Hæstiréttur íslands
Mál nr. 9/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 23. janúar 2008. |
|
Nr. 9/2008. |
Eyjólfur Ævar Eyjólfsson(Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn Félagi slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
E starfaði um árabil sem slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli og var þá félagsmaður í F, en lét af störfum í júní 2005. Vinnuveitandi E, Varnarliðið, hafði um árabil greitt tiltekið hlutfall launa vegna hans og annarra slökkviliðsmanna í sjúkrasjóð F. Við brotthvarf Varnarliðsins af landinu réðu íslensk stjórnvöld þáverandi starfsmenn þess til vinnu og var í ráðningarsamningi þeirra gert ráð fyrir að þeir greiddu framvegis til styrktarsjóðs BSRB í stað fyrrnefnds sjúkrasjóðs F. Í kjölfar þessa ákvað stjórn F að ráðstafa fjármunum í nefndum sjúkrasjóði annars vegar til að kaupa full réttindi í styrktarsjóði BSRB fyrir þá félagsmenn sem verið hafi í starfi á tilteknum tíma og hins vegar að leysa sjóðinn upp og greiða félagsmönnum fjármuni sjóðsins út í hlutfalli við starfsaldur þeirra. E krafðist þess í málinu að viðurkenndur yrði réttur hans til greiðslu úr sjóðnum í hlutfalli við starfsaldur sinn. Þótti krafa þessi ekki tæk til efnismeðferðar vegna ákvæðis 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem krafa hans varðaði óhjákvæmilega hagsmuni þeirra manna sem þegar hefðu fengið greitt úr sjóðnum, en umræddum mönnum hafði ekki verið stefnt í málinu. E krafðist þess einnig að ákvörðun stjórnar F um að verja hluta sjúkrasjóðsins til kaupa á fullum réttindum í styrktarsjóði BSRB yrði ógilt. Þótti E ekki hafa sýnt fram á að hann hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn þessarar kröfu enda hafi hann ekki verið félagsmaður í sjúkrasjóði F þegar ákvörðun þessi var tekin og því ekki átt rétt til greiðslu úr honum. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Hann krefst og kærumálskostnaðar.
Kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti styður varnaraðili í fyrsta lagi þeim rökum að kæran hafi komið of seint. Lögmaður sóknaraðila hafi verið viðstaddur uppkvaðningu úrskurðarins 20. desember 2007 en kæra ekki verið móttekin í héraðsdómi fyrr en 3. janúar 2008, en þá hafi verið liðnar þær tvær vikur sem um geti í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp fimmtudaginn 20. desember. Fimmtudagurinn 3. janúar var því síðasti dagur þess frests sem greindur er í 144. gr. laganna. Kæran kom því tímanlega fram.
Þá styður varnaraðili frávísunarkröfuna með því að kröfur sóknaraðila séu viðurkenningarkröfur án fjárhæðar. Ekki liggi fyrir kæruleyfi og því beri að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti. Auk þessa heldur varnaraðili því fram að kröfur sóknaraðila í kæru séu um efnishlið málsins og því ekki í samræmi við lög nr. 91/1991. Það er ekki skilyrði fyrir kæru á frávísun máls frá héraðsdómi að krafa í máli nái áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991. Kröfur sóknaraðila í kærumáli þessu eru þær sem að framan greinir og snerta ekki efnishlið málsins. Hvorug þessara málsástæðna varnaraðila á við rök að styðjast og er því samkvæmt öllu framansögðu hafnað kröfu hans um frávísun málsins frá Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Eyjólfur Ævar Eyjólfsson, greiði varnaraðila, Félagi slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 29. f.m., er höfðað með stefnu birtri 31. maí 2007 af Eyjólfi Ævari Eyjólfssyni, Vatnsholti 16 í Reykjanesbæ, á hendur Félagi slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, Hátúni 34 í Reykjanesbæ.
