Hæstiréttur íslands
Mál nr. 764/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
|
|
Fimmtudaginn 12. desember 2013. |
|
Nr. 764/2013. |
Gunnar Árnason (sjálfur) gegn Arion banka hf. (Karl Óttar Pétursson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var fjárnám sem gert var vegna skuldar samkvæmt skuldabréfi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2013, þar sem staðfest var fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila 23. nóvember 2012. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að „felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að ljúka gerðinni með árangurslausu fjárnámi“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Gunnar Árnason, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2013.
Mál þetta var þingfest 22. febrúar 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 16. október sl. Sóknaraðili er Gunnar Árnason, Naustabryggju 36, Reykjavík, en varnaraðili er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 23. nóvember 2012, í aðfararmáli nr. 011-2012-02294 um að ljúka gerðinni með árangurslausu fjárnámi hjá sóknaraðila. Sóknaraðili krefst þess einnig að ,,verða sýknaður af öllum kröfum varnaraðila í máli þessu“. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að aðfarargerð Sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2012-02294, dags. 23. nóvember 2012, þar sem fjárnámi varnaraðila hjá sóknaraðila var lokið án árangurs, verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I
Þann 21. maí 2010 gaf sóknaraðili út skuldabréf til varnaraðila að fjárhæð 2.015.000 krónur. Skuldabréfið ber númerið 0351-35-11827. Skuldabréfið bar vexti samkvæmt skilmálum þess, samtals 7,5%. Skuldin skyldi jafnframt vera bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Skuldabréfið var gefið út til fimm ára og skildu gjalddagar vera mánaðarlega, 60 talsins. Gjalddagi fyrstu afborgunar skyldi vera 1. júlí 2010.
Í 4. tölulið skilmála skuldabréfsins kemur fram að við vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta/vísistöluálags af hálfu sóknaraðila sé heimilt að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar. Beri þá að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð. Sama gildi verði bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta eða ef hann leitar nauðasamninga. Samkvæmt 7. tölulið skilmálanna má gera aðför hjá skuldara til fullnustu skuldarinnar án undangengins dóms eða réttarsáttar þegar skuldin er öll fallin í gjalddaga.
Í apríl 2010, í aðdraganda þess að skuldabréf nr. 0351-35-11827 var gefið út, gerði sóknaraðili munnlegt samkomulag við varnaraðila um að kæmi til vanskila vegna skuldabréfsins yrði skuldin ekki sett í lögfræðiinnheimtu og sóknaraðila yrði boðið að skilmálabreyta skuldabréfinu. Við þá skilmálabreytingu skyldi hafa upphaflega skilmála skuldabréfsins varðandi endurgreiðslutíma til hliðsjónar.
Sóknaraðili greiddi engar afborganir af skuldabréfinu frá útgáfu þess. Í samræmi við framangreint samkomulag var honum boðið að skilmálabreyta skuldabréfinu og undirritaði hann skilmálabreytingu 1. júlí 2011. Í skilmálabreytingunni kemur fram að eftirstöðvar skuldarinnar nemi 2.261.438 krónum, en þar af voru vanskil 593.750 krónur. Nýir endurgreiðsluskilmálar skyldu vera þeir að vextir af nýjum höfuðstól reiknuðust frá 1. júní 2011 og gjalddagi fyrstu afborgunar skyldi vera 1. júlí 2011. Eins og með upphaflega skuldabréfinu skyldi bréfið vera til fimm ára og gjalddagar 60 mánaðarlega. Að öðru leyti skyldu ákvæði skuldabréfsins haldast óbreytt.
Sóknaraðili greiddi ekki afborganir samkvæmt nýjum endurgreiðsluskilmálum, að frátaldri greiðslu vegna skuldajafnaðar 13. september 2011 að fjárhæð 75.000 krónur. Skuld sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu var gjaldfelld og aðfarar krafist hjá honum, að undangenginni greiðsluáskorun, með beiðni 12. mars 2012. Var heildarstaða skuldarinnar þá 2.647.160 krónur.
Aðfarargerðin, sem fékk númerið 011-2012-02294, var tekin fyrir hjá Sýslumanninum í Reykjavík 4. júní 2012. Gerðinni var frestað nokkrum sinnum með samkomulagi aðila. Sóknaraðili greiddi tvær innborganir að fjárhæð 300.000 krónur og 250.000 krónur 13. september og 26. október 2012. Þann 23. nóvember 2012 var gerðinni lokið án árangurs.
