Hæstiréttur íslands

Mál nr. 101/2009


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Tilkynning
  • Sakarskipting


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. október 2009. 

Nr. 101/2009.

Birgir Kristjánsson

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

gegn

Síldarvinnslunni hf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Tilkynning. Sakarskipting.

B krafði S hf. um bætur vegna slyss sem hann hafði orðið fyrir við vinnu sína er hann féll af röraverkpalli í eigu S hf. með þeim afleiðingum að hann hælbrotnaði illa á hægra fæti. Hafði B verið að vinna í húsnæði S hf. í Helguvík hjá undirverktakanum E ehf. Deilt var um atvik að slysinu, m.a. um hæð vinnupallsins þegar B féll af honum. Talið var að annmarki hefði verið á tilkynningu til Vinnueftirlits ríkisins sem olli því að eftirlitið skoðaði ekki vettvang slyssins fyrr en þremur mánuðum síðar. Bæri S hf. ábyrgð á þessu í lögskiptum málsaðila og leiddi þetta til þess að sönnunarbyrði um umdeild atvik og bótaskylda var lögð á S hf. B var látinn bera þriðjung tjóns síns sjálfur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. mars 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.132.472. krónur með 4,5% ársvöxtum frá 5 mars 2004 til 14. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Málsaðilar deila um atvik að slysi áfrýjanda 16. september 2003. Þar skiptir mestu máli ágreiningur um hversu hátt frá gólfi vinnupallurinn stóð þegar áfrýjandi féll af honum og slasaðist. Vinnupallurinn var af þeirri gerð að unnt var að setja plötuna sem á var staðið í tvær mismunandi hæðir, 1,14 og um 2,10 metra frá gólfi. Fulltrúi frá Vinnueftirliti ríkisins kom á staðinn 17. desember 2003, um þremur mánuðum eftir slysið, og skoðaði pallinn. Í skýrslu hans segir meðal annars svo: „Við skoðun reyndist pallurinn vera venjulegur röraverkpallur af viðurkenndri gerð og var ekki hægt að finna að uppsetningu hans utan það að hnélista vantaði á pallinn. Gólf vinnupallsins var við skoðun í hæðinni 1,14 metrar ... Miðað við þessa hæð gólfsins var ekkert athugavert við pallinn utan skorts á hnélista. Ef gólfflöturinn hefði hins vegar verið í hæstu mögulegu stillingu sem er um 2,10 metrar, ... þá vantar hæðarframlengingu á allar stoðir pallsins og fallvarnir á stoðirnar bæði handrið og hnélista. Miðað við það misræmi sem er í lýsingum aðila er ógjörningur að kveða upp úr með orsakir slyssins þar sem pallurinn uppfyllir kröfur í lægri staðsetningu en uppfyllir þær ekki í hærri staðsetningu.“

Áfrýjandi hefur haldið því fram að hann hafi verið að vinna við að mæla fyrir festingum fyrir sleða á vegg hússins en sleðar þessir hafi verið ætlaðir fyrir rafkapla. Hafi sleðarnir átt að koma svo hátt á vegginn að ekki hefði verið unnt að gera mælinguna af pallinum í neðri stöðu. Megi af þessu draga þá ályktun að pallurinn hafi verið í efri stöðunni þegar áfrýjandi féll af honum.

Stefndi hefur á hinn bóginn talið að pallurinn hafi verið í neðri stöðunni. Byggir hann þetta á framburði starfsmanna, sem nánari grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Hann telur að áfrýjandi hafi verið að vinna við mælingu á skástífum á járnbita sem hafi verið í 1,7 til 2,5 metra hæð á veggnum. Bendi það til þess að pallurinn sem áfrýjandi stóð á við verkið hafi verið í neðri stöðunni.

Atvik að slysinu eru að ýmsu öðru leyti óljós og umdeild. Aðila greinir meðal annars á um hvar áfrýjandi féll af pallinum, hvort það hafi verið við gafl hans eða langhlið, en þetta getur skipt máli við mat á orsökum slyssins.

II

Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að stefndi hafi vanrækt skyldu sem á honum hafi hvílt til að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Hafi þetta valdið því að vinnueftirlitið hafi ekki skoðað vettvang slyssins fyrr en svo löngu seinna að enga þýðingu hafi til upplýsingar um þau atvik að slysinu sem aðila greini á um. Af þessari ástæðu beri að leggja sönnunarbyrði á stefnda um staðhæfingar sínar um tjónsatvikið, einkum um hæðarstillingu pallsins þegar slysið varð.

Stefndi hefur bent á að áfrýjandi hafi verið starfsmaður Eldafls ehf. en það fyrirtæki hafi tekið að sér verk í húsinu þar sem slysið varð. Kveðst stefndi hafa samdægurs talað við fyrirsvarsmann hjá Eldafli ehf., sem hafi strax haft samband við Vinnueftirlit ríkisins. Í fyrstu hafi verið talið að meiðsli áfrýjanda hafi verið minni háttar og sé það skýringin á að eftirlitið hafi ekki farið á vettvang fyrr en um þremur mánuðum eftir slysið. Geti stefndi ekki borið ábyrgð á þeirri ákvörðun.

Áfrýjandi fór sjálfur til lögreglunnar í Keflavík og gaf þar skýrslu um slysið 30. september 2003. Í bréfi sem Vinnueftirlit ríkisins ritaði lögreglunni 16. október 2003 í tilefni rannsóknar hennar segir meðal annars að slysið hafi verið tilkynnt símleiðis til umdæmisstjóra eftirlitsins. Miðað við fyrstu lýsingu hafi ekki þótt ástæða til vettvangsrannsóknar. Fær þetta stoð í framburði vitna sem voru á staðnum þegar slysið varð.

Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um skyldu vinnuveitanda til að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins. Eins og þar kemur fram er þessi skylda tengd við alvarleika slyss. Af gögnum málsins er ljóst að fyrirsvarsmönnum stefnda var í síðasta lagi daginn eftir slysið orðið ljóst að áfrýjandi hafði slasast svo alvarlega að tilkynningarskylda var vafalaus. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 46/1980 skulu atvinnurekendur, þar sem fleiri eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað, sameiginlega stuðla að því að tryggja „góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum.“ Verður þetta túlkað á þann veg að skyldan til að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt 79. gr. laganna hvíli sjálfstætt á hverjum atvinnurekendanna fyrir sig þegar svona stendur á. Þessari skyldu var ekki sinnt á fullnægjandi hátt og hefur það leitt til þess að málsatvik eru óljós og umdeild eins og fyrr var vikið að. Verður áhættan af þessu í lögskiptum málsaðila lögð á stefnda og hann látinn bera sönnunarbyrði um staðhæfingar sínar um þau atvik sem um er deilt. Verður ekki fallist á að honum hafi tekist sú sönnun. Leiðir þetta til þess að leggja verður staðhæfingar áfrýjanda um þessi efni til grundvallar dómi, einkum um að vinnupallurinn hafi, þegar áfrýjandi féll af honum, verið í efri stöðunni

III

Stefndi var eigandi vinnupallsins sem áfrýjandi féll af og lagði honum pallinn til í því skyni að hann notaði hann við störf sín í húsnæði stefnda. Ber hann því skaðabótaábyrgð á tjóni sem áfrýjandi varð fyrir og rekja má til ófullnægjandi búnaðar pallsins. Verður með vísan til fyrrgreindrar umsagnar Vinnueftirlits ríkisins og fyrirliggjandi upplýsinga í öðrum gögnum málsins fallist á með áfrýjanda að slys hans verði rakið til þess að vinnupallurinn hafi verið vanbúinn þegar unnið var á honum í efstu stöðu. Verður því fallist á með áfrýjanda að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans.

