Hæstiréttur íslands

Mál nr. 721/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kröfulýsing
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 28. nóvember 2013.

Nr. 721/2013.

LBI hf.

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

gegn

þrotabúi BG Holding ehf.

(Reimar Pétursson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Frávísun frá héraðsdómi. Aðfinnslur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum L hf. á hendur þrotabúi B ehf. Í málinu krafðist L hf. aðallega viðurkenningar á eignarrétti í peningum í vörslum varnaraðila en til vara á veðrétti í innstæðum á nánar tilgreindum bankareikningum, í báðum tilvikum vegna endurgreiðslu á fjármagnstekjuskatti. Í málinu lá fyrir að krafa L hf. kom fram eftir lok kröfulýsingarfrests. Taldi skiptastjóri þrotabúsins um nýja kröfu að ræða sem ekki hefði verið formlega lýst í þrotabúið. Yrði slíkri kröfu lýst tæki hann afstöðu til hennar eftir almennum reglum. Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar sagði að af gögnum málsins yrði ráðið að skiptastjóri hefði ekki fjallað um kröfuna í samræmi við 121. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 2. mgr. 120. gr. þeirra, áður en hann beindi kröfu til héraðsdóms um úrlausn ágreinings. Krafa L hf. hefði því ekki sætt þeirri lögboðnu meðferð sem mælt væri fyrir um í lögum nr. 21/1991 og voru því ekki skilyrði til þess að vísa ágreiningi um kröfuna til héraðsdóms á þessu stigi málsins. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2013 þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og ,,aðallega að viðurkenndur verði eignarréttur sóknaraðila í peningum í vörslum varnaraðila sem endurgreiddir hafa verið eða verða síðar endurgreiddir vegna staðgreiðslu af fjármagnstekjum sem dregin var af bankareikningum varnaraðila nr. ... Til vara að viðurkennt verði að veðréttur sóknaraðila í innstæðum á bankareikningum varnaraðila nr. ... skv. handveðsyfirlýsingum dags. 9. júlí og 15. september 2008 nái til peninga sem endurgreiddir hafa verið eða verða síðar endurgreiddir vegna staðgreiðslu á fjármagnstekjum sem dregin var af innstæðu reikninganna.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var haldinn skiptafundur í varnaraðila 29. nóvember 2012 til að jafna ágreining um kröfu sóknaraðila sem hann lýsti 21. maí 2012 meðal annars á grundvelli lánssamnings við BG Holding ehf. Á fundi þessum upplýsti skiptastjóri varnaraðila um endurgreiðslu ofgreidds fjármagnstekjuskatts til varnaraðila. Sóknaraðili lýsti þeirri skoðun að hann teldi sig kunna að eiga veðrétt í ,,endurgreiddum fjármagnstekjuskatti frá Tollstjóra þar sem endurgreiðslan eigi mögulega rætur að rekja til útgreiðslna af innlánsreikningum sem bankinn“ hafi átt veðrétt í.

Með bréfi skiptastjóra til sóknaraðila 13. desember 2012 var skorað á sóknaraðila að upplýsa um hvort haldið yrði til streitu kröfu um veðrétt í endurgreiddum fjármagnstekjuskatti. Í svarbréfi sóknaraðila til skiptastjóra sama dag var  rakið að sóknaraðili hefði fengið að veði innstæður á innlánsreikningum í eigu BG Holding ehf. með tilgreindum handveðsyfirlýsingum. Þá segir þar að ,,eftir bestu vitund LBI voru þær fjármagnstekjur sem Tollstjóri er að endurgreiða tilkomnar vegna fjármagnstekna BGH í formi vaxta af þeim innstæðum sem voru á ofangreindum innlánsreikningum, til viðbótar við þær fjármagnstekjur sem BGH hafði af veðsettum peningamarkaðsinnlánum“. Jafnframt sagði í bréfi þessu að sóknaraðili byggði veðrétt sinn í endurgreiðslu tollstjórans á því að greiddir vextir af innstæðunum væru veðsettir sem hluti af hinum veðsettu innstæðum og teldi sóknaraðili að ofgreiddur fjármagnstekjuskattur af vöxtum af innstæðunum tilheyrði veðandlaginu.

Í svarbréfi skiptastjóra til sóknaraðila 19. desember 2012 var þessum sjónarmiðum sóknaraðila hafnað. Að auki sagði í niðurlagi bréfsins að hann liti svo á að krafa um endurgreiðslu ofgreidds fjármagnstekjuskatts teldist ný krafa í þrotabúið. Slíkri kröfu hafi ekki verið lýst með formlegum hætti, hvorki af hálfu sóknaraðila né annarra aðila og kröfulýsingarfrestur fyrir nokkru liðinn. Yrði slíkri kröfu hins vegar lýst í þrotabúið tæki skiptastjóri afstöðu til hennar eftir almennum reglum. Var í niðurlagi bréfsins enn skorað á sóknaraðila að upplýsa um hvort haldið yrði til streitu sjónarmiðum um handveðrétt í endurgreiddum fjármagnstekjuskatti.

Ekki verður af gögnum málsins ráðið að frekari bréfaskipti hafi orðið milli skiptastjóra og sóknaraðila um ofangreint álitaefni, en með bréfi 3. janúar 2013 beindi skiptastjóri kröfu til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, til úrlausnar ágreiningi um hvort sóknaraðili kynni að eiga veðrétt í endurgreiðslu tollstjóra til þrotabúsins á ofgreiddum fjármagnstekjuskatti.

Eins og rakið er í ofangreindu svarbréfi skiptastjóra 19. desember 2012 kom krafa sóknaraðila fram eftir lok kröfulýsingarfrests. Um meðferð slíkra krafna er fjallað í 121. gr. laga nr. 21/1991, en þar segir að skiptastjóri skuli svo fljótt sem verða megi taka afstöðu til þess hvort og hvernig hún skuli viðurkennd. Af gögnum málsins verður ráðið að skiptastjóri hafði ekki fjallað um kröfuna í samræmi við 121. gr. laganna og 2. mgr. 120. gr. þeirra, áður en hann beindi kröfu til héraðsdóms um úrlausn ágreinings, enda taldi hann í fyrrgreindu bréfi sínu að um nýja kröfu í búið væri að ræða sem ekki hefði verið lýst. Krafa sóknaraðila hefur því ekki sætt þeirri lögboðnu meðferð sem framangreind ákvæði mæla fyrir um og voru því ekki skilyrði til þess að vísa ágreiningi um kröfuna til héraðsdóms á þessu stigi málsins.

