Hæstiréttur íslands
Mál nr. 12/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
|
|
Föstudaginn 1. febrúar 2013 |
|
Nr. 12/2013:
|
Fjalar Kristjánsson (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Askar Capital hf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit.
F lýsti kröfu við slitameðferð A hf. sem slitastjórn þess síðarnefnda hafnaði og var ágreiningur aðila borinn undir úrlausn héraðsdóms. Kröfu F mátti rekja til fjárfestingarverkefnis í Rúmeníu og kaupa á lóð þar í landi en F hafði lagt 1.000.000 evrur til verkefnisins. Hélt F því fram að verkefnið hefði í raun dagað uppi og framvinda þess hefði að ýmsu leyti ekki gengið eftir líkt og samið hafði verið um, en í málinu lá fyrir að enginn skriflegur samningur hafði verið gerður við F í tengslum við fjárfestingu hans. Talið var sannað að fjármunum F hefði verið varið til kaupa á umræddri lóð og að F hefði verið kynntir áhættuþættir verkefnisins með fullnægjandi hætti. Þá var hvorki fallist á það með F að í verkefninu hefði falist hagsmunatenging sem honum hefði ekki verið kynnt, né að ráðstöfun A hf. á fjármunum hans hefði getað talist brot á reglum um sérgreiningu fjármuna, sbr. 11. gr. laga nr. 108/2007. Jafnframt var talið að þótt F hefði ekki fengið í hendur hlutaskírteini eða hlutabréf í þeim félögum sem stofna átti í tengslum við verkefnið þá fæli það eitt og sér ekki í sér að hann hefði ekki fengið í hendur endurgjald fyrir hlutafjárframlag sitt. Að öðru leyti þótt á það skorta í málatilbúnaði F að gerð væri fullnægjandi grein fyrir því, í hverju ámælisverð háttsemi starfsmanna A hf. hefði falist og hvernig sú háttsemi fæli í sér brot á þeim skyldum sem hvíldu á A hf. samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Var kröfu F því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. janúar 2013. Frekari gögn bárust réttinum 18. janúar 2013. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2012, þar sem hafnað var bæði aðal- og varakröfu sóknaraðila um að viðurkenna nánar tilgreinda kröfu hans við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega: ,,Að viðurkennt verði að um rétthæð á lýstri kröfu hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.141.190 evrur fari skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 ... og beri auk þess vexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 [um vexti og verðtryggingu] frá 12. desember 2010 til greiðsludags.“ Til vara krefst hann þess að um rétthæð kröfunnar fari samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum verði látinn niður falla.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Mikill fjöldi skjala var í héraðsdómi lagður fram á erlendum tungumálum, þar á meðal nokkur skjöl á rúmensku, án þýðingar á íslensku. Þessi málatilbúnaður er í andstöðu við 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en úr þessu var að nokkru bætt fyrir Hæstarétti með þýðingum á hluta þessara skjala, sem bárust réttinum 18. janúar 2013.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um kröfu sóknaraðila verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Fjalar Kristjánsson, greiði varnaraðila, Askar Capital hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2012.
Mál þetta er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila og var beint til dómsins með bréfi varnaraðila 7. júní 2011, sem móttekið var 10. sama mánaðar. Vísaði varnaraðili um lagagrundvöll til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 28. júní 2011 og tekið til úrskurðar 20. nóvember 2012.
Sóknaraðili er Fjalar Kristjánsson, Öldugötu 24, Reykjavík, en varnaraðili er Askar Capital hf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að um rétthæð á lýstri kröfu hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.151.190 evrur fari skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að krafan beri auk þess vexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. desember 2010 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að um rétthæð kröfunnar fari samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, auk þess að krafan beri sömu vexti og greini í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum úrskurðaður málskostnaðar.
Farma Ltd. var upphaflega sóknaraðili málsins en félagið lýsti hinni umdeildu kröfu fyrir slitastjórn varnaraðila. Af hálfu sóknaraðila var því lýst yfir að hann tæki við aðild málsins með vísan til 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um það bókað í þingbók 10. febrúar 2012. Var af hálfu nýs sóknaraðila upplýst að Farma Ltd., sem hafi haft heimilisfesti á Guernsey, hafi verið lagt niður, en hann hafi sem eini eigandi þess tekið við þeim hagsmunum sem mál þetta varðar.
I
Samkvæmt starfsleyfi og viðauka við starfsleyfi sem útgefin eru 29. ágúst 2007, er varnaraðili lánafyrirtæki (fjárfestingarbanki) skv. 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Starfsleyfi varnaraðila er sagt taka til móttöku endurgreiðanlegra skuldaviðurkenninga frá almenningi, skv. b. lið 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, útlána skv. 2. tl. og viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga skv. b. lið 6. tl. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Einnig greinir að félagið hyggist stunda þá starfsemi á grundvelli 20. gr. laga nr. 161/2002 sem talin sé upp í viðauka við starfsleyfið. Kemur og fram að varnaraðila sé óheimilt að hefja nýja starfsemi án þess að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrirfram og óska eftir víðtækara starfsleyfi.
Með beiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 13. júlí 2010 óskaði stjórn varnaraðila eftir því að bú félagsins yrði tekið til slitameðferðar. Með úrskurði 14. júlí 2010 var fallist á beiðnina með vísan til 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og var félaginu skipuð slitastjórn þann sama dag. Markar fyrrnefnda dagsetningin frestdag, en sú síðarnefnda upphaf slitameðferðar varnaraðila. Kröfulýsingarfresti lauk 19. nóvember 2010. Farma Ltd. lýsti þeirri kröfu sem hér er til meðferðar fyrir slitastjórn innan kröfulýsingarfrests, en slitastjórn hafnaði kröfunni. Í fyrstu byggði slitastjórn á því að kröfunni væri beint að röngum aðila og því bæri að hafna henni sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, en við aðalmeðferð málsins féll lögmaður varnaraðila frá málsástæðum sínum í þá veru. Að auki hefur slitastjórn varnaraðila byggt á því frá upphafi að krafan ætti ekki rétt á sér. Eins og fyrr greinir tók sóknaraðili við aðild málsins af Farma Ltd. Nánar er gerð grein fyrir efnislegum ágreiningi aðila um kröfuna hér síðar. Haldnir voru fundir til að freista þess að jafna ágreining aðila um kröfuna en án árangurs og var málinu í kjölfarið vísað til meðferðar dómsins eins og áður er getið.