Áfrýjandi var menntaður vélstjóri með langa starfsreynslu sem alment hlýtur að hafa verið til þess fallin að auðvelda honum að meta hættu við notkun vinnupallsins. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 bar honum, ef hann varð var við ágalla eða vanbúnað á pallinum miðað við stöðu pallsins sem leitt gátu til skerts öryggis við framkvæmd verksins, að tilkynna það vinnuveitanda. Þessari skyldu sinnti hann ekki heldur notaði pallinn þrátt fyrir að fyrrgreindur vanbúnaður hans hljóti að hafa verið áfrýjanda ljós. Auk þess gætti hann sýnilega ekki fullrar varúðar við vinnu sína á pallinum þannig að hann féll féll út af honum og niður á þak stjórnstöðvarinnar. Verður hann að þessum sökum látinn bera þriðjung tjóns síns sjálfur.

IV

Áfrýjandi krefst skaða- og miskabóta að fjárhæð 2.132.472 krónur og kemur sundurliðun kröfunnar fram í hinum áfrýjaða dómi. Krafa áfrýjanda um bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 1.976.025 krónur er miðuð við meðalvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksár fyrir slysið. Stefndi mótmælir þessari viðmiðun á þeirri forsendu að þetta séu sjómannstekjur. Áfrýjandi hafi verið hættur sjómannsstörfum og hafið störf í landi. Beri því að miða við þau laun sem áfrýjandi hafi sannanlega átt kost á að afla sér á nýjum starfsvettvangi. Í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er kveðið á um launaviðmiðun sem miða beri við þegar örorkubætur eru metnar. Eru þær hinar sömu og áfrýjandi notar við kröfugerð sína. Mótmælum stefnda um þetta verður því hafnað. Áfrýjandi miðar kröfu sína við álitsgerð örorkunefndar 14. júlí 2007, sem gefin var í samræmi við 10. gr. skaðabótalaga. Stefndi hefur mótmælt niðurstöðu álitsgerðar þessarar sem of hárri. Hann hefur hins vegar ekki leitast við að hnekkja henni með dómkvaðningu matsmanna eða á annan hátt. Eru þessi mótmæli því haldlaus. Loks mótmælir stefndi upphafsdegi dráttarvaxta í kröfu áfrýjanda og telur að ekki eigi að dæma dráttarvexti frá fyrri degi en dómsuppsögudegi. Áfrýjandi krefst dráttarvaxta frá 14. júlí 2007 en þann dag var liðinn einn mánuður frá því örorkunefnd skilaði álitsgerð sinni. Í málinu er ekki að finna gögn sem sýna að áfrýjandi hafi gert kröfu sína með ákveðinni fjárhæð fyrr en við birtingu stefnu til héraðsdóms 5. mars 2008. Þykir með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 rétt að miða við þann dag í þessu efni. Fyrir Hæstarétti eru ekki frekari andmæli uppi af hálfu stefnda við fjárhæð kröfu áfrýjanda en hér voru greind. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 2/3 hluta kröfu hans eða 1.421.648 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Þá verður stefndi einnig með vísan til 130. gr., sbr. 166 gr.,  laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Stefndi, Síldarvinnslan hf., greiði áfrýjanda, Birgi Kristjánssyni, 1.421.648 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 5. mars 2004 til 5. mars 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. nóvember 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Birgi Kristjánssyni, kt. 000000-0000, Faxabraut 24, Reykjanesbæ, gegn Síldarvinnslunni hf., kt. 000000-0000, Hafnarbraut 6, Fjarðabyggð, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 000000-0000, Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu sem birt var 5. mars 2008.

Dómkröfur stefnanda eru að stefnda, Síldarvinnslunni hf., verði gert að greiða stefnanda, Birgi Kristjánssyni, 2.132.472 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af sömu fjárhæð frá 5. mars 2004 til 14. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins úr hendi stefnda, Síldarvinnslunni hf., eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.  Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verið lækkaður verulega.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

Stefnandi lýsti málavöxtum á þann veg að hann væri vélstjóri að mennt og hefði starfað alla sína starfsævi á fiskveiðiskipum, allt fram í júní 2003 en þá hætt á sjó.  Í ágúst sama ár hefði hann hafið störf hjá verktakafyrirtækinu Eldafli ehf.  Hinn 16. september sama ár hefði hann ásamt öðrum starfsmanni Eldafls ehf. verið við vinnu í húsnæði stefnda í Helguvík, en Eldafl ehf. hefði verið undirverktaki stefnda við byggingu á þessu húsnæði.  Síðdegis þennan dag hefði hann, á röraverkpalli í eigu stefnda, verið að mæla fyrir stífum vegna lagningar á rafkappa yfir þak hússins.  Pallurinn hefði verið í efstu stillingu eða í rúmlega tveggja metra hæð frá jörðu.  Við vinnu sína hefði honum orðið það á að stíga aftur fyrir sig út af öðrum enda pallsins þannig að hann féll niður af honum og lenti illa með þeim afleiðingum að hann hælbrotnaði illa á hægra fæti.  Hann hefði verið fluttur í sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og síðan á Landspítala háskólasjúkrahús í Fossvogi til frekari meðhöndlunar.

Þá sagði að stefndi hefði ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins um slysið.  Verkstjóri Eldafls ehf. hefði hins vegar samdægurs tilkynnt Vinnueftirlitinu um slysið, en af einhverjum ástæðum greint svo frá, að ekkert hefði verið athugavert við rörverkpallinn og að stefnandi hefði virst vera lítið meiddur.  Vinnueftirlitið hafi þess vegna ekki talið þörf á því að fara á vettvang til rannsóknar.  Lögreglan hefði heldur ekki verið kvödd á vettvang.

Greint var frá því að rannsókn hefði farið fram á aðstæðum og orsökum slyss stefnanda í húsnæði stefnda, hinn 17. desember 2003, að beiðni stefnanda.  Hefði hann sérstaklega óskað eftir rannsókn vegna þess að hann og verkstjóra stefnda greindi á um í hvaða hæð vinnupallurinn hefði verið er slysið varð.  Stefnandi taldi að pallurinn hefði verið í hæstu stillingu, eða rétt liðlega í tveggja metra hæð, en verkstjórinn kvað pallinn aðeins hafa verið í metra til metra og tíu sentímetra hæð.  Viðstaddir rannsóknina hefðu verið Jóhannes Kristbjörnsson lögreglumaður, Grétar Þorleifsson starfsmaður Vinnueftirlitsins og Eggert Ólafur Einarsson stöðvarstjóri stefnda í Helguvík.

