Hæstiréttur íslands

Mál nr. 389/2008


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. apríl 2009.

Nr. 389/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Andrzej Miroslaw Ulkleja

(Jón Höskuldsson hrl.

 Bjarni Hauksson hdl.)

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.

 Steinunn Guðbjartsdóttir hrl., réttargæslumenn)

 

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

A var ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa strokið ungum stúlkum í sundlaug um bak og rass utanklæða og klipið eina í rassinn. Þá var hann ákærður fyrir brot gegn 209 gr. sömu laga með því að hafa berað kynfæri sín og fróað sér að stúlkunum viðstöddum. Var A sakfelldur fyrir þau brot sem honum voru gefin að sök, fyrir utan að ekki þótti komin fram fullnægjandi sönnun fyrir því að ákærði hafi fróað sér. Við ákvörðun refsingar hans var m.a. litið til þess að um ítrekað brot gegn 2. mgr. 202. gr. hegningarlaga var að ræða sem beindist að átta ungum stúlkum, en sjö þeirra voru á tólfta aldursári en ein var nýlega orðin tólf ára. Þótti refsing A hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, en eftir atvikum þótti rétt að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið. Þá þótti A með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til stúlknanna sem þóttu hæfilega ákveðnar á bilinu 100.000 til 150.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd. Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða G 150.000 krónur, H 600.000 krónur, C 500.000 krónur, E 200.000 krónur, F 200.000 krónur, D 600.000 krónur, J 500.000 krónur og I 500.000 krónur, allt með nánar tilgreindum vöxtum.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en sakarkostnað.

Fyrir Hæstarétti hefur af hálfu ákæruvaldsins verið fallið frá kröfu um að ákærða verði gert að greiða annan sakarkostnað í héraði en þann, sem varði málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, að því leyti sem ákærði var dæmdur til þess í héraði. Því til samræmis verður hann dæmdur til að greiða í sakarkostnað í héraði þá fjárhæð, sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

Ákærði, Andrzej Miroslaw Ulkleja, greiði samtals 1.617.750 krónur í sakarkostnað í héraði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola eins og ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 943.826 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur, og Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 217.875 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2008.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. maí 2008, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 21. apríl 2008, á hendur Andrzej Miroslaw Ulkleja, kennitala [...],[...], „...fyrir kynferðisbrot framin í sundlaug í Sundmiðstöð Keflavíkur sem hér greinir:

A.

Sunnudaginn 20. janúar 2008:

  1. Strokið stúlkunni A, kennitala [...], um rassinn utanklæða.
  2. Berað kynfæri sín og fróað sér að viðstaddri framangreindri A og stúlkunni B, kennitala [...].

B.

Föstudaginn 22. febrúar 2008:

  1. Strokið stúlkunum C, kennitala [...], D, kennitala [...], E, kennitala [...] og F, kennitala [...], um rassinn utanklæða. C strauk ákærði tvisvar sinnum, D fjórum til fimm sinnum, E sjö til átta sinnum og F einu sinni. Þá kleip ákærði í rass E utanklæða.

C.

Sunnudaginn 24. febrúar 2008:

  1. Strokið stúlkunum G, kennitala [...], H, kennitala [...], I, kennitala [...], J, kennitala [...] og F, kennitala [...], um rassinn utanklæða. G strauk ákærði sex sinnum, H einu sinni, I einu sinni og J fjórum sinnum. Þá strauk ákærði kynfæri F og G utanklæða og kleip hina síðarnefndu í rassinn. Ennfremur strauk ákærði H og I neðarlega á baki.
  2. Berað kynfæri sín og fróað sér að viðstöddum framangreindum stúlkum og stúlkunni D, kennitala [...].

Háttsemi ákærða samkvæmt ákæruliðum 1, 3 og 4 telst varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 14/2002, 2. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007. Háttsemi ákærða samkvæmt ákæruliðum 2 og 5 telst varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu eftirgreindra er krafist miskabóta að tilgreindri fjárhæð:

G, krónur 150.000

H, krónur 600.000

C, krónur 500.000

E, krónur 200.000

A, krónur 500.000

B, krónur 200.000

F, krónur 200.000

D, krónur 600.000

J , krónur 500.000

I, krónur 500.000

Að auki krefst hver þeirra vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu fram til þess tíma að mánuður er liðinn frá því að kröfur þeirra voru kynntar ákærða, sbr. 9. gr. sömu laga, en upp frá því dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna“.

Við upphaf aðalmeðferðar 21. maí sl. var, með heimild í 1. mgr. 118. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og án athugasemda af hálfu ákærða og verjanda hans, þingfest framhaldsákæra dagsett sama dag til leiðréttingar á augljósum villum. Þar segir:

„Í A kafla ákærunnar, 1. tl.,  á að standa nafn B, kennitala [...] í stað nafns A. Breytist því framsetning á nöfnum stúlknanna í 2. tl. í samræmi við það. Eftir leiðréttingu eru töluliðirnir svohljóðandi:

1.        Strokið stúlkunni B, kennitala [...], um rassinn utanklæða.

2.        Berað kynfæri sín og fróað sér að viðstaddri framangreindri B og stúlkunni A, kennitala [...].

Í C kafla ákærunnar, 5 tl.,  á til viðbótar að standa „og stúlkunni E, kennitala [...] “. Eftir leiðréttingu er töluliðurinn svohljóðandi:

5.     Berað kynfæri sín og fróað sér að viðstöddum framangreindum stúlkum og stúlkunni D, kennitala [...] og stúlkunni E, kennitala [...] “.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara, verði hann fundinn sekur, vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfum verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af bótakröfunum. Loks krefst ákærði þess að sakarkostnaður málsins verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.

II.

Ákæruliður A.

Samkvæmt kæruskýrslu K, dagsettri 24. janúar 2008, kærði hún ætlað kynferðisbrot gegn ólögráða dóttur sinni, B 20. janúar sl. Skýrði kærandi svo frá að dóttir hennar hefði farið í sund í sundlauginni í Keflavík ásamt vinkonu sinni, A, og hefðu þær farið þangað milli kl. 14:00 og 15:00 en B hafi þá verið í heimsókn hjá A. Í sundlauginni hefði einhver maður elt þær þegar þær fóru í stóru laugina, heita pottinn og litlu laugina. B hafi sagt að þær hafi skipt nokkrum sinnum um laugar til að forðast manninn en hann hefði alltaf elt þær.

Að sögn stúlkunnar hafi maðurinn alltaf verið nærri þeim en í eitt skipti þegar hún hafi stungið sér í kaf og spyrnt sér frá bakkanum til að forðast hann, hafi hann lagt höndina á rassinn á henni og með þeim hætti strokið henni um rassinn um leið og hún spyrnti frá. Þegar þær hafi farið í heita pottinn hafi maðurinn komið á eftir þeim og hafi hann, á meðan stúlkurnar voru þar, verið með hendurnar hjá kynfærunum og nokkrum sinnum tekið aðra höndina upp úr vatninu og þefað af lófanum.

Stúlkan hafi einnig sagt frá því að þegar þær voru í stóru lauginni og fóru í kaf, hefði maðurinn tekið typpið upp úr buxunum og haldið annarri hndi um typpið á sér og hreyft höndina fram og til baka á typpinu. Hina höndina hafi hann notað til að láta ofan á typpið, hvort sem hann var að reyna að skýla þessu eða ekki. Þótt stúlkan hefði ekki haft orð á því, væri nokkuð ljóst að maðurinn hafi verið að fróa sér fyrir framan stúlkurnar. Kærandi sagði að stúlkunum hafi orðið svo mikið um þetta að þær hafi farið beint upp úr. Þær hefðu ekki sagt starfsfólkinu í sundlauginni frá þessu, heldur líklega fengið móður A til að sækja sig.

Kærandi kvað stúlkuna hafa sagt henni og manninum hennar frá þessu á leiðinni heim og þá lýst manninum sem útlendingi, líklega frá Póllandi, og hafi hún talið hann vera á aldrinum 40 til 50 ára, dökkhærður með snöggklippt hár og lítið skegg, íklæddur svartri Speedo-sundskýlu. K kvaðst hafa haft samband við starfsfólk sundlaugarinnar í Keflavík sem hafi sagt henni að myndavélar í sundlauginn hefðu verið óvirkar. Þá kvaðst K hafa látið lögregluna vita af þessu.

K kvað umrætt atvik hafa haft áhrif á stúlkuna með þeim hætti að það væru meiri læti í henni, hún talaði mikið um það og velti því fyrir sér hvort hún eigi sjálf sök á þessu með því að hafa verið í bikiníi. Stúlkan hafi haft orð á því að það væri í lagi að hún færi í skólasund því þá væri kennarinn hjá þeim. Atvikið hefði þó ekki truflað nætursvefn stúlkunnar en það væri erfiðara að fá hana til að fara að sofa. Hins vegar virtist atvikið ekki hafa haft áhrif á nám hennar.

Samkvæmt kæruskýrslu L, dagsettri 24. janúar 2008, kærði hún ætlað kynferðisbrot gegn ólögráða dóttur sinni, A, 20. janúar sl. Skýrði kærandi svo frá að hún hefði ekið dóttur sinni og vinkonu hennar, B, að sundmiðstöð Keflavíkur um klukkan 15:30. Þær hefðu síðan verið búnar óvenju fljótt eða um klukkan 17:00. Á leiðinni heim hefðu stúlkurnar sagt frá því að maður hefði elt þær um alla sundlaugina. Þær hafi fært sig milli staða oftar en fimm sinnum, en alltaf hafi maðurinn verið á eftir þeim. Hafi stúlkurnar lýst því að í tvö skipti, þegar þær voru að kafa, hafi maðurinn tekið typpið upp úr sundskýlunni og strokið það fram og til baka. Þá hafi það gerst að þegar B var að synda og mætti manninum, hafi hann strokið henni um rassinn eða klipið hana í rassinn og hafi B sagt að það hefði ekki verið óvart heldur hafi maðurinn teygt sig í áttina til hennar til að honum tækist það.

