Hæstiréttur íslands

Mál nr. 182/2001


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Íþrótt


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. nóvember 2001.

Nr. 182/2001.

Sveinn Jakobsson

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Höllu Haraldsdóttur

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Íþróttir.

H varð fyrir líkamstjóni er hún og S rákust saman í skíðabrekku með þeim afleiðingum að hún hlaut 25% varanlega örorku. Krafði hún S um skaðabætur vegna þessa. Engin vitni voru að slysinu, en með tilliti til áverka S og H, framburðar þeirra sjálfra og vitnis sem komið hafði að þeim eftir slysið, var ekki talið, að H hefði tekist að sanna, að S bæri einn alla sök á því, hvernig fór. Þótti því eðlilegt að skipta sök til helminga og var S dæmdur til greiðslu skaðabóta í samræmi við þá niðurstöðu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst áfrýjandi lækkunar dómkröfu á grundvelli sakarskiptingar og verði málskostnaður þá felldur niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, þó þannig að dráttarvextir frá 1. júlí 2001 verði ákveðnir á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Atvikum málsins og málsástæðum aðila auk sönnunargagna er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir varð stefnda fyrir líkamstjóni 5. febrúar 1996, þegar hún og áfrýjandi rákust saman í skíðabrekku við bæinn Kitzbühel í Austurríki með þeim afleiðingum, að hún hlaut af 25% varanlega örorku. Samkvæmt gögnum málsins fékk hún slæmt brot á hægra sköflungi við hnéð og marðist mjög á vinstri handlegg auk þess sem hún hlaut áverka í andliti. Engra læknisfræðilegra gagna nýtur um meiðsl áfrýjanda, en hann kveðst hafa marist allur á vinstri hlið og bólgnað á vinstri vanga. Enginn sjónarvottur var að slysinu sjálfu, engin rannsókn fór fram á vettvangi og engin gögn gefa til kynna, hvernig aðstæðum var í raun háttað, hvorki ljósmyndir né teikningar.

Skilja verður málflutning lögmanns áfrýjanda fyrir Hæstarétti svo, að áfrýjandi telji ekki lengur varúðarreglu umferðarlaga nr. 50/1987 eða 13. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar um váðaverk eiga við í málinu, en hann leggur áherslu á, að ákveðin áhætta fylgi ævinlega þátttöku í íþróttum. Eftir því sem við getur átt er réttmætt og eðlilegt, eins og héraðsdómur segir, að hafa í huga við sakarmat leiðbeiningarreglur Alþjóða skíðasambandsins F.I.S., en þær hafa ekki lagagildi.

Fallist er á það sönnunarmat héraðsdóms, að áfrýjandi hafi rennt sér nokkru síðar af stað niður hólinn en stefnda, en um óverulegan tímamun virðist þó vera að ræða. Af því leiðir ekki sjálfkrafa, að áfrýjandi hafi rennt sér hraðar en hún, svo að einhverju skipti, eða hann hafi valið skíðaleið sína þannig, að þeim, sem á undan fóru, væri hætta búin, sbr. 3. gr. F.I.S. reglnanna. Eins og mál þetta liggur fyrir er ósannað, að áfrýjandi hafi skollið aftan á stefndu, eins og haldið er fram. Verður það bæði ráðið af lýsingu á meiðslum þeirra beggja og framburði vitnis um það, hvernig þau lágu samsíða í brekkunni, þegar að var komið eftir slysið, hann á vinstri hlið en hún á bakinu og snéri þó ívið að honum. Fyrir héraðsdómi kvaðst stefnda heldur ekki hafa gert sér grein fyrir því, hvar áfrýjandi lenti á henni. Ekki var um bratta brekku að ræða og verður að leggja til grundvallar, að þau hafi hvort um sig rennt sér í sveig frá hólnum og leiðir þeirra skorist þannig um það bil 100 metrum neðar, að áfrýjandi hafi verið á hægri hönd stefndu. Með tilliti til áverkanna er langlíklegast, að þau hafi bæði verið komin langleiðina úr aflíðandi beygju og þá rekist saman en þó ekki alveg beint hvort framan á annað. Þau hafa bæði borið, að þau hafi ekki veitt för hins athygli, þótt aðstæður í brekkunni virðist hafa verið með besta móti, veður gott og fátt fólk á ferð. Er óhjákvæmilegt að líta svo á, að þar hafi verið um að kenna stundar aðgæsluleysi af hálfu beggja.  Stefndu hefur því ekki tekist að sanna, að áfrýjandi beri einn alla sök á því, hvernig fór. Eins og hér háttar til þykir eðlilegt að skipta sök til helminga.

  Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti lögmaður áfrýjanda því yfir, að ekki væru gerðar sérstakar athugasemdir við ákvörðun fjárhæða í héraðsdómi, en upphafstíma dráttarvaxta var mótmælt. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefndu helming þeirrar fjárhæðar, sem héraðsdómari ákvað, eða 1.284.934 krónur. Með hliðsjón af því, að Vátryggingafélag Íslands hf., ábyrgðartryggjandi áfrýjanda, hafði jafnan boðið stefndu til sátta að greiða helming tjóns hennar þykir rétt, að bótafjárhæðin beri ekki dráttarvexti fyrr en frá uppsögu héraðsdóms en 2% ársvexti frá slysdegi til þess dags.

Áfrýjandi skal greiða stefndu hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sveinn Jakobsson, greiði stefndu, Höllu Haraldsdóttur, 1.284.934 krónur með 2% ársvöxtum frá 5. febrúar 1996 til 29. mars 2001, dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí sama ár en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefndu samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2001.

Mál þetta sem dómtekið var hinn 1. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi er höfðað með stefnu birtri 17. nóvember sl. af Höllu Haraldsdóttur, kt. 011134-4919 Heiðarbrún 14, Keflavík, á hendur Sveini Jakobssyni, kt. 200731-3609, Holtsgötu 39, Njarðvík, og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík,

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda krónur 3.509.593 auk 2% ársvaxta af þeirri upphæð frá 5. febrúar 1996 til 9. ágúst 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum máls­kostnaðar­reikningi og að tildæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnandi er eigi virðisaukaskattskyld.

Dómkröfur stefnda Sveins Jakobssonar eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., og ekki eru gerðar kröfur af hans hálfu að öðru leyti en að krafist er málskostnaðar að mati dómsins. Réttargæslustefndi er ábyrgðartryggjandi stefnda.

I. Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni.