II
Málsatvik eru í stuttu máli þau að varnaraðili mun hafa haft samband við sóknaraðila og boðið honum til fjárfestakynningar. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær sú kynning fór fram en af gögnum má draga þá ályktun að það hafi verið í nóvember eða fyrri hluta desember 2007. Er óumdeilt að þar var sóknaraðila sýnd glærukynning sem liggur fyrir í málinu og er þar dagsett 5. nóvember 2007. Í nefndri kynningu kemur m.a. fram að um sé að ræða tækifæri til að kaupa 45.000 fermetra af óbyggðu landi í Búkarest í Rúmeníu og byggja þar samtals 135.000 fermetra af atvinnu- og íbúðarhúsnæði til endursölu. Heildarkostnaður við verkefnið er sagður 152.000.000 evrur og heildarhlutafjárframlag 17.100.000 evrur. Þá kemur fram að kaupverð landsins sé 23.500.000 evrur. Greiða þurfi 10% til að festa sér landið, en menn hafi 90 daga til að fjármagna verkefnið að öðru leyti. Þá er sérstaklega lýst hver skuli vera „strúktúr“ fjárfestingarinnar, sem þjóni þeim tilgangi að stuðla að því skattskylda fjárfesta og verkefnisins verði sem hagstæðust. Er þar gerð grein fyrir íslensku félagi, sem tengist hollensku félagi sem aftur tengist félagi sem stofna hafi átt í Rúmeníu. Umrædd fjárfestakynning er ítarleg og telur 46 blaðsíður. Þar er einnig að finna sérstakan kafla sem fjallar um áhættuþætti við verkefnið. Þá er sérstaklega gerð grein fyrir aðkomu Aska fasteignaráðgjafar ehf. (sem á ensku heitir: Askar Real Estate Investment Advisory (AREIA) að verkefninu. Umrætt félag sem er dótturfélag varnaraðila átti að sjá um stjórnun verkefnisins og átti að fá tiltekið 2% árlegt stjórnunargjald, auk þess að fá 20% hlutdeild í hagnaði af verkefninu við lok þess eftir nánar greindum skilmálum, sem ekki er ástæða til að tíunda nánar hér. Þessu fyrirkomlagi var og lýst í skýrslu Bjarka A. Brynjarssonar fyrrum starfsmanns varnaraðila. Kvað hann uppsetningu verkefna með þessum hætti venjubundna og kvaðst hafa stjórnað fjölda verkefna sem þannig hafi verið sett upp í störfum sínum fyrir varnaraðila og aðra.
Í aðilaskýrslu sinni kvað sóknaraðili að honum hefði verið kynnt framangreind fjárfesting. Hafi verið farið yfir verkefnið með glærukynningu og hann síðan fengið umrædda kynningu afhenta skriflega. Staðfesti sóknaraðili í skýrslu sinni að um væri að ræða kynningu sem liggur fyrir í gögnum málsins og stuttlega er lýst hér að framan. Kvað sóknaraðili að verkefnið hefði verið kynnt fyrir sér þannig að í því væru 14 eða 15 hlutir. Af þeim hafi varnaraðili átt tvo sem hann hafi boðið sóknaraðila, en sóknaraðili hafi fallist á að kaupa annan þeirra. Hafi varnaraðili upplýst að Sjóvá eða aðili tengdur því félagi væri stærsti fjárfestirinn með 8 eða 9 hluti. Um hverjir hinir væru hafi ekki verið upplýst þó sóknaraðili hafi spurt um það en það eitt sagt að um væri að ræða fjársterka aðila. Sóknaraðili kvaðst ekki hafa séð neinn samning og kvað ekkert sérstakt af sinni hálfu hafa leitt til þess að ekki hafi verið gengið frá samningi um fjárfestinguna. Það hafi þó verið til umræðu í hvaða félagi fjárfestingin ætti að vera. Af hálfu varnaraðila hafi verið útskýrt að ekki væri enn búið að stofna þau félög sem um væri rétt í kynningunni. Sóknaraðili kvað að þó hann hafi verið búinn að fjárfesta í verkefninu að þá hafi átt eftir að ganga frá „strúktúrnum“. Við hann hafi verið fullyrt og lofað að það yrði gert strax, en sóknaraðili kvaðst hafa reiknað með að það gæti dregist fram yfir áramót. Sóknaraðili kvaðst hafa ætlað að leggja það til við Farma Ltd., félag í sinni eigu að það fjárfesti í verkefninu, en hann kvaðst vera eini eigandi þess félags en hafi aldrei verið þar í stjórn. Hugsunin hafi verið sú að Farma Ltd. legði fjármuni í hlutafélag það í Hollandi sem nefnt sé í umræddri kynningu. Það hafi verið klár ásetningur varnaraðila að stofna félag í Hollandi og keyra verkefnið í gegn um það. Hann hafnaði því að hafa haft einhverja vitneskju um tilvist Fundeni ehf. og kvað Farma Ltd. ekki hafa fallist á að leggja fram hlutafé til þess félags. Sóknaraðili vísaði til tölvupósts sem liggur fyrir í málinu og hann sendi 17. desember 2007 til starfsmanns varnaraðila og starfsmanns Kaupþings í Luxemborg, þar sem kemur fram að Farma Ltd. sé kaupandi hlutarins, en nánari auðkenni félagsins geti viðkomandi starfsmaður Kaupþings sent varnaraðila. Þá óskar sóknaraðili einnig eftir að upplýst verði hvað Farma Ltd. fái fyrir hlutinn, hlutabréf eða annað svo hægt sé að bóka um það í bækur félagsins. Sóknaraðili kvaðst síðar hafa reynt að ganga frekar eftir því símleiðis að gengið yrði frá samningi en án árangurs. Fyrir liggur að Farma Ltd. greiddi 1.000.000 evra 17. desember 2007 inn á reikning sem mun hafa verið í eigu Aska fasteignaráðgjafar ehf. (oft nefnt AREIA í gögnum málsins) sem mun vera dótturfélag varnaraðila. Sóknaraðili staðfesti að hann hefði verið á þeim fundum sem hann er skráður mættur á í stöðuskýrslum vegna verkefnisins.
Í málinu hefur varnaraðili lagt fram sex skýrslur um stöðu og framvindu verkefnisins og er sú fyrsta frá 13. júní 2008 og varðar fyrsta ársfjórðung þess árs en sú síðasta er dagsett í febrúar 2010 og er sögð varða síðasta ársfjórðung ársins 2009. Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að sóknaraðili, eins og aðrir fjárfestar í verkefninu, hafi fengið sendar umræddar skýrslur um framvindu verkefnisins. Af hálfu sóknaraðila hefur þessu ekki sérstaklega verið mótmælt. Af þessum skýrslum má ráða að fjármögnun verkefnisins var á þá leið að fjárfestar lögðu fram 14.300.000 evrur, en tekið var bankalán í febrúar 2008, sem upphaflega var gert ráð fyrir að næmi 15.000.000 evrum en varð þegar upp var staðið 13.800.000 evrur. Virðist fjármagn til ráðstöfunar því hafa verið samtals 28.100.000 evrur. Landsvæðið kostaði 24.200.000 evrur. Án þessa að ástæða sé til að rekja það ítarlega þá kemur fram í umræddum skýrslum að verkefnið hafi tafist vegna tiltekinna ástæðna sem varða skipulag lóðarinnar, en einnig er þar greint frá vandkvæðum vegna verðlækkunar á umræddu landi og hvernig þau leiddu til viðbragða af hálfu BCR sem var sá banki sem lánað hafði til verkefnisins. Þá kemur einnig fram að söluhorfur hafi farið versnandi, sérstaklega á seinni hluta ársins 2008.
