Hæstiréttur íslands
Mál nr. 97/2009
Lykilorð
- Fölsun
- Gagnaöflun
- Sönnun
- Vitni
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 22. október 2009. |
|
Nr. 97/2009. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X (Jón Höskuldsson hrl.) |
Fölsun. Gagnaöflun. Sönnun. Vitni. Ómerking héraðsdóms.
X var ákærður fyrir peningafals með því að hafa sett í umferð tvo fimm þúsund króna seðla sem hann vissi að voru falsaðir, með því að greiða sendli með seðlunum fyrir mat og gos sem hann hafði pantað hjá PP ehf. Með dómi héraðsdóms var X sýknaður og þá aðallega með vísan til þess að verslunarstjóri PP ehf. sem tekið hafði við seðlunum til geymslu þar til lögregla tók við þeim, hafði ekki gefið skýrslu við meðferð málsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrst héraðsdómur taldi, eftir að hafa metið framburð ákærða og vitna, að nauðsynlegt væri að umræddur verslunarstjóri gæfi skýrslu fyrir dómi, hafi honum borið að beina því til ákæruvaldsins að leiða verslunarstjórann fyrir dóm, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991, sbr. núgildandi 2. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008, eftir atvikum að undangenginni endurupptöku málsins, sbr. 131. gr. laga nr. 19/1991, sbr. núgildandi 168. gr. laga nr. 88/2008. Var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til frekari gagnaöflunar og málsmeðferðar, svo og til dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2008 og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu Pizza Pizza ehf. verði vísað frá dómi.
Ákærða er gefið að sök að hafa laugardagskvöldið 20. október 2007 á dvalarstað sínum sett í umferð tvo fimm þúsund króna seðla, sem hann hafi vitað að voru falsaðir, með því að greiða sendli fyrir mat og gos sem hann hafi pantað. Í héraðsdómi er meðal annars lýst framburði sendilsins fyrir dómi sem er í samræmi við ákæruatriði. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að nafngreindur verslunar- eða vaktstjóri matsölustaðarins sem pantað var frá hafi óskað eftir aðstoð lögreglu sökum þess að hann væri með tvo falsaða fimm þúsund króna seðla undir höndum eftir viðskipti fyrr um kvöldið. Tveir lögreglumenn hafi farið á matsölustaðinn, átt samtal við verslunarstjórann sem afhent hafi þeim seðlana og sýnt kvittun fyrir kaupum þar sem seðlarnir hafi verið notaðir, en jafnframt tilkynnt að refsi- og bótakrafa yrði lögð fram. Því næst hafi lögreglumennirnir farið á dvalarstað ákærða, handtekið hann og fært á lögreglustöð. Eftir það hafi þeir farið á matsölustaðinn á ný og haft tal af sendlinum. Við húsleit á dvalarstað ákærða fannst bréf, sem ákærði staðfesti fyrir dómi að væri frá fyrrum samfanga sínum á Litla-Hrauni, þar sem sá maður kveðst ráðgera stórfellda fölsun á 5.000 króna seðlum og hvetur ákærða til að taka þátt í þeirri starfsemi. Framburður lögreglumannanna fyrir dómi er í samræmi við frásögn í frumskýrslunni, sem staðfest var af þeim lögreglumanni sem ritaði skýrsluna.
Í forsendum héraðsdóms vísar héraðsdómari til þess að verslunarstjóri matsölunnar hafi ekki gefið skýrslu við meðferð málsins. Því yrði ekkert fullyrt um hvernig seðlar þessir hafi verið geymdir fram að því að þeir hafi verið afhentir lögreglunni og þá hvort þeim hafi verið haldið aðgreindum frá öðrum seðlum. Eins og málið lægi fyrir væri ekki óhætt að slá því föstu að framlagðir seðlar væru þeir sem ákærði hefði afhent sendlinum. Af þeim sökum bæri að sýkna ákærða af ákæru og vísa skaðabótakröfu frá dómi.
Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr. laga nr. nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem í gildi voru við meðferð málsins í héraði. Þótt ekki falli undir verksvið dómara í sakamálum að afla sönnunargagna getur hann beint því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði máls eftir því sem honum þykir nauðsyn vera til skýringar á máli, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991, sjá nú 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fyrst héraðsdómur taldi, eftir að hafa metið framburð ákærða og vitna, að nauðsynlegt væri að umræddur verslunarstjóri gæfi skýrslu fyrir dómi, var tilefni fyrir hann að beina því til ákæruvalds að leiða verslunarstjórann fyrir dóm, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991, sjá nú 2. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008, eftir atvikum að undangenginni endurupptöku málsins, sbr. 131. gr. laga nr. 19/1991, sjá nú 168. gr. laga nr. 88/2008. Verður talið að honum hafi borið að beita þessu úrræði áður en hann lagði dóm á málið. Af þessum sökum verður að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til frekari gagnaöflunar samkvæmt framansögðu og málsmeðferðar eftir því sem efni verða til að henni lokinni, svo og til dómsálagningar að nýju.
Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar á ný, en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði þar með málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, X, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2008.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 8. ágúst sl. á hendur ákærða, X, kt. og heimilisfang [...], “fyrir peningafals, með því að hafa laugardagskvöldið 20. október 2007, á dvalarstað sínum að [...], Reykjavík, sett í umferð tvo fimm þúsund króna seðla, sem hann vissi að voru falsaðir, en ákærði greiddi sendli með seðlunum fyrir mat og gos sem hann hafði pantað.
Telst þetta varða við 151. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu Pizza Pizza ehf., kennitala 680795-2589, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 10.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. október 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.”
Málavextir.
Samkvæmt lögregluskýrslum í málinu var hringt til lögreglunnar frá mat-sölunni “Dominos” laugardagskvöldið 20. október í fyrra og kært yfir því að sendli frá fyrirtækinu hefði verið borgað með tveimur fölsuðum 5000-króna seðlum þegar hann fór með matarsendingu í [...] fyrr um kvöldið. Lögreglumenn fóru í matsöluna og fengu þar afhenta seðlana, en þeir fylgja málinu. Einnig fylgir nóta fyrir pizzum, kjúklingavængjum og fleiru, þar á meðal gosdrykkjum, til A, samtals að fjárhæð 6360 krónur. Lögreglumönnunum var sagt að pöntunin hefði verið afhent í kjallaranum á [...]. Þegar lögreglumenn knúðu þar dyra tók á móti þeim maður með því nafni og kannaðist við matarsendingu en kvaðst ekki hafa átt þar hlut að máli heldur kunningi hans, X að nafni. X þessi, ákærði í málinu, var þá staddur á 3. hæð hússins og fóru lögreglumennirnir þangað að hitta hann. Í húsi þessu er áfangaheimili samtakanna Verndar og var ákærði þar í afplánun. Í skýrslunni er það haft eftir honum að hann hefði pantað sér pizzu í símann hjá A, greitt fyrir hana með tveimur 5000-króna seðlum og fengið 3600 krónur til baka. Seðlana kvaðst hann hafa fengið annað hvort úr spilakassa eða í afgreiðslu spilavítis. Lögreglumennirnir leituðu í herbergi ákærða þarna í húsinu og fannst þar bréf B sem bar með sér að vera skrifað í fangelsinu á Litla-Hrauni. Er þar ráðagerð um það að falsa peningaseðla og kaupa fyrir þá fíkniefni af einhverjum Litháum og hagnast um milljónir á fyrirtækinu. Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöðina. Í skýrslunni segir að eftir að þangað kom hafi hann breytt frásögn sinni og kvaðst hafa selt farsíma sinn vini sínum, sem hann vissi ekki hvað héti, og fengið greiddar 10.000 krónur fyrir. Eftir pizzu-sendlinum, C, er það haft í skýrslunni að sá sem tók við sendingunni hefði virst mjög taugaóstyrkur og ekki ætlast til þess að fá til baka.
