Hæstiréttur íslands
Mál nr. 372/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Áfrýjun
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2004. |
|
Nr. 372/2003. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Áfrýjun.
X, 15 ára, hafði ásamt fleiri unglingum safnast saman utandyra um kvöld og var áfengi haft um hönd. Hann fór síðan ásamt tveimur 14 ára drengjum og stúlkunni Y, 15 ára, heim til eins þeirra, að sögn drengjanna til þess að fara í hópkynlíf með Y. Y bar að hún hefði staðfastlega neitað að taka þátt í slíkum athöfnum, en þrátt fyrir það hafi X og annar drengur haft við hana samfarir gegn vilja hennar. Hafi hún ekki getað spornað við sökum áfengisneyslu og vanlíðunar, en hún kvaðst ekki vön að drekka áfengi og hafi hún fundið fyrir mikilli vanlíðan vegna þessa. X viðurkenndi að hafa haft samfarir við Y en sagði að það hefði verið með vilja hennar. Drengirnir sögðu að Y hefði virst utangátta og vönkuð. Fallist var á með héraðsdómi að ekki teldist sannað í málinu að ákærði hefði gerst sekur um nauðgun en að sýnt væri fram á að X hefði komið fram vilja sínum við Y með ólögmætri nauðung og því brotið gegn 195. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Málinu var áfrýjað að ósk X en einnig af hálfu ákæruvaldsins til sakfellingar samkvæmt ákæru, til þyngingar refsingar og til hækkunar miskabóta. Þar sem ríkissaksóknari hafði áritað héraðsdóm um að honum yrði ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins var hann bundinn við þá yfirlýsingu og taldist því ekki geta haft uppi kröfu um þyngingu refsingar í málinu eða hærri bætur. Var niðurstaða héraðsdóms um refsingu og miskabætur staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. september 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst aðallega sakfellingar samkvæmt ákæru en til vara staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms og þyngingar á refsingu. Þá krefst ákæruvaldið þess, að ákærði verði dæmdur til að greiða Y 1.000.000 krónur í miskabætur.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, til vara að honum verði ekki gerð refsing eða ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið, og til þrautavara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
I.
Héraðsdómur í máli þessu var kveðinn upp 5. júní 2003. Var hann birtur ákærða, sem er ólögráða fyrir æsku sakir, 25. sama mánaðar og tók hann sér áfrýjunarfrest. Yfirlýsing lögráðamanns hans um áfrýjun barst ríkissaksóknara 28. júlí 2003. Hinn 30. sama mánaðar tilkynnti ríkissaksóknari ákærða og móður hans, að frestur til áfrýjunar hefði verið liðinn og yfirlýsing ákærða um áfrýjun því ekki gild að lögum. Ríkissaksóknari áritaði dóminn 12. ágúst 2003 um að honum yrði ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Í bréfi lögmanns ákærða til ríkissaksóknara 9. september 2003 var tekið fram, að héraðsdómur hefði ekki enn verið birtur ákærða á lögmætan hátt þar sem hann hefði verið birtur ákærða einum en ekki lögráðamanni hans, sbr. 2. mgr. 149. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Móður ákærða, sem er lögráðamaður hans, hefði ekki verið kunnugt um birtingu dómsins fyrr en 15. ágúst 2003, er hún fékk bréf ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari áfrýjaði síðan héraðsdómnum 11. september 2003 að ósk ákærða en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins eins og fyrr er lýst.
Eins og að framan getur áritaði ríkissaksóknari héraðsdóm um það að honum yrði ekki áfrýjað af ákæruvaldsins hálfu eftir að yfirlýsing ákærða um áfrýjun var komin fram. Telja verður, að ríkissaksóknari sé bundinn af áritun sinni, en ekki er fram komið hvort ákærða var greint frá þessari ákvörðun.
II.