Stúlkurnar hafi lýst manninum þannig að hann hafi verið meðalmaður á hæð og stuttklipptur, kraftalegur og þrekinn, mjög rauður í framan og um það bil fertugur að aldri, klæddur stuttri og þröngri svartri Speedo-sundskýlu. Þær hafi sagt hann hugsanlega vera útlending en það hafi verið útlendingur í heitum potti með barn með sér og hafi maðurinn sem elti þær talað við manninn í pottinum. Kvaðst kærandi hafa sagt starfsfólki sundmiðstöðvarinnar frá atvikinu daginn eftir.

Kærandi kvaðst ekki merkja miklar breytingar á dóttur sinni eftir þetta en stúlkan hafi þó ekki viljað fara með móður sinni í sund daginn eftir þótt hún hafi alltaf áður viljað það. Þetta hafi því haft töluverð áhrif á dóttur hennar en áhrifin séu ekki komin fram að fullu.   

Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu dagsettri 25. janúar sl. varð starfsfólk sundlaugarinnar í Keflavík ekki vart við neitt óvenjulegt 20. janúar sl. Treysti starfsfólkið sér ekki til þess að benda á neinn ákveðinn mann eftir lýsingum mæðra stúlknanna tveggja.  

Í upplýsingaskýrslu lögreglu vegna sakbendingar, dagsettri 11. mars sl., kemur fram að B hafi verið leidd fyrir sakbendingarröð vegna rannsóknar málsins og hafi jafnframt verið tekið við hana viðtal. Stúlkan hafi greinilega verið í miklu uppnámi og grátið mikið. Hún hefði ekki endurþekkt manninn í sundlauginni í janúar. Í upplýsingaskýrslu lögreglu vegna sakbendingar, dagsettri sama dag, þar sem A var leidd fyrir sakbendingarröð, kemur fram að hún hafi heldur ekki endurþekkt manninn í sundlauginni.

Að beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum og með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1940 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, voru teknar skýrslur í Barnahúsi af þeim B og A og voru báðar skýrslurnar teknar 12. febrúar sl. Verður vitnisburður þeirra nú rakinn.

Vitnið B kvaðst hafa verið í sundi með vinkonu sinni, A, 20. janúar sl. og þær hafi verið í grynnri enda útilaugarinnar að leika sér og þegar hún hafi ætlað að synda yfir í djúpu laugina hafi maður einn strokið á henni aðra rasskinnina með annarri hendi. Hann hafi strokið henni fyrir utan sundbolinn. Þegar þær vinkonurnar hafi verið komnar út í djúpu laugina hafi maðurinn staðið þar úti í enda, með hendurnar niðri og tekið typpið upp úr svartri, þröngri sundskýlunni og nuddað það. Kvaðst vitnið hafa kafað og horft á hann nudda typpið. Þær vinkonurnar hefðu síðan farið í barnalaugina en maðurinn komið á eftir þeim en síðan hafi þær farið í heita pottinn en hann þá ekki komið þangað en glápt á þær. Þær A hafi verið hræddar enda hefðu þær aldrei lent í slíku áður. Hún kvaðst hafa fundið fyrir skrýtinni tilfinningu og ekki hafa sofið nógu vel þar sem hún gat ekki hætt að hugsa um þetta atvik fyrst á eftir. Nú líði henni mun betur.

Vitnið lýsti manninum þannig að hann væri á bilinu 40 til 50 ára gamall með mikið af freknum á bakinu, svipaður að stærð og pabbi hennar, dökkhærður og broddaklipptur, með bumbu og í svartri sundskýlu. Taldi hún líklegt að maðurinn væri Lithái eða Pólverji og byggði þá ályktun á því að hún heyrði hann tala við vin sinn, sem var með 6 til 7 ára stelpu með sér, og hefðu þeir talað saman á pólsku eða líku tungumáli.

Vitnið A lýsti atvikum þannig að þær B hefðu í janúar sl. verið í djúpu útilauginni í Keflavík og þar hefði maður verið að synda og þegar þær hefðu farið í heita pottinn hefði maðurinn komið þangað líka. Þær hafi síðan farið aftur í djúpu laugina og þá kvaðst vitnið hafa sagt við vinkonu sína að hún héldi að maðurinn væri að elta þær. Þær hafi farið í grunnu laugina en maðurinn þá farið í gufu. Þar sem heiti potturinn var tómur, hefðu þær farið í hann á nýjan leik og maðurinn þá látið nægja að horfa á þær en ekki komið á eftir þeim þangað. Kvað stúlkan það hafa verið óþægilegt þegar hann elti þær og horfði á þær.

Vitnið lýsti því að þegar þær vinkonurnar voru í djúpu lauginni og léku sér við að fara í handstöðu og fleira, hafi þær séð þegar maðurinn fór með hendur ofan í sundskýluna sína og nuddaði það sem var ofan í sundskýlunni og hafi hann gert þetta oft. Þá kvað hún B hafa sagt sér, þegar þær voru í djúpu lauginni, að maðurinn hefði klipið sig í rassinn og kvaðst vitnið hafa séð hvar B skaust upp því henni brá svo mikið. Kvaðst vitnið sjálf ekki hafa séð þegar maðurinn kleip.

Vitnið kvað manninn vera útlendan og merkti það af því að hann talaði við annan mann í pottinum á sama tungumáli og hann. Hann hafi verið fjörutíu eða fimmtíu ára, næstum því tveggja metra hár, frekar feitur með dökkbrúnt stutt hár og ekki með mikið skegg. Aðspurð gat vitnið ekki lýst sundskýlu mannsins. A kvað sér hafa liðið illa eftir þetta.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.

Ákærði hefur neitað sök og kannast ekki við að hafa verið í sundi þennan dag. Hann kvaðst hins vegar hafa farið nokkuð oft í sundlaugina í febrúar sl. þegar hann hafði keypt sér sundkort og þá oftast farið um helgar. Ákærði kvaðst stundum hafa farið einn í sund en stundum hefði hann farið með Marian, vini sínum, og stundum með Cesari. Marian hefði stundum tekið 7 ára dóttur sína með.

Marian Bouguslaw Dziedziak, vinur ákærða, kvað þá ákærða hafa kynnst í sundlauginni í október eða nóvember í fyrra. Oftast færu þeir saman í sund á sunnudögum. Vitnið mundi ekki hvort hann fór með ákærða í sund í janúar sl. og sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort hann fór í sund 20. þess mánaðar. Þegar borin var undir hann lögregluskýrsla, sem hann gaf 26. febrúar sl., kvaðst hann ekki muna eftir þessu en hann kvaðst ekki hafa farið með ákærða í sund alla sunnudaga í janúar. Lögreglan hefði nefnt ákveðna dagsetningu í janúar, sem vitnið mundi ekki núna, og jafnframt sagt að vitni væru að því að hann hefði verið þann ákveðna dag í sundi og þá hefði vitnið strax sagt að þá væri það rétt.

Í lögregluskýrslu sinni kvað vitnið ákærða hafa komið til Íslands úr jólafríi 12. janúar sl. og að þeir hafi farið saman í sund alla sunnudaga eftir það nema kannski sunnudaginn 13. janúar og einn sunnudag þegar það var kolvitlaust veður, sem hann mundi ekki nákvæmlega hvenær hefði verið. Þegar hann var sérstaklega spurður að því hvort hann hefði farið með ákærða í sund sunnudaginn 20. janúar sl., var hann ekki alveg viss um það en sagði að ef vitni staðfestu að hann hefði verið í sundi þann dag, þá væri það þannig, hann væri ekki 100% viss um það. Tiltók vitnið að þeir ákærði færu yfirleitt í sund um kl. 15:00 eða 16:00 og væru þar yfirleitt fram til 17:00 eða 18:00.

Niðurstaða.

Báðar stúlkurnar hafa lýst atburðum í sundmiðstöð Keflavíkur þann 20. janúar sl. með svipuðum hætti. Þær kváðust báðar hafa séð mann taka typpið upp úr sundskýlu sinni og nudda það. Þá kvað B sama mann hafa strokið á henni rassinn utanklæða þegar hún var á sundi en A sá það ekki en kvað B hafa sagt sér frá því. Lýsingar stúlknanna á manninum eru í aðalatriðum á sama veg og gætu átt við ákærða. Er það mat dómsins að frásagnir stúlknanna séu trúverðugar.

Hins vegar hefur ákærði frá upphafi neitað sök og neitað því staðfastlega að hafa verið í sundi umrætt sinn. Hvorug stúlknanna endurþekkti ákærða við sakbendingu þann 4. mars sl. sem manninn í sundlauginni. Þá þykir vætti vitnisins Marians ekki svo eindregið um það hvort ákærði var í sundi umrætt sinn, að á því verði byggt. Að þessu virtu og með vísan til ákvæða 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þykir, eins og hér stendur á og gegn eindreginni neitun ákærða, ekki komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi framið brot þau sem honum eru gefin að sök í þessum lið ákærunnar og verður hann því sýknaður.

III.

Ákæruliður B.

Með kæruskýrslu dagsettri 25. febrúar sl. kærði M ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, C. Kvað hún C hafa verið í sundlauginni föstudaginn 22. febrúar sl. milli klukkan 17:00 og 19:00 ásamt þremur öðrum stúlkum, þeim F, D og E. Stúlkurnar hafi verið í djúpu lauginni og verið nær heitu pottunum að leika sér. C hafi sagt að maður einn hefði synt nálægt þeim og hafi stúlkurnar furðað sig á því að hann hefði gert það, þar sem allar brautir sundlaugarinnar hafi verið auðar á þessum tíma. Stúlkan hefði ekki tiltekið hversu lengi þetta stóð, en þær hefðu farið upp úr lauginni fljótlega og farið í heitu pottana.

Stúlkan hafi síðan sagt móður sinni frá því að maðurinn hefði strokið hendinni eftir rassinum á henni og að hann hefði einnig strokið yfir rassinn á hinum stúlkunum án þess þó að hún hafi tiltekið að maðurinn hafi farið undir sundföt þeirra. Stúlkurnar hafi í fyrstu haldið að maðurinn hefði rekist í þær óvart, en þær hafi síðan áttað sig á því að hann snerti þær viljandi. Stúlkan hafi sagt manninn vera í lítilli sundskýlu, næstum eins og G-streng, og að hann hafi verið með sundgleraugu en hún hafi ekki lýst útliti mannsins að öðru leyti.

Kærandi kvað dóttur sína hvorki hafa talað um að maðurinn hafi kafað kringum stúlkurnar né að hann hafi berað sig í lauginni. Taldi hún dóttur sinni hafa verið mjög brugðið og að það hafi verið eins og hún hafi áttað sig á alvöru málsins þegar hún ræddi málið við móður sína og stjúpföður. C hafi verið búin að ræða málið við vinkonu sína á laugardeginum en sú vinkona hefði ekki verið í lauginni með C þennan dag og töldu kærandi og maður hennar að það segði eitthvað til um upplifun C af atburðinum. Tók kærandi fram að stúlkunni gengi vel í skóla og hún ætti margar vinkonur.

Með kæruskýrslu dagsettri 26. febrúar sl. kærði N ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, D. Kvað hún dóttur sína hafa farið í sund föstudaginn 22. febrúar sl. og verið í sundlauginni á milli kl. 18:00 og 19:00 með vinkonum sínum, E, C og G. Stúlkurnar hafi verið í sundbrautunum í útisundlaug Sundmiðstöðvarinnar í Keflavík og verið að leik í grynnri enda laugarinnar þegar erlendur karlmaður hafi komið syndandi að þeim. D hafi talað um að maðurinn væri 40 til 50 ára íklæddur dökkum, litlum sundbuxum en hún hafi ekki lýst manninum að öðru leyti og ekki hafa vitað hvort hann var einn á ferð eða ekki umrætt sinn. Stúlkan hafi talað um að maðurinn hefði þóst synda hjá þeim í brautinni þeirra þó svo að allar aðrar brautir hafi verið mannlausar. Maðurinn hafi síðan klipið þrisvar sinnum í rass D utan yfir sundbolnum meðan hann þóttist synda hjá. Stúlkan hafi sagt manninn einnig hafa klipið í G og E án þess að kærandi vissi hvernig það atvikaðist. Stúlkurnar hafi eftir sundið farið heim til E en D hafi komið heim til sín á tímabilinu kl. 21:00 til 21:30 um kvöldið og hafi stúlkan þá ekki verið öðruvísi en hún átti að sér að vera. 

Með kæruskýrslu dagsettri 25. febrúar sl. kærði O ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, E. Kvaðst hún vita að maður hefði verið handtekinn í sundlauginni 24. febrúar sl. en á föstudeginum hefði dóttir hennar verið í sundi milli kl. 17:00 og 18:30. E hefði ekki minnst á neitt eftir atvikið á föstudag fyrr en eftir að maðurinn var handtekinn deginum áður. E hafi sagt að stúlkurnar hafi verið að leik í sundlauginni og m.a. hoppað af bakkanum þar sem brautirnar eru. Þá hafi einhver maður, sem var að synda þarna, fært sig yfir í brautina þeirra og synt þar. Maðurinn hafi síðan strokið E um rassinn í tvö skipti en hann hafi einnig snert F, C og E en E hafi ekki talað um það hvar hann snerti þær. Stúlkan hafi talað um að það væri enginn vafi á því að maðurinn hafi gert það að leik að vera í kringum þær og að hann hafi reynt að snerta þær. Kærandi kvað E hafa sagt að stúlkurnar hafi reynt að færa sig á annan stað í sundlauginni en það hefði ekki gengið þar sem maðurinn elti þær.

Stúlkan hafi lýst manninum sem gömlum, feitum og ljótum útlendingi. Stúlkurnar hafi reynt að bægja manninum frá með því að skvetta á hann og tala við hann en hann hafi látið sem hann skildi þær ekki. Maðurinn hafi auk þess verið í barnalegri skýlu en kærandi kvaðst ekki vita hvað stúlkan ætti við með því.

Kærandi kvaðst ekki sjá breytingu á dóttur sinni aðra en þá að nú vildi hún ekki fara í sund en hún hefði farið oft í sund undanfarið. Taldi kærandi að stúlkan hafi ekki skýrt frá þessu í upphafi þar sem hún hafi ekki áttað sig á alvöru málsins fyrr en maðurinn var handtekinn. Fram að því hafi stúlkunni fundist þetta hlægilegt eða fíflalegt.

Með kæruskýrslu dagsettri 25. febrúar sl. kærði P ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, F. Kvað hann dóttur sína hafa sagt sér að erlendur maður hafi áreitt hana og vinkonur hennar bæði föstudaginn 22. febrúar sl. og sunnudaginn 24. febrúar sl. í sundlauginni. Hefði hún lýst manninum þannig að nef hans væri stórt og skarpt. Stúlkan hafi talað um það á föstudeginum að maðurinn hafi verið að rekast í hana og vinkonur hennar, þær G, E og Q, þar sem þær voru í djúpu lauginni og heitu pottunum. Þær hafi verið að leika sér þegar maðurinn færði sig nær þeim og hafi F sagt að þær hafi reynt að gera manninum skiljanlegt að hann ætti að færa sig og vera þar sem brautirnar voru auðar. Stúlkan hafi sagt að nánast enginn hefði verið í lauginni þegar þetta gerðist. Svo hefði virst sem maðurinn skildi stúlkurnar ekki þrátt fyrir bendingar þeirra. Maðurinn hefði síðan strokið rass F og hefði stúlkan sagt að maðurinn hefði einnig strokið rassinn á hinum stúlkunum. Hins vegar hafi stúlkan ekki talað um að maðurinn hafi berað sig fyrir framan stúlkurnar á föstudeginum. P kvað dóttur sína sennilega hafa litið á snertingar mannsins sem tilviljun en að stúlkurnar hafi grunað að ekki væri allt með felldu þegar hann snerti þær allar. Kvaðst P ekki hafa merkt sérstakar breytingar á dóttur sinni eftir þetta en hún hafi hins vegar orðið reið.

Í upplýsingaskýrslum lögreglu vegna sakbendingar, dagsettum 11. mars sl., kemur fram að þær C, D og F hafi verið leiddar fyrir sakbendingarröð vegna rannsóknar málsins þann 4. mars sl. og hafi jafnframt verið tekin við þær viðtöl. Þær hafi endurþekkt ákærða sem manninn í sundlauginni. Í upplýsingaskýrslu lögreglu vegna sakbendingar, dagsettri sama dag, þar sem E var einnig leidd fyrir sakbendingarröð 4. mars sl., kemur fram að hún hafi talið sig þekkja manninn úr sundlauginni en bent á lögreglumann í sakbendingarröðinni.

Að beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum og með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1940 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, voru teknar skýrslur í Barnahúsi af þeim C, D, E og F 10. mars sl. Verður vitnisburður þeirra nú rakinn.

Vitnið C kvaðst hafa verið í sundi með fjórum vinkonum sínum í febrúar og þær hafi verið í handstöðukeppni í djúpu lauginni. Þá hefði maður verið að synda á milli þeirra en samt ekki verið á einni ákveðinni braut og hafi henni fundist það svolítið skrýtið því þarna hafi verið margar lausar brautir. Maðurinn hafi fyrst komið við rassinn á F, vinkonu hennar, og síðan komið við rassinn á þeim öllum. Maðurinn hafi tvisvar sinnum strokið með hendinni við rassinn á vitninu utan við sundbolinn en það hafi ekki staðið yfir í lengri tíma en rúmlega sekúndu. Kvaðst vitnið hafa farið upp úr sundlauginni þegar hún hafði unnið handstöðukeppnina og ekki vitað að þetta væri alvarlegt en haldið að maðurinn væri bara að ýta þeim frá sér. Hins vegar hefði henni þótt þetta mjög alvarlegt þegar lögreglan hringdi í móður hennar og hún sá hversu mikið mömmu hennar brá við það. Lýsti vitnið líðan sinni þannig að henni hefði bara liðið vel en brugðið svolítið þegar maðurinn kom við hana.

Vitnið lýsti manninum þannig að hann væri „pínu feitur“, í lítilli, svartri sundskýlu, sem líktist nærbuxum, með svört eða blá sundgleraugu. Hann hafi verið með brúnt hár og svört bringuhár og um það bil 45 ára að aldri. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa séð manninn koma við sundskýluna sína. Hún kvaðst ekki hafa talað við manninn sjálf, en hélt að F hefði sagt honum að hætta.

Vitnið D lýsti málavöxtum þannig að hún hafi verið í sundi ásamt þeim F, E og C um sjöleytið á föstudegi. Þær hafi verið að leika sér í handstöðukeppni í kafi á stórri braut fyrir krakka í djúpu lauginni. Á brautinni hafi synt maður sem allt í einu hafi byrjað að koma við rassinn á þeim, fyrst við F. Þær hafi sagt honum að hætta þessu en hann ekki heyrt í þeim og haldið áfram. Kvað vitnið manninn hafa komið við rassinn á henni utan við sundbolinn fjórum til fimm sinnum umrætt sinn en komið mjög oft við rassinn á F og einu sinni við pjölluna á F. F hefði orðið mjög reið. Í fyrstu hafi þær vinkonurnar talið manninn vera blindan og að hann hafi einungis verið að ýta þeim frá sér og því hafi þær ekki klagað hann fyrr en síðar, á sunnudeginum að því er vitnið hélt. Vitnið kvað þær hafa farið upp úr lauginni og í pottinn og síðan upp úr, enda hafi þær ekki þorað að vera lengur í djúpu lauginni út af manninum.

Vitnið lýsti manninum þannig að hann hafi verið með ljósbrúnt eða skollitað hár, um fimmtugt, íklæddur mjög lítilli sundskýlu og með dökkblá sundgleraugu.

Vitnið E lýsti atvikum þannig að hún hefði verið með þeim C, D og F að leika sér í handstöðukeppni í sundlauginni á föstudegi í febrúar. Þarna hefði maður synt fram og til baka sem hefði farið styttri og styttri ferðir og káfað á rassinum á þeim. F hefði reynt að tala við hann og segja honum að hætta þessu en hann hefði ekki skilið hana og haldið áfram. Vitnið kvaðst hafa staðið þegar hann kom við hana fyrst og hefði hann klipið stúlkurnar í rassinn, alltaf fastar og fastar. Maðurinn hafi strokið rassinn á vitninu sjö til átta sinnum. Hann hafi reynt að fara neðar en þær hefðu alltaf hoppað frá. Vitnið kvaðst í fyrstu hafa haldið að maðurinn væri bara að ýta stúlkunum frá sér en henni hefði þótt það óeðlilegt að hann gerði þetta svo oft og færði sig sífellt nær og nær þegar þær fóru fjær og fjær.

Vitnið lýsti því hvernig þær F hefðu séð manninn reyna að girða niður um sig í heita pottinum og fikta í typpinu á sér. Þær hafi farið í kaf og séð manninn halda um typpið á sér, fyrst inni í sundskýlunni en síðan fyrir utan hana. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið halda að þetta hafi frekar verið á föstudeginum en sunnudeginum en taldi sig samt ekki muna það vel.

Lýsing vitnisins á manninum í sundlauginni var á þá leið að hann hafi verið feitur, með grátt hár og íklæddur pínulítilli svartri sundskýlu. Þetta hafi verið sami maðurinn og var í sundi á sunnudeginum og lögreglan handtók. Hún kvaðst ekki hafa orðið hrædd í fyrstu en nú liði henni ekki vel.  

Vitnið F lýsti málsatvikum á þá leið að hún hafi verið ásamt þremur vinkonum sínum, E, C og D, í sundi á föstudagskvöldi og leikið sér í handstöðukeppni í djúpu lauginni. Maður einn hafi synt fram og til baka á þeim stað í lauginni þar sem börn leika sér en ekki á brautunum. Hann hafi komið nær og nær stúlkunum. Síðan hafi maðurinn strokið rassinn á þeim öllum um leið og hann synti. Hann hafi strokið vitninu einu sinni um rassinn utan á bikiníbuxunum.

F sagði að hún hafi orðið dálítið hrædd en liði vel núna. Hún kvaðst ekki hugsa mikið um þetta atvik en helst þegar vinir hennar spyrðu hana út í það.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.

Ákærði hefur neitað sök og kvaðst hafa verið í sundlauginni seint um kvöld umrætt sinn eða um klukkan átta. Hann hafi lagt af stað úr vinnunni í Reykjavík um kl. 18:00 og verið kominn heim til sín kl. 19:00. Kannaðist ákærði ekki við að í sundlauginni þetta kvöld hafi verið litlar stúlkur.

Vitnið Sigríður Sigurðardóttir sundlaugarvörður kvað stúlkurnar hafa sagt henni sunnudaginn 24. febrúar sl. að maðurinn, sem þá var handtekinn í sundlauginni, hefði komið við rassinn á þeim á föstudeginum.

O, móðir E, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún kvað E hafa farið í sund umræddan dag með vinkonum sínum en hún færi í sund flesta daga eftir skóla einhvern tímann á tímabilinu frá kl. 16:00 til 19:00. Vitnið kvað E hafa sagt sér að maður í sundlauginni hefði strokið henni yfir rassinn utan yfir bikiníið.

Niðurstaða.

Ákærði hefur neitað sök en hefur þó kannast við að hafa verið í sundi umrætt föstudagskvöld. Fullyrti hann að hann hefði komið heim úr vinnu í Reykjavík í fyrsta lagi kl. 19:00 og því hafi hann ekki verið kominn í sundlaugina fyrr en um áttaleytið. Hefur ákærði lagt fram yfirlýsingu frá Húsanesi ehf., dagsetta 21. maí sl., þess efnis að ákærði hafi 22. febrúar sl. unnið í 8 dagvinnustundir og 2,5 yfirvinnustundir í Hátúni í Reykjavík. Fylgir yfirlýsingunni vinnuseðill sama efnis sem sagður er útfylltur af yfirmanni ákærða hjá Húsanesi ehf. Þessi gögn sýna einungis fram á fjölda unninna vinnustunda umræddan dag en af þeim verður ekki ráðið með vissu hvenær þær voru unnar. Verða gögnin því ekki talin færa sönnur á það hvenær ákærði fór í sundlaugina þennan dag.

Lýsingar stúlknanna C, D, E og F á atvikum málsins eru í öllum aðalatriðum á sama veg. Þær hafa lýst því að hafa verið að leik í djúpu lauginni og farið í svokallaða handstöðukeppni. Þá hafa þær sagt frá því að erlendur maður hafi synt á brautinni, þar sem þær léku sér, og að maðurinn hafi strokið þeim um rassinn utan klæða. Lýsingar stúlknanna eru að mati dómsins skýrar og trúverðugar og er ekkert fram komið í málinu sem gefur ástæðu til að ætla að stúlkurnar hafi verið að lýsa einhverju öðru en því sem gerðist umrætt sinn. Þá er komið fram að þær C, D og F endurþekktu ákærða við sakbendingu sem manninn í sundlauginni en fram er komið að C var einungis í sundi á föstudeginum 22. febrúar sl. en ekki á sunnudeginum 24. sama mánaðar og því útilokað að hún hafi ruglast á tilvikum. Lýsing C er í öllum aðalatriðum í fullu samræmi við frásagnir þeirra D, E og F.

Þegar til alls framanritaðs er litið, einkum trúverðugra og að mestu leyti samhljóma lýsinga stúlknanna á því hvernig ákærði strauk þeim um rassinn utanklæða, sem eru jafnframt í aðalatriðum í samræmi við það sem foreldrar stúlknanna hafa eftir þeim í kæruskýrslum hjá lögreglu, er það mat dómsins að sannað sé, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum lið ákærunnar og er rétt færð til refsiákvæða í ákærunni. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er. 

IV.

Ákæruliður C.

Samkvæmt frumskýrslu málsins var hringt í lögregluna á Suðurnesjum kl. 16:20 þann 24. febrúar sl. og tilkynnt að í sundlauginni væri maður sem hefði áreitt ungar stúlkur þar kynferðislega. Tveir lögreglumenn fóru á vettvang og voru þá umræddar stúlkur enn í sundlauginni og einnig maðurinn sem tilkynnt var um. Í viðræðum við lögreglu lýstu stúlkurnar því að maðurinn hefði káfað á rassinum á þeim. Í framhaldi af því hefðu þær tilkynnt um athafnir mannsins til starfsmanns í útieftirlitsturni. Jafnframt sögðu þær að sami maður hefði gert það sama við sumar þeirra sl. föstudag í sömu sundlaug. Stúlkurnar hefðu síðan vísað lögreglu á mann, sem lá í vaðlaug, og var með blá sundgleraugu á höfðinu. Meðan lögregla ræddi við stúlkurnar, stóð maðurinn upp og fór að synda í útilauginni.

Lögregla ræddi einnig við starfsfólk sundmiðstöðvarinnar, þau Sigríði Sigurðardóttur, Jón Newman og Sigurð Valgeirsson, sem sögðu að eftir að stúlkurnar bentu þeim á manninn og sögðu þeim hvað hann hefði gert, hefðu þau fylgst mjög náið með manninum og aldrei látið hann hverfa úr augsýn fyrr en lögregla kom á vettvang.

Lögregla tók síðan niður persónuupplýsingar um vin mannsins sem tilkynnt var um, Marian B. Dziedziak. Loks handtók lögregla manninn, sem stúlkurnar tilkynntu um, ákærða í máli þessu, en starfsfólkið hafði áður staðfest að um réttan mann væri að ræða.

Með kæruskýrslu dagsettri 25. febrúar sl. kærði R ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, G. Kvað hún dóttur sína hafa verið mjög æsta og reiða þegar hún kom heim úr sundi deginum áður og sagt að einhver maður hefði verið að snerta rassinn og kynfærin á sér í sundlauginni. Stúlkan hefði farið í sund þennan dag með vinkonum sínum, I, J, E, D og F. Dóttir hennar hefði lýst því að þær hafi leikið sér við að standa á höfði þegar einhver maður fór að synda framhjá þeim en ekki vissi kærandi hvar í lauginni þetta var. Stúlkan hafi sagt að maðurinn hefði snert þær á rassinum og kynfærunum og hafi hann snert hana um rassinn og pjölluna en kærandi kvaðst ekki vita hversu oft það var. Þá hafi stúlkan sagt að maðurinn hefði verið að fikta í typpinu á sér en hún hefði ekki séð typpið á honum heldur bara séð að hann var með hendurnar þar sem typpið er og hefði verið að snúa þeim einhvern veginn í hringi þar. Fannst kæranda sem stúlkan ætti við að maðurinn hefði þá verið ofan í vatninu. Stúlkan hafi síðan lýst því að stúlkurnar hefðu tilkynnt um manninn til sundlaugarvarðar og sagt honum frá því sem maðurinn gerði.

Stúlkan hafi ekki lýst manninum ítarlega en sagt að hann væri líklega Pólverji, án þess að fram kæmi hvers vegna hún taldi það, og að hann hafi verið um það bil 40-50 ára. Kvaðst kærandi ekki vita hvort maðurinn snerti einnig vinkonur dóttur hennar en stúlkan hefði sagt að maðurinn hefði verið utan í þeim öllum.

Kærandi kvaðst ekki vita hvaða áhrif þetta hefði haft á dóttur sína en sagði að í gær hefði stúlkan verið mjög æst og reið vegna þessa og liðið mjög illa.

Með kæruskýrslu dagsettri 25. febrúar sl. kærði S ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, H. Kvað hún dóttur sína hafa verið í sundi sunnudaginn 24. febrúar sl. um klukkan 15:00 eða 16:00. Stúlkan hafi farið í sund með þeim F og T, J og G auk einhverra fleiri sem kærandi vissi ekki hvað hétu. Stúlkan hafi sagt henni frá því að þær vinkonurnar hafi leikið sér einhvers staðar í útisundlauginni við að fara í kaf og standa á höndum. Einhver maður hafi þá komið syndandi að stúlknahópnum og verið í kringum þær. Kærandi kvað dóttur sína hafa sagt að maðurinn hafi strokið henni um bakið og rassinn utan yfir sundfötin en hún hafi verið klædd í bikiní. Hafi kærandi skilið stúlkuna þannig að maðurinn hafi strokið henni með einni samfelldri snertingu frá bakinu niður rassinn. Lýsti kærandi því aðspurð að stúlkan hafi sagt sér að maðurinn hafi staðið hjá henni er hann strauk henni og því hafi ekki verið um tilviljanakennda snertingu að ræða, líkt og ef hann hefði verið í sundtökum. Ein vinkonan hafi sagt manninum að hætta en maðurinn þá ekki þóst skilja neitt og því sagði kærandi að dóttir hennar hefði talið að maðurinn væri útlenskur. Hafi kærandi talið að eftir að vinkona dóttur hennar hafði sagt manninum að hætta, hafi hann haldið áfram að synda, fjarri stúlkunum. 

Stúlkan hafi sagt móður sinni að lögreglan hafi komið í sundlaugina skömmu síðar og sagt manninum að fara upp úr og inn í búningsklefa en það hafi verið sami maður og strauk henni í sundlauginni skömmu áður. Lögreglan hafi síðan hringt í kæranda síðar sama kvöld en þá hafi stúlkan ekki enn verið komin heim úr sundinu. Lögreglan hafi sagt kæranda að maður hefði verið handtekinn vegna áreitni gagnvart stúlkum. Skömmu síðar hafi stúlkan komið heim og þá hefði hún verið treg til að ræða málið en síðan lýst atvikum eins og hér hafi verið rakið. Hafi stúlkan sagt kæranda að maðurinn hefði einnig strokið vinkonum hennar en ekki vitað hvar eða hvernig.

Stúlkan hafi lýsti manninum sem pólskum og feitum. Taldi kærandi að stúlkan hefði dregið þá ályktun að maðurinn væri pólskur af því að hann hefði ekki skilið stúlkurnar þegar þær sögðu honum að hætta.

Með kæruskýrslu dagsettri 26. febrúar sl. kærði U ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, I. Kvað hann dóttur sína hafa farið í laugina sunnudaginn 24. febrúar sl. um klukkan 15:00 og verið í djúpu lauginni, nær heitu pottunum, með vinkonum sínum F, G og H en þær hafi hitt þær Vog J í lauginni. Kærandi kvað dóttur sína hafa hringt í hann um klukkan 17:00 og þá hafi henni verið mikið niðri fyrir. Hún hafi sagt honum að erlendur maður hafi verið í lauginni og að hann hafi verið að áreita stúlkurnar í lauginni og strokið þeim um bak og rass, þó hinum stúlkunum meira en henni þar sem hún hafi reynt að halda sig frá honum. Hafi stúlkan sagt að maðurinn hafi strokið F og J meira en hinum. Kvaðst kærandi hafa beðið móður I að ræða við stúlkuna.

Stúlkan hafi lýst því að maðurinn hafi haldið sig nálægt stúlkunum og strokið henni niður eftir bakinu og niður á rass. Kærandi kvaðst hafa spurt dóttur sína, hvort það gæti verið að maðurinn hefði rekist óvart í þær, en hún hafi sagt að maðurinn hefði gert þetta vísvitandi. Það hefði verið pláss fyrir manninn til að synda annars staðar í lauginni og að brautirnar í lauginni hafi verið auðar og að þær stúlkurnar hafi reynt að benda manninum á það en maðurinn ekki þóst skilja þær og sagt við þær „polska, polska“. Kvað kærandi stúlkuna ekki hafa nefnt að maðurinn hefði farið inn undir sundbol hennar.

Kærandi kvað dóttur sína hafa gaman af að fara í sund og hefði hún farið í laugina síðan þetta gerðist. Henni hafi verið mjög brugðið við þessa uppákomu þótt hegðun hennar hefði ekki breyst.

Hafi stúlkan lýst manninum í sundlauginni sem lágvöxnum og þybbnum, íklæddum lítilli sundskýlu með blá sundgleraugu.

Með kæruskýrslu dagsettri 25. febrúar sl. kærði W ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, J. Kvað hann dóttur sína hafa lýst því að hún hefði verið í miðri djúpu lauginni nær heita pottinum ásamt sex til sjö öðrum stúlkum um kl. 16:00 og 17:00 á sunnudeginum 24. febrúar sl. þegar maður í lauginni, sem hvar ekki grannur og frekar „krumpaður“, hefði verið að synda í lauginni og verið í kringum stúlkurnar og káfað á þeim öllum. Stúlkan hafi sagt að allar brautirnar í lauginni hafi verið auðar en maðurinn hafi engu að síður synt nálægt þeim. Stúlkan hafi síðan farið upp úr lauginni og rætt þetta við Sigríði, starfsmann sundlaugarinnar, og hafi Sigríður sagt stúlkunni að fara aftur í laugina. Maðurinn hafi þá haldið uppteknum hætti í kringum stúlkurnar og snert þær.

Kærandi kvað stúlkuna hafa lýst því að maðurinn hafi með lófanum snert rass hennar, bak og læri. Hún hafi sagst hafa haldið V, um það bil sjö ára stúlku, við bakkann til að forða henni frá manninum. Hafi stúlkan verið viss um að maðurinn hefði vísvitandi snert stúlkurnar og að þetta hafi ekki verið tilviljanakennt. Hins vegar hafi hún ekki nefnt að maðurinn hafi snert sjálfan sig eða berað sig í lauginni. Kvaðst kærandi ekki merkja breytingar á dóttur sinni í kjölfar atviksins. 

Eins og rakið er hér að framan í umfjöllun um ákærulið B, kærði P þann 25. febrúar sl. ætlað kynferðisbrot gegn dóttur sinni, F. Kom fram í kæruskýrslu hans að dóttir hans hafi sagt að erlendur maður hafi áreitt hana og vinkonur hennar bæði föstudaginn 22. febrúar sl. og sunnudaginn 24. febrúar sl. í sundlauginni og hefði hún lýst manninum þannig að nef hans væri stórt og skarpt. Stúlkan hafi verið í sundlauginni milli kl. 16:00 og 17:00 á sunnudeginum ásamt þeim E, D, G, Q og I. Þá hafi þessi sami maður synt nálægt stúlkunum þar sem þær léku sér við að standa á höndum í lauginni. Maðurinn hafi snert stúlkurnar og jafnframt snert kynfærin á G. Hins vegar hafi stúlkan sagt að hann hefði ekki snert hana á sunnudeginum en hún hafi hins vegar séð þegar maðurinn sýndi á sér kynfærin og hafi talið að ekki hafi farið milli mála hvað maðurinn ætlaði sér í lauginni. Alls staðar hefðu verið lausar brautir fyrir manninn að synda eftir.

Kærandi kvaðst ekki hafa orðið var við breytingar á hegðun dóttur sinnar eftir umrædd atvik en hún hafi verið reið.

Áður er rakið að þær C, D og F endurþekktu ákærða við sakbendingu 4. mars sl. sem manninn í sundlauginni en E ekki. Þá kemur fram í upplýsingaskýrslu lögreglu, dagsettri 11. mars sl., vegna sakbendingar sama dag að H endurþekkti ekki ákærða en sagði að enginn í sakbendingarröðinni væri kunnuglegur.

Að beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum og með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1940 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, voru teknar skýrslur í Barnahúsi af þeim G, H, I og J þann 10. mars sl. Eins og áður er getið var tekin skýrsla í Barnahúsi sama dag af þeim F, D og E. Verður vitnisburður þeirra nú rakinn.

Vitnið G gat ekki tilgreint með vissu á hvaða vikudegi umrætt atvik átti sér stað. Hún kvaðst hafa verið í sundi ásamt þeim F, T, E, D og I en þar hafi þær hitt J og V, litla frænku J. Þær hafi verið að leika sér í handstöðukeppni þegar maður einn, sem var að synda þarna, teygði sig í þær og kom alltaf nær og nær. Þær I, J og H hefðu sagt að maðurinn hefði káfað á þeim. Síðar þegar þær voru allar í röð í handstöðukeppni hefði maðurinn teygt sig í rassinn á vitninu og komið með hendinni við rassinn á henni og klipið sex sinnum og einu sinni komið við pjölluna utan við sundbolinn. Þá kvaðst vitnið hafa séð þegar hún var í kafi hvar maðurinn synti fram hjá J og strauk á henni rassinn og bakið. Í fyrstu hefðu stúlkurnar haldið að maðurinn hefði komið við þær óvart en síðan hefðu þær séð að hann teygði sig í þær. Stúlkurnar hefðu beðið manninn að hætta þessu og talað við hann á ensku því hann var pólskur en maðurinn hefði bara hlegið. Kvað vitnið sér hafa liðið illa þegar þetta gerðist og hefðu þær vinkonurnar verið svolítið hræddar við manninn. Hún kvaðst ekki hafa séð manninn gera neitt annað en að koma við stúlkurnar en einhverjar af stúlkunum hefðu sagt henni að maðurinn hefði einnig verið að fikta í typpinu á sér. Þegar þær hefðu farið að klaga manninn, hefði hann farið í pottinn þar sem voru fjögurra eða fimm ára barnabarn hans eða dóttir og vinur hans sem var milli fimmtugs og sextugs, svarthærður með yfirskegg. Loks hefði lögreglan komið og tekið hann.

Vitnið lýsti manninum þannig að hann hefði verið feitur, bláeygður með skollitað hár. Hann hefði verið í stuttri, blárri eða svartri sundskýlu.

Vitnið H kvað þær F, I, E, J, og C hafa verið saman í sundi umrætt sinn og leikið sér í handstöðukeppni í djúpu lauginni þegar maður kom við bakið á þeim. Hún kvaðst hafa verið í bikiníi og hafi hún verið í handstöðu þegar maðurinn kom tvisvar sinnum við bakið á henni með hendinni og í seinna skiptið hefði hann einnig fært höndina niður á rass hennar. Hefði maðurinn snert hana fyrir utan bikiníið. Maðurinn hafi einnig komið við bakið á þeim G og J. Hún hafi sjálf séð að þegar G fór í handstöðu kom maðurinn við bakið á henni og ýtti henni niður. Stúlkurnar hefðu reynt að færa sig lengra frá manninum í átt að bakkanum en síðan farið í heita pottinn. En þegar þær hafi komið aftur í laugina hafi maðurinn komið aftur. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa séð manninn koma við sundskýluna sína. Vitnið lýsti manninum þannig að hann væri dálítið stór, í svartri sundskýlu og hefði hann verið með öðrum manni í sundlauginni.   

Vitnið kvað allar brautirnar í lauginni hafa verið lausar umrætt sinn og hefðu stúlkurnar bent manninum á brautirnar en hann hefði bara haldið áfram. Þær hefðu jafnframt sagt honum að hætta en hann hefði ekki skilið þær, farið að hlæja og haldið áfram að synda. Þá hafi stúlkurnar farið upp úr lauginni og talað við sundlaugarvörð en farið síðan aftur ofan í sundlaugina. Loks hefði lögreglan komið á vettvang og talað við þær. Vitnið kvað sér hafa liðið skringilega á meðan á þessu stóð og fundist þetta skrýtið.

Vitnið I kvaðst hafa verið í sundi með vinkonum sínum F, H, J, C og D á sunnudegi þegar maður, sem var að synda í sundlauginni, reyndi sífellt að teygja sig í þær. Maðurinn hafi synt nálægt stúlkunum þótt allar aðrar brautir í lauginni hefðu verið lausar. Maðurinn hafi tvisvar sinnum káfað á henni með þeim hætti að hann kom með höndunum við rass hennar og bak. Í fyrra skiptið hefðu stúlkurnar verið í handstöðukeppni í djúpu lauginni og maðurinn þá káfað á henni um leið og hann synti framhjá. Í seinna skiptið hafi hann komið við hana þegar hún var að synda úr djúpu lauginni yfir í grunnu laugina. Hún hafi verið í sundbol og hafi maðurinn snert hana utan við sundbolinn. Þá kvaðst vitnið hafa séð þegar maðurinn kom við rassinn á J og þá hefði G sagt henni að maðurinn hefði snert pjölluna á sér. Hún kvaðst hafa séð þegar G stökk frá og öskraði af því að maðurinn kom við hana. Vitnið kvað vinkonur sínar hafa reynt að tala við manninn en hann hefði ekki skilið þær. Einnig hafi þær reynt að færa sig fjær manninum og nær bakkanum en hann hefði þá komið nær. Þá hafi þær farið í pottinn og talað við konu sem er sundlaugarvörður.  Vitnið kvað manninn hafa verið með öðrum manni og lítilli telpu í sundlauginni umrætt sinn. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa séð manninn koma við sundskýlu sína. Aðspurð um líðan sína kvaðst vitnið hafa verið reið og pirruð meðan á þessu stóð. 

Vitnið lýsti manninum þannig að hann hafi verið svolítið feitur með brúnt hár í svartri sundskýlu sem líktust nærbuxum. 

Vitnið J kvaðst hafa verið í sundlauginni að leika sér í handstöðukeppni í djúpu lauginni þar sem krakkar leiki sér. Með henni hafi verið m.a. þær G, I, F og X en þær hafi verið níu saman í allt. Þar hafi verið maður að synda sem hefði snert á þeim rassinn. Maðurinn hefði synt bringusund en ekki verið á braut þótt það hafi verið lausar brautir í lauginni. Hann hafi synt framhjá stúlkunum og snert rassinn á þeim oftar en einu sinni. Vitnið kvað manninn hafa snert á henni rassinn með hendinni fjórum sinnum og hún hafi sjálf séð þegar hann snerti rassinn á frænku sinni og F. Hún hafi sjálf verið í bikiníi og hefði maðurinn snert hana utan klæða. Aðspurð kvað vitnið sér hafa liðið mjög illa meðan á þessu stóð.

Vitnið kvað stúlkurnar hafa fært sig frá manninum en hann hefði teygt sig til þess að snerta þær. Þegar þær hafi farið inn, hafi maðurinn farið í pottinn en henni hefði virst sem maðurinn væri þarna með dökkhærðum manni sem var með litla, dökkhærða stúlku með sér.

Að lokum hefðu stúlkurnar sagt konunni í sundlauginni frá manninum og hún hefði kallað til lögreglu, sem hefði síðan tekið manninn eftir að stúlkurnar höfðu bent á hann. Maðurinn væri pólskur og yfir þrítugt, með bogið nef, íklæddur blárri eða svartri sundskýlu og með sundgleraugu.

Vitnið kvaðst ekki hafa séð manninn snerta sundskýluna sína en sagði eina stúlkuna hafa sagt að maðurinn hefði lagað á sér sundskýluna. 

Vitnið F kvað þær hafa verið tíu saman í sundlauginni á sunnudeginum og hefðu þær leikið sér í handstöðukeppni. Maðurinn, sem var að synda, hefði þá strokið rass hennar fjórum sinnum auk þess sem hann hefði einu sinni strokið á þeim G pjölluna. Það hafi gerst þannig að þær hefðu snúið sér við um leið og hann strauk á þeim rassinn, og þá hefði hann strokið á þeim pjölluna. Í fyrstu hefðu stúlkurnar haldið að maðurinn hefði einungis rekist í þær, en þær hefðu skipt um skoðun þegar hann gerði þetta aftur og aftur. Stúlkurnar hefðu fært sig fjær manninum en hann hefði þá fært sig nær þeim. Allar brautirnar í lauginni hafi verið lausar þegar þetta var. Vitnið kvaðst hafa sagt manninum að hætta þessu en hann hafi ekkert skilið eða þóst ekki skilja. Þá kvaðst vitnið hafa séð manninn taka typpið úr buxunum einu sinni og hafi hann verið eitthvað að laga sig. Vitnið kvaðst aðspurð hafa verið dálítið hrædd þegar þetta gerðist en sér liði vel núna.

Maðurinn hefði verið í sundi með vini sínum á sunnudeginum og með þeim hefði verið um það bil fimm ára dóttir vinarins.

Vitnið E kvaðst hafa verið í sundi með vinkonum sínum, þeim F, G, D, I, I og C. Þær hafi verið að leika sér í handstöðukeppni og þá hefði maður synt fram og til baka framhjá þeim. Hann hafi káfað oft á rassinum á þeim og klipið þær í rassinn, alltaf fastar og fastar, og farið með höndina neðar á rassinn. Á sunnudeginum hefði maðurinn oftast komið við hinar stúlkurnar og mest við þær J og G. Þá hafi F sagt manninn hafa komið við pjölluna á sér. Vitnið kvaðst í fyrstu hafa haldið að maðurinn hefði óvart rekist í þær en síðan hefði hún skipt um skoðun þegar þær F og C töluðu um að hann væri ekki að ýta þeim í burtu heldur að káfa á þeim.

F hefði reynt að tala við manninn og sagt honum að hætta þessu en hann hefði ekkert skilið og því hefðu stúlkurnar farið yfir í heita pottinn. Síðan hefðu þær farið aftur í laugina og þá hefðu þær vitnið og F séð að maðurinn reyndi að girða niður um sig og þá hafi hann fiktað í typpinu á sér, togað það upp úr sundskýlunni og haldið á því. Taldi vitnið þetta þó hafa gerst á föstudeginum.

Vitnið lýsti manninum þannig að hann hefði verið feitur og ljótur með grátt hár og verið í pínulítilli, svartri sundskýlu. Maðurinn sem lögreglan hafði afskipti af á sunnudeginum, hefði verið sami maðurinn og káfaði á vitninu og vinkonum hennar á föstudeginum.

