Hæstiréttur íslands
Mál nr. 261/2017
Lykilorð
- Lánssamningur
- Skaðabætur
- Fjármálafyrirtæki
- Handveð
- Verðbréfaviðskipti
- Gengistrygging
- Tómlæti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og Ragnheiður Bragadóttir landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 6.878.054 krónur, en til vara skaðabætur að fjárhæð 1.084.319 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur aðallega að fjárhæð 16.000.000 krónur, til vara 3.289.602 krónur, til þrautavara 2.485.193 krónur en að því frágengnu að bætur verði dæmdar að álitum, í öllum tilvikum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. mars 2009 til 6. janúar 2016 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Einnig krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur aðallega að fjárhæð 11.895.114 krónur að „frádregnum tildæmdum dráttarvöxtum samkvæmt aðaldómkröfu í 1. tölulið“, en til vara 2.414.298 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. maí 2015 til greiðsludags. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 30. maí 2016 í máli milli sömu aðila nr. 330/2016 snúa kröfur áfrýjanda í fyrsta lagi að því við hvaða erlenda gjaldmiðla hafi átt að miða skuld samkvæmt lánssamningi 2. maí 2007 sem stefndi gerði við Drómund ehf., áður Hverafold ehf., í öðru lagi hvort stefndi hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart áfrýjanda með þeim afleiðingum að stefndi hafi orðið að taka til sín meira af verðmæti veðsettra fjármálagerninga til uppgjörs á fyrrnefndu láni en ella hefði þurft og í þriðja lagi hvort stefndi hafi ráðstafað meira af þessum gerningum en heimilt hafi verið. Til tryggingar greiðslu skuldbindingar Drómundar ehf. hafði áfrýjandi 25. apríl 2007 sett að handveði nánar tiltekna fjármálagerninga ásamt vörslureikningi þar sem þeir voru geymdir.
Í fyrsta lið dómkrafna sinna krefst áfrýjandi þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða sér 6.878.054 krónur, sem hann hafi oftekið af bankareikningum 6. mars 2009 við uppgreiðslu á áðurgreindum lánssamningi stefnda og Drómundar ehf., sem er einkahlutafélag í eigu áfrýjanda. Stafi það af því að stefndi hafi umreiknað skuldina í íslenskar krónur úr svissneskum frönkum og japönskum jenum, en ekki úr bandaríkjadölum, sem áfrýjandi telur að hafi verið lántökumyntin.
Með dómi Hæstaréttar 16. mars 2015 í máli milli sömu aðila nr. 558/2014 var því slegið föstu að lán samkvæmt áðurgreindum lánssamningi væri lán í erlendri mynt, en ekki lán í íslenskum krónum, sem ólöglega hafi verið bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Í dóminum var ekki tekin til þess afstaða í hvaða erlenda gjaldmiðli eða gjaldmiðlum lánið var. Áfrýjandi heldur því nú fram að miða beri skuld samkvæmt lánssamningnum við gengi bandaríkjadals. Lánið hafi verið greitt út í bandaríkjadölum, sem leiða eigi til þeirrar niðurstöðu að við endurgreiðslu þess beri einnig að miða við gengi þess gjaldmiðils. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að við uppreikning skuldarinnar í íslenskar krónur beri að taka mið af þeim erlendu gjaldmiðlum sem kveðið hafi verið á um í lánssamningnum, þ.e. gengi japanskra jena og svissneskra franka að jöfnu.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ræðst úrlausn á þessum ágreiningi aðila fyrst og fremst af skýringu á texta lánssamningsins þar sem lýst er þeirri skuldbindingu sem Drómundur ehf. tókst á hendur með samningnum. Í lánssamningnum sagði að um væri að ræða fjölmyntalán að jafnvirði 25.000.000 krónur í svissneskum frönkum og japönskum jenum í jöfnum hlutföllum. Þá var kveðið á um í samningnum að fjárhæð hvers gjaldmiðils skyldi þó ekki ákvarðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins og yrði skuldin eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Í samningnum var kveðið á um að greiða skyldi lánið með einni afborgun í lok lánstímans 16. maí 2009. Vexti bæri þó að greiða á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 16. nóvember 2007. Samkvæmt gögnum málsins voru greiddir vextir af láninu þann dag og síðan á gjalddögum 16. maí og 17. nóvember 2008. Í tilkynningum stefnda um þá gjalddaga voru vextirnir tilgreindir í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Af gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjandi hafi haft uppi athugasemdir við stefnda vegna þeirra tilkynninga. Vaxtagreiðslurnar voru inntar af hendi í íslenskum krónum og tóku þær mið af gengi áðurgreindra gjaldmiðla. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir enga þýðingu hafa við úrlausn málsins þótt lánið hafi að ósk áfrýjanda verið greitt út í bandaríkjadölum 4. maí 2007, en samkvæmt kaupnótu var fjárhæð lánsins reiknuð í japönskum jenum og svissneskum frönkum og uppreiknuð úr þeim gjaldmiðlum í bandaríkjadali við innlögn á gjaldeyrisreikning áfrýjanda. Samkvæmt öllu framangreindu var stefnda rétt við uppgreiðslu lánsins 6. mars 2009 að reikna eftirstöðvar þess í íslenskum krónum miðað við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilteknir voru í lánssamningi. Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu í fyrsta lið dómkrafna.
Aðalkrafa áfrýjanda í þriðja lið dómkrafna hans, sem er skaðabótakrafa, byggir einnig á því að við uppgjör skuldarinnar hafi borið að miða við gengi bandaríkjadals. Með vísan til fyrrgreindrar niðurstöðu varðandi aðalkröfu áfrýjanda í fyrsta lið dómkrafna verður stefndi einnig sýknaður af þeirri kröfu.
II
Aðrar kröfur áfrýjanda í málinu eru skaðabótakröfur. Byggir áfrýjandi bótakröfur sínar á því að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart sér samkvæmt 18. og 19. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, en þar sé meðal annars mælt fyrir um að við framkvæmd viðskiptafyrirmæla skuli fjármálafyrirtæki leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína og gera ráðstafanir sem miði að sanngjarnri og skjótri framkvæmd fyrirmæla viðskiptavina. Til stuðnings bótakröfum sínum vísar áfrýjandi einnig til 29. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa, en ekki verður séð að hún geti átt við í málinu. Þá vísar áfrýjandi til almennra reglna skaðabótaréttar.
Áfrýjandi byggir á því að vanræksla stefnda við framkvæmd viðskiptafyrirmæla hans hafi í fyrsta lagi haft þær afleiðingar að stefndi hafi tekið til sín meira af verðmæti veðsettra fjármálagerninga til uppgjörs á skuldinni, en annars hefði þurft. Í öðru lagi hafi vanrækslan leitt til þess að stefndi hafi ráðstafað meira af þessum gerningum en heimilt hafi verið.
1
Í fyrsta lið dómkrafna sinna krefst áfrýjandi þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 1.084.319 krónur með dráttarvöxtum frá 6. mars 2009 vegna tjóns sem áfrýjandi hafi orðið fyrir vegna vaxtakostnaðar og þróunar gengis japansks jens, svissnesks franka og bandaríkjadals frá 4. og 5. mars 2009, þegar uppgjör söluandvirðis fjármálagerninga áfrýjanda lá fyrir, til 6. sama mánaðar þegar lánið var greitt upp. Á þessu tímabili hafi gengi hinna erlendu gjaldmiðla breyst með neikvæðum hætti fyrir áfrýjanda, skuld Drómundar ehf. hafi hækkað í krónum talið og eignir áfrýjanda í bandaríkjadölum hafi lækkað í verði. Að loknu uppgjöri á söluandvirði fjármálagerninganna hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að ráðstafa söluandvirði þeirra strax inn á skuldina, en það hafi ekki verið gert fyrr en 6. mars 2009.
Stefndi hóf sölu á hinum handveðsettu fjármálagerningum föstudaginn 27. febrúar 2009 og lauk sölu þeirra mánudaginn 2. mars sama ár. Fyrri daginn seldi stefndi hluti áfrýjanda í Skuldabréfasjóði Landsbanka og lauk uppgjöri á söluandvirðinu 2. mars 2009, en það var að fjárhæð 290.751 króna. Sala á hlutum áfrýjanda í verðbréfasjóðnum Landsbanki Global Equity Fund fór einnig fram 27. febrúar 2009, en uppgjöri á söluandvirði þeirra lauk þremur virkum dögum síðar eða 4. mars 2009. Nam söluandvirði þeirra 27.710.315 krónum. Sala á hlutum áfrýjanda í verðbréfasjóðunum Global Growth Trends Portfolio-A-USD og Global Value Portfolio-A-USD fór fram 2. mars 2009 og lauk uppgjöri á söluandvirði þeirra þremur virkum dögum síðar eða 5. sama mánaðar. Nam söluandvirði þeirra 245.239,57 bandaríkjadölum, sem samkvæmt kaupgengi bandaríkjadals 5. mars 2009, er var 112,72, og jafngilti því 27.643.404 íslenskum krónum. Skuld samkvæmt lánssamningnum að fjárhæð 51.630.533 krónur var síðan greidd upp með söluandvirði fjármálagerninganna 6. mars 2009. Í útreikningum sínum miðar áfrýjandi við að ef 24.006.748 krónur hefðu verið greiddar inn á skuldina 4. mars 2009 og 26.548.880 krónur daginn eftir hefði greiðsla áfrýjanda til uppgjörs á skuldinni verið 1.084.319 krónum lægri en raun varð á hinn 6. mars 2009.
Á meðal gagna málsins eru reglur fyrir Landsbanka Global Equity Fund, sem samþykktar voru 30. ágúst 2007. Í 10. gr. þeirra segir að rekstraraðila sjóðsins sé skylt að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eiganda á því kaupgengi sem gildir á innlausnardegi. Þá segir í 10. gr.: „Viðskipti með hlutdeildarskírteini Landsbanki Global Equity Fund fara fram þremur dögum eftir að ósk um viðskipti berst (T+3).“ Þá er á meðal gagna málsins tilkynning frá NASDAQ OMX Iceland, Kauphöllinni á Íslandi, frá 7. maí 2014 þar sem Kauphöllin ákvað að breyta uppgjörstíma allra verðbréfaviðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar og First North Iceland þannig að uppgjör færi fram á öðrum virkum degi eftir að viðskipti ættu sér stað (T+2). Fram kemur í tilkynningunni að með þessu væri uppgjörstími hlutabréfaviðskipta styttur um einn dag, en uppgjörstími skuldabréfaviðskipta lengdur um einn dag. Af yfirliti um verðbréfaeign áfrýjanda 17. febrúar 2009 má sjá að verðbréfaeign hans var að 99,46% erlend hlutabréf. Að gættum framangreindum reglum Kauphallarinnar um uppgjörstíma verðbréfaviðskipta og reglum þeim sem giltu um uppgjör hlutdeildarskírteina Landsbanka Global Equity Fund verður að ætla fjármálafyrirtækjum nokkurt svigrúm til að gera upp og ráðstafa söluandvirði verðbréfa og annarra fjármálagerninga. Stefndi ráðstafaði söluandvirðinu til greiðslu á skuld samkvæmt lánssamningnum einum til tveimur dögum eftir að uppgjör vegna sölu á eign áfrýjanda í verðbréfasjóðunum þremur lá fyrir eða 6. mars 2009. Verður ekki fallist á að sú afgreiðsla stefnda feli í sér þær tafir á framkvæmd fyrirmæla áfrýjanda að bakað hafi honum bótaskyldu á grundvelli 18. og 19. gr. laga nr. 108/2007. Verður því stefndi sýknaður af bótakröfum áfrýjanda samkvæmt varakröfu í fyrsta lið dómkrafna hans.