II
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi á samningi aðila frá apríl 2010 um að honum yrði boðið að skilmálabreyta skuldabréfaláni sínu ef til vanskila kæmi. Óumdeilt sé að skilyrðin séu komin fram. Jafnframt sé óumdeilt að sóknaraðili hafi greitt inn á skuldabréfalánið að kröfu varnaraðila í tengslum við skilmálabreytingu lánsins. Varnaraðili hafi hins vegar ekki staðið við samning aðila um að skilmálabreyta láninu.
Sóknaraðili vísi til almennra reglna samningaréttarins og skuldbindingagildis loforða, reglna um stöðuumboð, afturköllun og tilkynningarskyldu hlutaðeigandi. Það sé óumdeilt að málsaðilar hafi gert með sér samning og að bankastjóri varnaraðila, á þeim tíma er samningurinn hafi verið gerður, hafi haft fullt umboð og stöðu til þess. Umræddur samningur aðila sé í fullu gildi. Bankastjóri varnaraðila hafi ekki gert neinar ráðstafanir er lúti að uppsögn eða niðurfellingu umrædds samnings aðila. Á meðan svo sé teljist samningur aðila frá apríl 2010 vera í fullu gildi. Varnaraðili hafi aldrei mótmælt tilvist og efni samningins. Sóknaraðili hafi ítrekað farið fram á það við varnaraðila að hann efni skyldur sínar samkvæmt samningnum. Ef varnaraðili hefði efnt skyldur sínar samkvæmt samningnum hefði ekki komið til þess að beiðni um fjárnám hjá sóknaraðila á grundvelli aðfararbeiðnar væri tekin fyrir hjá embætti sýslumanns. Mál þetta stafi því af vanefndum varnaraðila. Það sé jafnframt óumdeilt að sóknaraðili eigi lögvarinn rétt á því að varnaraðili efni samninginn samkvæmt orðanna hljóðan. Í því sambandi sé vísað til almennra reglna samningaréttarins og ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og sérákvæða um neytendavernd.
Með hliðsjón af því sem að framan greini mótmæli sóknaraðili öllum málsástæðum og dómkröfum varnaraðila og telji að fella beri úr gildi ákvörðun sýslumanns frá 23. nóvember 2012, í aðfararmáli nr. 011-2012-02294, og að sýkna beri hann af öllum kröfum varnaraðila.
Varðandi kröfu um málskostnað vísi sóknaraðili til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæða 21. kafla laganna. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og af þeirri ástæðu sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.
III
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að öll skilyrði laga nr. 90/1989 um aðför hafi verið uppfyllt er aðfarargerð nr. 011-2012-02294 hafi verið lokið án árangurs 23. nóvember 2012.
Mótmæli sóknaraðila við aðfarargerðinni virðist byggjast á því annars vegar að skilyrði 8. kafla laga nr. 90/1989 til að ljúka gerðinni með árangurslausu fjárnámi hafi ekki verið uppfyllt og hins vegar á því að varnaraðili hafi ekki efnt samkomulag aðila frá apríl 2010 um að sóknaraðila yrði boðið að skilmálabreyta skuldabréfaláni sínu ef til vanskila kæmi. Varnaraðili hafni öllum röksemdum sóknaraðila.
Varnaraðili telji að öll skilyrði 8. kafla laga nr. 90/1989 hafi verið uppfyllt til þess að hægt væri að ljúka fjárnámsgerðinni án árangurs við fyrirtöku hennar 23. nóvember 2012. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi mætt við fyrirtökuna og bent á fasteign sína að Naustabryggju 38, fastanúmer 227-2463, sbr. 39. gr. laga nr. 90/1989. Fulltrúi varnaraðila við gerðina hafi hins vegar hafnað ábendingunni, en hann hafi ekki talið fasteignina nægilega tryggingu fyrir kröfunni. Í kjölfarið hafi sýslumaður framkvæmt virðingu á eigninni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 38. gr. laga nr. 90/1989. Það hafi verið niðurstaða sýslumanns, að lokinni athugun á áhvílandi veðböndum og fasteignamatsverði eignarinnar, að hann teldi meiri líkur en minni á því að eignin myndi ekki tryggja kröfu varnaraðila þar sem hún hafi virst full veðsett. Sýslumanni hafi því verið heimilt að verða við kröfu varnaraðila um að ljúka fjárnáminu án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989, sbr. einkum 63. gr.
Varnaraðili telji sóknaraðila bera sönnunarbyrðina fyrir því að mat sýslumanns hafi verið rangt, en hann hafi ekki axlað þá sönnunarbyrði. Ekkert liggi fyrir um að sóknaraðili eigi aðrar eignir sem veitt geti varnaraðila nægilega tryggingu fyrir kröfu sinni.
Því sé alfarið hafnað að varnaraðili hafi vanefnt samkomulag aðila frá apríl 2010. Fráleitt sé að samkomulagið komi í veg fyrir að ljúka hefði mátt fjárnámi hjá sóknaraðila án árangurs. Varnaraðili telji sig hafa í einu og öllu efnt samkomulagið við sóknaraðila. Samkomulagið hafi falist í því að ef til vanskila kæmi á upphaflegum skilmálum skuldabréfsins myndi varnaraðili ekki gera reka að lögfræðiinnheimtu skuldabréfsins heldur bjóða sóknaraðila að skilmálabreyta skuldabréfinu. Vanskil hafi orðið á upphaflegum skilmálum skuldabréfsins. Varnaraðili hafi þá boðið sóknaraðila skilmálabreytingu. Sú skilmálabreyting hafi verið undirrituð af hálfu sóknaraðila 1. júlí 2011. Eðli málsins samkvæmt hafi ekki falist í samkomulaginu loforð um að skuld sóknaraðila við varnaraðila yrði aldrei innheimt, enda væri slíkt órökrétt af hálfu varnaraðila. Ekki sé hægt að draga slíkan skilning af orðalagi yfirlýsingar fyrrum bankastjóra varnaraðila frá 19. maí 2011. Í samkomulaginu hafi einungis falist loforð um tímabundna frestun á innheimtuaðgerðum ef til vanskila kæmi og að sóknaraðila yrði boðin skilmálabreyting. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að vanskil hafi orðið á greiðslu skuldabréfsins eftir skilmálabreytinguna sem varnaraðili hafi ráðist í frekari innheimtuaðgerðir. Varnaraðili telji innheimtuaðgerðir eftir skilmálabreytinguna ekki hafa brotið í bága við samkomulagið frá apríl 2010, enda hafi þá að öllu leyti verið staðið við samkomulagið af hans hálfu. Við efndir samkomulagsins hafi það fallið niður. Það sé því rangt sem haldið sé fram í greinargerð sóknaraðila að samkomulagið sé í fullu gildi.
Varnaraðili byggi jafnframt á því að sóknaraðili hafi viðurkennt í verki að samkomulag aðila sé fallið úr gildi, með tveimur greiðslum inn á skuld samkvæmt skuldabréfinu eftir að hún hafi verið send í löginnheimtu, en 13. september 2012 hafi hann greitt 300.000 krónur inn á skuldina og 26. október 2012 hafi hann greitt 250.000 krónur. Engin ástæða hafi verið fyrir sóknaraðila að greiða upp vanskilin ef hann teldi samkomulag aðila um frestun innheimtuaðgerða í fullu gildi.
Varnaraðili vísi til laga nr. 90/1989 um aðför, almennra reglna kröfuréttar og meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái meðal annars stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Varðandi málskostnaðarkröfu sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er aðilum að aðfarargerð heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því gerðinni var lokið. Þeirri aðfarargerð sem hér um ræðir lauk með árangurslausu fjárnámi 23. nóvember 2012 og var krafa sóknaraðila um úrlausn dómsins móttekin 15. janúar 2013.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar einkum á því að hann hafi gert samkomulag við varnaraðila um að skuldin skyldi ekki innheimt, en honum yrði boðið að skilmálabreyta skuldabréfinu. Óumdeilt er að munnlegt samkomulag var gert milli aðila málsins í apríl 2010. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing fyrrverandi bankastjóra varnaraðila frá 19. maí 2011. Kemur þar fram að í aprílmánuði 2010 hafi sóknaraðili handsalað samkomulag við hann í aðdraganda útgáfu skuldabréfsins nr. 0351-35-11827. Samkvæmt yfirlýsingunni fólst í samkomulaginu að kæmi til þess að vanskil yrðu á endurgreiðslu höfuðstóls og vaxta yrði ekki gerður frekari reki að lögfræðiinnheimtu skuldabréfsins af hálfu varnaraðila og sóknaraðila yrði boðið að skilmálabreyta skuldabréfinu. Ef skuldabréfinu yrði skilmálabreytt samkvæmt þessu skyldi hafa upphaflega skilmála þess varðandi endurgreiðslutíma til hliðsjónar.