Samkvæmt framansögðu ber að vísa máli þessu frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Það athugast að eftir að aðilar lögðu fram greinargerðir fyrir Hæstarétti hvor fyrir sitt leyti lagði varnaraðili fram svonefnd andsvör til að svara málatilbúnaði í greinargerð sóknaraðila og lagði sá síðarnefndi í kjölfarið fram athugasemdir fyrir sitt leyti við andsvör varnaraðila. Fyrir þessum skriflega málflutningi aðilanna er engin lagaheimild og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2013.

                Mál þetta var þingfest 22. febrúar 2013 og tekið til úrskurðar 23. september sl.

                Sóknaraðili er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Álfheimum 74, Reykjavík.

                Varnaraðili er þrotabú BG Holding ehf., Lækjargötu 2, Reykjavík.

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að viðurkenndur verði eignarréttur sóknaraðila í peningum í vörslum varnaraðila sem endurgreiddir hafi verið eða verði síðar endurgreiddir vegna staðgreiðslu af fjármagnstekjum sem dregin var af bankareikningum varnaraðila nr. 0106-38-200[...] og 0111-15-380[...]. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að veðréttur sóknaraðila í innstæðum á bankareikningum varnaraðila nr. 0106-38-200[...] og 0111-15-380[...] samkvæmt handveðsyfirlýsingum, dags. 9. júlí og 15. september 2008, nái til peninga sem endurgreiddir hafi verið eða verði síðar endurgreiddir vegna staðgreiðslu af fjármagnstekjum sem dregin var af innstæðu reikninganna. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Dómkröfur varnaraðila eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

I

                Varnaraðili átti um árabil í bankaviðskiptum við sóknaraðila. Átti varnaraðili meðal annars innstæður á tveimur innlánsreikningum hjá sóknaraðila, nr. 0160-38-200[...], en innstæður á honum voru í breskum sterlingspundum, og nr. 0111-15-380[...], en innstæður á þeim reikningi voru í íslenskum krónum. Með handveðsyfirlýsingum 9. júlí og 15. september 2008 var sóknaraðila veitt handveð í innstæðum reikninganna til tryggingar skuldum varnaraðila.

                Fram til 9. október 2008 voru innstæðurnar á innlánsreikningum hjá sóknaraðila. Við stofnun Nýja Landsbankans hf., nú Landsbankinn hf., fluttust innstæður á innlánsreikningunum tveimur frá sóknaraðila og yfir til Landsbankans hf., í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda sóknaraðila til Nýja Landsbanka Íslands hf.

                Varnaraðili var dótturfélag Baugs Group hf. og að öllu leyti í eigu þess. Hann var eigandi hluta í félögum utan Íslands, einkum á Bretlandseyjum, s.s. í Iceland Foods Group Limited, Aurum Holdings Limited, Corporal Limited, móðurfélagi leikfangaverslunarinnar Hamley´s og Highland Group Holdings Limited, móðurfélagi smásölukeðjunnar House of Fraser. Þann 6. febrúar 2009 var kveðinn upp úrskurður í High Court of Justice í Lundúnum þar sem skipaðir voru tilsjónarmenn (e. administrators) yfir búi varnaraðila að kröfu sóknaraðila. Baugur Group hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2009.

                Þann 19. apríl 2010 tilkynnti sóknaraðili varnaraðila að gengið hefði verið að innstæðum á framangreindum innlánsreikningum hans. Tilkynningunni var beint til dómskipaðra tilsjónarmanna varnaraðila í Bretlandi. Næsta dag, 20. apríl 2010, óskaði sóknaraðili eftir því við Landsbankann hf. að innstæður á innlánsreikningum varnaraðila yrðu millifærðar á bankareikninga sóknaraðila og að innlánsreikningarnir yrðu í kjölfarið eyðilagðir. Var það gert dagana 21. apríl 2010 og 4. maí 2010. Annars vegar var um að ræða innstæðu að fjárhæð 11.307.552.028 krónur af reikningi nr. 0160-38-200[...] og hins vegar innstæðu á reikningi nr. 0111-15-380[...] að fjárhæð 4.647.726.732 krónur.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012 var bú BG Holding ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili lýsti kröfu í þrotabú varnaraðila með kröfulýsingu 21. maí 2012. Krafan byggðist meðal annars á lánssamningi nr. 10524, dags. 19. desember 2007, milli Landsbanka Íslands hf., sem lánveitanda, BG Holding ehf., sem lántaka, og Baugs Group hf., sem ábyrgðaraðila. Höfuðstólsfjárhæð lánssamningsins nam 28.000.000.000 króna. Í kröfulýsingu sóknaraðila kemur fram að við útreikning kröfu vegna lánssamnings nr. 10524 hafi meðal annars verið tekið tillit til innborgana 21. apríl 2010 af reikningi nr. 0111-15-380[...], á grundvelli handveðsyfirlýsingar frá 15. september 2008 að fjárhæð 4.647.726.732 krónur og 21. apríl og 4. maí 2010 af reikningi nr. 0106-38-200[...], á grundvelli handveðsyfirlýsingar frá 9. júlí 2008, að fjárhæð 57.787.164,92 bresk pund.

                Skiptastjóri varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila og andmælti sóknaraðili þeirri afstöðu bréflega 21. júní 2012. Mótmælin voru ítrekuð á skiptafundi sem haldinn var í þrotabúinu 22. júní 2012 til að fjalla um lýstar kröfur í samræmi við 120. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Á skiptafundinum gerði skiptastjóri kröfuhöfum grein fyrir því að hann hefði notið liðsinnis löggilts endurskoðanda við athugun á bókhaldi varnaraðila. Hefði sú athugun leitt í ljós að svo virtist sem varnaraðili ætti inneign á fjármagnstekjuskatti, en ekki hefðu verið staðin skil á skattframtölum gjaldárin 2009, 2010 og 2011 í framtalsfresti fyrir viðkomandi ár og varnaraðili hafi því sætt áætlun opinberra gjalda við álagningu vegna þeirra gjaldára. Skiptastjóri greindi frá því að hann hygðist innheimta fjármagnstekjuskattinn fyrir varnaraðila.

                Skattframtölum varnaraðila fyrir framangreind gjaldár var skilað til ríkisskattstjóra og þess óskað að álagning vegna þeirra yrði byggð á framlögðum skattframtölum í stað áætlaðra skattstofna, sbr. ákvæði 101. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Með úrskurði ríkisskattstjóra 13. nóvember 2012 varð embættið við beiðni varnaraðila um að álagning fyrir gjaldárið 2009 yrði byggð á innsendu skattframtali varnaraðila í stað áætlaðra tekjustofna og skyldi samkvæmt því endurgreiða varnaraðila fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum, samtals 36.623.477 krónur. Á grundvelli úrskurðarins greiddi embætti Tollstjóra varnaraðila 33.644.688 krónur 16. nóvember 2012. Ekki hefur enn verið tekin afstaða til erindis varnaraðila vegna annarra gjaldára.

                Haldinn var fundur vegna ágreinings um kröfu sóknaraðila 23. nóvember 2012 en ekki tókst að jafna ágreining aðila. Á skiptafundi 29. nóvember 2012 lagði skiptastjóri fram upplýsingar um endurgreiðslu fjármagnstekjuskatts til varnaraðila. Kom þar fram það sjónarmið sóknaraðila að hann kynni að eiga veðrétt í hinum endurgreidda fjármagnstekjuskatti. Var þeirri afstöðu sóknaraðila andmælt af hálfu skiptastjóra varnaraðila. Var skorað á sóknaraðila að leggja fram gögn til stuðnings sjónarmiðum sínum og var sú áskorun ítrekuð bréflega 13. desember 2012. Í bréfi sóknaraðila sama dag kom fram að sóknaraðili byggði veðrétt sinn á ákvæðum 4. gr. framangreindra handveðsyfirlýsinga. Með bréfi, dags. 19. desember 2012, hafnaði skiptastjóri varnaraðila sjónarmiðum sóknaraðila.

                Með bréfi 3. janúar 2013, mótteknu 4. sama mánaðar, var ágreiningi aðila vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

II

                Sóknaraðili kveðst byggja aðalkröfu sína á því að með því að hann hafi gengið að innstæðum á bankareikningum varnaraðila nr. 0106-38-200[...] og 0111-15-380[...] hafi eignarréttur á því sem hafi fallið undir handveðið færst yfir til hans. Hann hafi öðlast eignarrétt yfir öllu hinu veðsetta þ. á m. fjármunum í vörslum þriðja manns, sem í þessu tilfelli hafi verið ríkissjóður. Vegna þessa beri að viðurkenna eignarrétt sóknaraðila á peningum sem dregnir hafi verið af reikningunum vegna staðgreiðslu og séu í vörslum varnaraðila og jafnframt á þeim peningum sem síðar kunni að berast varnaraðila af sömu ástæðum.

                Verði ekki fallist á að eignarréttur yfir peningum í vörslum ríkissjóðs hafi flust yfir til sóknaraðila þegar hann hafi gengið að veðinu byggi sóknaraðili á því til vara að viðurkenndur verði veðréttur í samræmi við varakröfu hans. Þær vaxtatekjur sem varnaraðili hafi haft af bankareikningunum hafi verið veðsettar sóknaraðila, sbr. 4. gr. handveðsyfirlýsinga. Ekki verði séð af gögnum málsins að ágreiningur sé um að kröfur varnaraðila um endurgreiðslur byggist á staðgreiðslu fjármagnstekna sem hafi komið til vegna framangreindra reikninga. Þeir fjármunir sem vörsluaðili umræddra innstæðna hafi innheimt, í samræmi við fortakslaus ákvæði laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu á fjármagnstekjur, hafi því fallið undir veðrétt sóknaraðila. Þurfi þá einungis að taka afstöðu til þess hvort millifærsla fjármunanna af bankareikningum valdi því að veðréttur sóknaraðila falli niður.

                Sóknaraðili byggi á því að veðréttur hans yfir þeim fjármunum sem hafi verið greiddir falli ekki niður við tímabundna millifærslu þeirra til ríkissjóðs enda sé um að ræða arð af veðinu sem falli óumdeilanlega undir veðrétt sóknaraðila samkvæmt þeim samningum sem í gildi hafi verið á milli sóknaraðila og varnaraðila. Varnaraðila beri skylda til að skila fjármununum til sóknaraðila í samræmi við samninga aðila, sbr. framlagðar handveðsyfirlýsingar. Um þetta sé einnig vísað til meginreglna veðréttar og meginreglu 3. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.

                Sóknaraðili bendi á að innheimta staðgreiðslu jafngildi ekki endanlegri greiðslu á kröfu til ríkissjóðs heldur sé um skilyrta bráðabirgðagreiðslu að ræða sem háð sé endanlegri ákvörðun um skattskyldu sem eigi sér stað við álagningu Ríkisskattstjóra, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts fari því ávallt fram óháð því hvort skattskylda sé til staðar. Í tilviki varnaraðila sé staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts því bráðabirgðagreiðsla upp í væntanlegan álagðan tekjuskatt. Eins og horfi við í þessu máli hafi varnaraðila ekki borið að greiða neinn tekjuskatt og því hafi ofgreidd staðgreiðsla verið endurgreidd til varnaraðila. Þá sé áætlað að um frekari endurgreiðslur verði að ræða. Eins og framkvæmd staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts sé háttað að þessu leyti sé ríkissjóður eingöngu að afla sér tryggingarréttinda fyrir væntanlegri álagningu tekjuskatts sem veðréttur sóknaraðila víki fyrir. Þar sem ekki hafi verið efni til að nýta þann tryggingarrétt af hálfu ríkissjóðs standi eftir veðréttindi sóknaraðila. Að mati sóknaraðila séu ekki efni til þess að veðréttur sóknaraðila falli niður sökum ónýtts betri réttar ríkissjóðs, til hagsbóta fyrir varnaraðila. Ekki sé hægt að styðja brottfall veðréttar varnaraðila við ákvæði laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts feli í sér takmörkun á óbeinum eignarréttindum sóknaraðila og byggist á því að eðlilegt sé að skýra reglur, er mæli fyrir um slíka takmörkun, þröngt.

                Þeirri afstöðu varnaraðila, að veðréttur sóknaðila hafi fallið niður þar sem veðandlagið sé ekki lengur fyrir hendi, sé mótmælt. Andlag veðs sóknaraðila sé samkvæmt handveðsyfirlýsingum innstæður á bankareikningunum auk alls arðs sem falli til vegna þeirra. Eins og fram hafi komið telji sóknaraðili óumdeilt að staðgreiðsla hafi verið greidd af reikningunum og þess vegna hafi þeir peningar sem hafi verið greiddir verið veðsettir sóknaraðila þar til sýnt hafi verið fram á skattskyldu varnaraðila. Handveð hafi stofnast vegna peninganna og handveðréttur sóknaraðila hafi notið réttarverndar með því að varnaraðila sem veðsala samkvæmt handveðsyfirlýsingum hafi verið óheimilt að ráðstafa hinu veðsetta.

                Þá sé jafnframt mótmælt þeirri afstöðu varnaraðila að umráð veðhafa og vörslur hans á hinu veðsetta séu forsenda þess að handveðréttur teljist gildur. Sóknaraðili telji þessa afstöðu varnaraðila byggða á misskilningi. Vörslur veðhafa séu ekki gildisskilyrði handveðréttar. Um þetta sé meðal annars vísað til meginreglna veðréttar og til 22. og 7. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.

                Þegar varnaraðili hafi skilað skattframtölum fyrir árin 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012 hafi komið í ljós að honum hafi ekki borið að greiða tekjuskatt vegna tekna áranna 2008 til 2010. Staðgreiðsla ársins 2008 hafi verið endurgreidd til varnaraðila og samkvæmt áætlun hans muni koma til frekari endurgreiðslna vegna áranna 2009 og 2010. Eins og fram hafi komið stafi þeir peningar sem komi til endurgreiðslu frá staðgreiðslu af vaxtatekjum sem veðsettar hafi verið sóknaraðila. Sóknaraðili byggi á því að veðréttur hans nái til þessara endurgreiðslna.

                Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið byggi sóknaraðili jafnframt á því að allt að einu verði að líta á endurgreiðslu á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts sem verðmæti sem komi í stað hins upphaflega veðandlags. Hann eigi veðrétt í slíkum verðmætum samkvæmt meginreglum veðréttar á sama hátt og gildi t.d. um tryggingabætur þegar hið veðsetta skemmist eða farist.

                Sóknaraðili vísi til almennra meginreglna samninga-, kröfu- og veðréttar. Um friðhelgi eignarréttarins sé vísað til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Einnig sé vísað til laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, einkum 1., 3. og 4. gr. laganna. Þá vísi sóknaraðili til laga nr. 75/1997 um samningsveð, einkum 7. og 22. gr. laganna, og til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málskostnaðarkrafa byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar styðjist við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en samkvæmt 10. tölulið 3. mgr. 2. gr. laganna sé sóknaraðili undanþeginn virðisaukaskatti og geti því ekki nýtt sér virðisaukaskatt í rekstri sínum.

III

                Varnaraðili kveðst benda á að um sé að ræða nýja kröfu sóknaraðila í bú varnaraðila, enda hafi kröfunni ekki verið lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests. Hann byggi kröfu sína á því að samkvæmt ákvæðum handveðsyfirlýsinga í málinu hafi innstæður varnaraðila, eins og þær hafi verið á hverjum tíma, verið settar sóknaraðila að handveði, en ekki verði betur séð en að sóknaraðili leiði þann rétt sem hann krefjist viðurkenningar á af handveðsyfirlýsingunum og þeim innstæðum sem þar séu tilteknar.

                Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga, nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sé með ,,innstæðu“ átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá lánastofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum og millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum. Í þessu felist að varnaraðili hafi átt kröfur á hendur sóknaraðila sem ætlunin hafi verið að veðsetja með framangreindri veðsetningu. Í bankastarfsemi sé hefðbundið að veðsetja innstæður með handveðsyfirlýsingum samhliða öðrum tilhlýðilegum tryggingaráðstöfunum. Málatilbúnaður sóknaraðila sé byggður á því að þær handveðsyfirlýsingar sem sóknaraðili byggi dómkröfur sínar á nái yfir fleiri eignir en umræddar innstæður, þ.e. kröfur varnaraðila á hendur íslenska ríkinu um endurgreiðslu ofgreidds skatts. Sú krafa sé hins vegar almenn krafa í skilningi kröfuréttar. Væri sú krafa veðsett hefði veðsetningin þurft að hafa átt sér stað á grundvelli samnings og ákvæða IV. kafla C í lögum nr. 75/1997 um samningsveð og í samræmi við þau tilmæli sem þar sé að finna. Slíkri veðsetningu sé hins vegar ekki til að dreifa í málinu.

                Endurgreiðsla fjármagnstekjuskatts feli ekki í sér endurgreiðslu vaxta eða leiðréttingu á vaxtatekjum, heldur felst í henni endurgreiðsla á sköttum sem innheimtir hafi verið af opinberum aðilum lögum samkvæmt. Fjármagnstekjuskattur sé skattur sem innheimtur sé á grundvelli ákvæða laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Skattstofninn sem fjármagnstekjuskatturinn sé reiknaður af sé meðal annars vaxtatekjur. Slíkur skattur geti að mati varnaraðila, lögum samkvæmt, ekki talist undirorpinn eignarrétti sóknaraðila eða háður veðrétti hans. Varnaraðili bendi á að hefði hann staðið í skattskuld við innheimtumann ríkissjóðs, svo sem vegna vangoldinnar staðgreiðslu, virðisaukaskatts, tekjuskatts, eða vegna annarra skatta og opinberra gjalda, hefði innheimtumaður ríkissjóð ráðstafað inneign fjarmagnstekjuskatts til uppgreiðslu á öðrum ógreiddum sköttum varnaraðila. Við slíkar aðstæður sé óhugsandi að sóknaraðili hefði, lögum samkvæmt, getað andmælt slíkri ráðstöfun fjármagnstekjuskatts varnaraðila á grundvelli þess eignarréttar eða veðréttar sem hann teldi sig eiga. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna dómkröfum sóknaraðila.