Í stefnu er þess annars vegar krafist að viðurkennt verði að stefnandi, sem var félagsmaður í stefnda til 30. júní 2005, eigi rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði félagsins í hlutfalli við starfsaldur sinn í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar gerir stefnandi þá kröfu að ákvörðun stjórnar stefnda, um að „kaupa upp full réttindi í styrktarsjóði BSRB fyrir félagsmenn stefnda, sem réðu sig til íslenskra stjórnvalda þann 1. október 2006 eftir brotthvarf Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, verði dæmd ógild“. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi skilaði greinargerð 12. september 2007. Í henni er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er gerð krafa um sýknu. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefnandi gerir þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið. Verði ekki á það fallist er þess krafist að málskostnaður falli niður.
I.
Stefnandi er fyrrverandi slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli og fyrrverandi félagsmaður í stefnda, Félagi slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli. Hann hóf störf í slökkviliðinu 1980 og gerðist um leið félagsmaður í stefnda. Hann lét af störfum þar í júní 2005 í kjölfar þess að hópi slökkviliðsmanna hjá Varnarliðinu, um það bil 15-20 mönnum, var sagt upp. Voru þessar uppsagnir einn þáttur í samdráttarferli sem átti sér stað hjá Varnarliðinu sem síðar leiddi til brottflutnings þess frá Íslandi í september 2006. Allan þann tíma sem stefnandi vann hjá slökkviliðinu var hann félagsmaður í stefnda og greiddi þangað félagsgjöld. Þá hafði Varnarliðið, sem vinnuveitandi stefnanda, greitt vegna hans framlag til sjúkrasjóðs stefnda. Var sjúkrasjóðurinn stofnaður árið 1968 og greiddu starfsmenn ekki iðgjöld í hann. Samkvæmt reglugerð um sjóðinn, sem gilti til 1. október 2006, gátu einungis fullgildir félagsmenn orðið þar rétthafar. Um réttindi og skyldur sjóðfélaga skyldi fara eftir lögum stefnda nema annað væri sérstaklega tekið fram í reglugerðinni. Var tilgangur sjóðsins að styrkja félagsmenn stefnda í veikindatilfellum og eftir því sem nánar var kveðið á um í reglugerð. Þá var það skilyrði fyrir greiðslu til sjóðfélaga að hann væri við störf þegar hann veiktist. Í 9. gr. reglugerðarinnar var síðan tekið fram að ef til þess kæmi að slíta ætti sjóðnum skyldi þar um farið eftir 19. gr. félagslaga stefnda.
Þegar Varnarliðið fór af landi brott endurréðu íslensk stjórnvöld þá starfsmenn, sem eftir voru hjá varnarliðinu, til sín. Í ráðningarsamningi sem íslensk stjórnvöld gerðu var samið um að starfsmenn skyldu greiða í styrktarsjóð BSRB, sem myndi þá koma í stað sjúkrasjóðs stefnda, þar sem tilgangur sjóðanna væri sá sami. Þar með var engin þörf fyrir sjúkrasjóðinn lengur.
Í kjölfar þessa var samþykkt á aðalfundi stefnda 9. febrúar 2007 tillaga um að skipta sjúkrasjóðnum upp á milli þeirra slökkviliðsmanna sem voru í starfi þegar Varnarliðið fór af landi brott í september 2006. Var samþykkt að skipta sjóðnum upp í hlutfalli við starfsaldur félagsmanna og aðild að stefnda. Í tillögunni kom meðal annars fram:
Þeir sem fá greitt úr sjóðnum eru:
a. Allir sem voru í föstu starfi hjá FES og voru skráðir í FSKF þann 30. september 2006.
b. Þeir sem falla undir fundarsamþykkt (Bergur Vernharðsson og Sigurður G. Sigurðsson) þar sem greiðslum úr sjóðnum var heitið ef biðlaun fást ekki greidd.
Hámarks reiknaður árafjöldi verður 20 ár, þ.e. frá 30. sept. 1986 til 30. sept. 2006.
Inneign félagsmanna samkvæmt þessari samþykkt mun hafa verið greidd út 1. júní 2007.
Einnig ákvað stjórn sjóðsins að verja hluta af sjóðnum til að kaupa full réttindi fyrir félagsmenn, sem voru í föstu starfi þann 30. september 2006, í styrktarsjóði BSRB.