Eignarhlutir í verkefninu skiptust þannig að SJ fasteignir ehf. áttu 60% Karl Wernersson 13,33%, Anna Wernersdóttir 6,67%, Farma Ltd. 6,67% og Askar Captial hf. 6,67%. Upphaflega mun Klasi ehf. hafa átt 6,67% en SJ Fasteignir ehf. munu hafa eignast þann hlut og bættist það við þann 60% hlut sem félagið átti í upphafi og átti það því alls 66,67% hlut. Samtals munu þessir aðilar hafa lagt fram þær 14.300.000 evrur í hlutafé sem fyrr eru nefndar. Enga skýringu er að finna í gögnum málsins um það hvers vegna áætluð hlutafjárþörf verkefnisins sem í upphafi var talin 17.100.000 evrur lækkaði í fyrrnefnda tölu. Á hinn bóginn samsvarar fjárhæðin 14,3 milljónir evra vel frásögn sóknaraðila um að hlutir hafi verið 14 eða 15 í verkefninu, hver að fjárhæð ein milljón evra. Af hálfu fyrrum starfsmanna varnaraðila sem komu fyrir dóminn var upplýst um eignatengsl framangreindra aðila. Kom þar fram að Karl er bróðir Önnu. Karl var einnig 60% eigandi Milestone, sem átti Sjóvá hf. að fullu. SJ Fasteignir ehf. var dótturfyrirtæki Sjóvár hf. en varnaraðili var dótturfyrirtæki Milestone. Ekki liggur fyrir að Klasi ehf. hafi haft tengsl við umrædda aðila. Þá liggur ekki fyrir að sóknaraðili eða félag hans Farma Ltd. hafi tengst umræddum aðilum.
Í skýrslu sem sögð er vegna þriðja ársfjórðungs 2009 og dagsett er 21. október það ár kemur m.a. fram að fimm stöðufundir hafi verið haldnir með hluthöfum á umræddum ársfjórðungi, þ.e.a.s. 2. júlí, 11. ágúst, 20. ágúst, 10. september og 29. september. Fylgja fundargerðir umræddra funda skýrslunni og eru þær á íslensku þó skýrslan sjálf sé á ensku. Sóknaraðili mætti fyrir hönd Farma Ltd. á fundi 2. júlí, 20. ágúst, hafði forföll á fundi 10. september, en mætti 23. september. Fundargerðir þessar bera með sér að farið hafi verið yfir stöðu verkefnisins og rætt hafi verið um viðbrögð við þeirri erfiðu stöðu sem verkefnið var þá komið í.
Meðal gagna sem fylgja umræddri skýrslu er blað sem lýsir myndrænt uppsetningu verkefnisins og má af því ráða að SJ-Fasteignir ehf. eigi 60% en Fundeni ehf. 40% í félaginu Downtown HoldCo BV (hollenskt félag), sem eigi síðan Downtown International SRL. (rúmenskt félag). Síðastnefnt félag mun hafa keypt umrædda lóð, en það má sjá af fylgigögnum með skýrslu og matsgerð DTZ Echinox sem framkvæmdi verðmat á lóðinni 23. júní 2009, en matsverðið var á bilinu 13.636.000 evrur til 16.515.000 evrur. Fyrir liggur að umræddur „félagastrúktúr“ var ekki settur upp en félagið Fundeni ehf. var stofnað eins og sjá má af gögnum málsins og liggur fyrir að samkvæmt fundargerð dags. 31. desember 2008 sem fyrir liggur í málinu að þar er fært til bókar að hlutafé er hækkað um 547.200.000 krónur og verður eftir hækkun 547.700.000 krónur. Eru hluthafar þar skráðir Anna Margrét Wernersdóttir, Klasi ehf., Farma Ltd., Askar Capital hf. og Karl Wernersson. Eru þau fjögur fyrstnefndu skráð fyrir hlut að fjárhæð 91.200.000 krónur hvert, en sá síðastnefndi er skráður fyrir tvöfaldri þeirri fjárhæð.
Í umræddum skýrslum er rakið hvernig samningaviðræður við BCR bankann fóru fram og hvernig reynt var að bregðast við því að söluhorfur fasteigna fóru minnkandi og verðmæti lóðarinnar lækkandi.
Tveir fyrrum starfsmenn varnaraðila gáfu skýrslu fyrir dóminum, Bjarki A. Brynjarsson og Jóhann Friðrik Haraldsson. Fóru þeir í stórum dráttum yfir þau atriði sem að framan eru rakin úr áfangaskýrslum og var frásögn þeirra að öllu leyti í samræmi við umræddar skýrslur. Þeir lýstu því og hvernig tilraunir til að selja lóðina hafi farið út um þúfur og að verkefninu hafi lokið með því að verðmæti lóðarinnar hafi verið orðið minna en bankalánið. Verkefnið hafi því orðið gjaldþrota.
Björn Helgi Arason einn af slitastjórnarmönnum varnaraðila gaf einnig skýrslu fyrir dóminum en ekki þykir ástæða til að rekja sérstaklega efni hennar hér.
Meðal gagna málsins er samningur Klasa ehf. um sambærilegan hlut í umræddu verkefni sem dagsettur er 11. desember 2007. Hefur varnaraðili vísað til þess að sambærilegan samning hafi allir þáttakendur í verkefninu skrifað undir en láðst hafi að ganga frá samningi við sóknaraðila málsins. Ekki þykir ástæða til að rekja umræddan samning nánar hér.
III
Sóknaraðili kveðst byggja á því í málinu að varnaraðili hafi 17. desember 2007 verið leyfisskylt fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002 og haft réttindi og borið skyldur í samræmi við þau lög og önnur sem um slík fyrirtæki hafi gilt. Við slit á félaginu og til lausnar á réttarágreiningi aðila verði að horfa til þeirra skylda sem á félaginu hafi hvílt á þessum sama tíma.
Á því sé byggt að fjármálafyrirtækjum hafi borið að starfa í samræmið við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002. Í því felist að ef félagið og starfsmenn þess bjóði til sölu hluti í skráðum eða óskráðum félögum, verkefnum eða öðru slíku, sem þau hafi haft frumkvæði að, beri ríkar skyldur gagnvart viðsemjendum sínum. Um skyldu þessa sé einnig vitnað til 5. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Fyrsta frumskylda félags eins og varnaraðila sé að kynna viðsemjendum sínum það sem í boði sé þannig að þeir geti tekið meðvitaða og upplýsta ákvörðun um fjárfestingu. Skylda þessi sé enn ríkari þegar verkefnið eigi rót sína að rekja til þess fjármálafyrirtækis sem bjóði það fram til sölu. Ekkert af þessu hafi varnaraðili staðið við. Sóknaraðila hafi verið lofað gögnum og öðrum skjölum sem hafi átt að staðreyna það sem honum hafi verið sagt. Ekkert af þessu hafi hins vegar komið fram fyrir kaupin þannig að hann hafi getað kynnt sér þá áhættu sem í verkefninu hafi falist.
