Hæstiréttur íslands

Mál nr. 558/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Matsbeiðni
  • Málshraði


                                                                                              

Föstudaginn 21. október 2011.

Nr. 558/2011.

Hilmar Friðriksson og

Ingibjörg Kristjánsdóttir

(Halldór H. Backman hrl. )

gegn

Hafdísi Stefánsdóttur

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

Kærumál. Gagnaöflun. Matsbeiðni. Málshraði.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni HF og IK um dómkvaðningu matsmanns í máli sem HS hafði höfðað gegn þeim aðallega til viðurkenningar á riftun kaupsamnings um fasteignina B. Fyrir lá að undir rekstri málsins hafði þegar verið aflað tveggja álitsgerða og þriggja matsgerða. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að í samræmi við 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri aðilum í málum sem þessum játaður víðtækur réttur til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar en að sá réttur takmarkaðist þó af öðrum meginreglum einkamálaréttarfars. Aðilar einkamáls sem þessa yrðu að tefla fram kröfum og öðrum atriðum sem málatilbúnað þeirra varðaði, þ. á m. þeim sönnunargögnum sem þeir vildu reisa hann á, svo fljótt sem kostur væri. Taldi Hæstiréttur að HF og IK hefðu látið undir höfuð leggjast að nýta þann tíma sem þeim gafst til þess að afla þess mats sem þau beiddust nú, enda þótt þau hefðu haft tilefni til þess eins og ráðið yrði af greinargerð þeirra í héraði. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2011, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðila verði gert að greiða þeim kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með hinum kærða úrskurði var synjað beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns, er hafi menntun í hljóðverkfræði, til að mæla hljóð og leggja mat á hvort smellir heyrist í parhúsinu að Blikaási 56 í Hafnarfirði og þá hvert sé umfang þeirra. Fram kemur í úrskurðinum að varnaraðili hafi lagt fram tvær álitsgerðir og að auki aflað undir- og yfirmats dómkvaddra manna til stuðnings kröfum sínum í málinu á hendur sóknaraðilum áður en það var höfðað. Eins og þar er rakið var málið þingfest 22. september 2010. Eftir að kröfu sóknaraðila um frávísun þess var hrundið með úrskurði 7. janúar 2011 var það síðan tekið fyrir fimm sinnum allt til 7. september sama ár þegar varnaraðilar lögðu fyrst fram fyrrgreinda matsbeiðni sína.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafa málsaðilar forræði á sönnunarfærslu í málum eins og því, sem hér um ræðir, og ráða því þar með hvernig þeir færa sönnun fyrir atvikum sem þar er um deilt. Í samræmi við það hefur aðilum að slíkum málum verið játaður víðtækur réttur til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar. Sá réttur takmarkast hins vegar af öðrum meginreglum einkamálaréttarfars.

Eins  og meðal annars verður ráðið af 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 skulu aðilar einkamáls tefla fram kröfum og öðrum atriðum, sem varða málatilbúnað sinn, þar á meðal þeim sönnunargögnum sem þeir vilja reisa hann á, svo fljótt sem kostur er. Jafnframt er leitast við að sporna við því í lögunum að aðilar geti upp á sitt eindæmi eða með sammæli sín á milli dregið mál á langinn að óþörfu. Sú meginregla að hraða beri máli eftir föngum styðst ekki einungis við hagsmuni málsaðila, heldur búa einnig að baki henni ríkir almannahagsmunir. Í samræmi við það er mælt svo fyrir í 2. mgr. 102. gr. laganna að aðilar skuli nota fresti, sem dómari ákveður að veita þeim undir rekstri máls, jöfnum höndum til að leita sátta og til að afla frekari gagna, eins og réttilega er tekið fram í hinum kærða úrskurði. Hafa sóknaraðilar látið undir höfuð leggjast að nýta þann langa tíma, sem þeim gafst frá því að frávísunarkröfu þeirra var hrundið, til að afla þess mats, sem þeir beiðast nú, enda þótt þeir hafi þá þegar haft tilefni til þess eins og ráðið verður af greinargerð þeirra í héraði.

Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Hilmar Friðriksson og Ingibjörg Kristjánsdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Hafdísi Stefánsdóttur, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2011.