Stefnandi telur að með þessari ráðstöfun, sem sé sérstaklega til hagsbóta fyrir suma þeirra manna sem greitt hafa til félagsins undanfarna áratugi, sé gróflega gengið á rétt sinn og þess hóps slökkviliðsmanna sem störfuðu hjá Varnarliðinu um áratugaskeið og voru félagsmenn í stefnda, en var sagt upp á árunum 2004 og 2005. Þær uppsagnir hafi sannanlega verið aðdragandi þess að Varnarliðið hvarf af landi brott. Hann telur að taka verði tillit til sín sem eins þessara félagsmanna og þeir eigi rétt til hlutdeildar í sjúkrasjóðnum með sömu rökum og þeir sem ekki var sagt upp starfi fyrr en á árinu 2006. Miðar málsókn hans að því, svo sem áður er getið, að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu úr sjúkrasjóðnum og að framangreind ákvörðun stjórnar stefnda um kaup á réttindum í styrktarsjóði BSRB verði ógilt.
II.
Um málsástæður er í stefnu vísað til þess að stefnanda hafa verið sagt upp starfi hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og að hann hafi látið af störfum þar 30. júní 2005 ásamt nokkrum öðrum slökkviliðsmönnum. Hefðu uppsagnir þessar verið liður í að draga úr umsvifum Varnarliðsins hér á landi. Þeir slökkviliðsmenn sem áfram störfuðu fyrir Varnarliðið létu síðan af störfum þegar síðustu varnarliðsmennirnir hurfu af landi brott í september 2006.
Stefnandi telur það óheimila ráðstöfun að miða við það tímamark að aðeins síðustu starfsmenn sem sagt var upp eigi kröfu til greiðslu úr sjúkrasjóði stefnda við niðurlagningu hans. Byggir stefnandi kröfu sína um viðurkenningu á hlutdeild í sjúkrasjóði stefnda í hlutfalli við starfsaldur sinn hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli á því að sú ákvörðun að útiloka hann og þá aðra sem búið var að segja upp standist ekki jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, reglu sem stéttarfélögum sé skylt að hlíta gagnvart félagsmönnum sínum.
Bendir stefnandi í þessu sambandi á að þrátt fyrir að stjórnsýslulög taki einungis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga gildi í þessu samhengi að mestu leyti sömu sjónarmið um stéttarfélög. Ákvarðanir séu ógildanlegar ef þær eru ekki teknar á grundvelli þeirra markmiða sem byggt er á eða ef forsendur þeirra eru ekki í samræmi við markmiðin. Félagsmenn eiga sama rétt til alls þess sem félagið býður og þeir eigi allir að sitja við sama borð. Reglur sem mismuna félagsmönnum verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og gæta verði meðalhófs. Markmið þessara reglna sé meðal annars að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir innan félaganna. Með ákvörðun um að undanskilja þá félagsmenn stefnda sem hafði verið sagt upp starfi nokkru áður en síðustu starfsmönnunum var sagt upp hjá Varnarliðinu sé stuðst við ómálefnaleg sjónarmið þar sem hvorki hafi verið gætt meðalhófs né jafnræðis.
Stefnandi heldur því fram að í lögum stefnda séu ekki ákvæði sem heimili það að tæma sjóði félagsins með því að skipta þeim á milli félagsmanna. Við slíka ákvörðun verði að gæta hagsmuna þeirra sem stóðu að sjóðsmynduninni, en ekki aðeins hagsmuna síðustu félagsmanna í félaginu. Lög félagsins geri alls ekki ráð fyrir að sjóðir þess séu tæmdir. Einungis sé fjallað um það í lögunum hvernig með skuli fara verði félagið lagt niður. Félagið hafi ekki verið lagt niður og því engin lagaheimild til staðar til að tæma sjúkrasjóð þess. Því verði slík ákvörðun ekki tekin nema tekið verði fullt tillit til allra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta og greitt hafa iðgjöld til sjóðsins.
Í lögum félagsins sem tóku gildi 1. október 2006 komi fram eftirfarandi:
19. grein.
Heimilt er að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um stórmál ef félagsfundur samþykkir það, og skal þá láta félagsmenn hafa minnst 5 daga frest til að kynna sér málið, áður en þeir greiða atkvæði, sem skulu vera skrifleg og leynileg.
20. grein.