Tekið var fram að í ódagsettri skýrslu Vinnueftirlitsins að pallurinn hefði verið venjulegur rörverkpallur.  Gólf pallsins hefði við skoðun verið í neðstu stillingu sem væri 1,14 metri, en Eggert Ólafur Einarsson hefði sagt að þannig hefði gólf pallsins verið stillt þegar slysið varð.  Og þar sem óvíst var um hæð pallsins á slysdegi hefði Grétar Þorleifsson, umdæmisstjóri Vinnueftirlitsins, ekki séð sér fært að kveða á um orsakir slyssins.  Eina athugsemd Vinnueftirlitsins hefði verið að hnélista vantaði á pallinn.

Af hálfu stefnda var málsatvikum lýst á þann veg að stefnandi hefði, hinn 16. september 2003, fallið niður af vinnupalli í húsnæði stefnda í Helguvík í Reykjanesbæ.  Pallurinn hefði verið staðsettur ofan á stjórnstöð álsmiðju sem þar var verið að reisa.  Við fallið hefði stefnandi brotnað á hælbeini.  Stefnandi væri vélstjóri að mennt og hefði á slysdegi starfað hjá verktakafyrirtækinu Eldafli ehf., en stefndi hefði leitað til félagsins til að taka að sér einstaka þætti við byggingu hins nýja húsnæðis.  Yfirmaður Eldafls ehf. hefði ákveðið hvern af starfsmönnum félagsins hann sendi í tilfallandi verkefni í Helguvík.  Hefði hann komið reglulega á staðinn vegna þessara verkefna og tekið ákvörðun um tilhögun þeirra.  Þannig hefði stefnandi fengið fyrirmæli um verkið frá yfirmanni Eldafls ehf. en ekki frá starfsmönnum stefnda.

Greint var frá því stefnandi hefði átt þess kost að nota t.d. skotbómulyftara og skæralyfta sem brúkaðir eru við vinnu í einhverri hæð.  Engu að síður hefði hann í þetta skipti ákveðið að nota vinnupall úr áli, en pallurinn hefði uppfyllt þær reglur sem til slíkra verkpalla eru gerðar.  Gólfið á vinnupallinum [stillansinum] hefði verið stillt í um það bil 1,14 metra hæð og vinnupallurinn verið með hefðbundna öryggisslá.

Þá sagði að strax eftir að stefnandi slasaðist hefði verið haft samband við yfirmenn Eldafls ehf.  Þeir hefðu komið og sótt stefnanda farið með hann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en í fyrstu hefði verið talið að stefnandi hefði einungis snúið sig á ökkla.  Daginn eftir hefði verksmiðjustjóri stefnda, Eggert Ólafur Einarsson, hringt í yfirmenn Eldafls ehf. og bent þeim á að láta Vinnueftirlitið vita um óhapp stefnanda.

Af hálfu aðila var óskað eftir áliti örorkunefndar, hinn 4. maí 2007, um líkamstjón stefnanda sökum slyssins hinn 16. september 2003.  Álitsgerðin er dagsett 14. júní 2007 og þar segir í lokaorðum:

Stöðugleikapunktur tjónþola, Birgis Kristjánssonar, ... , vegna afleiðinga vinnuslyss þann 16. september 2003, telst vera 16. desember 2003.

Tjónþoli telst hafa verið veikur vegna afleiðinga slyssins, án þess að vera rúmliggjandi, frá 16. september 2003 til 16. desember 2003.

Tímabundið atvinnutjón tjónþola vegna afleiðinga slyssins er 100% í þrjá mánuði.

Varanlegur miski tjónþola vegna afleiðinga slyssins er 15%- fimmtán af hundraði.

Varanleg örorka tjónþola vegna afleiðinga slyssins er 15%- fimmtán af hundraði.

Kröfufjárhæð stefnanda, sem ítarlega er tölulega sundurliðuð og greind í stefnu, er þannig í styttra máli undir fyrirsögninni Samtala kröfugerðar (a – d):

Tímabundið atvinnutjón

0 kr.

Þjáningarbætur

107.745 kr.

Varanlegur miski

1.003.839 kr.

Varanleg örorka

1.976.025 kr.

Örorkubætur TR

(199.944 kr.)

Örorkubætur slysatrygging launþega

(755.193 kr.)

Samtals

2.132.472 kr.

               

Stefnandi byggir á því að umræddur röraverkpallur hafi verið vanbúinn þegar hann slasaðist, en pallurinn hafi þá verið í eigu, umsjón og á ábyrgð stefnda.  Beri stefndi því ábyrgð á líkamstjóni hans vegna slyssins samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga.

Vísað er til þess að stefnandi hefði, er hann slasaðist, verið við vinnu sína í nýbyggingu stefnda í Helguvík.  Stefndi og verkstjórar hans hefðu borið ábyrgð á því að allar aðstæður á vinnustaðnum væru öruggar og forsvaranlegar og jafnframt að tæki og tól á verkstaðnum væru í lagi, sbr. 13. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.  Þá er vísað til ákv. 17. gr., 42. gr. og 46. gr. sömu laga.

Staðhæft er að röraverkpallurinn hafi verið í liðlega tveggja metra hæð er stefnandi féll niður af honum og jafnframt er bent á að ráða megi af gögnum málsins að öryggisslá vantaði á þann enda pallsins sem stefnandi féll niður af.  Í því sambandi er vísað til greinar 16.2 í IV. og 21.1 í viðauka við reglur nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð.  Þá er vísað til 9. gr. í reglum um röraverkpalla nr. 331/1989.

Byggt er á því að stefndi beri ábyrgð á því að hafa ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu um slys stefnanda.  Stefndi verði því af bera hallan af því að aðstæður á vinnustað og orsakir slyssins hefðu ekki verið rannsakaðar fyrr en um seinan.  Vísað er í þessu sambandi til 79. gr. laga nr. 46/1980 og reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa.  Allan vafa í málinu út af þessu verði því að túlka stefnanda í hag.