Þá beri fjármálafyrirtækjum að sjá til þess að ekki sé um hagsmunaárekstur að ræða í viðskiptum þeirra við viðsemjendur sína, sbr. 8. gr. laga nr. 108/2007. Ef varnaraðili hafi haft af þessum viðskiptum hagsmuni þá hafi honum borið skylda til að upplýsa sóknaraðila um þá hagsmuni. Slík staða hafi enn fremur aukið á upplýsingaskyldu varnaraðila. Þá beri fjármálafyrirtæki að halda fjármunum viðskiptavina sinna aðskildum frá eigin fjármunum, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 108/2007. Svo virðist sem verkefni það sem til hafi staðið að setja á fót sé runnið undan rifjum varnaraðila eða félaga í hans eigu. Þannig virðist sem sérstakt félag hafi verið stofnað um verkefnið sem hafi verið Fundeni ehf. Gögn málsins beri það með sér að starfsmenn varnaraðila hafi verið þar í stjórn. Þannig hafi varnaraðili í raun stjórnað máli þessu og hafi séð til þess að fjármunir hafi í raun runnið eitthvað allt annað en til þessa verkefnis sem um ræði. Þegar um slík tengsl sé að ræða verði að gera mun strangari kröfur til varnaraðila þegar sök hans sé metin og eins þegar afstaða sé tekin til afstöðu slitastjórnar félagsins.
Þannig sé því haldið fram að viðskipti þau sem hafi átt sér stað í desember 2007 milli aðila máls þessa hafi fallið undir ákvæði laga nr. 108/2007 og að varnaraðili hafi á engan hátt sinnt þeim skyldum sem fjallað sé um og á honum hafi hvílt á þessum tíma samkvæmt II. kafla þeirra sömu laga.
Því sé haldið fram að engu máli skipti þótt fjármunir þeir sem sóknaraðili hafi innt af hendi hafi verið lagðir inn á reikning hjá dótturfélagi varnaraðila. Fyrirmæli um að leggja fjármunina þar inn hafi komið frá starfsmönnum varnaraðila. Það sé því á þeirra ábyrgð. Varnaraðila beri að sjá til þess að viðskiptamenn hans greiði inn á þá reikninga sem þeim beri að greiða inn á.
Þá byggi sóknaraðili á því að sú staðreynd að fjármunir þeir sem hann hafi greitt hafi ekki skilað sér inn í það félag sem til hafi staðið, sé í raun refsiverð háttsemi, sem aftur leiði af sér skaðabótaskyldu fyrir varnaraðila og stjórnendur hans. Þá byggi sóknaraðili einnig á því að hann hafi í raun verið blekktur til viðskiptanna og að varnaraðili og starfsmenn hans hafi búið yfir upplýsingum um hið ætlaða verkefni í Rúmeníu sem sóknaraðili hafi ekki haft. Þannig sé það staðreynd að verkefnið hafi í raun dagað uppi og engar haldbærar skýringar fengist á því. Skorað sé á varnaraðila að upplýsa um aðkomu sína að verkefni því er um ræði og hvernig á því hafi staðið að ekkert hafi orðið af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar hafi verið. Þá sé einnig skorað á varnaraðila að leggja fram gögn þessu til stuðnings. Um skaðabótaskyldu félagsins vísi sóknaraðili til sakarreglunnar. Tjónið jafngildi þeirri sömu fjárhæð og sóknaraðili hafi lýst fyrir slitastjórn varnaraðila.
Slitastjórn hafi þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir á engan hátt getað upplýst hvað hafi orðið um þá fjármuni sem sóknaraðili hafi greitt inn til félagsins. Þá hafi slitastjórn þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir ekki getað lagt fram neinn samning milli aðila um þá fjármuni sem sóknaraðili hafi greitt til varnaraðila. Slík háttsemi samrýmist ekki reglum um fjármálafyrirtæki. Sú staðreynd að varnaraðili sé undir slitameðferð í skilningi laga nr. 161/2002 losi hann ekki undan þeirri skyldu að framvísa gögnum um slíkan samning og eins gögnum um ráðstöfun fjárins. Sé þeirri áskorun beint til varnaraðila að leggja fram samning um þá fjármuni sem greiðslukvittun hafi verið gefin út fyrir og eins sé skorað á varnaraðila að upplýsa hvert þeim fjármunum sem sóknaraðili hafi greitt hafi verið ráðstafað.
Um rétthæð krafna sóknaraðila sé vísað til 109. og 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 6. gr. laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002. Um áskoranir á hendur varnaraðila sé vísað til 67. og 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Leggi varnaraðili ekki fram gögn þessi haldi sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi haft undir höndum vitneskju um ómöguleika við verkefnið sem honum hafi borið að koma til vitundar sóknaraðila áður en til viðskiptanna hafi komið. Þá sé einnig vitnað til 14. til 16. gr. laga nr. 108/2007, sem og 21. og 29. gr. sömu laga. Um aðild sóknaraðila sé vísað til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðili kveður að í aðalkröfu sé þess krafist að viðurkenndur verði sértökuréttur hans til þeirra fjármuna sem hann hafi innt af hendi 17. desember 2007 og krafan eigi því með vísan til 109. gr. laga nr. 21/1991 að greiðast á undan öllum öðrum kröfum á hendur varnaraðila.
Varnaraðili hafi gefið sóknaraðila kvittun þess efnis að hann hafi keypt hluti í verkefninu Fundeni fyrir eina milljón evra. Varnaraðili hafi hins vegar aldrei afhent neinn slíkan hlut eða gert samning um þá afhendingu eins og honum hafi borið að gera sem fjármálafyrirtæki. Þrátt fyrir ítrekanir hafi aldrei komið slíkur samingur frá varnaraðila sem sóknaraðili hafi getað stuðst við. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir lögmanns sóknaraðila hafi slitastjórn varnaraðila engin gögn getað lagt fram þess efnis að varnaraðili hafi afhent sóknaraðila eitthvað í staðinn fyrir þá einu milljón evra sem hann hafi sannanlega greitt til varnaraðila. Af þeim ætluðu viðskiptum sem varnaraðili hafi lofað virðist því ekki hafa orðið. Sóknaraðili eigi því rétt á að fá fjármuni sína endurgreidda enda hafi varnaraðili aldrei eignast þá heldur hafi honum borið, með vísan til laga um fjármálafyrirtæki og eins laga um verðbréfaviðskipti, að halda þeim aðgreindum frá sínum eigin fjármunum, þar til gagngjaldi hans hafi verið komið í hendur sóknaraðila.