Halldór Guðjónsson rannsóknarlögreglumaður hefur rannsakað umrædda seðla og liggur frammi staðfest skýrsla hans um þá rannsókn. Það er niðurstaða rannsóknarlögreglumannsins að seðlar þessir séu falsaðir eins og sjá megi við nánari skoðun. Vanti vatnsmerki í pappírinn, öryggisþráð vanti og upphleypta prentun. Þá sé ekki að sjá örletur á tilteknum stað á seðlunum, málmþynnu vanti í þá og lýsandi reitur komi ekki fram í útfjólubláu ljósi. Þá séu þeir ekki í réttri stærð og illa skornir.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglunni daginn eftir atvikið. Kannaðist hann þá við að hafa greitt fyrir matarsendinguna frá “Dominos” með tveimur 5000-króna seðlum og ekki hafa gert sér grein fyrir því að seðlarnir voru falsaðir. Hann kvaðst hafa fengið seðlana daginn áður í spilavíti í Kjallara Rebbans í Hamraborg í Kópavogi. Hefði hann unnið dágóða fjárhæð í skiptimynt úr spilakössum og fengið henni skipt í þrjá 5000-króna seðla í afgreiðslunni. Þegar honum var sagt að á þessum stað væru eftirlitsmyndavélar og hægt væri að staðreyna hvort hann væri að segja satt breytti hann framburði sínum og sagði að verið gæti að hann hefði ekki verið þar deginum áður. Gæti hann hafa unnið peningana á einhverjum öðrum stað. Þá sagðist hann hafa selt farsíma sinn daginn áður og fengið greitt fyrir hann 10.000 krónur, einnig í 5000-króna seðlum. Hefði hann fengið ábendingu frá vini sínum, sem ákærði vildi ekki segja hver væri, um það að tiltekinn maður vildi kaupa farsíma. Hefði þessi vinur gefið manninum upp símanúmerið og maðurinn svo hringt. Hefðu þeir mælt sér mót í Laugardal og gengið frá kaupunum. Þegar hann var spurður hvort hann vildi leyfa það að lögreglan léti kanna hjá símafélaginu hvort þetta símtal hefði átt sér stað synjaði ákærði um það. Hann kannaðist þannig við að hafa haft á sér 25.000 krónur daginn áður en hafa greitt vini sínum, sem hann vildi ekki tilgreina, 15.000 króna skuld. Hann neitaði því að hafa verið taugaóstyrkur þegar hann borgaði fyrir matarsendinguna og sagði sendilinn, sem hafi verið útlendingur, hafa verið utan við sig. Þá kvaðst hann að sjálfsögðu hafa viljað fá peninga til baka. Þá var bókað eftir honum að hann afsalaði sér 3600 krónum sem hann var með á sér þegar hann var handtekinn. Síðar þennan dag var ákærði yfirheyrður aftur. Þá lýsti hann því yfir að hann hefði ekki unnið peningana í Rebba. Þá var hann spurður út í bréfið sem hjá honum fannst. Neitaði hann þá að hafa fengið seðlana senda með því bréfi og það sem B skrifaði þar um peningafölsun og fíkniefnakaup væru hugleiðingar hans eins, enda kvaðst hann vera hættur öllum afskiptum af fíkniefnum. Hann neitaði enn að gefa upplýsingar um þann sem keypti af honum farsímann.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði, sem neitar sök, kveðst hafa hringt um kvöldmatarleytið úr farsíma manns sem var í næsta herbergi og pantað sér pizzur í matinn og til þess að bjóða öðrum með sér. Um hálftíma seinna hefði lögreglan komið og “þá var ég víst með tvo falsaða seðla”. Hann kveðst hafa borgað með tveimur 5000-króna seðlum og hafi hann ekki vitað annað en að þeir væru ekta. Hann segir það ekki vera rétt að hann hafi ekki viljað fá til baka en maðurinn ekki virst skilja hann, enda verið útlenskur. Þá sé það ekki rétt að hann hafi verið taugaóstyrkur. Hann kveðst ekki vera viss um það hvar eða hvenær hann fékk seðlana í spilum. Hann segist hafa selt síma sinn einhverjum strák og getur hann ekki sagt hve löngu áður það var en hann notaði seðlana. Um bréfið segir hann að það sé frá B en fyrirætlanir bréfritarans séu sér óviðkomandi og peningarnir hafi ekki komið með bréfinu. Hann er spurður hvers vegna hann hafi breytt framburði sínum hjá lögreglu, eins og rakið var, og kveðst hann ekki vita það. Er framburður hans um þetta og spilavinninga hans einkar óljós. Hann kvaðst ekki vilja gefa frekari upplýsingar um sölu farsímans. Hann er spurður út í það sem hann sagði um fjárráð sín þennan dag í lögregluyfirheyrslum. Kvaðst hann ekki muna hvað hann sagði þá og getur ekki skýrt af hverju hann vilji ekki upplýsa um símasöluna. Hann segir það vera agabrot hjá þeim sem dvelja hjá Vernd ef lögreglan hefur af þeim afskipti. Segist hann hafa verið nýkominn þangað af Kvíabryggju þegar atburðurinn varð. Hafi honum verið vísað þaðan og hann lokið afplánuninni “á Skólavörðustíg”.