                Samkvæmt meginreglum VI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé ótvírætt að sóknaraðili hafi sönnunarbyrðina fyrir þeim eignarrétti eða veðrétti sem hann krefjist viðurkenningar á. Varnaraðili telji hann ekki hafa fært fram lögfulla sönnun og beri því að hafna dómkröfum hans.

                Varnaraðili telji aðalkröfu sóknaraðila vanreifaða. Hann hafi ekki fært fram lögfulla sönnun fyrir eignarrétti sínum á hinum endurgreidda fjármagnstekjuskatti eða sýnt með nokkrum hætti fram á að slíkur eignarréttur hafi stofnast. Sá eignarréttur sem sóknaraðili krefjist viðurkenningar á styðjist ekki við neinar gildar eignarheimildir. Þannig liggi hvorki fyrir samningar um eignarrétt sóknaraðila á hinum endurgreidda fjármagnstekjuskatti, né styðji réttarheimildir eða aðrar eignarheimildir aðalkröfu sóknaraðila. Varnaraðili mótmæli því alfarið að leiða megi slíkan eignarrétt sóknaraðila af þeim tryggingarréttindum sem handveðsyfirlýsingunum hafi verið ætlað að tryggja sóknaraðila.

                Þeir fjármunir sem sóknaraðili krefjist viðurkenningar á eignarrétti yfir hafi hvorki verið í umráðum eða vörslum sóknaraðila. Þvert á móti hafi umráð og vörslur þeirra ýmist verið á hendi varnaraðila eða opinberra aðila. Hvorugur þeirra hafi haft fjármunina í sínum vörslum og umráðum fyrir eða í umboði sóknaraðila. Í ljósi þess mótmæli varnaraðili því að eignarréttur sóknaraðila í þeim fjármunum sem krafist sé viðurkenningar á hafi nokkurn tíma stofnast. Skorti að öllu leyti á að sóknaraðili hafi haft þær eignarheimildir yfir fjármununum sem leitt geti til þess að á eignarrétt hans yfir þeim yrði fallist, samkvæmt meginreglum eignaréttarins.

                Varnaraðili mótmæli því að þegar sóknaraðili hafi gengið að innstæðum varnaraðila og þær verið færðar yfir til sóknaraðila hafi stofnast eignarréttur sóknaraðila á þeim fjármagnstekjuskatti sem varnaraðila hafi síðar verið greiddur. Þegar sóknaraðili hafi gengið að innstæðum reikninganna hafi einungis innstæðurnar, eins og þær hafi verið á þeim tíma á innlánsreikningum varnaraðila í Nýja Landsbankanum hf., færst yfir til sóknaraðila. Um aðra yfirfærslu réttinda eða fjármuna hafi ekki verið að ræða. Því sé mótmælt að með millifærslu innstæðnanna yfir á reikning sóknaraðila hafi stofnast eignarréttur sóknaraðila á öðrum og síðar tilkomnum réttindum en þeim innstæðum sem sóknaraðili hafi gengið að.

                Í kjölfar þess að sóknaraðili hafi gengið að innstæðum á innlánsreikningum varnaraðila hafi reikningarnir verið eyðilagðir fyrir tilverknað sóknaraðila. Með fullnustu veðanna og í kjölfar eyðileggingar reikninganna hafi handveðréttur sóknaraðila samkvæmt handveðsyfirlýsingunum fallið niður, enda hafi veðandlögin ekki lengur verið til staðar og þeir innlánsreikningar sem þau hafi verið geymd á og tilgreindir séu í handveðsyfirlýsingunum ekki lengur til. Sóknaraðili beri hallann af því að reikningar varnaraðila hafi verið eyðilagðir, en með eyðileggingu þeirra hafi sóknaraðili girt fyrir að á þeim mynduðust frekari innstæður og þar með frekari réttindi.

                Sóknaraðili hafi enga fyrirvara gert eða áskilnað um frekari réttindi er hann hafi gengið að innstæðum varnaraðila á innlánsreikningunum, hvorki gagnvart vörsluaðila innstæðnanna, Nýja Landsbankanum hf., né varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili tilkynnt umsjónarmönnum varnaraðila í hinni bresku greiðslustöðvun með bréfi, dags. 19. apríl 2010, að hann hefði gengið að umræddum veðum án fyrirvara um frekari réttindi samkvæmt þeim.

                Allt frá þeim tíma, eða í rúm þrjú ár, hafi sóknaraðili ekki gert nokkrar tilraunir til þess að innheimta eða fá umráð og vörslur þeirra fjármuna sem hann krefjist nú viðurkenningar á eignarrétti yfir. Á þessu langa tímabili hafi hann engar ráðstafanir gert til að tryggja að skattframtölum varnaraðila yrði skilað til skattayfirvalda og ekki krafið þau um hinn ofgreidda fjármagnstekjuskatt eða tilkynnt þeim um þann eignarrétt sem nú sé krafist viðurkenningar á. Þá beri gögn málsins með sér að þegar til endurgreiðslunnar hafi komið hafi hvorki embætti Ríkisskattstjóra né Tollstjóra verið í neinum vafa um hver gæti talið til réttinda yfir henni og hafi hún verið greidd inn á fjárvörslureikning skiptastjóra varnaraðila, enda hafi hún verið eign varnaraðila en ekki sóknaraðila. Með vísan til framangreinds telji varnaraðili ljóst að sóknaraðili eigi ekkert eignarréttarlegt tilkall til þeirra fjármuna sem hann krefjist, heldur séu þeir eign varnaraðila sem varin séu af ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Að öllu þessu virtu beri að hafna aðalkröfu sóknaraðila.