Stefndi byggir aðalkröfu sína á því umræddur verkpallur hafi ekki verið vanbúinn.  Hann hafi verið í samræmi við gildandi reglur.  Í 21. kafla IV. viðauka við reglugerð nr. 547/1996 segi að á vinnuflötum, verkpöllum, tröppum, göngubrúm o.s.frv., skuli vera handrið, ef hæðin er meiri en tveir metrar frá jörð eða öðrum fleti og skuli handrið vera alls staðar þar sem hætta geti verið á því að menn falli niður.  Verkpallurinn hafi verið u.þ.b. 114 cm. frá gólffleti og jafnvel þó lagt væri til grundvallar að verkpallurinn hefði verið í hæstu stöðu þá yrði einnig að leggja til grundvallar að stefnandi hefði sjálfur sett pallinn í þá hæð.  Verkpallurinn væri ekki þeirrar gerðar að setja ætti sjálfan pallinn á efstu þverrörin, þ.e. yfir meira en tveggja metra hæð.  Og hafi það verið gert hafi stefnandi sjálfur borið ábyrgð á því að nota stillansinn þannig saman settan.  Í því sambandi er vísað til þess að í ódagsettri umsögn Vinnueftirlitsins, á dskj. nr. 3, komi fram að pallurinn var venjulegur röraverkpallur af viðurkenndri gerð að því slepptu að hnélista vantaði á hann.  Hafi stefnandi og aðrir starfsmenn Eldafls ehf. notað verkpall með röngum hætti, hafi það ekki verið á ábyrgð stefnda.  Stefndi hefði þvert á móti mátt treysta að þar færu fagmenn sem nýttu sér viðeigandi áhöld og tæki með réttum hætti og myndu gera athugsemdir teldu þeir að búnaði væri ábótavant.

                Stefndi byggir einnig á því að stefnandi beri sjálfur ábyrgð á því að hafa notað verkpallinn en ekki önnur tæki, sem sérstaklega voru ætluð til vinnu í þeirri hæð, sem stefnandi staðhæfir að hann hafi fallið úr.  Stefndi beri ekki ábyrgð á þeirri ákvörðun stefnanda að nota röraverkpall þegar honum stóðu til boða önnur tæki sem hentuðu betur til viðkomandi verks.

Þá er byggt á því að stefndi beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni vegna vinnutilhögunar verktaka sem stefndi á skipti við.  Óumdeilt sé að stefnandi var starfsmaður Eldafls ehf., þegar hann slasaðist, og ekkert samningssamband var á milli hans og stefnda.  Stefndi hafi leitað eftir þjónustu Eldafls ehf. vegna sértækra verkefna við nýbygginguna í Helguvík.  Yfirmaður hjá Eldafli ehf. hafi síðan ákveðið hvaða starfsmenn félagsins hann sendi í Helguvík þegar beiðnin barst frá stefnda um umrædda þjónustu.  Vísað er til þess að stefndi, Síldarvinnslan hf., er ekki byggingarfyrirtæki; starfsmenn stefnda hafi ekki haft sérþekkingu á þeim verkefnum sem Eldafli ehf. var falið að vinna fyrir stefnda.  Þá hafi stefndi ekki tekið ábyrgð á hvernig stefnandi, starfsmaður Eldafls ehf., stóð að verki umrætt sinn.  Stefnandi hafi sjálfur ráðið verktilhögun sinni og stefndi ekki haft vald til að segja honum hvernig hann skyldi standa að verki.

Byggt er á því að stefnandi beri fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar.  Óaðgæsla stefnanda hafi valdið slysinu.  Jón Kristjánsson, öryggistrúnaðarmaður stefnda, hafi sagt við skýrslutöku hjá lögreglunni að stefnandi hafi sagt sér að hann hafi stigið aftur á bak út af verkpallinum, fótur hans krækst í stigann, sem er á pallinum, og síðan hafi hann fallið niður á þakið á stjórnstöðinni.  Orsakasamhengi milli ætlaðs vanbúnaðar og slyssins skorti, jafnvel þótt það teldist sannað að hnélista og öryggisslá hefði vantað á verkpallinn.

Vísað er til ákvæða 79. gr. laga nr. 46/1980.  Stefnandi hafi verið starfsmaður Eldafls ehf. og hafi félagið því verið réttur aðili til að tilkynna um slysið til Vinnueftirlits ríkisins.  Upplýst sé að verkstjóri Eldafls ehf. hafi samdægurs tilkynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins.  Skilyrði 79. gr. laga nr. 46/1980 hafi þannig verið uppfyllt.  Allt að einu geti stefndi ekki borið ábyrgð á þeirri ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins að rannsaka ekki vettvang fyrr en rúmum þremur mánuðum eftir að slysið átti sér stað.

Varakröfu sína um verulega lækkun á bótakröfu stefnanda byggir stefndi í fyrsta lagi á eigin sök stefnanda.  Í öðru lagi á því að árslaunaviðmið, sem stefnandi leggur til grundvallar útreikningi á bótum fyrir varanlega örorku, sé rangt.  Stefnandi hafi stuttu fyrir slysið hætt á sjó og hafið störf í landi.  Miða beri því við þau laun sem stefnandi átti sannanlega kost á að afla á nýjum starfsvettvangi, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Í þriðja lagi er byggt á því að niðurstaða álits örorkunefnda sé of há.  Þá er mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi.  Og þess er krafist að frá skaðabótum dragist allar greiðslur sem stefnandi hefur fengið, eða á rétt á að fá frá þriðja aðila vegna slyssins, svo sem greiðslur úr almannatryggingum, lífeyrissjóðsgreiðslur o.fl., sbr. 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hefði starfað sem vélstjóri til sjós áður fyrr.  Þegar hann slasaðist hefði hann verið að vinna með Þorvaldi Reynissyni í húsnæði stefnda í Helguvík.  Eggert [Ólafur Einarsson], yfirmaður á staðnum, hefði haft yfir þeim að segja og skaffað þeim verkefni.

Stefnandi sagði að verkpallurinn, sem hann féll af, hefði verið í efstu stillingu út af lofthæðinni; öðru vísi hefði pallurinn ekki komið að notum við verkið.  Kvaðst hann hafa verið að mæla fyrir festingum fyrir kapla uppi á stjórnstöðinni.

Lögmaður stefnanda spurði hvað það þýddi að mæla fyrir stífum vegna lagningar á rafkappa.  Stefnandi sagði að hann hefði verið að mæla til að fá festingarnar á réttan stað fyrir sleðana sem kaplarnir liggja í.

Lögmaðurinn spurði um öryggishandrið, hnélista og slíkt.  Stefnandi sagði að ekkert þannig hefði verið til staðar.

Stefnanda var sýnt dskj. nr. 3, sem er myndrit af skýrslum lögreglunnar, þ.m.t. ljósmyndir og umsagnir Vinnueftirlits ríkisins, varðandi málið.  Vísað var til þess að aðeins tvær hæðir hefðu komið til greina á palli stillansins, 1,14 metrar eða 2,07 metrar, en stefnandi hefði haldið fram að hann hefði verið í tveggja metra hæða þegar hann féll.  Og spurt var hvort engin öryggishandrið hefðu verið á stillansinum í tveggja metra hæð.  Stefnandi sagði þau hefði einungis verið við vegginn en ekki þar sem pallurinn snéri frá veggnum.  Hann kvaðst þó ekki muna það alveg.

Lögmaður stefnda spurði hvort honum hefði ekki þótt það varhugavert að vinna í þessari hæð án þess að öryggisslár verðu hann falli.  Stefnandi sagði að hann hefði ekki verið að hugsað um það; fleiri öryggisslár hefðu ekki verið til.   Hann hefði bara ætlað að skutlast þarna upp til að mæla þetta, en svo hefði staðið til að fá annan búnað til að bora þarna, en það hefði ekki verið hægt á þessum palli.  Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa gert athugsemdir við að vinna við þessar aðstæður.  Eggert hefði sagt honum að nota pallinn.

Vísað var til þess að haft væri eftir honum í lögregluskýrslu, hinn 2. desember 2003, sbr. dskj. nr. 3, m.a.: „Birgir segir engan hafa gefið honum bein fyrirmæli um að nota þennan vinnupall.  Hann segir pallinn einfaldlega hafa verið til staðar og hann því notað hann til verksins.“  Stefnandi sagði að Eggert hefði sagt sér að nota þau tæki sem væru til staðar og þessi pallur hefði verið það eina sem var til staðar.

Stefnandi sagði að Ingimundur [Magnússon], yfirmaður hans hefði komið á staðinn í bifreið sinni og farið með hann á heilsugæslustöðina.  Þar hefði hann verið myndaður og síðan fluttur þaðan á sjúkrahúsið í Fossvogi.

Eggert Ólafur Einarsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann væri æðsti maður hjá Síldarvinnslunni í Helguvík.  Kvaðst hann sjá um að eðlileg vinnsla gangi og daglegur rekstur sé í samræmi við það sem eigendur vinnslunnar ætlist til.

Eggert sagði að á þeim tíma sem stefnandi slasaðist hefðu staðið yfir framkvæmdir við að skipta mjölhúsi skemmuhússins í tvennt og að reisa þar litla álverksmiðju til að vinna fyrir álverin og unnið hefði verið að því að setja upp búnað sem tilheyrir þeirri vinnslu.  Stefnandi hefði verið að vinna við að setja aukastífur undir soðrör á ofni er hann slasaðist.

Lagt var fyrir Eggert dskj. nr. 3, sem áður er getið, og spurt var í hvaða hæð pallur stillansins hefði verið er slysið varð.  Eggert sagði að hann hefði verið í þeirri hæð sem sést á myndum [sem er hluti af dskj. nr. 3., þ.e. 114 cm].  Eggert sagði að stefnandi hefði ekki verið að vinna á pallinum í efstu stillingu [207 cm].  Það hefði ekki verið hægt við það sem hann var að vinna við [umræddar stífur væru of nærri gólfinu, neðri endi í 1,7 metra hæð, en efri endi í 2,5 metra hæð].

Eggert sagði að ekkert hefði verið að vinnupallinum eða uppsetningu hans.

Þegar slysið varð kvaðst Eggert hafa verið staddur niðri við endann á bræðsluofni, sem staðsettur var neðar og til hliðar við stjórnstöðina.  Hann kvaðst ekki hafa séð þegar Eggert féll af vinnupallinum.  Nokkrir menn hefðu verið að vinna þarna inni í salnum.  Næst sér hefði Þorvaldur [Reynisson] verið.  Þeir hefðu báðir verið niðri við ofninn þegar óhappið varð.  Og þeir hefðu fyrstir komið til stefnanda eftir fallið.

Stefnandi hefði borið sig illa eftir fallið en mat hans og þeirra hefði verið að hann hefði bara snúið sig illa á ökkla.  Þeir hefðu hlúð að honum og kvaðst Eggert hafa hringt í Ingimund, yfirmann stefnanda, og hann hefði komið og náð í stefnanda og farið með hann niður á heilsugæslustöð.  Þetta hefði gerst seinni part dags.

Eggert sagði að fyrst hefði verið talið að slysið væri ekki alvarlegt.  En þegar hann frétti daginn eftir að stefnandi hefði fótbrotnað þá hefði hann sagt við Ingimund að hann yrði að tala við hluteigandi vinnueftirlit og aðra aðila sem þörf væri að tala við, enda væri hann [Ingimundur] yfirmaður stefnanda, atvinnuveitandi og einn af eigendum fyrirtækisins sem stefnandi vann hjá.

Eggert kvaðst ekki muna hvort hann hefði sagt stefnanda að nota umræddan vinnupall.  Pallurinn hefði verðið á staðnum og í notkun.  Um ýmis verktæki hefði verið að ræða á staðnum, þegar hann bað menn um að fara eitthvað og gera eitthvað.  Hann kvaðst sérstaklega vilja nefna að stefndi átti skæralyftara á þessum tíma og var með skotbómuvél með vinnubúri, sem hægt var að nota, einnig hefði vörubíl með vinnukörfum verið fenginn þegar þess þurfti.  Það hafi alveg verið á hreinu að hann hefði aldrei ætlast til að menn væru að gera eitthvað á kostnað öryggis.

Vísað var til þess að haft væri eftir honum í lögregluskýrslu frá 16. október 2003, sbr. dskj. nr. 3, m.a.: „Birgir hafi verið að vinna að mælingum á skáskífum á járnbita sem lagður hafði verið yfir þakið, stjórnstöðvarþak Síldarvinnslunnar“.  Og spurt var í hvaða hæð járnbitinn hefði verið.  Eggert sagði að biti væri þvert yfir stjórnstöðina en ekki væri rétt að þetta hefði verið þarna.  Skástífa væri á þessum bita og hún væri í svipaðri hæð.

Þá var vísað til ummæla Eggerts í sömu lögregluskýrslu þar sem haft er eftir honum: „Hann segir vinnutilhögunina hafa ýmist verið þá að óskað var eftir starfsmönnum frá Eldafli í tiltekin verk eða að þeim fengin verk á staðnum.  Hann segir það beggja blands í svona verki, stundum séu starfsmenn að vinna að ákveðnum, tilteknu verki, og stundum séu þeir að vinna í hinu og þessu sem verkinu tengist en ekki eru fyrir bein fyrirmæli frá yfirmönnum Eldafls um.“  Og spurt var hvort þetta væri ekki staðfesting á því að menn tækju við skipunum frá honum sem yfirmanni á staðnum.  Eggert sagði að þetta væri beggja blands; menn væru ráðnir til að leysa ákveðin verkefni og máli skipti að menn gerðu sér grein fyrir því.  Hann hefði ekki bara kallað til mann af götunni til verka.  Hann hefði kallað til menn með ákveðna þekkingu.  Þeir hefðu væntanlega verið sendir honum frá viðkomandi með þá þekkingu, sem hann krefðist að þeir hefðu, til að leysa verkið.

Aðspurður sagði Eggert að ekki hefði verið verkstjóri daglega á staðnum frá Eldafli ehf. til að stýra vinnu stefnanda.  En verkstjóri frá Eldafli ehf. hefði ekki verið á staðnum þegar slysið varð.

Spurt var hvort honum væru kunnar reglur sem eru í gildi um röraverkpalla.  Eggert kvaðst ekki geta sagt að hann hefði lesið þær, hann myndi það ekki; vinnupallar hjá stefnda hefðu verið teknir út af Vinnueftirlitinu, en menn frá eftirlitinu kæmu reglulega í heimsókn.