Jóhannes Gauti Sigurðsson lögreglumaður hefur skýrt frá því að því þeir lögreglumennirnir hafi fengið seðlana hjá verslunarstjóranum í “Dominos” í Skeifunni þegar þeir komu þangað fyrst. Ekki viti hann hvernig seðlarnir voru geymdir fram að því eða hvaðan verslunarstjórinn tók þá. Þá segir vitnið að ákærði hafi fyrst sagst hafa fengið seðlana í spilakassa eða einhverjum slíkum stað. Þegar á lögreglustöðina kom hafi hann sagst hafa selt vini sínum farsíma og fengið tvo seðla fyrir hann. Vitnið segist hafa rætt við pizzusendilinn og hafi hann talað um að maðurinn hafi ekki ætlast til að fá til baka og virst vera taugaóstyrkur. Hann segist hafa orðið þess áskynja að pappírinn í seðlunum hafi ekki verið venjulegur.
Gunnar Scheving Thorsteinsson lögreglumaður hefur skýrt frá því að þeir lögreglumennirnir hafi farið í matsöluna “dominos” og lagt þar hald á seðla sem álitnir voru falsaðir og verslunarstjórinn afhenti þeim. Þaðan hafi þeir farið á staðinn þar sem seðlarnir höfðu verið fengnir og hitt þar mann sem sagðist hafa lánað farsímann sinn. Hafi þeir haft tal af þeim sem hringt hafði og handtekið hann. Hafi hann sagst hafa fengið seðlana í spilakassa en svo, líklega eftir að á lögreglustöðina kom, hafi hann breytt framburði sínum og sagst hafa fengið þá frá vini sínum í greiðslu fyrir símann sinn. Hafi hann ekki getað sagt deili á þessum vini sínum. Frá lögreglustöðinni hafi þeir svo farið aftur í “Dominos” og hitt sendilinn og rætt við hann. Hafi hann sagt að hann hefði áttað sig á því að seðlarnir væru falsaðir eftir að hann kom úr sendiferðinni og hefði hann verið viss um að þessir seðlar væru frá þeim stað sem hann tiltók.