                Krafa um höfnun varakröfu sóknaraðila byggist í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að þær handveðsyfirlýsingar sem hann byggi kröfur sínar á teljist gildar handveðsetningar samkvæmt meginreglum veðréttar og ákvæðum laga nr. 75/1997 um samningsveð, svo sem 22. gr., og skuli hafa réttaráhrif sem slíkar. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að innlánsreikningar varnaraðila hafi verið læstir eða að ráðstöfun varnaraðila á þeim innstæðum sem á reikningunum hafi verið hafi sætt slíkum takmörkunum að sannað þyki að varnaraðili hafi verið sviptur vörslum þeirra. Sóknaraðili hafi því ekki sannað að skilyrði meginreglna veðréttar og ákvæða laga um samningsveð um vörslusviptingu innstæðanna séu uppfyllt, sem sé forsenda þess að um gilda handveðsetningu hafi verið að ræða. Beri þegar af þeirri ástæðu að hafna dómkröfu sóknaraðila. Þá séu slíkir annmarkar á formi og efni handveðsyfirlýsinganna að öðru leyti að draga verði í efa að þær uppfylli skilyrði laga til að um gilda veðsetningu hafi verið að ræða sem njóta skuli réttarverndar.

                Í öðru lagi sé byggt á því að sóknaraðili geti ekki átt handveðrétt í fjármunum sem þegar hafi verið greiddir til þriðja aðila, út af þeim innlánsreikningum sem tilgreindir séu í handveðsyfirlýsingunum. Teljist handveðsetning innstæðnanna hafa verið gild, hafi hún augljóslega fallið úr gildi eftir að hluta þeirra hafi verið ráðstafað til íslenska ríkisins til greiðslu á fjármagnstekjuskatti. Við þá ráðstöfun fjármunanna til þriðja aðila hafi skilyrði handveðsetningarinnar ekki lengur verið uppfyllt, með vísan til meginreglna veðréttar og ákvæða laga um samningsveð, sbr. 22. gr. laganna.

                Í þriðja lagi sé byggt á ákvæðum og skilmálum handveðsyfirlýsinganna tveggja. Því sé mótmælt að hinn endurgreiddi fjármagnstekjuskattur hafi verið veðsettur sóknaraðila á grundvelli 4. gr. handveðsyfirlýsinganna eða annarra ákvæða þeirra. Fullyrðingar sóknaraðila um veðsetningu endurgreidds fjármagnstekjuskatts séu ósannaðar og styðjist hvorki við ákvæði handveðsyfirlýsinganna, né við ákvæði annarra samninga aðila málsins, enda hafi aldrei verið samið um slíka handveðsetningu. Það sé skilyrði veðsetningar að hún byggist á gildum veðsamningi þar sem hið veðsetta sé sérstaklega tilgreint. Það skilyrði sé ekki uppfyllt í málinu. Samkvæmt 1. gr. handveðsyfirlýsinganna beggja hafi varnaraðili sett innstæðu sína „eins og hún er á sínum tíma“ að handveði til tryggingar á öllum skuldum sínum gagnvart sóknaraðila. Í 4. gr. segi: ,,Handveðréttur veðhafa nær til hvers konar arðs af hinu veðsetta. Handveðréttur nær til allrar innstæðu bankareikningsins, hverju nafni sem nefnist hvort sem um höfuðstól, vexti, verðbætur eða annað er að ræða.“ Hið handveðsetta hafi því verið innstæður varnaraðila, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og þær voru á hverjum tíma á innlánsreikningum varnaraðila. Veðsetningin hafi því takmarkast við fjárhæð þeirra innstæðna sem settar hafi verið að handveði eins og þær voru á hverjum tíma, þ. á m. þegar sóknaraðili hafi gengið að veðunum. Ekki hafi verið samið um víðtækari veðsetningu í því kröfuréttarsambandi sem aðilar málsins hafi stofnað til við gerð handveðsyfirlýsinganna.

                Handveðsyfirlýsingarnar tvær séu á stöðluðum eyðublöðum undir nafni sóknaraðila og beri þess merki að hafa verið samdar af honum sjálfum, en sóknaraðili sé fjármálafyrirtæki. Gera verði ríkar kröfur til slíkra fyrirtækja um að veðsamningar sem þeir geri séu skýrir og glöggir og feli í sér ótvíræðar sannanir fyrir þeim veðréttindum sem um ræði og falli undir skilmála veðsamninganna. Hvergi sé þess getið í 4. gr. handveðsyfirlýsinganna að veðsetningin nái til ofgreiddra skatta, hverju nafni sem þeir nefnist, eða til endurgreiðslna vegna þeirra. Varnaraðili dragi raunar í efa að mögulegt sé að setja skattgreiðslur eða endurgreiðslur þeirra að handveði með þeim hætti sem sóknaraðili haldi fram. Varnaraðili telji að til þess að sá handveðréttur sem sóknaraðili krefjist viðurkenningar á kynni með einhverjum hætti að taka til endurgreiðslna á fjármagnstekjuskatti eða öðrum sköttum hefði að lágmarki verið nauðsynlegt að semja um þá veðsetningu sérstaklega og tilgreina hana með skýrum og ótvíræðum hætti í þeim handveðsyfirlýsingum sem varakrafa sóknaraðila byggist á, með vísan til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar, en einnig til meginreglna veðréttar, sbr. 3. gr. laga um samningsveð. Slík samningsákvæði eða slíka tilgreiningu sé ekki að finna í handveðsyfirlýsingunum, hvorki í 4. gr., né í öðrum ákvæðum þeirra. Þar sem slíka tilgreiningu skorti algjörlega, og sönnun fyrir veðrétti sóknaraðila sé hvorki ótvíræð né skýr, beri að hafna kröfu hans. Getur hún ekki notið réttarverndar samkvæmt meginreglum veðréttar og ákvæðum laga um samningsveð.