2
Í öðrum lið dómkrafna krefur áfrýjandi stefnda aðallega um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 16.000.000 krónur með vöxtum frá 6. mars 2009 þar sem áfrýjandi hefði vanefnt skyldu sínu samkvæmt ákvæði í handveðsyfirlýsingunni um að tilkynna áfrýjanda þegar skuldin sem handveðið átti að tryggja næmi hærra hlutfalli en 60% af markaðsverði hinna veðsettu fjármálagerninga. Hafi stefnda þá borið að gefa áfrýjanda þriggja bankadaga frest til að bæta við nægilegum tryggingum eða bregðast við á annan hátt í því skyni að takmarka tjón sitt. Þess í stað hafi stefndi tekið einhliða ákvörðun um að hætta enn meiri fjármunum áfrýjanda án hans samþykkis. Með þessari háttsemi hafi stefndi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 18. gr. laga nr. 108/2007 og 4. gr. reglna stefnda um bestu framkvæmd, markaðssvik og innherjaviðskipti, sem samkvæmt gögnum málsins eru frá apríl 2010.
Fallist er á með héraðsdómi að ákvæðum í handveðsyfirlýsingu áfrýjanda 25. apríl 2007 og lánssamningi 2. maí 2007 um 60% veðhlutfall hafi verið ætlað að tryggja hagsmuni veðhafa, lánveitandans, til fullnægjandi trygginga. Fyrir liggur að ekki kom til þess að stefndi beitti framangreindri heimild um að kalla eftir auknum tryggingum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 558/2014, en eðli málsins samkvæmt hvíldi ekki sú skylda á stefnda að nýta sér þetta úrræði. Með hliðsjón af framangreindu getur áfrýjandi ekki byggt rétt til skaðabóta úr hendi stefnda á því að stefndi hafi ekki beitt þeim úrræðum sem honum voru heimil til að tryggja hagsmuni sína sem lánveitandi og veðhafi. Verður ætlað tjón áfrýjanda hvorki rakið til saknæmrar né ólögmætrar háttsemi stefnda í þessum efnum. Verður hann því sýknaður af bótakröfu áfrýjanda samkvæmt aðalkröfu í öðrum lið dómkrafna hans.
3
Áfrýjandi byggir vara- og þrautavarakröfu í öðrum lið dómkrafna sinna á því að hann hafi gefið afdráttarlaus fyrirmæli um innlausn og sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í tölvupósti til starfsmanns stefnda 17. febrúar 2009, sem hann hafi samþykkt sama dag. Bindandi samkomulag hafi því tekist milli áfrýjanda og stefnda um sölu hinna handveðsettu eigna þann dag. Áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni þar sem stefndi hafi ekki farið strax að fyrirmælum hans og selt fjármálagerningana 17. febrúar 2009, en virði þeirra hafi numið 59.548.931 krónu þann dag, en einungis 56.259.329 krónum þegar þeir hafi loks verið innleystir um mánaðamót febrúar og mars 2009. Tjón stefnda nemi mismuninum eða 3.289.602 krónum, sem er fjárhæð varakröfu áfrýjanda í öðrum lið dómkrafna hans.
Þrautavarakrafa áfrýjanda í öðrum lið dómkrafna hans er að fjárhæð 2.485.193 krónur. Byggir áfrýjandi útreikning kröfu sinnar á því að ef sala hinna veðsettu fjármálagerninga hefði farið fram 17. febrúar 2009 og uppgjör á söluandvirði þeirra þremur dögum síðar, sem síðan hefði verið ráðstafað samdægurs til greiðslu á láninu, hefðu 7.113.989 krónur setið eftir í höndum áfrýjanda í stað 4.628.796 króna, sem eftir hafi verið af söluandvirðinu eftir uppgjör skuldarinnar 6. mars 2009. Mismunurinn nemi fjárhæð þrautavarakröfu.
Þau ætluðu fyrirmæli sem áfrýjandi vísar til um að selja skyldi hina veðsettu gerninga voru send stefnda í tölvupósti, fyrst 11. febrúar 2009 og síðan 17. sama mánaðar. Í fyrri tölvupóstinum lýsti áfrýjandi bágri fjárhagsstöðu Drómundar ehf. og upplýsti að hann væri að reyna að bjarga félaginu og hefði hug á að forða því frá gjaldþroti. Í tölvupóstinum gerði áfrýjandi grein fyrir þeirri hugmynd sinni að hann myndi sjálfur kaupa kröfu stefnda á hendur Drómundi ehf. samkvæmt lánssamningnum 2. maí 2007 og greiða fyrir með því að selja þær eignir sínar sem bankinn hefði að handveði. Síðan sagði í tölvupóstinum: „Með þessari hugmynd um að ég kaupi kröfu Landsbankans á Drómund er ég að gera ráð fyrir að Landsbankinn fái alla kröfu sína greidda uppreiknaða með áföllnum vöxtum en bæti ekki á neinum aukakostnaði. Hver er afstaða bankans, er þetta eitthvað sem kæmi til greina að gera?“ Hinn 17. febrúar 2009 svaraði starfsmaður stefnda erindi áfrýjanda með tölvupósti: „Sæll Birkir, þetta gengur. Ég læt innleysa bréfin“. Áfrýjandi svaraði tölvupóstinum nokkrum mínútum síðar og tók fram að hann legði mikla áherslu á að þetta yrði framkvæmt eins og hann hefði mælt fyrir um, sem var að hann eignaðist persónulega kröfuna á hendur Drómundi ehf. samkvæmt áðurgreindum lánssamningi. Í tölvupóstinum tiltók áfrýjandi: „... ég kaupi þá pappíra af bankanum og fæ þá framselda og grundvalla síðan mína kröfu á Drómund á þeim lánasamningum. Þarf ég að koma við hjá þér til að skrifa undir eitthvað eða sendir þú mér pappírana? Viltu þá innleysa að fullu báða ACM sjóðina mína og það sem þarf af Landsbanka Global Equity fund upp í restina af kaupverðinu fyrir skuldabréfinu.“
Með tölvupósti 18. febrúar 2009 tilkynnti starfsmaður á fyrirtækjasviði stefnda að bankinn hefði tekið þá stefnu að framselja ekki lánsskjöl samhliða uppgjöri. Í kjölfarið áttu sér stað frekari samskipti í tölvupósti um þá ósk áfrýjanda að stefndi framseldi honum kröfuna á hendur Drómundi ehf. við uppgjör á skuldinni, en niðurstaðan varð sú að stefndi samþykkti að gefa út yfirlýsingu um að eignir sem áfrýjandi hefði sett að veði til tryggingar skuldinni hefðu verið innleystar og andvirði þeirra ráðstafað til greiðslu á skuld Drómundar ehf. Starfsmaður stefnda sendi áfrýjanda því næst tölvupóst 24. febrúar 2009 og innti hann eftir því hvað hann segði um framhaldið. Áfrýjandi svaraði með tölvupósti 26. sama mánaðar og sagði: „Er ekki rétt að drífa í þessu og klára málið, innleysa sjóðina greiða fyrir lánið. Viltu láta mig vita hvenær ég má vænta þess að þessi mál verði frágengin.“ Daginn eftir eða 27. febrúar 2009 byrjaði stefndi að selja hina handveðsettu fjármálagerninga og lauk sölu þeirra 2. mars 2009.
Með vísan til framangreindra samskipta áfrýjanda við starfsmenn stefnda er ekki fallist á það með áfrýjanda að hinn 17. febrúar 2009 hafi komist á bindandi samkomulag milli hans og stefnda um að selja hina handveðsettu fjármálagerninga til að gera upp skuld samkvæmt áðurgreindum lánssamningi. Ljóst er að fyrirmæli áfrýjanda í tölvupósti 17. febrúar 2009 til stefnda voru sett fram með því skilyrði að krafa samkvæmt lánssamningnum 2. maí 2007 yrði framseld áfrýjanda, en það skilyrði gat stefndi ekki fallist á. Samkomulag aðila um sölu hinna handveðsettu gerninga í því skyni að gera upp skuld samkvæmt lánssamningnum komst því ekki á fyrr en með fyrirmælum áfrýjanda sem sett voru fram í tölvupósti til stefnda 26. febrúar 2009. Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af vara- og þrautavarakröfu í öðrum lið dómkrafnanna.
Af áðurgreindri niðurstöðu réttarins að því er varðar aðal-, vara- og þrautavarakröfu í öðrum lið dómkrafna áfrýjanda leiðir að stefndi verður einnig sýknaður af þrautaþrautavarakröfu áfrýjanda í öðrum lið um skaðabætur að álitum.
4
Í þriðja lið dómkrafna sinna krefst áfrýjandi þess til vara að stefndi greiði sér skaðabætur að fjárhæð 5.276.513 krónur. Samkvæmt fyrirmælum í tölvupósti áfrýjanda til stefnda 11. og 17. febrúar 2009 hafi stefndi einungis átt að innleysa fjármálagerninga áfrýjanda að því marki sem dygði fyrir greiðslu á skuld Drómundar ehf. við stefnda. Stefndi hafi hins vegar innleyst alla gerningana sem áfrýjandi hafði sett að handveði. Tjón áfrýjanda sé í því fólgið að hafa af framangreindum ástæðum orðið af þeirri ávöxtun sem fjárfesting hans í Landsbanka Global Equity Fund hefði skilað honum hefði stefndi farið að áðurgreindum fyrirmælum hans. Til að greiða skuld Drómundar ehf. hefði nægt að innleysa 26.029.541 hlut í sjóðnum 4. mars 2009 og því hefði áfrýjandi átt áfram í honum hluti að nafnverði 4.384.301 króna, sem við innlausn hafi verið að markaðsvirði 4.086.081 króna. Hinn 29. maí 2015 hafi markaðsvirði þeirra hluta numið 5.506.244 krónum, en frá þeirri fjárhæð hefur áfrýjandi dregið vaxtatekjur af fjárhæðinni, sem hann fékk til frjálsrar ráðstöfunar eftir uppgreiðslu lánsins, á tímabilinu frá 6. mars 2009 til 29. maí 2015. Miðað við 10% ársvexti og vaxtavexti af fjárhæðinni nemi vaxtatekjurnar 3.091.946 krónum. Að þeim frádregnum nemi tjón áfrýjanda 2.414.298 krónum. Af gögnum málsins má ráða að áfrýjandi tefldi fyrst fram kröfu sem byggði á þessum sjónarmiðum í tölvupósti til stefnda 31. maí 2015, en ekki 29. maí eins og hann heldur fram í stefnu og miðar við í útreikningi kröfu sinnar.
