Hæstiréttur íslands
Mál nr. 401/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Málshöfðunarfrestur
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 2. september 2008. |
|
Nr. 401/2008. |
Miðstöðin ehf. eignarhaldsfélaggegn VBS Fjárfestingabanka hf. (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.
M leitaði úrlausnar héraðsdóms um ágreining við úthlutun á söluverði tiltekinna fasteigna sem seldar voru nauðungarsölu. Málinu var vísað frá dómi og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti. M leitaði öðru sinni til héraðsdóms til úrlausnar um þetta ágreiningsefni og var mál þetta þingfest 16. maí 2008. Í XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er ekki heimild til að bera mál öðru sinni undir héraðsdóm eftir að upphaflegu máli um sama sakarefni hefur verið vísað frá dómi eða það fellt niður. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest og málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, sem Kristni Brynjólfssyni, fyrirsvarsmanni sóknaraðila, verði jafnframt gert að greiða.
Mál þetta á rætur að rekja til þess að sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms um ágreining, sem reis um úthlutun sýslumannsins í Reykjavík á söluverði nánar tiltekinna eignarhluta í fasteigninni að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Eignarhlutar þessir voru seldir nauðungarsölu 18. apríl 2007 og hafnaði sýslumaður 26. september 2007 mótmælum sóknaraðila við frumvarpi til úthlutunar. Mál um þennan ágreining var þingfest fyrir héraðsdómi 2. nóvember 2007, en því var vísað frá dómi með úrskurði 26. febrúar 2008, sem Hæstiréttur staðfesti með dómi 16. apríl sama ár í máli nr. 155/2008. Með bréfi, sem barst héraðsdómi 26. apríl 2008, leitaði sóknaraðili öðru sinni úrlausnar um þetta ágreiningsefni og var mál þetta þingfest af því tilefni 16. maí sama ár.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 verður mál til úrlausnar ágreinings um frumvarp sýslumanns til úthlutunar á söluverði eignar við nauðungarsölu rekið fyrir dómi eftir ákvæðum XIII. kafla laganna. Samkvæmt 5. mgr. 73. gr. þeirra ber þeim, sem leitar slíkrar úrlausnar, að koma máli tafarlaust til héraðsdóms. Líta verður svo á að í síðastnefndu lagaákvæði felist sá áskilnaður að mál sé þá í þeim búningi að fært verði að leysa úr því að efni til. Því var ekki fullnægt um málið, sem sóknaraðili lagði fyrir héraðsdóm og lokið var með áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2008. Í XIII. kafla laga nr. 90/1991 er ekki sérstök heimild til að bera mál öðru sinni undir héraðsdóm eftir að upphaflegu máli um sama sakarefni hefur verið vísað frá dómi eða það fellt niður. Af þessum sökum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem nánar greinir í dómsorði. Ekki eru næg efni til að taka til greina kröfu varnaraðila um að fyrirsvarsmanni sóknaraðila verði gert að greiða kærumálskostnað samkvæmt 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, greiði varnaraðila, VBS Fjárfestingabanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 3. júlí 2008.
Mál þetta var þingfest 16. maí 2008 og tekið til úrskurðar 12. júní sl. um framkomna frávísunarkröfu varnaraðila.
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að málið varði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um úthlutun málskostnaðar til varnaraðila, VBS Fjárfestingabanka, í uppboðsmálum á Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík, fastanr. 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528. Samkvæmt úthlutunarfrumvarpi sýslumanns eigi varnaraðili að fá greiddar kr. 6.029.318 auk virðisaukaskatts vegna 1. veðréttar og kr. 2.369 auk virðisaukaskatts vegna 2. veðréttar.
Í málinu krefst sóknaraðili þess að málskostnaður sem varnaraðila var úthlutað vegna 1. veðréttar verði lækkaður að lágmarki úr kr. 6.029.318.00 í kr. 300.000 og vegna 2. veðréttar að lágmarki úr kr. 2.369.125.00 í kr. 300.000. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann málskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að frávísunarkröfu varnaraðila verði hafnað.