Aðspurð um líðan sína, þegar þetta gerðist, kvað vitnið sér ekki hafa liðið mjög vel og hugsað með sér að maðurinn ætti ekki að gera þetta. Þá liði henni ekki vel núna því það viti svo margir hverjar stúlkurnar eru sem lentu í þessu.

Vitnið D kvað þær vinkonurnar hafa verið margar saman í sundlauginni á sunnudeginum. Maðurinn hefði ekkert gert við hana þann dag en hins vegar hefði hún séð hann snerta hinar stelpurnar, „fara í rassinn á þeim og svona“. Þetta hefði verið sami maðurinn og kom við þær á föstudeginum. Þær vinkonurnar hafi í fyrstu haldið að maðurinn væri blindur og hefði einungis ýtt þeim frá þar sem hann var að synda, en þegar hann hafi gert þetta aftur og aftur hafi þær farið úr lauginni og í heita pottinn. Vitnið kvað F hafa séð þegar maðurinn tók typpið út úr sundskýlunni og hristi það á meðan hann var að synda. F hafi séð þetta þegar hún var að kafa og þá hefðu einhverjar fleiri stúlkur séð þetta líka. Vitnið kvað þær stúlkurnar hafa kvartað yfir manninum við starfsmenn sundlaugarinnar og að lokum hefði verið hringt í lögregluna sem kom á staðinn og talaði við manninn og stúlkurnar. Maðurinn hefði verið með einhverjum í sundlauginni og með þeim hefði verið fimm til átta ára barn.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.

Ákærði neitar sök. Hann kannaðist við að hafa verið í sundlauginni sunnudaginn 24. febrúar sl. Hann hafi synt fram og til baka í lauginni en stúlkurnar hafi þá staðið á höndum og kafað fyrir framan hann. Þær hafi synt í átt til ákærða og kafað í veg fyrir hann. Telur ákærði að verið geti að hann hafi snert handleggi stúlknanna óvart þegar þær köfuðu undir hann og þá sé mögulegt að hann hafi snert óvart rass og bak stúlknanna en það hafi alls ekki verið um kynferðislega snertingu að ræða.

Aðspurður um það hvers vegna hann synti á brautinni sem stúlkurnar voru á, kvaðst ákærði synda þar sem væri pláss fyrir hann. Hann hafi hins vegar fært sig fjær þegar stúlkurnar komu. Kvað ákærði fólk hafa verið á öllum brautum.

Ákærði neitaði því að hafa fróað sér í lauginni umrætt sinn og kvað heldur ekki rétt að hann hafi fiktað í sér. Tók ákærði sérstaklega fram að hann væri ekki barnaníðingur.   

Ákærði kvaðst stundum hafa farið einn í sund en hann færi einnig stundum með vinum sínum, t.d. Marian, og væri sex til sjö ára dóttir Marians stundum með í för.

Vitnið Marian Bouguslaw Dziedziak, vinur ákærða, kvaðst hafa verið í sundi með ákærða 24. febrúar sl. um kl. 15:00 eða 16:00 og þá hefði sex ára dóttir vitnisins verið með í för. Kvaðst vitnið ekki hafa orðið var við að ákærði stryki stúlkum eða væri í kringum stúlkur ofan í sundlauginni. Hann hefði séð stúlkur að leik sem hefðu synt í kringum ákærða. Þær hefðu sagt eitthvað við vitnið og ákærða en hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því sem þær sögðu.

Vitnið Jón Róbert Newman sundlaugarvörður kvaðst hafa verið við störf umrætt sinn. Sigríður sundlaugarvörður hafi sagt honum frá kvörtun stúlknanna vegna manns í lauginni og sagt að það ætti að fylgjast með honum. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa fylgst með manninum úr turninum og séð hvar nokkrar stúlkur voru að flissa við heita pottinn sem maðurinn var í. Kvaðst hann þá hafa farið að bakkanum og talað við þær og þær þá sagt að maðurinn hefði ónáðað þær og ein þeirra hefði sagt að hann hefði sett höndina í klofið á henni eða strokið henni yfir rassinn. Í kjölfarið hefði Sigríður kallað til lögreglu. Lögreglan hefði síðan handtekið manninn sem stúlkurnar bentu á.

Vitnið kvaðst ekki hafa séð manninn áreita stúlkurnar en hann hefði séð hann laga sundskýluna með því að toga í hana en hann hefði ekki verið með höndina innan í skýlunni. Þá kvaðst vitnið aðspurður ekki hafa séð manninn taka út á sér getnaðarliminn.

Vitnið Sigurður Valgeirsson sundlaugarvörður kvaðst hafa verið að störfum í sundlauginni umræddan sunnudag. Hann hafi verið í svonefndum Vatnagarði þegar hann var kallaður upp í talstöð vegna atviks við útilaug. Hefði hann frétt að málið snerist um stúlknahóp og sundlaugargest. Kvaðst vitnið vita hver maðurinn var því hann hefði oft séð hann áður í lauginni. Vitnið hefði ekki fylgst með manninum þegar þetta gerðist en hafði áður séð hann synda í almenningnum og þá ekki tekið eftir neinu óvenjulegu. Vinur ákærða hefði verið í vaðlauginni á meðan. Aðspurður kvað vitnið fólk oft synda í almenningnum en þeir sem væru að synda „með átökum“ syntu frekar á brautunum.

Vitnið Sigríður Sigurðardóttir sundlaugarvörður kvaðst hafa verið á vakt í sundlauginni umræddan sunnudag. Hún kvað nokkrar stúlkur hafa komið til sín og sagt að úti í laug væri karlmaður sem káfaði á rassinum á þeim. Vitnið hefði sagt þeim að láta sem ekkert væri en hún myndi athuga málið. Síðan hefði hún haft samband við samstarfsmenn sína og sagt þeim frá málinu. Vitnið kvað brautirnar í sundlauginni hafa verið mannlausar umrætt sinn og því hafi henni þótt skrýtið að maðurinn synti í almenningnum þar sem börnin léku sér. Hún kvaðst síðan hafa fylgst með ákærða eftir að stúlkurnar kvörtuðu yfir manninum og hefði hún séð ákærða synda fram og til baka en hins vegar ekki séð neitt athugavert gerast. Þegar ein stúlkan hefði talað um að maðurinn hefði farið undir sig, hefði vitnið talið rétt að gera lögreglu viðvart.

Vitnið kvað manninn hafa rætt við annan mann sem var með dóttur sinni í lauginni.

Vitnið O móðir E sagði í símaskýrslu sinni við aðalmeðferð málsins að E hefði verið í sundi bæði á föstudeginum og sunnudeginum þegar ákærði var handtekinn. Stúlkan hefði farið í sund með vinkonum sínum nánast á hverjum degi og væri því skiljanlegt að hún ruglaðist á þessum tveimur tilvikum enda um að ræða sama mann á sama stað.

Niðurstaða.

Fyrir liggur og er ágreiningslaust að umrætt sinn var ákærði í sundmiðstöð Keflavíkur og var handtekinn þar. Er einnig ljóst af vætti framangreindra stúlkna og sundlaugarvarða að þar var um að ræða sama mann og stúlkurnar sögðu hafa strokið þeim um rassinn utan klæða og snert kynfæri á tveimur þeirra utanklæða. Þá báru þær C, D, J og F kennsl á ákærða við sakbendingu.

Vætti stúlknanna um atvik málsins er mjög á sama veg allt frá upphafi. Þær hafa lýst því að maður hafi strokið þeim um rassinn en vitnin Jón Róbert og Sigríður sundlaugarverðir sögðu stúlkurnar hafa kvartað yfir því að maður í sundlauginni káfaði á rassinum á þeim.  Þær G og F hafa einnig lýst því að ákærði hafi strokið á þeim kynfærin. Er vætti stúlknanna einnig í öllum aðalatriðum á sama veg og lýsingar foreldra þeirra í kæruskýrslum á frásögnum þeirra. Ákærði kannaðist við það hér fyrir dóminum að verið gæti að hann hefði snert stúlkurnar óvart þegar hann ýtti þeim frá sér í sundlauginni umrætt sinn. Hann kvaðst hafa fært sig fjær stúlkunum en sá framburður er í andstöðu við vætti stúlknanna um að hann hafi fært sig nær þeim. Þá samrýmist framburður ákærða, um að fólk hafi verið á öllum brautum og hann hafi synt á þeim brautum þar sem pláss var fyrir hann, ekki vætti þeirra Sigríðar sundlaugarvarðar og stúlknanna H, J og F um að ákærði hafi synt í almenningnum þótt allar aðrar brautir laugarinnar hafi verið mannlausar. Þegar litið er til framangreinds er það mat dómsins að ekkert sé fram komið sem rýri trúverðugleika vættis framangreindra stúlkna, sem fær að nokkru stoð í skýrslum annarra vitna. Samkvæmt lýsingum stúlknanna endurtók ákærði háttsemi sína oftsinnis og teygði sig til þeirra og kom sífellt nær þeim þótt þær færðu sig fjær. Í ljósi þessa verður að telja útilokað að snertingar ákærða, sem hann hefur kannast við að hafi verið einhverjar, hafi verið óvart og af slysni. Að mati dómsins er framburður ákærða ótrúverðugur. Er það því niðurstaða dómsins að ákærði hafi gerst sekur um að hafa snert stúlkurnar með þeim hætti sem í 4. tölulið ákæru greinir og er háttsemi ákærða þar rétt færð til refsiákvæða. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er.

Vitnin F, E og D hafa borið að ákærði hafi fiktað í typpinu á sér og tekið það upp úr sundskýlunni og haldið á því. Lýsing þeirra er á sama veg og er það mat dómsins að hún sé trúverðug. Verður ekki talið að frávik í frásögn vitnisins E um að þetta hafi átt sér stað á föstudeginum varpi rýrð á frásögnina. Í ljósi lýsingar stúlknanna þykir hins vegar ekki, gegn eindreginni neitun ákærða, komin fram fullnægjandi sönnun fyrir því að ákærði hafi fróað sér í pottinum. Aftur á móti telst sannað að hann hafi berað kynfæri sín í sundlauginni og tekið þau upp úr sundskýlunni umrætt sinn að framangreindum stúlkum viðstöddum. Var háttsemi ákærða til þess fallin að særa blygðunarsemi þeirra og þykir háttsemin rétt færð til refsiákvæða í ákæru. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er í 5. tölulið ákærunnar eins og henni var breytt með framhaldsákæru.

V.

Ákvörðun refsingar.

Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir að hafa í febrúar sl. ítrekað brotið gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og einu sinni brotið gegn 209. gr. sömu laga. Beindust brot hans gegn átta stúlkum og voru sjö þeirra á tólfta aldursári en ein var nýlega orðin fullra tólf ára. Við ákvörðun refsingar ákærða verður jafnframt að líta til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar eins og nánar greinir í dómsorði.

Bótakröfur.

Af hálfu R fyrir hönd ólögráða dóttur hennar G hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 150.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá er vísað til þess að brot ákærða hafi verið nokkuð alvarlegt þar sem það beindist gegn ungri stúlku og til afleiðinga brots ákærða. Brotaþoli sé á viðkvæmum aldri og kynferðisbrot geti haft mjög neikvæð áhrif á mótun stúlkunnar sem persónu.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið brotaþola miska og verður hann því með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu S fyrir hönd ólögráða dóttur hennar H hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 600.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að brotaþoli kynferðisbrots verði ávallt fyrir miskatjóni en brot ákærða í þessu máli sé alvarlegt auk þess sem líta verði til hins mikla aldursmunar sem er á ákærða og brotaþola. Þá sé brot ákærða til þess fallið að valda brotaþola andlegum miska.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið brotaþola miska og verður hann því með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu M fyrir hönd ólögráða dóttur hennar C hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. febrúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að við kynferðisbrot verði brotaþoli alltaf fyrir miskatjóni en ljóst sé að umræddur atburður hafi haft áhrif á brotaþola. Telja verði líkur á því að háttsemi ákærða muni hafa áhrif á líf hennar og traust til þeirra sem hún hefur samskipti við. Brotaþoli hafi einungis verið 11 ára þegar brot ákærða var framið sem hafi verið til þess fallið að valda brotaþola óþægindum og ótta.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið brotaþola miska og verður hann því með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu O fyrir hönd ólögráða dóttur hennar E hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. febrúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að við kynferðisbrot séu almennt til þess fallin að valda miskatjóni. Þá er byggt á því að brot ákærða hafi verið nokkuð alvarlegt þar sem það beindist gegn ungri stúlku en ákærði er mun eldri en hún. Loks er byggt á afleiðingum tjónsins. Brotaþoli sé ung að árum og henni hafi ekki liðið vel vegna þessa og í fyrstu verið hrædd. Brotaþoli sé á viðkvæmum aldri og kynferðisbrot geti haft mjög neikvæð áhrif á mótun brotaþola sem persónu.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið brotaþola miska og verður hann því með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu L fyrir hönd ólögráða dóttur hennar A hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. janúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að brotaþoli var aðeins tíu ára þegar brot ákærða var framið og telja verði líkur á því að brot ákærða muni hafa áhrif á líf hennar og traust til þeirra sem hún hefur samskipti við.

Með hliðsjón af því að ákærði hefur verið sýknaður af ætluðum brotum gegn brotaþola ber samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 að vísa bótakröfu hennar frá dómi.

Af hálfu K fyrir hönd ólögráða dóttur hennar B hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. janúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að við kynferðisbrot séu almennt til þess fallin að valda miskatjóni. Þá er byggt á því að brot ákærða hafi verið nokkuð alvarlegt þar sem það beindist gegn ungri stúlku en ákærði er mun eldri en hún. Loks er byggt á afleiðingum tjónsins. Brotaþoli sé ung að árum og hún hafi lýst því að hún hafi verið hrædd og þá hefur móðir hennar lýst breytingum á brotaþola eftir atburðinn. Brotaþoli sé á viðkvæmum aldri og kynferðisbrot geti haft mjög neikvæð áhrif á mótun brotaþola sem persónu.

Með hliðsjón af því að ákærði hefur verið sýknaður af ætluðum brotum gegn brotaþola ber samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 að vísa bótakröfu hennar frá dómi.

Af hálfu P fyrir hönd ólögráða dóttur hans F hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. janúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að við kynferðisbrot séu almennt til þess fallin að valda miskatjóni. Þá er byggt á því að brot ákærða hafi verið nokkuð alvarlegt þar sem það beindist gegn ungri stúlku en ákærði er mun eldri en hún. Loks er byggt á afleiðingum tjónsins. Brotaþoli sé ung að árum og hún hafi lýst því að hún hafi verið hrædd í fyrstu en reyni nú að hugsa ekki mikið um þetta. Brotaþoli sé á viðkvæmum aldri og kynferðisbrot geti haft mjög neikvæð áhrif á mótun brotaþola sem persónu.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið brotaþola miska og verður hann því með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu N fyrir hönd ólögráða dóttur hennar D hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 600.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. febrúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að brotaþoli kynferðisbrots verði ávallt fyrir miskatjóni en brot ákærða í þessu máli sé alvarlegt auk þess sem líta verði til hins mikla aldursmunar sem er á ákærða og brotaþola. Svo virðist sem ásetningur ákærða hafi verið mikill til að fremja brot sitt sem sé til þess fallið að valda brotaþola andlegum miska.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið brotaþola miska og verður hann því með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu W fyrir hönd ólögráða dóttur hans J hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að við kynferðisbrot verði brotaþoli alltaf fyrir miskatjóni en í þessu máli sé um að ræða kynferðisbrot gegn 11 ára stúlku. Ljóst sé að umræddur atburður hafi haft áhrif á brotaþola og hafi hún tjáð sig um að henni hefði liðið mjög illa þegar þetta gerðist. Telja verði líkur á því að háttsemi ákærða muni hafa áhrif á líf hennar og traust til þeirra sem hún hefur samskipti við. Atferli ákærða hafi verið til þess fallið að valda brotaþola óþægindum og ótta.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið brotaþola miska og verður hann því með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu U fyrir hönd ólögráða dóttur hans I hefur verið gerð miskabótakrafa að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu.

Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er til þess að við kynferðisbrot verði brotaþoli alltaf fyrir miskatjóni en í þessu máli sé um að ræða kynferðisbrot gegn 11 ára stúlku. Ljóst sé að umræddur atburður hafi haft áhrif á brotaþola og hafi hún tjáð sig um að hún hafi orðið reið og pirruð þegar þetta gerðist. Telja verði líkur á því að háttsemi ákærða muni hafa áhrif á líf hennar og traust til þeirra sem hún hefur samskipti við. Atferli ákærða hafi verið til þess fallið að valda brotaþola óþægindum og ótta.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið brotaþola miska og verður hann því með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Sakarkostnaður.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnar Steins Barðdal hdl., þykja að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðin 775.000 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna samkvæmt framansögðu hefur verið tekið tillit til starfa verjanda í þágu ákærða á rannsóknarstigi.

Réttargæsluþóknun Ásu Ólafsdóttur hrl. teljast hæfilega ákveðin 319.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, réttargæsluþóknun Feldísar Lilju Óskarsdóttur hdl. teljast hæfilega ákveðin 425.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts og réttargæsluþóknun Gunnhildar Pétursdóttur hdl. teljast hæfilega ákveðin 480.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Með vísan til ákvæða síðari málsliðar 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærða gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnars Steins Bjarndal hdl., að fjórum fimmtu hlutum, réttargæsluþóknun Ásu Ólafsdóttur hrl. að fullu en réttargæsluþóknun Feldísar Lilju Óskarsdóttur hdl. að þremur fjórðu hlutum og réttargæsluþóknun Gunnhildar Pétursdóttur hdl. að þremur fjórðu hlutum en að öðru leyti skulu þau greidd úr ríkissjóði. Þá verður ákærða gert að greiða 30.000 krónur í annan sakarkostnað. 

Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Arnfríður Einarsdóttir, sem dómsformaður, Gunnar Aðalsteinsson og Sandra Baldvinsdóttir.

Dómsorð:

Ákærði, Andrzej Miroslaw Ulkleja, sæti fangelsi í sex mánuði. Fresta skal fullnustu refesingarinnar og falli hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Skaðabótakröfum B og A er vísað frá dómi.

Ákærði greiði R fyrir hönd ólögráða dóttur hennar G 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði S fyrir hönd ólögráða dóttur hennar H 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 Ákærði greiði M fyrir hönd ólögráða dóttur hennar C 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði O fyrir hönd ólögráða dóttur hennar E 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði P fyrir hönd ólögráða dóttur hans F 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði N fyrir hönd ólögráða dóttur hennar D 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði W fyrir hönd ólögráða dóttur hans J 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði U fyrir hönd ólögráða dóttur hans I 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. febrúar 2008 til 15. júní sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal hdl., 775.000 krónur, að fjórum fimmtu hlutum og réttargæsluþóknun Ásu Ólafsdóttur hrl., 319.000, að fullu en réttargæsluþóknun Feldísar Lilju Óskarsdóttur hdl., að þremur fjórðu hlutum og réttargæsluþóknun Gunnhildar Pétursdóttur hdl. að þremur fjórðu hlutum en að öðru leyti skulu þau greidd úr ríkissjóði. Þá verður ákærða gert að greiða 30.000 krónur í annan sakarkostnað.