Vísað var til þess að í 9. gr. reglna um röraverkpalla komi fram að á öllum röraverkpöllum eigi að vera öryggishandrið og hnélistar, óháð hæð þeirra, og spurt var, hvort umræddur röraverkpallur hefði verið í því horfi umrætt sinn.  Eggert vísaði til ljósmynda lögreglunnar í Keflavík sem koma fram á dskj. nr. 3.  Hann kvaðst ekki hafa vitað annað en að pallurinn hefði verið löglegur.

Jón Kristjánsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann ynni nú hjá Jarðborun.  Hann kvaðst hafa hætt störfum hjá stefnda fyrir rúmum þremur árum.  Hann kvaðst hafa verið vaktformaður hjá stefnda.  Þá kvaðst hann hafa á sínum tíma verið öryggistrúnaðarmaður hjá stefnda.

Jón kvaðst ekki hafa verið vitni að slysinu, en hann hefði verið í húsinu þegar stefnandi slasaðist.  Stefnandi hefði verið að vinna uppi á stjórnstöðinni þar sem álvinnslan fer fram í fyrirtækinu.  Stefnandi hefði verið að vinna uppi á vinnupalli, á neðra pallinum, sbr. ljósmyndir lögreglunnar í Keflavík, sem koma fram á dskj. nr. 3.  Hann hefði verið að vinna við að setja upp stífu undir rör á veggnum.

Jón sagði að stillansins hefði verið löglegur með því að hafa pallinn á stillansinum í þeirri hæð sem hann var.  Hefði pallurinn verið notaður ofar, sagði Jón, að þá hefði orðið að setja öryggisslár þar uppi.

Jón sagði að á þessum tíma hefðu menn haft aðgang að skotbómulyftara með körfu sem hægt hefði verið að nota upp í tíu til tólf metra hæð.

Vísað var til þess að í lögregluskýrslu sem tekin var af honum hinn 22. janúar 2004, sbr. dskj. nr. 3, greini hann m.a. frá því að ekki hefði vantað öryggisslá á vinnupallinn.  Jón sagði að svo hefði verið, öryggisslá hefði ekki vantað miðað við þá hæð sem pallurinn var í.

Jón sagði að eftir slysið hefði verið hringt í Eldafl, fyrirtækið sem stefnandi vann hjá.  Ingimundur, verkstjóri og einn af eigendum fyrirtækisins, hefði komið frá Eldafli.  Ingimundur hefði áður komið annað slagið á staðinn, ásamt fleiri mönnum frá Eldafli, til vinnu hjá stefnda.

Jón sagði að þegar hann kom að stefnanda uppi á stjórnstöðinni eftir slysið hefði stefnandi sagt sér að hann hefði misstigið sig, snúið upp á fótinn.  Engum hefði dottið í hug að hann hefði fótbrotnað.  Það hefði ekki verið tilkynnt fyrr en daginn eftir.  Stefnandi hefði verið mjög aumur í fætinum.  Af öryggisástæðum hefði stefnandi verið færður á bretti af stjórnstöðinni niður á gólf með lyftara.

Vísað var til þess í skýrslu lögreglunnar af Eggert Ólafi Einarssyni, hinn 16. október 2003, sé haft eftir honum m.a.: „Eggert segist telja að Birgir hafi verið að vinna að mælingum á skástífum á járnbita sem lagður hafði verið yfir þakið, stjórnstöðvarþak Síldarvinnslunnar“.  Jón sagði að járnbitinn hefði ekki náð alveg yfir þakið, ekki alla leið yfir það.

Spurt var hvernig unnt hefði verið að vinna á járnbita sem lagður er yfir þak í þessari lofthæð þegar vinnupallurinn er einvörðungu í rétt liðlega í metra hæð.  Jón sagði að þetta væri misskilningur.  Hann vísaði til teikningar, sem er hluti af dskj. nr. 3, á næst síðustu blaðsíðu.  Tveir og hálfu metri hefði verið upp í þetta, en efri brúnin hefði verið tæpur þrír og hálfur metri.  Stefnandi hefði verið að vinna undir stykki sem var í tveggja og hálfs metra hæð.

Spurt var hvort honum hefðu á þessum tíma verið kunnar reglur sem voru í gildi um röraverkpalla.  Jón kvað svo ekki vera nema bara það sem hann hefði heyrt frá Vinnueftirlitinu.  Þeir hefðu sagt að umræddur pallur væri löglegur.

Þorvaldur Reynisson gaf skýrslu símleiðis fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að daginn sem umrætt slys varð hefði Eggert Ólafur Einarsson sagt honum og stefnanda „að laga þarna uppi á pallinum“.  Þorvaldur kvaðst hafa unnið þarna með stefnanda, unnið við hliðina á honum uppi á pallinum þegar stefnandi féll niður af honum og séð þegar hann datt niður.

Vísað var til að deilt væri um hæð vinnupallsins þegar stefnandi datt.  Þorvaldur sagði að þeir hefðu verið í rúmlega tveggja metra hæð.

Vísað var til lögregluskýrslu út af slysinu sem Þorvaldur gaf, hinn 3. desember 2003, sbr. dskj. nr. 3, þar sem haft er eftir honum: „Hann segir Birgi hafa verið að vinna á vinnupalli sem hafi verið um 150 cm á hæð en hann sjálfur hafi verið í um það bil sex metra fjarlægð að vinna við sömu loftlögn.“  Þorvaldur kvaðst hafa verið uppi á pallinum þegar Birgir datt.  Þeir hefðu verið að leggja rör.    Vísað var til þess að í sömu lögregluskýrslu væri greint frá því að hann hefði sagt að hæð pallsins hefði verið stillanleg og rekkverk verið utan um pallinn.  Þorvaldur kvaðst ekki muna þetta.    Vísað var til þess að í sömu lögregluskýrslu væri m.a. haft eftir honum: „Þorvaldur segist giska á að pallurinn hafi verið í 150 cm hæð.  Aðspurður segist hann halda að pallurinn hafi verið með rekkverki allan hringinn, fyrir utan stigann upp í hann sem hafi verið, að hann minni, fyrir utan pallinn sjálfan.“  Þorvaldur sagði að þetta væri einhver misskilningur, pallurinn hefði verið í rúmlega tveggja metra hæð.  Hann hefði unnið daginn eftir [slysið] með sama pall.

Vísað var til lögregluskýrslu út af slysinu sem Þorvaldur gaf, hinn 31. desember 2003, sbr. dskj. nr. 3, þar sem haft er eftir honum að hann og stefnandi hefðu verið „að vinna við rör fyrir töflufestingu“.  Spurt var hvað stefnandi hefði nákvæmlega verið að gera þegar hann slasaðist.  Þorvaldur sagði að þeir hefðu verið að vinna uppi á pallinum við röralagnir og við að festa töflur.