I
Sóknaraðili lýsir málsatvikum þannig að málið sé tilkomið vegna vaxtalausra skammtímaskuldabréfa, útgefnum af VBS fjárfestingabanka, samþykktum til greiðslu af fyrri eiganda fasteigna að Rafstöðvarvegi 1a vegna fjármögnunar endurbóta á þeim. Bréfin hafi samtals verið að fjárhæð kr. 252.000.000 að nafnverði með krossveði í 7 eignarhlutum á 1., 2. og 3. veðrétti. Skipting milli veðrétta sé þannig að á 1. veðrétti hvíli 32 handhafaveðskuldabréf, hvert að fjárhæð kr. 5.000.000, útgefin þann 1. mars 2006, á 2. veðrétti hvíli 10 handhafaskuldabréf hvert að fjárhæð kr. 5.000.000, útgefin þann 5. október 2005 og á 3. veðrétti hvíli 14 handhafaskuldabréf, hvert að fjárhæð kr. 3.000.000, útgefin þann 30 júní 2006. Bréfin séu öll vaxtalaus og með sömu gjalddaga.
Kröfulýsingar varnaraðila í söluandvirðið, lagðar fram þann 18.04.2007, sama dag og sala á framangreindum eignarhlutum með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 fór fram séu eftirfarandi:
|
|
1. veðréttur |
2. veðréttur |
3. veðréttur |
|
Höfuðstóll gjaldfelldur |
160.000.000 |
50.000.000 |
42.000.000 |
|
Dráttarvextir til 18.04.2007 |
24.422.219 |
7.631.943 |
6.410.832 |
|
Málskostnaður |
6.029.318 |
2.225.610 |
1.948.977 |
|
Gagnaöflunargjald |
2.025 |
2.025 |
2.025 |
|
Birting greiðsluáskorunar |
3.000 |
3.000 |
3.000 |
|
Uppboðsbeiðni |
5.890 |
5.890 |
5.890 |
|
Kostnaður vegna uppboðs |
38.500 |
38.500 |
38.500 |
|
Kröfulýsing |
6.125 |
6.125 |
6.125 |
|
Vextir af kostnaði |
2.193 |
2.214 |
2.214 |
|
Samtals kr. |
191.989.893 |
60.471.647 |
50.898.502 |
Eins og fram komi í kröfulýsingu varnaraðila sé auk málskostnaðar gerð krafa um greiðslu fyrir gagnaöflun, birtingu greiðsluáskorunar, uppboðsbeiðni, kostnað vegna uppboðs, kröfulýsingu, vexti af kostnaði og virðisaukaskatt. Málskostnaðarkrafa upp á kr. 10.203.905 sé því í raun þóknun lögmannsins fyrir að taka að sér málið, rita innheimtubréf, samhljóða greiðsluáskoranir og hafa umsjón með því frá janúar 2007 til og með 18. apríl 2007, en allur annar kostnaður sé innheimtur sérstaklega, sbr. framangreinda sundurliðun kröfulýsinga.
Að liðnum samþykkisfresti hafi boði varnaraðila á framhaldsuppboði þann 18. apríl 2007 verið tekið. Söluverð eignarhluta 225-8524 hafi verið 44.800.000, eignarhluta 225-8526 kr. 44.800.000, eignarhluta 225-8527 kr. 44.800.000 og eignarhluta 225-8528 kr. 90.000.000 eða samtals kr. 224.400.000.
Samkvæmt úthlutunarfrumvarpi sýslumannsins í Reykjavík eigi að greiðast kr. 191.989.893 vegna bréfa á 1. veðrétti og kr. 29.869.109 upp í kröfu vegna bréfa á 2. veðrétti. Sóknaraðili hafi mótmælt fjárhæð málskostnaðar og gert kröfu um lækkun. Kröfunni hafi verið hafnað þann 26. september 2007. Umboðsmaður sóknaraðila hafi lýst því yfir þá þegar að sú ákvörðun yrði borin undir héraðsdóm.
Mál þetta lúti að innheimtuþóknun sem eigi að koma til greiðslu samkvæmt úthlutunarfrumvarpi sýslumannsins í Reykjavík vegna 1. veðréttar, kr. 6.029.318 og vegna 2. veðréttar, kr. 2.369.125 auk virðisaukaskatts eða samtals kr. 8.398.443 auk virðisaukaskatts. Við mat á réttmæti kröfunnar sé þó nauðsynlegt að lýta jafnframt til kröfu um innheimtuþóknun vegna bréfa á 3. veðrétti, sem innheimt sé samhliða, því samtals sé krafa um málskostnað vegna innheimtu bréfanna kr. 10.203.905 auk virðisaukaskatts.
II
Sóknaraðili byggir á að krafa lögmanns varnaraðila sé bersýnilega ósanngjörn. Samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofunnar sem lögð hafi verið fram hjá sýslumanninum í Reykjavík sé tímagjald fyrir lögmannsstörf kr. 12.275 auk virðisaukaskatts. Það samsvari því að lögmaðurinn hafi unnið 831 klukkustund við ritun innheimtubréfa, samhljóða greiðsluáskoranna og umsjón með málinu frá janúar 2007 til 18. apríl 2007.