Málsatvik eru þau að aðilar voru saman í skíðaferð ásamt fleira fólki við skíðabæinn Kitzbühel í Austurríki. Mánudaginn 5. febrúar 1996 rákust stefnandi máls þessa, Halla Haraldsdóttir, og stefndi, Sveinn Jakobsson, saman í skíðabrekku með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist talsvert, hlaut hún slæmt brot á hægri sköflungi og meiðsli á öxl, leiddi þetta til þess að hún hefur verið metin til 25% varanlegrar örorku og var metinn 25% varanlegur miski. Slysið varð í góðu veðri við bestu aðstæður, brekkan þægileg og fátt fólk á ferð. Þau höfðu verið á skíðum einhverja stund og áð á hæð á leið sinni niður að næstu lyftu. Voru aðilar þarna með tveimur öðrum Íslendingum, eiginmanni stefnanda, Hjálmari Stefánssyni, og Henning Bjarnasyni. Er þau héldu ferðinni áfram fór Hjámar fyrstur, en nokkru síðar Halla og Sveinn, en Henning síðastur. Ágreiningur er um það í málinu hvort Halla og Sveinn fóru samtímis af stað eða Halla fyrst og Sveinn síðar. Stuttu eftir að þau lögðu af stað og er þau voru komin einhverja tugi metra niður brekkuna rákust þau harkalega saman með greindum afleiðingum. Ágreiningur er um það hvernig slysið bar að. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi komið á eftir henni niður brekkuna á talsverðri ferð og skollið aftan á hana þar sem hún skíðaði á hægri ferð. Stefndi telur að þau hafi fyrst rennt sér sitt til hvorrar hliðar og hafi hvorugt verið á mikilli ferð, síðan hafi þau beygt þversum í brekkunni og komið hvort á móti öðru er þau lentu saman og hefði hann þá verið á hægri hönd stefnanda. Ljóst er að þau urðu hvors annars ekki vör fyrr en þau skullu saman. Enginn sjónarvottur var að slysinu sjálfu, en Henning Bjarnason var með þeim á áningarstað og sá snjó þyrlast upp þar sem hann skíðaði síðastur þeirra niður brekkuna, kom hann fyrstur á slysstað. Karlmennirnir voru allir vanir skíðamenn, stefnandi hafði mun minni reynslu af skíðamennsku en þó einhverja.

II. Um slysið.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi telur stefnda bera skaðabótaábyrgð á slysinu samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttarins og ólögfestum reglum Alþjóða skíðasambandsins um háttsemi skíðamanna, svonefndum F.I.S. reglum.

Rök hennar eru þau helst að stefndi sé þrautreyndur skíðamaður og hafi fyrr á árum keppt sem slíkur. Hann ætti því að vera fullfær um að meta aðstæður í skíðabrekkum og fara að öllu með gát, en búast megi við því að leikni annarra skíðamanna í brekkum fyrir almenning sé misjöfn. Í skýrslu vátryggingarfélagsins frá 11. apríl 1997 telji stefndi að hann hafi “horft niður á tær sér” er slysið átti sér stað. Gera verði auknar kröfur um aðgæslu til stefnda vegna leikni hans og reynslu af skíðaiðkun og verði að telja að háttsemi hafi verið gálaus, miðað við almennan mælikvarða, og hafi leitt til slyssins.

Alþjóðlegar reglur um hegðun og háttsemi skíðamanna í og við skíðabrekkur sé að finna í svonefndum F.I.S. reglum, sem Alþjóða skíðasambandið hafi gefið út. Reglur þessar hafi ekki lagagildi á Íslandi en séu engu að síður viðurkenndar sem almennar og eðlilegar hátternisreglur skíðamanna. Auk þess hafi dómstólar erlendis farið eftir þeim. Ætti vönum skíðamönnum og keppnismönnum að vera þessar reglur fullkunnar, enda séu þær skrásetning áralangra venja og skynsamlegrar háttsemi. Í 1. gr. F.I.S. reglnanna sé almenn stefnuyfirlýsing þess efnis að skíðamaður skuli haga sér þannig að hann stofni ekki öðrum í hættu. Telur stefnandi augljóst að stefndi hafi brotið þessa reglu og með því valdið því slysi sem hér um ræðir. Í 3. gr. reglnanna sé skrásett ein þekktasta og útbreiddasta regla á skíðasvæðum í heiminum. Hún hljóði um það að sá er að ofan komi skuli velja skíðaleið sína þannig að hann skapi ekki hættu fyrir þá sem á undan fari. Öll gögn málsins beri það með sér að stefndi hafi verið ofar í brekkunni og skollið aftan á stefnanda.

Stefnandi hafnar því sjónarmiði stefnda að hún skuli bera tjón sitt sjálf vegna sjónarmiða um áhættutöku í íþróttum. Skíðaíþróttir séu frábrugðnar öðrum íþróttum að því leyti að bein snerting við aðra iðkendur sé ekki hluti af leiknum. Af því leiði að sé íþróttin stunduð af aðgát sé nær ómögulegt að slys eigi sér stað með þeim hætti. Auk þess sé skíðaiðkun eins og sú sem stunduð hafi verið þegar umrætt slys átti sér stað ekki íþróttakeppni í venjulegum skilningi þess orðs, heldur miklu fremur almenn útivera og heilsurækt.

Því er einnig hafnað af hálfu stefnanda að hún skuli bera einhvern hluta tjóns síns sjálf vegna eigin sakar. Hafi hún sýnt alla þá aðgæslu sem krafist verði af skíðamönnum. Hún hafi enga möguleika haft á að forða slysinu þar sem hún hafi ekki vitað af stefnda fyrr en hann skall aftan á henni. Er því haldið fram að slysið hefði aldrei orðið hefði stefndi sýnt nægilega aðgát.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt að um ágreiningsefnið fari eftir sakarreglunni og að sönnunarbyrðin um meinta sök hans og um orsakatengsl hvíli alfarið á stefnanda.

Til stuðnings sýknukröfu sinni bendir stefndi á að ekki sé sannað að hann eigi nokkra sök á árekstrinum við stefnanda. Það sé rangt og ósannað, sem stefnandi haldi fram, að stefndi hafi verið ofar í brekkunni og rennt sér niður hana aftan við stefnanda og skollið aftan á henni. Stefndi telur að þau stefnandi hafi lagt af stað nokkuð samtímis og skíðað fyrst hvort frá öðru sitt í hvora áttina. Stefndi mótmælir því einnig sem röngu, að hann hafi brotið einhverja af reglum Alþjóða skíðasambandsins. Þá verði skaðabótaskylda ekki reist á því einu að stefndi hafi verið reyndur skíðamaður. Heldur stefndi því fram að einfaldlega sé óupplýst hver hafi verið nákvæm tildrög árekstursins og sé því enginn grundvöllur til að leggja skaðabótaábyrgð vegna óhappsins á stefnda fremur en stefnanda sjálfa.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki tekið eftir ferðum hans fyrr en árekstur varð og virðist hún því ekkert hafa fylgst með öðru skíðafólki í kringum sig. Megi ráða það af áverkastöðum á aðilum, og því sem haft er eftir þeim í málsgögnum, að þau hafi síðast fyrir áreksturinn skíðað skáhallt niður brekkuna í átt hvort til annars og stefnandi hafi haft stefnda sér á hægri hönd. Eðlilegast hefði því verið að stefnandi hefði veitt stefnda forgang en á því hefði orðið misbrestur. Af þessu sé ljóst að stefnandi eigi sjálf sök á árekstrinum.