Mál þetta var þingfest 22. september 2010 og tekið til úrskurðar 14. september sl. um kröfu stefndu um að dómkvaddur verði matsmaður í samræmi við beiðni stefndu frá 6. september 2011.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að viðurkennt verði að henni hafi verið heimilt að rifta kaupsamningi, dags. 14. mars 2007, við stefndu um fasteignina Blikaás 56 í Hafnarfirði og að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda 52.640.158 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. desember 2009 til greiðsludags gegn afhendingu á ofangreindri fasteign.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða henni in solidum 15.982.260 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. desember 2009 til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða henni in solidum 10.630.490 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. desember til greiðsludags.

Í vara- og þrautavarakröfu krefst stefnandi þess enn fremur að stefndu verði gert skylt að gefa út afsal til stefnanda fyrir Blikaási 56 í Hafnarfirði að viðlögðum dagsektum in solidum, 20.000 krónur fyrir hvern dag, frá dómsuppkvaðningu til þess dags er það hefur verið gefið út af stefndu.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar in solidum að skaðlausu úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Í þessum þætti málsins krefjast stefndu þess að dómkvaddur verði matsmaður samkvæmt beiðni þeirra, dags. 6. september 2011. Af hálfu stefnanda er þess krafist að beiðni stefndu verði synjað og stefndu úrskurðuð til að greiða stefnanda málskostnað. 

I.

Atvik máls eru í stórum dráttum þau að stefnandi keypti parhús á tveimur hæðum að Blikaási 56 í Hafnarfirði af stefndu með kaupsamningi 14. mars 2007. Fasteignin er 161,8 fm að stærð og er steinhús, byggt úr forsteyptum einingum árið 2000 af stefndu. Eftir afhendingu fasteignarinnar hóf stefnandi endurbætur á henni sem m.a. fólust í endurbótum á gólfefnum, eldhúsi, sólstofu og baðherbergjum. Stefnandi flutti inn í fasteignina að loknum endurbótum þann 1. júní 2007.

Stefnandi segir að fljótlega eftir að hún flutti inn í húsið hafi farið að bera á „smelluhljóðum“ sem hafi komið frá útveggjum hússins. Þessi hljóð hafi komið fram annars vegar við ákveðin veðurskilyrði og hins vegar þegar stutt hafi verið þéttingsfast við ákveðna útveggi fasteignarinnar. Stefnandi kveðst hafa fengið Pétur Vilberg Guðnason byggingarverkfræðing og Jón Hauksson húsasmíðameistara í júlí 2007 til að kanna orsök þessara smelluhljóða frá útveggjum hússins. Þeim hafi ekki tekist að staðreyna ástæður fyrir þessum smelluhljóðum. Í framhaldi af því hafi stefnandi fengið tvo verkfræðinga frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, þá Jón Sigurjónsson og Björn Marteinsson, til að reyna að finna orsakir smellanna. Þeir hafi komið með tillögur til úrbóta í áliti sínu 3. október 2007 en talið að ekki væri unnt að sannreyna með fullnægjandi hætti orsök smellanna nema með mjög kostnaðarsömum aðgerðum. Í byrjun árs 2008 hafi til viðbótar farið að bera á raka í útveggjum hússins.

Þann 13. febrúar 2008 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Þess var beiðst að metnar yrðu orsakir fyrir smelluhljóðum í fasteigninni auk þess að metið yrði hvort raki væri í útveggjum hússins. Þá var þess beiðst að metið yrði hvaða aðgerða væri þörf við að lagfæra húsið, hvert væri umfang þeirra aðgerða og afleiðingar ásamt ætluðum kostnaði við slíkar aðgerðir. Þann 25. febrúar 2008 var Kristinn Eiríksson byggingarverkfræðingur dómkvaddur sem matsmaður. Hann skilaði undirmatsgerð í maí 2008. Komst hann m.a. að þeirri niðurstöðu að fasteignin væri haldin verulegum galla. Tók hann m.a. svo til orða að hann hefði aldrei heyrt önnur eins hljóð í nokkru húsi og var hann sannfærður um að hann myndi ekki treysta sér til að festa svefn við slíkar kringumstæður. Undirmatsmaður treysti sér hins vegar ekki til að segja til um nákvæma orsök gallans og þar af leiðandi væri útilokað að segja til um hvort mögulegt væri að bæta úr gallanum. Undirmatsmaður færði þó fram tillögur til úrbóta ásamt áætluðum kostnaði við þær að fjárhæð 5.848.000 krónur.