Eins og lýst er í héraðsdómi fór ákærði ásamt tveimur 14 ára piltum og stúlkunni Y, 15 ára, heim til annars piltanna á páskadagskvöld 31. mars 2002, en þau höfðu öll verið ásamt fleiri unglingum á C, þar sem áfengi var haft um hönd. Fyrir liggur, að piltarnir fóru fram á það við stúlkuna, að hún kæmi í hópkynmök, en hún hafi ekki viljað það. Bar hún fyrir dómi, að þeir hefðu verið mjög uppáþrengjandi og fært hana úr fötunum. Síðan hefði ákærði og annar piltanna haft við hana samfarir, en sá þriðji hefði horft á. Henni hafi liðið mjög illa, þar sem hún var óvön að drekka áfengi, en hún hafi þóst vera sofandi í þeirri von, að piltarnir myndu hætta. Piltarnir báru einnig, að hún hefði verið utangátta og vönkuð, en héldu því fram að hún hefði samþykkt samfarirnar.
Fallist er á með héraðsdómi, að atferli ákærða verði ekki fært undir 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og jafnframt, að ósannað sé, að stúlkan hafi ekki getað spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga. Þegar litið er til þess, að hér er um kornunga stúlku að ræða, sem var stödd í ókunnugu húsnæði með þremur piltum, sem áttu í fullu tré við hana, vöktu henni ógn með framkomu sinni og höfðu lýst yfir vilja til hópkynmaka, verður að telja að ákærði hafi komið fram vilja sínum með ólögmætri nauðung eins og lýst er í 195. gr. laga nr. 19/1940. Er færsla héraðsdóms til sakarákvæðis því staðfest.
Eins og að framan getur telst ríkissaksóknari bundinn við áritun sína á héraðsdóminn um að ekki yrði áfrýjað af hans hálfu og getur því ekki haft uppi kröfu um þyngri refsingu eða hærri bætur. Ákærði var nýlega orðinn 15 ára gamall, er hann framdi brot sitt og hafði ekki áður sætt refsingu. Við refsiákvörðun er vísað til 4. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, sbr. til hliðsjónar 2. tl. 1. mgr. 74. gr. sömu laga. Að þessu gættu verður niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns svo og þóknun til skipaðs réttargæslumanns brotaþola, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2003.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 17. desember 2002 á hendur: ,,[X, kt. og heimilisfang], fyrir kynferðisbrot, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 31. mars 2002, að A í B, í félagi við tvo ósakhæfa pilta, þröngvað Y, fæddri 1987, með ofbeldi til holdlegs samræðis og sumpart notfært sér að Y gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga.
Telst þetta varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr 19/1940, með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakrafa:
Z, krefst skaðabóta f.h. ólögráða dóttur sinnar, Y, að fjárhæð kr. 2.000.000 auk dráttarvaxta samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001 frá 31. mars 2000 til greiðsludags og til greiðslu lögmannsþóknunar.“
Undir rekstri málsins var bótakrafa Y lækkuð um 1.000.000 króna en krafan er óbreytt að öðru leyti.
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að háttsemi ákærða verði felld undir 195. gr. almennra hegningarlaga og skaðabótakröfu verði vísað frá dómi eða hún lækkuð. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun að mati dómsins, verði að öllu eða að mestu leyti greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt lögregluskýrslu, dagsettri 2. apríl 2002, kom Y í fylgd móður sinnar á lögreglustöð sama dag og lagði fram kæru vegna kynferðisbrots, eins og segir í skýrslunni. Frásögn Y af atburðum var í stuttu máli sú, að hún hafi verið stödd á C að kvöldi 31. mars 2002 ásamt fleiri unglingum. Y kvaðst hafa misst af strætisvagni og kjölfarið hafa farið að A ásamt J, sem þar bjó, K og ákærða í máli þessu, sem hún kvaðst hafa hitt í fyrsta skipti þetta kvöld. Eftir að þau fjögur voru komin að A hafi strákarnir beðið sig um að koma í hópsex, sem hún hafi neitað. Y kvaðst hafa fundið til áfengisáhrifa og verið hálfsofandi er strákarnir klæddu hana úr fötum og byrjuðu að káfa á henni. Y lýsti því að í framhaldinu hafi ákærði nauðgað sér að hinum piltunum ásjáandi. Hún lýsti því að K, fyrrum kærasti hennar, hefði einnig nauðgað sér og að hún hafi verið hálfsofandi á meðan á þessu stóð, en beðið þá grátandi um að hætta. Þessu næst lýsti Y því að J hafi sagt hinum strákunum að þeir væru að nauðga henni og hún gæti kært þá. Þeir hafi þá hætt, hún klætt sig og komið sér út og leitað ásjár í húsi skammt frá.