Eins og fyrr greinir voru endanleg fyrirmæli áfrýjanda um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga sett fram í tölvupósti til stefnda 26. og 27. febrúar 2009 en þar óskaði áfrýjandi eftir því að málið yrði klárað, sjóðirnir innleystir og lánið greitt upp. Gögn málsins bera með sér að áfrýjandi fékk frá stefnda kvittanir vegna sölu á fjármálagerningunum og uppgjörs á söluandvirði þeirra 2., 4. og 5. mars 2009. Af gögnum málsins má ljóst vera að þrátt fyrir að áfrýjanda hafi verið kunnugt um innlausn fjármálagerninganna frá þeim tíma verður ekki séð að hann hafi gert athugasemdir við innlausn þeirra fyrr en í tölvupósti til stefnda 31. maí 2015. Voru þá liðin rúm sex ár frá því að innlausn fjármálagerninganna. Sýndi áfrýjandi því af sér stórfellt tómlæti, sbr. dóm Hæstaréttar 28. janúar 2014 í máli nr. 719/2013. Verður að telja að tómlæti áfrýjanda að þessu leyti firri hann rétti til að hafa upp skaðabótakröfu á þessum grundvelli. Verður stefndi því þegar af þeirri ástæðu sýknaður af varakröfu áfrýjanda í þriðja lið dómkrafna hans.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Birkir Leósson, greiði stefnda, Landsbanka Íslands hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2017
Mál þetta, sem dómtekið var 10. janúar 2017, var höfðað 6. janúar 2016 af Birki Leóssyni, Fannafold 176, Reykjavík á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, til endurgreiðslu á ofteknum fjármunum af bankareikningum stefnanda 6. mars 2009 og til greiðslu skaðabóta vegna tapa sem stefnandi hafi orðið fyrir af völdum stefnda.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:
Í fyrsta lið dómkröfu stefnanda krefst hann þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.878.054 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 6. mars 2009 til greiðsludags. Í fyrsta lið dómkröfu stefnanda er þess því næst krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.084.319 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 6. mars 2009 til greiðsludags.
Í öðrum lið dómkröfu stefnanda krefst hann þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 30.571.204 krónur. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.289.602 krónur. Til þrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 2.485.193 krónur. Til þrautaþrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að annarri fjárhæð að álitum dómsins. Þess er krafist að skaðabætur sem ákveðnar verða samkvæmt þessum lið dómkröfu stefnanda beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 6. mars 2009 til 6. janúar 2016, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Í þriðja lið dómkröfu stefnanda krefst hann þess aðallega að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð 14.757.329 krónur, að frádreginni þeirri fjárhæð dráttarvaxta sem stefnanda verði gert að greiða stefnda samkvæmt aðalkröfu í fyrsta lið dómkröfu stefnanda. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.276.513 krónur. Til þrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að annarri lægri fjárhæð að álitum dómsins. Þess er krafist að skaðabætur sem ákveðnar verða samkvæmt þessum lið dómkröfu stefnanda beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 29. maí 2015 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað eftir mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Krafist er virðisaukaskatts af dæmdri málflutningsþóknun til stefnda.
Í greinargerð sinni krafðist stefndi þess að málinu yrði vísað frá dómi. Fallist var á þá kröfu með úrskurði þessa dóms 15. apríl 2016, en með dómi Hæstaréttar Íslands 30. maí 2016, í máli réttarins nr. 330/2016, var sá úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar. Við fyrirtöku málsins 1. september 2016 lagði stefndi fram greinargerð um efnishlið málsins og gerði þá framangreindar kröfur í málinu.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Mál þetta á rætur að rekja til þess að félag, sem mun að öllu leyti hafa verið í eigu stefnanda og borið á síðari stigum heitið Drómundur ehf., gerði samning 2. maí 2007 við Landsbanka Íslands hf. um að taka „fjölmyntalán til 2 ára að jafnvirði kr. 25.000.000 ... í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 50% JPY 50%“. Lán þetta skyldi endurgreitt í einu lagi 16. maí 2009, en vextir af því, sem áttu að vera svonefndir LIBOR-vextir með 1,9% álagi, skyldu þó greiddir á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 16. nóvember 2007. Í samningnum var tekið fram að lántakinn óskaði eftir að nánar tilgreindur reikningur í eigu stefnanda, sem mun hafa verið tékkareikningur í krónum við Landsbanka Íslands hf., yrði skuldfærður fyrir greiðslu vaxta af láninu og endurgreiðslu höfuðstólsins. Samkvæmt fylgiskjali með samningnum óskaði lántakinn eftir því að lánið yrði greitt út með innborgun á tiltekinn reikning í eigu stefnanda hjá bankanum, sem ekki er umdeilt í málinu að hafi verið innlendur gjaldeyrisreikningur í bandaríkjadölum. Til að tryggja greiðslu skuldbindinga lántakans hafði stefnandi áður sett að handveði til bankans 25. apríl 2007 nánar tiltekna fjármálagerninga í eigu sinni ásamt vörslureikningi sem þeir voru varðveittir á.
Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd, en ráðstafaði síðan 9. sama mánaðar tilteknum eignum og skuldbindingum þess til nýs banka, sem nú ber heiti stefnda. Óumdeilt er að meðal þeirra eigna hafi verið réttindi samkvæmt fyrrnefndum lánssamningi og yfirlýsingu stefnanda um handveð.
Fyrir liggur að stefnandi bar í febrúar 2009 upp ósk við stefnda um að fá að kaupa kröfu bankans á hendur Drómundi ehf. samkvæmt lánssamningnum, en til að standa straum af kaupverðinu yrðu seld verðmæti sem stefnandi hafði sett að handveði samkvæmt áðursögðu. Stefndi mun hafa neitað að framselja stefnanda kröfuna, en samkomulag á hinn bóginn tekist um að gera upp skuldina á þennan hátt. Í því skyni mun stefndi hafa komið gerningunum sem handveðréttur hans tók til í verð á tímabilinu frá 27. febrúar til 2. mars 2009 og lagt andvirði þeirra, 27.710.315 krónur og 245.239,57 bandaríkjadali, inn á tékkareikning og gjaldeyrisreikning stefnanda hjá sér. Stefndi mun síðan 6. mars sama ár hafa tekið síðastgreinda fjárhæð af gjaldeyrisreikningi stefnanda og lagt andvirði hennar, 27.501.166 krónur, inn á tékkareikning hans, en fært sama dag 51.630.533 krónur af þeim reikningi til að greiða skuld Drómundar ehf. samkvæmt lánssamningnum frá 2. maí 2007.
Stefnandi höfðaði 27. júlí 2012 mál á hendur stefnda og krafðist þess að þeim síðarnefnda yrði aðallega gert að greiða sér annars vegar 24.129.367 krónur og hins vegar 245.239,57 bandaríkjadali, til vara 232.654,54 bandaríkjadali og að því frágengnu 26.089.880 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum frá 6. mars 2009 til greiðsludags. Aðalkröfuna reisti stefnandi á því að handveðréttur stefnda yfir áðurnefndum fjármálagerningum hefði fallið niður við sölu þeirra og hafi stefndi ekki notið nokkurra réttinda yfir söluverðinu, sem hafi verið lagt inn á óveðsetta innlánsreikninga stefnanda. Stefnda hafi af þessum sökum verið óheimilt að taka fé af reikningunum til að greiða upp skuld Drómundar ehf. Sneri aðalkrafa stefnanda þannig að því að stefnda yrði gert að endurgreiða sér féð sem hann hafi tekið til sín á þennan hátt. Varakröfurnar tvær voru á hinn bóginn byggðar á því að fjárhæð skuldar Drómundar ehf. samkvæmt lánssamningnum 2. maí 2007, sem hafi verið í krónum, hafi andstætt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, verið bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Hafi stefnda ekki verið heimilt að krefjast greiðslu á hærri fjárhæð en svarað hafi til höfuðstóls lánsins í krónum og umsaminna vaxta af henni og bæri honum því að endurgreiða það, sem hann hafi oftekið við uppgjör skuldarinnar, aðallega í bandaríkjadölum en til vara samsvarandi fjárhæð í krónum.
Með dómi Hæstaréttar 16. mars 2015 í máli nr. 558/2014 var stefndi sýknaður af framangreindum kröfum stefnanda. Að því er varðaði aðalkröfu stefnanda var í dóminum vísað til þess að sannað væri að samkomulag hefði tekist milli aðilanna um að fjármálagerningarnir, sem stefnandi hafi sett að veði til tryggingar skuld Drómundar ehf., yrðu seldir til að greiða hana upp. Yrði ekki litið svo á að réttarvernd veðréttarins hafi fallið niður við það eitt að andvirði fjármálagerninganna hafi í þessum tilgangi verið lagt inn á óveðsetta innlánsreikninga stefnanda í skamman tíma. Um varakröfur stefnanda var tekið fram að við úrlausn um hvort lán hafi verið tekið í krónum með áskilnaði um að fjárhæð þess tæki breytingum eftir gengi erlendra gjaldmiðla yrði samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar fyrst og fremst að líta til texta skuldbindingar lántaka í samningi um lánið, en leiddi skýring þess texta ekki til niðurstöðu yrði að gæta að því hvernig aðilar samningsins hefðu efnt skyldur sínar og framkvæmt hann að öðru leyti. Lánið, sem um ræddi, hafi verið greitt út í bandaríkjadölum með innborgun á reikning stefnanda, sem hafi verið stofnaður að ósk hans vegna fyrirhugaðra fjárfestinga erlendis. Að því virtu var varakröfum stefnanda, sem byggðu á því að lánið væri í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, einnig hafnað með dómi Hæstaréttar.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2015 var vísað frá dóminum máli sem stefnandi höfðaði gegn stefnda 11. júní s.á. þar sem hann krafðist m.a. viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna framangreindra atvika. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar.
Stefnandi höfðaði mál þetta gegn stefnda 6. janúar 2016 og setti þá dómkröfur sínar fram með þeim hætti að þar var, gagnstætt fyrirmælum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, ekki látið við það sitja að tiltaka hvers hann krefðist í einfaldri mynd, heldur var þar í löngu máli vafið inn í kröfugerðina skýringum og málsástæðum að baki henni. Kröfur stefnanda voru ekki hæfar til dóms í þeim búningi svo sem fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 330/2016. Ekki þóttu, að svo komnu, efni til að vísa málinu frá dómi af þeim sökum, þar sem stefnandi sem er ólöglærður fari með mál sitt sjálfur og því hvíli á héraðsdómara að leiðbeina honum um formhlið þess, þar á meðal um orðalag dómkrafna. Þegar málið var tekið til meðferðar þessa dóms að nýju færði stefnandi kröfugerð sína í það horf sem hér að framan er efnislega gerð grein fyrir.
Frávísun máls þessa frá héraðsdómi 15. apríl 2016 byggði á þeim rökum að með dómi Hæstaréttar 16. mars 2015, í fyrrnefndu máli réttarins nr. 558/2014, lægi fyrir endanlegur dómur um málsatvik og umrædd viðskipti aðila. Þar sem stefndi hefði verið sýknaður af kröfu stefnanda um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem viðskipti aðila snerust um yrði ekki að nýju dæmt um þá kröfu, sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt var með vísun til 5. mgr. 101. gr. sömu laga talið rétt að vísa málinu frá dómi þar sem stefnandi hefði látið undir höfuð leggjast að færa fyrir kröfu sinni málsástæður, sem hann hefði getað teflt fram í máli því gegn stefnda sem hann áður hefði höfðað.
Aðalkrafa stefnanda í fyrra máli hans á hendur stefnda var sem fyrr greinir reist á því að stefnda hefði verið óheimilt að verja fé, sem stóð á innlánsreikningum stefnanda hjá sér, til að greiða upp skuld Drómundar ehf. samkvæmt lánssamningnum frá 2. maí 2007 sökum þess að tryggingarréttindi samkvæmt handveðsyfirlýsingunni 25. apríl sama ár hefðu ekki náð til þeirra innstæðna. Varakröfur stefnanda í því máli voru um endurgreiðslu á fé, sem hann taldi stefnda hafa oftekið af þeim innstæðum til uppgjörs á skuldinni, með því að miða útreikning lánsfjárhæðar við það að hún hafi verið í erlendum gjaldmiðlum en ekki í íslenskum krónum með ólögmætum áskilnaði um gengistryggingu. Stefndi var sýknaður og hefur sá dómur gagnvart málinu, sem hér er til úrlausnar, þau áhrif sem um ræðir í 1. mgr. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Með dómi Hæstaréttar 30. maí 2016 var máli þessu vísað heim til meðferðar þessa dóms að nýju með þeim rökstuðningi að þótt mál þetta eigi rætur að rekja til sömu lögskipta aðilanna og bjuggu að baki fyrra málinu séu kröfurnar, sem stefnandi geri nú, í öllum atriðum reistar á öðrum forsendum. Ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 standi af þessum sökum hvorki því í vegi að stefnandi hafi nú uppi dómkröfur á þessum grunni né verði litið svo á að hann hefði með réttu átt að gera þær í fyrra málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. sömu laga. Mál þetta snúist hvorki um gildi eða umfang handveðréttinda stefnda samkvæmt yfirlýsingunni frá 25. apríl 2007 né hvort lánssamningurinn 2. maí sama ár hafi verið um fjárhæð í krónum.
