöðu um hvort haldið yrði við málskostnaðarkröfu hans fyrir Hæstarétti. Hinn 22. desember 2015 sendi tilgreindur lögmaður yfirlýsingu fyrir hönd áfrýjanda um að fallið hefði verið frá afturköllun málsins. Var sú yfirlýsing staðfest með bréfi lögmanns áfrýjanda sama dag. Málið var tekið fyrir á dómþingi Hæstaréttar í samræmi við dagskrá þar sem fram fór munnlegur málflutningur. Sökum þess að málið hafði ekki verið tekið fyrir á dómþingi um niðurfellingu þess og ákvörðun málskostnaðar verður ekki talið að yfirlýsing áfrýjanda 17. desember 2015 hafi fortakslaust leitt til þess að málið hafi átt að falla niður.
Fallist er á með héraðsdómi að telja beri þá málsástæðu áfrýjanda er lýtur að umboðsskorti starfsmanns stefnda við gerð samnings þess sem um ræðir í málinu hafa komið of seint fram við meðferð þess, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Við úrlausn málsins er einnig til þess að líta að með bréfi 19. júní 2009 krafði stefndi áfrýjanda um greiðslu skulda við sig samkvæmt tveimur samningum og var annar þeirra framangreindur samningur. Var áfrýjanda þar veittur tiltekinn frestur til greiðslu að viðlagðri málsókn. Jafnframt kom fram það álit stefnda að áfrýjanda væri skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu vegna ákvæða 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og lýsti stefndi sig reiðubúinn til að ábyrgjast greiðslu skiptakostnaðar. Bréfi þessu svaraði áfrýjandi 2. júlí sama ár þar sem hann hafnaði kröfum stefnda og sagði þær ekki myndu fást greiddar fyrr en að undangengnum dómi. Að þessu gættu verður einnig staðfest niðurstaða héraðsdóms með vísan til forsendna um þau efnisatriði málsins sem til endurskoðunar eru hér fyrir dómi.
Samkvæmt framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Eignarhaldsfélag RS ehf., greiði stefnda, SPB hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 25. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af SPB hf., Borgartúni 25, Reykjavík, á hendur Eignarhaldsfélagi RS ehf., Klapparstíg 29, Reykjavík, með stefnu birtri 19. júní 2012.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 471.144.265 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk álags á málskostnaðinn.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Hinn 24. ágúst 2007 undirritaði Sveinn Biering Jónsson, fyrirsvarsmaður stefnda, almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá Icebank hf.
Hinn 5. október 2007 undirrituðu stefnandi og Pétur Árni Jónsson skiptasamning þann er mál þetta varðar.
Hinn 6. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að stöðva tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga útgefna af Exista hf. o.fl. aðila.
Hinn 10. október 2008 sendi stefnandi stefnda tölvuskeyti, en þar segir að vegna mikils verðfalls á markaðsvirði viðmiðunarbréfa sé fyrirsjáanlegt að mati stefnanda að mikið tap verði af samningnum fyrir stefnda. Því sé stefnda gefinn frestur til dagsloka, til að veita frekari tryggingar að fjárhæð 686.190.610 kr. Verði ekki orðið við veðkallinu innan framangreinds frests verði samningnum lokað.
Stefndi svaraði og óskaði eftir fundi mánudaginn 13. október 2008. Umræddur fundur átti sér stað og kveður stefnandi að aðilar hafi rætt möguleika stefnda á að leggja fram frekari tryggingar.
Hinn 22. október 2008 sendi stefnandi stefnda annað tölvuskeyti þar sem framangreint var endurtekið en krafist var hærri fjárhæðar til tryggingar.
Stefndi svaraði ekki tölvuskeytinu. Stefnandi kveðst hafa gjaldfellt skiptasamninginn hinn 23. október, en stefndi kveður að sér hafi aldrei verið tilkynnt um slíka gjaldfellingu. Hinn 3. nóvember gekk stefnandi að tryggingum sem stefndi hafði sett stefnanda að allsherjarveði vegna viðskipta sinna við stefnanda almennt.
Hinn 19. júní 2009 barst stefnda innheimtubréf vegna krafna stefnanda á hendur stefnda. Í bréfi stefnda til stefnanda hinn 2. júlí 2009 kvaðst stefndi ekki viðurkenna réttmæti þeirra krafna er lægju tilvísuðum innheimtumálum til grundvallar. Höfðaði stefnandi síðan mál þetta tæpum þremur árum seinna.
II
Stefnandi kveður mál þetta risið vegna afleiðuviðskipta stefnda. Samkvæmt 2. gr. samþykkta stefnda sé tilgangur hans „kaup og sala hlutabréfa og annarra verðbréfa, svo og annar skyldur rekstur“. Stefndi hafi verið umsvifamikill fjárfestir á alþjóðlegum og innlendum fjármálamörkuðum á þeim tíma er hann átti afleiðuviðskipti við stefnanda. Virðist stefndi m.a. hafa átt í umfangsmiklum afleiðuviðskiptum við ýmsa banka, þar með talið stefnda. Stefnandi kveður að umsvif stefnda hafi verið umfram viðmið samkvæmt b-lið 9. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti á því tímabili sem afleiðuviðskipti aðila áttu sér stað.
Hinn 5. október 2007 gerðu stefnandi og stefndi skiptasamning um skuldabréf sem ber auðkennið TRS 20090820-518. Um sé að ræða skiptasamning (e. swap), sem sé ein tegund afleiðusamninga, sbr. d-lið 1. tl. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.
Tilgangur samningsins komi fram undir liðnum efni samnings. Þar segir: „Með samningi þessum tekur viðskiptamaður á sig áhættu vegna verðlækkunar og greiðslufalls af viðmiðunarbréfum og gjaldþrots útgefanda viðmiðunarbréfa gegn greiðslu bankans á hækkun sem kann að hafa orðið á verðmæti viðmiðunarbréfa frá fyrsta vaxtadegi til gjalddaga. Í staðinn greiðir viðskiptamaður bankanum vexti af viðmiðunarfjárhæð fram að gjalddaga samnings.“
Stefnandi telur að stefnda hafi frá upphafi verið ljóst, annars vegar að gagnaðili samningsins væri stefnandi og hins vegar að hann bæri alla áhættu (eigandaáhættu) af viðmiðunarbréfunum og væri sú áhætta ekki takmörkuð við að hagnaður eða tap væri innan ákveðinna marka eða að útgefandi skuldabréfanna héldi áfram rekstri.
Viðmiðunarbréf afleiðusamningsins var skuldabréf að nafnverði 700.000.000 króna í skuldabréfaflokknum EXISTA 07 2, sem gefinn var út af Exista hf. Gengi bréfanna í samningnum var 101,0590. Um var að ræða „óhreint“ gengi, það er að gengið endurspeglaði nafnverð að viðbættum áföllnum vöxtum. Af þessu leiddi að viðmiðunarfjárhæð samningsins var á fyrsta vaxtadegi, sem jafnframt er samningsdagur, 5. október 2007, 707.413.000 krónur.
Stefnandi kveður samninginn fela í sér tvenns konar skipti. Annars vegar skiptast aðilar á áhættu af viðmiðunarbréfum og hins vegar á vaxtagreiðslum. Lokadagur (gjalddagi) var 29. maí 2009. Báðum aðilum samningsins var heimilt að loka samningnum fyrir gjalddaga. Samningnum var lokað hinn 23. október 2008.
Stefnandi heldur því fram að með undirritun samningsins staðfesti stefndi að hann hefði kynnt sér eðli afleiðusamninga og notið ráðgjafar sérfræðinga utan stefnanda áður en hann undirritaði samninginn. Áður, eða hinn 24. ágúst 2007, hafði framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi stefnda, Sveinn Biering Jónsson, samþykkt almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda fyrir hönd stefnda. Þá voru tryggingar lagðar fram af hálfu stefnda.
Samkvæmt samningnum bar stefnda að greiða vexti af viðmiðunarfjárhæð, svo sem nánar greinir í stefnu. Í hnotskurn fólu viðskipti aðila í sér að stefndi hefði tekið eigandaáhættu af viðmiðunarbréfunum gegn greiðslu frá stefnanda sem nam 0,5% af ársvöxtum ofan á viðmiðunarfjárhæð. Með því að bera áhættuna af bréfunum gat stefndi annað hvort hagnast eða tapað.
Hinn 23. október 2008 gjaldfelldi stefnandi samning aðila. Við það stofnaðist krafa að fjárhæð 700.000.000 króna sem auðkennd sé sem lán nr. 1757 í bókun stefnanda. Stefnandi taldi virði viðmiðunarbréfa á lokunardegi vera 7.413.000 krónur.
Stefnandi kveður stefnda aldrei hafa gert athugasemdir við útreikninga stefnanda um virði viðmiðunarbréfa á gjaldfellingardegi, 23. október 2008. Til frádráttar koma tryggingar sem stefndi setti samkvæmt veðsamningi. Dráttarvaxtakrafa stefnanda miðast við lokadag samnings stefnanda og stefnda, 23. október 2008.
III
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að skiptasamningur sá er mál þetta varðar sé ógildur þar sem hann hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu að lögum til þess að stefnandi hafi mátt eiga við hann slík afleiðuviðskipti.
Stefndi heldur því fram að gerð þess skiptasamnings sem mál þetta varðar falli ótvírætt undir ákvæði 16. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og mögulega einnig 15. gr. sömu laga. Réttilega skýrð til samræmis við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið feli bæði ákvæðin það í sér að hann hafi við gerð samninganna ekki uppfyllt nauðsynleg skilyrði þess að fjármálafyrirtæki mætti gera við hann afleiðuviðskipti. Stefnandi hafi ekki framkvæmt neitt mat á hæfi (15. gr.) eða tilhlýðileika (16. gr.), enda ekki fengið frá honum neinar upplýsingar af þeim toga sem gert sé ráð fyrir í ákvæðunum. Þrátt fyrir það hafi stefnandi átt umrædd viðskipti við stefnda, án þess að vara hann við því að hann hefði ekki upplýsingar til að geta metið hvort reynsla hans, þekking, o.s.frv. væru þess eðlis að hann skildi áhættuna sem tengdist umræddum viðskiptum, hvað þá að hann hafnaði því að eiga viðskiptin. Stefndi hafi aldrei verið flokkaður af stefnda skv. fyrirmælum 1. mgr. 21. gr. laga um fjármálafyrirtæki og taldist því almennur fjárfestir og naut ýtrustu fjárfestaverndar. Þannig hafi stefnandi engu mátt slá föstu um hæfi eða tilhlýðileika án þess að framkvæma sérstakt mat í tengslum við fyrirhuguð viðskipti. Hann hefði þá í það minnsta þurft að afla sér skriflegrar staðfestingar frá stefnda á því að stefndi hefði ekki getað framkvæmt lögboðið mat og að hann ætlaði engu að síður að eiga viðskiptin.
Stefndi heldur því fram að samkvæmt íslenskum samningarétti sé samningur við aðila, sem að lögum sé ekki hæfur til að standa að slíkum löggerningi, ógildur frá upphafi. Þannig hátti til hvað hann varðar og gerð þeirra skiptasamninga sem mál þetta varðar. Meginregla laga um verðbréfaviðskipti sé sú að fjármálafyrirtæki megi ekki veita fjárfestum ráðgjöf eða eiga við þá afleiðuviðskipti af þeim toga sem skiptasamningarnir séu, nema þeim sem þau hafi metið með lögmæltum hætti. Einnig þurfa þeir fjárfestar annað hvort að hafa staðist það mat með tilliti til ráðgjafarinnar eða viðskiptanna eða hafa skriflega staðfest að þeir vilji eiga viðskiptin þrátt fyrir að vera upplýstir um að þeir hafi ekki staðist slíkt mat, eða verið upplýstir um að fjármálafyrirtæki hafi ófullnægjandi upplýsingar til að láta það fara fram. Þannig varði það engu að engin ógildingarákvæði sé að finna í lögum um verðbréfaviðskipti, skiptasamningarnir séu ógildir á grundvelli hins almenna samningaréttar. Slík skýring á verðbréfaviðskiptalögunum samræmist þeirri meginreglu Evrópuréttar og EES réttar að einstaklingur eða lögaðili sem njóta eigi verndar ESB/EES reglna, skuli eiga áhrifarík réttarúrræði til að ná rétti sínum ef brotið er gegn þeim reglum.
Fallist dómurinn ekki á ofangreina málsástæðu, telur stefndi í öðru lagi að tómlæti stefnanda um að halda fram stefnukröfu sinni sé með slíkum ólíkindum að útilokað sé að halda því fram að hann geti nú krafið stefnda um greiðslu hennar. Hvorki hafi heyrst hósti né stuna frá stefnanda varðandi kröfuna í meira en þrjú ár, eða frá 19. júní 2009, og stefndi hafi fyrir löngu mátt ætla að stefnandi teldi sig ekki eiga frekari kröfur á hendur honum eða tekið ákvörðun um að falla frá slíkum kröfum. Breyti engu að í máli þessu hafi verið lögð fram tvö dómskjöl sem stefndi hafi aldrei fengið og kannast ekkert við, það er að segja nr. 20 sem sé staða láns 1757 og dskj. nr. 21. Síðarnefnda skjalið virðist vera greiðslukvittun vegna þeirra trygginga sem stefnandi hafi leyst til sín hinn 3. nóvember 2009 samkvæmt því sem þar komi fram. Jafnvel þó svo stefndi hefði móttekið umrædda kvittun hefði það ekki minnkað tómlæti stefnanda svo neinu nemi, enda hefði skeytingarleysi hans um að halda fram kröfu sinni engu að síður náð yfir meira en tvö og hálft ár. Fyrrnefnda skjalið beri yfirskriftina „staða láns“ og sé þess eðlis að jafnvel þó svo stefndi hefði fengið það í hendur, þá hefði það enga þýðingu getað haft, enda sé þar enga tilvísun að finna í það að um sé að ræða skuld vegna þess skiptasamnings er mál þetta varðar. Þvert á móti verði ekki annað ráðið af skjalinu en að þar sé um að ræða yfirlit vegna einhvers konar lánsviðskipta.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því að starfsmaður stefnanda, Ólafur Bjarki Ágústson, hafi ekki haft heimild til að undirrita samninginn 5. október 2007, fyrir hönd stefnanda. Umboðsskortur hans leiði til þess að samningurinn sé markleysa.
IV
Svo sem að framan greinir var mál þetta höfðað 19. júní 2012. Stefndi skilaði greinargerð sinni 18. október sama ár. Í kjölfarið fékk dómari málsins því úthlutað. Í greinargerð stefnda er byggt á því að starfsmaður stefnda, Pétur Árni Jónsson, hafi ekki haft heimild til að skuldabinda stefnda með undirritun sinni á hinn umdeilda samning. Stefnandi höfðaði í kjölfarið sakaukamál á hendur Pétri Árna Jónssyni sem var sameinað máli þessu. Í greinargerð sakaukastefnda, dags.12. apríl 2013, kemur fram að ekkert liggi fyrir í málinu um umboð Ólafs Bjarka Ágústssonar til að undirrita samninginn fyrir hönd stefnanda. Lögmaður sakaukastefnda skoraði hinn 20. júní 2013 á stefnanda að upplýsa um umboð Ólafs Bjarka til undirritunar samningsins. Í fyrirtöku 1. október 2013 skorar stefndi málsins fyrst á stefnanda að leggja fram gildandi undirskriftarreglur stefnanda og var sú áskorun ítrekuð í þinghaldi 16. desember 2013. Jafnframt áskildi stefndi sér þá rétt til að hafa uppi málsástæðu um að starfsmaður sá er undirritaði hinn umþrætta samning fyrir hönd stefnanda hafi ekki haft til þess heimild og samningurinn sé því markleysa. Í næsta þinghaldi á eftir mótmælti stefnandi boðaðri nýrri málsástæðu sem of seint fram kominni.
Nokkrum dögum fyrir aðalmeðferð málsins tilkynnti stefndi að hann félli frá þeirri málsástæðu að sakaukastefndi, Pétur Árni Jónsson, hefði ekki haft heimild til að undirrita hinn umþrætta samning. Í kjölfarið féll því stefnandi frá öllum kröfum á hendur sakaukastefnda. Eftir stóðu varnir stefnda samkvæmt greinargerð byggðar á 15. og 16. gr. laga um verðbréfaviðskipti, tómlæti stefnanda, sem og hin nýja málsástæða um ætlaðan umboðsskort starfsmanns stefnanda, Ólafs Bjarka, til undirritunar samningsins.
Samkvæmt samþykktum stefnda málsins er tilgangur félagins að kaupa og selja hlutabréf og önnur verðbréf svo og skyldur rekstur. Fyrir liggur að stefndi var umsvifamikill fjárfestir, bæði hérlendis og erlendis. Ótvírætt er að stefndi gerði sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í viðskiptum þeim sem um er fjallað í máli þessu, bæði vegna reynslu sinnar, sem og að fyrirsvarsmaður stefnda undirritaði hinn 22. júní 2007 almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda. Í 11. gr. skilmálanna kemur fram að honum væri ljóst að markaðsviðskipti gætu verið sérstaklega áhættusöm. Í umræddri grein er einnig skorað á stefnda að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga, telji hann hennar þörf.
Stefndi heldur því fram að gerð þess samnings sem mál þetta varðar, falli undir ákvæði 16. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og mögulega einnig 15. gr. sömu laga. Lög nr. 108/2007 um verðbréfviðskipti tóku gildi 1. nóvember 2007. Hins vegar var hinn umdeildi samningur gerður 5. október 2007 eða fyrir gildistöku laganna. Verður niðurstaða málsins því ekki byggð á nefndum lögum.
Þá byggir stefndi í greinargerð sinni á því, að samningur við aðila, sem að lögum sé ekki hæfur til að standa að slíkum löggerningi, sé ógildur frá upphafi samkvæmt íslenskum samningarétti. Stefndi telur ekki skipta máli þótt engin ógildingarákvæði sé að finna í lögum um verðbréfaviðskipti. Skiptasamningar séu ógildir á grundvelli hins almenna samningaréttar. Svo sem að framan greinir hafði stefndi víðtæka reynslu og þekkingu á verðbréfaviðskiptum og er ekki á það fallist að hann hafi ekki verið hæfur til að standa að samningi þeim sem gerður var, en ekki er reifað af hálfu stefnda á hvaða reglum íslensks samningaréttar sé byggt.
Í annan stað byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fallin niður sökum tómlætis stefnanda. Stefnandi sendi stefnda innheimtubréf hinn 19. júní 2009. Stefndi hafnaði greiðsluskyldu í bréfi hinn 2. júlí 2009 og tilkynnti að hann myndi ekki greiða kröfuna nema farið yrði fyrir dómstóla. Dómsmál þetta var síðan höfðað 19. júní 2012, eða rétt tæpum þremur árum síðar en þá var krafa stefnanda ekki fyrnd. Með þessum drætti telst stefnandi ekki hafa sýnt af sér tómlæti í málinu er varði því að hann missi rétt sinn samkvæmt kröfunni.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því að samningurinn sé markleysa, þar sem Ólafur Bjarki Ágústsson, starfsmaður stefnanda, hafi ekki haft umboð til að undirrita skiptasamninginn fyrir hönd stefnanda. Svo sem að framan greinir lætur stefndi bóka í þinghaldi 16. desember 2013 að hann áskilji sér rétt til að hafa uppi þessa málsástæðu. Stefnandi mótmælti fyrirhugaðri málsástæðu sem of seint fram kominni í næsta þinghaldi á eftir. Ekki skiptir máli hvort málsástæðan hafi komið fram 16. desember 2013 eða í næsta þinghaldi á eftir. Búið var að taka málið oft fyrir fram að þeim tíma. Með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála er málsástæða þessi of seint fram komin. Haldlaust er að halda því fram að stefndi geti losnað undan greiðsluskyldu sinni vegna ætlaðs umboðsskorts starfsmanns stefnanda en umræddur starfsmaður hafði undirritað fleiri samninga milli málsaðila sem stefnandi hafði efnt og ekkert benti til annars í samskiptum málsaðila en að stefndi hafi talið samninginn í fullu gildi hvað þetta varðar er hann skilaði greinargerð sinni.
Niðurstaða málsins er því sú að kröfur stefnanda eru teknar til greina svo sem í dómsorði greinir. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sem og b-liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda 1.800.000 kr. í málskostnað.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Eignarhaldsfélag RS ehf., greiði stefnanda, SPB hf., 471.144.265 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2008 til greiðsludags og 1.800.000 kr. í málskostnað.