Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2005


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn


Þriðjudaginn 20

 

Þriðjudaginn 20. desember 2005.

Nr. 246/2005.

Þór Kolbeinsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Ístaki hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

og gagnsök.

 

Skaðabótamál. Vinnuslys. Líkamstjón. Gjafsókn.

Þ, starfsmaður Í, slasaðist þegar hann var að stikla á milli gólfbita til að komast leiðar sinnar við vinnu að einangrun og klæðningu milligólfs ofan við fyrirhugað verslunarrými. Skrikaði Þ fótur þannig að hann steig á gipsklæðningu sem var á milli gólfbitanna og féll niður á steingólf. Talið var að erfitt hefði verið að koma því við að láta menn fara um svæðið festa með líflínum og að ekki yrði séð hvernig koma hefði átt við sérstökum fallvörnum undir gólfbitana og gipsplöturnar. Hins vegar var talið að unnt hefði verið að tryggja frekar öryggi starfsmanna með því að leggja þvert ofan á bitana mannheldan við sem þeir hefðu getað gengið eftir. Vísað var til þess að Þ þekkti vel til aðstæðna, væri lærður húsasmíðameistari og hefði allnokkru reynslu af störfum á því sviði. Að því virtu var talið að Þ hefði mátt vita hvaða ráðstafana væri þörf við þessar aðstæður og að honum hafi átt að vera ljós sú hætta sem stafaði af því að fara um svæðið með þeim hætti sem hann gerði. Ekki var talið að Í hefði átt að gefa Þ sérstök fyrirmæli eða leiðbeiningar þar að lútandi og var í ljósi atvika fremur talið að það hefði verið í verkahring Þ að bregðast við þessu, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980. Var slysið ekki talið verða rakið til atvika sem Í bar ábyrgð á og Í því sýknað af kröfu Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2005. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum 9.302.765 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.738.897 krónum frá 28. júlí 2001 til 28. apríl 2002, en af 9.302.765 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 930.386 krónum miðað við 4. mars 2003 og 676.989 krónum miðað við 26. mars 2003. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 19. ágúst 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að dómkrafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Aðaláfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram hafði aðaláfrýjandi og tveir aðrir smiðir með höndum það verkefni að einangra með steinull á milli gólfbita og klæða milligólf ofan við fyrirhugað verslunarrými í nýbyggingu við Smáralind í Kópavogi. Klætt hafði verið neðan á milligólfið með gipsplötum sem mynduðu loft verslunarrýmisins í fimm metra hæð frá steingólfi þess. Þangað komust aðaláfrýjandi og vinnufélagar hans með svokallaðri skæralyftu sem komið hafði verið fyrir utan við vegg verslunarrýmisins. Leggja átti steinullina ofan á gipsplöturnar, en loka svo milligólfinu með því að leggja spónaplötur ofan á steinullina og festa þær við gólfbitana. Verkið var komið nokkuð á veg í því rými sem um ræðir þegar aðaláfrýjandi slasaðist 28. júlí 2001 er hann féll á milli bitanna niður á steingólfið. 

Fallist er á með héraðsdómi að ekki verði séð að sérstök gönguleið hafi verið útbúin í umræddu rými og munu aðaláfrýjandi og áðurnefndir tveir vinnufélagar hans hafa stiklað eftir bitunum til að komast leiðar sinnar. Bilið á milli bitanna mun hafa verið 57 sm og þeir 5 sm á breidd. Í einni slíkri ferð skrikaði aðaláfrýjanda fótur, steig á gipsklæðninguna, sem gaf sig með fyrrgreindum afleiðingum. Í skýrslu Vinnueftirlitsins segir að orsakir slyssins megi rekja til þess að hvorki voru til staðar fallvarnir né öryggisbelti.

Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína á því að verkstjórn hafi verið áfátt og öryggisráðstafanir af hálfu gagnáfrýjanda ekki verið fullnægjandi. Málsaðilar eru þó sammála um að erfitt hafi verið að koma því við að láta menn fara um svæðið á loftinu, festa með líflínum, en margir metrar voru upp í þak hússins þar sem aðaláfrýjandi telur að þurft hefði að festa slíkar línur. Ekki verður heldur séð hvernig koma hefði átt við sérstökum fallvörnum undir gólfbitana og gipsplöturnar. Hins vegar var augljóslega unnt að tryggja frekar öryggi starfsmanna á umræddu svæði með þeim einfalda hætti að leggja þvert ofan á bitana mannheldan við sem þeir hefðu getað gengið eftir. Fram er komið að aðaláfrýjandi þekkti vel til aðstæðna, en hann hafði unnið við að setja gipsplöturnar upp í loft verslunarrýmisins undir bitana sem hann féll af. Aðaláfrýjandi er lærður húsasmíðameistari og hefur allnokkra reynslu af störfum á því sviði. Mátti hann vita hvaða ráðstafana væri þörf við þær aðstæður sem um ræðir. Átti honum að vera ljós sú hætta sem stafaði af því að fara um svæðið með því að stikla eftir þverbitunum. Verður ekki talið að þörf hafi verið á að gagnáfrýjandi gæfi honum sérstök fyrirmæli eða leiðbeiningar þar að lútandi. Eins og atvikum málsins er háttað má raunar fremur telja það hafa verið í verkahring aðaláfrýjanda sjálfs að bregðast við þessu, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Verður samkvæmt þessu ekki talið að slysið verði rakið til atvika sem gagnáfrýjandi ber ábyrgð á. Ber því að sýkna hann af kröfu aðaláfrýjanda.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Ístak hf., er sýkn af kröfu aðaláfrýjanda, Þórs Kolbeinssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Gjafsóknarskostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2005.

Mál þetta var höfðað 23. júní 2004 og dómtekið 28. f.m. Stefnandi er Þór Kolbeinsson,  Granaskjóli 17, Reykjavík. Stefndi er Ístak hf., Engjateigi 7, Reykjavík. Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjár­hæð 9.302.765 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af 2.738.897 krónum frá  28. júlí 2001 til 28. apríl 2002 en af 9.302.765 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags; allt að frádregnum eftirtöldum greiðslum: Eingreiðslu frá réttargæslustefnda vegna slysa­tryggingar launþega stefnda að fjárhæð 930.386 krónur þann 4. mars 2003 og eingreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 676.989 krónur þann 26. mars 2003.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en honum var veitt gjafsóknarleyfi 17. mars 2004.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og máls­kostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur hans verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

I

Stefnandi réðst þann 10. apríl 2001 til starfa til stefnda í tímabundið verkefni sem húsasmiður við byggingu verslanamiðstöðvarinnar Smáralindar.  Átti samningi að vera lokið er verkefni stefnda við verslanamiðstöðina væri lokið en það var 10. október 2001.

Stefnandi er fæddur 3. nóvember 1958.  Hann lauk sveinsprófi sem húsas­miður 1989 og fékk meistararéttindi 1992.  Hann hefur þó starfað fá ár við húsa­smíðar.  Hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur árið 1995 en hefur ekki starfað á því sviði.  Hann hefur m.a. gegnt ýmsum störum á sviði félags- og sjúkraþjónustu og samhliða störfum hjá stefnda var hann í 30% starfi hjá Landspítala.

