Hæstiréttur íslands

Mál nr. 775/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. janúar 2018 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að honum verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta vistun á viðeigandi sjúkrastofnun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins eru ekki efni til að mæla fyrir um dvöl varnaraðila á sjúkrahúsi í stað gæsluvarðhalds, enda ber samkvæmt 29. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga að veita honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. 2. mgr. 96. gr. laganna. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærði, X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. janúar 2018, kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar og meðferðar neðangreind mál er varði kærða, en í þessum málum sé kærða undir rökstuddum grun og í öðrum tilvikum undir sterkum grun um brot gegn almennum hegningarlögum, sem og sérrefsilögum. Kærði hafi verið færður í gæsluvarðhald þann 11. nóvember sl. með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-406/2017 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þá sé stefnt að útgáfu ákæru í næstu viku vegna brota kærða, sem verði þá send Héraðsdómi Reykjavíkur til meðferðar.

„[...]

Aðfaranótt 11. nóvember sl. var lögreglu tilkynnt um par að slást fyrir utan [...]. Er lögregla kom var þar X, kt. [...], kærði, ásamt A, kt. [...], sem var með sýnilega áverka. Engir sýnilegir áverkar voru á kærða. Bæði voru mjög æst og því afráðið að handtaka þau bæði. Á lögreglustöð sagði A átökin hafa gerst eftir að kærði hafi í heimildarleysi tekið kveikjuláslykla bifreiðar hennar og ætlað að aka henni áleiðis til [...]. A sagði kærða vera í mikilli neyslu fíkniefna, ekkert sofið undanfarna þrjá sólarhringa, og því ákvað hún að reyna að stoppa hann í að aka bifreiðinni. Kærði tók því illa og upphófust því átök á milli þeirra. Í framburðarskýrslu af kærða vegna málsins viðurkenndi hann að þau hefðu lent í átökum.

[...] - Þjófnaður

Þann 8. ágúst sl. var lögregla kölluð að [...] að [...] vegna þjófnaðar á bakboka með m.a. tölvubúnaði. Við rannsókn á upptökum úr öryggismyndavélum var talið að um kærða væri að ræða. Hann viðurkenndi brotið í skýrslutöku hjá lögreglu.

[...] –umferðarlagabrot

Þann 8. ágúst sl. var X stöðvaður við akstur bifreiðarinnar [...]. Grunur vaknaði um að hann hefði ekið undir áhrifum vímuefna, hann handtekinn og fenginn til að gefa blóð- og þvagsýni. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar HÍ mældust amfetamín, kókaín, MDMA og tetrahýdrókannabínól í blóði kærða.

[...] – Þjófnaður

Þann 18. september sl. barst lögreglu tilkynning um þjófnað á farsíma og seðlaveski af ferðamanni á [...] hóteli, [...]. Ferðamaðurinn gat rakið staðsetningu símans í gegnum snjallforrit á spjaldtölvu sinni og leiddi það lögreglu að kærða sem var staddur í [...]. Kærði viðurkenndi strax brotið, skilaði lögreglu símanum og vísaði á veskið. Kærði játaði einnig síðar við yfirheyrslur á lögreglustöð.

[...] – þjófnaður og fíkniefnabrot

Þann 27. september sl. barst lögreglu tilkynning um grunnsamlegar mannaferðir við [...] í [...]. Á vettvangi var lögreglu bent á kærða sem hafði meðferðis bakpoka og exi. Skammt frá fannst annar bakpoki og göngustafir sem kærði hafði einnig verið með. Þessum munum hafði öllum verið stolið úr bílskúr að [...]. Kærði viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa farið inn í ólæstan bílskúrinn og stolið mununum. Við handtöku uppgötvaðist að kærði hafði í vörslum sínum 2,76 g af amfetamíni.

[...] – Þjófnaður

Þann 4. október sl. var lögregla kölluð að [...] vegna þjófnaðar. Þegar lögregla kom á staðinn sá hún hvar menn héldu kærða í anddyri hússins og var hann í kjölfarið handtekinn. Skömmu síðar komu aðrir menn með þekktan brotamann, sem hafði verið með kærða í för.  Þrír menn á vettvangi sögðu lögreglu að þeir söknuðu muna t.d. jakka, greiðslukorta og íþróttatösku og fundust munirnir í fórum kærða sem viðurkenndi fyrir lögreglu að hafa stolið mununum. Þá sagði maðurinn sem með honum var í för við yfirheyrslur að kærði hefði einn stolið umræddum munum.

[...] – þjófnaður

Þann 9. október sl. barst lögreglu tilkynning um innbrot og þjófnað að [...]. Lýsing á geranda passaði við kærða sem var handtekinn skömmu síðar með þýfið. Kærði viðurkenndi strax að hafa brotist þarna inn og einnig að hann hefði í óleyfi farið inn á stigagang að [...]. Kærði játaði við yfirheyrslur hjá lögreglu.

