Hæstiréttur íslands
Mál nr. 246/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 246/2003. |
Prestssetrasjóður(Bjarni G. Björgvinsson hdl.) gegn Antoni Gunnarssyni og Jóhannesi Kristinssyni (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Málatilbúnaður P var ekki í samræmi við meginreglu 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran og ljósan málatilbúnað og varð ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 28. maí 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Prestssetrasjóður, greiði varnaraðilum, Antoni Gunnarssyni og Jóhannesi Kristinssyni, hvorum fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 28. maí 2003.
Málið er höfðað 27. nóvember 2002 og tekið til úrskurðar 30. apríl s.l.
Stefnandi er Prestssetrasjóður, [...], Laugavegi 31, Reykjavík.
Stefndu eru Anton Gunnarsson, [...], Deildarfelli, Vopnafirði og Jóhannes Kristinsson, [...], með lögheimili í Lúxemburg en dvalarstað að Hraunbæ 93, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að landskiki sá úr landi Hofs í Vopnafirði, sem Friðjón Gunnlaugsson stofnandi nýbýlisins Deildarfells (Deildarlækjar) í Vopnafirði, fékk til afnota úr landi prestssetursjarðarinnar Hofs í Vopnafirði við stofnun nýbýlisins árið 1955 ásamt þeim réttindum sem því landi fylgja, sé hluti Hofsjarðarinnar og hafi þar af leiðandi ekki getað fylgt með sem hluti jarðarinnar Deildarfells við sölu hennar samkvæmt kaupsamningi á milli stefndu Antons og Jóhannesar sem gerður var þann 20. febrúar 2001 og valdi því vanheimild stefnda Antons til þess að ráðstafa þeim fasteignaréttindum sem landskikanum tengjast.
Að viðurkennt verði með dómi að landamerki Hofs við Deildarfell skuli vera þau sömu og voru landamerki Hofs við Fell í Vopnafirði á sama landsvæði fyrir stofnun Deildarfells árið 1955.
Jafnframt verði viðurkennt með dómi að fallið hafi niður við sölu Deildarfells þann 20. febrúar 2001 óskráður leigusamningur/afnotasamningur stefnanda og stefnda Antons um sama landskika.
Þá er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að hlutdeild stefnanda í Veiðifélagi Hofsár og arður af Hofsá, að því er umþrættan landskika varðar, skuli metinn hlutfallslega þannig að réttindi þau er landskikinn veitir í veiðifélaginu skuli falla að nýju til jarðarinnar Hofs miðað við þann 20. febrúar 2001 og aukinn arður þeirrar jarðar vegna landskikans skuli reiknast frá dagsetningu kaupsamnings stefndu um jörðina. Stefnda Jóhannesi verði gert að skila stefnanda þeim arðshlut af heildarhlut Deildarfells í Veiðifélagi Hofsár sem nemur hlutdeild landskikans í heildararði jarðarinnar frá 20. febrúar 2001 til greiðsludags ásamt dráttarvöxtum.
Krafist er málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast þeir þess að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
I
Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að árið 1955 hafi Friðjón Gunnlaugsson frá Felli í Vopnafirði stofnað nýbýlið Deildarfell út úr jörðinni Felli. Með munnlegu samkomulagi við Hofsklerk hafi hann fengið til afnota fyrir nýbýlið sneið af Hofslandi að fyrri landamerkjum Fells á mörkum jarðanna Fells og Hofs, eins og þau voru fyrir stofnun nýbýlisins, allt að svonefndum Deildarlæk, sem rennur í Hofsá í Stekkjarnesi. Áður en Friðjón hafi selt stefnda Antoni jörðina á árinu 1981 hafi hann haft samband við séra Sigfús J. Árnason sóknarprest og ábúanda á Hofi en hann hafi ekki gert kröfu um að landið yrði skilið frá Deildarfelli við söluna og fellt að nýju undir Hofsland þar sem nýta ætti landið til landbúnaðar eins og áður. Í framhaldinu hafi prófasturinn haft samband við Sigmar Torfason prófast í Múlaprófastsdæmi og Þorleif Pálsson þáverandi starfsmann í Kirkjumálaráðuneytinu og óskað eftir því að gerður yrði skriflegur samningur um landskikann, þar sem ekkert skriflegt fyndist um rétt Deildarfellsbóndans til hans. Ári síðar hafi fyrrnefndir Þorleifur Pálsson og Sigmar Torfason, auk þeirra Stefáns Helgasonar sem lengi hafði búið að Hofi, stefnda Antons og séra Sigfúsar J. Árnasonar ábúanda á Hofi, gengið á leigulandið og skráð mörk þess sem verið hafi ágreiningslaus. Að lokinni vettvangsgöngu hafi verið rætt um að kirkjumálaráðuneytið gengi frá samningi um not Deildarfellsbónda af landinu en af því hafi aldrei orðið.
Deildarfellsbændur hafi haft afnot landsins án þess að greiða fyrir það leigu. Þá hafi þeir notið arðs frá veiðifélagi Hofsár af hlutdeild landskikans í laxveiðihlunnindum vegna Hofsár. Meðan Friðjón hafi búið að Deildarfelli hafi landið einungis verið nytjað til beitar og ekki verið girt eða ræst fram. Þegar stefndi Anton hafi tekið við jörðinni hafi hann girt hluta landsins og ræktaði tún á hluta þess.
Í febrúar 2001 hafi stefndi Anton selt stefnda Jóhannesi jarðirnar Deildarfell og Borgir. Afsal hafi verið gefið út í maímánuði 2001. Stefnanda hafi borist upplýsingar um söluna eftir á og að samkvæmt kaupsamningi hafi leigulandið frá Hofi verið selt með Deildarfellinu. Stefndi Anton hafi þannig selt land sem hann átti ekki en stefnda Antoni hafi mátt vera ljóst, ekki síst eftir vettvangsgönguna árið 1982, að umrædd landspilda tilheyrði ekki Deildarfelli. Þá hafi umsögn jarðanefndar Norður-Múlasýslu vegan sölu jarðanna gefið bæði kaupanda og seljanda sérstaka ástæðu til þess að athuga eignarheimildir að landskikanum. Vegna vanheimildar stefnda Antons beri stefnanda nauðsyn til að sala hins umrædda landskika verði dæmd ógild og hann fái dóm til viðurkenningar á rétti sínum til umrædds lands en stefndi Jóhannes hafi neitað að skila landinu.
II
Stefnandi byggir á að stefndi Anton verði að svara til vanheimildar fyrir því að hafa heimildarlaust selt landspildu þá úr landi Hofs í Vopnafirði sem hann hafði til afnota og stefndi Jóhannes verði að þola það að landspildan verði færð undan umráðum Deildarfells frá og með kaupsamningsdegi. Samkvæmt bréfabók sóknarprestsins á Hofi komi skýrt fram að umrædd spilda úr landi jarðarinnar Hofs hafi aldrei verið seld, eða lögð á annan hátt til jarðarinnar Deildarfells þannig að eignarréttur eða hefðarréttur hafi skapast að spildunni. Landspildan hafi verið seld ábúanda Deildarfells til leigu/afnota árið 1955, þótt aldrei hafi verið gengið frá skriflegum leigu- eða afnotasamningi og aldrei hafi verið greidd leiga fyrir hana. Stefnda Antoni hafi verið fullljóst er hann seldi stefnda Jóhannesi Deildarfell að landspildan tilheyrði ekki jörðinni enda hafi hann verið viðstaddur vettvangsgönguna 1982 sem fram fór til að skoða og skrá landamerki landspildu þeirrar;” sem leigð er úr landi prestsetursins Hofs”. Til frekari rökstuðnings vitnar stefnandi til bréfabókar sóknarpresta á Hofi vegan nýbýlismálsins og rekur bréfaskriftir vegna þess.
Stefnandi byggir á að ljóst sé að landspildan sé og hafi verið hluti Hofsjarðarinnar, þótt Deildarfell hafi haft afnot hennar frá árinu 1955. Skýr landamerkjalýsing liggi fyrir við stofnun Deildarfells og árið 1982 hafi hún verið áréttuð og hafi seljandi jarðarinnar, stefndi Anton, verið viðstaddur þá vettvangsgöngu sem landamerkjalýsingin frá 1982 byggi á og hafi verið ágreiningslaus. Þá hafi stefnda Antoni vegna forsögu málsins mátt vera ljóst að landspildan tilheyrði ekki Deildarfelli. Þá hafi stefndu báðum mátt vera ljóst, vegna umsagnar jarðanefndar Norður-Múlasýslu dags. 25. maí 2001 um kaupsamninginn, að nefndin taldi eignarrétt Deildarfells að landskikanum ekki ótvíræðan. Hafi umsögnin gefið aðilum fullt tilefni til þess að leita upplýsinga um réttarstöðu landskikans hjá eiganda Hofs fyrir söluna.
III
Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að þó að kröfur stefnanda varði m.a. viðurkenningu á því að tiltekinn hluti Deildarfells tilheyri nú jörðinni Hofi láti stefnandi hjá líða að lýsa nákvæmlega afmörkun á því landi sem hann krefjist nú skyndilega að falli undir Hof, með tilvísun til kennileita og staðhátta. Þá sé ekki lagður fyrir dóminn uppdráttur, né nokkur göng um það við hvaða “landskika” krafa stefnanda sé miðuð. Sama eigi við um kröfu stefnanda um landamerki Hofs við Deildarfell. Sú krafa sé ekki heldur studd tilvísun til kennileita eða landfræðilegra aðstæðna, né uppdrætti með innfærðum kröfulínum. Þá sé krafa stefnanda um að dómurinn viðurkenni brottfall á óskráðum leigusamningi/afnotasamningi stefnanda og stefnda Antons órökstudd og án tilvísunar til lagaákvæða eða sönnunargagna um samband málsaðila varðandi umþrætt land og réttindi. Hvað varði kröfu stefnda um aukna arðshlutdeild Hofs og um endurgreiðslu á arðshlut, sé bent á að það sé hlutverk matsnefnda að ákveða arðshlutdeild jarða og hugsanlegar breytingar á þeim. Þá sé ekki krafist ákveðinnar krónutölu úr hendi stefnda Jóhannesar, heldur aðeins að honum verði með dómi “gert að skila stefnanda þeim arðshlut af heildarhlut Deildarfells .. sem nemur hlutdeild landskikans í heildararði jarðarinnar frá 20. febrúar 2001 til greiðsludags.”
Byggja stefndu frávísunarkröfu sína á því að kröfugerð stefnanda í málinu sé óljós og málið í heild mjög vanreifað. Kröfur stefnanda séu allar ódómhæfar eins og þær séu settar fram í stefnunni þar sem stefnandi sé í raun að krefja dóminn um lögfræðilega álitsgerð um réttarstöðu fyrirsvarsaðila Hofsjarðarinnar og um möguleika á því að endurheimta á ný það land sem látið var til nýbýlisstofnunarinnar fyrir tæplega 50 árum. Því beri með vísan til 80. gr. laga um meðferð einkamála að vísa málinu frá dómi.
IV
Mál þetta varðar landskika úr landi jarðarinnar Hofs í Vopnafirði sem Friðjón Gunnlaugsson stofnandi nýbýlisins Deildarfells fékk úr landi Hofs við stofnun þess árið 1955. Gerir stefnandi þá dómkröfu að viðurkennt verði að landskikinn, sem hann kveður Friðjón hafa fengið til afnota, ásamt þeim réttindum sem honum fylgja, sé hluti Hofsjarðarinnar. Landskikanum er þannig lýst í stefnu að um sé að ræða sneið af Hofslandi að fyrri landamerkjum Fells á mörkum jarðanna Fells og Hofs, eins og þau voru fyrir stofnun Deildarfells, allt að svonefndum Deildarlæk, sem rennur í Hofsá í Stekkjarnesi. Í stefnu er ekki að finna lýsingu á því hver landamerki Fells og Hofs voru fyrir stofnun Deildarfells og við uppdrátt er ekki að styðjast. Skortir þannig lýsingu á hver mörk hins umdeilda lands eru að því leyti. Þá er lýsing á mörkum landsins ekki í samræmi lýsingu þá sem skráð var við vettvangsgöngu árið 1982 og stefnandi byggir á að hafi verið óumdeild. Lýsing á mörkum landsins er þannig ófullnægjandi og stærð þess er ekki tilgreind.
Stefnandi krefst þess einnig að viðurkennt verði að landamerki Hofs við Deildarfell skuli vera þau sömu og voru landamerki Hofs við Fell í Vopnafirði fyrir stofnun Deildarfells árið 1955. Eins og áður greinir er engin lýsing á því í stefnu hver landamerki Hofs og Fells voru fyrir stofnun Deildarfells. Skortir þannig í stefnu lýsingu á þeim landamerkjum sem viðurkenningar er krafist á.
Þá krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að óskráður leigusamningur/afnotasamningur stefnanda og stefnda Antons um landskikann hafi fallið niður við sölu Deildarfells 20. febrúar 2001. Í stefnu kemur fram að aldrei hafi verið gengið frá skriflegum gerningi vegna landsins og aldrei hafi verið greidd leiga fyrir afnot þess. Engin lýsing er hins vegar í stefnu á efni samningsins.
Loks er þess krafist að viðurkennt verði að hlutdeild stefnanda í Veiðifélagi Hofsár og arður af Hofsá, að því er umþrættan landskika varðar, skuli metinn hlutfallslega þannig að réttindi þau er landskikinn veitir í veiðifélaginu skuli falla að nýju til jarðarinnar Hofs miðað við þann 20. febrúar 2001 og aukinn arður þeirrar jarðar vegna landskikans skuli reiknast frá dagsetningu kaupsamnings stefndu um jörðina. Stefnda Jóhannesi verði gert að skila stefnanda þeim arðshlut af heildarhlut Deildarfells í Veiðifélagi Hofsár sem nemur hlutdeild landskikans í heildararði jarðarinnar frá 20. febrúar 2001 til greiðsludags ásamt dráttarvöxtum. Engin grein er gerð fyrir þessari dómkröfu í stefnu utan þess að þar kemur fram að Deildarfellsbændur hafi notið arðs frá veiðifélagi Hofsár af hlutdeild landskikans í laxveiðihlunnindum vegna Hofsár. Þá er krafan ekki reiknislega útfærð.
Það sem hér hefur verið rakið þykir sýna að málatilbúnaður stefnanda er ekki í samræmi við meginreglu 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og ljósan málatilbúnað. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 60.000 krónur handa hvorum fyrir sig.
Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Prestssetrasjóður, greiði stefndu, Antoni Gunnarssyni og Jóhannesi Kristinssyni, hvorum fyrir sig 60.000 krónur í málskostnað.