Í framhaldi af þessu sendi lögmaður stefnanda stefndu bréf en þau höfnuðu ábyrgð í málinu.

Stefnandi kveðst hafa talið óhjákvæmilegt að óska eftir yfirmati þar sem hún hafi talið undirmatsmann vanmeta kostnað sem falla myndi til við að bæta úr gallanum og enn fremur vegna þess að orsök fyrir smellunum hafi ekki verið fundin.

Þann 28. október 2008 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna og skiluðu yfirmatsmennirnir Björn Gústafsson byggingaverkfræðingur og Auðunn Elíasson, byggingafræðingur og húsasmíðameistari, yfirmatsgerð í september 2009, auk frekari útskýringa með bréfi þann 15. október 2009. Í yfirmatsgerð komust yfirmatsmenn að þeirri niðurstöðu að ekki sé unnt að mæla fyrir um úrbætur með fullri vissu um að þær skili árangri án þess að lagst verði í viðamikla og kostnaðarsama rannsókn. Yfirmatsmenn telja galla fasteignarinnar þess eðlis að hann geri fasteignina „óásættanlega til búsetu“. Í yfirmatsgerð er lögð fram kostnaðaráætlun við að framkvæma þær ráðstafanir og úrbætur sem gerð er tillaga um í undirmatsgerð. Yfirmatsmenn telja umræddar ráðstafanir líklegastar til að bera árangur þrátt fyrir að veruleg óvissa sé til staðar um það.

Þann 22. desember 2009 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns til að meta verðmætisrýrnun fasteignarinnar að teknu tilliti til þeirra galla sem staðreyndir hefðu verið í undir- og yfirmatsgerð. Jón Guðmundsson, löggiltur fasteignasali, komst að þeirri niðurstöðu í matsgerð sinni í febrúar 2010 að hlutfallsleg verðmætisrýrnun á fasteigninni væri 25% ef ekki yrði ráðist í neinar endurbætur á fasteigninni. Þá taldi hann hlutfallslega verðmætisrýrnun verða 10% jafnvel þótt ráðist yrði í þær viðgerðir sem gert sé ráð fyrir í yfirmatsgerð. Loks taldi matsmaður að markaðsverð fasteignarinnar miðað við 10. febrúar 2010 væri 38 milljónir króna ef hún væri ekki haldin neinum göllum.

II.

Sem áður sagði var mál þetta þingfest 22. september 2010. Greinargerð stefndu var skilað 10. nóvember 2010 og boðað til þinghalds 1. desember 2010 þar sem ákveðið var að munnlegur málflutningur færi fram um frávísunarkröfu stefndu þann 16. desember 2010. Úrskurður var kveðinn upp 7. janúar 2011 og fékk lögmaður stefnanda þá frest til frekari gagnaöflunar til 28. janúar 2011. Í því þinghaldi upplýstu lögmenn að verið væri að reyna sættir utan réttar og óskuðu sameiginlega eftir viðbótarfresti sem var veittur til 23. febrúar 2011. Enn var málinu frestað í sama skyni til 22. mars 2011 og aftur til 19. apríl 2011. Því þinghaldi var frestað utan réttar til 8. júní 2011. Í því þinghaldi var enn bókað eftir lögmönnum að þeir óskuðu sameiginlega eftir frekari fresti til sáttaumleitana og var næsta þinghald ákveðið 7. september 2011. Lögmenn upplýstu þá að sættir hefðu ekki náðst og útséð með að þær tækjust. Lögmaður stefndu lagði þá fram umþrætta beiðni um dómkvaðningu matsmanns en af hálfu stefnanda var því mótmælt að frekari frestir yrðu veittir til þess að mat færi fram. Ákveðið var í þessu þinghaldi að munnlegur málflutningur færi fram um ágreiningsefnið þann 14. september 2011.

III.