Þann 28. júlí 2001 var stefnandi við vinnu sína í Smáralind og vann að því ásamt smiðunum Thor Johan Skoradal og Per Hejll að einangra með steinull á milli gólfbita og klæða milligólf  ofan við fyrirhugað verslunarrúmi á austurenda.  Klætt hafði verið neðan á milligólfið með samfelldum gipsplötum sem munduðu loft versl­unar­­rýmisins í um 5 metra hæð frá steingólfi.  Komið hafði verið fyrir skæralyftu við sveigmyndaða vesturhlið milliloftsins til að komast þar að en unnið var út frá gagnstæðri hlið eins og eðlilegt mun hafa verið þar sem þar voru hornréttir fletir en þar á bak við varð ekki komist upp á milligólfið.  Kl. um 10 kom stefnandi upp með lyftunni og stiklaði frá henni sem leið hans lá eftir gólfbitunum sem lágu í sömu stefnu og gönguleið hans yfir á svæði þar sem klæðning var komin á gólfið og steinullin, sem hann ætlaði að fara að leggja, var geymd.  Þetta svæði var í nokkurra metra fjarlægð frá þeim stað þar sem stigið var úr lyftunni.  Bilið milli bitanna er 57 sm og þeir eru 5 sm (eða 2 tommur) á breidd (þykkt).  Á leiðinni skrikaði stefnanda fótur þannig að hann steig á gifsklæðninguna sem gaf sig með þeim afleiðingum að hann féll niður á steingólfið og slasaðist.  Hann hafði hjálm á höfði.  Lögreglu og Vinnueftirliti ríkisins var þegar tilkynnt um slysið.  Í skýrslu Gylfa Más Guðjónssonar, aðstoðarumdæmis­stjóra Vinnueftirlitsins, segir að hann hafi farið strax á staðinn til vettvangsrannsóknar og hafi aðstæður þá verið óbreyttar.  Búið hafi verið að flytja hinn slasaða á slysa­deild.  Auk lögreglumanna hafi Svanur Reynisson, verkstjóri slasaða, og Thor Johan Skoradal, samstarfsmaður hans sem hafi verið sjónarvottur að slysinu, verið á staðnum.  Þeir hafi sýnt sér aðstæður og lýst aðdraganda slyssins.  Í skýrslunni segir:  “. . . Aðstæður á slysstað voru þær að ekki höfðu verið settar fallvarnir þar af neinu tagi, hvorki ofan á gólfbitana eða undir, eins og skylt er skv. gr. 31.2 og 33.6 í B. hluta IV. viðauka í reglum nr. 547/1996.  Ekki voru heldur notuð öryggisbelti í líflínu sbr. gr. 33.9 í sömu reglum.  Orsök slyssins virðist alfarið mega rekja til þess að hvorki fallvarnir né öryggisbelti voru til staðar. . . . Gerð var krafa um að komið yrði í veg fyrir fallhættu við einangrunarvinnu og klæðningu á milligólfi eða að starfsmenn yrðu látnir nota öryggisbelti.  Myndir voru teknar á slysstað.”

Við fallið hlaut stefnandi fjöláverka, m.a. opið beinbrot á vinstri upphandlegg og millikjúkulið vinstri handar, fjögur rif brotnuðu og hann fékk blæðingu í brjóstholi ásamt ýmsum minni áaverkum, mari og sárum.  Guðmundur Björnsson læknir og Birgir G. Magnússon hdl. mátu fyrir aðila málsins afleiðingar slyssins með tilliti til skaðabótalaga.  Matsgerð er dagsett 30. janúar 2003.  Samkvæmt henni telst tíma­bundið atvinnutjón stefnanda vera 100% í níu mánuði, hann hafi verið veikur í níu mánuði, þar af fjóra daga í rúmlegu, stöðugleikapunktur er metinn 28. apríl 2002, varanlegur miski, sem og hefðbundin læknisfræðileg örorka, stefnanda er metinn 20% og varanleg örorka 15%.

Frammi liggur staðfesting stefnda á því að mánaðarlaun stefnanda hafi numið 305.000 krónum og að hann hafi haldið dagvinnulaunum, þ.e. 46.000 krónum á viku, til 27. janúar 2002.  Samkvæmt framlögðu bréfi verkefnastjóra launadeildar Land­spítala námu meðallaun stefnanda síðustu þrjá mánuði fyrir slysið 79.494 krónum.  Hann hafi fallið út af launum vegna veikinda 17. nóvember 2001 og heildarlaun frá því slysið varð hafi numið 247.851 krónu.  Þann 1. mars 2002 hafi stefnandi komið til starfa í 30% starf eins og áður og heildarlaun fyrir mars og apríl 2002 hafi numið 229.015 krónum.