Loks er sýknukrafa stefnda byggð á því, að með þátttöku sinni í iðkun skíðaíþróttarinnar í brekku opinni almenningi til skíðaiðkunar hafi stefnandi tekið á sig áhættuna af því að lenda í árekstri við annað skíðafólk og verða fyrir meiðslum af þeim sökum. Leiði sú áhættutaka til brottfalls bótaréttar. Óhöpp af þessi tagi séu ekki óalgeng á skíðasvæðum fyrir almenning og fylgi það skíðaiðkun á slíkum svæðum, þar sem margir séu að leik og með misjafnri kunnáttu, að menn taki slíka áhættu. Hér eigi við ákvæði 13. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar um áhættutöku, þar sem segi að gangi maður til leiks, fangs eða skinndráttar að vilja sínum, þá ábyrgist hann sig sjálfur að öllu, þó hann fái mein eða skaða af.

Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafa stefnda byggð á því, að telja verði báða aðila eiga sök á árekstrinum og verði stefnandi því að bera tjón sitt sjálf í hlutfalli við eigin sök auk þess sem lækka beri stefnufjárhæðir. Vísist um eigin sök stefnanda til framangreindra raka.

Sönnunargögn.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu stefnandi, Halla Haraldsdóttir, og stefndi, Sveinn Jakobsson, og einnig vitnin Hjálmar Stefánsson og Henning Ásgeir Bjarnason.

Stefnandi, Halla Haraldsdóttir, bar eins og áður hefur verið lýst að þau hefðu stansað á hól að leið sinni að næstu lyftu, hún hefði síðan verið búin að skíða um 50 til 100 m niður brekkuna þegar slysið varð. Hún kvaðst hafa farið af stað á undan stefnda Sveini og vera viss um að hann hefði ekki farið af stað um leið og hún. Hann hefði verið að tala við Henning þegar hún lagði af stað og hún kvaðst vera viss um að þau hefðu ekki verið samsíða. Hún kvaðst hafa skíðað rólega niður brekkuna af hólnum, sem hefði verið nokkuð brött, sér hefði liðið vel á skíðunum og veður hefði verið bjart og fallegt, fátt fólk hefði verið þarna. Hún kvaðst hafa horft í kring um sig og hafa fylgst með en hún hefði ekki séð Svein og taldi því útilokað að þau hafi lent í kross. Skyndilega hefði hún fundið eitthvað mjög þungt lenda á sér og fundið til nístandi sársauka, en kvaðst ekki vita hvar Sveinn hefði lent á sér. Hún tók fram að hún hefði ekki sagt það sem segir í bréfi hennar til VÍS, dagsettu 4. júní 1997, að hann hefði komið á “fleygiferð,” og ekki geta fullyrt um það. Ekki fékkst skýring á hvers vegna þetta orðalag hefði verið notað í bréfinu.

Stefnandi kvaðst hafa hlotið alvarlegan áverka á hægra hné en einnig meiðsli á vinstri öxl. Hún kvaðst stunda þjálfun fimm daga í viku en þrátt fyrir þetta færi líðan hennar versnandi, einkum í handleggnum. Hún kvaðst vera myndlistarmaður í fullri vinnu, kvaðst hún að staðaldri hafa unnið að list sinni eftir hádegið og stundum eftir kvöldmat. Hún kvaðst vera miklu þrekminni eftir slysið. Kvaðst hún aðeins hafa fengið bætur úr sinni eigin slysatryggingu vegna slyssins.

Stefndi Sveinn Jakobsson skýrði þannig frá fyrir dóminum að þau hefðu hvílt sig á hól, Hjálmar hefði lagt fyrstur af stað aftur, en kvaðst ekki vita hvort þeirra Höllu lagði næst af stað. Hann kvaðst hafa farið rólega og tekið stóra beygju, fyrst til hægri og síðan vinstri, hann kvaðst ekki hafa tekið eftir hvert Halla skíðaði og ekki hafa séð hana. Skyndilega hefðu þau keyrt hvort á annað og flækst saman. Virtist honum að þau hefðu komið hvort á móti öðru, hvernig þau hefðu dottið og meiðsli þeirra styddi það. Hann kvaðst hafa marist vinstra megin. Hann taldi hraðann ekki geta hafa verið mikinn því stutt hefði verið frá því að lagt var af stað.

Varðandi það sem eftir honum sé haft í tjónaskýrslu: “mér finnst eins og við höfum horft niður á tær okkar því við vitum ekki fyrr en við skellum saman” vildi hann taka fram að þetta hefðu aðeins verið hugleiðingar en ekki fullyrðing.

Vitnið Hjálmar Stefánsson, eiginmaður stefnanda, lýsti á sama hátt að þau hefðu verið fjögur saman í skíðaferð og hefði slysið orðið á öðrum degi hennar. Hann hefði farið fyrstur af stað frá áningastaðnum og rennt sér alla leið að lyftustöðinni. Þaðan sjáist ekki til slysstaðarins og hann hefði ekki orðið vitni að slysinu. Brekkan hefði verið góð og öll skilyrði hin bestu. Hann kvað Svein vera ágætis skíðamann og Höllu hafa skíðað dálítið.

Vitnið Henning Ásgeir Bjarnason lýsti því að þau hefðu hvílt sig í brekkunni. Aðstæður hefðu verið góðar, gott veður, gott skíðafæri, aflíðandi brekka og ekki margir á ferð, sjálfur kvaðst hann ekki vera mikill skíðamaður. Hann taldi talsvert mikinn mun vera á hæfni Sveins og Höllu á skíðum, Höllu örlítið lengra komna en algeran byrjanda. Hann kvað Hjálmar hafa lagt af stað fyrstan og síðan hefði Halla farið af stað. Þarna hefðu einnig verið einhver íslensk hjón og hefðu þau og Halla lagt af stað um líkt leyti, þá hefði Sveinn farið og hann sjálfur síðastur. Kvaðst hann vera viss um það að þeir Sveinn hefðu farið síðastir af stað. Hann kvað Svein hafa verið í skíðagalla með áberandi rauðum lit. Þegar hann hefði verið kominn um 100 m frá staðnum þar sem þau hefðu hvílst, búinn að taka um eina til tvær beygjur, þá hefði hann séð mikið kóf þyrlast upp og séð í kófinu rauðan lit. Hugsaði hann að þarna hefði Sveinn dottið og hefði hann flýtt sér upp á staðinn. Þá hefði hann séð Höllu og Svein liggja þar, og þá fyrst áttað sig á því að árekstur hefði orðið. Halla hefði borið sig illa og Sveinn verið vankaður. Hjónin, sem hann nefndi, hefðu einnig komið að og hefði maðurinn farið eftir hjálp. Hann kvaðst hafa komið að staðnum neðanfrá og hefði Halla þá legið hægra megin og Sveinn vinstra megin, eitthvað bil hefði verið á milli þeirra og hefði Sveinn legið á vinstri hlið og snúið að Höllu, sem hefði snúið að Sveini en þó legið meira á bakinu. Sveinn hefði verið eins og hann hefði lagt sig þarna. Þau hefðu ekki verið flækt saman heldur legið samsíða í brekkunni, en skíði Höllu hefði verið eins og snúningur væri á því.

Fram kom í réttinum að hjón þau, sem nefnd hefðu verið, hafi ekki séð slysið sjálft og voru þau því ekki kölluð til að bera vitni.

Niðurstaða um sök.

Aðilum og vitnum ber saman um að áreksturinn hafi orðið um 50 til 100 m neðar en hóllinn sem áð var á. Við áreksturinn brotnaði stefnandi illa á utanverðum sköflungi við hægra hné og meiddist á vinstri öxl, stefndi kveðst hafa meiðst á vinstri hlið. Samkvæmt vætti Hennings Bjarnasonar var hægri fótur stefnanda snúinn og erfitt að losa hana úr skíðinu vegna þess sársauka sem því fylgdi. Vitnið, sem kom að rétt eftir áreksturinn, fullyrðir að stefnandi og stefndi hafi ekki verið flækt saman eins og stefndi telur og þykir mega byggja á þeim framburði vitnisins, enda ber hann einnig að stefndi hafi verið vankaður. Vitnið ber einnig að aðilar hafi legið samsíða í brekkunni, stefndi á hliðinni en stefnandi meira á bakinu. Upplýst telst að stefndi sé reyndari skíðamaður.

Enginn sjónarvottur var að slysi þessu og hvorugur aðila málsins getur með vissu sagt um hvernig það atvikaðist. Slysið varð á almennu skíðasvæði. Aðilum og vitnum ber saman um að aðstæður hafi allar verið hinar bestu og að brekkan hafi ekki verið brött. Stefndi segist hafa skíðað niður brekkuna í stóru svigi fyrst til hægri og síðan til vinstri. Ekki er ljóst hvernig stefnandi fór, en bæði fullyrða að þau hafi farið rólega. Miklu máli þykir skipta um úrlausn máls þessa hvor aðila lagði fyrr í brekkuna frá áningastaðnum. Vætti Hennings Bjarnasonar er afdráttarlaust um þetta atriði. Ber hann að stefnandi hafi lagt fyrr í brekkuna en stefndi. Þessi vitnisburður er í samræmi við það sem stefnandi heldur fram, en stefndi treysti sér í réttinum ekki til að fullyrða um þetta atriði. Það er mat dómsins að með þessum framburðum sé sannað að stefnandi hafi skíðað fyrr af stað.

Alþjóða skíðasambandið F.I.S. hefur sett reglur til leiðbeiningar fyrir skíðafólk. Endurspegla þær almennar skynsemis- og varúðarreglur með tilvísun til eðlis skíðaíþróttarinnar og er þeim ætlað að undirstrika að illa geti farið ef ekki er gætt þeirra atriða sem þar eru talin. Þótt reglur þessar hafi ekki lagagildi munu þær almennt vera hafðar til hliðsjónar í skíðalöndum Alpafjalla, og þar með á því svæði þar sem slysið varð, og sömu meginreglur eiga eðli málsins samkvæmt við á skíðasvæðum hvar sem er. Fyrsta skíðareglan varðar þá skyldu skíðamanns að bera sig þannig til að hann stofni ekki öðrum í hættu eða valdi öðrum skaða. Önnur fjallar um það að skíðamönnum beri að skíða í samræmi við aðstæður og getu, eða á þann hátt að hægt sé að stöðva eða sveigja frá ef hættu beri að höndum. Hin þriðja varðar val skíðaleiðar og leggur skyldu á skíðamann sem að ofan kemur að gæta þess að skapa ekki hættu fyrir þann sem á undan fer. Fyrir þessari reglu eru þau skynsemisrök að þeim sem á eftir kemur eða síðar leggur af stað sé kleift að sjá þá skíðamenn sem fara á undan og hvernig þeir bera sig að og velja sér leið. Sá sem neðar er í brekkunni sér á hinn bóginn ekki aftur fyrir sig og getur því ekki varast þá sem ofar eru. Fari sá hægar sem á undan er, verður sá er á eftir kemur að velja leið sína þannig að framúrkeyrslan valdi ekki hættu. Önnur atriði í greindum skíðareglum þykja ekki skipta máli hér. Stefnandi byggir málssókn sína að verulegu leyti á framangreindum sjónarmiðum skíðareglnanna. Telur dómurinn réttmætt og eðlilegt að hafa þau í huga við sakarmat.

Stefndi heldur því fram, með vísan til almennra umferðarreglna, að stefnandi hefði átt að víkja þar sem stefndi hafi, miðað við meiðsli þeirra, komið henni á hægri hönd. Ekki verður á þetta fallist. Aðstæður á skíðasvæðum og eðli þeirrar umferðar sem þar á sér stað er ólík umferð á umferðaræðum sem markaðar eru með skýrum hætti. Verður niðurstaðan því ekki byggð á hægri-reglu umferðarlaga einni og sér og ekki er nægilega upplýst hvernig leiðir aðila skárust.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að stefnandi hafi verið í skíðabrekkunni á eigin áhættu samkvæmt reglu 13. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar um þátttöku í leikjum og íþróttum. Í því tilviki sem hér um ræðir voru aðilar ekki að reyna með sér. Hvort um sig skíðaði sína eigin leið, eins og skokkari eða göngumaður velur hvar hann fer. Þótt ýmis slys geti hent á skíðum og menn taki almennt vissa áhættu með því að fara á skíði, þá þykir sú áhætta ekki fela í sér ábyrgð á því ef annar aðili veldur árekstri með saknæmum hætti. Frelsi skíðamannsins í brekkunni undanskilur hann ekki almennri aðgæsluskyldu gagnvart öðrum, en það sem varast ber ræðst af eðli og aðstæðum íþróttarinnar. Um slys sem verða vegna þess að tveir aðilar, sem ekki eru í keppni, rekast saman í skíðabrekku hljóta að gilda almenn sjónarmið skaðabótaréttar um grandvara hegðun og eru greindar skíðareglur í samræmi við þau. Er ekki fallist á að regla Mannhelgisbálks eigi hér við.