C, sá sem fór með matarsendinguna á [...], er fluttur úr landi en hann hefur gefið skýrslu um síma samkvæmt heimild í 3. mgr. 49. gr. oml. Hann hefur skýrt frá því að hann hafi að kvöldlagi verið sendur með stóra sendingu, nokkrar pizzur fyrir 6 7000 krónur, en ekki muni hann lengur hvert. Hafi hann kvatt dyra í kjallaraíbúð og piltur komið til dyra. Strákurinn hafi tekið pizzurnar og rétt á móti tvo 5000-króna seðla. Þarna hafi verið fremur dimmt og hann kveðst því ekki hafa séð vel til. Þegar strákurinn hafði rétt seðlana hefði hann eins og strax viljað fara í burtu. Hafi honum fundist þetta einkennilegt þar sem menn gefi ekki svona mikið þjórfé og sé þjórfé reyndar mjög sjaldan gefið og þá aðeins ef um er að ræða smáræði og sendillinn hafi ekki nóg að gefa til baka. Þá hafi hann fengið á tilfinninguna að seðlarnir væru eitthvað skrítnir. Hafi strákurinn virst vera eitthvað taugaóstyrkur og spurt hvort ekki væri allt í lagi, að því er honum skildist. Kveðst vitnið þá hafa kallað á eftir stráknum hvort hann vildi ekki fá til baka. Hafi hann svo gefið stráknum til baka og farið á pizza-staðinn aftur. Þar hafi hann getað skoðað seðlana í ljósi og séð að þeir voru ekki í lagi. Hafi þeir verið ljósari á litinn en aðrir seðlar og líkastir því að hafa verið prentaðir út úr venjulegum prentara. Kveðst hann hafa sagt vaktstjóranum af þessu og vaktstjórinn hafi hringt í lögregluna. Lögreglan hafi svo komið eftir um tvær klukkustundir. Kveðst hann hafa gefið lögreglunni nákvæmar upplýsingar um staðinn sem hann fór með sendinguna á. Hann segir seðlana sem hann var með í höndunum hafa verið sömu seðlana og hann fékk fyrir þessa tilteknu sendingu. Geti hann fullyrt það vegna þess að hann hafi ekki verið með neina aðra 5000-króna seðla á sér. Hann tekur fram að þegar slíkir seðlar fáist þurfi sendlarnir að skipta þeim, enda hafi þeir ekkert að gera með þá; geti ekki notað þá til þess að gefa til baka með þeim. Aðspurður segir vitnið að hann hafi farið á aðra staði þetta kvöld en í þessari ferð hafi hann aðeins farið á þennan eina stað þar sem sendingin hafi verið svo stór. Hann segist hafa verið með peningapoka sem hann hafi fengið í byrjun vaktarinnar og þá hafi verið í honum 2500 krónur í skiptimynt. Séu sendlarnir látnir hafa sama peningapokann allt kvöldið.
Halldór Guðjónsson rannsóknarlögreglumaður hefur staðfest skýrslu sína um rannsókn á seðlunum. Hann segir mál af þessu tagi ekki vera algeng. Þessir tilteknu seðlar geti ekki talist vera vel gerðir, enda sé engin tilraun til þess að falsa öryggisatriði. Sé um að ræða einfalda ljósritun á pappír sem sé frábrugðinn seðlapappír.
B hefur komið fyrir dóm. Kveðst hann ekki kannast við bréfið sem um ræðir og honum hefur verið eignað. Hann segist hafa verið í rugli á þessum tíma og muni ekkert eftir þessu. Hann segist ekki vera viss um hvort rithöndin er hans.
Niðurstaða.
Dómarinn hefur skoðað seðlana sem fylgja málinu og sannfærst um það að þau atriði í gerð þeirra, sem Halldór Guðjónsson rannsóknarlögreglumaður hefur fjallað um, útiloka það að seðlarnir séu ekta. Fram er komið að lögreglumennirnir tveir, sem fóru í matsöluna “Dominos”, tóku við seðlunum úr hendi verslunar- eða varðstjórans þar. Maður þessi, sem ætla má að hafi vegna starfa síns haft undir höndum fleiri peningaseðla en þessa tvo, hefur aldrei verið yfirheyrður í málinu. Verður því ekkert fullyrt um það hvernig seðlar þessir voru geymdir fram að því að þeir voru afhentir lögreglunni og þá hvort þeim hafði verið haldið aðgreindum frá öðrum seðlum. Eins og málið liggur fyrir er ekki óhætt að slá því föstu að seðlar þeir sem fylgja málinu séu þeir sem ákærði afhenti C á [ ] í umrætt sinn. Ber að sýkna ákærða af ákærunni og vísa bótakröfunni frá dómi.
Dæma ber að málsvarnarlaun til handa verjanda ákærða, Jóns Höskuldssonar hrl., 170.316 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skuli greiðast úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.
Málsvarnarlaun til handa verjanda ákærða, Jóns Höskuldssonar hrl., 170.316 kr., greiðist úr ríkissjóði.