Með bréfi lögmanns stefnanda 30. október 2001 var réttargæslustefnda tilkynnt um slysið.  Í svarabréfi, dags. 21. janúar 2002, segir að fallist sé á greiðsluskyldu úr slysatryggingu launþega vegna slyssins.  Hins vegar telji félagið að slysið verði einkum rekið til stórfelldrar eigin sakar tjónþola og sé greiðsluskyldu úr ábyrgðar­tryggingu vátryggingartaka, þ.e. stefnda, því hafnað.

Stefnandi skaut afstöðu réttargæslustefnda til tjónanefndar vátryggingar­félaganna sem komst að þeirri niðurstöðu að stefndi bæri ekki bótaskyldu.  Stefnandi skaut síðan málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem komst að þeirri niðurstöðu 15. ágúst 2003 að stefnandi ætti rétt á að fá tjón sitt bætt að 1/3 hluta en bera 2/3 hluta þess vegna eigin sakar.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2003, setti lögmaður stefnanda fram sundurliðaða bótakröfu, samtals að upphæð 9.312.728 krónur, á hendur réttargæslustefnda á grund­velli framangreindrar matsgerðar.

Tekjur stefnanda hafa verið þannig samkvæmt framlögðum gögnum, þ.e. stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars: Árið 1998 1.432.462 krónur, árið 1999 2.031.209 krónur, árið 2000 1.571.512 krónur og árið 2001 3.568.570 krónur.

II

Krafa stefnanda er byggð á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem stefnandi varð fyrir í starfi sínu, samkvæmt almennu skaðabótareglunni og reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda (húsbóndaábyrgð).  Stefnandi berið skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem sé afleiðing af þeirri háttsemi stefnda að sjá ekki til þess að setja upp fallvarnir á vinnustaðnum eða að starfsmenn notuðu öryggisbelti í líflínu.  Á stefnda og verkstjóra hans hafi hvílt ríkar og afdráttarlausar skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðvum og reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustu­hætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mann­virkjagerð.  Verkstjóri stefnda, Svanur Reynisson, hafi ekki varað stefnanda og samstarfsmenn hans við slysahættu né gefið fyrirmæli um aðferðir til að koma í veg fyrir slysahættu, sbr. þó ríkar skyldur er á honum hafi hvílt skv. 21. gr. laga nr. 46/1980, sbr. 23. gr. sömu laga.  Verkstjóra hafi verið vel kunnugt um hvernig starfsaðstaðan á milliloftinu var en látið það viðgangast hvernig verkið var unnið og engar ráðstafanir gert til þess að koma í veg fyrir slys.  Í reynd hafi verkstjóri komið ákaflega lítið að verkstjórn á svæðinu þar sem hann hafi haft yfirumsjón með mörgum vinnusvæðum á byggingarstaðnum og þurft að vera á sífelldum þönum milli einstakra svæða.

Stefnandi mótmælir fullyrðingu í bréfi réttargæslustefnda, dags. 21. janúar 2002, þess efnis að hann hafi átt að fara aðra leið út á milligólfið og að stefnandi hafi gengið eftir sperrum milligólfsins að nauðsynjalausu.  Stefnandi fullyrðir að sú leið, sem hann fór inn á milligólfið, hafi verið eina færa leiðin fyrir starfsmennina til að komast inn á gólfið.  Aðstæður við vinnu á umræddu milligólfi hafi verið erfiðar þar sem rúmið var þröngt og erfitt fyrir starfsmenn að athafna sig.  Stefnandi mótmælir einnig fullyrðingu í tilvitnuðu bréfi þess efnis að hann hafi fengið skýr fyrirmæli frá verkstjóra um að fara ekki út á sperrurnar en leggja að öðrum kosti plötur ofan á þær.  Engin fyrirmæli hafi legið fyrir frá verkstjóra, hvorki við upphaf vinnu né eftir að vinnan hófst, og aldrei hafi verið rætt um slysahættu af neinu tagi.