Kröfur stefnanda nú, og þar með ágreiningsefni máls þessa, snúast samkvæmt framansögðu í fyrsta lagi um það við hvaða erlenda gjaldmiðla hafi átt að miða skuld samkvæmt lánssamningnum, í öðru lagi hvort stefndi hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart stefnanda með þeim afleiðingum að stefndi hafi orðið að taka til sín meira af verðmæti veðsettra fjármálagerninga til uppgjörs á skuldinni en annars hefði þurft og í þriðja lagi hvort stefndi hafi ráðstafað meira af þessum gerningum en heimilt hafi verið.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður málsókn sína byggja á niðurstöðum dóms Hæstaréttar í máli nr. 558/2014, sem hafi skýrt réttarstöðu aðila frá því sem áður hafi verið og einfaldað þetta mál. Í fyrsta lagi að ekki hafi verið um að ræða veðkall eins og stefnandi hafi talið og stefndi hafi sjálfur haldið fram allt frá byrjun máls þar til honum hafi verið stefnt í málinu eða í þrjú ár og átta mánuði. Í öðru lagi að sannað sé að með tölvuskeytum í febrúar 2009 milli stefnanda og stefnda hafi komist á samkomulag „milli málsaðila um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða umrædda skuld“. Í þriðja lagi að lánssamningur hafi verið um löglegt erlent lán þar sem „áfrýjandi efndi aðalskyldu sína á grundvelli lánssamningsins með útgreiðslu í bandaríkjadölum á gjaldeyrisreikning stefnda“.
Líta verði til þess að stefndi sé fjármálafyrirtæki sem starfi í skjóli leyfis skv. II. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og beri skv. 1. mgr. 19. gr. að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Stefnda beri að fara að ákvæðum II. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 13. gr., um heimildir til að selja og framselja fjármálagerninga, 18. gr., um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini, og 19. gr., um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum. Stefndi sé skaðabótaskyldur samkvæmt VII. kafla laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar vegna tjóns sem hann hafi valdið stefnanda með því að fara ekki að samningum og fyrirmælum stefnanda sem stefndi sjálfur og Hæstiréttur telji sannað að verið hafi samkomulag aðila.
Dómkrafa 1. Aðalkrafan sé að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 6.878.054 krónur sem hann hafi oftekið af bankareikningum stefnanda 6. mars 2009 við uppgreiðslu á skuldabréfi Drómundar ehf. 2. maí 2007 vegna þess að stefndi hafi reiknað skuldina upp í íslenskar krónur úr svissneskum frönkum og japönskum jenum en ekki úr bandarískum dölum sem verið hafi lántökumyntin og sem lánið hafi verið greitt út í við lántöku.
Lán samkvæmt lánssamningi Landsbanka Íslands hf. við Hverafold ehf., síðar Drómundur ehf., dags. 2. maí 2007, sem stefnandi hafi gengið í tryggingu fyrir, hafi verið í bandaríkjadölum. Hæstiréttur hafi í máli nr. 558/2014 hafnað því að lánssamningurinn hafi verið um ólöglegt gengistryggt lán í íslenskum krónum.
Stefnandi sé réttur eigandi þessarar kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu vegna ofgreiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfinu þar sem stjórn Drómundar ehf. hafi undirritað framsalsyfirlýsingu til stefnanda 4. febrúar 2013. Stefnda hafi einungis verið heimilt að taka út af bankareikningi stefnanda þá fjárhæð sem dygði til að greiða upp lögformlega skuld Drómundar við stefnda og ekki meira.
Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að um löglegt erlent lán væri að ræða jafnvel þó að heiti lánssamnings væri skýrt „ISK 25.000.000 LÁNSSAMNINGUR“. Þar væri ekki getið um erlendar fjárhæðir og að allar greiðslur af láninu skyldu skuldfærast af bankareikningi í íslenskum krónum og þó að lánið hafi verið tekið gagngert í þeim tilgangi að lántaki greiddi með andvirði þess upp skuld sína í íslenskum krónum við stefnanda. Þá væri það yfirsterkara að lánið hefði verið greitt út í bandaríkjadölum inn á bankareikning kröfuhafa til uppgreiðslu á skuld í íslenskum krónum. Til að ítreka gildi þess að greitt hafi verið með dollurum hafi sérstaklega verið tekið fram í dóminum að sá kröfuhafi sem fengið hafi kröfu sína greidda með lánsandvirðinu, þ.e. stefnandi, hafi ætlað sér að fjárfesta fyrir dollarana erlendis. Samkvæmt þessum rökstuðningi Hæstaréttar hljóti lánið því að hafa verið í bandaríkjadölum en hvorki í íslenskum krónum né svissneskum frönkum og japönskum jenum. Hvorki lántaki né stefnandi hafi nokkurn tímann átt gjaldeyri eða bankareikninga í þeim gjaldmiðlum né átt viðskipti í þeim löndum.
Við útgreiðslu lánsins 4. maí 2007 hafi lántökufjárhæðin USD 393.314,25 að frádregnum 0,30% lántökukostnaði, verið greidd inn á USD-bankareikning stefnanda hjá stefnda, alls USD 392.134,31. Við uppgreiðslu lánsins 6. mars 2009 hafi skráð gengi á USD hjá stefnda verið 112,41 króna þannig að uppgreiðsla USD 393.314,25 hafi verið samtals 44.211.826 krónur. Greiddir vextir af láninu samkvæmt fullnaðarkvittun Landsbankans hafi numið 540.653 krónum. Samtals hafi því greiðsla af láninu, afborgun og vextir, verið alls 44.752.479 krónur. Stefndi hafi hins vegar tekið 51.630.533 krónur til uppgreiðslu lánsins sama dag eða 6.878.054 krónur umfram það sem hann hefði átti að gera til uppgreiðslu á láni í bandaríkjadölum.
Stefnda beri að fara að ákvæðum II. kafla laga 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 18. gr., um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini, og 19. gr., um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum.
Þá sé gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur til að bæta stefnanda tap, aðallega gengistap af skuld sem reiknuð hafi verið upp í svissneskum frönkum og japönskum jenum og gengistap af innstæðu í bandarískum dölum, sem hann hafi orðið fyrir í byrjun mars 2009, samtals 1.084.319 krónur. Gengistöp hafi orðið vegna þess að stefndi hafi beðið í nokkra daga, til 6. mars 2009, með að ráðstafa söluandvirði verðbréfa til greiðslu á skuld Drómundar ehf. við bankann.
Það liggi fyrir sannað að andvirði innleystra verðbréfa hafi ekki verið ráðstafað án tafar til greiðslu á láni heldur hafi stefndi lagt andvirðið inn á bankareikninga stefnanda tímabundið, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 558/2014, að: „Sölunni lauk 2. mars 2009 og var andvirðið fært til greiðslu skuldar Drómundar ehf. fjórum dögum síðar“. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið að tilgangur sölu handveðsettra fjármálagerninga hafi verið að ráðstafa söluandvirði þeirra til greiðslu á tilgreindri skuld við stefnda. Þar með hafi stefndi einungis haft heimild til að selja verðbréf stefnanda að því marki að dygði til greiðslu umræddrar skuldar og einungis í þeim tilgangi að greiða skuld en ekki til að láta söluandvirði verðbréfanna rýrna á bankareikningi á sama tíma og skuldin hafi aukist. Stefndi hljóti þá að minnsta kosti að vera skaðabótaskyldur vegna tjóns sem hann hafi valdið stefnanda vegna þess að hann hafi ekki farið að skýrum ákvæðum samkomulags aðila um þessi atriði. Af gögnum megi sjá að stefndi hafi ekki fylgt þeim fyrirmælum í tölvuskeytum stefnanda sem stefndi hafi sjálfur haldið fram fyrir dómstólum að hann hefði fylgt og hafi verið samkomulag um og Hæstiréttur telji í dómi sínum sannað að hafi verið samkomulag.
Það standi stefnda nær en stefnanda að bera tap sem leitt hafi af ástæðulausri töf stefnda á að ráðstafa söluandvirði verðbréfanna til greiðslu af skuldabréfinu. Aðallega sé það gengistap sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að skuld Drómundar ehf. hafi hækkað í krónum talið á umræddu tímabili, þó að stutt hafi verið, en einnig hafi þarna haft áhrif gengistap þar sem andvirði bandaríkjadalanna sem lagðir hafi verið á innlánsreikning hans hafi rýrnað í krónum talið á umræddum tíma og vextir hafi þarna einnig lítillega haft áhrif. Nánar tilgreint sundurliðist tjónið þannig miðað við að söluandvirði verðbréfa hefði beint verið ráðstafað til greiðslu á skuldinni eins og borið hafi að gera samkvæmt dæmdu samkomulagi:
Hverafold ehf. hafi tekið umrætt lán hjá stefnda í þeim eina tilgangi að greiða 24.588.045 króna skuld sína við stefnanda. Ástæða þess að lánið hafi upphaflega verið greitt út í bandaríkjadölum en ekki íslenskum krónum, eins og stefndi hafi ætlað að gera, hafi verið sú að stefnandi sem kröfuhafi lántaka hafi óskað eftir því að stefndi greiddi andvirði lánsins inn á USD-gjaldeyrisreikning sinn þar sem hann hafi ætlað að nota fjármunina til fjárfestinga í verðbréfum á bandarískum hlutabréfamarkaði og viljað takmarka gengisáhættu sína þá fáu daga sem liðið hafi þar til hann keypti verðbréf. Auk þess komi beint fram í dæmdu samkomulagi aðila, að stefnda hafi einnig verið vel kunnugt um frá fyrri viðskiptum að stefnandi vildi ekki taka óþarfa gengisáhættu. Stefnda hafi verið vel kunnugt um að stefnandi vildi ráðstafa andvirði seldra verðbréfa beint og án tafar til greiðslu skuldar.
Stefnda hafi borið að fara að ákvæðum 18. og 19. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Stefnda hafi borið að fara að fyrirmælum stefnanda og tryggja stefnanda bestu mögulegu niðurstöðu en hafi hvorugt gert. Stefndi beri skaðabótaskyldu samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar af því tjóni sem hann hafi valdið stefnanda með því að fara ekki að hans fyrirmælum sem stefndi sjálfur og Hæstiréttur telji sannað að hafi verið samkomulag.
Dómkrafa 2 sé um skaðabætur vegna tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir af völdum stefnda við það að hann hafi ekki staðið við samninga milli aðila. Aðalkrafa um skaðabætur, 30.571.204 krónur, byggi á því að við lántöku og veðsetningu hafi fjármálagerningar verið að verðmæti 88 milljóna króna samkvæmt ákvarðanayfirliti bankans við lánveitingu 27. apríl 2007. Stefnandi sem veðsali hafi með handveðssamningi 25. apríl 2007 verið tilbúinn að hætta á að tapa þar allt að 60% hinna veðsettu fjármálagerninga þannig að hann ætti þá eftir 40% eignanna eða 35,2 milljónir króna sem hann hafi ekki ætlað að hætta á að tapa með þessum samningi, nema þá að til kæmi upplýst ákvörðun síðar, ef þær aðstæður mynduðust. Þegar upp hafi verið staðið 6. mars 2009, eftir sölu handveðsettra eigna og uppgreiðslu skuldar, hafi einungis staðið eftir 4.628.796 krónur af verðmæti hinna handveðsettu eigna stefnanda. Tjón stefnanda af þessum sökum sé því alls 30.571.204 krónur (þ.e. 35.200.000-4.628.796) af völdum stefnda.
Við lánveitingu og samþykkt handveðsyfirlýsingar, sem útbúin hafi verið einhliða af stefnda, hafi hinar tryggðu skuldir numið 28% af markaðsverðmæti handveðsettu fjármálagerninganna samkvæmt ákvarðanayfirliti bankans við lánveitingu. Handveðssamningurinn hafi verið milli þriggja aðila, tveggja félaga (skuldara og kröfuhafa) og einstaklings (veðsala), og þar af tveggja aðila sem átt hafi á hættu að tapa fjármunum vegna hans. Handveðssamningurinn hafi falið í sér bæði réttindi og skyldur fyrir málsaðila. Þannig hafi veðsali verið tilbúinn að taka þá áhættu að tapa allt að 60% hinna veðsettu fjármálagerninga sinna án þess að nokkur aðili samningsins þyrfti að gera nokkuð meira, en hann hafi hins vegar ekki samþykkt að hætta á að tapa meiru en því án upplýstrar ákvörðunar kæmi sú staða upp að hætta væri á slíku. Ef eftirstöðvar þeirrar skuldar þriðja aðila, Hverafoldar ehf., síðar Drómundar ehf., sem handveðið hafi átt að tryggja færi yfir 60% af markaðsverðmæti hinna veðsettu fjármálagerninga hafi stefnda sem veðhafa borið að tilkynna stefnanda, handveðssala, um það og gefa honum þriggja daga frest til að bæta úr eða ákveða annað. Veðsali, stefnandi, hafi við þær aðstæður átt að fá tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um hvort hann vildi annars vegar taka áhættu á frekara tapi með því að leggja fram fleiri og meiri eignir að handveði og e.t.v. eiga þá möguleika á að tapið gengi að einhverju leyti til baka síðar eða hins vegar taka þá upplýstu ákvörðun að sætta sig við það tap sem orðið hefði og loka málinu þannig með því að gera samninga upp með því tapi.
Stefndi hafi sem veðhafi látið undir höfuð leggjast að upplýsa stefnanda, veðsala, um það þegar hlutfall skulda af veðsettum fjármálagerningum hafi farið yfir 60% og hafi þannig haft af honum það val að taka upplýsta ákvörðun um hvernig hann vildi bregðast við til að takmarka sitt tap. Þess í stað hafi stefndi sem veðhafi tekið einhliða ákvörðun um að hætta enn meiri fjármunum stefnanda, veðsala, án hans samþykkis. Með því hafi hann brotið gegn 18. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavin. Með þessu hafi stefndi komið í veg fyrir að stefnandi gæti lágmarkað tjón sitt. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þessa bæði samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar vegna þess tjóns sem hann hafi valdið stefnanda með því að gæta ekki hagsmuna hans sem handveðsala.
Varakrafa í dómkröfu 2 um skaðabætur að fjárhæð 3.289.602 krónur, byggi á því að bindandi samkomulag hafi tekist milli stefnanda og stefnda þann 17. febrúar 2007. Fyrirmæli stefnanda um innlausn, sölu, handveðsettra verðbréfa í tölvupósti þann dag hafi verið afdráttarlaus og samþykkt af stefnda, sbr. tölvupóst sama dag. Söluandvirði verðbréfanna 17. febrúar 2009 hafi numið 59.548.931 krónu, sbr. yfirlit stefnda, en hafi einungis numið 56.259.329 krónum þegar þau hafi loks verið innleyst. Mismunur þarna á, 3.289.602 krónur, sé tjón stefnanda af því að stefndi hafi ekki strax farið að fyrirmælum stefnanda sem hann þó hafi samþykkt. Stefnda hafi borið að fara að ákvæðum II. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 18. gr., um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini, og 19. gr., um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þessa bæði samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar vegna þess tjóns sem hann hafi valdið stefnanda með því að gæta ekki hagsmuna hans sem handveðsala.
Þrautavarakrafa í dómkröfu 2, um skaðabætur að fjárhæð 2.485.193 krónur, byggi á því að bindandi samkomulag hafi tekist milli stefnanda og stefnda þann 17. febrúar 2007 um sölu handveðsettra verðbréfa til þess að andvirði þeirra gengi til greiðslu á skuldabréfi/lánssamningi. Tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir af völdum tafa stefnda á uppgjöri telji stefnandi vera á ábyrgð stefnda og fari því fram á skaðabætur vegna þess. Tjónið sé mismunur á andvirði hinna handveðsettu fjármuna eftir uppgreiðslu skulda sem eftir hefðu staðið í höndum stefnanda, 7.113.989 krónur, ef sala verðbréfa hefði átt sér stað strax 17. febrúar 2009 og þeirra fjármuna sem eftir hafi staðið í höndum stefnanda eftir uppgjör í byrjun mars 2009, 4.628.796 krónur. Nánari sundurliðun tjóns sé eftirfarandi:
Stefnda hafi borið að fara að ákvæðum II. kafla laga 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 18. gr., um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini, og 19. gr., um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þessa bæði samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar vegna þess tjóns sem hann hafi valdið stefnanda með því að gæta ekki hagsmuna hans sem handveðsala.
Þrautaþrautavarakrafa í dómkröfu 2. Telji dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sanna beint fjártjón sitt, svo sem aðalkrafa, varakrafa og þrautavarakrafa hans byggi á, sé til þrautaþrautavara gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur eftir álitum dómsins. Þá sé á því byggt að háttsemi stefnda hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda vegna þess að stefnandi hafi af völdum stefnda ekki fengið umsamið tækifæri til að bregðast við og til að taka upplýsta ákvörðun svo sem hann hafi átt rétt á til að lágmarka tjón sitt þegar hlutfall handveðtryggðra skulda hafi farið yfir 60% af markaðsvirði handveðsettra fjármálagerninga. Byggt sé á því að með því að stefndi hafi ekki staðið við samkomulag aðila frá 17. febrúar 2009, fyrirmæli um sölu handveðsettra verðbréfa, með tilheyrandi töfum á uppgjöri, hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem stefndi eigi að bæta. Byggt sé á því að í samræmi við venju og viðurkenndar kenningar hafi dómstólar heimild til að ákveða fjárhæð skaðabóta að álitum.
Dómkrafa 3. Stefndi hafi samkvæmt fyrirmælum í tölvuskeytum í febrúar 2009 einungis átt að innleysa verðbréf stefnanda að því marki sem dygði fyrir greiðslu skuldar Drómundar ehf. við stefnda. Krafan byggi á því að í máli nr. 558/2014 telji Hæstiréttur „sannað að samkomulag tókst milli málsaðila um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða umrædda skuld“. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið afdráttarlaus um að ekki hefði verið um veðkall að ræða, heldur hafi fyrirmæli stefnanda í tölvuskeytum verið samkomulag aðila, eins og stefndi hafi haldið fram í málflutningi sínum í dómsmálinu. Fyrir liggi að stefndi hafi innleyst öll verðbréf stefnanda á vörslureikningum hjá honum en ekki einungis þau verðbréf sem fyrirmæli og samkomulag hafi verið um að innleysa til að greiða umrædda skuld. Skýr fyrirmæli hafi verið í tölvuskeytum stefnanda 11. febrúar 2009: „og greiði fyrir með því að selja þær eignir mínar sem bankinn hefur að veði þannig að dugi fyrir láninu“ og í tölvupósti 17. febrúar 2009: „Viltu þá innleysa að fullu báða ACM sjóðina mína og það sem þarf af Landsbanka Global Equity fund upp í restina af kaupverðinu fyrir skuldabréfinu.“ Fyrirmælin sýni glögglega að aldrei hafi staðið til af hálfu stefnanda að meira yrði innleyst af verðbréfum í febrúar og mars 2009 en dygði til þess eins að greiða skuld Drómundar ehf. við stefnda. Tjón stefnanda sé að hafa af völdum stefnda orðið af þeirri ávöxtun sem fjárfesting hans í Landsbanka Global Equity Fund hefði skilað honum ef stefndi hefði farið að þeim fyrirmælum sem Hæstiréttur hafi dæmt, að kröfu stefnda, að hafi verið samkomulag aðila. Stefnandi krefjist bóta vegna þessarar töpuðu ávöxtunar að frádregnum þeim vaxtatekjum sem hann hafi haft af of innleystum fjármunum.
Stefnda hafi borið að fara að ákvæðum II. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 13. gr., um framsalsáritun, 18. gr., um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini, og 19. gr., um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum. Stefndi hafi selt og framselt fjármálagerninga umfram það sem hann hafi haft umboð til, hafi ekki farið að fyrirmælum stefnanda og ekki tryggt honum bestu mögulegu niðurstöðu. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þessa bæði samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar vegna þess tjóns sem hann hafi valdið stefnanda með því að fara ekki að hans fyrirmælum sem stefndi sjálfur og Hæstiréttur telji sannað að hafi verið samkomulag.
Aðalkrafa í dómkröfu 3 eigi við ef fallist verður á aðaldómkröfu í 1. tölulið og sé kröfufjárhæð skaðabóta 14.757.329 krónur að frádregnum tildæmdum dráttarvöxtum samkvæmt aðaldómkröfu í 1. tölulið. Krafan byggi á því að til að greiða lán í bandaríkjadölum hefði, samkvæmt fyrrgreindum tölvupósti 17. febrúar 2009, einungis átt að innleysa 18.480,519 hluti í Landsbanka Global Equity Fund en ekki alla hluti og þar af leiðandi hefði stefnandi átt að eiga áfram hluti að nafnverði 11.933,323 sem að markaðsvirði hafi verið 11.121.618 krónur við innlausn miðað við gengið 931,98 á hlut. Þegar gerð hafi verið krafa um bætur 29. maí 2015 og fyrra mál hafi farið af stað hafi innlausnargengi sjóðsins verið 2187,88 og markaðsverðið 26.108.679 krónur. Töpuð ávöxtun af þvingaðri innlausn og því að eiga ekki áfram umrædd verðbréf hafi því numið 14.987.060 krónum en frá þeirri fjárhæð dragist almennir sparisjóðsvextir af 3.994.318 krónum (sem stefnandi fékk til frjálsrar ráðstöfunar) frá 6. mars 2009 til 29. maí 2015, samtals 229.731 króna að meðtöldum vaxtavöxtum. Samtals sé því tjónið 14.757.329 krónur en frá því eigi að draga tildæmda dráttarvexti samkvæmt aðaldómkröfu í 1. tölulið. Nánari sundurliðun sé þannig:
Varakrafa í dómkröfu 3. Verði ekki fallist á aðalkröfu undir þessum lið sé gerð varakrafa um skaðabætur, 5.276.513 krónur. Krafan byggi á því að til að greiða lán í svissneskum frönkum og japönskum jenum hefði samkvæmt fyrrgreindum tölvupósti 17. febrúar 2009 einungis átt að innleysa 26.029,541 hlut í Landsbanka Global Equity Fund en ekki alla hluti og þar af leiðandi hefði stefnandi átt að eiga áfram hluti að nafnverði 4.384,301 króna sem að markaðsvirði hafi verið 4.086.081 króna við innlausn miðað við gengið 931,98 á hlut. Þegar gerð hafi verið krafa um bætur 29. maí 2015 og fyrra mál farið af stað hafi innlausnargengi sjóðsins verið 2187,88 og markaðsverðið 9.592.324 krónur. Töpuð ávöxtun af þvingaðri innlausn og því að eiga ekki áfram umrædd verðbréf hafi því numið 5.506.244 krónum, en frá þeirri fjárhæð dragist almennir sparisjóðsvextir af 3.994.318 krónum, sem stefnandi hafi fengið til frjálsrar ráðstöfunar, frá 6. mars 2009 til 29. maí 2015, samtals 229.731 króna að meðtöldum vaxtavöxtum. Samtals sé því tjónið 5.276.513 krónur sem gerð sé krafa um að stefndi bæti stefnanda. Nánari sundurliðun sé þannig:
Þrautavarakrafa í dómkröfu 3. Telji dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sanna beint fjártjón sitt, svo sem aðalkrafa og varakrafa hans séu byggðar á, sé til þrautavara gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur eftir álitum dómsins. Þá sé á því byggt að háttsemi stefnda hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki fengið notið þeirrar ávöxtunar sem hann hefði annars fengið ef stefndi hefði ekki innleyst alla erlenda fjármálagerninga stefnanda og umfram það sem hann hafi haft fyrirmæli um að gera. Í samræmi við venju og viðurkenndar kenningar hafi dómstólar heimild til að ákveða fjárhæð skaðabóta að álitum.
Stefnandi vísi til almennra reglna skaðabótaréttar og almennra reglna samninga- og kröfuréttar innan og utan samninga. Vísað sé til samningalaga, nr. 7/1936, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Um varnarþing sé vísað til 33. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og til 129. gr., 130. gr. og 131. gr. sömu laga varðandi málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmæli öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda og telji að engin þeirra eigi að leiða til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina. Því sé sérstaklega mótmælt að lánssamningur milli Landsbanka Íslands hf. og Hverafoldar ehf. (síðar Drómundar ehf.), dags. 2. maí 2007, hafi verið um lán í bandarískum dölum en ekki í svissneskum frönkum og japönskum jenum.
Í upphafi lánssamningsins komi skýrlega fram að um fjölmyntalán hafi verið að ræða til tveggja ára að jafnvirði 25.000.000 króna í myntunum CHF 50% og JPY 50%. Á kaupnótu komi fram að greitt hafi verið vegna lánsins JPY-japönsk jen 23.561.128 og CHF-svissneskir frankar 238.106,61. Í tölvupóstum komi fram að stefnandi hafi farið ítarlega yfir skilmála samningsins og gert athugasemdir við þá, en ekki við þær myntir sem samningurinn hafi verið í. Óumdeilt sé að erlendar myntir hafi skipt um hendur við lántökuna og fyrir liggi dómur Hæstaréttar um að um hafi verið að ræða gilt lán í hinum tilgreindu myntum lánssamningsins. Ráða megi af orðalagi lánssamningsins og af öllum öðrum gögnum málsins að stefnanda hafi ekki getað dulist orðalag lánssamningsins, m.a. af tölvupósti hans, dags. 11. febrúar 2009, til starfsmanns stefnda, bréfi hans til bankastjóra stefnda, dags. 12. maí 2009, og fyrstu stefnu hans á hendur stefnda. Það hafi ekki verið fyrr en í kjölfarið á dómi Hæstaréttar frá 16. mars 2015 í máli nr. 558/2014 að stefnandi hafi farið að halda því fram að um væri að ræða lán í bandarískum dölum en ekki svissneskum frönkum og japönskum jenum.
Lánið sem um ræddi í samningi félagsins Hverafoldar ehf. (síðar Drómundar ehf.) við Landsbanka Íslands hf. hafi verið greitt út 4. maí 2007 með því að bankinn lagði, að beiðni félagsins, lánsbeiðni undirritaðri af stefnanda, tiltekna fjárhæð inn á gjaldeyrisreikning í eigu stefnanda í bandarískum dölum. Þessi aðferð við útborgun lánsfjárins hafi verið í samræmi við ákvæði 1.2 í samningnum frá 2. maí 2007 sem vísað hafi verið til í beiðni félagsins um útborgun lánsins 4. sama mánaðar. Fé í erlendum myntum hafi því skipt um hendur þegar Landsbanki Íslands hf. hafi efnt aðalskyldu sínu samkvæmt samningnum. Enga þýðingu hafi fyrir túlkun samningsins þótt útgreiðsla lánsins hafi verið í annarri mynt en þeim myntum sem samningurinn hafi hljóðað um. Þessi tegund láns falli ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001, eins og fram komi í áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 558/2014. Þessi málsástæða stefnanda sé honum því haldlaus og sé það þýðingarlaust fyrir úrlausn málsins hvort stefnandi og lántaki hafi einhvern tímann átt gjaldeyri eða bankareikninga í svissneskum frönkum og japönskum jenum, komið til þessara landa eða átt viðskipti í þeim. Þegar af þeirri ástæðu sé tölulegur grundvöllur fyrir aðalkröfu í fyrstu dómkröfu stefnanda einnig brostinn. Honum sé einnig mótmælt sem röngum, en stefnandi fjalli t.d. ekkert um muninn á LIBOR-vöxtum í USD annars vegar og CHF eða JPY hins vegar.
Stefndi mótmæli einnig varakröfu stefnanda í fyrstu dómkröfu. Því sé mótmælt að stefndi hafi ekki fylgt fyrirmælum stefnanda við innlausn verðbréfanna. Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt leitt að því líkur að stefndi hafi valdið honum tjóni við sölu á verðbréfunum. Ástæða þess að lánið hafi ekki verið gert upp um leið og sölu bréfanna hafi lokið sé sú að stefnda hafi ekki verið það heimilt samkvæmt reglum um uppgjörstíma. Á þeim tíma hafi uppgjörstíminn verið þrír dagar. Hvað sem því líði sé um að ræða skamman tíma og með engum hætti unnt að halda því fram að stefndi geti verið bótaskyldur gagnvart stefnanda við sölu á verðbréfunum. Af kvittunum sjáist að uppgjörsdagar séu 4. og 5. mars 2009 og hafi söluandvirðinu verið ráðstafað inn á skuld félagsins þann 6. mars 2009. Afgreiðslutíminn hafi því verið fullkomlega eðlilegur og verði stefnandi að bera hallann af gengisþróuninni þessa daga en ekki stefndi. Krafa þessi sé sett fram sem varakrafa en samt byggi hún á allt öðrum forsendum en aðalkrafan. Í aðalkröfunni byggi hann á að lánið sé í USD en í varakröfunni á að lánið sé í CHF og JPY og fari þessi framsetning í bága við 27. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi mótmæli jafnframt alfarið aðalkröfu í dómkröfu tvö. Í fyrsta lagi sé skilningur stefnanda á ákvæði handveðsyfirlýsingarinnar rangur. Ákvæðið hafi ekki verið sett til að tryggja hagsmuni veðsala, heldur hafi það verið til að tryggja hagsmuni Landsbanka Íslands hf. Sjáist þegar ákvæði i-liðar gr. 11.1. í lánssamningnum sé skoðað að þar sé um að ræða heimildarákvæði til gjaldfellingar telji bankinn tryggingarstöðu sína ekki nægilega góða. Stefnda eða forvera hans hafi aldrei verið skylt að beita veðkalli. Eftir bankahrunið og eftir stofnun stefnda í kjölfarið hafi verið stigið varlega til jarðar varðandi veðköll. Stefnanda sjálfum, eða honum sem fyrirsvarsmanni lántaka, hafi verið í lófa lagið að óska eftir því að stefndi seldi hin handveðsettu verðbréf fyrr, en hafi kosið að gera það ekki. Honum hlaut að hafa verið fullkunnugt um hver staða lánsins hafi verið hverju sinni. Stefnandi kveðist lengi hafa búist við veðkalli og talið það óumflýjanlegt. Því sé mótmælt hvernig stefnandi reikni út hið meinta tjón sitt. Honum sé haldlaust að reikna verðmæti safnsins út frá óformlegri tölu í ákvörðunarblaði stefnda, reikna 40% af þeirri fjárhæð og mínusa frá andvirði hinna seldu verðbréfa sem ekki hafi farið til greiðslu á skuldinni. Stefnandi hafi því ekki sannað hið meinta tjón sitt með réttmætum tölulegum hætti. Hann hafi ekki heldur reynt að sýna fram á hvenær hin meinta skylda stefnda eða forvera hans til veðkalls eigi að hafa stofnast og beri því að sýkna stefnda með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Varakröfu og þrautavarakröfu í dómkröfu tvö sé mótmælt. Því sé mótmælt að bindandi samkomulag hafi orðið milli stefnanda og stefnda þann 17. febrúar 2009 um sölu hinna handveðsettu verðbréfa. Þvert á móti virðist sem það hafi verið stefnandi sjálfur sem ekki hafi fylgt ósk sinni um sölu bréfanna eftir í kjölfar þess að honum hafi verið tjáð að stefndi gæti ekki orðið við ósk hans um framsal á skuldaskjalinu til stefnanda. Það hafi ekki verið fyrr en með tölvupósti kl. 14.18 fimmtudaginn 26. febrúar 2009 sem stefnandi hafi óskað eftir að sjóðirnir yrðu innleystir og lánið greitt upp. Þann 27. febrúar hafi svo verið endanlega ljóst að stefnandi óskaði eftir sölunni enda þótt hann fengi ekki lánssamninginn framseldan til sín. Viðskiptin hafi svo farið fram þann dag, föstudaginn 27. febrúar og mánudaginn 2. mars 2009. Tölulegum útreikningi krafnanna sé mótmælt, enda byggi hann á röngum dagsetningum. Þessi málsástæða sé stefnanda því haldlaus. Málatilbúnaður þessi sé í algeru ósamræmi við málatilbúnað hans í málinu sem lokið hafi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 558/2014. Því til stuðnings sé staðhæfing stefnanda í bréfi þar sem hann segi að nákvæmlega ekkert samráð hafi verið um hvernig staðið skyldi að innlausn hinna handveðsettu verðbréfa og uppgreiðslu myntkörfuláns Drómundar ehf.
Þrautaþrautavarakröfu í dómkröfu tvö sé mótmælt með sömu rökum og varakröfu og þrautavarakröfu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi bakað honum tjón með saknæmum hætti auk þess sem allar kröfur stefnanda séu fyrndar. Jafnvel þótt stefnanda hefði tekist að sanna hið meinta tjón sitt byggi stefndi á því að engin skilyrði séu til að dæma skaðabætur að álitum í þessu máli, enda hafi hinn meinti tjónsatburður átt sér stað tæpum sjö árum áður en dómsmál þetta hafi verið höfðað.
Þriðju dómkröfu stefnanda og undirliðum hennar sé alfarið mótmælt. Því sé mótmælt að stefndi hafi eingöngu átt að innleysa verðbréf stefnanda að því marki sem dygði nákvæmlega til greiðslu skuldar Drómundar ehf. við stefnda. Endanleg ósk stefnanda hafi ekki verið sett fram fyrr en í tölvupóstum þann 26. febrúar og 27. febrúar 2009 til starfsmanns stefnda en þar hafi stefnandi óskað eftir því að málið yrði klárað, sjóðirnir innleystir og lánið greitt upp. Enn fremur hafi hann þá sagt að þetta ætti allt saman að vera komið á hreint og spurt hvort ekki væri hægt að klára málið þann dag og ganga frá greiðslu. Stefnanda hafi borið að láta í ljósi ósk sína með nákvæmari hætti hafi hann þá haft annað í huga, þ.e. það sem hann haldi nú fram mörgum árum síðar.