Þá hafi varnaraðili viðurkennt að fjármunum þessum hafi verið ráðstafað á allt annan hátt en til hafi staðið og þannig viðurkennt að sóknaraðili hafi í raun aldrei fengið neitt í staðinn fyrir þá fjármuni sem hann hafi greitt.
Hér sé vel að merkja ekki um innstæðu á innlánsreikningi að ræða heldur fjármuni sem nota hafi átt til kaupa á hlutum sem aldrei hafi gengið eftir. Því sé haldið fram af hálfu sóknaraðila að fjármunir þeir sem hann hafi innt af hendi til varnaraðila séu sérgreindir hjá varnaraðila. Þar sem varnaraðili hafi aðgang að bókhaldi félagsins sé það hans að sýna fram á að svo sé ekki. Sóknaraðili hafi þrátt fyrir ítrekanir ekki fengið neinar upplýsingar frá slitastjórn varnaraðila um fjármuni þessa.
Í aðalkröfu sé krafið um dráttarvexti frá og með 12. desember 2010, með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en kröfu hafi verið beint að slitastjórn varnaraðila mánuði fyrr. Krafan um dráttarvexti sé gerð á þeim grunni að sóknaraðili hafi átt þessa fjármuni og að þeir hafi verið í vörslum varnaraðila. Til vara sé krafist dráttarvaxta á evrur sem síðast hafi verið birtir af Seðlabanka Íslands sem 5,5% ársvextir.
Verði ekki fallist á sértökurétt sóknaraðila á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 sé þess til vara krafist að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa með vísan til 113. gr. sömu laga.
Vísað sé til þeirra sömu sjónarmiða, málsástæðna og lagaraka og rakin séu um aðalkröfu sóknaraðila. Það sé alveg ljóst að varnaraðili hafi á engan hátt staðið við þann ætlaða samning sem til hafi staðið að kæmist á milli aðila. Þannig hafi varnaraðili ekkert gagngjald innt af hendi á móti þeim fjármunum sem sóknaraðili hafi greitt til hans. Þegar af þeirri ástæðu eigi sóknaraðili almenna kröfu á hendur varnaraðila sem nemi lýstri kröfu. Þá sé hann einnig skaðabótaskyldur gagnvart sóknaraðila og sé um það vísað til þess sem fram komi hér að ofan.
Auk þeirra áskorana sem fram koma í greinargerð sóknaraðila lagði hann fram áskorun í fjórum liðum í þinghaldi 13. apríl 2012. Í fyrsta lagi skoraði sóknaraðili á varnaraðila að leggja fram upplýsingar, byggðar á skoðun endurskoðenda slitastjórnar varnaraðila, um hvert og hvernig þeirri einni milljón evra hafi verið ráðstafað sem sóknaraðili hafi greitt að boði varnaraðila 17. desember 2007; í öðru lagi að upplýsa hvernig sala hans á hlut í verkefninu Fundeni til sóknaraðila á sínum tíma hafi verið bókfærð í bókhaldi hans; í þriðja lagi að leggja fram upplýsingar, byggðar á skoðun endurskoðenda slitastjórnar varnaraðila, um hverjir hafi verið eigendur að verkefninu Fundeni þann 17. desember 2008 og að leggja fram gögn um kaup og sölu frá upphafi á öllum hlutum í verkefninu Fundeni; í fjórða lagi að leggja fram fundarboðun fyrir hluthafafund þann sem fram komi á dómskjali nr. 19. í gögnum málsins. Þá sé skorað á varnaraðila að leggja fram gögn því til sönnunar að Farma Ltd. hafi skráð sig fyrir eignarhlutum að fjárhæð 91.200.000 krónur í einkahlutafélaginu Fundeni ehf. Fram kemur að áskorunin sé gerð með vísan til 67. og 68 gr. laga nr. 91/1991.
IV
Varnaraðili byggir einkum á því að sóknaraðili hafi þann 17. desember 2007 fjárfest fyrir 1.000.000 evra í Fundeni verkefninu, eins og sjáist á greiðslukvittun sem liggi fyrir í málinu og dagsett sé degi síðar. Sóknaraðila hafi frá upphafi verið ljóst um hvers konar fjárfestingu hafi verið að ræða, sbr. og fjárfestakynningu sem liggi fyrir í málinu og sóknaraðili hafi fengið afhenta eins og aðrir fjárfestar. Í umræddu skjali sé að finna nákvæma útlistun á því um hverskonar fjárfestingu sé að ræða og sé þar ítarlega kveðið á um hvernig hagnaði skuli skipt milli fjárfesta og varnaraðila. Varnaraðili kveðst og byggja á því að sömu skilmálar hafi átt að gildi fyrir sóknaraðila og fram komi í samningi varnaraðila við Klasa ehf. um sama fasteignaverkefni en sá samningur liggi fyrir í málinu. Kveður varnaraðili að t.d. komi sama hagnaðarskipting fram í þeim samningi og fyrrnefndri fjárfestakynningu. Allir fjárfestar í verkefninu hafi gengið að sama samkomulagi þó láðst hafi að gera formlegan samning við sóknaraðila.
Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafi mætt á verkefnafundi/stöðufundi vegna Fundeni verkefnisins á árunum 2008 og 2009 ásamt öðrum fjárfestum þar sem rætt hafi verið um stöðu verkefnisins og hvernig best væri að leysa úr þeim vanda sem komið hafi upp vegna þess að rúmenski bankinn BCR hafi ekki verið tilbúinn að framlengja lánið án þess að vextir væru greiddir. Farið hafi svo að fjárfestarnir hafi ekki viljað leggja fram frekari fjármuni til þess að verja verkefnið og það hafi því lagst af. Það sé því fráleitt að halda því fram að sóknaraðila hafi ekki verið kunnugt um að hann væri fjárfestir í Fundeni verkefninu með nákvæmlega sama hætti og aðrir fjárfestar. Hafi sóknaraðili mætt á umrædda fundi án þess að hreyfa mótmælum, krefjast skýringa á réttarstöðu sinni eða halda því fram að hann væri ekki bundinn af hlutafjárframlagi sínu. Vísar varnaraðili meðal annars til fundargerðar 23. september 2009 en þar sé stöðu verkefnisins, viðræðum við BCR og möguleikum á sölu lóðarinnar, ítarlega lýst og hafi sóknaraðili því verið vel upplýstur um öll þessi atriði.
Varnaraðili kveður að með vísan til þess sem að framan greinir beri að líta svo á að munnlegur samningur hafi stofnast milli aðila og ramminn um réttarsamband þeirra sé fjárfestakynning sú sem liggi fyrir í málinu. Hafi sóknaraðili formlega gengið að því samkomulagi með því að greiða hlutafjárframlagið inn á reikning varnaraðila.