Bótakrafa stefnanda er þannig sundurliðuð:

1.                   Tímabundið atvinnutjón 1.350.457 krónur.  Á grundvelli mánaðarlauna, sem stefnandi hafði notið fyrir slysið, þ.e. 305.000 króna hjá stefnda og 79.494 króna hjá Landspítala, er krafist 384.494 króna fyrir mánuðina ágúst 2001 til og með apríl 2002 eða samtals 3.460.446 króna.  Til frádráttar þeirri fjárhæð koma 2.109.989 krónur sem nemur launum í veikindaleyfi frá stefnda og Landspítala, launum frá Landspítala í mars og apríl 2002 og greiðslum frá slysatryggingu launþega, Tryggingastofnum ríkisins og sjúkrasjóði.

2.                   Þjáningabætur 271.840 krónur; 1.810 krónur á dag í 4 daga eða 7.240 krónur og 980 krónur á dag í 270 daga eða 264.600 krónur, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993.

3.                   Varanlegur miski 1.116.600 krónur; 20% af 5.583.000 krónum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993.

4.                   Varanleg örorka 6.563.868 krónur og er eftirfarandi grein gerð fyrir kröfunni:  “Útreikningur örorkubóta miðast við meðaltekjur stefnanda síðustu mánuði fyrir slysið eða kr. 305.000.  Stefnandi er lærður smiður og hefur starfað við iðn sína með hléum frá árinu 1995.  Framtíðaráform hans fyrir slys voru að halda áfram störfum við smíðavinnu enda hóf hann störf sem slíkur nokkru eftir að hann varð aftur vinnufær og starfar nú sem verkstjóri á trésmíða­verkstæði  (Bergiðjunnar í Víðihlíð – innskot dómara).  Miðar stefnandi því við 2. mgr. 7. gr. í þessu sambandi enda laun síðustu mánuði fyrir slysið réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda en árslaun síðustu þrjú árin fyrir slysið en þá vann stefnandi við ýmis störf.  Miðað við þessar forsendur hefðu árslaun fyrir slysið numið samtals kr. 3.660.000 sem uppreiknuð með vísitölu og 6% álagi vegna lífeyrissjóðsgreiðslna atvinnurekanda nema kr. 4.505.212 x 9.713 x 15% örorkustig eða samtals kr. 6.563.868.  Allt að frádreginni eingreiðslu frá réttargæslustefnda vegna slysatryggingar launþega stefnda að fjárhæð kr. 930.000 þann 4.3.2003 og eingreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð kr. 676.989 þann 26.3.2003.”

III

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda þar sem tjónið verði ekki rakið til atvika sem hann beri ábyrgð á að lögum.  Því er mótmælt að hann hafi brotið gegn skyldum, sem á honum hvíli samkvæmt lögum nr. 46/1980 og reglum nr. 547/1996.  Í því efni er lögð áhersla á að stefnanda hafi verið gefin skýr fyrirmæli um að fara ekki út á bitana heldur velja aðra leið, þ.e. fara eftir stokk en einnig hafi verið unnt að fara eftir steyptri gólfplötu sem þarna hafi verið.  Einnig hafi stefnanda verið gefin skýr fyrirmæli um að færi hann út á bitana skyldi hann áður leggja plötur ofan á þá til að varna falli milli þeirra og hins vegar hafi gólfið verið treyst þar sem steinullin var geymd og þar hafi starfsmenn getað hafst við.  Þá hafi í ljósi menntunar og starfsreynslu verið hægt að krefjast þess af stefnanda að hann ætti frumkvæði að því að notast við líflínur og öryggisbelti enda hvort tveggja tiltækt, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980.