Aðalkröfu í þriðju dómkröfu sé mótmælt með vísan til sömu málsástæðna og lagaraka og í aðalkröfu í fyrstu dómkröfu, enda geri þessi dómkrafa ráð fyrir að lánið hafi verið í bandaríkjadölum. Tölulegum grundvelli kröfunnar sé einnig mótmælt. Varakröfu í þriðju dómkröfu sé mótmælt með vísan til framangreinds en einnig sé hin meinta bótakrafa ranglega reiknuð frá 17. febrúar 2009. Stefnandi hafi ekki reynt að sanna hið meinta tjón sitt með nokkrum hætti.
Krafa stefnanda í öllum undirliðum þriðju dómkröfu byggi á tapaðri ávöxtun vegna þess að hann hafi ekki lengur átt hluti í Landsbanka Global Equity Fund. Hann hafi heldur ekki með neinu móti fært sönnur á að hafa geymt fjármunina á reikningi nr. 0116-26-1704 í rúmlega sex ár eins og hann haldi fram. Hafi hann gert það hafi hann ekki útskýrt hvers vegna hann hafi ekki reynt að takmarka hið meinta tjón sitt með öðrum fjárfestingarleiðum sem í boði hafi verið undanfarin 6 ár, t.d. með kaupum í íslenskum hlutabréfasjóði.
Stefndi mótmæli einnig þrautavarakröfu í þriðju dómkröfu með sömu rökum og um þrautaþrautavarakröfu í dómkröfu tvö. Jafnvel þótt stefnanda hefði tekist að sanna hið meinta tjón sitt byggi stefndi á því að engin skilyrði séu til að dæma skaðabætur að álitum í þessu máli, enda hafi hinn meinti tjónsatburður átt sér stað tæpum sjö árum áður en dómsmál þetta hafi verið höfðað. Á því sé byggt að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.
Stefnandi hafi í engum af dómkröfum sínum sýnt fram á að skilyrðum skaðabótaábyrgðar samkvæmt sakarreglunni sé fullnægt. Engin umfjöllun sé í stefnu um grundvöll bótaskyldunnar, heldur látið nægja að vísa almennt til almennra reglna skaðabótaréttar og lagaákvæða án þess að færa viðhlítandi rök fyrir því hvers vegna þau eigi við í umræddum tilvikum. Ekki sé ljóst af stefnu hvort byggt sé á skaðabótareglum utan eða innan samninga. Stefndi mótmæli því eindregið að hann hafi á nokkurn hátt farið í bága við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti og lög um rafræna eignaskráningu verðbréfa við sölu verðbréfanna og ráðstöfun fjármunanna inn á skuldir Drómundar ehf. Stefnanda hafi því ekki tekist sönnun á að hann hafi orðið fyrir tjóni eða umfangi þess, að stefndi hafi viðhaft háttsemi sem sé skaðabótaskyld að lögum, eða að hið meinta tjón sé sennileg afleiðing af þeirri háttsemi.
Jafnvel þótt stefnanda takist að færa sönnur á réttmæti einhverrar kröfu sinnar í stefnu eigi samt sem áður að sýkna stefnda þar sem allar kröfur stefnanda séu fyrndar. Hinn meinti tjónsatburður hafi að mati stefnanda átt sér stað á tímabilinu 17. febrúar til 6. mars 2009 og því eigi við lög nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laganna. Samkvæmt 3. gr. laganna sé almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár og í 9. gr. þeirra segi að krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð beri á því eða hafi borið að afla sér slíkra upplýsinga. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna sé fyrningu slitið þegar mál sé höfðað, þ.e. með birtingu stefnu, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfugerð stefnanda hjá Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, dags. 29. desember 2009, hafi ekki verið um skaðabætur og geti því ekki talist slit fyrningar í skilningi 16. gr. laga nr. 150/2007 í þessu máli, auk þess sem nefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn tæpum 6 árum áður en mál þetta var höfðað.
Héraðsdómsstefna í málinu, sem lokið hafi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 558/2014, hafi verið birt 2. ágúst 2012. Dómkröfur stefnanda í því máli hafi annars vegar byggst á því að stefndi hefði glatað handveðrétti sínum við framkvæmdina á sölu verðbréfanna og hins vegar á því að lánssamningurinn væri í raun gengistryggt lán í íslenskum krónum. Hvorug krafnanna hafi verið krafa um skaðabætur og geti því ekki markað slit fyrningar í þessu máli. Stefnandi hafi höfðað viðurkenningarmál gegn stefnda með stefnu birtri þann 11. júní 2015 sem vísað hafi verið frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 21. desember 2015.
Það hafi ekki verið fyrr en með stefnu í dómsmáli þessu sem stefnandi hafi höfðað dómsmál á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta og til endurgreiðslu með vísan til þess að hann teldi lánssamninginn hafa verið í USD en ekki JPY og CHF. Þá hafi verið liðin tæp sjö ár frá hinum meinta tjónsatburði. Þá geti bráðabirgðaákvæði XIV í vaxtalögum nr. 38/2001 ekki átt við í þessu máli enda ekki um uppgjörskröfur að ræða í skilningi ákvæðisins og um gilt lán í erlendum myntum að ræða. Vanreifað sé með öllu í stefnu hvers vegna stefnandi telji kröfur sínar ekki vera fyrndar en í stefnu viðurkenni stefnandi að hann hafi ekki gert kröfur um bætur fyrr en þann 29. maí 2015. Með því að gera kröfu um vexti samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 2009 til 2015 viðurkenni stefnandi einnig að hann hafi aldrei slitið fyrningu hvað skaðabótakröfur varði. Sama hvernig á málið sé litið verði ekki annað séð en að kröfur stefnda séu löngu fyrndar og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á ofangreindar málsástæður stefnda byggi hann á því að sýkna beri stefnda vegna tómlætis stefnanda við að halda uppi kröfum sínum um skaðabætur. Hinn meinti tjónsatburður, eins og hann horfi við stefnda, hafi þegar legið ljós fyrir í febrúar og mars 2009 og hafi stefnanda þá þegar verið í lófa lagið að halda uppi skaðabótakröfum sínum mun fyrr frekar en að taka áhættuna af því að draga það í tæp sjö ár.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 330/2016 hafi Hæstiréttur fellt úr gildi frávísunarúrskurð héraðsdóms og hvorki talið að ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 né 5. mgr. 101. gr. sömu laga ættu að leiða til frávísunar. Stefndi byggi samt sem áður á því, sem fyrr, að fullt tilefni hafi verið fyrir stefnanda að hafa kröfur sínar í þessu máli uppi í hinu fyrsta máli milli sömu aðila og að meginregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 girði fyrir að stefnandi geti byggt málatilbúnað sinn í þessu máli á þeim málsástæðum sem hann nú hafi uppi. Ítrekuð sé sú málsástæða stefnda að öllum málsástæðum stefnanda sé mótmælt sem of seint fram komnum. Fyrst framsetning stefnanda með þessum hætti hafi ekki leitt til frávísunar málsins byggi stefndi á því að gegn mótmælum stefnda beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Áskorun stefnanda um að stefndi leggi fram upptökur af símtölum sé andmælt sem þýðingarlausri en honum ætti að vera fullkunnugt um að hann geti aldrei byggt neinn rétt á óformlegu samtali símleiðis við starfsmann stefnda. Þá hafi könnun stefnda leitt til þess að ekki finnist neinar þær upptökur sem stefnandi hafi skorað á stefnda að leggja fram.
Mótmælt sé upphafstíma vaxta í öðrum lið dómkrafna og upphafstíma dráttarvaxta í öllum dómkröfum. Verði talið að einhver dómkrafa stefnanda sé ekki fyrnd og fallist á einhverja þeirra sé ljóst að allir vextir eldri en fjögurra ára frá málshöfðunardegi séu fyrndir. Þá verði ekki séð að stefnandi hafi sett dómkröfur sínar fram fyrr en í stefnu þannig að stefnandi ætti aldrei rétt á dráttarvöxtum fyrr en í fyrsta lagi mánuði frá birtingu stefnu.
Kröfur stefnda styðjist við lög nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, sérstaklega 3. gr., 2. mgr. 5. gr., 9. gr., 15. gr., 16. gr. og 28. gr., lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 16. gr., 27. gr., 44. gr., 80. gr., 93. gr. og 5. mgr. 101. gr., vaxtalög, nr. 38/2001, lög nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, lög nr. 131/1997, um rafræna eignaskráningu verðbréfa, meginreglur samningaréttar og samningalög, nr. 7/1936, almennar reglur skaðabótaréttar og kröfuréttar innan og utan samninga. Krafa stefnda um málskostnað byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.
Niðurstaða
Málsatvikum og ágreiningsefnum málsins er lýst í sérstökum kafla hér að framan. Svo sem þar kemur fram og rakið var í dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. 330/2016 snúast kröfur stefnanda í meginatriðum í máli þessu í fyrsta lagi um það við hvaða erlenda gjaldmiðla hafi átt að miða skuld samkvæmt lánssamningnum. Í öðru lagi um það hvort stefndi hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart stefnanda með þeim afleiðingum að stefndi hafi orðið að taka til sín meira af verðmæti veðsettra fjármálagerninga til uppgjörs á skuldinni en annars hefði þurft. Í þriðja lagi um það hvort stefndi hafi ráðstafað meira af þessum gerningum en heimilt hafi verið.
Stefnandi heldur því fram að skuld samkvæmt lánssamningi Drómundar ehf. og stefnda hafi borið að miða við gengi bandaríkjadals. Hæstiréttur hafnaði því sem stefnandi hélt fram í máli réttarins nr. 558/2014, að skuldin væri í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, og var því með dóminum slegið föstu að um væri að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Telur stefnandi að sú staðreynd að lánið var greitt út í bandaríkjadölum hafi skipt máli við það mat og eigi hún því einnig að leiða til þeirrar niðurstöðu að reikna beri lánsfjárhæðina í bandaríkjadölum við endurgreiðslu hennar. Stefndi reiknaði á hinn bóginn, við uppgjör skuldarinnar í íslenskum krónum, með því að fjárhæð hennar tæki mið af gengi japanskra jena og svissneskra franka.
Hér er nærtækast að líta til samningsins sjálfs. Samkvæmt honum var um að ræða fjölmyntalán til tveggja ára að jafnvirði 25 milljóna króna, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 50% JPY 50%. Þá segir í samningnum að fjárhæð hvers gjaldmiðils skyldi ákvarðast tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins og yrði skuldin þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Lántaki skuli greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga greiði hann afborganir, vexti og dráttarvexti í íslenskum krónum. Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti starfsmanna forvera stefnda frá 2. maí 2007 um gengispöntun vegna lánssamningsins Value dagur eftir 2 daga. Þar kemur fram að Lánið verður í eftirfarandi myntum og hlutföllum: CHF 50% JPY 50% og að það Greiðist út í USD. Lánið var samkvæmt gögnum málsins greitt út 4. maí 2007 með þeim hætti að lánsfjárhæðin var samkvæmt kaupnótu reiknuð í japönskum jenum og svissneskum frönkum og lögð inn á gjaldeyrisreikning stefnanda í bandaríkjadölum. Voru tvö reikningsyfirlit á þann reikning árituð annars vegar á móti CHF og hins vegar á móti jenum. Þessar innborganir á gjaldeyrisreikning stefnanda voru í samræmi við sameiginlega beiðni stefnanda og lántaka um útborgun lánsins, sem er viðauki við lánssamninginn. Í sama skjali er áréttuð umsamin heimild til þess að skuldfæra á bankareikning stefnanda í íslenskum krónum afborganir og vexti af láninu.