Varnaraðili kveður það rétt sem komi fram í greinargerð sóknaraðila að ekki hafi verið lokið við að koma á fót þeim „félagastrúktúr“ sem gert var ráð fyrir í verkefninu. Hlutafjárframlagið sem sóknaraðili hafi lagt í verkefnið hafi í þess stað farið inn á reikning Aska fasteignaráðgjafar ehf. (sem oft er vísað til í gögnum málsins sem AREIA) og þaðan til félagsins Askar Captal Romania SRL, sem sé dótturfélag varnaraðila. Það félag hafi síðan lánað félaginu Downtown International SRL en það félag hafi keypt byggingarlóðina. Kveður varnaraðili að þessi uppsetning hafi engu breytt fyrir fjárfesta í verkefninu og hafi einungis verið útfærsluatriði. Byggir varnaraðili á að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram hvernig þessi atriði hafi breytt einhverju fyrir hann sem fjárfesti og hvernig þetta hafi valdið honum tjóni. Fyrirhuguð uppsetning á umræddum „félagastrúktúr“ hafi eingöngu verið vegna skattahagræðis ef verkefnið skilaði hagnaði. Fljótlega hafi hinsvegar komið í ljós að svo yrði ekki og því hefði það einungis haft aukinn kostnað í för með sér að ljúka við „félagastrúktúrinn“.
Sóknaraðili hafi fengið skráð hlutafé í Fundeni ehf. í samræmi við framlag sitt til verkefnisins, sbr. fyrirliggjandi fundargerð hluthafafundar í því félagi 31. desember 2008. Þrátt fyrir að Fundeni ehf. hafi ekki verið eigandi verkefnisins eins og upphaflega hafi verið gert ráð fyrir þá hafi allir aðilar verið meðvitaðir um þessa stöðu og hafi verið litið svo á að skipting hlutafjár í Fundeni ehf. markaði eignarhlut hvers og eins í verkefninu.
Sóknaraðili hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna þess að „félagastrúktúrinn“ hafi ekki verið kláraður eða vegna þess að enginn skriflegur samningur hafi verið undirritaður og hefði aldrei getað orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Aldrei hafi verið neinn vafi um tilgang fjárframlags sóknaraðila eða hver væri eigandi þess og hafi hagsmunir sóknaraðila verið jafn vel tryggðir eins og gengið hefði verið formlega frá umræddum atriðum. Fjármagninu hafi verið varið til þeirra nota sem til hafi verið ætlast. þ.e. kaupa á lóðinni í Rúmeníu.
Ef umrætt verkefni hefði gengið upp og skilað hagnaði þá hefði sóknaraðili átt nákvæmlega sama rétt og aðrir fjárfestar þrátt fyrir að hann hafi aldrei undirritað formlegan kaupsamning. Réttindi sóknaraðila hafi byggst á fyrrnefndri fjárfestakynningu og munnlegum samningi við varnaraðila, sem og þeirri staðreynd að sóknaraðili greiddi eina milljón evra til verkefnisins. Sóknaraðili hafi lagt fram fé og hafi því átt rétt á umsömdum hluta í hagnaði en einnig hafi hann borið sömu áhættu og aðrir sem fjárfestu í sama verkefni. Áhætta fylgi því að eiga viðskipti með hlutabréf og fjárfesta í fasteignaverkefnum, en sóknaraðili hafi tekið slíka áhættu og hafi ekki getað treyst því að virði fjárfestingarinnar myndi aðeins hækka eða standa í stað, sbr. t.d. dómur Hæstaréttar í máli nr. 561/2010. Kveður varnaraðili að það sé með öllu óeðlilegt og jafnframt bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að skýra samning aðila svo að varnaraðili hafi átt að bera alla áhættuna af því að hlutafjárframlag sóknaraðila myndi ekki skila hagnaði.
Varnaraðili kveður að ljóst hafi verið frá upphafi að verkefni af því tagi sem hér um ræði og á þessu svæði væru mjög áhættusömu, en um þetta hafi sóknaraðila verið vel kunnugt. Hann hafi eins og áður er komið fram setið fjárfestafundi þar sem fjallað hafi verið ítarlega um stöðu verkefnisins og hafi fengið afhentar ársfjórðungsskýrslur þess. Sé því með ólíkindum að sóknaraðili skuli halda því fram í greinargerð sinni til héraðsdóms að engar haldbærar skýringar hafi borist fyrir því hvers vegna verkefnið hafi lagst af.
Sóknaraðli byggi skaðábótaábyrgð gagnvart varnaraðila á sakarreglunni. Samkvæmt reglunni sé það skilyrði að sá er krefst skaðabóta sýni fram á orsakatengsl milli saknæmrar háttsemi tjónvalds og þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir auk þess sem tjónið þurfi að vera sennileg afleiðing hinnar ætluðu bótaskyldu háttsemi. Varnaraðili mótmæli því að nokkur saknæm eða ólögmæt háttsemi hafi átt sér stað. Það að framangreindur „félagastrúktúr“ hafi ekki verið kláraður með nákvæmlega þeim hætti sem upphaflega hafi verið lagt upp með geti ekki talist saknæm eða ólögmæt háttsemi, enda hafi réttindi sóknaraðila verið jafn vel tryggð þrátt fyrir það og fjármunirnir hafi runnið þangað sem þeir hafi átt að renna, þ.e. til lóðakaupanna. Til að um saknæma háttsemi geti verið að ræða þyrfti sóknaraðili að minnsta kosti að sýna fram á að sá strúktúr sem notaður hafi verið í staðinn hafi á einhvern hátt stefnt hagsmunum hans í hættu og að gáleysislegt hafi verið af hálfu starfsmanna varnaraðila að setja verkefnið upp með þeim hætti. Ekki verði séð að svo hafi verið og hafi sóknaraðili enga tilraun gert til að sýna fram á þessi atriði. Þá geti það ekki heldur talist saknæm háttsemi af hálfu varnaraðila að enginn skriflegur samningur hafi verið undirritaður en munnlegir samningar sé jafngildir skriflegum að íslenskum rétti.
Jafnvel þótt talið yrði að háttsemin væri saknæm sé hins vegar ljóst að engin orsakatengsl séu milli háttseminnar og taps/tjóns sóknaraðila. Ljóst sé að sóknaraðili hefði engu að síður tapað fjárframlagi sínu þó framangreindra formskilyrða um að koma réttilega upp þeim „félagastrúktúr“ sem kveðið hafi verið á um í fjárfestakynningu eða að gera skriflegan samning hefði verið gætt. Í þessu sambandi nægi að benda á að aðrir fjárfestar í verkefninu, sem undirritað hafi skriflega samninga, hafi tapað sínu hlutafjárframlagi rétt eins og sóknaraðili. Hinir skriflegu samningar hafi ekki komið þar að gagni.
Varnaraðili kveðst mótmæla því harðlega að sóknaraðili geti átt sértökukröfu í grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991. Eins og að framan hafi verið rakið hafi þeir fjármunir sem sóknaraðili hafi lagt fram runnið til kaupa á lóð í Rúmeníu í gegnum félagið Downtown International SRL. Fjármunirnir hafi því farið til þess verkefnis sem ætlast hafi verið til. Sé það því ekki rétt sem fram komi í greinargerð sóknaraðila að fjármununum hafi verið ráðstafað á allt annan hátt en til hafi staðið.