Í beiðni stefndu um dómkvaðningu matsmanns, dags. 6. september 2011, segir m.a.:

 „Ekki hefur í málinu enn verið dómkvaddur matsmaður til mats á því hvort smellir heyrist í húsinu og þá eftir atvikum hvert sé umfang þeirra. Mat hljóðverkfræðings á umfangi þess galla sem stefnandi byggir kröfur sínar á er nauðsynlegt þegar og ef það kemur til skoðunar hvort hinn meinti galli sé verulegur eða ekki. Yfirmatsmenn sem mældu hljóð í húsinu voru hvorki dómkvaddir til þess verks né hafa þeir tilskylda menntun til mælinga á hljóðum. Þá var framkvæmd hljóðmælinga yfirmatsmanna mjög takmörkuð auk þess sem hún var ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til slíkra mælinga í 172. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998.

Matsniðurstöður munu notaðar til rökstuðnings kröfum stefndu. Um nánari rökstuðning stefndu og tilgang matsgerðarinnar er vísað til greinargerðar stefndu á dskj. nr. 28.

Matsliðir: Með vísan til alls framanritaðs er þess óskað að matsmaður svari eftirtöldum atriðum með rökstuddum hætti. Nánar mun gerð grein fyrir umfangi tiltekinna matsliða á matsfundi.

1.                       Heyrast smellir/hljóð frá veggjum/þaki hússins?

2.                       Ef já. Hversu oft heyrast hljóðin, hvenær heyrast þau, hvar í húsinu og hve há eru þau í db?

Nánar tiltekið er óskað eftir því að matsmaður framkvæmi hljóðmælingu í húsinu í samræmi við viðurkennda staðla sem gilda um slíkar mælingar að minnsta kosti 2 klst. á dag, 2 sinnum í mánuði yfir 12 mánaða tímabil. Nánari tímasetningar skuli vera ákvörðun matsmanns.“

Kröfu sína um að framangreindri beiðni stefndu verði synjað styður stefnandi m.a. þeim rökum að framlagðar matsgerðir séu á eina lund. Húsið sé gallað vegna smellhljóða og óljóst um orsakir. Í engu tilviki hafi stefndu gert athugasemdir við hæfi matsmanna eða framkvæmd mats. Nú þegar hafi verið lagt mat á þau atriði sem stefndu óski mats á. Þá telur stefnandi ótækt að fresta málinu í rúmt ár, sérstaklega þar sem langt sáttarferli sé að baki og málið tilbúið til aðalmeðferðar.

IV.

Eins og að framan er rakið hefur verið aflað tveggja álitsgerða og þriggja matsgerða í málinu. Að því hafa komið sex verkfræðingar auk manns með sérfræðiþekkingu í húsasmíði svo og fasteignasali. Yfirmatsmenn mældu styrk smella í húsinu í desibelum með hljóðstigsmæli.

Krafa stefndu nú er að dómkvaddur verði matsmaður til að meta hljóð í húsinu, tvær klukkustundir á dag, tvisvar sinnum í mánuði, á tólf mánaða tímabili. Krafa stefndu er því í raun um að málinu verði frestað í a.m.k. eitt ár meðan umbeðin rannsókn fer fram.

Umrædd beiðni um dómkvaðningu matsmanns kom fyrst fram í þinghaldi 7. september þegar til stóð að ákveða aðalmeðferð en þá var ljóst að sættir höfðu verið reyndar til þrautar. Fyrir liggur að aðalmeðferð getur farið fram í lok nóvember nk.

Ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 standa ekki í vegi þess að stefndu verði heimilað að afla umbeðinnar matsgerðar. Þá er ekki girt fyrir það í lögum nr. 91/1991 að aflað verði nýrrar matsgerðar til viðbótar fyrri matsgerðum þótt ný matsgerð taki að einhverju leyti eða öllu til sömu atriða og hinar eldri. Hins vegar verður eins og hér háttar að líta til þess að málið var þingfest 22. september 2010 og hefur síðan verið í fresti vegna gagnaöflunar og sáttaumleitana. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 ber báðum aðilum að nýta jöfnum höndum sama frest til gagnaöflunar. Að öðrum kosti synjar dómari að jafnaði um frest, þótt aðilar séu á einu máli um að æskja hans.

Þegar alls þessa er gætt, og enn fremur þess að fyrirliggjandi matsgerðir eru allítarlegar, þykir ekki rétt að tefja rekstur málsins með frekari matsgerðum um sama efni. Synjað verður því um umbeðna dómkvaðningu matsmanns.

Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Synjað er beiðni stefndu um dómkvaðningu matsmanns.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.