Samkvæmt framansögðu var lánsfjárhæðin miðuð við japönsk jen og svissneska franka og var sú ráðstöfun í samræmi við óskir stefnanda fyrir hönd lántaka í aðdraganda lántökunnar samkvæmt því sem greinir í gögnum málsins. Sú fjárhæð í íslenskum krónum sem skuldfærð var á reikning stefnanda til endurgreiðslu lánsins var miðuð við þágildandi gengi þessara gjaldmiðla í samræmi við efni lánssamningsins. Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnanda að innborgun andvirðis lánsins á gjaldeyrisreikning hans í bandaríkjadölum eigi að hafa þau áhrif að skuldin skuli reiknuð upp í þeim gjaldmiðli við endurgreiðslu hennar í íslenskum krónum. Var stefnda því rétt að reikna, við endurgreiðslu lánsins þann 6. mars 2009, eftirstöðvar skuldarinnar í íslenskum krónum miðað við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilteknir voru í lánssamningi. Stefnandi hefur ekki andmælt tölulegum niðurstöðum þess útreiknings. Að framangreindu virtu verður hafnað aðalkröfu stefnanda í fyrsta lið dómkrafna hans um endurgreiðslu fjármuna. Aðalkröfu stefnanda í þriðja kröfulið hans, sem er krafa um skaðabætur, verður einnig þegar af framangreindum ástæðum hafnað, en hún byggir á því að fjárhæð skuldarinnar hefði átt að miðast við gengi bandaríkjadals við endurgreiðslu hennar.
Aðrar dómkröfur stefnanda eru kröfur um skaðabætur. Ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að þau skilyrði bótaskyldu séu uppfyllt að hann hafi orðið fyrir tjóni, tjónið hafi orðið vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem sá sem hann krefur um bætur ber ábyrgð á og að tjónið sé sennileg afleiðing af þeirri háttsemi.
Bótakröfur stefnanda byggja á því að stefndi hafi brotið gegn skyldum sínum við stefnanda sem viðskiptavin og valdið honum tjóni. Vísar stefnandi til skyldna stefnda sem fjármálafyrirtækis samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Þar kemur m.a. fram að fjármálafyrirtæki skuli við framkvæmd viðskiptafyrirmæla leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína með tilliti til verðs, kostnaðar, hraða, líkinda til þess að af viðskiptunum verði, umfangs, eðlis og annarra þátta sem máli skipta. Við framkvæmd fyrirmæla skuli gera ráðstafanir sem miða að sanngjarnri og skjótri framkvæmd fyrirmæla viðskiptavina, með tilliti til fyrirmæla annarra viðskiptavina eða viðskiptahagsmuna fjármálafyrirtækisins. Þá vísar stefnandi til 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, en þar segir að reikningsstofnun beri skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem rakið verði til starfsemi hennar í tengslum við tilkynningar um skráningu, breytingar eða afmáningu réttinda á reikningi í verðbréfamiðstöðinni, svo og greiðslum út af slíkum reikningi, þrátt fyrir að orsök tjónsins verði rakin til óhappaatvika. Að auki vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar til stuðnings kröfum sínum.
Háttsemina, sem stefnandi telur stefnda bera ábyrgð á og að tjón sitt sé að rekja til, telur hann annars vegar vera þá að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart sér með þeim afleiðingum að stefndi hafi tekið til sín meira af verðmæti veðsettra fjármálagerninga til uppgjörs á skuldinni en annars hefði þurft. Hins vegar þá háttsemi að stefndi hafi ráðstafað meira af þessum gerningum en heimilt hafi verið.
Stefnandi byggir aðalkröfu í öðrum lið dómkrafna sinna á því að stefndi hafi brugðist skyldum sínum gagnvart honum með því að gera honum ekki viðvart þegar verðmæti veðtryggingar hans fyrir skuld Drómundar ehf. við stefnda hafi farið undir 60% af skuldinni sem veðinu var ætlað að tryggja. Stefnandi hefur þó ekki sjálfur tilgreint hvenær það hafi gerst, þ. á m. hvort það hafi verið í tíð lánveitandans, forvera stefnda, eða stefnda sjálfs. Þá hefur stefnandi ekki gert viðhlítandi grein fyrir þeim eignum sem veðsettar voru þannig að unnt væri að leggja til grundvallar þá útreikninga stefnanda undir þessum lið sem miða við að verðmæti þeirra eigna hafi verið 88.000.000 króna við veðsetninguna. Að virtum ákvæðum í handveðsyfirlýsingu og lánssamningi um fyrrgreint 60% hlutfall er fallist á það með stefnda að þeim ákvæðum hafi verið ætlað að tryggja hagsmuni veðhafa, lánveitandans, til fullnægjandi trygginga. Sá réttur sem veðsala er tryggður með þessum ákvæðum felst í því að veðkalli verði ekki beitt nema veðsala hafi áður gefist kostur á að bæta úr með auknum tryggingum. Fyrir liggur að ekki kom til veðkalls af stefnda hálfu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 558/2014, hvorki af þeim sökum að veðtrygging væri ónóg eða af öðrum ástæðum. Getur stefnandi ekki byggt rétt til skaðabóta úr hendi stefnda á því að stefndi hafi ekki beitt úrræðum til að tryggja hagsmuni sína sem lánveitandi og veðhafi þegar verðmæti hins veðsetta hafi orðið minna en sem nam 60% af skuldinni sem því var ætlað að tryggja, en ekkert er samkvæmt framansögðu upplýst um það hvenær það hafi orðið.
Byggir stefnandi bótakröfur sínar að öðru leyti í meginatriðum á því að stefnda hafi borið, í samræmi við fyrirmæli sín, í síðasta lagi 17. febrúar 2009 að hefjast handa við að selja veðsetta fjármálagerninga hans að því marki sem nægði nákvæmlega til uppgreiðslu láns Drómundar ehf. og ráðstafa andvirðinu til greiðslu lánsins jafnóðum, þremur bankadögum eftir sölu. Þau fyrirmæli sem stefnandi vísar til um að selja skyldi hina veðsettu gerninga og send voru stefnda í tölvupósti, fyrst 11. febrúar 2009 og síðan 17. febrúar 2009, voru gefin í tengslum við og á þeim forsendum að stefndi féllist á að framselja til stefnanda skuld Drómundar ehf. við stefnda, sem endurgreiða skyldi í maí s.á. Stefndi varð ekki við beiðni stefnanda um framsal kröfunnar til hans. Þegar það var ljóst sendi stefnandi tölvupóst til stefnda síðdegis 26. febrúar s.á. með beiðni um ráðstöfun hinna handveðsettu gerninga í því skyni að hann myndi sjálfur greiða stefnda skuld Drómundar ehf. samkvæmt lánssamningnum með andvirði þeirra.
Atvik eru samkvæmt gögnum málsins, sbr. og forsendur dóms Hæstaréttar í máli nr. 558/2014, í framhaldinu þau að stefndi hóf, í samræmi við þetta samkomulag aðila, sölu umræddra eigna stefnanda föstudaginn 27. febrúar 2009 og lauk sölu þeirra mánudaginn 2. mars s.á. Andvirðinu sem rann inn á innlánsreikninga stefnanda hjá stefnda við sölu eignanna innan þriggja daga uppgjörstímabils var ráðstafað til uppgreiðslu skuldar Drómundar ehf. við stefnda þann 6. mars s.á. Var skuldin gerð upp miðað við sölugengi viðeigandi gjaldmiðla þann dag. Stefnandi byggir útreikning krafna sinna m.a. á því að andvirði gerninganna hefði átt að ganga til greiðslu inn á skuld Drómundar ehf. við stefnda dagana 4. mars og 5. mars s.á. en ekki þann 6. mars s.á. svo sem raunin varð. Dómurinn fellst ekki á það með stefnanda að þessi framkvæmd stefnda feli í sér þær tafir á framkvæmd fyrirmæla stefnanda sem viðskiptavinar að ekki samræmist þeim skyldum stefnda samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem gerð er grein fyrir að framan.
Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda var endanleg lánsfjárhæð skuldar Drómundar ehf. við stefnda, reiknuð í íslenskum krónum, mismunandi há eftir greiðsludegi hennar vegna gengisbreytinga. Einnig byggir hann á því að andvirði seldra fjármálagerninga sinna hafi tekið verulegum breytingum á þeim dögum sem salan fór fram og næstu daga þar á eftir. Miðað við þessa óvissuþætti og þær fjárhæðir sem stefnandi tilgreinir í þeim efnum hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á vanrækslu starfsmanna stefnda eða aðra saknæma háttsemi við innlausn fjármálagerninga sem reyndust svo við uppgreiðslu lánsins vera umfram það sem nauðsynlegt hefði verið í því skyni.
Stefnandi hefur sjálfur sérfræðiþekkingu í fjármálum og byggði hann í fyrra máli sínu á hendur stefnda m.a. á því að hann einn hefði haft umráð þeirra reikninga sem andvirði hinna veðsettu fjármálagerninga var lagt inn á. Upplýsingar liggja ekki fyrir í máli þessu um það hvernig þeim innstæðum sem eftir stóðu, að greiddri skuld Drómundar ehf. við stefnda, var ráðstafað í raun. Sú fjárhæð sem umfram var lánsfjárhæð á greiðsludegi var stefnanda til reiðu og til frjálsrar ráðstöfunar, eftir atvikum til fjárfestinga í verðbréfum í stað þeirra sem seld voru.
Það er vandséð hvernig starfsmenn stefnda hefðu mátt sjá fyrir annars vegar það að verðmæti verðbréfa stefnanda myndi rýrna á tímabilinu 17. febrúar til 4. mars 2009, svo sem stefnandi byggir á í öðrum lið dómkrafna sinna, og hins vegar að þeir hefðu á sama tíma mátt sjá það fyrir að verðmæti verðbréfa í sama sjóði myndi skila umtalsverðri ávöxtun frá þeim tíma þar til 29. maí 2015. Í þriðja lið dómkrafna byggir stefnandi á því að hann hafi orðið af þeirri ávöxtun vegna þeirrar háttsemi starfsmanna stefnda að ráðstafa meiru af hinum veðsettu verðbréfum en nauðsynlegt hefði verið. Verður ekki séð að sú framkvæmd starfsmanna stefnda, sem gögn málsins bera með sér að viðhöfð hafi verið við sölu og ráðstöfun hinna veðsettu verðmæta, hafi falið í sér þá vanrækslu á að gæta hagsmuna stefnanda sem viðskiptavinar í þeim viðskiptum sem mál þetta snýst um að bótaskylda verði lögð á stefnda vegna hennar.
Að öllu framangreindu virtu er fallist á það með stefnda að stefnanda hafi hvorki tekist sönnun á því að háttsemi starfsmanna stefnda hafi verið saknæm þannig að bakað hafi stefnda bótaábyrgð innan eða utan samninga né sönnun á því að meint tjón stefnanda sé sennileg afleiðing af háttsemi þeirra sem stefndi beri bótaábyrgð á.
Verður samkvæmt framangreindu þegar af þessum ástæðum að sýkna stefnda af öllum skaðabótakröfum stefnanda í málinu. Þarflaust er því að taka afstöðu til annarra málsástæðna stefnda fyrir sýknukröfu sinni.
Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem hæfilega er ákveðinn 400.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Birkis Leóssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.