Jafnvel þótt dómurinn fallist á að stefndi hafi að einhverju leyti farið á svig við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli er því hafnað sem ósönnuðu að orsaka­samband sé milli þess og tjónsins sem varð.  Þvert á móti hafi óhappið eingöngu verið að rekja til stórfellds aðgæsluleysis stefnanda sjálfs.  Hann hafi tekið verulega áhættu sem honum hafi hlotið að vera ljós enda vanur trésmiður á fimmtugsaldri.

Varakrafa stefnda er annars vegar byggð á því að lækka eigi bætur verulega vegna eigin sakar stefnanda.

Hins vegar er varakrafan byggð á því að lækka beri þær bætur vegna líkamstjóns sem kröfugerð stefnanda hljóðar um og er sú krafa þannig rökstudd:

1.                   Því er mótmælt að stefnandi hafi verið óvinnufær lengur en til 1. mars 2002 er hann hóf störf hjá Landspítala.  Þá er því mótmælt að miðað verði við þau laun sem stefnandi hafði hjá stefnda lengur en til 10. október 2001 er verklok urðu í Smáralind eða í mesta lagi til þess tíma, 27. janúar 2002, er hann fékk ekki lengur greidd dag­vinnu­laun frá stefnda.  Stefnandi hafi sönnunarbyrði um að hann hefði getað farið í sambærilegt starf að loknum hinum tímabundna ráðningarsamningi við stefnda. 

2.                   Þjáningabætur beri að miða við að stefnandi hafi verið veikur í rúma sjö mánuði eða til 1. mars 2002.

3.                   Stefndi mótmælir því að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga  sé uppfyllt og því skuli miða árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varan­lega örorku við  meðaltekjur stefnanda síðustu mánuði fyrir óhappið heldur skuli samkvæmt 1. mgr. sömu greinar miða við meðaltekjur áranna 1998-2000, þ.e. 1.678.396 krónur að viðbættu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, þ.e. stöðugleika­punkts.  Þá er því mótmælt hvernig stefnandi hagi vísitölureikningi ofan á árslaun.

4.                   Upphafstíma dráttarvaxta og vaxtaútreikningi er mótmælt.

IV

Þegar umrætt slys varð þurfti stefnandi, vegna þess verkefnis sem hann vann við, að fara að gólfinu þar sem steinullin var geymd og hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins að þar hafi starfsmenn getað hafst við eins og haldið er fram af hálfu stefnda.  Ekkert er fram komið um hvaða steypta gólfplötu átt er við sem stefndi heldur fram að stefnandi hafi getað farið eftir í stað þess að stikla eftir gólfbitum.  Varðandi stokk eða rennu, sem lá til hliðar við milligólfið, bar stefnandi að þar hefðu einungis verið gipsplötur.  Um það bar vitnið Svanur Reynisson, verkstjóri stefnda, að þar hefðu átt að vera mannheldar mótaplötur.  Hann kvað öryggisbelti og líflínur hafa verið geymd á lager í hinum enda 2. hæðar byggingarinnar.  Vitnin Thor Johan Skoradal og Per Hejll báru að þeim starfsfélögunum hefðu ekki verið gefin nein sérstök fyrirmæli um öryggismál, aðeins almennt að þeir skyldu vera varkárir.  Einnig báru þeir að eina leiðin að gólfinu þar sem steinullin var geymd hafi verið eftir gólfbitunum.  Ósannað er að stefnanda hafi verið gefin fyrirmæli sem lúta að öryggisatriðum.

