Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2013
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 6. júní 2013. |
|
Nr. 147/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Sigurður Sigurjónsson hrl.) (Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður) |
Manndráp. Tilraun. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir tilraun til manndráps, samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa veist að A með stórum eldhúshníf og stungið hana ítrekað í líkamann og með því að hafa, eftir að hún reyndi að koma sér undan, veist aftur að henni með höggum og spörkum í líkama og höfuð og gripið um háls hennar aftan frá með kyrkingartaki. Af atlögunni hlaut A margvíslega áverka, m.a. stungusár neðst í vinstra brjósthol þar sem hnífurinn gekk í gegnum þind, kviðarhol og maga svo af hlaust lífshættulegur áverki. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að X hefði játað brot sitt bæði hjá lögreglu og í þinghaldi við meðferð málsins í héraði en hann hefði jafnframt borið fyrir sig minnisleysi. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu X og vísaði til þess að atlaga hans að A hefði verið heiftarleg og hefði honum ekki getað dulist að hún hefði verið til þess fallin að valda henni dauða. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að X hefði ekki verið orðinn 18 ára gamall er hann framdi brotið og að honum hefði ekki verið gerð refsing áður. Þá hefði hann sótt sér aðstoð sálfræðings. Með vísan til 4. og 5. töluliðs 1. mgr. 70. gr. og 2. töluliðs 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga var refsing X ákveðin fangelsi í 5 ár auk þess sem honum var gert að greiða A 2.065.396 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfunni.
A krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.
Ákærða er í málinu gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa aðfaranótt 21. apríl 2012 að [...] í [...] veist að A með stórum eldhúshnífi og stungið hana ítrekað í líkamann svo af hlaust lífshættulegur áverki. Jafnframt hafi hann veist að brotaþola með höggum og spörkum og loks gripið um háls hennar aftan frá með kyrkingartaki. Auk þess áverka sem lífshætta var talin stafa af hlaut brotaþoli margvíslega aðra áverka eins og nánar greinir í ákæru og hinum áfrýjaða dómi.
Í skýrslu lögreglu sama dag og atvik málsins urðu kemur fram að lögreglumenn, sem komu á vettvang, hafi fundið stóran og blóðugan „kokkahníf“ á stofugólfi á miðhæð hússins næst svefnherbergi föður ákærða. Í héraðsdómi greinir frá því er brotaþoli kom þangað á hlaupum með hnífinn í hendinni úr kjallaraíbúð, þar sem hún bjó, og ákærði á eftir henni. Á miðhæðinni voru fyrir faðir ákærða og vinkona hans og hafi brotaþoli hrópað til þeirra að hún hafi verið stungin. Í lögregluskýrslu eru myndir af hnífnum og nánari lýsing á honum. Lengd hans var 36,5 cm, þar af hnífsblaðið 24,2 cm, og mesta breidd þess 4,5 cm. Fyrir liggur að þessi hnífur hafði verið notaður sem eldhúshnífur á heimili föður ákærða. Í rannsóknargögnum eru einnig ljósmyndir og nánari lýsing á náttfatnaði brotaþola er hún varð fyrir árásinni. Mikið blóð sást bæði á náttbuxum hennar og bol. Á buxunum fannst ætlað stungugat og þrjú slík á náttbolnum.
Ákærði játaði brot sitt bæði hjá lögreglu og í þinghaldi 19. október 2012 en hefur jafnframt og einkum við meðferð málsins fyrir dómi borið fyrir sig minnisleysi. Atlaga hans að brotaþola var heiftarleg og honum gat ekki dulist að hún var til þess fallin að valda henni dauða. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og um refsingu hans.
Einkaréttarkrafa brotaþola er studd sérfræðigögnum um að hún hafi orðið fyrir mjög alvarlegri andlegri vanlíðan af völdum atlögu ákærða og að töluvert vanti enn upp á að brotaþoli hafi náð að vinna úr áfallinu. Verður fallist á kröfu hennar um greiðslu þjáningarbóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með 65.396 krónum og miskabóta samkvæmt 26. gr. sömu laga með 2.000.000 krónum, samtals 2.065.396 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest eins og nánar segir í dómsorði um annað en málsvarnarlaun verjanda ákærða.
Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, sem eru ákveðin í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður honum gert að greiða annan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar segir í dómsorði.
Það athugast að á skortir að rannsóknargögnum hafi verið gerð skil sem skyldi í hinum áfrýjaða dómi auk þess sem niðurstaða hans um fjárhæð einkaréttarkröfu brotaþola var þar ákveðin með hærri fjárhæð en nam kröfu hennar. Þá hefur við ákvörðun þóknunar réttargæslumanns brotaþola í héraði verið tekið tillit til virðisaukaskatts gagnstætt því sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða, X, og um frádrátt frá henni vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti skal vera óröskuð.
Ákærði greiði brotaþola, A, 2.065.396 krónur með vöxtum eins og greinir í héraðsdómi.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 1.004.000 krónur, annan sakarkostnað í héraði, 988.776 krónur, og annan áfrýjunarkostnað, 295.169 krónur, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 13. febrúar 2013
Mál þetta, sem dómtekið var 25. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 31. ágúst 2012, á hendur X, kt. [...], [...], [...],
„fyrir tilraun til manndráps með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 21. apríl 2012, að [...], [...], veist að A, kennitala [...], með stórum eldhúshnífi og stungið hana ítrekað í líkamann með þeim afleiðingum að A hlaut mörg stungusár, m.a. neðst í vinstra brjósthol þar sem hnífurinn gekk í gegnum þind, kviðarhol og maga svo af hlaust lífshættulegur áverki, og eftir að hún reyndi að koma sér undan, veist aftur að henni með höggum og spörkum í líkama og höfuð og gripið um háls hennar aftanfrá með kyrkingartaki en ákærði lét ekki af árás sinni fyrr en A tókst að forða sér undan ákærða upp á efri hæð hússins. Af atlögunni hlaut A skrapsár á enni, bólgu á hægra augnloki, rispur á framanverðum hálsi, skurð yfir bringubeini og hægra megin við bringubein, skurð og sár milli rifja 8 og 9, skurð á vinstri þind, kviðarholi og maga ofanvert, skurð við vinstri úlnlið, skurð við vinstri olnboga og tvo skurði á vinstra læri framanvert.
Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verð dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða en kröfunni er beint að B, kennitala [...], [...], [...], sem föður ákærða og lögráðamanni, að fjárhæð kr. 3.065.000 auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. apríl 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“
Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og viðurkennir að hafa veitt brotaþola þá áverka með hníf eins og lýst er í fyrri hluta ákæru en neitar þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru að hafa veist að brotaþola aftur með höggum og spörkum í líkama og höfuð og gripið um háls hennar aftan frá með kyrkingartaki. Þá kveðst ákærði ekki vita hvort aðrar afleiðingar en vegna stungusára séu af hans völdum. Ákærði hafnaði bótakröfunni.
Fór aðalmeðferð fram þann 25. janúar sl. og var málið dómtekið að henni lokinni. Krafðist ákærði sýknu en til vara vægustu refsingar og að málskostnaður greiddist úr ríkissjóði.
Málavextir.
Samkvæmt gögnum málsins var Neyðarlínunni tilkynnt um að kona hefði orðið fyrir hnífstungu í [...] í [...] að morgni 21. apríl 2012. Við komu að [...] sáust kvenmannsskór liggjandi á götunni á móts við hús númer [...]. Þegar lögregla kom nær sá hún að útidyrahurð að kjallaraíbúð sem snýr að [...] var opin og heyrði lögregla kallað eftir aðstoð þaðan. Þegar inn í íbúðina kom reyndist hún vera mannlaus en sjá mátti merki eftir átök þar inni og blóð var á gólfi og þeim munum sem þar voru á gólfinu. Fór lögregla því næst á fyrstu hæð hússins en fyrir utan útidyrnar, þar sem gengið var inn á fyrstu og aðra hæð hússins, var blóðdropi og var gler í útidyrahurðinni brotið í gegn. Fór lögregla inn í íbúðina og fann brotaþola liggjandi að hálfu inni í svefnherbergi húsráðanda. Fékk lögregla þær upplýsingar á vettvangi að brotaþoli hafi komið hlaupandi að B með hníf í hendinni og sagt honum að X hafi stungið hana en X hafi þá komið hlaupandi á eftir henni með snjóskóflu í hendinni. Var lögreglu þá bent á hvar X sat inni í herbergi og var hann handtekinn þar eftir nokkur átök við hann.
Í áverkavottorði, útgefnu 14. maí 2012 af Þorvaldi Jónssyni lækni, kemur fram að brotaþoli hafi komið með sjúkrabíl á slysa- og bráðamóttöku Landspítala kl. 05.12, þann 21. apríl 2012. Hún hafi verið með fulla meðvitund og sagst hafa orðið fyrir líkamsárás af hendi tilgreinds aðila sem veist hafi að henni með höggum, spörkum og hnífstungum. Gaf brotaþoli ítarlegar upplýsingar um atlöguna. Við komu hafi brotaþoli kvartað undan verk vinstra megin í brjóstholi með leiðni upp í vinstri öxl en einnig verkjum frá áverkum vítt og breitt um líkamann. Við almenna líkamsskoðun hafi fundist skrapsár á enni yfir hægra auga og bólga í hægra augnloki, grunnar rispur á framanverðum hálsi, eins cm skurður gengum húð fyrir miðju bringubeini, 0,5 cm skurður gegnum húð hægra megin við mitt bringubein. Þriggja cm skurður gegnum húð niður að miðri vinstri holhönd milli rifja 8 og 9. Tvö þriggja til fjögurra mm sár sem náðu ekki gegnum húð aðlægt sári sem lýst sé í lið 5, 2,5 cm skurður rétt ofan við vinstri úlnlið utan- og aftanverðan gegnum húð og niður að vöðva, 2,5 cm skurður rétt neðan vinstri olnboga innan- og framanverðan sem nær gegnum húð, 3,5 cm skurður á miðju vinstra læri framanverðu sem nái gegnum húð og inn í vöðva, 1,5 cm skurður nokkru ofan og utan við skurð lýst í liðnum fyrir ofan sem nái gengum húð en ekki inn í vöðva. Engin virk blæðing hafi verið frá ofangreindum áverkum. Við lungnahlustun hafi verið eðlileg öndunarhljóð yfir báðum lungum og ómskoðun af kviðarholi hafi ekki sýnt vökva eða blóð. Við tölvusneiðmynd af brjóst- og kviðarholi kl. 05.30 hafi sést örlítið loft í brjóstholi ofan við vinstra lunga en ekki önnur áverkamerki. Við röntgenmynd af lungum kl. 11.30 hafi sést vökvi vinstra megin í brjóstholi sem ekki hafi verið til staðar við tölvusneiðmyndina. Ný tölvusneiðmynd af brjóst- og kviðarholi var tekin kl. 16.30 og kom þá í ljós allmikill vökvi vinstra megin í brjóstholi auk lofts utan garna í kviðarholi, sem benti til rofs á görn með loftleka út í kviðarhol. Var brotaþoli tekin til bráðrar skurðaðgerðar í framhaldi. Kom við upphaf aðgerðar út úr brjóstholi um 800 ml af létt blóðlituðum en þunnfljótandi vökva. Þegar kviðarhol var opnað kom í ljós að efsti hluti maga vinstra megin var lóðaður við neðra borð þindar. Þegar það var losað kom í ljós 4 cm stungusár gegnum þind og 2 cm skurðsár gegnum magavegg. Aðrir áverkar fundust ekki. Vegna þess að magi og þind höfðu lóðast saman hafði magainnihald runnið upp um sárið á þindinni og upp í brjósthol vinstra megin, sem skýrði vökvann í brjóstholinu. Lá brotaþoli á sjúkrahúsi til 12. maí 2012. Við útskrift var brotaþoli enn í þörf fyrir sterk verkjalyf og róandi lyf. Segir í vottorðinu að ein stungan hafi gengið í gengum neðsta hluta vinstra brjósthols, gegnum vinstri þind og þannig inn í kviðarhol þar sem hún gekk inn í maga ofanverðan. Slíkur áverki sé lífshættulegur sé ekkert að gert.
Læknabréf Benedikts Kristjánssonar sérfræðilæknis til Heilsugæslunnar í [...] lýsir áverkum brotaþola á sama hátt og að ofan.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst lítið muna eftir umræddu kvöldi annað en að hafa komið inn í íbúðina. Spurður hvort hann myndi eftir því að hafa verið með hníf í umrætt skipti kvaðst hann halda það. Hefði hann nálgast hnífinn inni í ísskáp í eldhúsinu á efri hæð hússins en kvöldið áður hafði hann fengið sér melónu og hefði hnífurinn orðið eftir í melónunni inni í ísskáp. Ákærði sagði upphaflegan tilgang sinn, með því að fara niður á neðri hæð hússins með hnífinn, hafa verið að hóta brotaþola. Hann hefði viljað að hún færi í burtu og léti föður sinn í friði. Tilgangurinn hefði aldrei verið að meiða hana.
Fullyrti ákærði að brotaþoli hefði verið í daglegri neyslu fíkniefna. Sagði hann föður sinn sömuleiðis hafa verið í neyslu vímuefna en verið að reyna að halda sig frá slíkum efnum. Kvað ákærði að faðir hans og brotaþoli hefðu verið í sambúð og saman í neyslu nokkru áður. Það samband hafi endað en brotaþoli þó búið áfram í kjallaranum. Um það bil ári fyrir umræddan atburð hefði faðir ákærða reynt að fyrirfara sér og hefði hann þá hætt neyslu fíkniefna í kjölfarið. Að mati ákærða var faðir hans að leiðast aftur út í neyslu með brotaþola og kvaðst ákærði hafa haft áhyggjur af því. Ákærði segir að sér hafi ekki verið illa við brotaþola að öðru leyti en því að hann taldi hana hafa slæm áhrif á föður sinn.
Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa hótað brotaþola með hnífnum, veist að henni með hnífnum eða eftir átökum þeirra á milli. Hann myndi eingöngu eftir því að brotaþoli hefði hleypt honum inn í íbúðina. Næst kvaðst hann muna eftir sér í lögreglubíl á leið á lögreglustöð. Spurður um samskipti sín og brotaþola fyrir þennan atburð kvaðst ákærði lítil sem engin samskipti hafa haft við brotaþola. Hún hafi búið í kjallaranum í sama húsi og þeir feðgar. Kvaðst ákærði þó einu sinni hafa farið niður til brotaþola nokkru fyrir umrætt kvöld. Hefði hann þá verið undir áhrifum áfengis og falast eftir kynferðislegu samneyti við hana. Þegar hún hafi hafnað því hafi hann snúið aftur upp á efri hæð hússins. Spurður hvort brot hans mætti rekja til þessa atviks og hvort hann hefði haft tilfinningar til brotaþola svaraði hann neitandi.
Ákærði kvaðst ekki hafa ætlað sér að drepa brotaþola og sagðist ekki hugsa á þá vegu. Hann hafi verið ölvaður og drukkið áfengið á heimili vinar síns, hætt drykkju klukkan tvö til þrjú um nóttina og komið heim á milli klukkan þrjú og hálffjögur.
Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa verið með síma föður síns umrætt kvöld. Ákærða var sýnd mynd af eldhúshníf, sem lögregla haldlagði á vettvangi, og kannaðist hann við hnífinn. Fram kom í vitnisburði ákærða að brotaþoli væri stærri og þyngri en hann og hefði haft í fullu tré við hann í átökum þeirra á milli. Einnig kom fram í vitnisburði ákærða að hann hefði unnið við skógrækt síðastliðið sumar og hefði hafið framhaldsskólanám um áramót. Þá hefði hann ekki neytt áfengis um nokkurt skeið.
Ákærði var spurður um skýrslur sem teknar voru af honum í tvígang hjá lögreglu, þann 21. og 26. apríl 2012, þar sem ákærði kvaðst muna eftir því að hafa stungið brotaþola einu sinni eða tvisvar. Ákærði kvaðst muna eftir þessari skýrslutöku en skýrði svör sín með því að hann hefði verið spurður leiðandi spurninga, þrátt fyrir að hann hefði tekið fram að hann myndi ekkert eftir atburðunum. Spurður hvort hann hafi haft verjanda sér við hlið í skýrslutökunni svaraði ákærði því játandi.
Þá sagðist ákærði ekki muna eftir því að hafa veist að brotaþola með höggum og spörkum í höfuð eða veist að henni aftan frá með kyrkingartaki. Taldi hann þessa áverka ekki geta verið eftir sig, þar sem brotaþoli væri töluvert stærri en hann og hann efaðist um að geta tekið hana hálstaki. Þá kvaðst hann ekki geta gefið skýringar á blóðblettum á fötum sem haldlögð voru við handtöku hans. Hann kannaðist við skó sem fundust á vettvangi og kvað þá vera sína en mundi ekki eftir að hafa verið með snjóskóflu í höndum. Þá kom fram að ákærði hefði verið með áverka eftir atburðinn, marbletti á hendi og á læri, auk þess sem hann hefði fundið fyrir eymslum í hægra fæti. Hann kvaðst engar skýringar hafa á þessum áverkum, né heldur rispum á enni og fyrir neðan auga.
Brotaþoli kom fyrir dóminn og lýsti atvikum í umrætt sinn og undanfara þeirra. Hún kvað ákærða hafa komið til sín eina nótt undir áhrifum áfengis, og falast eftir kynferðislegu samneyti við sig. Hún hafi vísað honum frá og upplýst fjölskyldu hans um atvikið. Umrætt kvöld, nokkrum vikum síðar, hafi hann komið aftur niður. Hún hafi heyrt bankað á dyrnar en þegar hún hafi farið til dyra hafi ákærði verið inni í þvottahúsi, inn af anddyrinu, undir áhrifum áfengis. Eftir stuttar samræður við ákærða hafi hún snúið aftur inn í íbúðina. Þar sem hún hafi áfram heyrt umgang í þvottahúsinu hafi hún sent föður ákærða sms-skilaboð um að koma. Í kjölfarið kvaðst brotaþoli hafa heyrt eitthvað sem hljómaði eins og samtal tveggja einstaklinga og hafa ályktað að faðir ákærða væri kominn til að ná í hann. Eftir þetta hafi hún heyrt mikinn umgang á efri hæð hússins, sem virtist koma frá svefnherbergi föður ákærða. Stuttu síðar kvaðst hún hafa heyrt að ákærði væri aftur kominn inn í þvottahús. Þegar hún hafi hringt í föður ákærða og sent honum sms-skilaboð hafi hún heyrt sms-hljóð úr síma föður ákærða fyrir utan íbúðina sína.
Brotaþoli kvaðst þá hafa opnað dyrnar og nánast opnað þær á ákærða. Hún kvaðst hafa spurt hann af hverju hann væri með síma föður síns og við það tekið eftir stórum eldhúshníf sem ákærði hélt á í annarri hendi, sem lá niður með síðum. Hún hafi þá reynt að loka hurðinni en ákærði hafi ráðist inn í íbúðina, tekið um háls hennar og stungið hana ítrekað með hnífnum, hratt og af ofsa. Hún hafi reynt að verja sig með höndunum og við það hafi hún fengið stungur á vinstri olnboga og úlnlið. Alvarlegasta stungan sé á vinstri síðunni en einnig sé hún með stungur á læri, baki og bringu, auk þess sem hún hafi fengið stungu í augnkrók. Þá kvaðst brotaþoli telja að hún væri með yfirborðsskrámur á hálsinum, eftir að ákærði hafi reynt að skera hana á háls. Spurð hvort hún myndi eftir því að ákærði hafi reynt að skera hana á háls kvaðst brotaþoli ekki muna það beinlínis en hafa áætlað það út frá áverkunum. Mikil átök hafi orðið þeirra á milli og hafi hún náð hnífnum af ákærða. Eftir það hafi hún fallið á gólfið, legið á grúfu og haldið hnífnum undir bringunni. Á sama tíma hafi hún reynt að ræða við ákærða til að fá hann til að láta af árás sinni. Ákærði hafi reynt að ná hnífnum af henni með höggum og spörkum, í líkama hennar og höfuð. Þegar hann hafi áttað sig á því að þær tilraunir væru árangurslausar hafi hann látið af verknaðinum um stund og hörfað. Brotaþoli kvað ákærða hafa lofað að láta af árás sinni ef þetta yrði bara þeirra á milli og kvaðst hafa svarað því að það væri ekki hægt þar sem sér væri að blæða út. Við svo búið kvaðst brotaþoli hafa hlaupið fram á gang, ennþá með hnífinn, en ákærði hafi komið hlaupandi á eftir sér og tekið hana kyrkingartaki aftan frá. Hann hafi sagt við hana: „Ég ætla að drepa þig fyrst og nauðga þér svo.“ Við þessi orð kvaðst brotaþoli hafa fengið brjálæðiskast og náð að hlaupa upp á efri hæð hússins. Þar hafi útidyrahurð verið læst svo hún braut glerið í hurðinni með hnífnum, skar sig við það á hægri lófa, og náði að komast inn.
Brotaþoli kvað íbúa hússins hafa verið í fastasvefni inni í svefnherbergi. Faðir ákærða hafi farið að slást við ákærða, sem hafi komið með stunguskóflu á eftir henni inn í íbúðina. Brotaþoli kvaðst þó sjálf ekki hafa séð ákærða með skófluna, heldur byggja þann hluta frásagnar sinnar á frásögn föður ákærða. Faðir ákærða hafi farið með hann inn í herbergi ákærða en komið að vörmu spori og reynt að stöðva blæðingar hennar. Hafi kærasta hans hringt á sjúkrabíl og lögreglan komið á vettvang stuttu síðar.
Brotaþoli kvaðst hafa óttast um líf sitt meðan á árásinni stóð. Hún kvaðst ekki skilja hvernig hún hafi farið að því að berjast við ákærða og kvaðst í raun hafa bjargað ákærða frá því að verða morðingi. Hún kvaðst hafa talið sig vera með hundruð stungusára og að ekki væri mögulegt að bjarga sér. Það hafi komið sér mjög á óvart hversu fá stungusár hún var með.
Afleiðingar árásarinnar sagði brotaþoli vera þær að hún hafi þurft að fara í stóra aðgerð. Líf hennar, eins og hún þekkti það, hafi endað þetta kvöld. Hún hafi misst heila fjölskyldu og mikilvægustu manneskjuna í lífi sínu, sem hafi verið faðir ákærða. Hún hafi misst allt traust á mannkynið og persónuleiki hennar sé gjörbreyttur. Hún þekki sjálfa sig ekki lengur og þurfi að taka kvíðastillandi lyf og svefnlyf. Brotaþoli kvaðst eiga við mikil svefnvandamál að stríða sem hún reki til þessa atviks. Hún hafi verið mjög veik um sumarið og hafi flúið land um leið og hún kom út af spítalanum um miðjan maí. Hún hafi verið mjög bólgin, með verki og liðið mjög illa á meðan hún var erlendis og farið á heilsugæslustöð erlendis á tveggja vikna fresti. Um miðjan september hafi hún komið aftur heim. Nú sæki hún tíma hjá meðferðarfulltrúa, auk þess sem hún hafi hitt skurðlækni út af líkamlegum örum.
Fram kom hjá brotaþola að hún hefði verið á svefnlyfjum fyrir umræddan atburð en þyrfti að taka meira af lyfjum nú og sterkari en áður. Einnig kom fram að brotaþoli hefði reykt marijúana af og til með vinkonum sínum en ákærði hefði haft miklar ranghugmyndir um neyslu hennar og dreift ósannindum um hana þar að lútandi en hún hafi reykt maíjúana þetta kvöld. Einnig kom fram að brotaþoli er 71 kg og 170 sm á hæð. Spurð hvort hún hefði getað fengið meiðsli á bringuna við að halda hnífnum undir sér eins og að framan hefur verið lýst, kvaðst brotaþoli ekki telja svo vera.
B, faðir ákærða, kom fyrir dóminn og lýsti atvikum þannig að hann hefði vaknað umrædda nótt við að brotaþoli hefði komið öskrandi inn í svefnherbergi til sín og sagt að ákærði hafi ráðist á sig. Hann hafi farið fram á gang og séð son sinn standa í anddyrinu með snjóskóflu í höndunum en skóflan hefði verið þar fyrir. Ákærði hafi sagt að brotaþoli ætlaði að drepa föður ákærða. Hann hafi tekið skófluna af ákærða, farið með hann inn í herbergi sitt og látið hann setjast niður. Svo hafi hann farið aftur inn í svefnherbergið en kærasta sín hafði þegar hringt á Neyðarlínuna. Hann hafi hlúð að sárum hennar og tekið eftir hníf sem lá henni við hlið. Fljótlega hafi lögregla og sjúkraliðar komið á vettvang.
Spurður um ástand ákærða sagðist faðir hans strax hafa séð að hann var í annarlegu ástandi. Hann kvaðst ekki geta skýrt atburðinn. Sambandið milli ákærða og brotaþola hafi ekki verið gott og í raun ekkert. Ákærða hafi ekki verið vel við hana og hefði talið að hún hefði slæm áhrif á sig, tengd neyslu á áfengi og öðrum vímuefnum. Spurður hvort það væri rétt sagðist faðir ákærða ekki vilja meina það.
Fram kom í vitnisburði föður ákærða að ákærði hafi búið hjá móður sinni undanfarna mánuði. Hann hafi unnið við [...] um sumarið og sé nú í framhaldsskóla. Hann sæki viðtöl til sálfræðings og líðan hans sé góð eftir atvikum.
C, kærasta B, kom fyrir dóminn. Lýsti hún atvikum þannig að hún og faðir ákærða hefðu verið sofandi á efri hæð hússins og vaknað við að brotaþoli kom öskrandi inn í herbergið og kvaðst hafa verið stungin. Hefði faðir ákærða farið fram og beðið sig að hringja á lögreglu, sem hún hafi gert. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við átök milli ákærða og föður hans. Faðir ákærða hafi einnig beðið sig að fara fram til að ná í handklæði til að stöðva blæðingar brotaþola og hún hafi orðið við því. Fljótlega eftir það hafi lögregla komið á vettvang.
Hlynur Steinn Þorvaldsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína. Staðfesti hann að ekki hefði verið hægt að ræða við ákærða á vettvangi. Ákærði hefði virst í einhvers konar vímuástandi, og ekki hægt að ná sambandi við hann. Hafi ákærði ekki veitt mótspyrnu við handtökuna og áverka á honum sé því ekki hægt að rekja til hennar, nema í mesta lagi marbletti á úlnliðum eftir handjárnin.
Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu rannsóknarlögreglu á vettvangi. Staðfesti hann að ummerki á vettvangi væru í samræmi við lýsingu brotaþola. Ekki hafi verið sýnilegt blóð í kjallaranum en blóðslóð hafi legið frá kjallaraíbúðinni að miðhæð hússins. Einnig hafi fundist blóð á efri hæðinni, á milli stofu og svefnherbergis. Aðspurður kvað hann að blæðing fari eftir því hvar manneskja sé stungin. Blóð seytli fyrst út í fatnað og taki svo að seytla niður á gólf þegar manneskjan fari á hreyfingu. Það geti verið skýring á því af hverju svo lítið blóð hafi fundist í kjallaranum. Blóð hafi fundist bæði á fatnaði brotaþola og ákærða. Það geti samrýmst frásögn brotaþola af átökum hennar og ákærða í kjölfar þeirrar árásar sem brotaþoli hafi lýst. Fram kom að hann hefði tekið ljósmyndir og verið viðstaddur réttarfræðilega rannsókn á ákærða. Staðfesti Hlynur að ákærði hafi verið 60 kg þegar hann var vigtaður en ekki 20 kíló eins og kemur fram í læknaskýrslu.
Stefán B. Matthíasson lækningaforstjóri sá um réttarlæknisfræðilega rannsókn á ákærða. Hann kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína en spurður um skráða þyngd ákærða sagði hann augljóslega um misritun að ræða. Ákærði hafi ekki verið 20 kg.
Þorvaldur Jónsson, skurðlæknir á Landspítalanum, kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt í málinu. Staðfesti hann að áverkarnir gætu samræmst því að hafa verið veittir með þeim hníf sem haldlagður var á vettvangi. Flest sárin hafi verið grunn en tvö þessara grunnu sára hafi engu að síður verið á brjóstkassa, eitt beint yfir bringubeini og annað beint yfir rifi. Ekki sé hægt að giska á hvort þau hefðu orðið dýpri, hefði bein ekki verið fyrirstaða. Alvarlegasta sárið hafi verið lífshættulegt, um 7 sentimetra djúpt og hafi gengið inn í líkamshol, bæði inn í brjósthol og kviðarhol. Það sár hafi valdið því að bráðaaðgerðar var þörf. Staðfesti Þorvaldur að brotaþoli hefði getað látið lífið ef ekki hefði komið til læknisfræðilegt inngrip. Þá lýsti Þorvaldur örum á líkama brotaþola eftir hnífsstungurnar og aðgerðina. Gera hafi þurft langan miðlínuskurð frá neðri enda bringubeins og niður að nafla til komast að maga og þind. Þetta ör hverfi ekki, frekar en önnur ör. Spurður hvort rispur á hálsi brotaþola gætu samræmst því að ákærði hafi tekið brotaþola kyrkingartaki aftan frá svaraði hann því játandi. Spurður hvort áverkar á bringu eða annars staðar gætu stafað af því að brotaþoli lá á grúfu með hnífinn undir sér, á meðan ákærði lá ofan á henni, sagði matsmaður það ólíklegt. Sárin séu lítil og stutt og brotaþoli hefði þá þurft að liggja ofan á hnífsoddinum.
Tómas Zoega geðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína um sakhæfi ákærða. Sagði hann enginn merki um geðrofsástand ákærða hafa verið til staðar, á þessum tíma eða fyrr. Ákærði hafi hugsanlega verið vægt þunglyndur, notað áfengi í nokkur skipti og verið undir áhrifum áfengis umrætt kvöld. Kvað hann aðspurður vel geta staðist að ákærði muni ekki atburðinn vegna mikillar áfengisneyslu. Slíkt óminnisástand sé þekkt þegar fólk neyti mikils áfengis. Ómögulegt sé þó að segja til um hvort áfengisneysla valdi þeirri gleymsku eða hvort ákærði loki einfaldlega á minningarnar í huganum. Í samtölum hefði ákærði tjáð sér að föðurbróðir hans hefði svipt sig lífi og faðir sinn gert tilraun til hins sama. Hafði ákærði kennt brotaþola um síðarnefnda atvikið og verið reiður út í hana. Tómas kvaðst þó ekki hafa merkt einkenni áfallastreituröskunar í fari ákærða.
Margrét Blöndal, geðhjúkrunarfræðingur á áfallamiðstöð Landspítala Háskólasjúkrahúss, kom fyrir dóminn og staðfesti greinargerð sína um brotaþola. Sagði hún brotaþola í fyrstu hafa verið illa haldna af líkamlegum meiðslum og verkjum og fljótt hafa þjáðst af endurupplifunum, martröðum og hræðslu. Verkjalyfin hefðu átt að slá á sálræn einkenni hennar en það hafi ekki gerst. Hún hafi þurft aukalyf ofan á svefnlyf til að sofa, hafi óttast það að útskrifast og fundist hún örugg á spítalanum. Eftir útskrift hafi hún dvalist erlendis í nokkra mánuði. Ástand hennar hafi versnað mikið síðan um miðjan desember, sérstaklega hvað svefntruflanir varðar. Hún sofi lítið eða ekkert, þrátt fyrir notkun svefnlyfja. Svefntruflanir vegna ágengra minninga og mikillar líffræðilegrar streitu séu eitt af einkennum áfallastreituröskunar. Brotaþoli sé með mikil áfallastreitu-, kvíða- og depurðareinkenni sem hafi aukist undanfarið. Ekki sé hægt að segja fyrir um framtíðarhorfur hennar. Hún þurfi á langtímameðferð að halda og meiri meðferð en áfallamiðstöð Landspítala bjóði upp á.
Spurð hvort hún hefði haft vitneskju um að brotaþoli hefði verið á svefnlyfjum áður og notað kannabisefni svaraði Margrét því játandi og kvað brotaþola hafa verið á einni tegund svefnlyfs fyrir.
Anna Kristín Newton sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt en ákærði hefur sótt sálfræðimeðferð til hennar eftir atburðinn. Spurð hvort ákærði hefði sýnt iðrun svaraði hún því til að ákærði hefði tjáð sér að hann vildi að þetta hefði ekki gerst. Í því felist eftirsjáin að mati matsmannsins.
Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri rannsóknastofu lyfja- og eiturefnafræði, gaf vitnisburð í gegnum síma og staðfesti niðurstöðu um eiturefnafræðilega rannsókn.
Forsendur og niðurstöður.
Í skýrslutöku hjá lögreglu, þann 21. apríl og aftur 26. apríl 2012, játaði ákærði að hafa veist að brotaþola og stungið hana með hnífi en kannaðist ekki við að hafa jafnframt veist að henni með höggum og spörkum í líkama og höfuð og gripið um háls hennar aftan frá með kyrkingartaki. Við þingfestingu málsins, þann 19. október 2012, viðurkenndi ákærði að hafa veitt brotaþola þá áverka með hnífi eins og lýst er í fyrri hluta ákærunnar en neitar að hafa ætlað að bana henni. Ákærði neitaði einnig þeirri háttsemi að hafa veist að brotaþola aftur með höggum og spörkum í líkama og höfuð og gripið um háls hennar aftan frá með kyrkingartaki. Þá kvaðst ákærði ekki vita hvort aðrar afleiðingar en vegna stungusáranna væru af hans völdum. Ákærði kvaðst þó hafa lent í átökum við brotaþola. Fyrir dómi, þann 25. janúar 2013, bar ákærði hins vegar við minnisleysi og kvaðst ekki muna eftir því að hafa veist að brotaþola.
Ákærði bar fyrir dóminum að hann hefði ekki haft ásetning til að verða brotaþola að bana, heldur hefði hann ætlað að hóta henni með hnífnum. Kvaðst ákærði ekkert muna frá því að brotaþoli hleypti honum inn í íbúð sína og þar til ákærði sat í lögreglubíl á leiðinni á lögreglustöð.
Játning ákærða hjá lögreglu, svo og staðfesting þeirrar játningar við þingfestingu málsins, er í samræmi við rannsóknargögn, læknisfræðileg gögn og framburð brotaþola í málinu. Þá liggur ekkert fyrir um að ákærði hafi verið beittur þrýstingi við yfirheyrslu hjá lögreglu eins og ákærði bar við fyrir dóminum en verjandi hans var einnig viðstaddur þær skýrslutökur.
Við sönnunarmat í málinu er játning ákærða hjá lögreglu og við þingfestingu málsins því höfð til hliðsjónar, enda hefur ákærði ekki veitt haldbæra skýringu á fráhvarfi sínu frá umræddum framburði. Því þykir sannað að ákærði hafi veist að brotaþola með hnífi og stungið hana ítrekað í líkamann eins og lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir, enda samrýmist það gögnum málsins og áverkum á brotaþola.
Ákærði lýsti umræddum hníf svo að hann væri stór eldhúshnífur. Samrýmist það lýsingu á hnífnum sem fannst á vettvangi með blóði á úr brotaþola. Á ákærða voru varnaráverkar sem bentu til að hann hefði lent í átökum, marblettir á hendi og á læri, eymsli í hægra fæti og rispur á andliti, auk þess sem blóð úr brotaþola fannst í fötum ákærða. Var mikið blóð úr brotaþola í fatnaði áærða, bæði peysu, boli og buxum. Samrýmist það frásögn brotaþola um átök sem hafi orðið milli þeirra í kjölfar árásar ákærða.
Telur dómurinn sannað að ákærði hafi stungið brotaþola ítrekað í líkamann eins og greinir í ákæru. Meðal áverka voru mörg stungusár og gekk eitt þeirra neðst í gegnum brjósthol vinstra megin þar sem hnífurinn gekk í gegnum þind, kviðarhol og maga, svo af hlaust lífshættulegur áverki. Af framburði Þorvalds Jónssonar skurðlæknis verður ekki annað ályktað en að ákærði hafi beitt hnífnum af afli. Þurfti að grípa inn í með skurðaðgerð til að bani hlytist ekki af.
Þá var brotaþoli með skrapsár á enni, bólgu á hægra augnloki, rispur á framanverðum hálsi, skurð yfir bringubeini og hægra megin við bringubein, skurð og sár milli rifja 8 og 9, skurð á vinstri þind, kviðarholi og maga ofanvert, skurð við vinstri úlnlið, skurð við vinstri olnboga og tvo skurði á vinstra læri framanvert. Samrýmast þessir áverkar framburði brotaþola um að hafa lent í átökum við ákærða eftir að hún náði af honum hnífnum. Þótt ekki sé unnt að slá því föstu að fyrir ákærða hafi vakað að svipta brotaþola lífi, er hann sótti hnífinn, telur dómurinn að honum hafi mátt vera ljóst er hann veittist að henni með hnífnum að langlíklegast væri að bani hlytist af atlögunni.
Með hliðsjón af þeim áverkum sem brotaþoli bar verður ekki önnur ályktun dregin en að minnsta kosti á verknaðarstundu hafi atlagan verið unninn af ásetningi til að verða brotaþola að bana, einkum með hliðsjón af fjölda áverka og staðsetningu þeirra. Aðrir áverkar sem brotaþoli bar, og að framan greinir, styðja framburð brotaþola um að ákærði hafi veist að henni með höggum og spörkum í líkama og höfuð og gripið um háls hennar aftan frá með kyrkingartaki. Þá styður það þá frásögn að ákærði sjálfur var með skrámur og áverka eftir atlöguna. Var árásin hrottaleg og tilefnislaus. Þá verður að líta til þess brotaþoli náði með snarræði að bjarga lífi sínu, annars vegar með því að taka hnífinn af ákærða og hins vegar með því að forða sér út úr íbúðinni og kalla eftir hjálp. Að öðrum kosti hefðu áverkar hennar getað dregið hana til dauða.
Samkvæmt þessu telur dómurinn það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og réttilega heimfærð til 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þann verknað. Ákærði er sakhæfur og verður honum gerð refsing fyrir.
Ákærði er fæddur [...] og var ekki orðinn fullra 18 ára gamall er hann framdi brotið. Honum hefur ekki verið gerð refsing áður. Þá hefur ákærði sótt sér aðstoð sálfræðings frá því í maí 2012 og stundað vinnu frá þeim tíma. Með vísan til 4. og 5. tölul. 1. mgr. 70. gr. og 2. tl. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár. Í ljósi alvarleika brotsins er ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna. Frá refsingunni skal dragast gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 21. apríl 2012 til 11. maí 2012 að fullri dagatölu.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu brotaþola er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða en kröfunni var í upphafi beint að B, kennitala [...], [...], [...], sem föður ákærða og lögráðamanni, að fjárhæð kr. 3.065.000 auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. apríl 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá var krafist greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Við upphaf aðalmeðferðar tók ákærði sjálfur við aðild bótakröfunnar þar sem hann var orðinn 18 ára gamall.
Ákærði mótmælti bótakröfunni. Samkvæmt gögnum málsins hlaut brotaþoli lífshættulega áverka við árás ákærða og á við verulega andlega vanlíðan að stríða í kjölfar hennar. Þá ber brotaþoli ævarandi líkamleg ör vegna árásarinnar eins og að ofan er rakið. Þá lá brotaþoli á sjúkrahúsi til 12. maí 2012. Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart brotaþola samkvæmt 3. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt framlögðum sérfræðigögnum og vitnisburði hefur brotið haft mikil áhrif á allt líf brotaþola og haft í för með sér mikla vanlíðan og öryggisleysi, en brotaþoli hefur upplifað mikla ógn, ofsaótta og lífshættu í árásinni og í kjölfar hennar og greindist með áfallastreituröskun eftir árásina. Einnig er litið til þess að samkvæmt mati sérfræðinga á brotaþoli fyrir höndum erfitt meðferðarferli til að ná sér af framangreindum einkennum. Því ber að dæma ákærða til að greiða brotaþola miskabætur samkvæmt 26. gr. og þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í ljósi framangreinds þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákveðnar 3.000.000 krónur og þjáningabætur frá 21. apríl til 12. maí 2012 65.396 krónur, eða samtals 3.065.396 krónur, og ber fjárhæðin vexti eins og í dómsorði greinir en bótakrafan var fyrst birt 26. júní 2012.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 skal loks dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti 599.776 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 320.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá ber að dæma ákærða til að greiða kostnað réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 389.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari.
Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm ár. Frá refsingunni skal gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 21. apríl 2012 til 11. maí 2012 dragast að fullri dagatölu.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 1.308.776 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 320.000 krónur og laun réttargæslumanns, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 389.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ákærði greiði A miska- og þjáningabætur, samtals 3.065.396 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. apríl 2012 til 26. júlí 2012 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.