Það er niðurstaða dómsins, að um sök í máli þessu skuli á því byggt að hvorugur aðili hafi orðið hins var fyrir áreksturinn, að stefndi hafi lagt síðar af stað af hæð þeirri sem þau höfðu hvílst á, og því megi telja víst að hann hafi skíðað hraðar en stefnandi. Þar sem stefndi kom á eftir átti hann að sjá hvernig stefnandi bar sig að í brekkunni og honum átti að vera ljóst að hann myndi taka fram úr henni. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að stefnandi hafi gert eitthvað það sem skapaði sérstaka hættu fyrir aðra skíðamenn, en hún var í fullum rétti við að skíða rólega niður brekkuna. Þótt ekki sé vefengt að stefndi hafi ekki séð stefnanda fyrir áreksturinn og óupplýst sé um orsök þessa, þykir með vísan til framangreindra sjónarmiða um aðgæsluskyldu þess sem á eftir fer, og þess að það telst sannað að stefnandi hafi lagt fyrr af stað, verða að leggja alla sök á slysinu á stefnda.

III. Um afleiðingar slyssins og bótafjárhæð.

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi kveðst hafa verið flutt strax á sjúkrahúsið í Kitzbühel þar sem gerð hafi verið á henni aðgerð, brotið hafi verið sett í skorður og bein tekið úr mjaðmagrind og flutt í brotið og það svo fest með plötu og skrúfum. Hún hafi verið sett í gips og bannað að stíga í fótinn í 10 vikur. Eftir heimkomuna frá Austurríki hafi hún verið í endurþjálfun á bæklunardeild Landspítalans og dvaldist á heilsuhæli Náttúru­lækningafélags Íslands í Hveragerði í tvö skipti. Vegna mikilla þrauta í hnénu hafi hún verið skorin upp 23. janúar 1997 og plata og skrúfur fjarlægðar úr hnénu. Þar sem þetta hafi ekki dugað til úrbóta hafi verið settur gerviliður í hnéð hinn 15. apríl 1997.

Stefnandi kveðst hafa haft miklar þrautir allt frá slysdegi, sérstaklega í hægra hné en einnig í vinstri helmingi líkamans, einkum vinstri handlegg, þar sem hún hafi hlotið slæmt mar. Mikil sjúkraþjálfun og regluleg líkamsrækt ásamt nefndum aðgerð­um hafi borið takmarkaðan árangur og kveðst hún aldrei sofa heila nótt án þess að vakna vegna óþæginda og í hægra hné sé stöðugur verkjaseyðingur sem leggi niður í fótlegg og upp í mjöðm.

Stefnandi kveðst vera starfandi myndlistarmaður og segir hún slysið hafa haft veruleg áhrif á starfshæfni sína. Hún hafi lítið sem ekkert getað staðið við trönur og aðeins hafa getað unnið við litlar myndir á árinu 1996. Árið 1997 hafi hún lítið unnið vegna stöðugra óþæginda og þreytu í fætinum. Frá ársbyrjun 1998 kveður hún heilsufar sitt hafa verið nokkuð stöðugt, en skert frá því sem áður hefði verið.

Jónas Hallgrímsson, læknir, hafi metið tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyss stefnanda í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. örorkumat hans frá 10. janúar 1996. Niðurstaða hans hefði verið sú að tímabundin örorka stefnanda skv. 2. gr. laganna væri 100 stig frá slysdegi til 30. nóvember 1996 og 50 stig frá l. desember 1996 til 31. desember 1997. Hefði stefnandi verið rúmföst dagana 5. febrúar til 8. maí 1996, 23. og 24. janúar 1997 og 14. apríl til 9. júní 1997 og veik án þess að vera rúmföst aðra daga frá slysdegi til og með 31. desember 1997. Varanlegan miska skv. 4. gr. laganna hefði hann metið 30% og varanlega örorku skv. 5. gr. einnig 30%.

Á grundvelli niðurstöðu matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar, læknis, hefði lögmaður stefnanda sent bæði stefnda og réttargæslustefnda kröfu, dags. 8. júlí 1999, um greiðslu skaðabóta. Þeirri kröfu hefði verið hafnað og mál þetta þá höfðað. Undir rekstri málsins hefði verið farið fram á dómkvaðningu tveggja matsmanna. Stefnandi kveðst byggja endanlega kröfugerð sína á skaðabótalögum nr. 50/1993 og sé við útreikning skaðabóta vegna líkamstjóns hennar stuðst við niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna, læknanna Júlíusar Valssonar og Yngva Ólafssonar, frá 10. ágúst 2000. Niðurstaða þeirra sé að tímabil þjáninga skv. 3. gr. skaðabótalaga væri: rúmliggjandi í 125 daga, veik án þess að vera rúmliggjandi í 447 daga. Varanlegur miski stefnanda skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hefði verið metinn 25%, og varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga 25%.

Stefnukrafa sundurliðast þannig:

1. Þjáningabætur, skv. 3. gr. skaðabótalaga

nr. 50/1993 (125x1.460 + 447x790)..........................kr.535.630

2. Bætur vegna 25% stiga varanlegs miska

skv. 4. gr. skaðabótalaga (25%x4.507.000) ..............kr.1.126.750

3. Bætur vegna 25% stiga varanlegrar örorku

skv. 8. gr. skaðabótalaga (150%x1.126.750) ............kr.1.690.125

4. Bætur vegna tímabundinnar örorku

skv. 2. gr. skbl. (10x40.250+13x50% 40.250).........kr.664.125

5. Frádráttur skv. 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga

60% af 1.690.125x50% .............................................kr.   (507.037)

Samtals................kr. 3.509.593

Við nánari umfjöllun stefnanda um dómkröfur í stefnu og við munnlegan málflutning kom eftirfarandi fram:

Um l. kröfulið.

Samkvæmt ákvæðum 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. mgr. 15. gr. sömu laga, hefðu þjáningabætur vegna hvers dags, sem tjónþoli var rúmliggjandi numið 1.460 krónum og vegna hvers dags, sem tjónþoli var veikur án þess að vera rúmliggjandi, 790 krónum og sé byggt á þessum tölum. Engar forsendur séu til þess að dómari beiti heimild í 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til að lækka þessar þjáningabætur.

Um 2. og 3. kröfulið.

Vísað er til matsgerðar og hún lögð til grundvallar úrreikningi bótakröfunnar.

Um 4. kröfulið.

Gerð sé krafa um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skaðabótalaga sbr. 3. mgr. l. gr. Stefnandi hefði verið algjörlega óvinnufær í 10 mánuði og að hálfu í 13 mánuði. Um kröfulið þennan vísar stefnandi til þeirra sjónarmiða sem fram komi í hæstaréttardómi frá 10. febrúar 2000 í máli nr. 362/1999 varðandi skaðabætur vegna tímabundinnar örorku til þeirra sem ekki vinni utan heimilis. Við endanlegan útreikning kröfunnar sé tekið miðað af 75% launa samkvæmt Iðjutaxta sem samkvæmt upplýsingum frá VÍS séu 40.250 krónur á mánuði. Þar sem stefnandi hafi aflað lítilla tekna utan heimilis beri að dæma henni staðlaðar bætur og sé viðmið þetta þá eðlilegt. Stefnandi hefði einnig lýst því fyrir dóminum að hún hefði sinnt heimilisstörfum.

Um 5. kröfulið.

Stefnandi hefði verið 62 ára á slysdegi. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga nemi fullur frádráttur frá upphæðinni í 3. tölulið 60% af þeirri upphæð, eða 1.014.075 krónum. Sú regla sé hins vegar ekki fortakslaus og sé því beint til dómsins að skera úr um frádráttinn. Miðað við góða heilsu stefnanda, reglulega líkams­rækt og starfsvettvang verði að telja óeðlilegt að beita fullum frádrætti og sé við kröfugerðina gert ráð fyrir helmingi þeirrar fjárhæðar.

Aðrar málsástæður og lagarök:

Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989. Krafist er dráttarvaxta frá 8. ágúst 1999, er liðinn hafi verið einn mánuður frá því að lögmaður stefnanda sendi stefnda og réttargæslustefnda kröfu um greiðslu skaðabóta vegna tjóns stefnanda, öll nauðsynleg gögn hefðu þá legið fyrir svo að unnt hefði verið að taka afstöðu til bótaskyldu og meta tjónið. Er því mótmælt að skýrt tilboð hafi borist frá stefnda og beri því að dæma fulla dráttarvexti samkvæmt kröfu. Niðurstaða hefði ekki fengist án málsóknar.

Verði dráttarvextir dæmdir frá síðari tíma, er þess krafist að krafa stefnanda beri verðbætur og vexti til þess tíma, skv. 15. og 16. gr. skaðabótalaga.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er talin eiga sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðis­auka­skatts við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður stefnda.

Stefndi gerir ekki ágreining um niðurstöðu dómkvaddra matsmanna. Eftir­farandi athugasemdir voru gerðar við endanlega kröfugerð stefnanda í málflutningi og í samræmi við greinargerð að breyttu breytanda.

Um kröfuliði 1 til 3.

Ekki sé gerður tölulegur ágreiningur um kröfuliði 1, 2 og 3 í endanlegri kröfugerð stefnanda að öðru leyti en því, að almennt séu þjáningarbætur, sbr. 1. lið, ekki dæmdar óskertar þegar um langt tímabil sé að ræða eins og hér sé, þess sé því krafist að dómurinn meti hæfilega lækkun á umkröfðum þjáningabótum.

Um 4. kröfulið.

Ekkert sé upplýst um tekjur stefnanda næstu ár fyrir slysið né heldur eftir það og sé kröfu hennar um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns því sérstaklega mótmælt sem ósannaðri. Skorað hafi verið á stefnanda að leggja fram gögn um tekjur sínar en það hafi ekki verið gert og verði hún því að bera halla af sönnunarskorti sbr. 67. og 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Viðmiðunarfjárhæð stefnanda sé ekki mótmælt sem slíkri, hins vegar hafi ekki verið gerð sjálfstæð krafa vegna heimilisstarfa og stefnandi byggi á því að hún hafi verið í fullu starfi sem myndlistarmaður. Stefnandi byggi þannig kröfu um tímabundið atvinnutjón á því að um raunverulegan tekjumissi sé að ræða en ekki á því að starfsorka til heimilisstarfa hafi verið skert, verði því ekki byggt á því viðmiði. Samkvæmt atvinnusögu stefnanda, sem fram komi í mati dómkvaddra matsmanna, hafi hún verið í fullu starfi við list sína. Krafa samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga um mat á tímabundnu atvinnutjóni vegna heimilisstarfa komi aðeins til skoðunar ef tjónþoli hafi ekki unnið utan heimilis. Þar sem stefnandi hafi haft fulla vinnu við list sína, listsköpun og rekstur gallerís, eigi ákvæði þetta ekki við um hana.

Um 5. kröfulið.

Varðandi þennan kröfulið er þess krafist að stefnandi, sem verið hafi 62 ára þegar slysið varð, sæti fullu aldursfrádragi af varanlegum örorkubótum í samræmi við 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga, en ekki aðeins hálfu eins og stefnandi reikni. Skýra beri undantekningarheimild ákvæðisins þröngt og eigi hún ekki við í tilfelli stefnanda, enda hafi ekkert komið fram um atvinnutekjur hennar.

Upphafstíma dráttarvaxtakröfu er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Til vara er þess krafist að dráttarvextir verði miðaðir við það tímamark þegar matsgerð dómkvaddra matsmanna lá fyrir, þá fyrst hafi legið fyrir fullnægjandi gögn sem bótakrafa yrði byggð á.

Málskostnaðarkrafa réttargæslustefnda sé á því byggð að hann hafi ítrekað boðið að sætta málið á grundvelli sakarskiptingar, því boði hafi verið hafnað, ekki hafi því verið tilefni til að reikna út tjónið.

Niðurstaða um bótafjárhæð. 

Aðilar eru sammála um að leggja matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 10. ágúst 2000 til grundallar um tjón stefnanda. Er niðurstaða matsmanna þannig rökstudd: 

Varanlegur miski. Við mat á varanlegum miska telja undirritaðir rétt að taka tillit annars vegar til áverkans á hægra hné og hins vegar tognunar/mars á vinstri öxl. Hlaut Halla í umræddu slysi niðurpressað brot á ytra byrði nærenda hægri fótleggjar sem meðhöndlað var á hefðbundinn hátt með opinni réttingu, innri festingu með plötu og skrúfum sem og bein­flutningi frá mjaðmarkambinum. Vegna viðvarandi óþæginda voru innri festingar síðan fjarlægðar í janúar eða tæpu ári eftir slysið. Tók þá hnéð að skekkjast og fór svo að settur var gerviliður í það í apríl '97. Var Halla töluverðan tíma að ná sér eftir þá aðgerð og hefur í raun full hreyfigeta enn ekki náðst þó hreyfiskerðingin sé innan viðunandi marka. Sömuleiðis hefur hún haft viðvarandi verki innanvert frá hnéinu. Þannig hefur hún viðvarandi verkjaástand í hnéinu þrátt fyrir ísetningu gerviliðarins. Gefa rannsóknir vísbendingu um að þar sé til staðar byrjandi los þótt undirritaðir telji slíkt engan veginn öruggt þar sem eingöngu sé um staðbundnar breytingar að ræða og óþægindin í aðalatriðum staðsett við skoðun yfir sinafestum innanvert um hnéð. Telja undirritaðir varanlegan miska af þeim sökum 20%.

Hvað snertir vinstri öxl hafa verið viss áhöld um hvort óþægindi þaðan tengist umræddu slysi eða ekki. Sjálf tengir Halla þau ákveðið slysinu og þótt hún hafi í október árið áður í fallhlífarslysi fengið all útbreidda maráverka m.a. frá vinstri olnboga er axlarinnar ekki þar sérstaklega getið. Halla staðhæfir að hún hafi, bæði á Landspítalanum og á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði fengið meðferð vegna axlarinnar þótt slíkt komi ekki fram í gögnum frá þessum stöðum. Að mati undirritaðra útilokar þetta ekki að slík meðferð hafi verið veitt enda um að ræða hliðarmeðferð við endurhæfingu vegna hnéáverkans sem hún hlaut og því ekki sjálfgefið að hennar sé getið í skýrslum. Skv. fyrirliggjandi upplýsingum hafði Halla ekki haft óþægindi frá öxlinni áður og kemur það m.a. skýrt fram í nótum Ragnars Finnssonar sem hafði haft hana til meðferðar fyrir slysið vegna vöðvabólgna í herðum. Telja undirritaðir því rétt að meta varanlegan miska vegna axlarinnar 5%.

Varanleg örorka. Með tilliti til aldurs telja undirritaðir óraunhæft að Halla hverfi að öðrum störfum en hún hefur haft. Er nokkuð ljóst að hún getur ekki sinnt þeim af sömu eljusemi og áður. Bæði takmarka óþægindin frá öxlinni sem og verkirnir frá hnénu lengri viðveru við málaratrönur sem og burð í tengslum við glerlistarvinnu hennar. Telja undirritaðir varanlega örorku hennar hliðstæða varanlegum miska eða 25%.

Tímabil þjáninga. Við mat á tímabili þjáninga hefur Halla verið rúmliggjandi þann tíma sem hún hefur legið á sjúkrahúsi, þ.e. tímabilin 05.02.96 - 20.02.96 + 14.03.96 - 09.05.96 + 22.01.97 - ­24.01.97 + 14.04.97 - 23.04.97 + 28.04.97 - 09.06.97 eða í 125 daga. Stöðugu ástandi telja undirritaðir náð haustið 1997 um 4 mánuðum eftir gerviliðaaðgerðina eða í byrjun september og miða því tímabil veikinda frá slysdegi og fram að því að frádregnum þeim tíma sem Halla hefur verið inniliggjandi á sjúkrahúsi eða 447 daga.

Önnur slys en það sem til umræðu er telja undirritaðir ekki að eigi þátt í ofangreindum meinum.”

Um 1. kröfulið.

Ljóst er af gögnum málsins að stefnandi hefur gengið í gegnum langt veikindatímabil, þar af fimm sjúkrahúslegur auk endurhæfingar. Krafan er byggð á mats­gerð dómkvaddra matsmanna og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Í greinar­gerð með frumvarpi til skaðabótalaga segir um 3. gr. að frá þeirri meginreglu greinarinnar að þjáningabætur skuli greiða í kjölfar líkamstjóns fyrir það tímabil sem tjónþoli er veikur sé gerð sú undantekning að sé veikindatímabilið langt og nemi bæturnar hærri fjárhæð en 200.000 krónum sé heimilt að víkja frá föstum taxta fyrir veikindadaga og að ákveða lægri þjáningabætur að álitum. Rök þessa séu þau “að ekki þyki rétt að binda hendur dómara um of í þessu efni vegna þess að sérstök tilvik kunna að koma upp þar sem staðlaða reglan leiði til óeðlilegrar niðurstöðu.” Almennt ber að túlka slíkt undantekningarákvæði til skerðingar réttinda þröngt. Ætla má að löggjafinn hefði kveðið skýrt á um takmörk bótatímabils ætti lengd tímabilsins ein og sér að vera fullnægjandi forsenda lækkunar bóta. Ekki hafa komið fram nein önnur sérstök rök fyrir því að beita heimildarákvæði þessu til lækkunar bóta til stefnanda samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Er krafa um þjáningarbætur tekin til greina óbreytt.

Um 2. og 3. kröfulið.

Kröfuliðum 2 og 3 í endanlegri kröfugerð stefnanda var ekki mótmælt við málflutning. Útreikningur kröfu samkvæmt 3. lið er samkvæmt gildandi ákvæði 8. gr. skaðabótalaga á slysdegi. Af hálfu stefnda var gerð athugasemd við þetta í greinargerð og við málflutning var gerð athugasemd um að það standist ekki af hálfu stefnanda að krefjast bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga og jafnframt að krefjast bóta fyrir tímabundna örorku. Til andsvara við þessu vísar stefnandi til hæstaréttardóms frá 10. febrúar 2000 í máli nr. 362/1999. Þrátt fyrir greinda athugasemd stefnda verður að skilja málflutning hans svo að ekki sé gerður ágreiningur nú um þennan lið. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um meintar tekjur. Þykir mega taka þessa kröfuliði til greina óbreytta.