Félagið má því aðeins leysa upp, að ¾ hlutar fundarmanna samþykki það, og að þess hafi verið getið í fundarboði að tillaga um félagsslit yrði á dagskrá fundarins. Auk þess þarf 4/5 hluta félagsmanna til að samþykkja það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu.
Almenn lög hafi ekki verið sett um félög af því tagi sem hér um ræðir. Meginreglan sé sú að lög félagsins ráði því hvernig málum sé háttað innan þess. Athygli vaki að í lögum stefnda sé hvorki ákvæði sem mæli fyrir um að heimilt sé að greiða út sjóði félagsins né hve mikill hluti félagsmanna þurfi að samþykkja afgreiðslu vegna stórmála svo þær teljist samþykktar, aðrar en sem varðar það að leysa upp félagið. Hins vegar gildi mjög ítarlegar reglur um önnur félagaform og megi þar helst nefna lög um einkahlutafélög nr. 138/1994 og lög um hlutafélög nr. 2/1995. Tiltekur stefnandi að þegar félög eru lögð niður eða ákvörðun tekin um að greiða út að mestu það fé sem til er í félagi verði að gæta ákveðinna formreglna til að skerða ekki rétt þeirra sem eiga hlut í því. Þó að ekki séu til sérstakar reglur um þetta tiltekna félagaform verði að gera ráð fyrir því að ekki gildi vægari reglur varðandi ákvarðanir sem þessar innan þeirra.
Stefnandi telur að ákvörðunin um að tæma sjóði stefnda með því að úthluta þeim til þeirra félagsmanna sem var síðast sagt upp hjá Varnarliðinu sé bersýnilega til þess fallin að afla ákveðnum aðilum aukna hagsmuni á kostnað annarra aðila sem greitt hafa í félagið í áraraðir og því beri að beita ákvæði 95. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 70. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög um ákvörðunina.
Ennfremur telur stefnandi að stefnda hafi verið óheimilt að kaupa réttindi fyrir félagsmenn í öðrum sjúkrar- eða styrktarsjóðum. Engin ákvæði séu í lögum stefnda sem heimili það. Hafi félagsmenn áhuga á auknum rétti í styrktarsjóðum annarra félaga sé það ekki hlutverk stefnda að greiða fyrir þann rétt, heldur ættu þeir að geta keypt það sjálfir fyrir eigið fé eða með því að ávinna sér rétt eins og aðrir launþegar þurfa að gera. Stefnandi styður kröfu sína um að ógildingu ákvörðunar aðalfundar stefnda um að kaupa full réttindi fyrir síðustu félagsmenn stefnda í öðrum sjúkra- eða styrktarsjóðum þeim rökum að engin ákvæði séu í lögum félagsins sem heimili kaup þess konar réttindi fyrir félagsmenn. Stefnandi telur að þar sem engin skýr heimild sé fyrir útgjöldum sem þessum úr sjóðum félagsins séu ákvarðanir sem þessar óheimilar. Samkvæmt reglugerð fyrir sjúkrasjóð stefnda sé tilgangur sjóðsins að styrkja meðlimi félagsins í veikindatilfellum samkvæmt nánar tilgreindum reglum.
Varðandi kröfu um ógildingu ákvörðunar aðalfundar um kaup sjúkrasjóðsins á rétti í nýjum sjóði BSRB styðst stefnandi einnig við meginreglu félagaréttar um jafnræði félagsmanna, en hún taki til allra félagsforma. Sé reglan lögfest í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 2. málsl. 12. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í jafnræðisreglu félagaréttar felist meðal annars að ekki megi mismuna félagsmönnum nema sérstök heimild sé til annars og mismununin verði að eiga sér málefnalega stoð. Þessi regla er meðal annars til þess fallin að takmarka valdsvið félagsfundar.
III.
Kröfu sína um frávísun málsins byggir stefndi í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi látið af störfum hjá Varnarliðinu í júní 2005. Þannig hafi hann ekki verið við störf þar þegar sjúkrasjóður stefnda var lagður niður og því engin réttindi átt honum tengd samkvæmt reglugerð fyrir hann og félagslögum stefnda. Stefnandi eigi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að dómur gangi um kröfur hans. Hafi hann reyndar enga tilraun gert til að gera grein fyrir þeim lögvörðu hagsmunum sem hann kynni að hafa í málinu. Samkvæmt þessu og með gagnályktun frá 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála beri að vísa málinu frá dómi.