Tekin var skýrsla af Y fyrir dómi 2. maí 2002 og einnig undir aðalmeðferð málsins og verður vitnisburður hennar rakinn síðar.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 17. apríl 2002 og 21. nóvember sl. Hann kvaðst hafa haft samræði við Y, en með hennar samþykki, en hann hafi hætt er hann varð þess áskynja að hún hafi ekki notið samfaranna.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir.
Ákærði neitar sök. Hann kvað atburði hafa verið þá að hann hafi ásamt fleirum unglingum verið staddur á C að kvöldi 31. mars 2002. Allir hafi neytt áfengis. Að því kom að ákveðið hafi verið að fara heim til J að A, en áður hafði ákærði og K fært í tal við Y að þau færu í ,,threesome“ sem af samhenginu má ráða að var hópsex, sem Y hafi verið reiðubúin að taka þátt í. Er J hafi fært í tal að fara í ,,foursome“ hafi Y ekki viljað það. Ákærði kvað þannig aðaltilganginn með ferðinni að A hafa verið þann að fara í ,,threesome“. Eftir að komið var á heimili J hafi Y lagst í rúmið og kvaðst ákærði hafa lagst ofan á hana og kysst hana og klætt úr buxum ásamt K. Y hafi ekki spornað á móti þessu. Ákærði kvað J hafa verið farinn upp á efri hæð hússins að ræða við móður sína er hér var komið sögu og ákærði, Y og K hafi verið þrjú í herberginu. Ákærði kvaðst hafa haft samræði við Y fyrstur, en þá hafi J verið farinn upp. Hann kvaðst hafa hætt samförunum er hann veitti því athygli að Y hafi ekki notið þeirra eða samþykkt þær. Hann kvað Y ekki hafa sofnað, en hún hafi verið eins og ,,vönkuð“ og ,,hagaði sér undarlea“. Ákærði kvað Y hafa tekið meiri þátt í því sem gerðist áður en ákærði tók að hafa samfarirnar við hana. Hann kvaðst þá hafa farið út úr herberginu og á klósettið, en K hafi þá verið eftir í rúminu hjá Y. Er ákærði kom af salerninu hafi J verið kominn niður og Y og K verið búin að klæða sig í fötin. Engu ofbeldi hafi verið beitt og það sem fram fór hafi verið með samþykki Y. Ákærði kvað Y síðan hafa vaknað eða hrokkið upp og öskrað á strákana alla þrjá að þeir hefðu nauðgað sér, sem þeir hafi neitað. Síðan hafi hún rifist við K áður en hún hljóp út úr húsinu.