Um 4. kröfulið.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um bætur vegna tímabundinnar örorku á þeirri forsendu að hún hafi ekki, þrátt fyrir áskorun þar um, upplýst um tekjur sínar árin fyrir og eftir slysið. Einungis liggur fyrir skattframtal 1997 vegna ársins 1996, en þá voru engar tekjur taldar fram. Slysið varð 5. febrúar það ár. Upphafleg kröfugerð stefnanda var byggð á örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis frá 10. janúar 1999. Hann mat tímabundið atvinnutjón stefnanda vegna slyssins 100% frá 05.02. til 30.11.1996 og síðan 50% frá 01.12.1996 til 31. 12. 1997. Er þetta mat byggt á lýsingu í vottorðum Svavars Haraldssonar bæklunarskurðlæknis og Guðmundar Kr. Guð­munds­sonar endurhæfingalæknis við Heilsustofnun NLFÍ um sjúkrasögu stefnanda eftir slysið, og viðtali við stefnanda. Ekki þykir ástæða til að rekja þessi vottorð en í örorkumatinu segir síðan: “Þann 15. apríl 1996 voru spelkurnar teknar af henni og gekk hún þá í fyrsta skipti eftir slysið. Halla gat mjög lítið unnið á árinu 1996 við list sína. Hún gat lítið sem ekkert staðið við teikniborð eða trönur og aðeins unnið við litlar myndir. Helst þurfti hún að sitja og hvíla fótinn á púða. Í desember 1996 byrjaði hún að vinna við trönur aðeins í litlu hlutastarfi. … Árið 1997 vann hún ekki af nægilegum krafti vegna stöðugra óþæginda og þreytu í fætinum utan þess tíma sem hún var í aðgerðum og í eftirmeðferð vegna þeirra. Telur að vinna sín þetta ár hafi ef til vill verið nálægt 40% af eðlilegri vinnu og aðeins síðari hluta árs. Það sem af er árinu 1998 segist Halla hafa getað unnið við stærri verk rúmlega hálft starf miðað við það sem hún hafði áður getað.” Dómkvaðning matsmanna fór fram að beiðni stefnda. Matsmenn voru ekki beðnir að meta tímabundna örorku og fjalla þeir ekki um þann þátt. Þar sem fjallað er um félagslegar aðstæður og atvinnusögu í matsgerð kemur fram að stefnandi hafi lýst því að hún hafi “haldið fjölda sýninga bæði ein og með öðrum og kveðst hún nánast hafa unnið myrkrana á milli. Rekur hún eigið gallerí og hefur í tengslum við myndlist sína og glerlist verið töluvert í ferðum á milli landa.” Og síðan segir í kafla um afleiðingar slyssins: “Kveðst Halla í raun ekki hafa farið að sinna starfi sínu að ráði fyrr en síðari hluta árs ’97 eða um áramótin og þá alls ekki að fullu.” Einnig kemur fram í matsgerðinni að hún hafi ekki haft neina húshjálp og sinnt heimilisverkum sjálf. Fyrir réttinum lýsti hún vinnudegi sínum fyrir slysið þannig að hún hefði sinnt heimilinu fyrir hádegi en unnið á eftirmiðdögunum að listsköpun og einnig á kvöldin.

Stefnandi kveðst hafa verið í fullu starfi við gerð myndverka um langt skeið, kemur þetta bæði fram í matsgjörð og framburði hennar fyrir dómi. Byggist framangreint mat Jónasar Hallgrímssonar læknis á tímabili tímabundinnar örorku hennar beinlínis á því að hún hafi ekki getað unnið við myndlistina vegna meiðsla sinna. Stefnandi hefur samkvæmt þessu ekki haft heimilisstörf að aðalstarfi. Hún hefur þrátt fyrir áskorun þar um af hálfu stefnda ekki upplýst um tekjur sínar af þessari vinnu, né heldur sýnt fram á hún hafi ekki fært henni tekjur. Því er haldið fram af hálfu stefnanda með vísan til hæstaréttardóms í máli nr. 362/1999 að hún eigi þar af leiðandi rétt til bóta á sama hátt og sá sem ekki gegnir launuðu starfi utan heimilis. Ekki verður á þetta fallist. Eigin listsköpun er starf óskylt heimilisstörfum og telst því til starfa utan heimilis hvort heldur sem vinnustaðurinn er þar staðsettur eða utan þess. Verður hún að bera halla af því að hafa ekki upplýst um verðmætasköpun sína í þessu starfi. Á hinn bóginn þykir nægilega upplýst í málinu að hún hafi einnig annast heimilið, eins og hún lýsir vinnu sinni við myndlist þykir eðlilegt að meta heimilisstörf hennar sem hálft starf. Svo sem rakið hefur verið miðast það mat sem fyrir liggur einvörðungu við starf hennar að myndlistinni. Þar kemur m.a. fram að hún hafi m.a. ekki ráðið við stöður við trönur og meðhöndlun efnis, glers, sem hún notar í myndverk sín. Verður þessu ekki að fullu jafnað við heimilisstörf. Hins vegar þykir um heimilisstörf mega miða við tímabil þjáninga samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmann. Þar er talið að ekki hafi verið að vænta frekari bata frá byrjun september 1997. Er því miðað við það að tímabundið atvinnutjón til heimilisstarfa hafi verið 100% í 4 mánuði og 50% í 15 mánuði. Ekki var gerður ágreiningur um að miða fjárhæð þessa kröfuliðar við 75% af launataxta Iðju, félags verksmiðjufólks, eða 40.250 krónur fyrir hvern mánuð. Samkvæmt þessu eru henni ákveðnar fyrir hálft starf við heimilisstörf greint tímabil 231.437 krónur (4x20.125+15x50%20.125) í bætur samkvæmt þessum kröfulið.

Um 5. kröfulið.

Aðilar deila um það hvort víkja beri frá 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga um aldursfrádrag. Stefnandi var 62 ára á slysdegi. Ekki þykir hafa verið sýnt fram á að heilsufar hennar og starfsorka hafi verið það miklum mun meiri en annarra jafnaldra hennar að réttlætt sé frávik frá hinni almennu reglu skaðabótalaga um frádrátt vegna aldurs, er þessi kröfuliður stefnanda því ekki tekinn til greina og skal beita aldursfrádragi óskertu með 1.014.075 krónum.

Vaxtakrafa.

Vaxtakröfu er ekki mótmælt að öðru leyti en að því er varðar upphafstíma dráttarvaxta. Lögmaður stefnanda sendi réttargæslustefnda, sem er ábyrgðartryggjandi stefnda, kröfubréf hinn 8. júlí 1999, þar var skaðabótakrafa grundvölluð á framan­greindu örokumati Jónasar Hallgrímssonar læknis dagsettu 10. janúar 1999. Kröfu­gerðin var sundurliðuð og var heildarfjárhæð kröfunnar heldur hærri en tildæmd fjárhæð. Þrátt fyrir það að upphafleg krafa hafi ekki verið byggð á nákvæmlega sömu forsendum og endanleg dómkrafa þykir með vísan til 15. gr. skaðabótalaga mega taka dráttarvaxtakröfu stefnanda til greina frá 8. ágúst 1999 svo sem nánar er lýst í dómsorði. Ekki er deilt um vexti að öðru leyti.

Endanlega niðurstaða máls þessa er sú að stefndi skuli greiða stefnanda skaðabætur 2.569.867 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði og 550.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðis­aukaskatts.

Dóm þennan kvað upp Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Sveinn Jakobsson, skal greiða stefnanda, Höllu Haraldsdóttur, 2.569.867 krónur auk 2% ársvaxta af þeirri fjárhæð frá 5. febrúar 1996 til 8. ágúst 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og 550.000 krónur í málskostnað.