Ótvírætt er  að slysið hefði ekki orðið ef öryggisreglum hefði verið fylgt svo sem fullyrt er í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins.  Þar er einkum að geta fallvarna, sbr. greinar 31.2 og 33.6 í B-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996 en einnig greinar 33.9 í B-hluta tilvitnaðs viðauka um öryggisbelti í líflínu sem þó tekur aðeins til þeirra tilvika er fallvörn verður ekki við komið.  Stefnda var skylt að sjá um að öryggis­ráðstöfunum væri framfylgt, sbr. 23. gr. laga nr. 46/1980, og þar sem á því varð misbrestur ber að leggja á hann fébótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda vegna slyssins.  Hins vegar hlaut stefnanda að vera ljóst hve háskalegt væri að stikla eftir 5 sm breiðum gólfbitunum og á hinn bóginn að úrbætur væru auðveldar með því að leggja á þá palla.  Niðurstaða dómsins er sú að skipta beri sök þannig að stefndi bæti stefnanda helming tjóns hans en sjálfur beri hann tjón sitt að hálfu.

Enda þótt stefnandi hafi starfað í mars og apríl 2002 var þar aðeins um að ræða 30% starfshlutfall og verður miðað við tímabil óstarfshæfni eins og það var metið í framangreindri matsgerð.  Laun þessara mánaða koma hins vegar til frádráttar bótum ásamt öðrum þeim frádráttarliðum sem endanleg kröfugerð stefnanda lýtur að.  Í samræmi við kröfugerð stefnanda verður að fullu miðað við mánaðarlaunin 305.000 krónur það tímabil sem hér um ræðir þótt starfi stefnanda hjá stefnda hefði lokið 10. október 2001 samkvæmt samningi.  Ekki varð til þess ætlast að stefnandi hefði á þeim tíma sem slysið varð leitað fyrir sér um aðra atvinnu og verður ekki lögð á hann sönnunarbyrði um að hann hafi átt kost á sambærilegu starfi.  Samkvæmt þessu er fallist á að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi numið 1.350.457 krónum.

Samkvæmt framansögðu og með því að andmæli stefnda í greinargerð lúta einungis að þeirri tímalengd sem miða skuli útreikning þjáningabóta við er fallist á kröfugerð stefnanda um þjáningabætur að upphæð 271.840 krónur.

Fallast ber á kröfugerð stefnanda vegna varanlegs miska, sem sætir ekki rökstuddum andmælum, um 1.116.600 krónur.

Varðandi kröfulið stefnanda sem lýtur að bótum vegna varanlegrar örorku er fallist á andmæli stefnda.  Ekkert er fram komið um það að tekjuöflun stefnanda hafi verið óvenjuleg eða afbrigðileg árin 1998 -2000, sbr. meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þannig að réttlæti að 2. mgr. sömu laga verði beitt.  Tjón stefnanda að þessu leyti verður þannig ákveðið:  2.362.668 krónur x 9.711 x 15% = 3.441.581 króna.  Til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 4. gr. skaðabótalaga koma greiðsla frá réttargæslustefnda vegna slysatryggingar launþega stefnda að upphæð 930.386 krónur og greiðsla örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins að upphæð 676.989 krónur eða samtals 1.607.375 krónur.  Niðurstaða 1.834.206 krónur.

Samkvæmt þessu nemur óbætt tjón stefnanda 4.573.103 krónum.  Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda helming þeirrar fjárhæðar, 2.286.552 krónur, með vöxtum eins og greinir í dómsorði, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og III. kafla sömu laga og málskostnað til ríkissjóðs sem er ákveðinn 200.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutnings­­laun lögmanns hans, Hjördísar E. Harðardóttur héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur en útlagður kostnaður nemur 9.871 krónu.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Ístak hf., greiði stefnanda, Þór Kolbeinssyni, 2.286.552 krónur með 4.5% ársvöxtum af 1.369.449 krónum frá 28. júlí 2001 til 28. apríl 2002 en af 2.286.552 krónum frá þeim degi til 27. mars 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði 200.000 krónur sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Hjördísar E. Harðardóttur héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur.