Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                       

Föstudaginn 18. febrúar 2000.

Nr. 55/2000.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir settur saksóknari)

gegn

Davíð Garðarssyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann. b.liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

D var gert að sæta farbanni þar til dómur gengi í máli hans, en hann var grunaður um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2000, sem barst réttinum 14. sama mánaðar ásamt kærumálsgögnum. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2000, þar sem varnaraðila var bönnuð för úr landi allt til miðvikudagsins 12. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Hann krefst og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði staðfest.

Ákæra hefur verið gefin út á hendur varnaraðila fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hann hefur dvalist erlendis og verið dæmdur þar fyrir fíkniefnabrot. Hefur meðferð máls hans tafist af þessum sökum. Eru skilyrði 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Verður hin kærða ákvörðun staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 1999

 

Ár 1999, fimmtudaginn 10. febrúar, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ragnheiði Bragadóttur héraðsdómara.

 

Fyrir er tekið:

Mál nr. R-53/2000:

Krafa ríkissaksóknara um að

Davíð Garðarssyni

verði gert að sæta áfram farbanni

 

[...]

 

Dómarinn tekur nú svofellda

 

Á K V Ö R Ð U N :

Dómarinn tilkynnir ákærða, Davíð Garðarssyni, að samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga, sé honum bönnuð för úr landi.  Bann þetta stendur allt þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 12. apríl nk. kl. 16:00.