Vitnið Y greindi svo frá að hún hafi verið stödd á C ásamt K, þáverandi kærasta sínum, ákærða og J. Þau hafi verið að drekka áfengi. Hún kvaðst síðan hafa misst af strætó, sem hún ætlaði að taka heim til sín. Þá hafi verið ákveðið að fara á heimili J að A, en hún kvaðst ekki vita vegna hvers hún fór með strákunum þangað, en taldi að hún hafi ætlað að fara þar á snyrtinguna og að reyna að útvega sér far heim til sín, en hún kvaðst hafa komið einu sinni áður á heimili J. Á leiðinni að A hafi strákarnir spurt hvort hún vildi koma í hópsex, sem hún hafi ekki viljað. Hún kvaðst hafa fundið að þessu háttalagi við K, sem þá var kærasti hennar. Hún kvaðst hafa litið á þetta sem grín og ekki gert ráð fyrir því að þeir gerðu alvöru úr þessu. Er hún kom að A kvaðst hún hafa farið á snyrtinguna, en strákarnir þrír hafi verið eftir inni í herbergi J. Er hún kom af snyrtingunni hafi strákarnir enn verið í herberginu og ákærði þá verið nakinn og kvað hún greinilegt að piltarnir hafi talið hana reiðubúna til að stunda hópsex, sem hún hafi alls ekki viljað. Hún hafi sest á rúmið og athugað símann sinn í því skyni að athuga hvort einhver gæti ekið henni heim. Hún kvaðst óvön að drekka áfengi og taldi að sér hafi liðið illa af þeim sökum. Hún kvaðst ekki hafa sofnað, en hún lýsti því að á meðan á þessum atburðum stóð hafi hún gert sér það upp, að hafa dottið út í þeirri von að piltarnir myndu hætta. Eftir að hún kom inn í herbergið hafi piltarnir þrír verið mjög uppáþrengjandi og beðið hana um að fara úr fötunum. Hún neitaði því og sagðist þurfa að fara heim til sín. Hún kvað sig minna að ákærði og K hafi fært hana úr buxunum. Ákærði hafi síðan haft samfarir við hana. Á meðan á því stóð hafi K haldið höndum hennar. Þá mundi hún eftir því að henni hafi verið haldið niðri á hárinu, en hún mundi ekki hver piltanna hélt í hár henni og ekki hvenær í þessari atburðarás það var. Hún kvað J hafa farið út úr herberginu um stund, en aðrir hafi ekki farið út. Hún mundi ekki hvernig til þess kom að ákærði hætti samförunum, en hún hafi sagt honum að hætta og auk þess hafi hún grátið stóran hluta tímans sem þetta varði. Í fyrri skýrslutöku fyrir dómi lýsti Y því að ákærði og K hefðu báðir nauðgað henni. Hún lýsti því að J hefði allan tímann sagt ákærða og K að hætta, þar sem þeir væru að nauðga henni, en hún kvaðst hafa þóst detta út er K hafði við hana samræði. J hafi klipið hana fast í brjóstið til að athuga hvort hún væri vakandi, en þá hafi hún fært sig út í horn. Hún lýsti því er hún hljóp út úr íbúðinni og leitaði aðstoðar hjá íbúum í nærliggjandi húsi, þar sem hún hafi hringt í móður sína, sem sótti hana, og fór hún á neyðarmóttöku skömmu síðar. Hún lýsti skólagöngu sinni og líðan eftir þennan atburð.
Vitnið K kvaðst hafa verið staddur á C ásamt ákærða, Y kærustu sinni og J. Þau hafi verið að drekka. Síðan hafi verið ákveðið að fara á heimili J að A. Þeir hefðu spurt Y hvort hún væri til í að ,,gera það“ og hafi hún í fyrstu sagt já. Hann mundi eftir því að rætt hafi verið við Y á D um að þau færu í ,,threesome“ eða ,,foursome“ og hafi hún samþykkt það. Eftir það var ákveðið að fara á heimili J að A. Er þangað kom og þetta hafi verið fært í tal hafi hún sagt svona ,,já nei“. Fram kom hjá K fyrir dómi að hann mundi atburði ekki vel. Hann kvað þau öll hafa verið drukkin, en Y hafi gert sér grein fyrir því hvað um var rætt. K kvaðst telja að hann hafi klætt Y úr buxunum, en þau Y og ákærði hafi verið saman uppi í rúminu. Hann kvaðst ekki muna að neinu ofbeldi hafi verið beitt. Hann kvaðst ekki muna eftir því hvort ákærði hafði samfarir við Y, en hann mundi er ákærði fór út úr herberginu. Y hafi klætt sig í sjálf og fór út skömmu síðar.
K gaf skýrslu hjá lögreglunni 8. apríl 2002. Þar greindi hann meðal annars svo frá, að eftir að þau komu að A hafi Y verið spurð hvort þeir mættu eiga kynmök við hana. Hún hafi fyrst svarað ,,ég veit það ekki“. Hún hafi verið þráspurð að því sama, en alltaf svarað neitandi. Fyrir dómi kvaðst K, er skýrslan var tekin, ekki hafa verið á lyfjum sem hann tæki vegna ofvirkni og því hafi einbeiting sín verið slæm og þá nái hann ekki að lesa neitt og hafi ekki lesið skýrsluna yfir fyrir undirskrift. Í skýrslu K er svofelldur kafli:
,,[K] segir að þeir þrír hafi svo allir farið að káfa á [Y] gegn vilja hennar. Hann tekur það fram að hún hafi mótmælt því stöðugt. Þeir káfuðu á kynfærum hennar innanklæða. Þeir settu allir fingurnar inn í kynfæri hennar. Hann tekur það fram að hann hafi reynt að setja fingurnar inn í hana, en þá hafi hún orðið alveg brjáluð. Þeir hjálpuðust síðan að því að girða niður um hana buxurnar og nærbuxurnar. Allan tímann héldu þeir áfram að káfa á kynfærum hennar. Hún sturlaðist við þetta og endurtók það að hún væri búin að segja nei. Hún reyndi að hysja upp um sig buxurnar, en hún var svolítið drukkin þ.a. þeir [J] hjálpuðu henni við það.
[K] segir að þeir hafi haldið áfram að káfa á [Y] á sama hátt. Þeir [ákærði] og [J] fóru að fróa sér inni í herbergi á meðan á þessu stóð. [Ákærði] fór á þessum tíma inn á salerni með klámblað og fróaði sér þar. Nokkrum mínútum seinna tók [ákærði] hana úr buxunum og nærbuxunum. [Ákærði] spurði hann að því hvort að hann mætti ríða henni. Hann svaraði [ákærða] því neitandi og sagði honum að hann mætti bara þukla hana. Samt sem áður átti hann kynmök við hana í rúminu. Hann tekur það fram að hún hafi ekki streist á móti. Hún kom ekki upp orði á meðan á þessu stóð. Aðspurður segist [K] ekki vita hvort að [ákærði] fékk sáðlát.“
Fyrir dómi kvaðst K ekki muna að Y hafi verið mótfallin því sem fram fór. K var spurður út í fleiri kafla í skýrslu sinni hjá lögreglu, en hann mundi ekki eftir atvikum og sum atvik í lögregluskýrslunni væru röng og ekki í samræmi við svör sín.
Vitnið J kvaðst hafa verið staddur á C að kvöldi 31. mars 2002 ásamt fleirum, þar á meðal ákærða, K og kærustu hans, Y. Er Y hafi rætt um það að hún væri svo drukkin hafi K fært í tal að fara á heimili J að A. Áður en þau fjögur héldu á heimili J hafi þau rætt um það hvort Y vildi fara í ,,foursome“, en Y hafi þá sagt að hún vildi bara fara í “threesome” eða viðhaft álíka ummæli. J kvaðst ekki hafa tekið þetta alvarlega og talið þetta grín. Eftir að þau fjögur komu á heimili hans hafi Y lagst í rúmið og K hafi talað við hana. J kvaðst fljótlega hafa farið upp á efri hæð hússins til þess að fá sér að borða. Er hann kom aftur hafi K og ákærði spurt hvort hann ætlaði ekki að vera með. J kvaðst hafa hafnað því og sagt að Y, sem var ,,dauð“ gæti kært þá fyrir nauðgun, en Y hafi litið út fyrir að vera ölvuð. J greindi einnig frá því að er hann var að athuga hvort Y hafi verið vakandi hafi hún skyndilega orðið brjáluð og slegið sig í andlitið og hlaupið öskrandi út úr húsinu. J kvaðst hafa séð ákærða hafa samfarir við Y, sem ekki hafi veitt viðnám, en hún hafi þá verið buxnalaus, en K hafði áður fært hana úr buxum og hún ekki veitt mótspyrnu við það. Hann lýsti því einnig er K hafði samræði við Y. Hann kvað Y ekki hafa mótmælt samförunum við piltana, en hún hafi verið ,,utangátta” og kvaðst hann hafa talið Y hálfsofandi. Hann kvaðst aldrei í þessari atburðarrás hafa séð Y þröngvað til samræðis.