Óumdeilt er að vanskil urðu á greiðslu afborgana samkvæmt skuldabréfi nr. 0351-35-11827 frá upphafi. Fyrir liggur að gerð var breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins sem undirrituð var 1. júlí 2011 og eru ákvæði hennar í samræmi við samkomulag aðila. Með þeirri skilmálabreytingu verður talið að varnaraðili hafi efnt framangreint samkomulag við sóknaraðila frá því í apríl 2010, en ekkert hefur komið fram um að sóknaraðila skyldi boðin fleiri en ein skilamálabreyting og ekki þykir hægt að túlka orðalag yfirlýsingar fyrrum bankastjóra varnaraðila með þeim hætti. Verður því fallist á það með varnaraðila að honum hafi verið heimilt að gjaldfella skuld sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu.
Sóknaraðili byggir kröfu sína jafnframt á því að skilyrði 8. kafla laga nr. 90/1989 hafi ekki verið uppfyllt svo ljúka mætti aðfarargerð nr. 011-2012-02294 með árangurslausu fjárnámi. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók Sýslumannsins í Reykjavík mætti sóknaraðili fimm sinnum vegna fyrirtöku á aðfararbeiðni sóknaraðila og einu sinni lögmaður af hans hálfu. Hann var sjálfur viðstaddur er aðfarargerðinni var lokið með árangurslausu fjárnámi 23. nóvember 2012. Samkvæmt gerðarbók sýslumanns benti sóknaraðili á fasteign sína að Naustabryggju 38 svo sem honum var heimilt. Varnaraðili hafnaði ábendingunni. Fulltrúi sýslumanns athugaði veðkröfur sem á fasteigninni hvíldu samkvæmt þinglýsingarbók. Samkvæmt henni hvíldu á eigninni þrjú veðskuldabréf sem voru samtals að höfuðstól mun hærri en fasteignamat eignarinnar. Var veðbókarvottorð prentað út því til stuðnings. Fulltrúi sýslumanns taldi meiri líkur en minni á því að eignin myndi ekki tryggja kröfu varnaraðila þar sem hún virtist full veðsett. Að kröfu varnaraðila var fjárnámi lokið án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989. Samkvæmt 63. gr. laga nr. 90/1989 verður fjárnámi ekki lokið án árangurs ef bent er á eign sem að nokkru gæti nægt til tryggingar kröfu, nema staðreynt hafi verið með virðingu samkvæmt 2. eða 3. mgr. 38. gr. laganna að hún nægi ekki til fullrar tryggingar. Samkvæmt gerðarbók sýslumanns fór slík virðing fram og var það niðurstaða hennar að eign sú sem bent var á nægði ekki til tryggingar kröfunni. Ekkert hefur komið fram af hálfu sóknaraðila sem hnekkir því mati. Sóknaraðili neytti ekki þess úrræðis 3. mgr. 38. gr. laganna að krefjast þess að sýslumaður kveddi til einn eða tvo menn með sérþekkingu til að virða eignina. Í málinu liggur fyrir veðbókarvottorð vegna fasteignarinnar sem sýnir að eigandi hennar er nú Lífeyrissjóður verslunarmanna. Einnig liggur frammi í málinu veðbókarvottorð vegna fasteignarinnar Naustabryggja 55, sem sóknaraðili vísaði til í tilkynningu sinni til héraðsdóms 15. janúar 2013. Í vottorðinu kemur fram að eigandi þeirrar fasteignar, samkvæmt afsali frá 24. janúar 2012, er Dragon eignarhaldsfélag ehf.
Við aðalmeðferð málsins lýsti sóknaraðili því að hann teldi fjárhæð í aðfararbeiðni varnaraðila vera ranga. Lögmaður varnaraðila hafnaði þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. Fallist verður á að þessi málsástæða sóknaraðila sé of seint fram komin og verður ekki á henni byggt.
Með vísan til alls framangreinds verður talið að heimilt hafi verið að ljúka aðfarargerðinni án árangurs og verður hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 23. nóvember 2012 í aðfararmáli nr. 011-2012-02294 um að ljúka gerðinni með árangurslausu fjárnámi hjá sóknaraðila. Verður aðfarargerðin því staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 skal í úrskurði héraðsdómara kveða á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar eða um breytingu hennar. Sú krafa sóknaraðila að hann verði ,,sýknaður af öllum kröfum varnaraðila í máli þessu“ kemur því ekki til álita.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 á varnaraðili rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Staðfest er aðfarargerð Sýslumannsins í Reykjavík 23. nóvember 2012 í máli nr. 011-2012-02294.
Sóknaraðili, Gunnar Árnason, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 200.000 krónur í málskostnað.