                Í fjórða lagi mótmæli varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að viðurkenna beri veðrétt hans í hinum endurgreidda fjármagnstekjuskatti þar sem í honum felist endurgreiðsla á „arði“ af hinum veðsettu innstæðum. Sú málsástæða styðjist hvorki við meginreglur veðréttarins né ákvæði 6. gr. laga um samningsveð um töku arðs af veði. Þá skorti alfarið að sóknaraðili hafi fært sönnur fyrir því að endurgreiddur fjármagnstekjuskattur teljist arður í skilningi 4. gr. handveðsyfirlýsinganna, meginreglna veðréttar og 6. gr. laga um samningsveð. Endurgreiðsla fjármagnstekjuskatts til varnaraðila feli ekki í sér endurgreiðslu vaxta eða leiðréttingu á vaxtatekjum, heldur endurgreiðslu á sköttum sem innheimtir hafi verið af opinberum aðilum lögum samkvæmt. Útilokað sé að líta á endurgreiddan fjármagnstekjuskatt sem arð af hinu veðsetta hvort sem er í hefðbundnum skilningi þess hugtaks, samkvæmt almennum meginreglum veðréttarins eða ákvæðum laga um samningsveð.

                Varnaraðili bendi í fimmta lagi á að sóknaraðili hafi gengið að innstæðum eins og þær hafi verið á bankareikningum varnaraðila dagana 21. apríl 2010 og 4. maí 2010 og innlánsreikningarnir verið eyðilagðir fyrir tilverknað sóknaraðila. Þar með hafi handveðréttur sóknaraðila fallið niður, enda hafi veðandlögin ekki verið lengur til staðar og þeir innlánsreikningar sem þau hafi verið geymd á ekki lengur til. Þegar sóknaraðili hafi gengið að veðunum hafi hann fengið þær greiðslur sem skilmálar handveðsyfirlýsinganna hafi tryggt honum. Sú greiðsla hafi verið endanleg, enda hafi sóknaraðili hvorki gert áskilnað eða fyrirvara um frekari rétt á grundvelli handveðsyfirlýsinganna tveggja, heldur sæst á að um endanlega greiðslu væri að ræða og eyðilagt innlánsreikningana í kjölfarið. Með eyðileggingu innlánsreikninganna hafi sóknaraðili girt fyrir að frekari innstæður og þar með frekari veðsett réttindi mynduðust á þeim innlánsreikningum. Því sé mótmælt að veðréttur sóknaraðila hafi þremur árum síðar raknað við og nái nú til annarra og síðar tilkominna fjármuna sem greiddir hafi verið af þriðja aðila til varnaraðila inn á fjárvörslureikning skiptastjóra varnaraðila.

                Þá byggi varnaraðili í sjötta lagi á því að frá því að sóknaraðili hafi gengið að hinum veðsettu innstæðum hafi hann engar tilraunir gert til þess að innheimta eða fá umráð þeirra fjármuna sem hann krefjist nú viðurkenningar á veðrétti í. Tómlæti sóknaraðila felist meðal annars í því að hvorki hann né aðilar á hans vegum, s.s. erlendir umsjónarmenn varnaraðila í hinni bresku greiðslustöðvun, hafi gert ráðstafanir til að tryggja að skattframtölum varnaraðila yrði skilað til skattyfirvalda, krafið þau um endurgreiðslu ofgreidds fjármagnstekjuskatts eða tilkynnt að endurgreiðsla hans væri handveðsett sér. Fjármunirnir sem um ræði hafi hvorki verið í umráðum eða vörslum sóknaraðila. Umráð og vörslur þeirra hafi ýmist verið á hendi skattyfirvalda eða varnaraðila. Því njóti sá veðréttur sem sóknaraðili krefjist viðurkenningar á ekki réttarverndar í skilningi 2. mgr. 22. gr. laga um samningsveð. Þar við bætist að sóknaraðili hafi ekki beint neinum tilkynningum til skattyfirvalda eða opinberra aðila um veðsetningu fjármunanna. Slík tilkynning sé skilyrði réttarverndar handveðsetningarinnar, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um samningsveð. Í ljósi þess sé veðrétturinn ekki til staðar og njóti ekki réttarverndar, með vísan til 2. og 3. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997.

                Þrátt fyrir að staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts, samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, feli í sér bráðabirgðagreiðslu upp í væntanlegan álagðan tekjuskatt eða önnur opinber gjöld, þá leiði sú staðreynd að breytingar kunni að verða á endanlegum fjármagnstekjuskatti varnaraðila ein og sér ekki til þess að veðréttur sóknaraðila, sem ekki hafi verið samið um, stofnist í ofgreiddum fjármagnstekjum komi til endurgreiðslu þeirra.

                Þá sé því mótmælt að sóknaraðili geti stutt varakröfu sína við ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga um samningsveð. Það ákvæði veðlaga kveði, samkvæmt orðanna hljóðan, einungis á um skyldu veðhafa til að skila veðsala hinu veðsetta, en felli ekki skyldur á veðsala sem sóknaraðili getur stutt dómkröfur sínar við.

                Því sé enn fremur mótmælt að líta beri á endurgreiddan fjármagnstekjuskatt sem verðmæti sem hafi komið í stað hins upphaflega veðandlags, þ.e. innstæðna varnaraðila á bankareikningum hans. Innstæður á innlánsreikningum varnaraðila verði ekki lagðar að jöfnu við skatta sem innheimtir séu lögum samkvæmt. Málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti standist ekki skoðun og styðjist ekki við gildar réttarheimildir. Varakrafa sóknaraðila verði heldur ekki byggð á meginreglum veðréttar um réttaráhrif þess að hið veðsetta skemmist, farist eða eyðileggist, þegar af þeirri ástæðu að innlánsreikningarnir hafi verið eyðilagðir fyrir tilverknað sóknaraðila sjálfs. Hallann af því verði sóknaraðili sjálfur að bera, en geti ekki byggt á henni rétt.

                Varnaðili vísi til almennra meginreglna eignarréttar og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Jafnframt vísi hann til almennra meginreglna samninga-, kröfu- og veðréttar, ákvæða laga nr. 75/1997 um samningsveð, einkum 3. gr., 6. gr., 3. mgr. 7. gr. og 2. og 3. mgr. 22. gr., en einnig til ákvæða IV. kafla laganna. Einnig sé vísað til ákvæða laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, einkum 4. mgr. 9. gr. laganna, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., s.s. 72. og 73. gr., og laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Um sönnun og sönnunarbyrði sé vísað til meginreglna VI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málskostnaðarkrafa varnaraðila sé byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnaðarfjárhæðina styðjist við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

                Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að því hvort viðurkenna skuli eignarrétt eða veðrétt sóknaraðila í fjármagnstekjuskatti sem hefur verið endurgreiddur varnaraðila eða mun verða endurgreiddur honum síðar á grundvelli mála sem bíða afgreiðslu ríkisskattstjóra. Ágreiningur um hvort sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila er til umfjöllunar í öðrum ágreiningsmálum sem þegar hefur verið vísað til dómsins.

                Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila með kröfulýsingu, dags. 21. maí 2012, vegna lánasamninga og sjálfskuldarábyrgða. Til frádráttar kröfunni komu meðal annars greiðslur af innlánsreikningum varnaraðila á grundvelli handveðsyfirlýsinga svo sem áður hefur verið lýst. Kröfu sóknaraðila var lýst sem veðkröfu í bú varnaraðila, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en um veðrétt var vísað til hjálagðra veðsamninga og handveðsyfirlýsinga. Þá var, að því marki sem veðsettar eignir hrökkva ekki fyrir greiðslu krafnanna, þeim lýst sem almennum kröfum, sbr. 113. gr. laganna.

                Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem halda vill uppi kröfu á hendur þrotabúi lýsa henni fyrir skiptastjóra. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um hvernig kröfulýsing skuli vera úr garði gerð. Þar á meðal kemur fram að kröfur skuli tilteknar svo skýrt sem verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Sé kröfu ekki lýst áður en kröfulýsingarfresti lýkur fellur krafan gagnvart þrotabúinu niður, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, nema svo standi á sem greint er í sex töluliðum þeirrar lagagreinar. Eins og áður segir hafði varnaraðili uppi kröfu á grundvelli veðréttar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, en hér fyrir dóminum hefur hann aðallega krafist viðurkenningar á eignarrétti sínum, sbr. 109. gr. sömu laga, en til vara veðrétti samkvæmt 111. gr. Samkvæmt 4. tölulið 118. gr. laganna fellur krafa ekki niður þótt henni sé ekki lýst innan kröfulýsingarfrests sé um kröfu að ræða samkvæmt 109. gr. Þá þykir kröfu á grundvelli veðréttar vera nægjanlega lýst í kröfulýsingu. Verður kröfu sóknaraðila því ekki hafnað á grundvelli vanlýsingar.

                Aðalkrafa sóknaraðila byggist á því að með því að hann hafi gengið að innstæðum á reikningum varnaraðila hafi eignarréttur á því sem fallið hafi undir handveðið færst til sóknaraðila. Með því hafi hann öðlast eignarrétt yfir öllu hinu veðsetta, þar á meðal fjármunum í vörslum þriðja manns. Til vara byggir sóknaraðili á því að hann eigi veðrétt í fjármununum á grundvelli framlagðra handveðsyfirlýsinga.

                Samkvæmt 1. gr. handveðsyfirlýsinganna setti varnaraðili sóknaraðila að handveði innstæðu á bankareikningum nr. 0106-28-200[...] og nr. 0111-15-380[...], eins og hún var á hverjum tíma. Sóknaraðili byggir rétt sinn á 4. gr. yfirlýsinganna, þar sem segir að handveðréttur veðhafa nái til hvers konar arðs af hinu veðsetta. Veðrétturinn nái til allrar innstæðu bankareikninganna, hverju nafni sem nefnist og hvort sem um höfuðstól, vexti, verðbætur eða annað sé að ræða.

                Í samræmi við framangreint voru það innstæður varnaraðila á bankareikningum hans sem settar voru sóknaraðila að handveði. Hugtakið „innstæða“ er skilgreint í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en þar kemur fram að með innstæðu sé átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun.

                Óumdeilt er að fjármagnstekjuskattur sá sem hefur verið endurgreiddur varnaraðila og sá sem hann hefur óskað endurgreiðslu á var dreginn af framangreindum innlánsreikningum varnaraðila. Ljóst er að áður en þær fjárhæðir voru dregnar af reikningunum voru þær hluti hins veðsetta. Málatilbúnaður sóknaraðila byggist í raun á því að veðréttindi samkvæmt handveðsyfirlýsingunum nái til fleiri eigna en innstæðna bankareikninganna. Ekkert í orðalagi þeirra gefur til kynna að samið hafi verið um slíkt. Samkvæmt skýru orðalagi handveðsyfirlýsinganna voru það innstæður á innlánsreikningunum sem settar voru sóknaraðila að handveði, þ.m.t. sá arður og þeir vextir sem féllu til og urðu hluti innstæðunnar. Getur það ekki náð til þeirra fjármuna sem búið var að ráðstafa af reikningunum sem bráðabirgðagreiðslu tekjuskatts, jafnvel þótt mögulegt væri að fjárhæðin yrði endurgreidd varnaraðila við álagningu opinberra gjalda. Í handveðsyfirlýsingunum kemur skýrt fram að miðað verði við innstæðuna eins og hún sé á hverjum tíma. Sóknaraðili gekk að handveðinu og leysti til sín innstæður reikninganna eins og þær voru 21. apríl og 4. maí 2010. Í kjölfarið var reikningunum lokað og ómögulegt að leggja fjármuni inn á þá. Með því féll handveðsetningin niður og sóknaraðili átti ekki frekari kröfur gagnvart varnaraðila á grundvelli handveðsyfirlýsinganna.

                Sóknaraðili byggir jafnframt á því að líta verði á mögulega bráðabirgðagreiðslu tekjuskatts sem verðmæti sem komi í stað hins upphaflega veðandlags og hann eigi veðrétt í slíkum verðmætum. Ekki þykir unnt að fallast á þessa málsástæðu á grundvelli þess sem að framan greinir.

                Að framangreindu virtu verður kröfum sóknaraðila, aðallega um að hann njóti eignarréttar yfir peningum í vörslum varnaraðila sem endurgreiddir hafa verið eða verða síðar endurgreiddir vegna staðgreiðslu af fjármagnstekjum sem dregin var af framangreindum bankareikningum varnaraðila, en til vara að hann njóti veðréttar í framangreindu, hafnað.

                Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir eftir atvikum, og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kröfum sóknaraðila, LBI hf., á hendur varnaraðila, þrotabúi BG Holding ehf., er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.