Vitnið Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir staðfesti skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á Y 1. apríl 2002. Í skýrslu segir um ástand Y að hún hafi verið fjarræn, óraunveruleikakennd, skýr í frásögn og með grátköst. Þá staðfesti Arnar skýrslu sem ritaðar voru um endurkomu Y vegna málsins.
Vitnið L lýsti því er stúlka, sem ráða má af gögnum málsins að var Y, hringdi dyrabjöllu á heimili vitnisins að E og bað um að fá að hringja. Stúlkan hafi verið miður sín. Hann kvaðst ekki geta fullyrt um að hún hafi verið ölvuð, en ástand hennar hafi greinilega ekki verið eðlilegt og henni hafi greinilega liðið illa. Fyrir utan húsið hafi einnig verið nokkrir strákar. Stúlkan hafi hringt í móður sína, sem hafi sótt hana skömmu síðar.
Vitnið M kvað L mann sinn hafa tekið á móti stúlkunni á þessum tíma, en stúlkan hafi greinilega verið í mjög miklu uppnámi og grátandi. Hún hafi fengið að hringja í móður sína, sem hafi sótt hana skömmu síðar. Erfitt hafi verið að ræða við stúlkuna, sem hafi greint svo frá að hún hafi verið í partíi skammt frá, þar sem hún hafi verið misnotuð.
Vitnið Z, móðir Y, lýsti því er dóttir hennar hringdi í hana um miðnætti. Hún hafi verið grátandi og í miklu uppnámi, en Z kvaðst hafa sótt Y í hús við D. Eftir að Y hafði greint henni frá því að sér hefði verið nauðgað hafi hún farið með dóttur sína á Neyðarmóttöku. Z lýsti breytingum í fari Y, sem hún rakti til þessa atburðar.
Vitnið Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður greindi frá gangi rannsóknar málsins. Hann tók skýrsluna af K 8. apríl 2002, sem áður var vísað til. Kristján kvað K hafa verið miður sín vegna málsins, en hann hafi greint skilmerkilega og sjálfstætt frá atburðum auk þess að lesa skýrsluna yfir og undirrita.
Vitnið Guðrún Sigríður Marinósdóttir félagsráðgjafi staðfesti að hafa sem starfsmaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur verið viðstödd skýrslutöku af K 8. apríl 2002. Hún kvað skýrslutökuna hafa gengið mjög vel, en hún væri vön því að vera viðstödd skýrslutökur sem þessa og lýsti hún starfi sínu í félagsþjónustunni frá árinu 1992.
Vitnið Bergur Viðar Guðbjörnsson, ráðgjafi hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, staðfesti að hafa verið viðstaddur skýrslutöku af J 8. apríl 2002 og skýrslutakan hafi gengið greiðlega.
Vitnið Agnes Huld Hrafnsdóttir sálfræðingur lýsti því að Y hafi verið í viðtalsmeðferð hjá sér tvisvar sinnum. Fyrst eftir áfall er faðir Y lenti í slysi og síðan eftir atburð þann sem í ákæru greinir. Agnes greindi frá andlegri líðan Y og einkennum í hennar fari, sem hún tengdi atburðum þeim sem lýst er í ákærunni.
Vitnið N og O, móðir J, komu fyrir dóminn, en vitnisburður þeirra varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki rakinn.
Niðurstaða
Ákærða er gefið það að sök að hafa í félagi við tvo ósakhæfa pilta þröngvað Y með ofbeldi til holdlegs samræðis og sumpart notfært sér að Y gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga.