Ályktunarorð:  Stefnandi slasaðist við vinnu í verksmiðju stefnda í Helguvík í Reykjanesbæ hinn 16. september 2003.  Hann mætti á lögreglustöðina í Keflavík til að gefa skýrslu um vinnuslysið hinn 30. sama mánaðar.  Samkvæmt lögregluskýrslunni er haft eftir honum: „Mætti kveðst hafa verið að vinna hjá Eldafli ehf. sem er undirverktaki í Helguvík þar sem verið var að setja upp álbræðslu.  Hann segir að þann 16. sept. um kl. 16,30 hafi hann verið að vinna við byggingu á stjórnstöð við álbræðsluna.  Kvaðst hann hafa staðið upp á stillans sem var úr áli, en það hafi vantað eina öryggisslána á stillansinn.  Hann kveðst hafa verið þarna að mæla með málbandi og hafi hann þurft að stíga aðeins afturábak, en þá hafi hann stigið út af stillansinum og þar sem öryggisslána vantaði hafi hann ekki getað gripið í neitt til að forðast fall. – Kveðst mætti hafa dottið niður á þak álbræðslunnar og komið illa niður á hælinn á hægri fæti, þannig að hællinn þríbrotnaði.  Í framhaldi af þessu hafi mætti verið fluttur á sjúkrahúsið í Keflavík og síðan á Landspítalann háskólasjúkrahús í Fossvogi.  Mætti segir að sér sé ekki kunnugt um að kallað hafi verið í vinnueftirlitið eða lögregluna þegar slysið varð. – Mætti segir að þeir hafi verið tveir frá Eldafli ehf. þarna við vinnu.  Hinn hafi verið Þorvaldur Reynisson ... . Mætti segir að það hafi verið verksmiðjustjórinn, Eggert að nafni, sem hafði yfirumsjón með störfum mætta og Þorvaldar.  Hafi það verið Eggert sem fyrirskipaði mætta að fara upp í stillansinn og vinna verk það sem mætti var að vinna þegar slysið varð. – Aðspurður kveðst mætti ekki hafa gert neina athugsemd við Eggert um að það vantaði öryggisslá á stillansinn, áður en mætti fór upp á hann.  Mætti telur að Þorvaldur hafi ekki séð þegar mætti datt.  Aðspurður hver sé í forsvari fyrir Eldafl ehf. þá kveðst mætti ekki vita það, þar sem hann hafi aðeins verið búinn að vinna þarna í eina viku, en það gæti verið Ingimundur Magnússon. – Mætti segir að hann sé enn í gifsi með fótinn og segir hann að ekki sé fyrirséð hvernig meiðsli hans komi til með að gróa.“

Hinn 15. október 2003 hafði Jóhannes Kristbjörnsson lögreglumaður í Keflavík samband við Vinnueftirlit ríkisins með tölvupósti og tjáðist hann vera að rannsaka umrætt vinnuslyssins stefnanda í Helguvík, hinn 16. september 2003.  Þar greindi Jóhannes frá því að hæll stefnanda hefði þríbrotnað og stefndi hefði sagt að öryggisslá hefði vantað á vinnupallinn.  Óskaði hann eftir afriti af skýrslu Vinnueftirlitsins vegna málsins ef hún lægi fyrir.  Daginn eftir var af hálfu Vinnueftirlitsins bréfi lögreglumannsins svarað.  Í bréfinu segir: „Vinnueftirlitinu var ekki tilkynnt um umrætt slys samstundis, heldur var það tilkynnt símleiðis frá Eldafli til Grétars Þorleifssonar, umdæmisstjóra, síðar.  Miðað við fyrstu lýsingu þótti ekki ástæða til vettvangsrannsókna. – Samkvæmt lýsingu féll slasaði af vinnupalli sem var um einn metri á hæð.  Ekki eru gerðar kröfur um fallvarnir á slíka palla í reglum 547/1996 IV. Viðauka. – Hafi vinnuaðstæður á pallinum hins vegar verið sérstaklega hættulegar einhverra hluta vegna, þá bar atvinnurekanda eða verkstjóra að meta þær hættur og gefa sérstök fyrirmæli eða verklagsreglur það að lútandi til starfsmanna.  Ekki kom fram í tilkynningu Eldafls að aðstæður hafi verið sérstaklega hættulegar og því þótti Grétari ekki ástæða til að kalla úr vakthafandi eftirlitsmann frá Reykjavík.“

Vegna slyssins tók Jóhannes Kristbjörnsson lögreglumaður skýrslu af Eggert Ólafi Einarssyni, verksmiðjustjóra hjá Síldarvinnslunni hf., hinn 16. október 2003.  Þar var m.a. haft eftir Eggert að stefnandi hefði verið að vinna að mælingum á skástífum á járnbita, sem lagður hafði verið þvert yfir stjórnstöðvarþak Síldarvinnslunnar.  Þakið væri slétt úr þriggja millímetra stáli.  Stefnandi hefði verið að vinna á álvinnupalli í ekki meira en 1,10 til 1,20 metra hæð frá þakinu og ekki hefði skort öryggisslár á vinnupallinn. - Þá var haft eftir Eggert að hann hefði sjálfur ekki orðið vitni að óhappinu en hann og Þorvaldur, vinnufélagi stefnanda, hefðu fyrstir komið að stefnanda eftir fall hans af vinnupallinum.  Stefnandi hefði borið sig illa og þeir álitið að hann hefði snúið sig illa á hægri ökkla.  Þar sem stefnandi hefði ekki getað stigið í fótinn hefði hann verið fluttur niður af þakinu með lyftara og strax verið farið í að kæla ökklann.  „Valdimar“ hefði hringt í Eldafl og innan hálfrar klukkustundar hefði starfsmaður frá þeim sótt stefnanda og farið með hann til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. - Haft er eftir Eggert að lögreglu og Vinnueftirlitinu hefði ekki verið gert viðvart þegar í stað vegna þess að hann hefði haldið að um minni háttar meiðsl hefði verið að ræða, þ.e. stefnandi hefði snúið sig á ökkla.  En þegar hann, seint daginn eftir, hefði fengið vitneskju um að stefnandi væri hælbrotinn, hefði hann rætt við yfirmenn Eldafls, enda hefði stefnandi verið starfsmaður þeirra, og tjáð þeim, að þeir þyrftu að ræða við Vinnueftirlitið vegna slyssins.  Hann vissi ekki betur en að þeir hefðu farið eftir tilmælum hans.

Lögreglan tók aftur skýrslu af stefnanda hinn 2. desember 2003.  Þá var haft eftir stefnanda um aðstæður á vettvangi, þegar slysið varð, að hann hefði verið að mæla fyrir stífum vegna lagningar „rafkappa“ yfir þakið á Síldarvinnslunni.  Í þeim tilgangi hefði hann sótt vinnupall, sem var á þakinu, og notað hann til að komast í rétta hæð.  Pallur vinnupallsins hefði verið í 180 til 200 sentímetra hæð.  Öryggisslá hefði vantað á pallinn og eina fallvörnin verið þverslá sem aðeins hefði náð að hlut fyrir hæðina sem pallurinn var á.  Þegar hann var að mæla neðarlega á veggnum, hefði fært sig eilítið frá honum og í ógáti stigið út fyrir pallinn og fallið niður á þakið með þeim afleiðingum að hælbeinið á hægri fæti hans þríbrotnaði. – Þá er haft eftir stefnanda að engin hefði gefið honum bein fyrirmæli um að nota þennan vinnupall.  Pallurinn hefði einfaldlega verið til staðar og hann því notað hann til verksins.  

Lögreglan tók skýrslu, hinn 3. desember 2003, af Þorvaldi Reynissyni vegna slyssins.  Þar er m.a. haft eftir Þorvaldi að hann hefði ásamt stefnanda verið að leggja loftlagnir.  Stefnandi hefði verið að vinna á vinnupalli í u.þ.b 150 sentímetra hæð, en sjálfur hefði hann verið í um það bil sex metra fjarlægð að vinnu við sömu loftlögn.  Stefnandi hefði verið að vinna að uppsetningu á baulu fyrir rör þegar óhappið varð.  Hann hefði ekki séð stefnanda falla „en veitt hávaðanum frá fallinu eftirtekt og séð hvar Birgir lá á þakinu fyrir neðan vinnupallinn.“ – Haft var eftir Þorvaldi að vinnupallurinn hefði verið hefðbundinn vinnupallur á hjólum sem hægt væri að læsa.  Hæð pallsins hefði verið stillanleg og rekkverk verið utan um pallinn „allan hringinn, fyrir utan stigann upp í hann, sem hafi verið, að hann minni fyrir utan pallinn sjálfan.“.- Greint var frá því að Þorvaldur hefði verið spurður hvar hann og Birgir hefðu fengið vinnupallinn og hvort hann væri viss um að pallurinn hefði verið byrgður allan hringinn, þ.e.a.s. öryggisgrind verið á pallinum.  Svar Þorvaldar er tiltekið með eftirfarandi hætti: „Þorvaldur segir pallinn hafa verið þarna á þakinu þegar þeir hófu störf og þeir því notað hann.  Hann segir einhverja starfsmenn SR-mjöls, frá Siglufirði, hafa notað þennan vinnupall til að setja upp stokk áður en hann og Birgir notuðu pallinn.“

Af misvísandi frásögnum stefnanda og annarra, sem koma að þessu máli, verður ekki að fullu ráðið hvernig vildi til að stefnandi slasaðist, hinn 16. september 2003.  Stefnandi byggir á því og staðhæfir að verkpallur sem hann notaði hefði verið vanbúinn til verksins.  Þá byggir stefnandi á því að stefndi beri hallann af því að aðstæður á vinnustað og orsakir slyssins voru ekki rannsakaðar af Vinnueftirliti ríkisins fyrr en um seinan.

Af gögnum málsins má ráða að tvær hæðir er a.m.k. unnt að nota á vinnupallinum, 1,14 eða 2,07 metra hæð.  Þar ræður hvar vinnupallurinn er settur á stillansinn við það verk sem vinna skal.  Stefnandi heldur því fram og byggir á því að hann hafi fallið af efri hæð stillansins.  Fyrir rétti sagði stefnandi að öryggishandrið hefðu einungis verið við vegginn [er stillansinn stóð upp við], en ekki þar sem pallurinn snéri frá veggnum.  Hann kvaðst þó ekki alveg muna það.  Hann hefði ekki verið að hugsa um hvort varhugavert væri að vinna í þessari hæð án þess að öryggisslár verðu hann falli.  Hann hefði bara ætlað að skutlast þarna upp til að mæla, en síðan hefði staðið til að fá annan búnað til borvinnu, en til slíkrar vinnu hefði pallurinn ekki dugað.  Þá var haft eftir honum við skýrslutöku hjá lögreglunni, hinn 30 september 2003, þ.e. hálfum mánuði eftir slysið, að hann hefði verið að mæla með málbandi og við það stigið aðeins afturábak og út af stillansinum; þar sem öryggisslána vantaði hefði hann ekki getað gripið í neitt til að koma í veg fyrir fallið.

Stefnandi sagði fyrir rétti að Eggert Ólafur Einarsson, yfirmaður og verkstjórnandi hjá stefnda, Síldarvinnslunni hf., á staðnum hefði sagt sér að nota verkpallinn.  Og haft er eftir honum í skýrslu er lögreglan tók af honum, hinn 30. september 2003 varðandi slysið, að Eggert hefði skipað sér að fara upp í stillansinn og vinna það verk sem hann var að vinna við þennan dag.  Á hinn bóginn var haft eftir stefnanda í skýrslu er lögreglan tók af honum, hinn 2. desember 2003 varðandi slysið, að engin hefði gefið sér bein fyrirmæli um að nota þennan vinnupall.  Pallurinn hefði einfaldlega verið til staðar og hann því notað hann til verksins.  Hvort sem réttara er verður að telja að stefnandi hafi farið óvarlega að verki.  Og þá liggur ekki fyrir með óyggjandi hætti að Eggert hafi ætlað stefnanda að nota vinnupallinn í 2,07 metra hæð án öryggishandriðs.

Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins varðandi málið, er liggur fyrir í málinu sem hluti af dskj. nr. 3, segir m.a.: „Þann 16. sept. 2003 kl. 17.00 tilkynnti verkstjóri Eldafli um slys er orðið hafði um hálfri klukkustund fyrr í húsnæði Síldarvinnslunnar í Helguvík.  Verkstjórinn lýsti slysinu þannig að slasaði hefði verið að vinna á röraverkpalli í um 1 metra hæð frá gólffleti.  Hefði ekkert verið athugavert við pallinn og slasaði virtist lítið meiddur.- Undirritaður [Grétar Þorleifsson umdæmisstjóri án þess að handrita nafn sitt undir umsögnina] ákvað miðað við fyrrnefnda lýsingu ásamt því að komið var fram yfir reglubundinn vinnutíma að fara ekki á vettvang til rannsóknar.“  Af þessu má ráða og einnig af bréfi Vinnueftirlits ríkisins til lögreglunar frá 17. sept. 2003, er liggur fyrir í málinu í myndriti, að það var ekki sök stefnda, Síldarvinnslunnar hf., að rannsókn á slysinu hófst ekki fyrr en 30. september 2003 með því að stefnandi mætti á lögreglustöðina í Keflavík til að gefa skýrslu um vinnuslysið      Samkvæmt framangreindu telst ekki sannað að stefndi, Síldarvinnslan hf., hafi valdið tjóni stefnanda.  Stefndi verður því sýknaður af kröfum stefnanda.

Með vísun til 3. mg. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Jónasar Þórs Jónassonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur án virðisaukaskatts.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Síldarvinnslan hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Birgis Kristjánssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Jónasar Þórs Jónassonar hdl., 400.000 krónur.