[...] – Eignaspjöll

Þann 9. október sl. er lögregla kölluð að heimili A að [...] vegna tilkynningar um heimiliserjur. Er lögregla kom í íbúðina voru sjáanlegar skemmdir á innanstokksmunum og mikil óreiða. Á vettvangi sagði A að kærði hefði misst stjórn á skapi sínu og byrjað að kasta til og sparka í hluti í íbúðinni. Kærði hafði sömu sögu að segja. A mætti síðar á lögreglustöð og kærði kærða fyrir eignaspjöll. Hann viðurkenndi brotið við yfirheyrslur en sagði þetta hafa verið nauðsynlegt til að afstýra því að A fremdi sjálfsvíg.

[...] – Þjófnaður og fjársvik

Þann 22. október sl. var lögregla kölluð að [...] við [...] vegna tilkynningar þaðan um þjófnað úr búningsklefa starfsmanna. Síðar sama kvöld var kærði handtekinn í tengslum við mál 007-2017-[...] og hafði hann þá í vörslum sínum hluta af þeim munum sem stolið var úr starfsmannaaðstöðunni, m.a. bankakort B og lyklar af Skoda bifreið í eigu C. Kærði viðurkenndi við skýrslutökur hjá lögreglu að hafa brotist inn í starfsmannaaðstöðuna og stolið þaðan munum og einnig að hafa notað greiðslukort B til að greiða fyrir hótelherbergi á [...] við [...] og kaupa sígarettupakka.

[...] - þjófnaður

Þann 22. október var lögregla kölluð að [...] við [...] vegna tilkynningar þaðan um þjófnað. Starfsmaður benti lögreglu á herbergi sem kærði hafði tekið á leigu og sagði hann hafa skömmu áður hafa farið í óleyfi inn á starfsmannaaðstöðu hótelsins, rótað þar til og stolið þaðan tölvuskjá. Á hótelherbergi kærða fannst m.a. umræddur skjár. Hann viðurkenndi þjófnaðinn við yfirheyrslur hjá lögreglu. Í herberginu fundust einnig fíkniefni sem kærði neitaði fyrir. Annar aðili sem dvaldi með kærða í herberginu sagði hann þó eiga hluta þeirra.

[...] - þjófnaður

Þann 24. október sl. var tilkynnt um þjófnað úr [...] og inn á skrifstofu íþróttakennara þaðan sem stolið var fartölvu í eigu skólans og Cintamani dúnúlpu. Einnig var farið inn í frístundaheimili skólans, [...] og þaðan stolið þremur farsímum. Vitni taldi sig hafa séð aðila sem líktist kærða hafa farið frá skólanum íklæddur sambærilegri úlpu og stolið var. Þann 30. október sl. var kærði handtekinn vegna málsins og yfirheyrður hjá lögreglu. Við handtökuna var hann í umræddri úlpu og viðurkenndi hann þjófnaðinn við yfirheyrslur.

[...] - þjófnaður

Þann 25. október sl. var tilkynnt um þjófnað úr [...] í Kringlunni. Stolið hafði verið fartölvu af afgreiðsluborði verslunarinnar. Af upptökum úr öryggismyndavélum þekktu lögreglumenn kærða. Einnig gat eigandi tölvunnar farið inn á vefmyndavél hennar með fjarstýrðum aðgangi og mátti þar sjá kærða verið að nota tölvuna. Kærði viðurkenndi þjófnaðinn í skýrslutöku hjá lögreglu.

[...] – nytjastuldur og tilraun til fjársvika

Þann 26. október sl. barst lögreglu tilkynning um nytjastuld á bifreiðinni [...] og skömmu síðar að tilraun hefði verið gerð til að nota greiðslukort í eigu umráðamanns bifreiðarinnar á bensínafgreiðslustöð [...] við [...]. Úr upptökum úr öryggismyndavélum þekktu lögreglumenn kærða. Skömmu síðar fann umráðamaður [...] hana og skömmu síðar fundu lögreglumenn kærða og handtóku. Kærði viðurkenndi brotin við yfirheyrslur hjá lögreglu.

[...] – þjófnaður

Þann 29. október sl. barst lögreglu tilkynning um þjófnað úr [...]. Þaðan hafði verið stolið úlpu, farsímum, greiðslukortum og ferðahátölurum. Á upptökum úr öryggismyndavélum mátti sjá kærða ganga inn í [...] og ganga að búningsherbergjum þaðan sem mununum var stolið. Kærði viðurkenndi brotið við yfirheyrslur hjá lögreglu.