Í öðru lagi vísar stefndi um rök fyrir frávísunarkröfu sinni til þess að ekki sé af hálfu stefnanda krafist ógildingar á ákvörðun félagsfundar í stefnda, heldur felist í dómkröfu stefnanda beiðni til héraðsdóms um að mynda reglu um það hverjir eigi að fá greitt úr sjúkrasjóði stefnda. Þannig felist í kröfunni beiðni um að tekið sé fram fyrir hendur á löglega kosinni stjórn þess hagsmunafélags sem tekið hafi endanlega ákvörðun í málinu og hafði umsjón með sjúkrasjóðnum samkvæmt félagslögum stefnda. Sé slíkt í andstöðu við 1. og 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála og 1. mgr. 24. gr. sömu laga.
Í þriðja lagi telur stefndi að vísa beri málinu frá dómi á grundvelli 1. og 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála. Ákvörðun um að greiða félagsmönnum í stefnda hluta af sjúkrasjóði félagsins hafi verið tekin á löglegum félagsfundi 9. febrúar 2007. Með þeirri samþykkt hefðu þeir félagsmenn sem féllu undir hana öðlast tiltekin réttindi og greiðslur til þeirra á grundvelli hennar hafi þegar verið inntar af hendi. Þeim hafi því átt að stefna í málinu. Þar sem það hafi ekki verið gert verði með vísan til tilvitnaðs ákvæðis einkamálalaga að vísa málinu frá dómi.
Í fjórða lagi byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að fyrri dómkrafa stefnda sé ekki dómtæk. Vísar stefndi í þessu sambandi til þess að þessi krafa stefnanda lúti að viðurkenningu ákveðinna réttinda miðað við ákveðinn starfsaldur án þess að hans sé getið í kröfugerðinni. Þá sé krafan óskilgreind að því leyti að tölulega greinargerð fyrir henni skorti. Í kröfugerð sé ekki heldur tekið tillit til þess að af henni leiði að ráðast verði í ákveðinn útreikning sem grundvallist á ákveðnum forsendum. Þannig sé til dæmis engin afstaða tekin til þeirra sem látnir eru eða erfingja þeirra og ekki heldur þeirra sem voru í hlutastarfi. Þá sé ekki heldur tekin afstaða til þess hversu langt aftur eigi að reikna réttindi annarra.
Í greinargerð er tekið fram að þau sjónarmið fyrir frávísunarkröfu, sem að framan eru rakin, taki til beggja dómkrafna stefnanda. Þá er því einnig haldið fram að því er seinni kröfuna varðar að hún sé vanreifuð. Í stefnu sé einungis greint frá því að stjórn sjúkrasjóðs stefnda hafi ákveðið að verja hluta hans til að kaupa réttindi fyrir félagsmenn í styrktarsjóði BSRB. Engin gögn séu hins vegar lögð fram um þessi kaup og engin frekari umfjöllun sé í stefnu um þessa kröfu. Þannig uppfylli umfjöllun stefnanda um kröfuna ekki lágmarksákvæði d. og e. liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála. Loks vísar stefndi til þess að samkomulag hafi tekist um þessi kaup á milli stefnda og styrktarsjóðs BSRB 30. október 2006. Þessi seinni dómkrafa stefnanda feli í raun í sér kröfu um ógildingu á þeim samningi. Hún bindi hins vegar ekki styrktarsjóð BSRB og hafi sem slík því ekkert gildi. Styrktarsjóðnum sé að auki ekki stefnt í málinu og því beri með vísan til 1. og 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála að vísa þessari kröfu frá dómi.
IV.
Við málflutning um frávísunarkröfu var áréttaður sá skilningur stefnanda að hann eigi fullan rétt á að leggja málið fyrir dómstóla í þeim búningi sem í stefnu greinir og að þeir geti ekki vikið sér undan því að leysa efnislega úr kröfu hans. Stefnandi eigi tvímælalaust lögvarinna að gæta við þær aðstæður sem uppi eru í málinu, en um sé að ræða ákvörðun stéttarfélags um að skipta upp sjúkrasjóði þess á milli tilgreinds hóps félagsmanna án þess að til grundvallar henni liggi málefnaleg sjónarmið og án þess að jafnræðis sé gætt. Með ákvörðuninni hafi markvisst verið gengið gegn rétti þeirra sem fyrst var sagt upp störfum og gátu eftir það ekki átt aðild að ákvarðanatöku á vettvangi stefnda.