Samkvæmt vitnisburði Y leið henni illa umrætt kvöld og taldi hún það stafa af áfengisdrykkju sinni, sem hún var óvön. Fyrir liggur að alkóhólmagn í blóði Y er hún kom á neyðarmóttöku var 0,11, en samkvæmt matsgerð Lyfjafræðistofnunar, sem dags. er 20. maí 2003, hefur alkóhólmagn í blóðsýnum tilhneigingu til að lækka við geymslu í frysti eins og gert var við blóðsýni Y. Segir í matsgerðinni að teknu tilliti til þessa megi álykta að alkóhólmagn í blóðinu hafi vart getað verið meira en 0,21 er sýnið var tekið. Segir í niðurlagi matsgerðarinnar að niðurstaðan bendi eindregið til þess að hlutaðeigandi hafi neytt áfengis en ekki verið undir merkjanlegum áhrifum þegar blóðsýnið var tekið.
Með vísan til þessa og vitnisburðar Y, sem kvaðst hafa gert sér það upp að detta út í því skyni sem hún lýsti og rakið var, er ósannað að Y hafi ekki getað spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga eins og lýst er í niðurlagi efnislýsingar ákærunnar.
Við réttarlæknisfræðilega skoðun á Y er skráð að hún hafi verið aum í hnakka og í skýrslunni segir að það gæti verið eftir að togað var í hár eða haldið fast í höfuðið á henni. Y bar að togað hafi verið í hár sitt meðan hún dvaldi að A, en hún vissi ekki hvenær í atburðarásinni það var og ekkert liggur fyrir um það að það tengist samræðinu sem ákærði hafði við Y. Aðrir áverkar fundust ekki við skoðun.
Ákærði hefur borið að ekki hafi verið beitt ofbeldi er hann hafði samræði við Y, en hann hafi hætt er hann varð þess áskynja að hún hafi ekki notið samfaranna eða samþykkt þær.
Vitnin K og J báru fyrir dóminum að ofbeldi hafi ekki verið beitt. Hjá lögreglu báru þeir einnig að ofbeldi hefði ekki verið beitt þó að ráða megi af vitnisburði K þar, að Y hefði verið beitt ólögmætri nauðung, en hann bar þó að Y hafi ekki streist á móti er ákærði hafði við hana samræði.
Eins og rakið var bar Y að K hafi haldið í hendur henni meðan ákærði hafði við hana samræði, en hún kvaðst hins vegar ekki viss hvenær í atburðarásinni henni var haldið fastri á hárinu. Að þessu leyti er vitnisburður Y óljós. Erfitt er ráða af framburði hvernig atburðarásin var, enda vitnisburður og framburður ákærða í ósamræmi innbyrðis um margt, eins og rakið hefur verið.
Þegar öll þessi gögn eru virt er það mat dómsins að ekki sé, gegn eindreginni neitun ákærða frá upphafi, komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi þröngvað Y til samræðis eins og lýst er í ákærunni. Verður háttsemi ákærða því ekki færð undir 194. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar telur dómurinn að sannað sé, með vitnisburði Y, vitnisburði K hjá lögreglu og að hluta fyrir dómi, svo og að hluta með framburði ákærða og vitnisburði J og að virtum öðrum gögnum málsins í heild, að aðstæður hafi verið þannig er ákærði hafði samræði við Y, að hann hafi komið fram vilja sínum með ólögmætri nauðung eins og lýst er í 195. gr. almennra hegningarlaga. Ber samkvæmt þessu að færa háttsemi ákærða undir þá lagagrein. Var málið flutt með hliðsjón af heimfærslu til þeirrar lagagreinar og tók ákæruvaldið undir varakröfu verjandans um þessa heimfærslu brotsins.
Ákærði var nýlega 15 ára gamall er hann framdi brot sitt, en hann hefur ekki áður sætt refsingu. Að þessu virtu og teknu tilliti til 4. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 2. tl. 74. gr. s.l. þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Y á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga og þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur auk dráttarvaxta frá því er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar erða frá 21. desember s. á. til greiðsludags.
Ákærði greiði 70.000 krónur í réttargæsluþóknun til Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 250.000 krónur í málsvarnarlaun til Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.
Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Friðgeir Björnsson dómstjóri og Helgi I. Jónsson kváðu upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði X sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði Y 500.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta frá 21. desember 2002 og til greiðsludags.
Ákærði greiði 70.000 krónur í þóknun til Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 250.000 krónur í málsvarnarlaun til Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.