[...] – þjófnaður og fjársvik

Þann 29. október sl. barst lögreglu tilkynning frá [...] vegna þjófnaðar úr starfsmannarými. Þarna hafði tveimur greiðslukortum verið stolið. Eitt þessara korta hafði síðan verið notað skömmu síðar í verslun [...] þar sem gjaldfærðar voru 39,65 evrur út af því en umrætt kort var frá spænskum banka. Kærði viðurkenndi þjófnaðinn á kortunum og eins fjársvik við yfirheyrslur hjá lögreglu.

[...] – þjófnaður

Þann 2. nóvember sl. barst lögreglu tilkynning um innbrot að [...]. Vitni á vettvangi sögðust hafa séð aðila berja á útidyrahurð á suðaustur horni hússins og síðar, eftir að að hafa heyrt brothljóð, sáu hann hlaupa frá íbúðinni. Er lögregla kom á vettvang mátti sjá hvar búið var að brjóta rúðu í útidyrahurðinni og að töluvert af blóði var á henni. Vitnin lýstu aðilanum og eitt þeirra sagði að þetta hefði verið sami maður og braust inn í [...] skömmu áður. Eigandi íbúðarinnar taldi sig gruna að kærði hefði verið þarna að verki og gat sýnt vitninu mynd af honum og staðfesti vitnið þá að þarna hefði kærði verið á ferðinni. Eigandi íbúðarinnar saknaði sjónvarps og fartölvu. Síðar sama kvöld, sbr. mál lögreglu nr. 007-2017-[...] kom leigubílstjóri á lögreglustöð með fartölvuna og lýsti manni, sem svipar til kærða, sem skildi hana eftir í leigubílnum hjá sér sem tryggingu fyrir greiðslu en kom svo aldrei aftur. Sagðist hann hafa tekið manninn upp í í [...] (sem er skammt frá [...]) og ekið honum að [...] (þar sem kærði er með skráð lögheimili). Kærði viðurkenndi brotið við skýrslutöku hjá lögreglu.

[...] – Þjófnaður

Þann 9. nóvember sl. var lögregla kölluð að verslun [...] við [...] vegna tilkynningar þaðan um þjófnað. Þarna var stolið matvöru fyrir samtals 20.818 krónur. Lögreglumenn ræddu við vitni, starfsmenn verslunarinnar, sem lýstu því að þeir hefðu séð mann sem svipar til kærða setja vörur í svartan plastpoka og rjúka úr versluninni án þess að greiða fyrir þær. Sögðu þeir að kona hefði verið með honum og svipaði lýsing þeirra á henni til A, kærustu kærða. Kærði hefur viðurkennt brotið í skýrslutöku hjá lögreglu.“

Í ljósi ofangreindra mála og þess fjölda brota á skömmum tíma, þyki að mati lögreglu ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans. Lögregla telji einnig vafalaust að honum muni verða gerð fangelsisrefsing fyrir brot sín með vísan til fjölda brota og sakaferils kærða. Með vísan til framangreinds telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að hann muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæti dómsmeðferð.

Þá hafi kærði hlotið dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur þann [...] sl., sbr. dóm [...] þar sem kærði hafi verið dæmdur til 60 daga fangelsisvistar, skilorðsbundið til tveggja ára haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds verði að telja almennt að kærði hafi rofið í verulegum atriðum þau skilyrði sem honum hafi verið sett í hinum tilvitnaða dómi með brotum sínum.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða dómara:

Með vísun til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglu og hér að framan er rakið, og að virtum þeim rannsóknargögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn um framangreind sakarefni, er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi ítrekað gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá liggur fyrir að kærði var dæmdur til fangelsisrefsingar hinn 10. apríl sl., en fullnustu refsingar var í dóminum frestað skilorðsbundið í tvö ár. Fyrir hendi er rökstuddur grunur um að kærði hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett með þeim dómi. Svo sem að framan er rakið hefur kærði gengist við nær öllum þeim brotum sem honum hafa verið gefin að sök að undanförnu. Einnig kemur fram í greinargerð lögreglu að stefnt sé að útgáfu ákæru í næstu viku vegna brota kærða.

Þegar litið er til ferils kærða og framangreindra upplýsinga um hegðun hans að undanförnu er fallist á það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Fallist er á að nauðsyn beri til að kærði sæti gæsluvarðhaldi meðan málum hans er ólokið hjá lögreglu og þar til héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í málinu.

          Skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er samkvæmt framansögðu fullnægt. Verður krafan því tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.

          Ekki þykir unnt að verða við kröfu kærða um vistun á sjúkrahúsinu Vogi og í framhaldinu Staðarfelli, þar sem fyrir liggur að þar sé ekki unnt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir brottför hans af sjúkrahúsinu. Eins og gögn málsins bera með sér er gæsla kærða tilkomin vegna fjölda brota á síðastliðnum mánuðum og eru líkur á því að hann muni halda þeim áfram fari hann frjáls ferð sinna eins og áður greinir.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. janúar 2018, kl. 16:00.