Jafnvel þótt ekki yrði fallist á þetta sé engu að síður ljóst að sóknaraðili geti aldrei átt sértökukröfu í búið. Til að fallist yrði á slíka kröfu þyrfti sóknaraðili að sýna fram á að hann ætti eignarrétt að sérgreindum fjármunum í vörslum varnaraðila, en þetta hafi sóknaraðili ekki gert. Dómstólar hafi gert strangar sönnunarkröfur og hvíli sönnunarbyrði í öllum tilvikum á kröfuhafa að sýna fram á eignarrétt og sérgreiningu fjármuna skv. 109. gr. laga nr. 21/1991.
Að lokum kveðst varnaraðili mótmæla öllum kröfum, málsástæðum, lagarökum og málavaxtalýsingu sóknaraðila. Við mat á réttarstöðu sóknaraðila verði hvað sem öðru líður alltaf að miðað við það að sóknaraðili hafi verið fagfjárfestir í skilningi 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Varnaraðili kveðst vísa til reglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum ákvæða 109. og 113. gr., sbr. lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki auk laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Kröfu um málskostnað kveðst hann styðja við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. lög nr. 21/1991.
Til að svara áskorun sóknaraðila 13. apríl 2012 lagði varnaraðili fram tölvuskeyti slitastjórnarmannsins Björns Helga Arasonar þar sem hann svarar nokkrum áskorunum hans. Með umræddum tölvupósti lagði varnaraðili fram bankayfirlit og tvo ársreikninga Fundeni ehf.
V
Mörg þeirra gagna sem varnaraðili hefur lagt fram eru á ensku. Hefur sóknaraðili mótmælt því að á skjölum þessum verði byggt í þeim mæli sem þau hafi verið lögð fyrir dóminn og vísað um þetta atriði til 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum verður ekki fallist á framangreinda röksemd. Er fyrst til þess að líta að í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 segir að skjali á erlendu tungumáli skuli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem byggt sé á efni þess nema dómari telji sér fært að þýða það. Er því ekki um fortakslaust bann að ræða og er þess og að gæta að framsetning staðreynda og talna í umræddum skjölum er oft á tíðum með myndrænum hætti, sem og að fyrir liggja skjöl á íslensku sem telja verður að gefi í meginatriðum þá mynd af staðreyndum málsins sem nauðsynleg er. Fá gögnin og stuðning í vitnisburði tveggja fyrrum starfsmanna varnaraðila, sem og aðilaskýrslu sóknaraðila sjálfs. Þá verður og að hafa í huga að sóknaraðila var og í lófa lagið að láta þýða einstök skjöl eða hluta þeirra teldi hann það nauðsynlegt til stuðnings kröfum sínum.
Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi ekki gætt skyldu sinnar sem fjármálafyrirtæki til að kynna honum réttilega það sem honum hafi staðið til boða að kaupa en honum hafi verið lofað gögnum og öðrum skjölum sem hafi átt að staðreyna það sem honum hafi verið sagt um umrætt verkefni. Ekkert af þessu hafi hins vegar komið fram fyrir kaupin þannig að hann hafi getað kynnt sér þá áhættu sem í verkefninu hafi falist. Sóknaraðili tilgreinir ekki hvaða áhættuþættir það eru sem hann telur að hafi verið illa eða ekki kynntir. Þá er og óljóst til hvaða gagna er verið að vísa að því er þetta varðar. Á hinn bóginn liggur fyrir að sóknaraðili staðfesti fyrir dómi að hann hefði fengið kynningu á fjárfestingunni á fundi með starfsmönnum varnaraðila og að hann hefði fengið skriflegt afrit kynningarinnar afhent að loknum fundi. Kynningarefni þetta liggur fyrir í málinu og er ítarlegt. Þar er farið yfir umrætt verkefni og sérstakur kafli um áhættuþætti í því. Eftir að hafa fengið umrædda kynningu gékkst sóknaraðili fyrir því að Farma Ltd. greiddi umrædda fjárhæð til varnaraðila. Með vísan til þess sem að framan greinir er ekki unnt að telja að sóknaraðili hafi fært fyrir því haldbær rök að leggja beri til grundvallar í málinu að honum hafi ekki verið kynntir áhættuþættir umrædds verkefnis með fullnægjandi hætti.
Þá hefur sóknaraðili vísað til þess að um sé að ræða hagsmunatengingu sem honum hafi ekki verið kynnt, en það sé í andstöðu við 8. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Í aðilaskýrslu sinni kvað sóknaraðili að hann hafi fallist á að kaupa annan af tveimur hlutum sem varnaraðili hafi átt. Af gögnum málsins má sjá að varnaraðili átti áfram þann hlut sem sóknaraðili keypti ekki og var því einn af fjárfestum verkefnisins. Verður því að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi vitað hvernig aðkoma varnaraðila var að verkefninu. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að allir fjárfestar hafi lagt fé til verkefnisins í desember 2007 og er því ekkert sem bendir til að sala á hlut til sóknaraðila hafi verið tilraun varnaraðila og tengdra aðila til að blekkja sóknaraðila til þátttöku í verkefni sem þeir hafi vitað að væri á fallanda fæti. Verður fallist á það með varnaraðila að innbyrðis tengsl annarra fjárfesta en sóknaraðila sé eins og hér stendur á ekki til þess fallin að gera tortryggilegt hvernig sóknaraðila var boðin þátttaka í verkefninu. Verður þvert á móti að telja að ekki liggi annað fyrir en að meðfjárfestar sóknaraðila hafi haft samhliða hagsmuni með honum um að verkefnið gengi sem best. Verður því ekki talið að sóknaraðili hafi fært fram haldbær rök fyrir því að sjónarmið hans sem lúta að tengslum annarra fjárfesta í verkefninu geti eins og hér stendur á haft áhrif við mat á réttmæti kröfu hans.
Að því gættu sem að framan greinir er kjarni þess ágreinings sem hér er til úrlausnar hvort fjármunum þeim sem Farma Ltd. greiddi 17. desember 2007 hafi mátt ráðstafa áfram eins og varnaraðili heldur fram að gert hafi verið til dótturfélags varnaraðila í Rúmeníu. Umrætt félag hafi síðan lánað féð til Downtown International SRL. sem nýtt hafi það til að festa kaup á lóðinni. Að auki hafi umrætt félag tekið lán í sama skyni að fjárhæð 13.800.000 evrur hjá bankanum BCR með veði í lóðinni. Með þessum hætti hafi lóðarkaupin verið fjármögnuð en fyrir liggi að lóðin hafi kostað 24.200.000 evrur.