Hér sé um að ræða einfalda innheimtu á veðskuldabréfum sem öll séu vaxtalaus og með sama gjalddaga. Sóknaraðili telji ólíklegt að fleiri en 40 vinnustundum hafi verið varið í innheimtuaðgerðir vegna allra málanna samanlagt á tímabilinu janúar 2007 til og með 18. apríl 2007. Því sé talið að innheimtuþóknunin sé ekki í samræmi við lög og venjur og bersýnilega ósanngjörn. Í þessu sambandi sé vísað til 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hæfilegt endurgjald þeirra fyrir störf sín. Innheimtuþóknun/málskostnaður sé í þessu tilviki í raun skaðabætur til handa varnaraðila vegna kostnaðar hans við innheimtuaðgerðir og sé því sérstaklega bent á almennar reglur bótaréttar um að skaðabætur skuli einungis nema sannanlegu tjóni.
Sóknaraðili telji að enginn munur geti talist á umfangi vinnu við innheimtu bréfanna sem hvíli á 1., 2. eða 3. veðrétti og þar sem um innheimtu óumdeildrar peningakröfu sé að ræða í formi veðskuldabréfa sé ekki þörf neinnar sérfræðiráðgjafar né heldur sé til staðar áhætta sem réttlætt gæti þessa óhóflegu og ósanngjörnu málskostnaðarkröfu. Af þessum sökum sé nauðsynlegt að gera þá kröfu að dómkvaddur verði sérfróður og óvilhallur matsmaður til að meta hvað sé eðlilegt vinnuframlag og þar af leiðandi þóknun lögmanns við innheimtu skuldabréfanna með tilliti til þess sem hér hafi verið rakið.
III
Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því að umræddu uppboði hafi lokið 18. apríl 2007 og því sé frestur samkvæmt 80. gr. nr. 90/1991 um nauðungarsölu til að leita úrlausnar dómsins liðinn.
Þá sé málið, sem fyrr, verulega vanreifað. Engu hafi verið bætt við kröfugerðina, hún sé óljós, illa rökstudd og hafi að geyma getgátur. Ekki sé vitnað í greinar gjaldskrár.
Af hálfu sóknaraðila er frávísunarkröfunni mótmælt. Krefst sóknaraðili þess að málið verði tekið til efnislegrar úrlausnar og að dómkvaddir verði matsmenn. Byggir sóknaraðili á að það sé í andstöðu við 99. gr. einkamálalaga að varnaraðili skuli ekki hafa skilað greinargerð í málinu. Enginn efnislegur dómur hafi fallið í málinu og því sé ekkert sem komi í veg fyrir að málið sé borið undir dóm að nýju. Engar forsendur séu til frávísunar þess og krafist hafi verið dómkvaðningar matsmanna.
IV
Í máli þessu leitar sóknaraðili úrlausnar héraðsdómar um ákvörðun sýslumanns um úthlutun málskostnaðar til varnaraðila í uppboðsmálum á Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík, fastanr. 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 sem fram fór 18. apríl 2007. Sóknaraðili mótmælti fjárhæð málskostnaðar samkvæmt úrhlutunarfrumvarpi sýslumannsins í Reykjavík og gerði kröfu um lækkun. Kröfunni var hafnað þann 26. september 2007. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 27. febrúar 2008 var máli sóknaraðila gegn varnaraðila þar sem sömu kröfur voru hafðar uppi vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 16. apríl 2008 í málinu nr. 155/2008 var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Samkvæmt 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu getur aðili að nauðungarsölu leitað úrlausnar héraðsdóms á ágreiningi um ákvörðun sýslumanns varðandi mótmæli við frumvarp til úthlutunar samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laganna.
Samkvæmt fortakslausu ákvæði 80. gr. laga nr. 90/1991, sem hér á við, er tímafrestur til að leita úrlausnar héraðsdómara um þá ákvörðun sýslumanns sem leitað er úrlausnar um í máli þessu fjórar vikur. Sá frestur er löngu liðinn og verður því þegar af þeirri ástæðu ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.
Samkvæmt þessum úrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila 50.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðinn kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi
Sóknaraðili, Miðstöðin ehf., greiði varnaraðila, VBS fjárfestingabanka hf., 50.000 krónur í málskostnað.