V.
Í málinu gerir stefnandi þá kröfu, svo sem fram er komið, að viðurkennt verði að hann eigi rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði stefnda í hlutfalli við starfsaldur sinn hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli, en þar hafði hann unnið í 25 ár þegar honum og um það bil 20 öðrum starfsmönnum þess var sagt upp störfum í júní 2005. Sjúkrasjóður stefnda var eftir þetta við lýði um eins árs skeið, en var þá lagður niður af ástæðum sem áður er getið og því fé sem í hann hafði safnast, aðallega með framlögum vinnuveitanda, að stærstum hluta og samkvæmt aðalfundarsamþykkt 9. febrúar 2007 skipt á milli þeirra sem enn voru í starfi hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli við brottför Varnarliðsins í september 2006. Á þessu eins árs tímabili átti stefnandi ekki aðild að sjúkrasjóði stefnda og hefði því ekki notið réttar til greiðslu úr honum í veikindaforföllum á þessum tíma. Er þannig álitamál hvort stefnandi hafi lögvarða hagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, af því að skorið verði úr um efni eða tilvist þeirra réttinda sem viðurkenningarkrafa hans tekur til. Hvað sem því annars líður er ljóst að í þessari kröfu stefnanda felst að hann lítur svo á að hann hafi ásamt fjölda annarra átt rétt til hlutdeildar í því fé sem var í sjúkrasjóði stefnda við niðurlagningu hans. Verður þannig ekki komist hjá því að líta svo á að með þessari kröfu sinni leiti stefnandi viðurkenningar á réttindum sér til handa sem hann eigi þá óskipt með fyrrum samstarfsmönnum sínum. Verði krafa stefnanda tekin til greina hefði sú niðurstaða óhjákvæmilega í för með sér skerðingu á hlut þeirra starfsmanna slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli sem þegar hafa móttekið greiðslu frá stefnda á grundvelli framangreindrar aðalfundarsamþykktar, en ekkert liggur fyrir um það í málinu hvort þeir séu nú allir félagsmenn í stefnda. Vegna ákvæðis 18. gr. laga um meðferð einkamála er óhjákvæmilegt að hann beini þessari kröfu sinni jafnframt að þeim. Þar sem það hefur ekki verið gert verður þegar af þessari ástæðu að vísa viðurkenningarkröfu stefnanda frá dómi.
Hluta þess fjár sem var í sjúkrasjóð stefnda við niðurlagningu hans var varið til kaupa á réttindum í styrktarsjóði BSRB til handa þeim félagsmönnum stefnda sem verið höfðu í starfi hjá Varnarliðinu allt þar til veru þess hér á landi lauk og réðu sig í beinu framhaldi til áframhaldandi starfa hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli, en það hefur frá 1. október 2006 verið rekið af íslenskum stjórnvöldum. Krefst stefnandi svo sem fram er komið ógildingar á ákvörðun stjórnar stefnda sem að þessu laut. Með henni var eftir því sem best verður séð leitast við að tryggja að félagsmenn í stefnda, sem störfuðu áfram í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli en hjá nýjum vinnuveitanda, héldu þeim réttindum í veikindaforföllum sem þeir höfðu þá áunnið sér hjá fyrri vinnuveitanda. Ekkert stóð því í vegi að stefndi tæki um það ákvörðun að sjúkrasjóður félagsins yrði starfræktur áfram í óbreyttri mynd. Stefnandi átti svo sem fram er komið ekki aðild að sjóðnum þegar hér var komið sögu og naut því ekki réttar til greiðslu úr honum. Að þessu virtu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að leyst verði úr þessari ógildingarkröfu hans. Er henni því vísað frá dómi.
Samkvæmt framansögðu er fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins. Eftir þeim málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Eyjólfur Ævar Eyjólfsson, greiði stefnda, Félagi slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, 150.000 krónur í málskostnað.