Í fyrsta lagi ber sóknaraðili brigður á að þetta hafi verið gert. Hefur hann skorað á varnaraðila að leggja fram gögn sem sýni millifærslu umræddra fjármuna og byggir á að það hafi varnaraðili ekki gert og það beri að túlka honum í óhag. Á þetta verður ekki fallist með sóknaraðila. Er það mat dómsins að með þeim skýrslum og gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, sem og með framburði þeirra tveggja starfsmanna varnaraðila sem skýrslu gáfu verði að telja nægilega í ljós leitt að umræddum fjármunum hafi verið ráðstafað til nefnds félags, sem síðan hafi keypt umrædda lóð. Benda öll gögn málsins í þá átt að þetta hafi verið gert og hefur sóknaraðili ekki lagt fram nein þau gögn eða gert tilraun til að benda á atriði í fyrirliggjandi gögnum sem gera þau ótrúverðug að því er þetta varðar. Verður þegar af nefndum ástæðum lagt til grundvallar í málinu að fjármunum Farma Ltd. hafi verið varið til kaupa á umræddri lóð með þeim hætti sem að ofan er lýst.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að ráðstöfun fjármunanna með þessum hætti hafi verið óheimil og ólögmæt. Verður þá fyrst fyrir sú röksemd sóknaraðila að líta verði svo á að af fyrirhuguðum viðskiptum hafi í raun ekki orðið og því beri að endurgreiða honum umrædda fjárhæð. Vísar sóknaraðili í fyrsta lagi til þess að á varnaraðila hafi hvílt skylda til að gera við hann skriflegan samning og ráðstöfun fjárframlags hans hafi verið óheimil þar til svo hefði verið gert. Það er mat dómsins að hvað sem líður skyldu varnaraðila til að gera skriflega samninga þá geti vanræksla í þeim efnum ekki haft þau réttaráhrif sem sóknaraðila byggir á. Er það mat dómsins að ekki sé unnt að fallast á með sóknaraðila að sú staðreynd að ekki hafði verið gengið frá afhendingu hlutaskírteina eða hlutabréfa í þeim félögum sem stofna hafi átt feli í sér að hann teljist ekki hafa fengið í hendur endurgjald fyrir hlutafjárframlag sitt. Er fallist á með varnaraðila að ráðstöfun umrædds fjár til Downtown International SRL. í Rúmeníu hafi verið í samræmi við það sem telja verður grundvallarþátt þeirrar fjárfestingar sem sóknaraðila var kynnt með fjárfestakynningunni og með því hafi honum verið tryggð þátttaka í verkefninu með þeirri áhættu sem því hafi fylgt, sem og þeirri hagnaðarvon sem lagt hafi verið upp með. Ekki verður talið að í þessari rástöfun geti talist brot á reglum um sérgreiningu fjármuna, sbr. 11. gr. laga nr. 108/2007. Hér verður og að hafa í huga að svo virðist sem sóknaraðili hafi fengið sendar reglulega kynningar á framvindu verkefnisins og hann hafi setið fjárfestafundi vegna þess á árinu 2009. Kemur ekki fram í fundargerðum að sóknaraðili hafi þar haldið uppi þeim röksemdum sem hann byggir nú á í máli þessu. Bendir þetta eindregið til þess að hann hafi talið sig bundinn af hlutafjárframlagi sínu óháð því hvort skriflegur samningur hefði verið gerður um verkefnið. Er því fallist á það með varnaraðila að líta verði svo á að komist hafi á munnlegur samningur milli aðila og grundvöllur hans verði að teljast sú fjárfestakynning sem hann fékk á sínum tíma hjá starfsmönnum varnaraðila.
Þá verður ekki framhjá því litið að gögn málsins styðja eindregið þær málsástæður varnaraðila að ástæða þess að hlutafjárframlag sóknaraðila og annarra fjárfesta í verkefninu tapaðist hafi verið verðfall á fasteignamarkaði og dvínandi eftirspurn eftir húsnæði sem á endanum hafi leitt til þess að hugmyndir um byggingaframkvæmdir hafi lagst af enda virði umræddrar lóðar orðið lægra en eftirstöðvar þess láns sem tekið hafi verið til kaupa á henni. Með því sem að framan er lýst um áfangaskýrslur um verkefnið sem ætla verður að sóknaraðili hafi fengið sendar, sem og fundaseta hans á fundum þar sem fjallað var um stöðu verkefnisins, verður að hafna röksemdum sóknaraðila sem lúta að því að engar haldbærar skýringar hafi fengist á ástæðum þess að umrætt verkefni lagðist af.
Fallist er á með sóknaraðila að sú staðreynd að varnaraðili er fjármálafyrirtæki leggur á varnaraðila ríkar skyldur samkvæmt annars vegar lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem og lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Á það skortir í málatilbúnaði sóknaraðila að gerð sé fullnægjandi grein fyrir í hverju ámælisverð háttsemi starfsmanna varnaraðila hafi falist og hvernig sú háttsemi feli í sér brot á þeim skyldum sem sannanlega hvíla á varnaraðila samkvæmt ákvæðum fyrrnefndra laga utan það sem sérstaklega er fjallað um í þessum úrskurði. Þá hefur sóknaraðili ekki rökstutt það með fullnægjandi hætti hvernig eignarhald og umsjón varnaraðila í tengslum við umrætt verkefni braut gegn starfsleyfi hans.
Á það er fallist með sóknaraðila að vanræksla varnaraðila á að gera skriflegan samning við sóknaraðila verði að teljast ámælisverð, sem og að ganga ekki frá því að stofna þau félög sem stofna átti í tengslum við verkefnið og sjá þannig til þess að eignatengsl væru skýr milli þeirra, sem og eignarhlutur hvers fjárfestis í verkefninu í þeim hverju fyrir sig. Á hinn bóginn verður að fallast á með varnaraðila að ekki verði séð að umræddir ágallar á þjónustu hans hafi leitt til þess tjóns sem varð á hagsmunum sóknaraðila. Þá verður ekki talið að sóknaraðili hafi rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig skráning Farma Ltd. fyrir hlut í einkahlutafélaginu Fundeni ehf. geti haft áhrif á niðurstöðu málsins, enda verður ekki betur séð en að þar sé um að ræða hálfkláraðan þátt í því verki sem til stóð að vinna í tengslum við eignarhald á verkefninu. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar eru hvorki efni til að fallast á með sóknaraðila að hann eigi kröfu til endurgreiðslu þeirra fjármuna sem Farma Ltd. lagði til umræddrar fjárfestingar né verður fallist á að sóknaraðili hafi sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann eigi skaðabótakröfu á hendur varnaraðila. Er kröfum sóknaraðila í málinu því hafnað.
Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði. Við þá ákvörðun hefur verið tekið tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, sem og þess að varnaraðili greiddi 250.000 krónur í þingfestingargjald vegna málsins.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Framangreindri kröfu sóknaraðila, Fjalars Kristjánssonar, sem lýst var við slitameðferð varnaraðila, Aska Capital hf., og hefur númerið 54 í kröfuskrá, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 752.000 krónur í málskostnað.